Kristmundur Bjarnason: Amtmaðurinn á einbúasetrinu

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

Saga íslenskrar sjálfstæðisbaráttu hefur orðið sífellt flóknari á síðustu árum, og munar þar mestu um þá innspýtingu sem hefur fylgt rannsóknaraðferðum á borð við einsögu, kvennasögu og módernískar kenningar um þjóðernishyggju. Fáir trúa því núorðið að dönsk yfirvöld hafi í meginatriðum samanstaðið af illum og siðblindum kúgurum. Sagnfræðingar hafa aftur á móti leitast við að endurskoða ferlið sem Ísland gekk í gegnum frá útgáfu Fjölnis til lýðveldisstofnunarinnar með hliðsjón af því sem gerðist í öðrum löndum. Hliðstæðurnar eru víða augljósar en margt liggur enn órannsakað. Grímur Jónsson amtmaður er gott dæmi um 19. aldar Íslending sem hefur lengi legið óbættur hjá garði; Grímur var vitaskuld ekki í „vinningsliðinu“, og frá því að Björn Þorsteinsson prófessor kvað í Íslandssögu sinni upp úr um Grím að hann hefði verið „dálítið galinn“ hefur sú einkunn staðið óhögguð að mestu. Það er því löngu tímabært að fá ítarlega ævisögu Gríms amtmanns upp í hendurnar. Ævisagan Amtmaðurinn á einbúasetrinu er á vissan hátt í samræmi við sagnfræðilega endurskoðunarstefnu síðustu tveggja áratuga, því hér er upphaf sjálfstæðisbaráttunnar skoðað frá sjónarhóli hins opinbera valdhafa. Þó er það svo að höfundur bókarinnar, Kristmundur Bjarnason á Sjávarborg, var orðinn nafnkunnur fræðimaður hérlendis löngu áður en nokkur maður hafði heyrt minnst á Benedict Anderson. Kristmundur verður níræður á næsta ári; þegar nafni hans er slegið upp í Gegni koma upp 160 færslur af ýmsu tagi, þar á meðal allar Fimmbækurnar eftir Enid Blyton, sem Kristmundur þýddi á íslensku.

Amtmaðurinn á einbúasetrinu er hefðbundin ævisaga að forminu til, saga eins einstaklings frá vöggu til grafar. Ekkert er við það að athuga í sjálfu sér, en við lestur sumra kafla vakna spurningar um hvort ævisöguformið hafi beinlínis hamlandi áhrif á framsetningu efnisins. Þetta á sérstaklega við í fyrri hluta bókarinnar þar sem Ingibjörg Jónsdóttir, systir Gríms, kemur mjög við sögu. Mikið er stuðst við þau bréf Ingibjargar sem birtust í Húsfreyjunni á Bessastöðum; þetta er svo ríkulegur efniviður að maður ímyndar sér að einhver gæti tekið að sér að skrifa systkinasögu – bók þar sem Grímur og Ingibjörg eru í jafnmiklu aðalhlutverki. En í meðförum Kristmundar verður líka ljóst hvers ævisagan er megnug, ekki síst í yfirlitsköflum um þar sem hin sértæka rannsókn er tengd við breiðari heildarmynd. Kaflarnir um uppeldi og skólagöngu Gríms eru raktir í nákvæmri tímaröð, en þegar Grímur er tekinn við amtmannsstarfinu koma kaflar þar sem einstök mál eru afgreidd, eitt í einu, og þá oft hlaupið fram í tímann til að rekja þráðinn til enda. Kaflarnir um embættisstörfin eru oft mjög yfirgripsmiklir, enda viðbúið að saga svo áhrifamikils embættismanns sem Gríms Jónssonar sé öðrum þræði samfélagssaga tímabilsins sem hann lifir. Persóna Gríms er notuð sem bindiefni margra ólíkra frásagna, og Kristmundur dregur hér saman ýmislegt úr sínum fyrri rannsóknum sem eru flestar á mun þrengra sviði, s.s. Saga Sauðárkróks og bækurnar um Þorstein á Skipalóni. Til að bæta um betur er svo birtur í bókinni mikill fjöldi munnmælasagna og lausavísna, og settur í samhengi við meginsöguna. Frásögnin er rituð með blandaðri aðferð, ef svo má segja; ímyndaðar senur og hlutlægar staðreyndir eru settar fram á víxl.

