Ólafur Gunnarsson: Höfuðlausn

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

Mér telst svo til að Höfuðlausn sé fjórða sögulega skáldsagan sem Ólafur Gunnarsson skrifar; hinar þrjár eru Tröllakirkja, Vetrarferðin og Öxin og jörðin. Það er athyglisvert að skoða þá þróun sem frásagnaraðferð Ólafs hefur gengið í gegnum með þessum bókum. Í tveimur þeim fyrstu er sagt frá atburðum og persónum sem eru meira og minna uppdiktuð, enda er athugasemd frá höfundi fremst í báðum bókunum þar sem tekið er fram að sögurnar hafi „ekkert sagnfræðilegt gildi”. Slíka athugasemd er ekki að finna í Öxinni og jörðinni, enda má með réttu segja að sagnfræðilegt gildi þeirrar bókar sé öllu meira – hún fjallar jú um persónur sem voru til í raun og veru og atburðarásin er sannsöguleg í aðalatriðum. Í þessari nýjustu skáldsögu Ólafs, Höfuðlausn, er eins og höfundurinn fari bil beggja; aðalpersónurnar eru tilbúningur, en útgangspunktur sögunnar er uppákoma sem gerðist í alvöru – nánar tiltekið koma kvikmyndagerðarfólks frá Nordisk Film til Íslands sumarið 1919 til þess að filma Sögu Borgarættarinnar eftir Gunnar Gunnarsson. Það má teljast til nokkurra tíðinda að Ólafur hefur í þessari bók sagt skilið við þann alvitra söguhöfund sem hefur verið ráðandi í bókum hans síðasta rúma áratuginn, hér er notuð fyrstu persónu frásögn, og fyrir vikið verður stemmningin öll einlægari og stíllinn fíngerðari. Það er Jakob Ólafsson, bílstjóri í Reykjavík sem segir söguna af kvikmyndagerðinni í fyrri hluta bókarinnar. Jakob gerist viðriðinn ævintýrið með því að veita danska kvikmyndafólkinu liðsinni sitt, bæði sem leikmyndasmiður og bílstjóri. Það gengur á ýmsu við gerð myndarinnar, það þarf að fresta tökum vegna veðurs, leikstjórinn og handritshöfundurinn verða ósáttir, aðalleikkonan á í basli með einkalífið og þar fram eftir götunum. Jakob verður ástfanginn af Elisabet Jacobsen, danskri kvikmyndastjörnu, sem daðrar óspart við hann í því skyni að gera eiginmann sinn afbrýðisaman.

Það fyrsta sem hægt er að staldra við í þessum fyrri hluta Höfuðlausnar er  sjálft plottið, eða grunnhugmyndin: Saga af kvikmyndatökum þar sem alls kyns vandamál skapast. Ég man í svipinn ekki eftir mörgum sögum sem fjalla um kvikmyndagerð, það er helst að maður muni eftir kvikmyndum sem fjalla um kvikmyndagerð; State and Main, The Aviator, Ed Wood, Living in Oblivion, og svo kannski eitt leikrit: Með fulla vasa af grjóti. Nema hvað, að það er eins og alltaf þegar þetta efni, kvikmyndagerð,  er tekið til umfjöllunar verði úrvinnslan nokkurn veginn sú sama. Það er einblínt á vandræðaganginn sem skapast og óvæntu uppákomurnar sem setja strik í reikninginn við tökurnar. Skáldsagan Höfuðlausn bætir litlu við þessa kunnuglegu hugmynd, og það bætir ekki úr skák að aðalpersónan, Jakob Ólafsson, er fremur óspennandi karakter. Jakob er uppburðalítill þolandi alla sína tíð og skortir tilfinnanlega kraft. Þetta eru talsverð vonbrigði í ljósi þess að Ólafur Gunnarsson hefur löngum sett atkvæðamiklar persónur í forgrunn skáldsagna sinna, allt frá Sigurbirni Helgasyni arkitekt til Jóns Arasonar biskups, svo einhverjir séu nefndir. Það er helst að áhuginn kvikni þegar Guðmundur Thorsteinsson, Muggur, stígur fram á sviðið. Muggur er aðalleikarinn í Sögu Borgarættarinnar og í meðförum Ólafs Gunnarssonar fær hann yfir sig einhvern heimshryggðarblæ, hann er sonur listarinnar og þar með bundinn þjáningunni. Þau orð sem Muggur beinir til Jakobs um raunverulegt eðli sinnar meintu heimsfrægðar gætu allt eins átt við margt í íslenskum raunveruleika dagsins í dag: „Það veit enginn hvorki haus né sporð á mér í Danmörku,” segir hann - „Það er allt blásið upp í Mogganum og Vísi.” Muggur varar Jakob við því að leggja út á braut listarinnar en Jakob lætur ekki sannfærast, og þar er komin togstreitan sem er helsta stef Höfuðlausnar: Togstreitan á milli þess að þjóna listinni og þess að vinna „venjulega” vinnu.

