Óttar M. Norðfjörð: Barnagælur

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

„Barnagælur” – titillinn einn og sér kallar fram ónotakennd þegar maður veit um hvað þessi bók fjallar. Hér er botnlaus írónía á ferðinni, orðið endurspeglar sjúkleg viðhorf aðalpersónunnar sem finnst ekkert rangt við að börn fái að eiga í kynferðislegum samböndum við fullorðið fólk. Orðið „barnagælur” er í meðförum Óttars Norðfjörð skrauthvörf fyrir það sem venjulega er kallað níðingsskapur eða misnotkun á börnum.

Sagan er í stuttu máli þessi: Pétur B. Ásgeirsson er tæplega þrítugur lögfræðingur, frjálshyggjumaður og þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hann er einn vörpulegasti sonur íslenskrar yfirstéttar, fyrrum Morfíshetja, Inspector Scholae úr MR og framherji hjá KR, formaður Vöku og blaðamaður á Mogganum. Hann á fallega kærustu og birtist reglulega á síðum glanstímarita. En undir glæstu yfirborðinu er Pétur illa innrættur þrjótur, ofbeldisfullur hrotti, morðingi, og barnaníðingur. Kynhneigð hans hverfist um stelpur á aldrinum 6 til 9 ára og til að svala fýsnum sínum hefur hann gert samning við reykvíska dagmömmu um að fá reglulega aðgang að stelpunum sem hún passar og nauðga þeim gegn greiðslu. Einhverju sinni fyllist Pétur ótta um að leyndarmálið hans hafi komist upp, hann minnir að hann hafi ljóstrað því upp við einn kollega sinn á fylleríi. Til öryggis kemur hann félaganum fyrir kattarnef. Í morðrannsókninni sem fylgir í kjölfarið beitir Pétur svo áhrifum sínum til þess að beina sjónum lögreglunnar frá sjálfum sér.

Andstæðan á milli hinna tveggja persónuleika Péturs B. Ásgeirssonar er ekki sýnd með stigmagnandi afhjúpun heldur er ljóst frá byrjun að hann er illmenni. Á fyrstu síðum bókarinnar fær Pétur þær fréttir að móðir hans hafi dáið í bílslysi en hann verður ekkert sorgmæddur, bara pirraður, nennir ekki að standa í þessu veseni sem hann sér fram á að tilheyri því að fylgja ástvini til grafar. Bilið á milli þess sem Pétur þykist vera og þess sem hann er í raun og veru er svo mikið að það verður eiginlega kjánalegt, of augljóst einhvern veginn – hann fer t.a.m. í viðtöl og talar um mikilvægi þess að bæta hag nýbúa en er svo stækur kynþáttahatari inn við beinið.

Barnagælur sækir bersýnilega fyrirmynd í eldri sögur sem fjalla um díalektíkina á milli ríkjandi siðalögmála og þess demóníska sem býr innra með manninum. Það sem er nýstárlegt við bók Óttars Norðfjörð er ýkjustíllinn, hér er allt keyrt í botn og viðbjóðslýsingarnar svo vægðarlausar að þær eru ekki hafandi eftir í virðulegum fjölmiðli eins og þessum. Þetta er bók sem reynir á þanþol siðferðisviðhorfa og reynir hvað eftir annað að ögra lesandanum. Óttar Norðfjörð slær ítrekað saman tvennum öfgum – því „flottasta” í samfélaginu, þ.e. sjarmerandi persónuleika, ímynd, stíliseringu og hressileika, og því ljótasta (misnotkun barna). Hugmyndin virðist vera sú að láta þetta tvennt varpa ljósi hvort á annað og sýna fram á að þetta séu tvær hliðar á sömu geggjuninni sem ríkir í nútímanum.

