Kristín Eiríksdóttir: Annarskonar sæla

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

Þegar litið er yfir íslenska ljóðskáldahópinn í heild sinni lendir Kristín Eiríksdóttir óhjákvæmilega í hópi byrjenda, en þó er tvennt sem þarf að hafa á hreinu strax í upphafi. Annars vegar það, að það er enginn byrjendabragur á ljóðum Kristínar. Hins vegar það, að ljóðabækur Kristínar eru ekki fyrir byrjendur, svo torskildar sem þær eru. Og þó kann að vera að þær séu hentugur byrjunarreitur fyrir lítt vana ljóðalesendur einmitt vegna þess að þær eru hluti af því nýja upphafi, þeirri uppstokkun, sem hermt er að hafi átt sér stað á allra síðustu árum, og er gjarnan kennd við ljóðlistarhópinn Nýhil.

En það er snúið að negla ljóðin hennar Kristínar Eiríksdóttur niður, fullyrða nokkuð um það með vissu hvernig þau eru, hvað þau eru. Það er miklu auðveldara að átta sig á því hvað þau eru ekki. Í ljóðum Kristínar er ekki að finna sömu mannúðlegu hnyttnina og ljóð Ingunnar Snædal, þau einkennast ekki af sömu vitstola firringunni og ljóð Gísla Þórs Ólafssonar, og ekki af eitraðri kaldhæðni eins og ljóðaverk Eiríks Arnar Norðdahl. Og þó kann að vera að ljóð Kristínar innihaldi þetta allt saman: Hnyttni, firringu og kaldhæðni. Sannleikurinn er sá að ljóð Kristínar eru galopinn texti, þau krefjast mjög virkrar þátttöku lesandans og minna að sumu leyti á myndaþrautirnar sem stundum birtast í barnablöðum – þrautirnar þar sem maður á að teikna strik á milli númera svo að út kemur mynd. En ekki einu sinni sú samlíking veitir endanlegt svar, því númerin hjá Kristínu Eiríksdóttur eru á sífelldu iði, og telji maður sig eina stundina geta teiknað rökrétta mynd út úr þeim er ekki víst að sú sannfæring endist lengi.

Annarskonar sæla er að ýmsu leyti lík fyrri bókum Kristínar. Form ljóðanna er þó breytt að því leyti að upplausnin er meiri en áður, þetta eru ekki smáprósar heldur stutt fríljóð með endurteknum stefjum á köflum. Bókin skiptist í fjóra hluta. Fyrsti hlutinn er lýsing á ferðalagi: Ljóðmælandinn ferðast með sporvagni, gengur yfir brú, inn um dyr og upp stiga til fundar við mótleikara. Síðan er farið til baka sömu leið með sporvagninum. Það liggur ekki ljóst fyrir hvort ljóðmælandinn er karl eða kona, en viðtökusaga ljóða Kristínar Eiríksdóttur samanstendur í meginatriðum af tilraunum til að lesa kynhlutverk inn í textann. Kjötbærinn og Húðlit auðnin, fyrri bækur Kristínar, fjalla báðar um konu eða stúlku sem býr með karlmanni, og ýmislegt bendir til þess að þar sé fjallað um kúgun, heimilisböl og óhamingju. Það er forvitnilegt hvernig karlmönnunum er lýst; þetta eru augljóslega hrottar og illmenni, en þó eru lýsingarnar á þeim blandnar aðdáun og væntumþykju.

Í öðrum hluta Annarskonar sælu er brugðið upp myndum af daglegu lífi; þarna er íbúð, hjónarúm, þvottapoki, pantaður grillkjúklingur og fólk sem leiðist og borðar ís. En líkt og í fyrsta hlutanum hefur innri einræðan meira vægi en þær ytri aðstæður sem lýst er. Sá túlkunarmöguleiki skýtur upp kollinum að hér sé lýst vímu eða sturlunarástandi – það er jú talað um bobblandi eitur og sprautu sem stingst í nárann. Ávörp koma til sögunnar í öðrum hluta og halda svo áfram bókina á enda; einhver er ávarpaður, kannski er það ástmaður ljóðmælandans eða sambýlismaður. Það er svo í þriðja og stysta hluta verksins sem stígandin nær hámarki: Ávörpin verða að skipunum. „komdu á mig annars sker ég þennan háls í sundur,“ segir undir lok þriðja hluta. „hann er ungur þessi háls komdu annars sker ég“. Tómarúmið sem er búið að vaxa frá því í upphafi bókarinnar er nú orðið alveg yfirþyrmandi, og það er undirstrikað með stuttum línum og höktandi hrynjandi. Fjórði og síðasti hluti bókarinnar heitir „Stóri hvíti maður“ og er lýsing á ferðalagi, líkt og fyrsti hlutinn. Að þessu sinni er þó um að ræða ferðalag til útlanda, líklega til Asíulands, kannski Tælands. Nú er ljóðmælandinn að mestu leyti óvirkur andspænis gerandanum, ferðafélaga sínum, stóra hvíta manninum. Augnaráðið er í aðalhlutverki, og það er undirstrikað með upphafslínunum: „ég sé í gegnum þig“.

Sú þokukennda rýmisskynjun sem við þekkjum úr fyrri bókum Kristínar Eiríksdóttur er eitt af aðalsmerkjum Annarskonar sælu. Nokkrar vísbendingar eru hér um raunverulega staði: Mjódd, Grensásvegur, Miklabraut, Kringlan, en við erum litlu bættari þó við reynum að lesa einhverja merkingu út úr þeim. Raunveruleikinn sem lýst er í Annars konar sælu er hafinn yfir áþreifanlega staði. Nærvera þeirra er hins vegar til þess fallin að gefa hugarástandinu sitt sérstaka bragð. Þegar vel er að gáð má líka sjá að það eru sums staðar tengsl í orðavali við næstu bók á undan, Húðlita auðnina. Þetta rennir líka stoðum undir þann grun að það sé hyggilegast að lesa Annarskonar sælu sem brot af stærri heild – bókin græðir tvímælalaust á því að vera lesin í samhengi við hinar bækurnar tvær. En sú spurning vaknar hversu lengi leit Kristínar Eiríksdóttur að þolmörkum forms og stíls getur haldið áfram, án þess að snúast upp í fyrirsjáanlegt og endurtekningasamt stagl. Þeirri spurningu verður auðvitað að svara í hvert skipti sem hún skrifar nýja bók. Svarið að þessu sinni er á þá leið að Annars konar sæla sé lestrarins virði, og vel það. Mér er hálfilla við að endurtaka hér klisjuna um að Kristín Eiríksdóttir standi feti framar en kollegar hennar sem kenna sig við Nýhil, en að vel athuguðu máli held ég að sú klisja sé klisja einmitt vegna þess að hún er sönn.

(Víðsjá, 30. október 2008)

Guðmundur Andri Thorsson: Segðu mömmu að mér líði vel

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

„Saga um ástir“ er undirtitill þessarar fimmtu skáldsögu Guðmundar Andra Thorssonar, og er það síst rangnefni, enda vel hægt að fullyrða að ástin sé bindiefni sögunnar. Sögumaðurinn Einar er arkitekt á fimmtugsaldri og býr með öldruðum föður sínum. Hann á einn son úr fyrra sambandi, sambandi sem í raun varð aldrei meira en nokkurra mánaða reytaruglingur. Hann er nú í sambandi með Kötu, konu á svipuðum aldri og hann, þótt þau búi ekki saman. Einar og Kata verða kærustupar á fimmtugsaldri, og hún á líka son úr fyrra sambandi. Dag einn fer Kata norður á Akureyri að heimsækja son sinn, og á meðan lætur Einar hugann reika til liðinna atburða, fólks sem hann hefur kynnst um ævina, gamalla sendibréfa og umliðinna ásta.

Svona er þetta nokkurn veginn, en líkt og með flestar aðrar bækur Guðmundar Andra er þó vart nema hálf sagan sögð þótt reynt sé að endursegja hana. Það er svo margt sem tapast í endursögninni, enda gerist sagan að miklu leyti á öðrum plönum en í söguflækjunni. Hér gerist vissulega eitt og annað, það er greint frá ýmsum frásagnarverðum atburðum, en það er ekki endilega þannig að á milli þeirra sé röklegt samhengi, eða einn atburður leiði af þeim næsta á undan. Frásagnaraðferðin byggist fyrst og fremst á hugleiðingu – sögumaðurinn rifjar upp liðna tíma og veltir vöngum um stöðu sína í heiminum. Þetta má með réttu kallast raunsæisleg aðferð, enda skynjum við veruleikann að miklu leyti sem blöndu minninga og raunverulegra upplifana. Og við vissar kringumstæður er ekkert raunverulegra en einmitt minningarnar.

