Tvær nýjar Shakespeare-þýðingar

Hjalti Ægisson, apríl 15, 2011

Sú skoðun virðist útbreidd hjá leikhúsfólki hérlendis að Shakespeare-þýðingar Helga Hálfdanarsonar séu illbrúkanlegar á sviði; textinn sé of þunglamalegur, þar sé of sterk tilhneiging til þess að gera einfalda hluti flókna og þetta séu fyrst og fremst bókmenntaleg stórvirki í búningi Helga, verk til að lesa en ekki leika. Flutningur á leiksviði geri aðrar kröfur, og þess vegna er Shakespeare gjarnan þýddur upp á nýtt þegar stendur til að gæða hann lífi á fjölum íslenskra leikhúsa. Sverrir Hólmarsson þýddi Macbeth upp á nýtt á níunda áratugnum og skömmu eftir síðustu aldamót snaraði Hallgrímur Helgason Rómeó og Júlíu í nýjan búning. Báðar þýðingarnar voru gerðar sérstaklega fyrir leiksýningar, þar sem texti Helga þótti einfaldlega ekki duga. Stundum hefur m.a.s. verið brugðið á það ráð að velja eldri þýðingar fram yfir þýðingar Helga Hálfdanarsonar; þegar Lér konungur var settur upp í Borgarleikhúsinu árið 2000 var t.a.m. ákveðið að nota frekar 120 ára gamla þýðingu Steingríms Thorsteinssonar en þýðingu Helga. Í leiksýningunni Sumarævintýri, sem var sett upp vorið 2003, var lauslega byggt á Vetrarævintýri Shakespeares, en þýðing Indriða Einarssonar notuð, jafnvel þótt hún sé 65 árum eldri en þýðing Helga.

Þetta fálæti leikhúsanna við afkastamesta leikritsþýðanda íslenskrar bókmenntasögu kann að virðast undarlegt en segir þó sína sögu. Þótt þýðingar Helga Hálfdanarsonar séu þrekvirki eru þær samt hálfgagnslausar fyrir leikhús, ef marka má reynslu síðustu ára. Það er hins vegar afar sennilegt að áhrif þessara þýðinga séu víðtækari en liggur í augum uppi, þær eru stóra viðmiðið fyrir alla þá sem taka sér fyrir hendur að þýða Shakespeare á íslensku, og öruggt má telja að þær geri sitt gagn í nýju sköpunarstarfi. Tvær nýlega útgefnar Shakespeare-þýðingar sanna þetta að vissu leyti, þýðendurnir standa báðir á öxlum Helga Hálfdanarsonar og hafa bersýnilega nýtt sér ýmislegt úr verkum hans. Það er þó mikill fengur að báðum nýju þýðingunum og í raun tómt mál að tala um hvor sé betri, gamla þýðingin eða sú nýja. Þýðingar bókmenntaverka eru alltaf börn síns tíma; séu þær vel unnar hafa þær sinn sjarma sem heimild um hugarheim og samtíð þýðandans. Þannig er það t.d. stórmerkilegt að Oddur Gottskálksson skuli tala um „nykur“ í þýðingu sinni á Opinberunarbókinni, þar sem rætt er um flóðhest. Þetta dæmi er áþreifanleg sönnun þess að Íslendingar á 16. öld vissu almennt ekki hvaða dýr flóðhestur var, og orðið var þar af leiðandi þýtt með skírskotun til þess raunveruleika sem lesendasamfélagið skildi.

