Eiríkur Guðmundsson: Sýrópsmáninn

Hjalti Ægisson, nóvember 16, 2010

Um það leyti sem Versalasamningarnir voru gerðir í Evrópu sat sautján ára unglingur uppi í Mosfellssveit og skrifaði smásögu. Drengurinn var Halldór Guðjónsson frá Laxnesi, og söguna nefndi hann „Den tusindaarige Islænding”. Hetjan í þessari smásögu er einfaldur en hjartahreinn vinnumaður sem heitir Helgi, og honum er teflt fram sem einhvers konar fegrandi andstæðu við spjátrunginn og menntamanninn Heiðbæs sem er á kafi í nútímabókmenntum og teoríu. Helgi á hins vegar bara eina bók, Grettis sögu, sem hann les hvenær sem hann á lausa stund. Það má telja víst að nóbelshöfundurinn verðandi, sem var sjálfur orðinn djúpt sokkinn í lestur samtímabókmennta, og átti skömmu síðar eftir að sökkva sér ofan í evrópska framúrstefnutexta, hafi séð einhverja fegurð í þessu, því að leggja allt sitt traust á eina bók, einn texta; Grettis sögu í þessu tilviki. Þetta er nánast eins og tilbrigði við hugmyndina um hinn göfuga villimann, einfaldur bókmenntasmekkur sem endurspeglar einfalt líf, göfuga sál, rökrétta heimsmynd.

Í sagnaheimi Eiríks Guðmundssonar kynnumst við iðulega persónum sem eru eins ólíkar vinnumanninum Helga og hugsast getur. Þetta eru menn sem eru umvafðir textum, hjúpaðir setningum úr stórbrotnum bókmenntaverkum, þeir ganga til náða með Kafka og Nabokov í höfðinu, þá dreymir Pessoa og Strindberg á nóttunni, að morgni anda þeir ljóðlínum eftir Octavio Paz og Óskar Árna ofan í kaffibollann. Það er ekki alltaf ljóst hvaða hlutverki bókmenntirnar gegna í svona veröld, kannski eru þær leið til hjálpræðis eða flótti frá vandamálum sem lesandinn fær ekki alltaf að vita hver eru, lifrarsjúkdómur, brostið hjarta, eða bara eitthvað allt annað. Í bókum sínum dregur Eiríkur upp svipmyndir af heimi sem er ofurseldur ofgnótt menningar, listaverkinu á tímum fjöldaframleiðslu sinnar. Daglegt amstur verður allt að því dapurlegt í svona heimi, því ídeal lífsmáti væri auðvitað að nota allan sinn tíma í að lesa bækur, hlusta á tónlist eða horfa á kvikmyndir. Ars longa, vita brevis, gæti verið mottó þessa sagnaheims - listin er löng en lífið stutt. „Öllum þeim möguleikum sem okkur standa til boða fylgir óneitanlega nokkurt víl,” segir í bók Eiríks, 39 þrep á leið til glötunar, sem kom út árið 2004. „Hvers vegna stóð ég og beið eftir strætisvagni þegar ég hefði getað verið að lesa Gleðileikinn guðdómlega eftir Dante? Af hverju var ég staddur í Bónus, á háannatíma, þegar ég hefði getað verið heima að hlusta á Air eða horfa á Mulholland Drive?“ Í Sýrópsmánanum kynnumst við mönnum sem eru angraðir af þessu sama víli og láta sig dreyma um að opna sér einkaglugga inn í heim bókmenntanna með því að ræna Kristjáni Karlssyni ljóðskáldi, loka hann inn í búri, færa honum ritföng og bækur og láta hann yrkja eða þýða verk eftir William Faulkner. Hugmyndin er kómísk og sýnir þá miklu þörf fyrir listina sem er yfir og allt um kring í bókum Eiríks Guðmundssonar, þráin eftir tímabundnu dvalarleyfi í veröld bókmenntanna, þessum veruleika sem á sína sjálfstæðu tilveru, óháð hversdagsleikanum, ofar heimsins þrautum. „Skáldsögur þarf að tilreykja, eins og pípur,“ segir í Sýrópsmánanum, „það getur tekið langan tíma, mörg ár. Þær lifa sínu lífi líkt og þær sofi á bak við tímann, rumska kannski eftir þúsund ár, og eftir það er ekki nokkur leið að frá frið fyrir þeim.“

