Kristín Eiríksdóttir: Annarskonar sæla

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

Þegar litið er yfir íslenska ljóðskáldahópinn í heild sinni lendir Kristín Eiríksdóttir óhjákvæmilega í hópi byrjenda, en þó er tvennt sem þarf að hafa á hreinu strax í upphafi. Annars vegar það, að það er enginn byrjendabragur á ljóðum Kristínar. Hins vegar það, að ljóðabækur Kristínar eru ekki fyrir byrjendur, svo torskildar sem þær eru. Og þó kann að vera að þær séu hentugur byrjunarreitur fyrir lítt vana ljóðalesendur einmitt vegna þess að þær eru hluti af því nýja upphafi, þeirri uppstokkun, sem hermt er að hafi átt sér stað á allra síðustu árum, og er gjarnan kennd við ljóðlistarhópinn Nýhil.

En það er snúið að negla ljóðin hennar Kristínar Eiríksdóttur niður, fullyrða nokkuð um það með vissu hvernig þau eru, hvað þau eru. Það er miklu auðveldara að átta sig á því hvað þau eru ekki. Í ljóðum Kristínar er ekki að finna sömu mannúðlegu hnyttnina og ljóð Ingunnar Snædal, þau einkennast ekki af sömu vitstola firringunni og ljóð Gísla Þórs Ólafssonar, og ekki af eitraðri kaldhæðni eins og ljóðaverk Eiríks Arnar Norðdahl. Og þó kann að vera að ljóð Kristínar innihaldi þetta allt saman: Hnyttni, firringu og kaldhæðni. Sannleikurinn er sá að ljóð Kristínar eru galopinn texti, þau krefjast mjög virkrar þátttöku lesandans og minna að sumu leyti á myndaþrautirnar sem stundum birtast í barnablöðum – þrautirnar þar sem maður á að teikna strik á milli númera svo að út kemur mynd. En ekki einu sinni sú samlíking veitir endanlegt svar, því númerin hjá Kristínu Eiríksdóttur eru á sífelldu iði, og telji maður sig eina stundina geta teiknað rökrétta mynd út úr þeim er ekki víst að sú sannfæring endist lengi.

Annarskonar sæla er að ýmsu leyti lík fyrri bókum Kristínar. Form ljóðanna er þó breytt að því leyti að upplausnin er meiri en áður, þetta eru ekki smáprósar heldur stutt fríljóð með endurteknum stefjum á köflum. Bókin skiptist í fjóra hluta. Fyrsti hlutinn er lýsing á ferðalagi: Ljóðmælandinn ferðast með sporvagni, gengur yfir brú, inn um dyr og upp stiga til fundar við mótleikara. Síðan er farið til baka sömu leið með sporvagninum. Það liggur ekki ljóst fyrir hvort ljóðmælandinn er karl eða kona, en viðtökusaga ljóða Kristínar Eiríksdóttur samanstendur í meginatriðum af tilraunum til að lesa kynhlutverk inn í textann. Kjötbærinn og Húðlit auðnin, fyrri bækur Kristínar, fjalla báðar um konu eða stúlku sem býr með karlmanni, og ýmislegt bendir til þess að þar sé fjallað um kúgun, heimilisböl og óhamingju. Það er forvitnilegt hvernig karlmönnunum er lýst; þetta eru augljóslega hrottar og illmenni, en þó eru lýsingarnar á þeim blandnar aðdáun og væntumþykju.

Í öðrum hluta Annarskonar sælu er brugðið upp myndum af daglegu lífi; þarna er íbúð, hjónarúm, þvottapoki, pantaður grillkjúklingur og fólk sem leiðist og borðar ís. En líkt og í fyrsta hlutanum hefur innri einræðan meira vægi en þær ytri aðstæður sem lýst er. Sá túlkunarmöguleiki skýtur upp kollinum að hér sé lýst vímu eða sturlunarástandi – það er jú talað um bobblandi eitur og sprautu sem stingst í nárann. Ávörp koma til sögunnar í öðrum hluta og halda svo áfram bókina á enda; einhver er ávarpaður, kannski er það ástmaður ljóðmælandans eða sambýlismaður. Það er svo í þriðja og stysta hluta verksins sem stígandin nær hámarki: Ávörpin verða að skipunum. „komdu á mig annars sker ég þennan háls í sundur,“ segir undir lok þriðja hluta. „hann er ungur þessi háls komdu annars sker ég“. Tómarúmið sem er búið að vaxa frá því í upphafi bókarinnar er nú orðið alveg yfirþyrmandi, og það er undirstrikað með stuttum línum og höktandi hrynjandi. Fjórði og síðasti hluti bókarinnar heitir „Stóri hvíti maður“ og er lýsing á ferðalagi, líkt og fyrsti hlutinn. Að þessu sinni er þó um að ræða ferðalag til útlanda, líklega til Asíulands, kannski Tælands. Nú er ljóðmælandinn að mestu leyti óvirkur andspænis gerandanum, ferðafélaga sínum, stóra hvíta manninum. Augnaráðið er í aðalhlutverki, og það er undirstrikað með upphafslínunum: „ég sé í gegnum þig“.

Sú þokukennda rýmisskynjun sem við þekkjum úr fyrri bókum Kristínar Eiríksdóttur er eitt af aðalsmerkjum Annarskonar sælu. Nokkrar vísbendingar eru hér um raunverulega staði: Mjódd, Grensásvegur, Miklabraut, Kringlan, en við erum litlu bættari þó við reynum að lesa einhverja merkingu út úr þeim. Raunveruleikinn sem lýst er í Annars konar sælu er hafinn yfir áþreifanlega staði. Nærvera þeirra er hins vegar til þess fallin að gefa hugarástandinu sitt sérstaka bragð. Þegar vel er að gáð má líka sjá að það eru sums staðar tengsl í orðavali við næstu bók á undan, Húðlita auðnina. Þetta rennir líka stoðum undir þann grun að það sé hyggilegast að lesa Annarskonar sælu sem brot af stærri heild – bókin græðir tvímælalaust á því að vera lesin í samhengi við hinar bækurnar tvær. En sú spurning vaknar hversu lengi leit Kristínar Eiríksdóttur að þolmörkum forms og stíls getur haldið áfram, án þess að snúast upp í fyrirsjáanlegt og endurtekningasamt stagl. Þeirri spurningu verður auðvitað að svara í hvert skipti sem hún skrifar nýja bók. Svarið að þessu sinni er á þá leið að Annars konar sæla sé lestrarins virði, og vel það. Mér er hálfilla við að endurtaka hér klisjuna um að Kristín Eiríksdóttir standi feti framar en kollegar hennar sem kenna sig við Nýhil, en að vel athuguðu máli held ég að sú klisja sé klisja einmitt vegna þess að hún er sönn.

(Víðsjá, 30. október 2008)