Þýðing Þórarins Eldjárns á Lé konungi er ákaflega lipur eins og búast mátti við; Þórarinn er ekki bara talandi skáld heldur líka þaulreyndur leikritsþýðandi, hann hefur tekist á við jafnólíka höfunda og Brecht, Ibsen, Slawomir Mrozek og Astrid Lindgren í þágu íslenskra leikhúsa. Samanborið við þýðingu Helga Hálfdanarsonar á Lé konungi er þýðing Þórarins bæði kunnugleg og nýstárleg. Stundum er setningabyggingin meira og minna óbreytt í heilu línunum hjá Þórarni, þótt hann skipti út einstökum orðum, setji „okkur“ í staðinn fyrir „oss“ og þurrki út fornlegasta braginn á texta Helga. Bastarðurinn Játmundur er kynntur til sögunnar þar sem hann hugsar upphátt um náttúrulegu hvatirnar sem búa að baki getnaði óskilgetinna barna, andspænis þreytunni og sljóleikanum sem „fer í heilar ættir uppskafninga“ eins og Helgi þýðir það; „go to th‘ creating a whole tribe of fops“. Þórarinn notar sömu uppbygginguna en skiptir út lokaorðinu: „en fer í heilar ættir ónytjunga“, sem er ekki eins nákvæm þýðing en hefur þó kunnuglegri hljóm. Þórarinn fær víða einstök orð að láni frá Helga, „hvítlifraður“ sem þýðing á „lily-livered“, „pestarkaun“ sem þýðing á „plague-sore“, svo dæmi séu tekin. Sums staðar verður þýðing Helga einfaldlega ekki toppuð, og Þórarinn gengst við því með því að nota sama orðalagið nær óbreytt: „Þessi kalda nótt gerir oss alla að fíflum og vitfirringum“, segir fíflið í þýðingu Helga; „This cold night will turn us all to fools and madmen“. Hjá Þórarni er þetta nánast samhljóða: „Þessi kalda nótt gerir okkur alla að fíflum og vitfirringum“. Þetta ber þó ekki að skilja svo að Þórarinn Eldjárn sé eingöngu að yrkja upp gamla þýðingu, því hér er margt öðruvísi. Oftar en ekki finnum við nýstárleg orð í þýðingu Þórarins, uppbót fyrir orð sem þykja líklega of gamaldags hjá Helga. Þetta er sérstaklega áberandi í orðum tveggja persóna, fíflsins og Játgeirs, nánar tiltekið í þeim köflum þar sem hann gerir sér upp vitfirringu og verður „Tommi greyið klikk“ – „Tumi skinnið“, eins og Helgi orðaði það. Leikandi orðfar Þórarins nýtur sín til fulls á þessum stöðum; þar sem Helgi notaði flámæli til framandgervingar beitir Þórarinn nútímalegu slangri. Helgi þýðir Dover sem „Dofri“, en Þórarinn kýs að halda örnefninu óbreyttu. Þar sem Helgi beitir upphöfnu máli hefur Þórarinn oft tilhneigingu til að normalísera. „What means your grace?“ spyr hertoginn af Kornvall þegar Lér hefur skipað Regan, dóttur sinni, að víkja frá sér. Helgi þýðir þetta með hátíðlegu sniði, líkt og frumtextinn gefur tilefni til: „Hvað hugsar yðar hátign?“, en hjá Þórarni verður þetta einfaldlega: „Hvað ertu‘ að meina?“. Skipunin „Prescibe not us our duty“ er upphafin og stuðluð hjá Helga: „Skjala þú fátt um skyldur“, en hjá Þórarni segir: „Þú kennir okkur ekkert“.

Þetta má heita aðalsmerki á þýðingu Þórarins. Víðast hvar léttir þetta textann og gerir hann meira leikandi, en fyrir vikið er nokkrum gullmolum skipt út fyrir hversdagslegra orðalag. „Gullöld vor er hnigin“ víkur fyrir „Blómaskeiði okkar er lokið“. Þórarinn notar líka orð eins og „plott“, „gredda“, „í fússi“, „slumma“, „dekurdúkka“ og m.a.s. „sjálfsali“, sem kemur eins og skrattinn úr sauðaleggnum í reiðilestri Kents yfir Ósvaldi. Samsett lýsingarorð eru líka lykilatriði í því hvernig Þórarinn nútímavæðir málsnið verksins; „meðfæddur“, „fyrrverandi“ og „hórgetinn“ eru allt dæmi um orð sem hann notar til að einfalda enska textann, koma merkingunni til skila með enn skilvirkari hætti en bein þýðing orðaraðar gæti áorkað.

