Guðmundur Andri Thorsson: Segðu mömmu að mér líði vel

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

„Saga um ástir“ er undirtitill þessarar fimmtu skáldsögu Guðmundar Andra Thorssonar, og er það síst rangnefni, enda vel hægt að fullyrða að ástin sé bindiefni sögunnar. Sögumaðurinn Einar er arkitekt á fimmtugsaldri og býr með öldruðum föður sínum. Hann á einn son úr fyrra sambandi, sambandi sem í raun varð aldrei meira en nokkurra mánaða reytaruglingur. Hann er nú í sambandi með Kötu, konu á svipuðum aldri og hann, þótt þau búi ekki saman. Einar og Kata verða kærustupar á fimmtugsaldri, og hún á líka son úr fyrra sambandi. Dag einn fer Kata norður á Akureyri að heimsækja son sinn, og á meðan lætur Einar hugann reika til liðinna atburða, fólks sem hann hefur kynnst um ævina, gamalla sendibréfa og umliðinna ásta.

Svona er þetta nokkurn veginn, en líkt og með flestar aðrar bækur Guðmundar Andra er þó vart nema hálf sagan sögð þótt reynt sé að endursegja hana. Það er svo margt sem tapast í endursögninni, enda gerist sagan að miklu leyti á öðrum plönum en í söguflækjunni. Hér gerist vissulega eitt og annað, það er greint frá ýmsum frásagnarverðum atburðum, en það er ekki endilega þannig að á milli þeirra sé röklegt samhengi, eða einn atburður leiði af þeim næsta á undan. Frásagnaraðferðin byggist fyrst og fremst á hugleiðingu – sögumaðurinn rifjar upp liðna tíma og veltir vöngum um stöðu sína í heiminum. Þetta má með réttu kallast raunsæisleg aðferð, enda skynjum við veruleikann að miklu leyti sem blöndu minninga og raunverulegra upplifana. Og við vissar kringumstæður er ekkert raunverulegra en einmitt minningarnar.

Tengsl mannsins við umhverfi sitt er eitt af meginstefjum þessarar bókar. Sögumaðurinn Einar er arkitekt og fæst við að hanna rými og búa til íverustaði handa öðru fólki. En hann veit þó að lífið er flóknara en svo að það megi temja með hornréttum veggjum, og veggirnir eru líka lítils virði án fólksins. „Því að hús er ekki bara hús,“ segir hann. „Hús er ekki bara form og litur, ekki bara veggir og gluggar, ekki einu sinni þótt innréttingar bætist við – og ekki einu sinni þó að sushi-réttirnir séu í sétteringum við sólbekkina. Hús er miklu fremur vettvangur. Hús er dagarnir sem liðu, allar næturnar, jólin og fermingarveislurnar, allir búkarnir sem þar hafa búið, allt fótatakið.“  Þetta er hin kunna „in-der-Welt-sein“-formúla Heideggers: Maður og heimur eru ekki tvö sundurgreinanleg fyrirbæri. Heimurinn er ekki aðskilið viðfang frá manninum, maðurinn stendur ekki andspænis heiminum eins og viðskiptavinur andspænis gjaldkera, heldur er heimurinn hluti af manninum. Tilvera mannsins breytist eftir því sem heimurinn breytist.

En Segðu mömmu að mér líði vel er umfram allt bók um samskipti fólks, sambönd og sambandsleysi. Öll sagan er bið eftir símtali. Einar nær ekki í Kötu, hún er með slökkt á símanum, og í biðinni eftir að síminn hringi kvikna minningar um liðna tíma. Þessi bið endurspeglar einhverja stærri bið í lífi Einars og Kötu. „Við vorum að bíða eftir einhverju,“ segir hann. „Við vorum að bíða eftir því að við yrðum ein. Samt vorum við alltaf ein.“ Og Guðmundur Andri Thorsson bregður upp myndum af fleiri samböndum sem kvikna og þróast. Sögunni er vikið aftur á 6. áratuginn þegar foreldrar Einars kynnast, en sú ástarsaga er um leið óður Andra til íslenskrar dægurtónlistar. Ragnar, faðir Einars, er á yngri árum saxófónleikari í Danshljómsveit Binna Frank, og móðir hans gerist söngkona í sömu hljómsveit. Samband Einars við föður sinn er allrar athygli vert, ekki síst fyrir þá þversögn að þeir þurfa fjarlægð hvor frá öðrum til að geta verið nánir. Á námsárum Einars í Danmörku skrifar faðir hans honum fjölda bréfa þar sem hann gerir upp fortíðina og framkomu sína gagnvart eiginkonu sinni. Þær minningar eru langt í frá sársaukalausar. Hinn opni endir sögunnar er líka tengdur föðurnum, það er komið að kaflaskiptum í lífi Einars og hinn mildi húmaníski tónn frásagnarinnar hæfir vel til að búa í haginn fyrir hið kyrrláta og ljóðræna lokaaugnablik; bát á lygnum sjó og ófullgerðan himin.

Segðu mömmu að mér líði vel er hagleikssmíði, og þótt það sé skoðun sögumannsins að maður skynji aldrei hina afmörkuðu stund, virðist mér það einmitt vera hún sem Guðmundur Andri Thorsson geri atlögu að í þessari bók. Yfirborð sögunnar er nefnilega rammbundið samtímanum, þótt kjarninn sé tímalaus. Hér er ýmsum einkennum nútíma og neysluþjóðfélags lýst í góðlátlegum hæðnistón, þótt ekki sé háðið í forgrunni verksins. Atferli og hugðarefni persóna eru líka ákaflega samtímaleg; þetta er ekki fólk sem setur á langar ræður um réttlæti og ranglæti, syndina eða lífsgæðakapphlaupið, heldur venjulegar manneskjur sem fara út að ganga með hundinn, segja börnunum sínum bullsögur, raula lagið úr Rúmfatalagersauglýsingunni og spila badminton. Þjóðfélagslega víddin sem einkennir Íslenska drauminn, skáldsögu Andra frá árinu 1991, er ekki til staðar hér, a.m.k. ekki í sama mæli. En það er óneitanlega upplífgandi tilhugsun að nú, þegar íslenskar sagnabókmenntir snúast að mestu leyti um stóru línurnar, hvort sem það er Íslandssagan eða valdajafnvægið í þjóðfélagi samtímans, skuli finnast höfundar sem leitast við að skoða hversdagslífið á skáldlegan hátt. Guðmundur Andri Thorsson er dæmi um slíkan höfund, og fyrir vikið hlýtur sérstaða hans að vera hafin yfir vafa.

(Víðsjá, 28. október 2008)