Óskar Árni Óskarsson: Skuggamyndir úr ferðalagi

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

Í nýjustu bók Óskars Árna Óskarssonar, Skuggamyndum úr ferðalagi, er að finna stuttan texta sem heitir „Dúskarnir í kjólnum“. Þetta er lýsing á mynd; „ekfrasis“ var slíkt nefnt meðal Grikkja til forna. Skáldið lýsir ljósmynd af móður sinni þegar hún var barn – hún stendur fyrir framan birkistól og er klædd í dökkan kjól. Þeir sem eru vel heima í verkum Óskars Árna átta sig strax á því að hér er gamall texti á ferðinni. Hann birtist áður undir titlinum „Ljósmynd af móður minni sjö ára“ í ljóðabókinni Ljós til að mála nóttina; það var árið 1996. Nú, tólf árum síðar, fáum við svo loks að sjá ljósmyndina sjálfa, en hún er birt með textanum í sinni nýju gerð. En hversu ný er hún, þessi nýja gerð? Nákvæmur samanburður leiðir í ljós að textarnir tveir eru nánast alveg eins, textinn í Skuggamyndum úr ferðalagi og þessi frá 1996. Þetta er raunar aðeins eitt tilvik af átta í þessari nýjustu bók Óskars Árna um smáprósa sem eru teknir úr fyrri verkum höfundar og birtir að nýju. Er Óskar Árni orðinn staðnaður, kynni einhver að spyrja af þessu tilefni. Er hann kominn í þrot með efnivið og byrjaður að bjóða upp á bixímat í stað ferskra rétta? Svarið við þessum spurningum sáraeinfalt, og svarið er nei. Sannleikurinn er nefnilega sá að Óskar Árni hefur aldrei verið ferskari en einmitt núna.

Skuggamyndir úr ferðalagi markar viss tímamót í höfundarverki Óskars Árna Óskarssonar. Tónninn er orðinn jarðbundnari en áður, absúrdkómíkin er næstum horfin og smáprósarnir standa nú mun nær sagnaskáldskap en ljóðlist. Kveikja verksins er rútuferðalag sem höfundurinn fer sumarið 2005. Hugmynd hans er að skoða sig um á ættarslóðum föðurættar sinnar austur á Langanesströnd. Á leiðinni er stoppað á nokkrum stöðum – á Sauðárkróki, Siglufirði, Akureyri, Þórshöfn. Þetta endar með því að verða hringferð, þótt ekki fái austur- og suðurland jafnmikla umfjöllun og norðurlandið. Leiðin sjálf er enda ekki í brennidepli, þetta er ekki tilraun til að teikna upp þverskurð af þjóðinni eins og Huldar Breiðfjörð gerði fyrir áratug með Góðum Íslendingum. Það er fjölskylda skáldsins sjálfs sem er í fyrirrúmi, og þeir staðir sem henni tengjast. Þetta er því persónulegasta verk Óskars Árna til þessa; hann rekur sögur af foreldrum sínum, ömmum og öfum, en það er þó ömmubróðir Óskars Árna sem fær mest rými. Sá maður er Magnús Stefánsson, en hann var einnig þekktur undir skáldanafninu Örn Arnarson. Lítið er til af prentuðum heimildum um Magnús, enda er hér stuðst við bréf hans og væntanlega munnmælasögur líka, auk þess sem skáldað er í eyðurnar. Skuggamyndir úr ferðalagi er því líka kærkomið bókmenntasögulegt innlegg, því sjaldan hefur verið dregin upp eins heilsteypt mynd af þessu merka skáldi.

Þegar fyrri bækur Óskars Árna eru bornar saman við þessa nýju vekur athygli að aðferðin sem höfundurinn beitir við frásögnina er nokkuð breytt. Hingað til hafa smáprósar Óskars Árna gjarnan einkennst af léttgeggjuðu hugarflugi; þeir lýsa smáskrýtnum atvikum, og stundum fær lesandinn á tilfinninguna að frásögninni sé lokið áður en hinn frásagnarverði atburður eigi sér stað. Ég nefni sem dæmi stuttan texta sem ber yfirskriftina „Toronto“ og er að finna í Lakkrísgerðinni, bók frá árinu 2001. Þar er brugðið upp myndum af þremur atburðum sem gerast á jafnmörgum stöðum á landinu. Maður rennir upp buxnaklauf, dósastæða hrynur, sími hringir. Þessir atburðir tengjast ekki að öðru leyti en því að þeir gerast á sama augnablikinu. Svona lagað er ekki að finna í Skuggamyndunum, þar er frásögnin raunsæislegri og sagnfræðilegri. En hið fantastíska er samt sem áður undirliggjandi. Við hrífumst með Magnúsi Stefánssyni þegar hann er átta ára drengur austur á Langanesströnd og fær ortar um sig tvær vísur frá Símoni Dalaskáldi. Í meðförum Óskars Árna verður þetta litla atvik bókstaflega stórbrotið. Inn í þetta fléttast minningar um samferðamenn höfundarins sjálfs. Þar er skylt að nefna hér Geirlaug Magnússon, skáldið á Sauðárkróki, en í lýsingunum á sambandi þessara tveggja skálda fæst tilfinning fyrir því stóra í hinu smáa. Þannig er galdurinn við list Óskars Árna; honum tekst að vefa heillega mynd úr brotum sem við fyrstu sýn virðast ekkert eiga sameiginlegt. Ekkert er sagt að óþörfu og hvert orð er dýrt.

Um „endurvinnsluaðferðina“ sem ég gat um í upphafi má að lokum segja að hún sé leið höfundarins til að sýna gamlar frásagnir í alveg nýju ljósi. Óskar Árni er höfundur sem stendur í nánum og lifandi tengslum við eigin verk, hann endurtúlkar myndir sem hann hefur áður birt okkur og tengir þær nýjum myndum. Smáprósarnir sem eru endurbirtir í Skuggamyndunum eru að mestu óbreyttir, séu þeir lesnir einir og sér, en með samlestri við það sem fylgir með verður túlkunin önnur og víðari. Þannig fáum við t.d. fyrst núna að vita að stúlkubarnið sem fæðist með tólf fingur, og við lásum um í Lakkrísgerðinni fyrir sjö árum, er í raun móðir höfundarins. Textinn „Brjóstamjólk og vínarbrauð“, sem birtist í sömu bók, er að öllum líkindum sagan um fæðingu Óskars Árna sjálfs.

Skuggamyndir úr ferðalagi er grípandi lesning, Skáldskapur með stóru essi. Óskar Árni Óskarsson leiðir okkur í ferðalag „áleiðis áveðurs frá einni tilfinningu / til annarrar“ – í fylgd með honum komum við sífellt að nýjum dyrum. Og

allt í einu

opnast dyr

milli heima,

eins og segir í gömlu ljóði,

veröldin

svo miklu stærri

en þig minnti.

(Víðsjá, 11. nóvember 2008)