Ármann Jakobsson: Vonarstræti

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

Íslensk stjórnmálasaga er sambærileg við fótbolta að því leyti að hún verður áhugaverðari ef maður á sér uppáhaldslið. Ef samúð okkar og væntingar eiga sér fulltrúa á átakavelli sögunnar verðum við næmari fyrir samhengi og átakalínum, og við munum hlutina betur. Í þessu felst oft styrkleiki sögulegra skáldsagna: Þær eru gjarnan skrifaðar út frá sjónarhóli einhvers þáttakanda í atburðarásinni í stað þess að reyna að lýsa málunum hlutlaust og að ofan. Aðalpersónurnar fá þá það rými sem þær þurfa til að standa skil á sinni afstöðu og andstæðingar þeirra eru gagnrýndir, hafi þeir til þess unnið.

Vonarstræti Ármanns Jakobssonar er glimrandi dæmi um svona sögu. Þetta er heimildaskáldsaga, og hún er ekki síst áhugaverð vegna þess að höfundurinn leyfir sér að hafa skoðanir á þeim atburðum sem hann lýsir. Fyrir vikið færist meira líf í textann og við fáum á tilfinninguna að hér tali höfundur sem láti söguna skipta sig einhverju máli. Hjónin Skúli og Theódóra Thoroddsen eru hér í forgrunni, og aðdáun Ármanns á framgöngu þeirra leynir sér ekki. Þetta ber þó ekki að skilja svo að verkið sé ein samfelld lofrulla um Skúla og Theódóru, því veikleikar þeirra og sérviska eru líka dregin fram. Það er t.a.m. fullyrt að Skúli hafi oft sett þjóðmálin ofar fjölskyldunni. Síðustu æviárin einangrast Skúli frá konu sinni og börnum; hann borðar einn inni á vinnustofu sinni en ekki inni í eldhúsi með hinu fólkinu. Og þótt mótstöðumenn Skúla séu sýndir í gagnrýnu ljósi eiga þeir líka sín fallegu augnablik. Ein áhrifaríkasta mynd sögunnar er myndin af Hannesi Hafstein þar sem hann situr hnipinn á kirkjubekk í jarðarför Skúla vorið 1916.

Skúli og Theódóra Thoroddsen voru gáfað og hugmyndaríkt fólk, og fyrir vikið er með góðu móti hægt að gera tal þeirra og hugsanir að farvegi fyrir alls kyns frjóar vangaveltur. Það er líka forvitnilegt hvernig skyggnst er á bak við tjöld sögunnar í þessu verki: Þegar millilandanefndin fer heim til Íslands verða Skúli og Theódóra ein eftir í Kaupmannahöfn því Skúli liggur veikur á sjúkrahúsi. Stuðningsmenn Skúla reyna hvað þeir geta að gera lítið úr sjúkrahúslegunni, því það gæti orðið málstaðnum til trafala ef helsti málsvari hans sýnir veikleikamerki. Þannig er sýnt fram á bilið á milli hinnar opinberu ímyndar og þess sem raunverulega gerist. En hér er þó fjöldi annarra persóna en bara Skúli og Theódóra, og flestar eru þær byggðar á raunverulegu fólki. Kennarinn Ármann Jakobsson hefur kosið að birta nafnalista aftast í bókinni þar sem sögð eru deili á flestum persónunum.

Vonarstræti er vel afmörkuð skáldsaga, stutt og snörp. Hún gerist að stærstum hluta árið 1908, frá því að millilandanefndin kemur til Kaupmannahafnar í febrúar og þar til Uppkastið er fellt í kosningum í september. Þessi tiltölulega stutti sögutími er þó aðeins skurðpunktur annarra og viðameiri þráða sem ná yfir mun lengri tímabil, bæði til fortíðar og framtíðar. Sögupersónur eru hér skoðaðar bæði í ljósi þess sem þær hafa áður gert og þess sem þær eiga eftir að gera mörgum árum seinna. Theódóra Thoroddsen stendur hér mitt á milli þess að vera unga sýslumannsfrúin sem stendur við hlið bónda síns í Skúlamálum, og þess að vera þuluskáldið Theódóra, kommúnistinn Theódóra og einn af brautryðjendum módernískrar ljóðagerðar á Íslandi. Þannig er mannskilningur þessarar skáldsögu: Sérhver manneskja er summa af reynslu og möguleikum. Einhver kynni að segja að hér sé skáldskapurinn farinn að þoka fyrir sagnfræðinni, rithöfundurinn Ármann Jakobsson fyrir fræðimanninum. En að mínu mati er þetta einmitt áhugaverðasta hlið verksins. Vonarstræti spannar ekki langan tíma, en sögumaðurinn smíðar ótalmargar brýr yfir í önnur tímabil; söguleg yfirsýn er hér m.ö.o. afar mikil. Sagan er sögð frá sjónarhóli þess sem þekkir afdrif og arfleifð sögupersónanna og framtíðin er notuð sem mælikvarði á atburði í fortíðinni, ekki ósvipað og í sagnaflokki Péturs Gunnarssonar, Skáldsögu Íslands, svo hliðstætt dæmi sé tekið.

Í Vonarstræti er líka brugðið á leik með hefðbundnar söguskýringar og túlkanir. Þannig er t.d. vakin athygli á þeirri lítt kunnu en augljósu staðreynd að róttæklingurinn Skúli Thoroddsen var líka mikilvirkur kapítalisti; hann stundaði verslunarrekstur og var leikinn að græða peninga; miklu meiri bissnessmaður en t.d. Hannes Hafstein, sem þó hefur lengi verið átrúnaðargoð íslenskra viðskiptajöfra.

Vonarstræti er skrifuð af innlifun – ég segi ekki af sama hamslausa ákafanum og Ofviti Þórbergs, þar sem lýst er stjórnmálabaráttu sama tímabils – en áhrifin af lestrinum eru allténd þau að þessi lokasprettur sjálfstæðisbaráttunnar verður giska áþreifanlegur: Uppkastið, blaðamannafrumvarpið, útisamkoman í barnaskólaportinu – allt verður þetta jafn ljóslifandi og bankakreppa, skortsala, stýrivextir. Því þetta er þjóðfélagsleg saga, og víst er að hér er nægur efniviður til að koma á tengslum milli sögutímans og okkar samtíma, láta 1908 kallast á við 2008. Nú þegar hæst er hrópað um að allir Íslendingar þurfi að snúa bökum saman, við séum öll á sama bátnum í sama brimrótinu og þar fram eftir götunum, þá er sannarlega tilefni til þess að rifja upp söguna af Skúla og Theódóru – og draga af henni þá lærdóma sem okkur þykja viðeigandi.

(Víðsjá, 21. október 2008)