Ólafur Haukur Símonarson: Fluga á vegg

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

Þroskasögur skálda og rithöfunda eru nefndar künstlerroman upp á þýska tungu, og að lítt athuguðu máli gæti maður haldið að nýjasta bók Ólafs Hauks Símonarsonar, Fluga á vegg, væri einmitt þannig bók. Þetta er sagan um bernsku Ólafs Hauks, allt frá fæðingunni til fyrstu barnaskólaáranna. Ekki þarf að efast um að hér sé lýst bernsku höfundarins sjálfs, enda er drengurinn nafngreindur í verkinu; en þó er settur varnagli við sannleikshugtakið strax á titilsíðu með hefðbundnum, þversagnakenndum undirtitli: „Sönn lygasaga,“ er einkunnin sem sagan fær frá hendi höfundar. Vanir lesendur sjálfsævisagna eru orðnir þaulkunnugir svona efasemdum um hæfni minnisins til að varðveita alla atburði sómasamlega; það er farið að heyra til undantekninga að sjá sögur sem gefa sig út fyrir að vera afurð óbrigðuls minnis þess sem skrifar. En skrásetningin sjálf er ekkert aðalatriði hjá Ólafi Hauki, hann vindur sér beint að efninu og lýsir því hvernig hann streitist á móti og spyrnir við fótum þegar sú stund kemur að hann þarf að yfirgefa kvið móður sinnar. Strax í þessum fyrsta kafla er sleginn tónn sem er ekki í samræmi við framhaldið; rödd þess sem talar er í ætt við það sem maður sér stundum á heimasíðum hvítvoðunga á Internetinu, á Barnalandi og hvað það nú heitir allt saman, þar sem ómálga börn halda dagbækur um atburði ævi sinnar, og kómíkin er fólgin í því að lesa óbarnslegan, stundum gelgjulegan texta og ímynda sér að það sé barnið sjálft sem segi frá. Á sama hátt lýsir hinn nýfæddi Ólafur Haukur Símonarson vonbrigðum sínum með að þurfa að koma í heiminn: „Svo klippti einhver á naflastrenginn, og þar fauk síðasta von mín um að geta lifað góðu lífi í ókeypis húsnæði með frítt fæði.“

En þessi aðferð fyrsta kaflans er hins vegar einsdæmi í verkinu, og í köflunum sem á eftir koma er þessu víða snúið við: Írónían gengur út á það að sögumanninum er gerð upp vanþekking, svo að útkoman verður skopleg. Sjónarhorni barnsins er beitt til að lýsa athöfnum fullorðna fólksins og þannig er stundum undirstrikaður viss fáránleiki. Dæmi um þetta má sjá í lýsingunni á Hauki málara, sem er pabbi Arnars, vinar Ólafs Hauks. Haukur málari er sem sagt haldinn spilafíkn, en það er hvergi sagt beint, heldur er einkennunum lýst með augum hins barnunga sögumanns, sem er að sjálfsögðu mjög forviða á þessari hegðun: „Á veturna sefur hann stundum allan daginn,“ segir drengurinn. „Mamma segir að hann spili á nóttinni. Ég skil ekki hvernig menn nenna að vaka á nóttinni til þess að spila. Við Arnar spilum oft á daginn og á kvöldin og það er mjög gaman, en ekki mundum við nenna að vaka alla nóttina til að spila.“ Önnur persóna í bókinni er nágranni fjölskyldunnar og kallaður Óskar hinumegin. Það er gefið sterklega til kynna að samband hans við mömmuna sé aðeins nánara en pabbanum þyki hæfilegt. En barnið sem segir söguna skilur ekki slíkt og lýsir atvikum án þess að gera sér grein fyrir orsakasamhenginu. Þessi íroníska frásagnartækni er eins konar aðalsmerki á sögunni, en hún er þó ekki allsráðandi, því stundum er eins og sögumaðurinn gleymi því stundarkorn að hann er barn, og breytist í fullorðinn mann, sem leggur mat á atburðina úr fjarlægð. Þetta gerist gjarnan í lok kafla. Þá er sagt frá einhverju sem gerist tuttugu eða þrjátíu árum síðar og varpar ljósi á málsatvik, eða þá hvernig höfundurinn sjálfur upplifi hlutina eftir svo langan tíma. Þetta er óneitanlega í algerri mótsögn við þá barnslegu einfeldni sem er ríkjandi annars staðar í verkinu, og fyrir vikið er listrænu samræmi þessarar sögu verulega ábótavant.

En þrátt fyrir þetta er Fluga á vegg ýmsum góðum kostum gædd. Þetta er Reykjavíkursaga; hér er lýst kjörum fátæks fólks um miðja síðustu öld, og gildismat samfélagsins er tekið til frjórrar skoðunar. Þetta birtist m.a. í hugleiðingum um stéttamun, sem stundum getur verið falinn. Sögumaðurinn ungi fær tár í augun og hleypur í vörn þegar faðir hans gerir honum ljóst að þótt fjölskyldan búi í húsi en ekki bragga sé samt ekki svo mikill munur á þeim og braggafólkinu, kömpurunum; lífskjörin eru nefnilega um margt sambærileg. Drengurinn hefur mikið stolt til að bera þrátt fyrir fátæktina og líkist þannig móður sinni sem sér til þess að sonur hennar gefi rausnarlegar gjafir þegar honum er boðið í barnaafmæli hjá fjölskyldum í efri stétt. Fluga á vegg hefur mikla samfélagslega skírskotun; það má segja að þetta sé helsti styrkur bókarinnar og tengi hana jafnframt við þær skáldsögur sem Ólafur Haukur skrifaði í kringum 1980. Lesandinn fær sterka tilfinningu fyrir lífskjörunum sem persónurnar búa við og þeirri félagslegu orðræðu tímabilsins sem birtist t.d. í máli sjálfstæða kaupmannsins sem kallar KRON-veldið „kommúnistafélag“. Það er þó ekki laust við að hér sé fortíðin skoðuð í ljóma sem verður helst til of rjósrauður á köflum, og sums staðar rennur tónn verksins út í hreina og klára væmni, t.a.m. í sögulok.

Fluga á vegg er saga sem ber þess ekki augljós merki að vera rituð af jafnreyndum höfundi og raunin er. Á vissan hátt minnir verkið einna helst á barnabók, ekki bara vegna þess að það er barn sem talar, heldur líka vegna þeirrar bernsku úrvinnslu sem bókin byggir á. Þótt Ólafur Haukur Símonarson ætli sér ekki um of í þessu verki fær verkið þó óneitanlega laka útkomu úr samanburði við sambærileg verk hérlend frá síðustu áratugum. Það er enn fremur ljóst að ekki er þetta künstlerroman, því þroskasaga Ólafs Hauks sem rithöfundar fær sama og enga athygli, en fyrst hann er á annað borð kominn í endurminningagírinn er auðvitað bara að vona að sú saga verði sögð í næstu bókum.

(Víðsjá, 25. nóvember 2008)