Tengsl mannsins við umhverfi sitt er eitt af meginstefjum þessarar bókar. Sögumaðurinn Einar er arkitekt og fæst við að hanna rými og búa til íverustaði handa öðru fólki. En hann veit þó að lífið er flóknara en svo að það megi temja með hornréttum veggjum, og veggirnir eru líka lítils virði án fólksins. „Því að hús er ekki bara hús,“ segir hann. „Hús er ekki bara form og litur, ekki bara veggir og gluggar, ekki einu sinni þótt innréttingar bætist við – og ekki einu sinni þó að sushi-réttirnir séu í sétteringum við sólbekkina. Hús er miklu fremur vettvangur. Hús er dagarnir sem liðu, allar næturnar, jólin og fermingarveislurnar, allir búkarnir sem þar hafa búið, allt fótatakið.“  Þetta er hin kunna „in-der-Welt-sein“-formúla Heideggers: Maður og heimur eru ekki tvö sundurgreinanleg fyrirbæri. Heimurinn er ekki aðskilið viðfang frá manninum, maðurinn stendur ekki andspænis heiminum eins og viðskiptavinur andspænis gjaldkera, heldur er heimurinn hluti af manninum. Tilvera mannsins breytist eftir því sem heimurinn breytist.

En Segðu mömmu að mér líði vel er umfram allt bók um samskipti fólks, sambönd og sambandsleysi. Öll sagan er bið eftir símtali. Einar nær ekki í Kötu, hún er með slökkt á símanum, og í biðinni eftir að síminn hringi kvikna minningar um liðna tíma. Þessi bið endurspeglar einhverja stærri bið í lífi Einars og Kötu. „Við vorum að bíða eftir einhverju,“ segir hann. „Við vorum að bíða eftir því að við yrðum ein. Samt vorum við alltaf ein.“ Og Guðmundur Andri Thorsson bregður upp myndum af fleiri samböndum sem kvikna og þróast. Sögunni er vikið aftur á 6. áratuginn þegar foreldrar Einars kynnast, en sú ástarsaga er um leið óður Andra til íslenskrar dægurtónlistar. Ragnar, faðir Einars, er á yngri árum saxófónleikari í Danshljómsveit Binna Frank, og móðir hans gerist söngkona í sömu hljómsveit. Samband Einars við föður sinn er allrar athygli vert, ekki síst fyrir þá þversögn að þeir þurfa fjarlægð hvor frá öðrum til að geta verið nánir. Á námsárum Einars í Danmörku skrifar faðir hans honum fjölda bréfa þar sem hann gerir upp fortíðina og framkomu sína gagnvart eiginkonu sinni. Þær minningar eru langt í frá sársaukalausar. Hinn opni endir sögunnar er líka tengdur föðurnum, það er komið að kaflaskiptum í lífi Einars og hinn mildi húmaníski tónn frásagnarinnar hæfir vel til að búa í haginn fyrir hið kyrrláta og ljóðræna lokaaugnablik; bát á lygnum sjó og ófullgerðan himin.

Segðu mömmu að mér líði vel er hagleikssmíði, og þótt það sé skoðun sögumannsins að maður skynji aldrei hina afmörkuðu stund, virðist mér það einmitt vera hún sem Guðmundur Andri Thorsson geri atlögu að í þessari bók. Yfirborð sögunnar er nefnilega rammbundið samtímanum, þótt kjarninn sé tímalaus. Hér er ýmsum einkennum nútíma og neysluþjóðfélags lýst í góðlátlegum hæðnistón, þótt ekki sé háðið í forgrunni verksins. Atferli og hugðarefni persóna eru líka ákaflega samtímaleg; þetta er ekki fólk sem setur á langar ræður um réttlæti og ranglæti, syndina eða lífsgæðakapphlaupið, heldur venjulegar manneskjur sem fara út að ganga með hundinn, segja börnunum sínum bullsögur, raula lagið úr Rúmfatalagersauglýsingunni og spila badminton. Þjóðfélagslega víddin sem einkennir Íslenska drauminn, skáldsögu Andra frá árinu 1991, er ekki til staðar hér, a.m.k. ekki í sama mæli. En það er óneitanlega upplífgandi tilhugsun að nú, þegar íslenskar sagnabókmenntir snúast að mestu leyti um stóru línurnar, hvort sem það er Íslandssagan eða valdajafnvægið í þjóðfélagi samtímans, skuli finnast höfundar sem leitast við að skoða hversdagslífið á skáldlegan hátt. Guðmundur Andri Thorsson er dæmi um slíkan höfund, og fyrir vikið hlýtur sérstaða hans að vera hafin yfir vafa.

(Víðsjá, 28. október 2008)

Stefán Máni: Ódáðahraun

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

Stefán Máni er þungarokkarinn í hópi íslenskra skáldsagnahöfunda. Í bókum hans hafa íslenskir lesendur um nokkurt skeið átt sér athvarf þar sem hægt er að stilla allt í botn og heddslamma duglega í takt við tryllingslegt gargið. Yfirdrifinn stíll, svæsið ofbeldi, illskan í manninum – allt eru þetta áberandi einkenni á bókum Stefáns Mána. Útkoman hefur auðvitað verið misjöfn eins og gengur, en efnistökin oft með svipuðu sniði. Ódáðahraun, nýjasta afurðin, er biti í þessu sama púsli. Hér segir frá hrottanum og fíkniefnabaróninum Óðni R. Elsusyni og ævintýrum hans. Óðinn er kunnugleg persóna, séu eldri verk sama höfundar höfð til hliðsjónar; metnaðarfullur efnishyggjumaður, eitursnjall demón. Eftir örstutt yfirlit yfir æsku þessarar andhetju á fyrstu síðum bókarinnar fylgjum við Óðni þar sem hann þeysir á kolsvörtum pallbíl út í óbyggðir til fundar við litháenskan dópsmyglara. Þannig fáum við strax tilfinningu fyrir nýstárlegri sýn á háleitt og hrikafullt landslag íslenska hálendisins; hér er það hin hagnýta náttúruskynjun glæpamannsins sem ræður ríkjum, og endurspeglast í titli bókarinnar. Ódáðahraun, stærsta samfellda hraunbreiða landsins, er ekki bara forvitnilegt, náttúrufræðilegt rannsóknarefni eða skáldlegt innblástursefni heldur líka kjörlendi fyrir hvers kyns myrkraverk. Þar sem víðsýnið skín og háfjöllin heilög rísa – þar er líka með góðu móti hægt að grafa lík eða versla með amfetamín án þess að hafa neinar áhyggjur.

En þegar betur er að gáð er nöturlegt hraunið ekki sögusvið verksins nema að mjög litlu leyti, og því undir hælinn lagt hvort bókartitillinn hæfi sögunni, þótt hann sé flottur. Hér er það nefnilega viðskiptalífið sem fær mesta plássið, og þeir sem ætluðu að gleyma sorgum sínum, myntkörfulánum og eignatapi – þeir gætu orðið fyrir vonbrigðum við lesturinn. Spennan í sögunni snýst nefnilega að stórum hluta um kaup og sölu verðbréfa, aukningu hlutafjár, frestun hlutahafafunda og fleira í þeim dúr. Það eru dálítil vonbrigði að Óðinn R. Elsuson, þessi svívirðilegi ofbeldishundur, skuli ekki fá verðugri verkefni í þessari sögu, og er hann þó í mynd næstum allan tímann. Það er lítið um pyntingarsenur og bílaeltingaleiki hér, en þeim mun meira af fjasi um viðskiptamál. Nú er ég ekki að segja að slíkir hlutir séu með öllu óspennandi, og það er alveg ábyggilegt að mér fjármálafróðari menn ættu að geta haft djúpa nautn af því að lesa um þær leikfléttur sem hér eru settar á flot. Stefán Máni hefur heldur aldrei verið þekktur fyrir að vinna ekki heimavinnuna sína: Skipið er t.a.m. skáldsaga sem ber þess greinileg merki að vera skrifuð af fróðleiksfúsum höfundi sem hefur sjálfur verið á sjónum og kjaftað við reyndustu togarajaxla. Og gleymum ekki Svartur á leik, doðrantinum sem Stefán Máni skrifaði eftir gaumgæfilega rannsóknarvinnu meðal dílera og handrukkara.

