Vilborg Davíðsdóttir: Hrafninn

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

Söguhetjan er munaðarleysingi. Það eru galdrar í þessari sögu, frumstæður þjóðflokkur, mentor í hrafnslíki, hjálparhella sem er hundur, spilltir trúarleiðtogar, forboðin ást – bætum við nokkrum söngatriðum og útkoman er Disneyteiknimynd. Nei annars, þetta er ekki alveg svo einfalt. Þótt Hrafninn eftir Vilborgu Davíðsdóttur sæki talsvert í formúlubókmenntir er bara þónokkuð kjöt á (og jafnvel spik) á beinunum líka.

Hrafninn er saga um tvo heima. Aðalpersónan, inúítastúlkan Naaja, tilheyrir í raun hvorugum þeirra. Á sínum heimaslóðum er hún jaðarsett, hún fellur ekki inn í ríkjandi norm, ekki síst fyrir þá sök að hún getur ekki eignast börn og á þannig yfir höfði sér að vera útskúfuð sem blindgata í vegakerfi ættstofnsins. Þótt hún ferðist yfir í heim hvíta mannsins tekur ekki betra við þar, þetta er um miðja fimmtándu öldina og hugmyndir norrænna manna um frumbyggja Grænlands eiga sér djúpar rætur í hræðslu og fáfræði.

Saga Naaju kallast á við eitt og annað úr fyrri bókum Vilborgar, hún er systir þeirra Korku og Katrínar, rétt eins og þær er hún í sífelldri leit að samastað og viðurkenningu. Stærstur hluti sögunnar er sagður frá sjónarhorni Naaju og það er athyglisvert hvernig gildismat hennar og annarra inúíta í sögunni togast á við skilning hins innbyggða lesanda. Víðast hvar ganga inúítarnir út frá því sem staðreynd að hvítu mennirnir séu ekki manneskjur eins og  þeir sjálfir. Í lýsingum Naaju á háttum hvítu mannanna hefur hún alltaf til samanburðar þá siði sem eru „eðlilegir” í hennar augum, og nefnir gjarnan hvernig atferli hvíta mannsins er ólíkt því sem tíðkast hjá „venjulegu fólki”. Þannig er hin viðtekna, sögulega miðja skilgreind á forsendum jaðarsins. Um miðbik sögunnar er sjónarhornið víkkað út þegar önnur aðalpersóna stígur fram – Mikjáll, Íslendingur sem hefur búið á Grænlandi frá 12 ára aldri. Upp frá því er vitundarmiðjan hjá Mikjáli og Naaju til skiptis. Mikjáll kynnist Naaju þegar neyðin rekur hann til þess að eiga nánari samskipti við innfædda heldur en viðurkennt er að kristnum mönnum sé óhætt. Í augum hinna norrænu eru frumbyggjar Grænlands óheillaverur, hálfmennsk dýr sem hafa engan skilning á gegndinni og kristnu siðaboði.  Í samskiptum Naaju og Mikjáls rekast á tveir menningarheimar og af þeim árekstrum spretta ýmsar frjóar hugleiðingar í Hrafninum. Þau misskilja háttalag hvort annars í sífellu. Sá eini sem veit allan sannleikann er lesandinn, þökk sé frásagnaraðferðinni sem er frásögn hins alvitra sögumanns. Þannig felst í Hrafninum viss könnun á merkingu atferlis, einskonar mannfræðistúdía. Naaja og Mikjáll fylgjast hvort með öðru, annað grannskoðar athafnir hins og getur stundum ómögulega greint á milli þeirra sem eru hlaðnar merkingu og ásetningi, og hinna sem eru merkingarlausar. Naaja gengur um hálfber í híbýlum sínum og finnst ekkert athugavert við það, en Mikjáll túlkar það sem siðleysi. Hin taugaveiklaða trúarafstaða norrænna manna er sömuleiðis eitthvað sem Naaju gengur illa að skilja, rétt eins og sú sterka einstaklingshyggja sem setur svip sinn á samfélag þeirra.

Það er snemma nefnt að augu Naaju eru „full af sjó” eins og hinir inúítarnir orða það – þau eru blá en ekki brún og fyrir vikið þarf hún að mæta miklum mótbyr hjá sínu eigin fólki. Það sem hún ekki veit fyrr en hún er komin til vits og ára er að hún á ættir að rekja til hvítra manna, og er þess vegna gædd eiginleika sem er framandi á hennar heimaslóðum. En auðvitað dugir þetta ekki til viðurkenningar hjá landnemunum heldur. Samband Naaju og Mikjáls er merkt glötuninni frá upphafi, það getur ekki enst því það er andsnúið siðalögmálum beggja heimanna. Mikjáll sjálfur á sér ófínan uppruna í fjarlægri fortíð. Þau eru því bæði „mitt á milli” í vissum skilningi. En ferðalagið á milli heimanna tveggja staðfestir söguskoðun sem er ríkjandi á okkar dögum, og því kannski ekki sérstaklega frumleg: Kreddurnar og þröngsýnin í menningu og trúarbrögðum hvíta mannsins er engu minni en það sem tíðkast hjá inúítunum. Það sem kallast vestræn siðmenning á 15. öld grundvallast á tvöfeldni og sérhagsmunahyggju. En þessi tíðarandaádeila Hrafnsins á í nokkurri togstreitu við fantastísk einkenni sögunnar – Naaja er sem sagt göldrótt, hún hefur verið útvalin til þess að vera angakoq, þ.e.a.s. nokkurs konar andaprestur meðal inúíta. Vilborg Davíðsdóttir lætur sér þannig ekki nægja að draga upp mynd af taugaveikluðum, norrænum mönnum og bregða gagnrýnu ljósi á þær villuhugmyndir sem ríktu í kynþáttamálum á 15. öldinni, heldur skapar hún aðstæður þar sem slíkar hugmyndir fá að einhverju leyti byr undir báða vængi. Þessar aðstæður eru í eðli sínu yfirnáttúrulegar, enda er Naaja enginn venjulegur inúíti. Hún er útvalin af æðri máttarvöldum til þess að miðla á milli manna og guða – hjálparandar inúítanna anda í gegnum hana. Þessi eiginleiki hennar kemur heim og saman við þær hefðbundnu villuhugmyndir sem hvítu mennirnar gera sér um inúítana. Í augum margra þeirra eru hinir heiðnu skrælingjar nátengdir myrkum öflum.

Hrafninn er hugvekja um stað og staðleysi. Naaja horfir inn í tómið og tómið horfir inn í hana. Og þótt lausnin á þrautagöngunni jaðri við að vera deus ex machina er ýmislegt heillandi við niðurlag sögunnar, ekki síst upprifjun Naaju á helstu atriðum ævi sinnar, eins konar samantekt sögunnar allrar. Ég man ekki eftir að hafa séð neitt þessu líkt annars staðar en í To Kill a Mockingbird eftir Harper Lee. Sagan endar svo á atriði sem er óbeint framlag til þess að skýra gátuna um brotthvarf norrænna manna á Grænlandi. Það er ljóst að Vilborg Davíðsdóttir hefur ekki kastað til höndunum í sagnfræðilegri og landfræðilegri rannsóknarvinnu, og fyrir vikið er Hrafninn jarðbundin og vitsmunaleg saga, blönduð með hóflegri spennu og fantasíu. Hér eru engin veruleg nýmæli á ferðinni heldur dágóð dægradvöl.

(Víðsjá, 6. janúar 2006)