Sölvi Björn Sigurðsson þýddi Ofviðrið fyrir nýlega sýningu Borgarleikhússins. Útgefna þýðingin hans Sölva hefur það fram yfir útgáfuna á þýðingu Þórarins að þar tjáir þýðandinn sig um eigið starf í eftirmála. Það er afar skemmtilegt að lesa hvernig Sölvi útskýrir aðferð sína og rekur áhrifin sem skiluðu sér inn í textann. Hann útskýrir m.a. hvernig hann beitir háttbrigðum í hrynjandinni annað slagið, til að mynda í skapofsaköstum Prosperós, fyrst og fremst til að brjóta textann upp og „minnka vægi ljóðsins í framsetningu leikarans“, eins og það er orðað. Ef marka má eftirmálann hefur Sölvi leitað fanga víða í þýðingavinnunni, rifrildi á Alþingi og línur úr ljóðabókum eftir hann sjálfan eru meðal þess sem hefur orðið honum að innblæstri. Hann nefnir Helga Hálfdanarson ekki sérstaklega sem áhrifavald, þótt það sé deginum ljósara að texti Sölva er að einhverju leyti byggður á þýðingu Helga frá 1957. Sem dæmi um þetta má nefna frægustu orð leikritsins: „We are such stuff as dreams are made on“. Helgi fór þá leið að nota myndmál úr ullarvinnu: „Vér erum þelið sem draumar spinnast úr“. Sölvi skiptir út orðinu „þel“ og setur „efni“ í staðinn: „Við erum efnið sem draumar spinnast úr“, sem er ekki eins hugmyndarík lausn en eðlilegra orðalag í eyrum nútímaleikhúsgesta. Miðað við þýðingu Helga er Sölvi trúrri samhenginu í orðanotkun Shakespeares á vissum stöðum, t.d. í atriðinu þar sem fylliraftarnir Stefanó og Trínkúló virða villimanninn Kalíban fyrir sér í fyrsta sinn. Í máli þeirra er orðið „monster“ notað síendurtekið, og Sölvi þýðir það síendurtekið sem „skrípi“, ólíkt Helga sem grípur til fjölbreytni í orðavali; „skoffín“, „umskiptingur“, „skepna“ og „lubbi“ eru meðal þeirra orðanna sem hann notar. Áhrifin af texta Sölva eru þannig líkari áhrifunum hjá Shakespeare sjálfum; fjölbreytnin hjá Helga færir texta hans fjær frumtextanum og dregur að vissu leyti úr geðshræringunni sem hin staglkennda orðanotkun gefur til kynna.

Margt mætti nefna fleira um hinar nýju Shakespeare-þýðingar, en ég læt staðar numið hér. Það má þó nefna í lokin að með því að þýða Shakespeare upp á nýtt, í ofanálag við heildarverkið í þýðingum Helga Hálfdanarsonar, er ekki einungis verið að miðla verkunum til nýrra leikhúsgesta. Það skiptir ekki minna máli að með því að eiga tvær þýðingar sama leikrits eigum við kost á því að verða enn hæfari en ella til að skilja og túlka verkið sem lesendur. Það er ekki síst þess vegna sem þýðingar Þórarins Eldjárns á Lé konungi og Sölva Björns Sigurðarsonar á Ofviðrinu afar vel þegnar.