En samslátturinn sem virðist vera markmið Ódáðahrauns, gagnkvæm speglun glæpa og viðskipta, finnst mér bara ekki ganga upp. Líkamlegt ofbeldi og kænska í viðskiptum eru, þrátt fyrir allt, ekki sami hluturinn, og það er frásagnarfræðilegur slóðaskapur að láta sögupersónu grípa til þess fyrrnefnda þegar hún kemst í þrot með hið síðarnefnda. Óðinn R. Elsuson er einhliða karakter, fulltrúi fyrir heim glæpa og fíkniefna, en sú hlið hans fellur alveg í skuggann þegar hann eltist við vísbendingarnar sem honum er gert að vinda ofan af, hvað þá í atriðunum þegar hann situr áhugalaus og geispar undir löngum romsum Viktoríu, samverkakonu sinnar, um aðsteðjandi ógnir í átökum um hlutabréfin. Upplýsingaflæði sögunnar felst að verulegu leyti í þessu sambandi meistarans og lærlingsins. Óðinn er lengst af fullkomlega tómlátur um þá flóknu vefi viðskiptalífsins sem hann flækist í, en svo allt í einu, eins og upp úr þurru, verður algjör viðsnúningur, og hann tekur málin í sínar hendur.

Persónusköpunin í Ódáðahrauni er hvorki tilþrifamikil né eftirminnileg – til þess er söguflækjan of yfirþyrmandi. Meitlaðir frasarnir sem enduróma sem mottó í upphafi hvers kafla, bæta þar litlu við. Þá gríðarlegu keyrslu sem einkenndi frásögn Skipsins er hér hvergi að finna, m.a. vegna þess að hér er aðeins ein aðalpersóna sem nær einhverju máli, en ekki níu, og þar með enginn möguleiki á hröðum skiptingum milli sögusviða, aðeins einn þunnur þráður en ekki margir súrraðir saman. Yfirborðslegar vísanir í norræna goðafræði og klaufalegur ástarsögu-útúrdúr duga heldur ekki til að setja neina vigt í textann.

Að lokum má nefna að skáldsagan Ódáðahraun hefur í auglýsingum verið kölluð „grafskrift íslenska hlutabréfaævintýrisins“, hvorki meira né minna, og má af því ráða að hér sé eitthvert hugmyndafræðilegt uppgjör í gangi, einhver róttæk endurskoðun á viðhorfunum í Íslandssögu allra síðustu ára, í takt við það sem nú heyrist í öllum fréttatímum. Ekkert er hins vegar fjær sanni. Ódáðahraun er ekki tímabærari núna heldur en hún hefði verið fyrir, segjum, tveimur árum, því hún er ekki bara algjörlega hefðbundin í forminu, heldur hvílir hugmyndaheimur verksins á því óorðaða viðhorfi að bisnissheimurinn sé hinn æðsti vettvangur mannlegrar hugmyndaauðgi, að klækir í viðskiptum séu aðdáunarverðir, vel heppnaðir bissnissdílar frábært söguefni. Að skreyta slíka hálfvelgju með merkimiðanum „grafskrift“ þykir mér þess vegna nokkuð djúpt í árinni tekið, og eiginlega hálfgerð öfugmæli.

(Víðsjá, 23. október 2008)

Ármann Jakobsson: Vonarstræti

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

Íslensk stjórnmálasaga er sambærileg við fótbolta að því leyti að hún verður áhugaverðari ef maður á sér uppáhaldslið. Ef samúð okkar og væntingar eiga sér fulltrúa á átakavelli sögunnar verðum við næmari fyrir samhengi og átakalínum, og við munum hlutina betur. Í þessu felst oft styrkleiki sögulegra skáldsagna: Þær eru gjarnan skrifaðar út frá sjónarhóli einhvers þáttakanda í atburðarásinni í stað þess að reyna að lýsa málunum hlutlaust og að ofan. Aðalpersónurnar fá þá það rými sem þær þurfa til að standa skil á sinni afstöðu og andstæðingar þeirra eru gagnrýndir, hafi þeir til þess unnið.

Vonarstræti Ármanns Jakobssonar er glimrandi dæmi um svona sögu. Þetta er heimildaskáldsaga, og hún er ekki síst áhugaverð vegna þess að höfundurinn leyfir sér að hafa skoðanir á þeim atburðum sem hann lýsir. Fyrir vikið færist meira líf í textann og við fáum á tilfinninguna að hér tali höfundur sem láti söguna skipta sig einhverju máli. Hjónin Skúli og Theódóra Thoroddsen eru hér í forgrunni, og aðdáun Ármanns á framgöngu þeirra leynir sér ekki. Þetta ber þó ekki að skilja svo að verkið sé ein samfelld lofrulla um Skúla og Theódóru, því veikleikar þeirra og sérviska eru líka dregin fram. Það er t.a.m. fullyrt að Skúli hafi oft sett þjóðmálin ofar fjölskyldunni. Síðustu æviárin einangrast Skúli frá konu sinni og börnum; hann borðar einn inni á vinnustofu sinni en ekki inni í eldhúsi með hinu fólkinu. Og þótt mótstöðumenn Skúla séu sýndir í gagnrýnu ljósi eiga þeir líka sín fallegu augnablik. Ein áhrifaríkasta mynd sögunnar er myndin af Hannesi Hafstein þar sem hann situr hnipinn á kirkjubekk í jarðarför Skúla vorið 1916.

Skúli og Theódóra Thoroddsen voru gáfað og hugmyndaríkt fólk, og fyrir vikið er með góðu móti hægt að gera tal þeirra og hugsanir að farvegi fyrir alls kyns frjóar vangaveltur. Það er líka forvitnilegt hvernig skyggnst er á bak við tjöld sögunnar í þessu verki: Þegar millilandanefndin fer heim til Íslands verða Skúli og Theódóra ein eftir í Kaupmannahöfn því Skúli liggur veikur á sjúkrahúsi. Stuðningsmenn Skúla reyna hvað þeir geta að gera lítið úr sjúkrahúslegunni, því það gæti orðið málstaðnum til trafala ef helsti málsvari hans sýnir veikleikamerki. Þannig er sýnt fram á bilið á milli hinnar opinberu ímyndar og þess sem raunverulega gerist. En hér er þó fjöldi annarra persóna en bara Skúli og Theódóra, og flestar eru þær byggðar á raunverulegu fólki. Kennarinn Ármann Jakobsson hefur kosið að birta nafnalista aftast í bókinni þar sem sögð eru deili á flestum persónunum.

Vonarstræti er vel afmörkuð skáldsaga, stutt og snörp. Hún gerist að stærstum hluta árið 1908, frá því að millilandanefndin kemur til Kaupmannahafnar í febrúar og þar til Uppkastið er fellt í kosningum í september. Þessi tiltölulega stutti sögutími er þó aðeins skurðpunktur annarra og viðameiri þráða sem ná yfir mun lengri tímabil, bæði til fortíðar og framtíðar. Sögupersónur eru hér skoðaðar bæði í ljósi þess sem þær hafa áður gert og þess sem þær eiga eftir að gera mörgum árum seinna. Theódóra Thoroddsen stendur hér mitt á milli þess að vera unga sýslumannsfrúin sem stendur við hlið bónda síns í Skúlamálum, og þess að vera þuluskáldið Theódóra, kommúnistinn Theódóra og einn af brautryðjendum módernískrar ljóðagerðar á Íslandi. Þannig er mannskilningur þessarar skáldsögu: Sérhver manneskja er summa af reynslu og möguleikum. Einhver kynni að segja að hér sé skáldskapurinn farinn að þoka fyrir sagnfræðinni, rithöfundurinn Ármann Jakobsson fyrir fræðimanninum. En að mínu mati er þetta einmitt áhugaverðasta hlið verksins. Vonarstræti spannar ekki langan tíma, en sögumaðurinn smíðar ótalmargar brýr yfir í önnur tímabil; söguleg yfirsýn er hér m.ö.o. afar mikil. Sagan er sögð frá sjónarhóli þess sem þekkir afdrif og arfleifð sögupersónanna og framtíðin er notuð sem mælikvarði á atburði í fortíðinni, ekki ósvipað og í sagnaflokki Péturs Gunnarssonar, Skáldsögu Íslands, svo hliðstætt dæmi sé tekið.

