Úlfar Þormóðsson: Þú sem ert á himnum

Hjalti Ægisson, nóvember 4, 2010

„Úlfar Þormóðsson er eini núlifandi Íslendingurinn sem hefur hlotið dóm fyrir guðlast.“ Þetta er fyrsta fullyrðingin sem blasir við okkur aftan á kápu þessarar bókar, og við kveikjum strax á perunni: Þetta er ekki bara einhver bók um Biblíuna, hugsar lesandinn, heldur bók eftir Úlfar Þormóðsson um Biblíuna. Markaðsdeildin hefur sem sagt valið þá leið að hafa höfundinn sjálfan í forgrunni í kynningarmálum, sem er kannski ágætt; að minnsta kosti er það mjög í takt við efnistök verksins og skapar engar falsvonir. Úlfar er alls staðar nálægur í þessari bók, orðið „ég“ kemur fyrir á næstum hverri einustu síðu, og hér kemur heilmargt við sögu annað en Biblíulestur; Úlfar hlustar á messu í útvarpinu, Úlfar les Moggann, Úlfar skreppur til útlanda. Það er þó Biblían sjálf sem skilgreinir form þessarar bókar, þetta er lestur eins manns á Biblíunni allri, allt frá fyrstu Mósebók til Opinberunarbókarinnar, með vangaveltum, túlkunum og útleggingum. Á vissan hátt er þetta ekki ósvipað því sem hinir mælsku predikarar lærdómsaldarinnar gerðu, þeir völdu sér ritningarstað og létu hann vera kveikjuna að umfjöllun um samtímann. Hér eru forsendurnar þó allt aðrar, eins og gefur að skilja, Úlfari er fyrst og fremst umhugað um að sýna fram á mótsagnir Biblíunnar og þá vafasömu hugmyndafræði sem hvarvetna býr að baki textanum.

Hvað sem öllu líður er þessi bók heiðarleg tilraun til að gera eitthvað nýtt og ferskt á íslensku, eitthvað sem á sér þó fjölda fyrirmynda erlendis frá. Róttækur aþeismi hefur verið sérlega frjór vettvangur á sviði fræðilegra skrifa síðustu árin og gefur tilefni til margs konar nálgunarleiða, hvort sem það er köld rökhyggja að hætti Richard Dawkins eða hugmyndaríkur húmanismi að hætti Christopher Hitchens. Aðrir hafa skrifað um Biblíuna sem bókmenntir og án þess að leggja höfuðáherslu á skaðsemi trúarbragðanna; ég nefni sem dæmi bandaríska höfundinn Jack Miles, sem skrifaði stórskemmtilega ævisögu Guðs fyrir hálfum öðrum áratug, þar sem rakið er hvernig bókmenntapersónan Guð þróast frá einni bók til annarrar. Það var því varla nema tímabært að einhver tæki sig til og skrifaði svona verk á íslensku; trúleysisumræðunni hefur að vísu verið haldið vakandi á íslenskum vefsíðum í nokkur ár, iðulega af miklum metnaði og stundum nokkurri kunnáttu.

Stóra vandamálið við þá tilraun sem þessi bók er, er þó tilfinnanlegur skortur á ritfærni, það er ekki að sjá að hér sé um að ræða afurð höfundar sem hefur áratugareynslu af skrifum, sem er þrátt fyrir allt raunin. Með því á ég ekki eingöngu við slælegan frágang; út af fyrir sig er það reyndar fyndið að Úlfar skuli eyða ómældu púðri í að lýsa því hversu óvandvirkir útgefendur nýju Biblíuþýðingarinnar séu, og gefa svo sjálfur út bók sem skartar flennistórri prentvillu í titlinum, bæði á saurblaði og titilsíðu. Þetta er þó smámál við hliðina á þeirri ákvörðun höfundarins að setja bókina upp sem samtal við Guð, en að mínu mati er það glannaleg frásagnartilraun sem mistekst hrapallega. Mestallan tímann er Guð ávarpaður: „Þú, mátt ekki misskilja mig, Guð,“ „Drottinn! Þú þreytir mig með orðum þínum, boðum og bönnum,“ „Það var mikið stuð á þér í vafurlogunum á meðan þú varst að bjarga Ísraelsmönnum.“ Og svo framvegis, og svo framvegis. Þetta reiknilíkan, sem öll bókin er skrifuð út frá, er orðið þreytandi strax eftir fyrstu tvo kaflana. Kveinstafir höfundarins um að Biblían sé þreytandi fá einhvern veginn holan hljóm í slíku samhengi. Og það sem verra er: Hér eru fræðileg efnistök víðs fjarri, engar neðanmálsgreinar, engin heimildaskrá, enginn lærdómur. Vonandi verð ég ekki sakaður um elítisma eða fræðilegan hroka fyrir þessa kröfu, reyndar er það svo að hér á landi hafa komið út fjölmargar bækur um trú og menningarsögu á síðustu árum sem eru stórgóðar án þess að uppfylla strangfræðilegar kröfur um heimildanotkun; Skáldsaga Íslands eftir Pétur Gunnarsson er eitt dæmi, Glíman við guð eftir Árna Bergmann kemur líka upp í hugann. Munurinn er sá að þar er í báðum tilvikum um að ræða skemmtilegan stíl og lifandi og áhugaverða frásögn, nokkuð sem er ekki til að dreifa hér.