(Víðsjá, 14. apríl 2011)

Gyrðir Elíasson: Tunglið braust inn í húsið

Hjalti Ægisson, apríl 15, 2011

Ljóðaþýðingar eru vandasamt verk. Það er nógu erfitt að flytja merkingu milli tungumála þótt ekki bætist við fegurð ljóðlínunnar, leikandi hrynjandi eða djúp tilfinning. Þess vegna sætir það alltaf tíðindum þegar velheppnaðar ljóðaþýðingar koma út á bók, slíkir viðburðir eru afrakstur frjórra átaka og gefa eiginlega til kynna að tungumálið eigi sér enn þá viðreisnar von. Það tungumál sem getur miðlað hugsunum og kenndum frá fjarlægum löndum, jafnvel langt aftur úr öldum, er ekki með öllu gagnslaust. Ljóðaþýðendur mega því kallast eins konar útverðir tungumálsins, ræktendur orðsins í sinni frumlægustu mynd, og athugið að hér er engin kaldhæðni á ferðinni. Gildi ljóðaþýðinga er meira en fólk gerir sér almennt grein fyrir, þær eru sönnun þess að umheimurinn eigi enn þá erindi við okkur; sú ljóðaþýðing sem hrærir streng í brjósti lesandans er vitnisburður um að innra með okkur sé kjarni sem er eins og flaga í risastóru mósaíkverki. Það er eilíft undrunarefni hve hjörtum mannanna svipar saman, hvar í flokki sem þeir standa, hvort sem þeir búa í Kína eða Grafarvoginum. Ljóðið er einlægast allra tjáningarforma, og þegar það þjónar hlutverki sínu sem tengslanet er alveg ábyggilegt að sjálf Fésbókin bliknar í samanburði.

Gyrðir Elíasson hefur birt ljóðaþýðingar sínar í tveimur bókum á undanförnum árum, og sú þriðja, Tunglið braust inn í húsið, kom út nú í vikunni. Það er óhætt að segja að nýja bókin gefi hinum tveimur fyrri ekkert eftir, nema síður sé. Þetta er þrjúhundruð síðna verk með þýddum ljóðum eftir þrjátíu og sex skáld. Líkt og í fyrri ljóðaþýðingasöfnum Gyrðis er afar sterkur heildarsvipur á þessari bók, viss leiðarstef ganga í gegnum verkið allt og eftir því sem lesið er oftar má telja víst að sífellt fleiri snertifletir komi í ljós á milli ljóðanna. Þetta geta verið jafnáþreifanlegir hlutir og laufblöð – í áttahundruð ára gömlu ljóði eftir kínverska skáldið Jang Wan Li feykir vindurinn skæðadrífu af ilmandi krónublöðum; í nokkurra ára gömlu ljóði eftir bandarísku skáldkonuna Jane Hirshfield fljóta fáein lauf á næturtjörn og vekja upp gamla sorg. Í ljóðinu „Dauði ljóðlistarinnar“ er brugðið upp samræðu þar sem deilt er um merkingu laufblaðanna:

Föllnu laufblöðin þennan morgun

eru full af galsa.

Dansa og fara í höfrungahlaup

og elta hvert annað niður götuna.

Nei, það er ekki rétt.

Laufblöð hafa enga skapgerð,

þau eru ófær um að dansa eða

stunda skipulagða leiki, það

sem þú sérð er bara dautt

efni.