Það er eiginlega ekki fyrr en í seinni hluta bókarinnar að sagan hrekkur í gang fyrir alvöru, en það er samt eins og að hinir tveir hlutar sögunnar nái aldrei almennilega saman, tengslin á milli þeirra eru óljós – í raun eru þetta tvær sögur. Samband Jakobs við leikkonuna Elisabeth Jacobsen fær engan botn, það eina sem skiptir raunverulegu máli úr fyrri hlutanum fyrir þann seinni eru þeir listamannsdraumar sem eru kviknaðir í brjósti Jakobs eftir að hafa fengið smjörþefinn af lífi fræga fólksins. Hann festir ást á annarri konu, Ásthildi Björnsdóttur gullsmíðanema, ættstórri stúlku úr Dölunum, en þau eru sögumenn til skiptis í síðari hluta bókarinnar. Þetta samspil tveggja ólíkra sjónarhorna er oft á tíðum mjög sniðugt, þau Jakob og Ásthildur lýsa gjarnan sömu atburðunum hvort frá sinni hlið, og á þeim stöðum þar sem Ásthildur segir frá er brugðið nýju ljósi á Jakob, persónuna sem hefur haldið frásögninni saman fram að því. Persónu Jakobs er lýst bæði með því sem hann segir frá og því sem hann segir ekki frá. Þannig skapast viss íronía, en um leið eru Ásthildarkaflarnir öðru hvoru brotnir upp með skáletruðum texta sem eru hugrenningar hennar af öðru tímasviði, þar skoðar Ásthildur atburði sögunnar úr fjarlægð, sem fortíð. Hún er þá orðin illa haldin af parkinsonveiki og rifjar upp tímann þegar hún var heilbrigð. Fyrstu einkenni sjúkdómsins hjá Ásthildi eru dæmi um þá fyrirboða sem koma svo víða fyrir í verkum Ólafs Gunnarssonar, ýmis smáatriði í sögunni tengjast einhverju sem kemur fyrir síðar, og þannig tekur maður eftir ýmsu við annan lestur sögunnar sem ekki vakti sérstaka athygli við þann fyrsta. Þetta er til marks um hugvitssamlega byggingu Höfuðlausnar, sérstaklega síðari hlutans.

Í Höfuðlausn er ýmislegt sótt til annarra bókmenntaverka, bæði leynt og ljóst, eins og titillinn ber með sér, hann er fenginn að láni frá Agli Skallagrímssyni. Jakob Ólafsson hefur rithöfundarferil sinn með því að skrifa kvikmyndahandrit byggt á Egils sögu og líkir sjálfum sér við hið forna skáld. Uppvöxtur Jakobs minnir líka um margt á ævi Knut Hamsuns og tengslin við hann eru sterk í þessari sögu. Sultur Hamsuns er sérstaklega nefndur í því sambandi og eflaust myndi nákvæmur samanburður á Sulti og Höfuðlausn leiða margt forvitnilegt í ljós. Jakob færir sig svo af sviði kvikmyndanna yfir í skáldsagnaskrif, hann heldur skáldadraumi sínum til streitu með skáldsögu sem hann nefnir Eldmessuna. En í draumi sérhvers manns er fall hans falið, Jakob missir tengslin við umhverfi sitt, hann hefur ekki tíma fyrir nýfætt barn sitt og fársjúka eiginkonu því hann er of hugfanginn af skrifunum. Sögunni lýkur á hugljómun hans, hann sannfærist um eigin listgáfu og finnst hann standa jafnfætis sjálfum Dostojevskí, en þá er Ásthildur komin á Vífilsstaðaspítala. Kosturinn við takmarkaða vitneskju sögumannsins birtist hér skýrt og greinilega. Styrkur Höfuðlausnar felst ekki síst í því rými sem sagan skilur eftir handa lesandanum til að leggja dóm á verk og skoðanir Jakobs Ólafssonar. Þegar allt kemur til alls er hann kannski óáreiðanlegur sögumaður, ófær um að yrkja eigin Höfuðlausn. Varnaðarorð Muggs koma hér í hugann – þótt Jakob telji sjálfum sér trú um annað í sögulok er sterklega gefið til kynna að hann sé ekki „einn af þessum fáu”, ekki í hópi þeirra útvöldu sem listagyðjan brosir við heldur bara meðal þeirra þúsunda sem bíða í von.

Eitt atriði má nefna til viðbótar við sagnfræðilegar tengingar í Höfuðlausn, en það er sá fjöldi raunverulegra, þekktra einstaklinga sem koma við sögu. Þetta eru meðal annars skáldin Þorsteinn Erlingsson og Gunnar Gunnarsson, Árni Óla blaðamaður á Mogganum, útgerðarmaðurinn Thor Jensen, og meira að segja Knut Hamsun sem Jakob fer að hitta, að ónefndum Muggi og dönsku kvikmyndagerðarmönnunum. Nokkuð stór hópur fyrir ekki lengri sögu, og maður spyr sig jafnvel hvort þetta sé alveg nauðsynlegt. Sú aðferð að tvinna saman skáldsagnapersónur og frægar, sögulegar persónur er góðra gjalda verð þegar henni er ekki beitt í óhófi, en hér finnst mér eins og sögulegu persónurnar séu stundum galdraðar fram af ónógri ástæðu, margar þeirra koma þessari sögu nánast ekkert við. Það hefði kannski reynst happadrýgra að leggja meiri alúð við þær skálduðu persónur sem bera söguna uppi. Þegar allt er tekið saman má segja að Höfuðlausn sé læsileg bók og gædd ýmsum kostum, en ég hef á tilfinningunni að í því stærra samhengi sem felst í höfundarferli Ólafs Gunnarssonar muni hún í framtíðinni verða skoðuð fyrst og fremst sem millikafli.

(Víðsjá, 10. nóvember 2005)