Eiríkur Örn Norðdahl: Ú á fasismann

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

Ein áþreifanlegasta þversögnin við íslenskt málsamfélag er sú staðreynd að þótt aldrei hafi jafnmargir tjáð sig á ritaðri íslensku eins og nú hefur einsleitnin aldrei verið meiri. Við lifum í heimi skilaboða, og dagurinn er ein samfelld textarannsókn; frá dagblöðum á morgnana, um bloggsíður á daginn, til spjallþátta á kvöldin. Við aðstæður sem þessar er hætt við því að hugurinn sljóvgist og við verðum ónæmari fyrir klisjunum. Ekkert skal hér fullyrt um hvort bókmenntirnar græði á svona ástandi eða ekki, en þó má segja með nokkurri vissu að hingað til hafi þær ekki brugðist við því nógu oft, alla vega ekki á sérlega frumlegan eða áhrifaríkan hátt. Þess vegna var það bara tímaspursmál hvenær skáld eins og Eiríkur Örn Norðdahl kæmi fram; þegar maður les ljóðin hans spyr maður sig hvers vegna einhver annar skuli ekki vera löngu búinn að vinna verkið.

Nýjasta ljóðabók Eiríks Arnar, Ú á fasismann, er að sínu leyti framhald af ýmsu því sem sést hefur í fyrri bókum höfundar, en hér má segja að dirfskan sé færð upp um fjóra táknfræðilega gíra. Eiríkur Örn sækir í vopnabúr skálda sem komu fram erlendis á 6. áratugnum og brugðust við hugmyndum um kreppu í tengslunum milli orðanna og veruleikans. Menn vildu ólmir útiloka alla hefðbundna ljóðrænu og stefna að skilyrðislausum tærleika. „Við viljum ekki afmynda, við viljum mynda,“ var slagorð þessar skálda. Framlag þeirra var viðleitni til að frelsa orðin úr fjötrum viðtekinnar merkingar, en afraksturinn er kallaður einu orði konkretlist. Í konkretljóðum eru tvö svið sameinuð: Orðið og myndin. Orð eru nefnilega ekki bara tákn sem vísa á hugmyndir og raunveruleika, heldur eru þau líka gagnleg sem byggingareiningar í myndrænu sköpunarstarfi. Eiríkur Örn er vitanlega ekki fyrsta íslenska ljóðskáldið sem gerir sér mat úr þessu efni; hægt er að nefna sem dæmi tvær eldri ljóðabækur sem snúast um þetta að meira eða minna leyti: Tvíbreitt (svig)rúm eftir Gyrði Elíasson og Veggfóðraður óendanleiki eftir Ísak Harðarson. Báðar eru þær frá miðjum níunda áratugnum, þegar tölvueign var að verða almenn og hvers konar föndur með texta varð auðveldara viðureignar en á gömlu ritvélunum. Á sama hátt er Ú á fasismann afrakstur nýrra miðla, netsíðna, tölvupósts og fullkominna myndvinnsluforrita, og í verkinu er jafnvel vísað til sumra miðla beint á stöku stað. En hér er engin sjálfstýring í gangi; Eiríki Erni tekst að sökkva sér ofan í klisjurnar og spinna úr þeim vafninga sem eru í senn nýstárlegir og ágengir. Upp í hugann koma línur úr ljóði eftir Kristján Karlsson:

Úr rústum og rusli tímans

reisum vér kvæði vor undir dögun

Eiríkur Örn Norðdahl er flinkasti fúskarinn í hópi íslenskra samtímaskálda. Ljóðin hans eru smíðisgripir úr byggingarefni sem er ætlað til einhverra allt annarra nota, svona eins og fleki úr plastbrúsum, fataleppar úr skinnhandritum eða Macintosh-dolla sem er notuð sem tromma. Og þótt Ú á fasismann sé bullandi tilraunastarfsemi, a.m.k. í íslensku samhengi, þá má samt finna í henni tengsl við ljóðahefðina. Þau tengsl eru vitaskuld óhefðbundin; hér er t.d. samsuða úr öllum skrýtnustu hendingunum sem fyrirfinnast í kveðskap Æra-Tobba. Þjóðskáldin fá líka sinn skerf, t.d. listaskáldið góða í ljóðinu „Perlur úr ljóðaperlum Jónasar Hallgrímssonar“. Þar eru nokkrar handahófskenndar línur fengnar að láni úr kvæðum Jónasar og þær látnar mynda hringi; semsagt „ljóðaperlur“ í nýrri merkingu þess orðs.

En líkt og önnur framúrstefnuskáld hlýtur Eiríkur Örn Norðdahl fyrr eða síðar að þurfa að svara spurningunni um þýðingu ljóða sinna, ef hún hefur þá ekki þegar verið borin upp. Hvað ertu að reyna að segja okkur, Eiríkur Örn Norðdahl? heyri ég spurt. Hvað hefur þetta nokkuð með raunverulegt líf okkar að gera? Titill bókarinnar gefur fyrirheit um pólitískar skírskotanir, og á einni opnunni hittum við fyrir tvo stafakarla sem ræðast við um öfgasinnaðar skoðanir. „Ú á fasismann. Já, barasta ú á hann.“ segir annar stafakarlinn. Hinn stafakarlinn (sem líklega er kona) svarar: „Já, hann er geðveikt glataður.“ Allt er þetta undir írónískum formerkjum, og í samhljómi við þær félagslegu vangaveltur sem víða skjóta upp kollinum í bókinni. Hér birtast frasar og hugmyndir úr samfélagsumræðu síðustu mánaða, og því má segja að konkretljóð Eiríks Arnar Norðdahl feli líka í sér hefðbundnari róttækni en þá mállegu; hér er m.a.s. að finna gagnrýni á raunverulega, nafngreinda einstaklinga að hætti satýruskálda.

Að lokum má nefna að bókinni fylgir hljómdiskur með hljóðaljóðum, og með honum bætist enn eitt lagið ofan á merkingarheim verksins. Á þessum diski er fátt annað en rödd skáldsins sjálfs, eins og til áminningar um að merking orða er líka háð hljóðrænni tjáningu. Flest höfum við upplifað að upplifa þá tilfinningu að finnast eitthvert orð hljóma framandi, alveg fyrirvaralaust, orð sem við höfum þó notað margoft áður. Áhrifin af því að hlusta á hljóðaljóð Eiríks Arnar Norðdahl eru svipuð – við getum fundið fyrir framandleikanum í því kunnuglega ef við hlustum nógu lengi. Að öllu samanlögðu er bókin Ú á fasismann því fjölþætt upplifun og órækur vitnisburður um að Eiríkur Örn Norðdahl er fullfær um að reisa kvæði úr rústum og rusli tímans.

(Víðsjá, 27. nóvember 2008)