Í Vonarstræti er líka brugðið á leik með hefðbundnar söguskýringar og túlkanir. Þannig er t.d. vakin athygli á þeirri lítt kunnu en augljósu staðreynd að róttæklingurinn Skúli Thoroddsen var líka mikilvirkur kapítalisti; hann stundaði verslunarrekstur og var leikinn að græða peninga; miklu meiri bissnessmaður en t.d. Hannes Hafstein, sem þó hefur lengi verið átrúnaðargoð íslenskra viðskiptajöfra.

Vonarstræti er skrifuð af innlifun – ég segi ekki af sama hamslausa ákafanum og Ofviti Þórbergs, þar sem lýst er stjórnmálabaráttu sama tímabils – en áhrifin af lestrinum eru allténd þau að þessi lokasprettur sjálfstæðisbaráttunnar verður giska áþreifanlegur: Uppkastið, blaðamannafrumvarpið, útisamkoman í barnaskólaportinu – allt verður þetta jafn ljóslifandi og bankakreppa, skortsala, stýrivextir. Því þetta er þjóðfélagsleg saga, og víst er að hér er nægur efniviður til að koma á tengslum milli sögutímans og okkar samtíma, láta 1908 kallast á við 2008. Nú þegar hæst er hrópað um að allir Íslendingar þurfi að snúa bökum saman, við séum öll á sama bátnum í sama brimrótinu og þar fram eftir götunum, þá er sannarlega tilefni til þess að rifja upp söguna af Skúla og Theódóru – og draga af henni þá lærdóma sem okkur þykja viðeigandi.

(Víðsjá, 21. október 2008)

Vilborg Davíðsdóttir: Hrafninn

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

Söguhetjan er munaðarleysingi. Það eru galdrar í þessari sögu, frumstæður þjóðflokkur, mentor í hrafnslíki, hjálparhella sem er hundur, spilltir trúarleiðtogar, forboðin ást – bætum við nokkrum söngatriðum og útkoman er Disneyteiknimynd. Nei annars, þetta er ekki alveg svo einfalt. Þótt Hrafninn eftir Vilborgu Davíðsdóttur sæki talsvert í formúlubókmenntir er bara þónokkuð kjöt á (og jafnvel spik) á beinunum líka.

Hrafninn er saga um tvo heima. Aðalpersónan, inúítastúlkan Naaja, tilheyrir í raun hvorugum þeirra. Á sínum heimaslóðum er hún jaðarsett, hún fellur ekki inn í ríkjandi norm, ekki síst fyrir þá sök að hún getur ekki eignast börn og á þannig yfir höfði sér að vera útskúfuð sem blindgata í vegakerfi ættstofnsins. Þótt hún ferðist yfir í heim hvíta mannsins tekur ekki betra við þar, þetta er um miðja fimmtándu öldina og hugmyndir norrænna manna um frumbyggja Grænlands eiga sér djúpar rætur í hræðslu og fáfræði.

Saga Naaju kallast á við eitt og annað úr fyrri bókum Vilborgar, hún er systir þeirra Korku og Katrínar, rétt eins og þær er hún í sífelldri leit að samastað og viðurkenningu. Stærstur hluti sögunnar er sagður frá sjónarhorni Naaju og það er athyglisvert hvernig gildismat hennar og annarra inúíta í sögunni togast á við skilning hins innbyggða lesanda. Víðast hvar ganga inúítarnir út frá því sem staðreynd að hvítu mennirnir séu ekki manneskjur eins og  þeir sjálfir. Í lýsingum Naaju á háttum hvítu mannanna hefur hún alltaf til samanburðar þá siði sem eru „eðlilegir” í hennar augum, og nefnir gjarnan hvernig atferli hvíta mannsins er ólíkt því sem tíðkast hjá „venjulegu fólki”. Þannig er hin viðtekna, sögulega miðja skilgreind á forsendum jaðarsins. Um miðbik sögunnar er sjónarhornið víkkað út þegar önnur aðalpersóna stígur fram – Mikjáll, Íslendingur sem hefur búið á Grænlandi frá 12 ára aldri. Upp frá því er vitundarmiðjan hjá Mikjáli og Naaju til skiptis. Mikjáll kynnist Naaju þegar neyðin rekur hann til þess að eiga nánari samskipti við innfædda heldur en viðurkennt er að kristnum mönnum sé óhætt. Í augum hinna norrænu eru frumbyggjar Grænlands óheillaverur, hálfmennsk dýr sem hafa engan skilning á gegndinni og kristnu siðaboði.  Í samskiptum Naaju og Mikjáls rekast á tveir menningarheimar og af þeim árekstrum spretta ýmsar frjóar hugleiðingar í Hrafninum. Þau misskilja háttalag hvort annars í sífellu. Sá eini sem veit allan sannleikann er lesandinn, þökk sé frásagnaraðferðinni sem er frásögn hins alvitra sögumanns. Þannig felst í Hrafninum viss könnun á merkingu atferlis, einskonar mannfræðistúdía. Naaja og Mikjáll fylgjast hvort með öðru, annað grannskoðar athafnir hins og getur stundum ómögulega greint á milli þeirra sem eru hlaðnar merkingu og ásetningi, og hinna sem eru merkingarlausar. Naaja gengur um hálfber í híbýlum sínum og finnst ekkert athugavert við það, en Mikjáll túlkar það sem siðleysi. Hin taugaveiklaða trúarafstaða norrænna manna er sömuleiðis eitthvað sem Naaju gengur illa að skilja, rétt eins og sú sterka einstaklingshyggja sem setur svip sinn á samfélag þeirra.

Það er snemma nefnt að augu Naaju eru „full af sjó” eins og hinir inúítarnir orða það – þau eru blá en ekki brún og fyrir vikið þarf hún að mæta miklum mótbyr hjá sínu eigin fólki. Það sem hún ekki veit fyrr en hún er komin til vits og ára er að hún á ættir að rekja til hvítra manna, og er þess vegna gædd eiginleika sem er framandi á hennar heimaslóðum. En auðvitað dugir þetta ekki til viðurkenningar hjá landnemunum heldur. Samband Naaju og Mikjáls er merkt glötuninni frá upphafi, það getur ekki enst því það er andsnúið siðalögmálum beggja heimanna. Mikjáll sjálfur á sér ófínan uppruna í fjarlægri fortíð. Þau eru því bæði „mitt á milli” í vissum skilningi. En ferðalagið á milli heimanna tveggja staðfestir söguskoðun sem er ríkjandi á okkar dögum, og því kannski ekki sérstaklega frumleg: Kreddurnar og þröngsýnin í menningu og trúarbrögðum hvíta mannsins er engu minni en það sem tíðkast hjá inúítunum. Það sem kallast vestræn siðmenning á 15. öld grundvallast á tvöfeldni og sérhagsmunahyggju. En þessi tíðarandaádeila Hrafnsins á í nokkurri togstreitu við fantastísk einkenni sögunnar – Naaja er sem sagt göldrótt, hún hefur verið útvalin til þess að vera angakoq, þ.e.a.s. nokkurs konar andaprestur meðal inúíta. Vilborg Davíðsdóttir lætur sér þannig ekki nægja að draga upp mynd af taugaveikluðum, norrænum mönnum og bregða gagnrýnu ljósi á þær villuhugmyndir sem ríktu í kynþáttamálum á 15. öldinni, heldur skapar hún aðstæður þar sem slíkar hugmyndir fá að einhverju leyti byr undir báða vængi. Þessar aðstæður eru í eðli sínu yfirnáttúrulegar, enda er Naaja enginn venjulegur inúíti. Hún er útvalin af æðri máttarvöldum til þess að miðla á milli manna og guða – hjálparandar inúítanna anda í gegnum hana. Þessi eiginleiki hennar kemur heim og saman við þær hefðbundnu villuhugmyndir sem hvítu mennirnar gera sér um inúítana. Í augum margra þeirra eru hinir heiðnu skrælingjar nátengdir myrkum öflum.