Eiríkur Guðmundsson er að sumu leyti eins og dróttkvæðaskáld, textarnir hans eru svo rækilega dulkóðaðir að þótt mér, lesandanum, takist stundum að kveikja á perunni, er það skammgóður vermir, því ég verð eiginlega bara meðvitaðri en áður um alla þá staði þar sem ég er enn þá týndur, þrátt fyrir daglöng heilabrot, andvökunætur og eyðimerkurvist á internetinu. Heimildaskráin sem fylgir í lokin er varla nema reykurinn af réttunum, svo takmörkuð sem hún er, og fyrir vikið getur Sýrópsmáninn, rétt eins og bókin Undir himninum, sem kom út 2006, hæglega fylgt lesandanum um langan veg; svo margar eru gáturnar, svo þéttofinn er vefurinn. Eins og gefur að skilja er ekki gott að rekja söguþráðinn í svona bókum, þeim þræði er auðvelt að týna, en ég held að Sýrópsmáninn sé bók um ástarsamband, kannski fleiri en eitt. Kjarni sögunnar er ferð til Ítalíu, sögumaðurinn ferðast þangað með sambýliskonu sinni og barnungum syni, þegar þoka skellur á yfir Íslandi. Svo rækileg er þokan að menn og byggingar hverfa og sjást aldrei aftur. Ferðin til Ítalíu verður sögumanninum tilefni til að rifja upp tímann þegar hann kynntist konunni sinni og margt bendir til þess að þau séu bæði að glíma við sorg eða missi úr fortíðinni. Bernskuminningar sögumannsins eru einkum tengdar afa hans og þorpi undir snarbröttu fjalli einhvers staðar úti á landi, þar sem hann ólst upp. Barnsmóðirin, sem er einfaldlega kölluð L., hefur misst föður sinn og tekur stundum upp á því að láta manninn sinn máta föt úr dánarbúi föðurins. Hún setur líka upp gleraugu föður síns „til þess að gæta drengsins enn betur“, eins og það er orðað. Við ímyndum okkur að þetta fólk séu engir unglingar, hér er sköpuð tilfinning fyrir lífsreynslu, og að öllum líkindum eiga þau við einhvers konar vandamál að stríða í sambandinu. Kannski er það þess vegna sem ferðin til Ítalíu er farin, þar með er þetta saga um stund milli stríða, flótta frá þoku, viðleitni til að bæta það sem hefur aflaga farið um dagana, tilraunir til þess að láta ekki lífið kremja sig. Stundum held ég að það þýði hið sama og að „láta ekki baslið smækka sig“, en sennilega hef ég alveg rangt fyrir mér.

Sýrópsmáninn er nýr kafli í miklu höfundarverki, og þessi bók markar tímamót á ferli Eiríks Guðmundssonar sem rithöfundar að því leyti að hér er menningarleg greining víðs fjarri. Í fyrri bókum Eiríks hafa raunveruleg atvik úr samtímanum alltaf verið nærhendis og á yfirborðinu, fréttaljósmyndir, Kastljóss-viðtöl, íslensk bókaútgáfa, krúttin eða frasar úr auglýsingum. Slík umfjöllun er ekki til staðar í Sýrópsmánanum, allténd ekki með beinum hætti, og það má segja að nú sé pistlahöfundurinn Eiríkur Guðmundsson farinn að víkja fyrir ljóðskáldinu. Einhverjum þykir það sjálfsagt vera öfugþróun, því það hefur aldrei þótt mikil prýði á essayistum að fást við ljóðlist. Þeir sem unna alvöru bókmenntum ættu þó að gleðjast og kannski verður Sýrópsmáninn sú bók Eiríks sem verður til þess að skilja hafrana frá sauðunum. Það leirskáld er ekki til sem getur myrt fegurð himinsins, og á sama hátt lætur sönn list ekki haggast af óréttlæti, kreppu, níðingsskap eða hverju því sem kann að setja svip sinn á fréttatímana eða jólabókaflóðið hverju sinni. Bækur Eiríks Guðmundssonar eru kannski enginn yndislestur í fyrstu atrennu, en þær duga vel sem áminning um það sem býr á bak við ásýnd hlutanna. Þeim sem les, og gefst ekki upp, verður kannski einhvern tímann, einhvers staðar á vegferðinni afhent perla.