Amtmaðurinn á einbúasetrinu er bók sem bregður nýju ljósi á Grím Jónsson amtmann. Það er t.a.m. dregið vel fram að Grímur viðhafði nútímalega stjórnunarhætti á borð við verðlaunaveitingar, og var framfarasinnaðri og frjálslyndari en almennt er talið; hann beitti sér fyrir bættum samgöngum og ræktun matjurta, fæðu sem flestir samlandar hans höfðu hina mestu óbeit á. Þáttur Baldvins Einarssonar er ein skýrasta sönnun þess að áhrif amtmannsins á hina ungu og frjálslyndu kynslóð voru allnokkur, en af bréfum Baldvins að dæma er aðdáun hans á Grími alveg augljós. Víða skín sú tilhneiging höfundarins í gegn að bera blak af Grími eða taka upp hanskann fyrir hann, t.d. í frásögninni um aftöku Agnesar og Friðriks 1830. Það er gefið í skyn að amtmanni hafi verið óljúft að gefa grænt ljós á aftökuna, en ekki er vísað til neinna heimilda, s.s. bréfaskrifa, til að rökstyðja þá skoðun. Það er þó hvergi reynt að draga fjöður yfir þá skapgerðarbresti sem Grímur Jónsson bjó sannarlega yfir. Sálfræðilegar túlkanir eru ekki alls fjarri, þótt ekki séu þær of áberandi. Þannig er t.d. lagt upp með það í æskuköflunum að Grímur hafi stefnt að frama í embættismannakerfinu frá unga aldri. Stefnufesta hans og ósveigjanleiki á fullorðinsárum eru rakin til menntunar hans í landher Dana, en sú túlkun er víða sjáanleg í skrifum eldri höfunda um Grím amtmann.

Tök Kristmundar Bjarnasonar á efninu í Amtmanninum á einbúasetrinu eru sannarlega engin lausatök; hér er vitnað í mikið magn frumheilda – sendibréf, annála, dómabækur, tímarit, verslunarbækur – og meira að segja munnlegar frásagnir gamalla Hörgdæla sem höfundur ræddi við á sjötta áratug síðustu aldar. Það eru því engar ýkjur að segja að Kristmundur sé í svo gott sem beinu talsambandi við ýmsa þá aðila sem komu að atburðunum sem lýst er. Mikið er um leiðréttingar á rangfærslum í eldri heimildum og málfarið er allt kjarngott og rismikið án þess að virka nokkurs staðar uppskrúfað eða tilgerðarlegt. Bókin er afrakstur hálfrar aldar rannsókna að minnsta kosti, og nú þegar Kristmundur er búinn að reisa Grími Jónssyni þennan mikla bautastein, er auðvitað bara að vona að yngri fræðimenn taki við keflinu. Þess má að lokum geta að Norðurreið Skagfirðinga, sá örlagaríki atburður sem stendur við endalok ævi Gríms Jónssonar, var enn raunverulegt þrætuefni manna eftir miðja 20. öld; fólk skiptist í lið eftir því hvort það studdi Grím eða Norðurreiðarmenn og deildi um siðferðilegt réttmæti þeirrar ráðgátu sem uppákoman óneitanlega var. Ef nógu margir lesa Amtmanninn á einbúasetrinu er aldrei að vita nema sá þráður verði tekinn upp aftur – og mikið yrði það skemmtilegt.

(Víðsjá, 3. desember 2008)