Hrafninn er hugvekja um stað og staðleysi. Naaja horfir inn í tómið og tómið horfir inn í hana. Og þótt lausnin á þrautagöngunni jaðri við að vera deus ex machina er ýmislegt heillandi við niðurlag sögunnar, ekki síst upprifjun Naaju á helstu atriðum ævi sinnar, eins konar samantekt sögunnar allrar. Ég man ekki eftir að hafa séð neitt þessu líkt annars staðar en í To Kill a Mockingbird eftir Harper Lee. Sagan endar svo á atriði sem er óbeint framlag til þess að skýra gátuna um brotthvarf norrænna manna á Grænlandi. Það er ljóst að Vilborg Davíðsdóttir hefur ekki kastað til höndunum í sagnfræðilegri og landfræðilegri rannsóknarvinnu, og fyrir vikið er Hrafninn jarðbundin og vitsmunaleg saga, blönduð með hóflegri spennu og fantasíu. Hér eru engin veruleg nýmæli á ferðinni heldur dágóð dægradvöl.

(Víðsjá, 6. janúar 2006)

Óttar M. Norðfjörð: Barnagælur

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

„Barnagælur” – titillinn einn og sér kallar fram ónotakennd þegar maður veit um hvað þessi bók fjallar. Hér er botnlaus írónía á ferðinni, orðið endurspeglar sjúkleg viðhorf aðalpersónunnar sem finnst ekkert rangt við að börn fái að eiga í kynferðislegum samböndum við fullorðið fólk. Orðið „barnagælur” er í meðförum Óttars Norðfjörð skrauthvörf fyrir það sem venjulega er kallað níðingsskapur eða misnotkun á börnum.

Sagan er í stuttu máli þessi: Pétur B. Ásgeirsson er tæplega þrítugur lögfræðingur, frjálshyggjumaður og þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hann er einn vörpulegasti sonur íslenskrar yfirstéttar, fyrrum Morfíshetja, Inspector Scholae úr MR og framherji hjá KR, formaður Vöku og blaðamaður á Mogganum. Hann á fallega kærustu og birtist reglulega á síðum glanstímarita. En undir glæstu yfirborðinu er Pétur illa innrættur þrjótur, ofbeldisfullur hrotti, morðingi, og barnaníðingur. Kynhneigð hans hverfist um stelpur á aldrinum 6 til 9 ára og til að svala fýsnum sínum hefur hann gert samning við reykvíska dagmömmu um að fá reglulega aðgang að stelpunum sem hún passar og nauðga þeim gegn greiðslu. Einhverju sinni fyllist Pétur ótta um að leyndarmálið hans hafi komist upp, hann minnir að hann hafi ljóstrað því upp við einn kollega sinn á fylleríi. Til öryggis kemur hann félaganum fyrir kattarnef. Í morðrannsókninni sem fylgir í kjölfarið beitir Pétur svo áhrifum sínum til þess að beina sjónum lögreglunnar frá sjálfum sér.

Andstæðan á milli hinna tveggja persónuleika Péturs B. Ásgeirssonar er ekki sýnd með stigmagnandi afhjúpun heldur er ljóst frá byrjun að hann er illmenni. Á fyrstu síðum bókarinnar fær Pétur þær fréttir að móðir hans hafi dáið í bílslysi en hann verður ekkert sorgmæddur, bara pirraður, nennir ekki að standa í þessu veseni sem hann sér fram á að tilheyri því að fylgja ástvini til grafar. Bilið á milli þess sem Pétur þykist vera og þess sem hann er í raun og veru er svo mikið að það verður eiginlega kjánalegt, of augljóst einhvern veginn – hann fer t.a.m. í viðtöl og talar um mikilvægi þess að bæta hag nýbúa en er svo stækur kynþáttahatari inn við beinið.

Barnagælur sækir bersýnilega fyrirmynd í eldri sögur sem fjalla um díalektíkina á milli ríkjandi siðalögmála og þess demóníska sem býr innra með manninum. Það sem er nýstárlegt við bók Óttars Norðfjörð er ýkjustíllinn, hér er allt keyrt í botn og viðbjóðslýsingarnar svo vægðarlausar að þær eru ekki hafandi eftir í virðulegum fjölmiðli eins og þessum. Þetta er bók sem reynir á þanþol siðferðisviðhorfa og reynir hvað eftir annað að ögra lesandanum. Óttar Norðfjörð slær ítrekað saman tvennum öfgum – því „flottasta” í samfélaginu, þ.e. sjarmerandi persónuleika, ímynd, stíliseringu og hressileika, og því ljótasta (misnotkun barna). Hugmyndin virðist vera sú að láta þetta tvennt varpa ljósi hvort á annað og sýna fram á að þetta séu tvær hliðar á sömu geggjuninni sem ríkir í nútímanum.

Snemma við lesturinn vaknaði þó hjá mér þessi spurning: Er ég að lesa ádeilusögu? Og ef svo er, á hvað er þá verið að deila? Það er varla hægt að horfa fram hjá pólitískum skírskotunum þessarar bókar en andófsþátturinn virðist vera dálítið vanhugsaður. Pétur B. Ásgeirsson er jú í Sjálfstæðisflokknum, hann er góðkunningi Hannesar Hólmsteins og forsætisráðherrans D, og yfirlýstur frjálshyggjumaður. Það er eins og boðið sé upp á þann möguleika að setja einhver rökleg tengsl á milli barnamisnotkunar og hugmyndafræði frjálshyggjumanna. Þetta er auðvitað ekki sérlega sannfærandi kenning, en líkt og með öll skáldverk sem taka á umdeildum málum getur skapast hætta á því að viðtökur þessarar bókar snúist upp í meðvirkni með höfundinum á grundvelli þess að hann sé sömu skoðunar og lesandinn, að lesandinn taki viljann fyrir verkið og fyrirgefi ýmsa vankanta á verkinu (sem sannarlega eru til staðar hér) þar sem boðskapurinn sé svo góður. Að mínu mati fellur pólitískt andóf Barnagæla um sjálft sig einmitt vegna þess hversu öfgakenndur framsetningarmátinn er. Þeim sem gagnrýna Sjálfstæðisflokkinn er lítill greiði gerður með þessari bók, ekki frekar en íslenskum náttúruverndarsinnum var nokkur ávinningur að græna skyrinu sem var slett á Hótel Esju í sumar.

Ofstopafullur stíllinn setur líka strik í reikninginn þegar kemur að því að meta hvort Barnagælur sé áhrifarík sem hugvekja um barnamisnotkun og meinlegar afleiðingar hennar. Ófögnuðurinn í sögunni er svo yfirþyrmandi að hann missir eiginlega tengslin við raunveruleikann. Reynslusögur þeirra sem hafa orðið fyrir kynferðislegri misnotkun í æsku eru að sönnu ófagrar flestar. Það þarf því ekki að halda að í Barnagælum sé verið að gera kynferðislega misnotkun barna ógeðfelldari en hún er í raun og veru. Það sem hins vegar grefur undan andófinu er samspilið við aðrar birtingarmyndir illskunnar, sú ofboðslega áhersla sem er lögð á að gera Pétur að eins miklu skrímsli og mögulegt er. Hann er ekki bara barnaníðingur heldur líka hræsnari, hrokagikkur, kvenhatari, útlendingahatari, kynþáttahatari, morðingi – og mannæta. Það er m.ö.o. fátt mannlegt í fari þessarar persónu, og fyrir vikið hættir hann smám saman að vera trúverðugt illmenni í okkar augum en verður karíkatúr af illmenni.

Þegar þessi stutta saga fer að jaðra við að verða of langdregin sækir hún í vopnabúr glæpasögunnar til að halda manni við efnið. Eini raunverulegi lestrarhvatinn í síðari hluta bókarinnar er óvissan um það hvort upp kemst um morðið sem Pétur fremur eða ekki. Þetta eru auðvitað talsverð vonbrigði, og dæmi um hversu lúmsk glæpasagnavæðingin getur orðið – eins og skáldsaga teljist aldrei fullgild fyrr en það er búið að drepa einhvern í henni.

Sá sem skrifar sögu eins og Barnagælur getur þar af leiðandi varla talist í hópi hugsjónaskálda sem lýsa upp myrk skúmaskot og bjóða okkur að bergja af beiskum kaleik, heldur miklu fremur svona „flippaður gaur”, ólíkindatól, rokkari, „ný og fersk rödd” eins og einhver með takmarkað hugmyndaflug gæti orðað það. Barnagælur er að mínu mati skot yfir markið, hún er aðallega vitnisburður um gjaldþrot hneykslunarbókmenntanna í heimi þar sem má segja allt og möguleikar skáldsögunnar felast frekar í öðru en að hneyksla. Því þegar öll kurl eru komin til grafar eru bækur sjaldnast sjokkerandi þegar þær rembast sem mest við að sjokkera.