(Víðsjá, 16. nóvember 2010)

Bergur Ebbi Benediktsson: Tími hnyttninnar er liðinn / Þórdís Gísladóttir: Leyndarmál annarra

Hjalti Ægisson, nóvember 4, 2010

Franski hugsuðurinn Roland Barthes sagði einu sinni að höfundur væri ekki orðinn til fyrr en hann hefði skrifað að minnsta kosti tvær bækur. Sá sem skrifar eina bók og ekki meir, hann er ekki höfundur. Það þarf tvær bækur, eða fleiri, til að hægt sé að tala um höfundarverk; þá er hægt að sjá hvernig tengslin á milli textanna endurspegla þann skapandi huga sem býr að baki. Kannski er þetta ástæðan fyrir því að mörgum finnst erfiðast að skrifa bók númer tvö, því það er með henni sem höfundurinn verður að höfundi, hún er prófsteinn á þær væntingar sem fyrsta bókin gat af sér. Að þessu sinni hef ég ákveðið að fjalla um tvær bækur í einu, en þær eiga það sameiginlegt að vera fyrstu bækur höfunda (eða ekki-höfunda, sé gengist inn á forsendur Roland Barthes, en jæja, flækjum ekki málið, nóg er nú samt).

Fyrri bókin kom út í vor og hefur hugmyndaríkan titil, sem gæti næstum því verið þýddur titill á lagi með Morrissey: Tími hnyttninnar er liðinn. Bergur Ebbi Benediktsson teflir hér fram bálki fjórtán ljóða sem eru útleitin og býsna löng, sum of löng, liggur mér við að segja, hið lengsta er sjö blaðsíður, sem væri auðvitað gott ef magn og gæði væru sami hluturinn. Vitanlega stendur þetta tvennt þó ekki í öfugu hlutfalli hvort við annað, og romsurnar hans Bergs Ebba eru alls ekki leiðinlegar aflestrar. Á bókarkápu er okkur lofað að þetta séu „ljóð fyrir okkar tíma“, hvað sem það nú þýðir, kannski er hugmyndin að þessi ljóð séu lýsandi fyrir samtímann, tilraun til að fanga tíðaranda. Í fljótu bragði sýnist mér þó að grunnhugsunin að baki þeim flestum sé einmitt allt önnur, það vofir einhver einkennileg nostalgía yfir þessari bók, veruleikaflótti, draumur um afturhvarf til rökréttrar heimsmyndar, óorðuð andúð á afstæði og fjölhyggju samtímans. Hér er talað um „stríðsárafaðmlög“, „seinniheimsstyrjaldarsprengjur“, samloku á „diski sem minnir á fjórða áratuginn“. Saga tuttugustu aldarinnar (a.m.k. fram til 1950) orkar eins og allsherjar mælikvarði í þeirri heimssýn sem hér er brugðið upp, grundvöllur líkinga og tilfinningalegrar samsömunar, svipað og náttúran í ljóðum rómantískra skálda á 19. öld. Og þó eru þetta ekki söguleg ljóð. Bergur Ebbi hefur töluverða reynslu af því að skrifa blaðagreinar og kjallarapistla, og honum tekst einhvern veginn ekki alveg að losa sig úr því hlutverki hér. Sennilega er það of fast að orði kveðið að tala um „prédikunartón“ í þessu samhengi, en tónn álitsgjafans er að minnsta kosti ríkjandi í sumum ljóðum, hér er ályktað og alhæft um tíðarandann og einkenni samtímans í fyrstu persónu fleirtölu, „við“ erum svona eða hinsegin, fullyrðir skáldið; við erum

