Hermann Stefánsson: Algleymi

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

Sagan segir að á meðan Bítlarnir voru enn starfandi hafi John Lennon borist til eyrna að í einhverjum breskum skólum væri þegar byrjað að láta nemendur túlka texta Bítlalaga í ljóðgreiningartímum. John brást við þessum fréttum með því að semja lagið „I am the Walrus“, en texti þess lags er ein samfelld og óskiljanleg þvæla. „Látið þið nemendurna túlka þetta,“ sagði John Lennon. Þegar nýjasta skáldsaga Hermanns Stefánssonar, Algleymi, er lesin, er ekki laust við að mann gruni að þar sé eitthvað svipað á ferðinni; rithöfundurinn sitji heima og flissi yfir öllum bókmenntafræðingunum sem séu að reyna að túlka textann. Þetta er með öðrum orðum ögrandi skáldsaga, því hún ögrar viðteknum hugmyndum okkar um sköpun merkingar. Á einum stað í verkinu er að finna hugleiðingu um orðið „borðstofuborð“, og má segja að þar sé komin hliðstæða við merkingarheim sögunnar. Orðið „borðstofuborð“ er furðulegt orð; þetta er borð – af því þiggur stofan merkingu sína (borðstofa) – og svo er borðið skilgreint aftur með vísun í stofuna = borðstofuborð. Þar með er merkingarsköpunin komin í hring. Svoleiðis er þetta líka í Algleymi Hermanns Stefánssonar: Textinn vísar í raunveruleikann sem aftur vísar í textann, og útkoman er sífelld speglun.

En þótt þetta hljómi nýstárlega er hér vitanlega eldgamalt fyrirbæri á ferðinni. Svona skáldskapur varð til í alvöru á sjöunda áratugnum með verkum höfunda eins og John Fowles og Kurt Vonnegut. Þetta er á erlendum málum kallað metafiksjón, eða sjálfsögur; sjálfsmeðvitaðar sögur þar sem fengist er við hlutverk skáldskaparins sjálfs og tengsl hans við veruleikann. En bókmenntalegur tími er auðvitað afstæður og mismunandi eftir bókmenntakerfum. Íslenska metafiksjónið er þannig enn óskrifað blað að mestu. Fræðimenn hafa að vísu þóst sjá einkenni þess í verkum eldri höfunda, nú síðast Jón Karl Helgason í sannfærandi Skírnisgrein um Vikivaka Gunnars Gunnarssonar. Hallgrímur Helgason var sömuleiðis kominn á sporið í Höfundi Íslands, en hreinræktaða metafiksjón-sagnahöfunda höfum við Íslendingar enga átt fyrr en Hermann Stefánsson mætti á svæðið.

Algleymi hefst á því að aðalpersónan, Guðjón Ólafsson, vaknar á sjúkrahúsi og er búinn að missa minnið. Í hönd fer endurhæfingarferli þar sem hann þarf að læra líf sitt upp á nýtt. Minnisleysi er þekkt frásagnarbragð í skáldverkum, enda kjörin leið til að fást við stórar spurningar; minnið er jú ein helsta undirstaðan undir persónuleika mannsins. Og þjóðfélagsþróun er tilvalið að skoða með augum hins minnislausa. Það gerði Washington Irving í smásögunni Rip van Winkle, sögu um mann sem missir tuttugu ár úr lífi sínu og sefur af sér bandaríska frelsisstríðið. En minnisleysi Guðjóns Ólafssonar hefur lítinn sem engan þjóðfélagslegan snertiflöt; Hermann Stefánsson notar það fyrst og fremst sem tilefni til að fabúlera um málspekileg álitaefni, þanþol merkingarsköpunar og mannleg samskipti. Allt er þetta gert með miklum sóma, það er flogið upp í hæstu hæðir fáránleikans og vangaveltunum hrært saman við pælingar um eðlisfræði, sem eru alls ekki fyrir byrjendur, en eru þó gerðar læsilegar hér.

Algleymi líður þó dálítið fyrir óljósar sögureglur, því auðvitað er þetta fantasía, og þótt við gerum ekki þá kröfu að fantasíur séu í samræmi við raunveruleikann viljum við þó helst að þær séu samkvæmar sjálfum sér. Þannig getum við gengið út frá því að Fróði í Hringadróttinssögu verði alltaf ósýnilegur þegar hann setur upp hringinn, Billy Pilgrim í Sláturhúsi 5 flakki úr einu atviki ævi sinnar yfir í annað algjörlega fyrirvaralaust og að Gremlinsarnir breytist í skrýmsli ef þeir borða eftir miðnætti. En í Algleymi er erfitt að greina nokkrar svona reglur, hér er öllu blandað saman; tímaflakki, minnisleysi, vitfirringu. Þessi skáldsaga er sannkölluð ótemja sem tryllist þegar minnst varir og engin leið er að segja hvert hún snýr sér næst. Og kannski er það ekki ókostur heldur kostur; um það er ekki gott að dæma, þegar upplausnin er á annað borð komin á dagskrá er kannski eins gott að leyfa henni að taka öll völd. Svo er þetta auðvitað tengt hinni eilífu spurningu um hlutverk rithöfunda. Ef hlutverk rithöfundarins er að skapa merkingaþrungna heild handa lesandanum er ljóst að Hermann Stefánsson er að vanrækja hlutverk sitt gróflega, því Algleymi býr hvorki yfir ótvíræðri merkingu né heild af nokkru tagi.

En svo snaggaraleg afgreiðsla er að sjálfsögðu ekki til sóma, því við nánari athugun er Algleymi, ásamt tveimur fyrri sögum höfundarins, sannkallað brautryðjendastarf. Hermann Stefánsson er í óðaönn við að innleiða bókmenntagrein sem er áður óþekkt í íslenska bókmenntakerfinu þó hún þekkist annars staðar, og með því kviknar von um að okkar bókmenntalegi tími fari nú að þokast áfram; við þurfum bara handfylli af forpokuðum gagnrýnendum sem úthrópa Hermann og hugsanlega sporgöngumenn hans fyrir tilgangslausan heilaspuna sem á ekkert erindi við lesendur og segir þeim ekki neitt um neitt. Við þurfum alltaf viðspyrnu við formgerðinni til að geta skilgreint betur í hverju formgerðin felst; og þetta á jafnt við í bókmenntum sem öðru. Algleymi er því kærkomið innlegg í umræðuna, og fyrir hana ber að þakka þótt ég hafi geispað yfir sumum köflunum.

(Víðsjá, 19. nóvember 2008)