Stefán Máni: Ódáðahraun

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

Stefán Máni er þungarokkarinn í hópi íslenskra skáldsagnahöfunda. Í bókum hans hafa íslenskir lesendur um nokkurt skeið átt sér athvarf þar sem hægt er að stilla allt í botn og heddslamma duglega í takt við tryllingslegt gargið. Yfirdrifinn stíll, svæsið ofbeldi, illskan í manninum – allt eru þetta áberandi einkenni á bókum Stefáns Mána. Útkoman hefur auðvitað verið misjöfn eins og gengur, en efnistökin oft með svipuðu sniði. Ódáðahraun, nýjasta afurðin, er biti í þessu sama púsli. Hér segir frá hrottanum og fíkniefnabaróninum Óðni R. Elsusyni og ævintýrum hans. Óðinn er kunnugleg persóna, séu eldri verk sama höfundar höfð til hliðsjónar; metnaðarfullur efnishyggjumaður, eitursnjall demón. Eftir örstutt yfirlit yfir æsku þessarar andhetju á fyrstu síðum bókarinnar fylgjum við Óðni þar sem hann þeysir á kolsvörtum pallbíl út í óbyggðir til fundar við litháenskan dópsmyglara. Þannig fáum við strax tilfinningu fyrir nýstárlegri sýn á háleitt og hrikafullt landslag íslenska hálendisins; hér er það hin hagnýta náttúruskynjun glæpamannsins sem ræður ríkjum, og endurspeglast í titli bókarinnar. Ódáðahraun, stærsta samfellda hraunbreiða landsins, er ekki bara forvitnilegt, náttúrufræðilegt rannsóknarefni eða skáldlegt innblástursefni heldur líka kjörlendi fyrir hvers kyns myrkraverk. Þar sem víðsýnið skín og háfjöllin heilög rísa – þar er líka með góðu móti hægt að grafa lík eða versla með amfetamín án þess að hafa neinar áhyggjur.

En þegar betur er að gáð er nöturlegt hraunið ekki sögusvið verksins nema að mjög litlu leyti, og því undir hælinn lagt hvort bókartitillinn hæfi sögunni, þótt hann sé flottur. Hér er það nefnilega viðskiptalífið sem fær mesta plássið, og þeir sem ætluðu að gleyma sorgum sínum, myntkörfulánum og eignatapi – þeir gætu orðið fyrir vonbrigðum við lesturinn. Spennan í sögunni snýst nefnilega að stórum hluta um kaup og sölu verðbréfa, aukningu hlutafjár, frestun hlutahafafunda og fleira í þeim dúr. Það eru dálítil vonbrigði að Óðinn R. Elsuson, þessi svívirðilegi ofbeldishundur, skuli ekki fá verðugri verkefni í þessari sögu, og er hann þó í mynd næstum allan tímann. Það er lítið um pyntingarsenur og bílaeltingaleiki hér, en þeim mun meira af fjasi um viðskiptamál. Nú er ég ekki að segja að slíkir hlutir séu með öllu óspennandi, og það er alveg ábyggilegt að mér fjármálafróðari menn ættu að geta haft djúpa nautn af því að lesa um þær leikfléttur sem hér eru settar á flot. Stefán Máni hefur heldur aldrei verið þekktur fyrir að vinna ekki heimavinnuna sína: Skipið er t.a.m. skáldsaga sem ber þess greinileg merki að vera skrifuð af fróðleiksfúsum höfundi sem hefur sjálfur verið á sjónum og kjaftað við reyndustu togarajaxla. Og gleymum ekki Svartur á leik, doðrantinum sem Stefán Máni skrifaði eftir gaumgæfilega rannsóknarvinnu meðal dílera og handrukkara.

En samslátturinn sem virðist vera markmið Ódáðahrauns, gagnkvæm speglun glæpa og viðskipta, finnst mér bara ekki ganga upp. Líkamlegt ofbeldi og kænska í viðskiptum eru, þrátt fyrir allt, ekki sami hluturinn, og það er frásagnarfræðilegur slóðaskapur að láta sögupersónu grípa til þess fyrrnefnda þegar hún kemst í þrot með hið síðarnefnda. Óðinn R. Elsuson er einhliða karakter, fulltrúi fyrir heim glæpa og fíkniefna, en sú hlið hans fellur alveg í skuggann þegar hann eltist við vísbendingarnar sem honum er gert að vinda ofan af, hvað þá í atriðunum þegar hann situr áhugalaus og geispar undir löngum romsum Viktoríu, samverkakonu sinnar, um aðsteðjandi ógnir í átökum um hlutabréfin. Upplýsingaflæði sögunnar felst að verulegu leyti í þessu sambandi meistarans og lærlingsins. Óðinn er lengst af fullkomlega tómlátur um þá flóknu vefi viðskiptalífsins sem hann flækist í, en svo allt í einu, eins og upp úr þurru, verður algjör viðsnúningur, og hann tekur málin í sínar hendur.

Persónusköpunin í Ódáðahrauni er hvorki tilþrifamikil né eftirminnileg – til þess er söguflækjan of yfirþyrmandi. Meitlaðir frasarnir sem enduróma sem mottó í upphafi hvers kafla, bæta þar litlu við. Þá gríðarlegu keyrslu sem einkenndi frásögn Skipsins er hér hvergi að finna, m.a. vegna þess að hér er aðeins ein aðalpersóna sem nær einhverju máli, en ekki níu, og þar með enginn möguleiki á hröðum skiptingum milli sögusviða, aðeins einn þunnur þráður en ekki margir súrraðir saman. Yfirborðslegar vísanir í norræna goðafræði og klaufalegur ástarsögu-útúrdúr duga heldur ekki til að setja neina vigt í textann.

Að lokum má nefna að skáldsagan Ódáðahraun hefur í auglýsingum verið kölluð „grafskrift íslenska hlutabréfaævintýrisins“, hvorki meira né minna, og má af því ráða að hér sé eitthvert hugmyndafræðilegt uppgjör í gangi, einhver róttæk endurskoðun á viðhorfunum í Íslandssögu allra síðustu ára, í takt við það sem nú heyrist í öllum fréttatímum. Ekkert er hins vegar fjær sanni. Ódáðahraun er ekki tímabærari núna heldur en hún hefði verið fyrir, segjum, tveimur árum, því hún er ekki bara algjörlega hefðbundin í forminu, heldur hvílir hugmyndaheimur verksins á því óorðaða viðhorfi að bisnissheimurinn sé hinn æðsti vettvangur mannlegrar hugmyndaauðgi, að klækir í viðskiptum séu aðdáunarverðir, vel heppnaðir bissnissdílar frábært söguefni. Að skreyta slíka hálfvelgju með merkimiðanum „grafskrift“ þykir mér þess vegna nokkuð djúpt í árinni tekið, og eiginlega hálfgerð öfugmæli.

(Víðsjá, 23. október 2008)