Hér eru líka mörg ljóð þar sem ort er um ljóðlistina sjálfa, ýmist af vantrú eða bjartsýni. „Fiskar orðanna svamla letilega / framhjá mér,“ yrkir tékkóslavneska skáldið Antonín Bartusek. Ljóðalestur er líka einn af þráðunum í þessari bók; Jane Hirshfield yrkir um það að lesa kínversk ljóð fyrir dögun, sem kemur vel heim og saman við fyrstu ljóðaþýðingarnar í bók Gyrðis, en þar er um að ræða ljóð frá Kína og Japan. Gyrðir Elíasson er ljóðskáld en hann er líka lesandi, höfundarstaða hans er því önnur í þessari bók en í þeim bókum sem hafa að geyma frumort ljóð. Að vissu leyti má segja að bókin Tunglið braust inn í húsið sé eins konar persónuleg bókmenntasaga, rituð af Gyrði Elíassyni. Hér er þó ekki reynt að raða ljóðunum í virðingarröð eða skapa þá blekkingu að um sé að ræða heildarsafn af einhverju tagi, sneiðmynd eða antólógíu. Við fáum einfaldlega að slást með í för í ferðalag um einkavegi Gyrðis sjálfs, þær slóðir sem hann hefur troðið sem lesandi, og sannarlega má sjá líkindi við hans eigið höfundarverk. Inntak ljóðræns skáldskapar er ljóðskáldið sjálft, sagði þýski heimspekingurinn Hegel. Mörg af þeim viðfangsefnum sem við þekkjum úr ljóðum og sögum Gyrðis eru í brennidepli í þessu þýðingasafni. Myrka hliðin á mannssálinni er eitt þeirra, hér eru ófá ljóð um dimman veruleika geðsjúkdóma og þunglyndis, og söknuðurinn er jafnframt áberandi. Það er í þessum ljóðum sem verkið rís hæst, enda tekst Gyrði að fanga ólundina með hætti sem fáir leika eftir. Þannig miðlar hann sorginni í ljóðum bandarísku skáldanna Donald Hall og Jack Gilbert, sem báðir ortu mörg nístandi ljóð um látnar eiginkonur sínar. Sum ljóðin líkjast einna helst gátum, ég nefni „Leiðina“ eftir rúmenska skáldið Marin Sorescu, þar sem ort er um mann sem gengur eftir járnbrautarteinum; að baki hans nálgast lest á ógnarhraða, en lestin mun aldrei ná honum, eftir því sem  hann segir sjálfur;

Og jafnvel þó hún mundi

mylja mig undir sig

þá verður alltaf einhver

sem gengur á undan henni,

með höfuð fullt af hugsunum,

og hendur fyrir aftan bak.

Hér má ímynda sér að um sé að ræða ádeiluljóð, enda var Sorescu andófsmaður í listsköpun sinni. Aftast í bók Gyrðis eru sögð deili á skáldunum sem eiga ljóð í bókinni, og oft duga þær skýringar vel til að koma lesandanum á sporið við að túlka ljóðin. Þessar skýringar undirstrika enn fremur þá túlkun sem Gyrðir býður upp á með ljóðavalinu og svo þýðingunum sjálfum. Á einhvern hátt er Tunglið braust inn í húsið kennslubók í ljóðlist á síðari hluta tuttugustu aldar, og þeim rótum hennar sem liggja aftur í aldir, enda er hér líka að finna eldri ljóð. Með skýringunum aftast í bókinni er lestrinum stýrt að vissu leyti, persóna skáldsins er dregin fram, enda er ljóðlistin persónulegust allra lista.

Tunglið braust inn í húsið er gefin út í tilefni af fimmtugsafmæli Gyrðis Elíassonar, og um þessa útgáfu má vísa í ljóð kanadíska skáldsins Alden Nowlan, sem er að finna í bókinni: „Góðir hlutir hafa gerst“. Í því ljóði er ort um undrin í hversdagslífinu, það hvernig ljóðrænar kenndir eiga það til að springa út í hjörtum okkar þegar minnst varir svo að við verðum hálfdrukkin af augnablikinu. Þannig er hægt að upplifa bestu ljóðin í þessari bók; allir sem unna góðum ljóðum verða einfaldlega að lesa Tunglið braust inn í húsið, því þessi bók er viðburður. Hinir, sem telja sig ekki eiga neinar ljóðrænar taugar í sinni sál, ættu líka að lesa, því þetta þýðingasafn er prýðilegur upphafspunktur í ljóðalestri. Þessi bók er ekki upphaf á starfi Gyrðis Elíassonar sem ljóðaþýðanda, hann sýnir þvert á móti lærdóm og kunnáttu, og við skulum vona að á þessu starfi verði framhald. Ástríðan og áfergjan sem er grunnurinn að þýðingastarfi Gyrðis er eitt kraftmesta og mest hrífandi aflið í íslenskri ljóðagerð á okkar dögum.