Með hjörtun full af ótta

Með hjörtun full af kvíða

Yfir því að vera ekki nógu snjöll

Nógu hnyttin, nógu sniðug

Nógu öðruvísi en þó nógu venjuleg

Það er eins og höfundurinn sé þrátt fyrir allt meðvitaður um þessi þrætubókareinkenni ljóða sinna og reyni að slæva þau með endurteknu stefi, sem er ávarpið „stúlkan mín“. Þannig er reynt að skapa þá tilfinningu að hér sé ekki verið að tala til okkar lesenda, ekki verið að bera fram neinn boðskap á markaðstorgi hugmyndanna, heldur séum við eingöngu þögul vitni að því þegar skáldið talar við stúlkuna sína – hvort hún er dóttir, frænka eða ástkona er ekki alveg ljóst. Þessi listræna blekking er dálítið klaufaleg í meðförum Bergs Ebba, eða álíka þunglamaleg og málnotkunin í víðum skilningi, en hún er ansi langt frá því að vera áreynslulaus. Áhrif úr ensku eru sums staðar áberandi í orðalagi, ekki bara í þeim skilningi að sérhver ljóðlína sé látin byrja á stórum staf, heldur líka á stöðum eins og þeim þar sem talað er um takt sem „skilur þig eftir með eigin hugsunum“. En allt um það, þá er óþarfi að varpa þessari bók í flýti frá sér, kannski verður gaman að lesa hana einhvern tímann seinna, til dæmis eftir tíu ár þegar plöggið í kringum hana verður gleymt og við orðin dómbærari á það hvort hér sé frambærilegur höfundur á ferðinni; um það er einfaldlega ekkert hægt að segja enn þá.

Það er ekki víst að Þórdís Gísladóttir myndi samþykkja þá fullyrðingu Bergs Ebba Benediktssonar að tími hnyttninnar sé liðinn; ef marka má ljóðin í ljóðabókinni Leyndarmál annarra, sem kom út nú á dögunum, er tími hnyttninnar þvert á móti enn í fullu gildi. Hnyttni, spaug og kaldhæðni eru aðalsmerki þessarar bókar sem er ekki nema 34 síður að lengd, og hefði að ósekju mátt vera miklu lengri. Leyndarmál annarra markar engin tímamót að því leyti að hún staðfestir það sem við vissum fyrir um skopstælingu og kaldhæðni sem helstu vopn kvenskálda. Þórdís er mikill mannþekkjari og ljóðmælendur hennar fjalla yfirleitt ekki um sjálfa sig nema til að bregðast við einhverju atviki sem þeir lenda í eða persónum sem verða á vegi þeirra. Þau ljóð bókarinnar sem hafa ljóðmælandann sjálfan í forgrunni eru undir íronískum formerkjum, til dæmis ljóðin „Glamúrskortur“ og „Félagslegt raunsæi“, sem eru bæði spunnin út frá nútímalegum staðalímyndum um konur, hið síðarnefnda endar meira að segja á þvottekta, rómantísku háði þar sem minnt er á geðveikina sem blundar undir efnishyggju og velmegunarlífi. Það er því greinilega vanur ljóðalesandi sem hér situr við lyklaborðið, á öðrum stað er okkur boðið upp á nútímalegan útúrsnúning á tæplega þrjátíu ára gömlu ljóði eftir Stefán Hörð Grímsson. Mestmegnis eru þessi ljóð þó karakterstúdíur í formi stuttra atriða, jafnvel leikþátta, atvik úr hversdagslífinu sem bregða ljósi á kunnuglegar týpur úr íslenskum samtíma: Leikskólakennarar og ljósmæður sem sýna ráðdeild í fjármálum, hjón sem búa við botnlangagötu í Grafarvoginum, þunnhærður karlmaður í blokkaríbúð sem drekkur Bónuskaffi og „horfir annars hugar á plattann með æðruleysisbæninni“.

Þórdís Gísladóttir nálgast viðfangsefni sín fyrst og fremst sem áhorfandi, ljóðin í þessari fyrstu bók hennar eru frumlegar hugleiðingar sem kvikna af ofurvenjulegum atburðum; kannski mætti tala um „bloggljóð“ í þessu sambandi. Líkt og titill bókarinnar gefur til kynna er leitast við að skyggnast undir yfirborðið í lífi ókunnugs fólks með ímyndunaraflið að vopni. Þórdísi ferst þetta verk vel úr hendi, hún er ekki örvæntingarfull eða vonsvikin eins og gluggagægirinn sem Purrkur Pillnikk söng um, heldur húmoristi og húmanisti í senn, skrásetjari einhvers sem er til, ekki bara í hugskoti hennar sjálfrar, heldur allt í kringum okkur. Það er notalegt að hlæja með Þórdísi í þessari bók, og kannski fáum við að njóta þess aftur ef bækurnar verða fleiri.