Úlfar Þormóðsson rekur sig í gegnum bækur Biblíunnar, en endursögnin á efni þeirra er svo takmörkuð og handahófskennd að það er hætt við því að þeir lesendur sem kunna ekki rækilega skil á Biblíunni séu litlu nær eftir lesturinn. Sumar bækur fá mjög takmarkaða umfjöllun, Síðara Tímóteusarbréf og Annað bréf Jóhannesar fá þannig aðeins eina línu hvort. Það er eins og áhugi höfundarins á verkefninu sem hann setti sér í upphafi fari dvínandi eftir því sem líður á bókina, á síðustu hundrað blaðsíðunum verður æ styttra bil á milli millifyrirsagnanna. Sumir undirkaflar eru ekkert nema tilvitnunin ein, og engin umfjöllun með, eins og þar eigi að blasa við hversu kjánalegur texti umræddrar bókar sé, með því að láta hann tala fyrir sig sjálfan. Það er þó sjaldan ljóst hvað Úlfar er að fara með þessum nöktu tilvitnunum, hugsunin að baki virðist beinlínis óskýr. Málnotkun og orðaval þýðenda er honum líka sérstaklega hugleikið efni, en sú umfjöllun er jafntilviljanakennd og allt hitt, gamaldags, liggur mér við að segja. Þegar engin afstaða er tekin til nýlegra fræðilegra skrifa er alltaf hætt við því að útkoman verði einmitt þannig, gamaldags, almælt sannindi. Sú tilhneiging Úlfars að bera frásagnir Biblíunnar saman við kjarngóðar, íslenskar fornmannasögur er til dæmis eins og upp úr hundrað ára gömlum kjallarapistli eftir Helga Pjeturss. Í umfjöllun sinni um glímu Jakobs segir einfaldlega: „Frásögn Snorra Sturlusonar af glímu Þórs við Elli kerlingu er mun tilþrifameiri en Jakobsglíma þinna heilögu. Við Íslendingar eigum einnig aðra áflogasögu þar sem menn af ólíkum tilverustigum takast á. Hún slær þinni sögu við; það er glíma Grettis við Glám.“

Niðurstaða mín er sem sagt sú að þessi bók komi að afar takmörkuðu gagni við að veita okkur aukinn skilning á Biblíunni sem áróðursriti eða vitnisburði um ískyggilegar hugmyndir. Þetta er nefnilega fyrst og fremst bók um Úlfar Þormóðsson sjálfan og samtíð hans; Biblíulesturinn í þessu verki ristir svo grunnt að hann verður lítið annað en stuðningur við almenna vandlætingu á Þjóðkirkjunni, óánægju með það hvað biskup Íslands er með í laun, og annað álíka. Sú umræða er í sjálfu sér allrar athygli verð, en þarf að gefa þetta út á bók? Dægurmálaumfjöllun af þessu tagi á heima á bloggsíðum og dagblöðum, ekki í prentuðum bókum nema eitthvað meira komi til, einhver hugmyndarík úrvinnsla, lifandi frásögn, eða fræðileg dýpt. Ekkert slíkt má finna í bókinni Þú sem ert á himnum, og því verðum við að bíða enn um sinn eftir því að trúleysisumræðan taki á sig mynd á íslensku í alvörubók.

(Víðsjá, 28. október 2010)