(Víðsjá, 7. apríl 2011)

Baldur Óskarsson: Langt frá öðrum grjótum

Hjalti Ægisson, apríl 15, 2011

Ljóðskáldið Baldur Óskarsson hefur lengi haft það orð á sér að hann yrki torskilin kvæði, enda er Baldur sjaldséður í lífsstílsblöðum og kokteilboðum. Ljóðin hans komast hvorki fyrir á mjólkurfernum né í úrvalskverum fyrir grunnskóla. Í bókum hans ægir öllu saman; sú nýjasta, Langt frá öðrum grjótum, er um tvöhundruð síður að lengd. Þar skiptast á knöpp smákvæði og langir ljóðabálkar, smælkið stendur saman við dramatíkina, goðsagnir innan um hversdagsleika, þýðingar í bland við frumort. Við fyrsta lestur er hætt við því að margir reki upp stór augu, orðin hans Baldurs Óskassonar slettast upp um alla veggi, stundum fáguð, stundum klossuð og heildin er sjaldnast áferðarfalleg. En þó orð hans lýsi æði, þá er skipulag í þeim samt, og reyndar er slíkt samhengi í öllu höfundarverki Baldurs að furðu sætir, enda ferillinn langur og gjöfull; fyrsta bók Baldurs, Svefneyjar, kom út fyrir fjörtíu og fimm árum. Síðan þá hafa bækurnar komið með nokkurra ára millibili, sé sú nýjasta talin með eru þær fjórtán alls. Á síðustu árum hefur oft borið á því að vísað sé til eldri bóka með mottói í upphafi ljóða, og svo er einnig í þeirri nýjustu. Baldur kemur okkur lesendum á sporið við lesturinn, hann vísar okkur á þræðina sem liggja í gegnum bækurnar, leggur upp færin; þótt ljóðin séu torskilin er okkur þannig veitt líkn með þraut.

Ljóð Baldurs Óskarssonar standa einhvern veginn utan við samtímann, en þó má finna ýmsa snertifleti við dægurmálin með góðum vilja; í nýjastu bókinni er meira að segja ljóð sem heitir „Júróvisjón“. Samtímaljóðin hans Baldurs einkennast þó ekki af skilyrðislausri vandlætingu, ef einhver var að velta því fyrir sér; sýn hans er þvert á móti einkennilega tvíræð, hér má finna lúmska ádeilu sem er þó stundum blandin einhverri aðdáun innst inni. Á sjöunda áratugnum orti Baldur um stríðið í Víetnam, árið 2010 yrkir hann um ESB, en flýtum okkur hægt; það er nefnilega ekki hlaupið að því að tengja Evrópusambandsljóð Baldurs við þann málstað sem okkur er hjartfólgnastur, hvort sem við erum með eða á móti. Ljóðheimur hans er flóknari en svo, og lesturinn krefst þess að við beitum ímyndunaraflinu. Hver er það til dæmis sem er að væflast í kringum leiðið hans Gríms Thomsens á Bessastöðum á meðan gestir sitja í boði fyrir innan? Og hverjir eru gestirnir? Ekkert er einfalt í þessu dæmi, kannski er heillavænlegast að fletta til baka í fyrri bækur ef við viljum verða einhvers vísari. Ljóðaflokkurinn „Í landnámi Jólgeirs“ spannar til að mynda þrjár bækur þegar hér er komið sögu, allt frá Rauðalæk til Steinslækjar, þótt vitundarmiðjan sé einhvers staðar, sennilega í sveit bernskunnar. Bernskuminningarnar eru eins konar kjölfesta í ljóðagerð Baldurs, hann bregður oft upp svipmyndum úr æsku og hefur löngum haft tilhneigingu til að myndskreyta bókarkápur sínar með teikningum eftir börn.  Langt frá öðrum grjótum skartar reyndar æskuverki eftir Baldur sjálfan, módernískri grafíkmynd frá 1954. En allt um það, æskan speglast í mörgum þessara ljóða, spegúlantar og matmæður með augum barnsins, stærðfræðipróf í borg, seinni heimsstyrjöldin með augum fólks í íslenskri sveit árið 1940: „Þeir hætta víst ekki / fyrr en þeir drepa einhvern / sagði gömul kona á Barðaströnd“. Stundum fer ekki á milli mála að sjónarhornið er þess sem reynsluna hefur og þekkir afdrif fólksins sem kemur við sögu á seinni árum. Þótt beinn samanburður við nútímann sé hvergi sjáanlegur á yfirborðinu þarf stundum ekki að seilast langt til þess að koma honum á laggirnar, til dæmis í ljóðinu 1947, þar sem ort er um Heklugos: „Reykelsi á sjónbaug – öskuvorið / ekki raskaði það ró okkar / Ekkert raskar ró okkar“. Það er eins og liggi í orðunum að nú hafi þetta breyst, öskuvorið 2010 raskaði nefnilega ró allmargra, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Sumt breytist þó ekki, því Heklugosið 1947 var ekki síður vinsælt hjá ferðamönnum en gosið í Eyjafjallajökli löngu síðar: „Eftir þjóðveginum / lá straumurinn / til fjallsins“.