Snemma við lesturinn vaknaði þó hjá mér þessi spurning: Er ég að lesa ádeilusögu? Og ef svo er, á hvað er þá verið að deila? Það er varla hægt að horfa fram hjá pólitískum skírskotunum þessarar bókar en andófsþátturinn virðist vera dálítið vanhugsaður. Pétur B. Ásgeirsson er jú í Sjálfstæðisflokknum, hann er góðkunningi Hannesar Hólmsteins og forsætisráðherrans D, og yfirlýstur frjálshyggjumaður. Það er eins og boðið sé upp á þann möguleika að setja einhver rökleg tengsl á milli barnamisnotkunar og hugmyndafræði frjálshyggjumanna. Þetta er auðvitað ekki sérlega sannfærandi kenning, en líkt og með öll skáldverk sem taka á umdeildum málum getur skapast hætta á því að viðtökur þessarar bókar snúist upp í meðvirkni með höfundinum á grundvelli þess að hann sé sömu skoðunar og lesandinn, að lesandinn taki viljann fyrir verkið og fyrirgefi ýmsa vankanta á verkinu (sem sannarlega eru til staðar hér) þar sem boðskapurinn sé svo góður. Að mínu mati fellur pólitískt andóf Barnagæla um sjálft sig einmitt vegna þess hversu öfgakenndur framsetningarmátinn er. Þeim sem gagnrýna Sjálfstæðisflokkinn er lítill greiði gerður með þessari bók, ekki frekar en íslenskum náttúruverndarsinnum var nokkur ávinningur að græna skyrinu sem var slett á Hótel Esju í sumar.

Ofstopafullur stíllinn setur líka strik í reikninginn þegar kemur að því að meta hvort Barnagælur sé áhrifarík sem hugvekja um barnamisnotkun og meinlegar afleiðingar hennar. Ófögnuðurinn í sögunni er svo yfirþyrmandi að hann missir eiginlega tengslin við raunveruleikann. Reynslusögur þeirra sem hafa orðið fyrir kynferðislegri misnotkun í æsku eru að sönnu ófagrar flestar. Það þarf því ekki að halda að í Barnagælum sé verið að gera kynferðislega misnotkun barna ógeðfelldari en hún er í raun og veru. Það sem hins vegar grefur undan andófinu er samspilið við aðrar birtingarmyndir illskunnar, sú ofboðslega áhersla sem er lögð á að gera Pétur að eins miklu skrímsli og mögulegt er. Hann er ekki bara barnaníðingur heldur líka hræsnari, hrokagikkur, kvenhatari, útlendingahatari, kynþáttahatari, morðingi – og mannæta. Það er m.ö.o. fátt mannlegt í fari þessarar persónu, og fyrir vikið hættir hann smám saman að vera trúverðugt illmenni í okkar augum en verður karíkatúr af illmenni.

Þegar þessi stutta saga fer að jaðra við að verða of langdregin sækir hún í vopnabúr glæpasögunnar til að halda manni við efnið. Eini raunverulegi lestrarhvatinn í síðari hluta bókarinnar er óvissan um það hvort upp kemst um morðið sem Pétur fremur eða ekki. Þetta eru auðvitað talsverð vonbrigði, og dæmi um hversu lúmsk glæpasagnavæðingin getur orðið – eins og skáldsaga teljist aldrei fullgild fyrr en það er búið að drepa einhvern í henni.

Sá sem skrifar sögu eins og Barnagælur getur þar af leiðandi varla talist í hópi hugsjónaskálda sem lýsa upp myrk skúmaskot og bjóða okkur að bergja af beiskum kaleik, heldur miklu fremur svona „flippaður gaur”, ólíkindatól, rokkari, „ný og fersk rödd” eins og einhver með takmarkað hugmyndaflug gæti orðað það. Barnagælur er að mínu mati skot yfir markið, hún er aðallega vitnisburður um gjaldþrot hneykslunarbókmenntanna í heimi þar sem má segja allt og möguleikar skáldsögunnar felast frekar í öðru en að hneyksla. Því þegar öll kurl eru komin til grafar eru bækur sjaldnast sjokkerandi þegar þær rembast sem mest við að sjokkera.

(Víðsjá, 13. desember 2005)