(Víðsjá, 4. nóvember 2010)

Úlfar Þormóðsson: Þú sem ert á himnum

Hjalti Ægisson, nóvember 4, 2010

„Úlfar Þormóðsson er eini núlifandi Íslendingurinn sem hefur hlotið dóm fyrir guðlast.“ Þetta er fyrsta fullyrðingin sem blasir við okkur aftan á kápu þessarar bókar, og við kveikjum strax á perunni: Þetta er ekki bara einhver bók um Biblíuna, hugsar lesandinn, heldur bók eftir Úlfar Þormóðsson um Biblíuna. Markaðsdeildin hefur sem sagt valið þá leið að hafa höfundinn sjálfan í forgrunni í kynningarmálum, sem er kannski ágætt; að minnsta kosti er það mjög í takt við efnistök verksins og skapar engar falsvonir. Úlfar er alls staðar nálægur í þessari bók, orðið „ég“ kemur fyrir á næstum hverri einustu síðu, og hér kemur heilmargt við sögu annað en Biblíulestur; Úlfar hlustar á messu í útvarpinu, Úlfar les Moggann, Úlfar skreppur til útlanda. Það er þó Biblían sjálf sem skilgreinir form þessarar bókar, þetta er lestur eins manns á Biblíunni allri, allt frá fyrstu Mósebók til Opinberunarbókarinnar, með vangaveltum, túlkunum og útleggingum. Á vissan hátt er þetta ekki ósvipað því sem hinir mælsku predikarar lærdómsaldarinnar gerðu, þeir völdu sér ritningarstað og létu hann vera kveikjuna að umfjöllun um samtímann. Hér eru forsendurnar þó allt aðrar, eins og gefur að skilja, Úlfari er fyrst og fremst umhugað um að sýna fram á mótsagnir Biblíunnar og þá vafasömu hugmyndafræði sem hvarvetna býr að baki textanum.

Hvað sem öllu líður er þessi bók heiðarleg tilraun til að gera eitthvað nýtt og ferskt á íslensku, eitthvað sem á sér þó fjölda fyrirmynda erlendis frá. Róttækur aþeismi hefur verið sérlega frjór vettvangur á sviði fræðilegra skrifa síðustu árin og gefur tilefni til margs konar nálgunarleiða, hvort sem það er köld rökhyggja að hætti Richard Dawkins eða hugmyndaríkur húmanismi að hætti Christopher Hitchens. Aðrir hafa skrifað um Biblíuna sem bókmenntir og án þess að leggja höfuðáherslu á skaðsemi trúarbragðanna; ég nefni sem dæmi bandaríska höfundinn Jack Miles, sem skrifaði stórskemmtilega ævisögu Guðs fyrir hálfum öðrum áratug, þar sem rakið er hvernig bókmenntapersónan Guð þróast frá einni bók til annarrar. Það var því varla nema tímabært að einhver tæki sig til og skrifaði svona verk á íslensku; trúleysisumræðunni hefur að vísu verið haldið vakandi á íslenskum vefsíðum í nokkur ár, iðulega af miklum metnaði og stundum nokkurri kunnáttu.

Stóra vandamálið við þá tilraun sem þessi bók er, er þó tilfinnanlegur skortur á ritfærni, það er ekki að sjá að hér sé um að ræða afurð höfundar sem hefur áratugareynslu af skrifum, sem er þrátt fyrir allt raunin. Með því á ég ekki eingöngu við slælegan frágang; út af fyrir sig er það reyndar fyndið að Úlfar skuli eyða ómældu púðri í að lýsa því hversu óvandvirkir útgefendur nýju Biblíuþýðingarinnar séu, og gefa svo sjálfur út bók sem skartar flennistórri prentvillu í titlinum, bæði á saurblaði og titilsíðu. Þetta er þó smámál við hliðina á þeirri ákvörðun höfundarins að setja bókina upp sem samtal við Guð, en að mínu mati er það glannaleg frásagnartilraun sem mistekst hrapallega. Mestallan tímann er Guð ávarpaður: „Þú, mátt ekki misskilja mig, Guð,“ „Drottinn! Þú þreytir mig með orðum þínum, boðum og bönnum,“ „Það var mikið stuð á þér í vafurlogunum á meðan þú varst að bjarga Ísraelsmönnum.“ Og svo framvegis, og svo framvegis. Þetta reiknilíkan, sem öll bókin er skrifuð út frá, er orðið þreytandi strax eftir fyrstu tvo kaflana. Kveinstafir höfundarins um að Biblían sé þreytandi fá einhvern veginn holan hljóm í slíku samhengi. Og það sem verra er: Hér eru fræðileg efnistök víðs fjarri, engar neðanmálsgreinar, engin heimildaskrá, enginn lærdómur. Vonandi verð ég ekki sakaður um elítisma eða fræðilegan hroka fyrir þessa kröfu, reyndar er það svo að hér á landi hafa komið út fjölmargar bækur um trú og menningarsögu á síðustu árum sem eru stórgóðar án þess að uppfylla strangfræðilegar kröfur um heimildanotkun; Skáldsaga Íslands eftir Pétur Gunnarsson er eitt dæmi, Glíman við guð eftir Árna Bergmann kemur líka upp í hugann. Munurinn er sá að þar er í báðum tilvikum um að ræða skemmtilegan stíl og lifandi og áhugaverða frásögn, nokkuð sem er ekki til að dreifa hér.