Baldur Óskarsson

Líkt og fyrr greinir skiptist á stórt og smátt í þessari bók. Ofurhversdagsleg atvik verða skáldinu stundum að yrkisefni; eldspýturnar klárast og upp spretta hugrenningar um varanleika, pappírsgatarinn dettur í sundur og stjörnumerki myndast á gólfinu. Annars staðar stíga guðir fram á sviðið, goðmagnið Meskalínus vandar um fyrir skáldinu, hetjan Bellerófón rekur raunir sínar og veiðimaðurinn Aktaeon boðar eitthvað ógnvænlegt, eins og í gömlu kvæði eftir Ezra Pound, sem skýtur oft upp kollinum í bókum Baldurs. Það vekur líka sérstaka athygli hversu ríkjandi hin kvenlega vídd er í þessari bók, hér birtast konur á öllum aldri, litlar stúlkur sem „dorma í djúpum brunnum“ og barmmiklar, spánskar stórkonur, hin ógæfusama Sylvía og forsjála skrifstofukonan sem „hafði þann sið að leggja inná gjaldeyrisreikning“. „Konan er mjúklát heiði“, segir í einu ljóðinu, sem eru lýsandi orð fyrir verkið í heild. Maður og staður renna saman og hvorugt getur án hins verið.

Ef nefna ætti grundvallarstef í þessari bók væri hægast að tilnefna lýsingar á náttúru, umhverfi og vistarverum. „Staðbundnar tilfinningar endast lengi,“ eins og Baldur fullyrðir um kvæðagerð skáldbróður síns, Jóns úr Vör, og sú staðhæfing gæti hæglega staðið sem efnislýsing yfir ljóðum hans sjálfs. Langt frá öðrum grjótum er nefnilega full af staðarljóðum, hér er ort um fjallið Mjöðm, sem er baðað grískri birtu, búskap í Hólunum og Árnessýslu, Egyptaland til forna og Hótel Atlantis, þann draumkennda stað. Umhverfið í ljóðum Baldurs Óskarssonar er eins og ljóðin sjálf, órætt og misleitt, hrikalegir klettadrangar í bland við lygnar sandfjörur, raunveruleiki í bland við fantasíu. Spánn er í alveg sérstöku hlutverki í þessari bók, einn áhrifamesti hluti hennar er tileinkaður Barcelona, borginni sem gamlir munkar sögðu að djöfullinn hefði lofað Kristi, ef ... Stundum er staðurinn vettvangur sjónarspils, og í þessari bók eru að minnsta kosti eitt leikrit, dulbúið sem ljóð. Oftast er landslagið þó bundið minningum og fortíð sem kviknar og verður ljóslifandi.