(Víðsjá, 13. desember 2005)

Kristján Þórður Hrafnsson: Hinir sterku

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

Það heyrir til undantekninga að persónur í skáldsögunni Hinir sterku eftir Kristján Þórð Hrafnsson beri nafn. Flestar eru þær nafnlausar, þar á meðal aðalpersónan sem er ung kona. Nafnleysið má hæglega túlka sem part af hinum hlutlægu efnistökum sögunnar; þetta er ekki saga sem er rígbundin þeim stað og tíma sem hún gerist í, skírskotanir hennar eru almennar, fjallað er um sammannleg viðfangsefni og það þyrfti alveg áreiðanlega ekki að bæta neinum neðanmálsgreinum til skýringar við þessa sögu ef hún væri þýdd yfir á annað tungumál.

Hinir sterku er saga um átök, bæði á sviði einkalífsins og á sviði hugmynda um hið opinbera rými. Togstreitan á milli einkalífs og opinbers lífs, eða „litla heimsins” og „stóra heimsins” eins og þeir eru nefndir í sögunni, eru í forgrunni. Aðalpersóna sögunnar er það sem stundum er kallað „opinber persóna”, landsþekkt sjónvarpskona sem stýrir umræðuþætti um fréttir og dægurmál. Kristján Þórður hefur þannig valið sér hefðbundið frásagnartæki til þess að miðla hugmyndum um mörkin á milli hins opinbera og einkalega,  og samspilið og togstreituna sem er þarna á milli. Þetta eru, eins og allir vita, mál sem hefur borið nokkuð oft á góma í umræðunni að undanförnu, en þó er Hinir sterku annað og meira en bara dauft endurvarp einhvers sem við þekkjum úr blöðum og sjónvarpi. Það er að mörgu leyti aðdáunarvert hvernig þessar hugmyndir, og fleiri, eru lagaðar að sögunni.

Ramminn sem hér er hafður utan um vangaveltur um deilur í einkalífinu er saga um skilnað. Hin nafnlausa aðalpersóna er í sambúð með manni, Ómari, og saman eiga þau son á leikskólaaldri. Í sambandi þeirra eru brestir frá upphafi, Ómar er hræddur við skuldbindingar og eftir því sem velgengni konu hans í fjölmiðlum eykst verður hann smám saman afbrýðisamur. Hann er upptekinn af ímynd konu sinnar, og það er oft eins og hann geti ekki greint alveg á milli þáttastjórnandans og eiginkonunnar. Sjálf er hún ekki fullfær um það heldur, hún fer oft ósjálfrátt í sjónvarpsstellingarnar þegar hún á í samræðum við eiginmann sinn eða aðra nákomna, og reynir þá að finna alla þá fleti á máli viðmælandans sem hægt er að andmæla, draga fram mótrökin burtséð frá því hverjar hennar eigin skoðanir eru. Með tímanum hverfur einlægnin úr sambandinu, og einn daginn kemst aðalpersónan að því að Ómar heldur fram hjá henni.

Fyrstu viðbrögð Ómars við vitneskju eiginkonu sinnar um framjáhald hans er ekki eftirsjá heldur reynir hann að réttlæta verknaðinn út frá því að þetta hafi verið nauðsynlegt fyrir sálrænan þroska hans sjálfs. Talar um að tilveran sé orðin svo miklu flóknari en hún var og fyrirkomulagið á samböndum fólks sé að breytast. Látið er að því liggja að þessa lífssýn hafi Ómar þegið frá föður sínum, en sá er eins konar fulltrúi ’68-kynslóðarinnar í þessari sögu. Ómar víkur sér alltaf undan því að tala um föður sinn, hann skildi snemma við móður Ómars því honum fannst of heftandi að lifa í hjónabandi. Faðir Ómars talar jafnan um byltingu ’68-kynslóðarinnar sem mestu gæfu mannkynsins, með henni var stigið stórt skref í átt til þess frjálsræðis sem í hans augum er lykillinn að lífshamingjunni.

Hugmyndin um áhrif uppeldisins er því sínálæg þegar Ómar er á sviðinu. Konan hans flytur burt frá honum og þarf í kjölfarið að skipuleggja líf sitt frá grunni. Ýmsar veigamiklar spurningar vakna í huga hennar, um byrðina sem fylgir því að vera landsþekkt, um hið ókunna í sálarlífi fólks sem maður taldi sig þekkja, um hjónabandið – er það ljúf skylda eða þrúgandi ok? – og um það sem tengir fólk sem er hætt að vera saman, t.d. börn skilinna foreldra.

Það er mikil sálfræði í Hinum sterku, stundum svo mikil að manni þykir nóg um. Mat sögumannsins á sálarlífi persónanna er stundum dálítið fyrirferðamikið, við fáum ekki að draga ályktanirnar því þær hafa flestar verið dregnar fyrir okkur. Fyrir vikið verður stíllinn eilítið fáfengilegur; átökin sem eiga sér stað í sögunni endurspeglast ekki í hljómfalli textans sjálfs, þetta er ekki texti sem logar – heldur minnir hann á hagnýtar leiðbeiningar fyrir fólk í samskiptavandræðum. Hinir sterku er að mörgu leyti líkari sjálfshjálparbók en skáldsögu.

Hugmyndaátök á sviði þjóðmála eru líka veigamikill þáttur í þessari sögu, og sem farveg fyrir þau hefur Kristján Þórður valið sér stærstu mýtu samtímans: Nýfrjálshyggjuna. Ómar og félagar hans eru sannfærðir um kosti ótakmarkaðrar einkavæðingar, þeir vilja afnema allan opinberan stuðning og leyfa lögmálum markaðarins að njóta sín ótrufluðum. Aðalpersónan er á öndverðum meiði, hún telur að nýfrjálshyggjan sé fyrst og fremst knúin áfram af viljanum til að ögra. Af þessu kvikna margar áhugaverðar vangaveltur, gagnstæðar skoðanir eru vegnar og metnar, og skoðaðar í ljósi lykilhugtaks sögunnar, en það er hugtakið styrkur. Hver er sterkur og hver veikur? Stundum er fólk sterkt á einu sviði en veikt á öðru, og þeir sem tala hvað hæst um trúna á einstaklinginn eru stundum þeir sem eru mestrar hjálpar þurfi sjálfir. Ein persóna bókarinnar er dæmi um slíkan mann, en það er Þór, vinur Ómars, allra ákafasti nýfrjálshyggjumaðurinn. Honum er brugðið upp sem fegrandi andstæðu við aðalpersónuna, en rétt eins og hún lendir hann í hremmingum í einkalífinu: Bæði eiga þau maka sem heldur fram hjá þeim og þurfa að upplifa gríðarlega höfnun af þeim sökum. Það er írónískt að aðalpersónan, sem lengi hefur talað fyrir daufum eyrum eiginmanns síns og vina hans um gildi þess að hjálpast að, nær að vinna úr sínum vandamálum nokkurn veginn óstudd, en Þór sem er talsmaður þess að manneskjan sé í eðli sínu skynsöm, hver sé sinnar gæfu smiður og það þurfi ekki að hafa vit fyrir öðrum – hann nær ekki að halda sjálfum sér réttu megin við strikið.

Uppistaðan í Hinum sterku er orðræða um siðfræði og samskiptahætti fólks. Hér er mikið um áhugaverðar speglasjónir, en skáldskapareinkennum bókarinnar er nokkuð ábótavant, eftirminnilegar persónur eru fáar og lítið um stílgaldra. Persónulýsingar í þessari sögu líkjast gjarnan skýrslum þar sem farið er í saumana á einkennum hvers einstaklings fyrir sig, skref fyrir skref í röklegri röð. Það sem gerir bókina hins vegar lestrarins virði er það mikla innsæi sem er fólgið í höfundarafstöðu hennar, hún er skrifuð af einlægni og fjallar hreinskilnislega um hluti sem við mættum flest velta fyrir okkur oftar.

