Kristján Þórður Hrafnsson: Hinir sterku

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

Það heyrir til undantekninga að persónur í skáldsögunni Hinir sterku eftir Kristján Þórð Hrafnsson beri nafn. Flestar eru þær nafnlausar, þar á meðal aðalpersónan sem er ung kona. Nafnleysið má hæglega túlka sem part af hinum hlutlægu efnistökum sögunnar; þetta er ekki saga sem er rígbundin þeim stað og tíma sem hún gerist í, skírskotanir hennar eru almennar, fjallað er um sammannleg viðfangsefni og það þyrfti alveg áreiðanlega ekki að bæta neinum neðanmálsgreinum til skýringar við þessa sögu ef hún væri þýdd yfir á annað tungumál.

Hinir sterku er saga um átök, bæði á sviði einkalífsins og á sviði hugmynda um hið opinbera rými. Togstreitan á milli einkalífs og opinbers lífs, eða „litla heimsins” og „stóra heimsins” eins og þeir eru nefndir í sögunni, eru í forgrunni. Aðalpersóna sögunnar er það sem stundum er kallað „opinber persóna”, landsþekkt sjónvarpskona sem stýrir umræðuþætti um fréttir og dægurmál. Kristján Þórður hefur þannig valið sér hefðbundið frásagnartæki til þess að miðla hugmyndum um mörkin á milli hins opinbera og einkalega,  og samspilið og togstreituna sem er þarna á milli. Þetta eru, eins og allir vita, mál sem hefur borið nokkuð oft á góma í umræðunni að undanförnu, en þó er Hinir sterku annað og meira en bara dauft endurvarp einhvers sem við þekkjum úr blöðum og sjónvarpi. Það er að mörgu leyti aðdáunarvert hvernig þessar hugmyndir, og fleiri, eru lagaðar að sögunni.

Ramminn sem hér er hafður utan um vangaveltur um deilur í einkalífinu er saga um skilnað. Hin nafnlausa aðalpersóna er í sambúð með manni, Ómari, og saman eiga þau son á leikskólaaldri. Í sambandi þeirra eru brestir frá upphafi, Ómar er hræddur við skuldbindingar og eftir því sem velgengni konu hans í fjölmiðlum eykst verður hann smám saman afbrýðisamur. Hann er upptekinn af ímynd konu sinnar, og það er oft eins og hann geti ekki greint alveg á milli þáttastjórnandans og eiginkonunnar. Sjálf er hún ekki fullfær um það heldur, hún fer oft ósjálfrátt í sjónvarpsstellingarnar þegar hún á í samræðum við eiginmann sinn eða aðra nákomna, og reynir þá að finna alla þá fleti á máli viðmælandans sem hægt er að andmæla, draga fram mótrökin burtséð frá því hverjar hennar eigin skoðanir eru. Með tímanum hverfur einlægnin úr sambandinu, og einn daginn kemst aðalpersónan að því að Ómar heldur fram hjá henni.

Fyrstu viðbrögð Ómars við vitneskju eiginkonu sinnar um framjáhald hans er ekki eftirsjá heldur reynir hann að réttlæta verknaðinn út frá því að þetta hafi verið nauðsynlegt fyrir sálrænan þroska hans sjálfs. Talar um að tilveran sé orðin svo miklu flóknari en hún var og fyrirkomulagið á samböndum fólks sé að breytast. Látið er að því liggja að þessa lífssýn hafi Ómar þegið frá föður sínum, en sá er eins konar fulltrúi ’68-kynslóðarinnar í þessari sögu. Ómar víkur sér alltaf undan því að tala um föður sinn, hann skildi snemma við móður Ómars því honum fannst of heftandi að lifa í hjónabandi. Faðir Ómars talar jafnan um byltingu ’68-kynslóðarinnar sem mestu gæfu mannkynsins, með henni var stigið stórt skref í átt til þess frjálsræðis sem í hans augum er lykillinn að lífshamingjunni.

