Ingunn Snædal: Í fjarveru trjáa

Hjalti Ægisson, ágúst 11, 2010

Í byrjun árs 1976 söfnuðust milli 1100 og 1200 manns saman í Háskólabíó og troðfylltu sal eitt, ekki til að mótmæla verðbólgunni sem þó var rúmlega 40% um þetta leyti, heldur til þess að hlusta á skáld lesa ljóð. Það voru listaskáldin vondu sem héldu uppi fjörinu, þessi sundurleiti hópur sem stundum var kallaður „fyndna kynslóðin“. Á þessum árum urðu vatnaskil í íslenskri ljóðagerð; flest skáld sem hafa náð einhverri fjöldahylli á þeim tíma sem síðan er liðinn hafa annað hvort tilheyrt þessum skáldahópi eða beitt svipuðum aðferðum og þau. Jafnvel þau ljóðskáld sem hafa snúist gegn listaskáldunum vondu á beinskeyttan hátt (og hér er Kristín Svava Tómasdóttir nærtækt dæmi) hafa gert það með vopnum þeirra sjálfra: Usla, íróníu og útúrsnúningi.

Ljóðskáldið Ingunn Snædal er skilgetið afkvæmi fyndnu kynslóðarinnar; innkoma hennar á ljóðasviðið er ekki til marks um neina róttæka breytingu á því sem þar hefur verið ríkjandi að undanförnu. En ljóð hennar eiga ekki minna erindi fyrir vikið; raunar á skemmtilegur og heiðarlegur skáldskapur alltaf erindi, og ef lýsa ætti ljóðum Ingunnar Snædal í tveimur orðum væri líklega best að nota þessi tvö orð: Skemmtileg og heiðarleg. Þriðja og nýjasta bók Ingunnar, Í fjarveru trjáa, kom út fyrr á þessu ári og í henni ferðast skáldið hringveginn, frá Seyðisfirði til Vöðlavíkur. Látum okkur ekki detta í hug að hér sé vísvitandi verið að keyra öfugan hring miðað við Jón Helgason í „Áföngum“ og snúa þannig kæruleysislega upp á menningararfinn. Sú atlaga var reyndar gerð fyrir tæpum þrjátíu árum í þeirri stórsnjöllu ljóðabók Dropi úr síðustu skúr eftir Anton Helga Jónsson, en ljóðaflokkurinn „Farsælda Frón“ sem þar er að finna er að mörgu leyti forspá um ljóð Ingunnar Snædal. Staðreyndin er auðvitað sú að hringvegurinn er það form sem margir ferðalangar, bæði innfæddir og erlendir, nota til að kynnast Íslandi, og því er hægt að segja að Ingunn velji sér „eðlilega“ nálgun.

Það sem gerir landslagið aðlaðandi í meðförum Ingunnar í þessari ljóðabók er sá einlægi skortur á upphafningu sem er allsráðandi. Hér er ekkert heilagt við landslagið; maður bara skellir sér til sunds í hólmanum, pissar í grasið, skellir lambasneiðunum á grillið. Það er ekkert ógnvekjandi eða hættulegt við landslagið, enda bíllinn hlýr og þægilegur og nóg af góðum diskum til að setja í spilarann. En ferðalangurinn er sér meðvitaður um að þessi þægindi eru ekki sjálfgefin. Þau sannindi eru ákvörðuð með samanburði á tímaskeiðum, t.d. við Lindahraun þar sem hugurinn hvarflar til Fjalla-Eyvindar:

til að skilja
aðeins örlítið
þyrfti að koma að vetrarlagi
ganga hrasandi yfir öræfin
illa klædd berfætt í vondum skóm
marin blá ísköld rifin
skítug í rimpuðum fötum
með galtómt kælibox
gemsalaus

Nöfn á landslagi eru eitt af meginstefjum bókarinnar, en hugleiðingar um samspil þessara merkimiða og staðanna sem þeir merkja, eru algengar. Stundum er spunnin saga út frá örnefninu, líkt og í ljóðinu „Skessugarður“ þar sem leitað er til sögunnar um Búkollu eftir ímyndaðri útskýringu. Ísafjörður við Skutulsfjörð verður bær sem stendur við rangan fjörð, og það er ekki alveg á hreinu hvort gagnsæ og lýsandi staðanöfn á borð við Gil, Mýrar og Fell eru

snilldarlegur einfaldleiki
eða átakanleg hugmyndafæð?

En ferðalýsingarnar í Í fjarveru trjáa fela líka í sér mannlýsingu, því ljóðmælandinn sjálfur er a.m.k. jafnáberandi og landið. Í því samhengi skiptir nokkru máli að ferðamyndirnar eru ekki allar frá sama tímaskeiði og sú sem talar því á ýmsum aldri; á Hvammstanga er hún ung, óreynd og ástfangin og trúlofar sig með Cat Stevens í kassettutækinu, en norður á Ströndum er úti um sambandið – hún er löngu hætt að elska hann en verður samt bálreið þegar hún kemst að því að hann hefur haldið fram hjá henni. Við Vatnsdalshóla er svo einhver sátt sem ríkir, lífsreynsla, tilfinningalegt jafnvægi og börn í aftursætinu. Þannig erum við minnt á að mynd okkar af landinu er um leið mynd okkar af okkur sjálfum. Þessi hugmynd er gjarnan sett fram í formi hugleiðinga um möguleika landslagsins, og lesandinn fær á tilfinninguna að þeir möguleikar séu fyrst og fremst byggðir á reynslu:

ef einhver
kastar í þig trúlofunarhring
á klettunum við kirkjuna
og keyrir svo brjálaður
á brott
er gott að setjast fyrir framan
læstar kirkjudyrnar
og skæla góða stund

Samanburður við næstu bók Ingunnar á undan þessari, Guðlausir menn, leiðir í ljós að munurinn felst ekki síst í tímaskynjuninni. Í Guðlausum mönnum er aðeins eitt ferðalag, einn þráður sem gengur í gegnum allt verkið, en í Í fjarveru trjáa er tíminn meira á floti, ferðalögin eru fleiri; hversu mörg vitum við ekki. En ef finna ætti einhverja haldbæra útskýringu á vaxandi vinsældum Ingunnar Snædal sem ljóðskálds væri helst að nefna að hún bregður á leik með það kunnuglega í tilverunni, alveg eins og listaskáldin vondu gerðu á sínum tíma. Í ljóðinu „topptíu sólsetur“ er ekki eitt einasta sólsetur tilnefnt, því

allir
geta fundið
sitt eigið

og að sama skapi má segja að allir geti búið til sín eigin vegaljóð. Ingunn Snædal er búin að deila sínum með okkur, og hafi hún þökk fyrir. Í fjarveru trjáa er sniðug og notaleg hugleiðing um raungervingarferlið sem á sér stað þegar við ferðumst um landið og sjáum nöfnin á landakortinu lifna við.

(Víðsjá, 9. desember 2008)