Úlfar Þormóðsson rekur sig í gegnum bækur Biblíunnar, en endursögnin á efni þeirra er svo takmörkuð og handahófskennd að það er hætt við því að þeir lesendur sem kunna ekki rækilega skil á Biblíunni séu litlu nær eftir lesturinn. Sumar bækur fá mjög takmarkaða umfjöllun, Síðara Tímóteusarbréf og Annað bréf Jóhannesar fá þannig aðeins eina línu hvort. Það er eins og áhugi höfundarins á verkefninu sem hann setti sér í upphafi fari dvínandi eftir því sem líður á bókina, á síðustu hundrað blaðsíðunum verður æ styttra bil á milli millifyrirsagnanna. Sumir undirkaflar eru ekkert nema tilvitnunin ein, og engin umfjöllun með, eins og þar eigi að blasa við hversu kjánalegur texti umræddrar bókar sé, með því að láta hann tala fyrir sig sjálfan. Það er þó sjaldan ljóst hvað Úlfar er að fara með þessum nöktu tilvitnunum, hugsunin að baki virðist beinlínis óskýr. Málnotkun og orðaval þýðenda er honum líka sérstaklega hugleikið efni, en sú umfjöllun er jafntilviljanakennd og allt hitt, gamaldags, liggur mér við að segja. Þegar engin afstaða er tekin til nýlegra fræðilegra skrifa er alltaf hætt við því að útkoman verði einmitt þannig, gamaldags, almælt sannindi. Sú tilhneiging Úlfars að bera frásagnir Biblíunnar saman við kjarngóðar, íslenskar fornmannasögur er til dæmis eins og upp úr hundrað ára gömlum kjallarapistli eftir Helga Pjeturss. Í umfjöllun sinni um glímu Jakobs segir einfaldlega: „Frásögn Snorra Sturlusonar af glímu Þórs við Elli kerlingu er mun tilþrifameiri en Jakobsglíma þinna heilögu. Við Íslendingar eigum einnig aðra áflogasögu þar sem menn af ólíkum tilverustigum takast á. Hún slær þinni sögu við; það er glíma Grettis við Glám.“

Niðurstaða mín er sem sagt sú að þessi bók komi að afar takmörkuðu gagni við að veita okkur aukinn skilning á Biblíunni sem áróðursriti eða vitnisburði um ískyggilegar hugmyndir. Þetta er nefnilega fyrst og fremst bók um Úlfar Þormóðsson sjálfan og samtíð hans; Biblíulesturinn í þessu verki ristir svo grunnt að hann verður lítið annað en stuðningur við almenna vandlætingu á Þjóðkirkjunni, óánægju með það hvað biskup Íslands er með í laun, og annað álíka. Sú umræða er í sjálfu sér allrar athygli verð, en þarf að gefa þetta út á bók? Dægurmálaumfjöllun af þessu tagi á heima á bloggsíðum og dagblöðum, ekki í prentuðum bókum nema eitthvað meira komi til, einhver hugmyndarík úrvinnsla, lifandi frásögn, eða fræðileg dýpt. Ekkert slíkt má finna í bókinni Þú sem ert á himnum, og því verðum við að bíða enn um sinn eftir því að trúleysisumræðan taki á sig mynd á íslensku í alvörubók.

(Víðsjá, 28. október 2010)