(Víðsjá, 1. desember 2005)

Ólafur Gunnarsson: Höfuðlausn

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

Mér telst svo til að Höfuðlausn sé fjórða sögulega skáldsagan sem Ólafur Gunnarsson skrifar; hinar þrjár eru Tröllakirkja, Vetrarferðin og Öxin og jörðin. Það er athyglisvert að skoða þá þróun sem frásagnaraðferð Ólafs hefur gengið í gegnum með þessum bókum. Í tveimur þeim fyrstu er sagt frá atburðum og persónum sem eru meira og minna uppdiktuð, enda er athugasemd frá höfundi fremst í báðum bókunum þar sem tekið er fram að sögurnar hafi „ekkert sagnfræðilegt gildi”. Slíka athugasemd er ekki að finna í Öxinni og jörðinni, enda má með réttu segja að sagnfræðilegt gildi þeirrar bókar sé öllu meira – hún fjallar jú um persónur sem voru til í raun og veru og atburðarásin er sannsöguleg í aðalatriðum. Í þessari nýjustu skáldsögu Ólafs, Höfuðlausn, er eins og höfundurinn fari bil beggja; aðalpersónurnar eru tilbúningur, en útgangspunktur sögunnar er uppákoma sem gerðist í alvöru – nánar tiltekið koma kvikmyndagerðarfólks frá Nordisk Film til Íslands sumarið 1919 til þess að filma Sögu Borgarættarinnar eftir Gunnar Gunnarsson. Það má teljast til nokkurra tíðinda að Ólafur hefur í þessari bók sagt skilið við þann alvitra söguhöfund sem hefur verið ráðandi í bókum hans síðasta rúma áratuginn, hér er notuð fyrstu persónu frásögn, og fyrir vikið verður stemmningin öll einlægari og stíllinn fíngerðari. Það er Jakob Ólafsson, bílstjóri í Reykjavík sem segir söguna af kvikmyndagerðinni í fyrri hluta bókarinnar. Jakob gerist viðriðinn ævintýrið með því að veita danska kvikmyndafólkinu liðsinni sitt, bæði sem leikmyndasmiður og bílstjóri. Það gengur á ýmsu við gerð myndarinnar, það þarf að fresta tökum vegna veðurs, leikstjórinn og handritshöfundurinn verða ósáttir, aðalleikkonan á í basli með einkalífið og þar fram eftir götunum. Jakob verður ástfanginn af Elisabet Jacobsen, danskri kvikmyndastjörnu, sem daðrar óspart við hann í því skyni að gera eiginmann sinn afbrýðisaman.

Það fyrsta sem hægt er að staldra við í þessum fyrri hluta Höfuðlausnar er  sjálft plottið, eða grunnhugmyndin: Saga af kvikmyndatökum þar sem alls kyns vandamál skapast. Ég man í svipinn ekki eftir mörgum sögum sem fjalla um kvikmyndagerð, það er helst að maður muni eftir kvikmyndum sem fjalla um kvikmyndagerð; State and Main, The Aviator, Ed Wood, Living in Oblivion, og svo kannski eitt leikrit: Með fulla vasa af grjóti. Nema hvað, að það er eins og alltaf þegar þetta efni, kvikmyndagerð,  er tekið til umfjöllunar verði úrvinnslan nokkurn veginn sú sama. Það er einblínt á vandræðaganginn sem skapast og óvæntu uppákomurnar sem setja strik í reikninginn við tökurnar. Skáldsagan Höfuðlausn bætir litlu við þessa kunnuglegu hugmynd, og það bætir ekki úr skák að aðalpersónan, Jakob Ólafsson, er fremur óspennandi karakter. Jakob er uppburðalítill þolandi alla sína tíð og skortir tilfinnanlega kraft. Þetta eru talsverð vonbrigði í ljósi þess að Ólafur Gunnarsson hefur löngum sett atkvæðamiklar persónur í forgrunn skáldsagna sinna, allt frá Sigurbirni Helgasyni arkitekt til Jóns Arasonar biskups, svo einhverjir séu nefndir. Það er helst að áhuginn kvikni þegar Guðmundur Thorsteinsson, Muggur, stígur fram á sviðið. Muggur er aðalleikarinn í Sögu Borgarættarinnar og í meðförum Ólafs Gunnarssonar fær hann yfir sig einhvern heimshryggðarblæ, hann er sonur listarinnar og þar með bundinn þjáningunni. Þau orð sem Muggur beinir til Jakobs um raunverulegt eðli sinnar meintu heimsfrægðar gætu allt eins átt við margt í íslenskum raunveruleika dagsins í dag: „Það veit enginn hvorki haus né sporð á mér í Danmörku,” segir hann - „Það er allt blásið upp í Mogganum og Vísi.” Muggur varar Jakob við því að leggja út á braut listarinnar en Jakob lætur ekki sannfærast, og þar er komin togstreitan sem er helsta stef Höfuðlausnar: Togstreitan á milli þess að þjóna listinni og þess að vinna „venjulega” vinnu.

Það er eiginlega ekki fyrr en í seinni hluta bókarinnar að sagan hrekkur í gang fyrir alvöru, en það er samt eins og að hinir tveir hlutar sögunnar nái aldrei almennilega saman, tengslin á milli þeirra eru óljós – í raun eru þetta tvær sögur. Samband Jakobs við leikkonuna Elisabeth Jacobsen fær engan botn, það eina sem skiptir raunverulegu máli úr fyrri hlutanum fyrir þann seinni eru þeir listamannsdraumar sem eru kviknaðir í brjósti Jakobs eftir að hafa fengið smjörþefinn af lífi fræga fólksins. Hann festir ást á annarri konu, Ásthildi Björnsdóttur gullsmíðanema, ættstórri stúlku úr Dölunum, en þau eru sögumenn til skiptis í síðari hluta bókarinnar. Þetta samspil tveggja ólíkra sjónarhorna er oft á tíðum mjög sniðugt, þau Jakob og Ásthildur lýsa gjarnan sömu atburðunum hvort frá sinni hlið, og á þeim stöðum þar sem Ásthildur segir frá er brugðið nýju ljósi á Jakob, persónuna sem hefur haldið frásögninni saman fram að því. Persónu Jakobs er lýst bæði með því sem hann segir frá og því sem hann segir ekki frá. Þannig skapast viss íronía, en um leið eru Ásthildarkaflarnir öðru hvoru brotnir upp með skáletruðum texta sem eru hugrenningar hennar af öðru tímasviði, þar skoðar Ásthildur atburði sögunnar úr fjarlægð, sem fortíð. Hún er þá orðin illa haldin af parkinsonveiki og rifjar upp tímann þegar hún var heilbrigð. Fyrstu einkenni sjúkdómsins hjá Ásthildi eru dæmi um þá fyrirboða sem koma svo víða fyrir í verkum Ólafs Gunnarssonar, ýmis smáatriði í sögunni tengjast einhverju sem kemur fyrir síðar, og þannig tekur maður eftir ýmsu við annan lestur sögunnar sem ekki vakti sérstaka athygli við þann fyrsta. Þetta er til marks um hugvitssamlega byggingu Höfuðlausnar, sérstaklega síðari hlutans.

Í Höfuðlausn er ýmislegt sótt til annarra bókmenntaverka, bæði leynt og ljóst, eins og titillinn ber með sér, hann er fenginn að láni frá Agli Skallagrímssyni. Jakob Ólafsson hefur rithöfundarferil sinn með því að skrifa kvikmyndahandrit byggt á Egils sögu og líkir sjálfum sér við hið forna skáld. Uppvöxtur Jakobs minnir líka um margt á ævi Knut Hamsuns og tengslin við hann eru sterk í þessari sögu. Sultur Hamsuns er sérstaklega nefndur í því sambandi og eflaust myndi nákvæmur samanburður á Sulti og Höfuðlausn leiða margt forvitnilegt í ljós. Jakob færir sig svo af sviði kvikmyndanna yfir í skáldsagnaskrif, hann heldur skáldadraumi sínum til streitu með skáldsögu sem hann nefnir Eldmessuna. En í draumi sérhvers manns er fall hans falið, Jakob missir tengslin við umhverfi sitt, hann hefur ekki tíma fyrir nýfætt barn sitt og fársjúka eiginkonu því hann er of hugfanginn af skrifunum. Sögunni lýkur á hugljómun hans, hann sannfærist um eigin listgáfu og finnst hann standa jafnfætis sjálfum Dostojevskí, en þá er Ásthildur komin á Vífilsstaðaspítala. Kosturinn við takmarkaða vitneskju sögumannsins birtist hér skýrt og greinilega. Styrkur Höfuðlausnar felst ekki síst í því rými sem sagan skilur eftir handa lesandanum til að leggja dóm á verk og skoðanir Jakobs Ólafssonar. Þegar allt kemur til alls er hann kannski óáreiðanlegur sögumaður, ófær um að yrkja eigin Höfuðlausn. Varnaðarorð Muggs koma hér í hugann – þótt Jakob telji sjálfum sér trú um annað í sögulok er sterklega gefið til kynna að hann sé ekki „einn af þessum fáu”, ekki í hópi þeirra útvöldu sem listagyðjan brosir við heldur bara meðal þeirra þúsunda sem bíða í von.