Hugmyndin um áhrif uppeldisins er því sínálæg þegar Ómar er á sviðinu. Konan hans flytur burt frá honum og þarf í kjölfarið að skipuleggja líf sitt frá grunni. Ýmsar veigamiklar spurningar vakna í huga hennar, um byrðina sem fylgir því að vera landsþekkt, um hið ókunna í sálarlífi fólks sem maður taldi sig þekkja, um hjónabandið – er það ljúf skylda eða þrúgandi ok? – og um það sem tengir fólk sem er hætt að vera saman, t.d. börn skilinna foreldra.

Það er mikil sálfræði í Hinum sterku, stundum svo mikil að manni þykir nóg um. Mat sögumannsins á sálarlífi persónanna er stundum dálítið fyrirferðamikið, við fáum ekki að draga ályktanirnar því þær hafa flestar verið dregnar fyrir okkur. Fyrir vikið verður stíllinn eilítið fáfengilegur; átökin sem eiga sér stað í sögunni endurspeglast ekki í hljómfalli textans sjálfs, þetta er ekki texti sem logar – heldur minnir hann á hagnýtar leiðbeiningar fyrir fólk í samskiptavandræðum. Hinir sterku er að mörgu leyti líkari sjálfshjálparbók en skáldsögu.

Hugmyndaátök á sviði þjóðmála eru líka veigamikill þáttur í þessari sögu, og sem farveg fyrir þau hefur Kristján Þórður valið sér stærstu mýtu samtímans: Nýfrjálshyggjuna. Ómar og félagar hans eru sannfærðir um kosti ótakmarkaðrar einkavæðingar, þeir vilja afnema allan opinberan stuðning og leyfa lögmálum markaðarins að njóta sín ótrufluðum. Aðalpersónan er á öndverðum meiði, hún telur að nýfrjálshyggjan sé fyrst og fremst knúin áfram af viljanum til að ögra. Af þessu kvikna margar áhugaverðar vangaveltur, gagnstæðar skoðanir eru vegnar og metnar, og skoðaðar í ljósi lykilhugtaks sögunnar, en það er hugtakið styrkur. Hver er sterkur og hver veikur? Stundum er fólk sterkt á einu sviði en veikt á öðru, og þeir sem tala hvað hæst um trúna á einstaklinginn eru stundum þeir sem eru mestrar hjálpar þurfi sjálfir. Ein persóna bókarinnar er dæmi um slíkan mann, en það er Þór, vinur Ómars, allra ákafasti nýfrjálshyggjumaðurinn. Honum er brugðið upp sem fegrandi andstæðu við aðalpersónuna, en rétt eins og hún lendir hann í hremmingum í einkalífinu: Bæði eiga þau maka sem heldur fram hjá þeim og þurfa að upplifa gríðarlega höfnun af þeim sökum. Það er írónískt að aðalpersónan, sem lengi hefur talað fyrir daufum eyrum eiginmanns síns og vina hans um gildi þess að hjálpast að, nær að vinna úr sínum vandamálum nokkurn veginn óstudd, en Þór sem er talsmaður þess að manneskjan sé í eðli sínu skynsöm, hver sé sinnar gæfu smiður og það þurfi ekki að hafa vit fyrir öðrum – hann nær ekki að halda sjálfum sér réttu megin við strikið.

Uppistaðan í Hinum sterku er orðræða um siðfræði og samskiptahætti fólks. Hér er mikið um áhugaverðar speglasjónir, en skáldskapareinkennum bókarinnar er nokkuð ábótavant, eftirminnilegar persónur eru fáar og lítið um stílgaldra. Persónulýsingar í þessari sögu líkjast gjarnan skýrslum þar sem farið er í saumana á einkennum hvers einstaklings fyrir sig, skref fyrir skref í röklegri röð. Það sem gerir bókina hins vegar lestrarins virði er það mikla innsæi sem er fólgið í höfundarafstöðu hennar, hún er skrifuð af einlægni og fjallar hreinskilnislega um hluti sem við mættum flest velta fyrir okkur oftar.

(Víðsjá, 1. desember 2005)