Eitt atriði má nefna til viðbótar við sagnfræðilegar tengingar í Höfuðlausn, en það er sá fjöldi raunverulegra, þekktra einstaklinga sem koma við sögu. Þetta eru meðal annars skáldin Þorsteinn Erlingsson og Gunnar Gunnarsson, Árni Óla blaðamaður á Mogganum, útgerðarmaðurinn Thor Jensen, og meira að segja Knut Hamsun sem Jakob fer að hitta, að ónefndum Muggi og dönsku kvikmyndagerðarmönnunum. Nokkuð stór hópur fyrir ekki lengri sögu, og maður spyr sig jafnvel hvort þetta sé alveg nauðsynlegt. Sú aðferð að tvinna saman skáldsagnapersónur og frægar, sögulegar persónur er góðra gjalda verð þegar henni er ekki beitt í óhófi, en hér finnst mér eins og sögulegu persónurnar séu stundum galdraðar fram af ónógri ástæðu, margar þeirra koma þessari sögu nánast ekkert við. Það hefði kannski reynst happadrýgra að leggja meiri alúð við þær skálduðu persónur sem bera söguna uppi. Þegar allt er tekið saman má segja að Höfuðlausn sé læsileg bók og gædd ýmsum kostum, en ég hef á tilfinningunni að í því stærra samhengi sem felst í höfundarferli Ólafs Gunnarssonar muni hún í framtíðinni verða skoðuð fyrst og fremst sem millikafli.

(Víðsjá, 10. nóvember 2005)

Þorsteinn frá Hamri: Dyr að draumi

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

Í titilljóði nýjustu bókar Þorsteins frá Hamri, „Dyr að draumi”, talar skáldið um ástleitið auglit: „Það hló við mér álengdar”, segir skáldið, „og braut sér leið / inn í ljóð / sem talið verður framvegis / fjalla um allt / já, allt, allt, allt, / annað.” Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Þorsteinn yrkir um skapandi viðtökur lesenda sinna, eða skapandi mislestur svo fastar sé að orði kveðið – ég nefni „Af manni og ljóði” úr Vetrarmyndinni frá árinu 2000. Það er eins og að með svona viðtökuljóðum ætli skáldið sér að vera skrefi á undan lesandanum, að bregðast við túlkuninni áður en hún verður til. Það er því með nokkurri varfærni sem við hljótum að nálgast þessa nýjustu ljóðabók Þorsteins, minnug þess að sérhver lesandi er einstakur og merking ljóðanna háð þeim farangri sem hvert og eitt okkar stendur uppi með frammi fyrir þeim.

Skáldferill Þorsteins frá Hamri er nú orðinn nokkuð langur, bráðum hálf öld, og hann er að vissu leyti dæmigerður fyrir þróun módernismans í heild sinni. Fyrstu bækurnar voru æði torskildar, næstum of snúnar til þess að „hinum almenna lesanda” væri etjandi á þær, með ógrynni af vísunum í fornar bækur, og orðum eins og „níðíngavofur”, „snærökkursskíma” og „íðilrunnur”. Í seinni tíð hafa ljóð Þorsteins orðið látlausari og stilltari, notendavænni gæti einhver sagt, og í síðustu bókum er hann meira að segja farinn að láta skýringar fylgja með aftast. Þetta ber þó ekki að skilja sem svo að ljóðin séu orðin grynnri eða útþynntari, langt frá því, eins og Dyr að draumi er til vitnis um. Þessi nýjasta ljóðabók Þorsteins er á svipuðu plani og þær sem hann hefur skrifað síðustu árin, ljóðin eru tilbrigði við sömu stef. Skáldið yrkir sem fyrr um sjálf lögmál kveðskaparins eins og þegar er nefnt, samband skáldsins við lesanda sinn. Lestrarreynslan er líka í brennidepli í ljóðinu „Veðruð orð”, þar eru orðin hlutgerð sem fornleifar, í þeim sér lesandinn merki um sögu, líf og tilfinningar, og „eitthvað að auki”. Auk hins augljósa finnur lesandinn eitthvað innra með sjálfum sér, eitthvað einstakt, þetta óræða „je ne sais quoi” eins og franski klassísistinn Boileau orðaði það, þetta sem ég veit ekki hvað er, sjálfa skýringuna á mikilfengleika skáldskaparins.

Rauði þráðurinn í þessari nýju ljóðabók Þorsteins frá Hamri er hins vegar eitthvað sem kenna má við efahyggju. Skáldið er tortryggið á hugmyndina um endanlegan sannleika og vantrúað á bjargfasta þekkingu. Það er varasamt að tala beinlínis um ádeilukenndan tón í þessari bók, en maður fær stundum á tilfinninguna að samtíminn liggi hér undir ámæli. Í ljóðinu „Svör” standa þessi orð:

Með stroknu fasi

ilma í dag af dásemd

hin sjálfbirgu svör.

Á morgun dreifa þau

hatri, sprengjum og heimsku.

Með þessum línum er eins og skáldið orði vandlætingu sína á þeirri tvöfeldni sem fylgir allri bókstafstrú: Það sem ilmar af dásemd í dag er notað til að réttlæta alls kyns óhæfu á morgun. Ljóðið heitir „Svör”, og það er varla tilviljun að næsta ljóð á eftir skuli heita „Spurningin”. Þar er um að ræða lofsöng til spurningarinnar, til efans og leitarinnar, sem eru „nýjustu fréttum / státnustu staðhæfingum / ýtrustu svörum / æðri!” Þetta kemur heim og saman við orð Þorsteins sjálfs í viðtali frá árinu 1988. Þar segir hann: „Án umburðarlyndis og hóflegrar forvitni út í heilabrot annarra kemst maður aldrei í kynni við neitt, afneitar lífsfyllingu annarra, festist í kreddum og týnir niður brosinu. Innst inni hljótum við að fagna fjölbreytni. Því miður rekst maður stundum á fólk sem vill helst að öll verk og hugsanir séu nokkurs konar eftirlíkingar einhvers sem það sjálft þykist gjörþekkja.”

Þessi efahyggja Þorsteins frá Hamri er um leið mannhyggja, húmanismi, rétt eins og hjá ítalska endurreisnarhöfundinum Pico della Mirandola sem taldi að maðurinn stæði öðrum verum framar einmitt vegna þess að hann efast og skilningur hans á lífinu tekur breytingum. Það er eðli mannsins að vera ófullgerður og síbreytilegur, og þess vegna stendur hann utan við öll stigveldi. Í okkur er eyða sem okkur tekst aldrei að fylla, hvorki með nýjustu fréttum né státnustu staðhæfingum. Þorsteinn fjallar um hið síbreytilega þekkingarsvið mannsins í ljóðinu „Sólbráð” – það sem á einu tímaskeiði er álitin algjör vissa gufar upp á því næsta eins og fótspor í snjó sem bráðnar: „Hægt og hægt / urðu að engu / spor / stigin af staðfestu, þrungin / merkingu, meinum og sælu”.

En þrátt fyrir gagnrýni sína stendur skáldið ekki á stalli þar sem það fellir dóm yfir öðru fólki. Verk Þorsteins sjálfs eru ekki undanþegin gagnrýni, og hann veit af því. Það er engin ein ráðandi afstaða í þessari bók, í henni felast mótsagnir eins og svo mörgum mannanna verkum; hér birtist ljóðið okkur sem einskismegandi hjal og um leið merkingarrík niðurstaða könnunar skáldsins á heiminum. Skáldið sendir „orðin, lífsreynd, á vettvang” og gerir umhverfi sitt þannig kunnuglegt. En gagnrýni Þorsteins frá Hamri í ljóðabókinni Dyr að draumi beinist líka að honum sjálfum og því hlutskipti sem hann hefur valið sér, og það er kannski í því sem helsti styrkur bókarinnar er falinn:

Því ljóðið spyr,

leitar, efast – og sér því

heiminn skýrar en skáldið

sem ornar sér stundum

við örugg svör …

(Víðsjá, 27. október 2005)