Langt frá öðrum grjótum er enn einn bitinn í því flennistóra púsluspili sem er kvæðasafn Baldurs Óskarssonar. Það má ljóst vera að haldgóður skilningur á þessum ljóðum verður ekki fenginn með einum lestri, og þegar upp er staðið má jafnvel ímynda sér að sú leit gæti hæglega endað úti í móa. Þetta eru ljóð sem þarf að skynja, fremur en skilja: „ljóð aldrei skilin, skynjuð þó“, eins og stendur á einum stað. Áhrif góðra ljóða felast oft í öðru en röklegu samhengi, ljóðið er upplifun eða söngur. Í Langt frá öðrum grjótum bætast nýjar raddir í kórinn, ljóðin eru viðbót við hina miklu hljómkviðu Baldurs Óskarssonar sem er stundum hrjúf, stundum ljúf, en aldrei flatneskjuleg.

(Víðsjá, 31. mars 2011)

Keith Richards: Life

Hjalti Ægisson, apríl 15, 2011

„Minningin er sú eina Paradís sem ekki er unnt að reka okkur út úr,“ sagði þýska skáldið Jean Paul einhvern tímann á nítjándu öld. Öll eigum við minningar, og þeir sem finna sig knúna til að deila minningum sínum með öðrum í rituðu máli standa jafnan frammi fyrir því verkefni að smíða rökrétta heild úr minningunum, læsilega frásögn þar sem orsakasamhengi er grundvallarregla og lífshlaupið er skoðað sem línulegt ferli frá æsku til fullorðinsára. Þegar fólk sem hefur öðlast goðsagnakenndan status tekur upp á því að rita sjálfsævisögu sína koma ýmis önnur vandamál til skjalanna, ekki síst sá mikli barningur sem felst í því að greina á milli opinberu ímyndarinnar og hins raunverulega sjálfs, kjarnans sem er falinn einhvers staðar á bak við glamúrinn, kjaftasögurnar og markaðssetninguna. Í nýlegri ævisögu Keith Richards er tekist á við þetta vandamál berum orðum. „Ég get ekki metið að hve miklu leyti ég lék hlutverkið sem var skrifað fyrir mig. Ég er að tala um hauskúpuhringinn, brotnu tönnina, augnfarðann. Skiptist þetta til helminga?“ spyr þessi gamli rokkhundur á einum stað, þar sem hann veltir vöngum yfir því hvar rokkaraímyndin endar og hann sjálfur byrjar. „Ímyndin, eins og hún var, getur orðið eins og fangakúla um fótinn. Fólk heldur til dæmis enn að ég sé dópisti, en það eru liðin þrjátíu ár síðan ég hætti í neyslu.“

Þessar vangaveltur, og aðrar sambærilegar, eru meðal þess sem gera Life, ævisögu Keith Richards, vel þess virði að lesa. Alveg frá því að Rolling Stones voru stofnaðir þurftu Keith og félagar hans að gangast upp í hlutverkum sem voru að einhverju leyti byggð á þeirra raunverulega persónuleika, en að öðru leyti skrifuð út frá markaðsvænni formúlu. Stones voru óþægu strákarnir sem sungu um forboðnar ástir, greddu og siðferðilega vafasamar konur. Þeir klæddust ekki búningum eins og tíðkaðist svo gjarnan með rokkbönd í upphafi sjöunda áratugarins, ósamræmið í klæðaburðinum endurspeglaði uppreisnina sem tónlistin þeirra stóð fyrir. Keith Richards er ein voldugasta táknmynd uppreisnar í gjörvallri rokksögunni, og sú ímynd á sér djúpar rætur í honum sjálfum, eftir því sem dæma má af ævisögunni; alla ævi hefur hann barist gegn valdboði og talað máli einstaklingsfrelsis. Þegar Keith var skólastrákur í Dartford söng hann í drengjakór, en var gert að hætta í kórnum þegar hann fór í mútur. Út úr þeirri höfnun spratt uppreisnarseggurinn Keith Richards, sem átti eftir að beisla reiðina og kraftinn í listsköpun sinni seinna. Þannig er þetta afskaplega hefðbundin ævisaga, hér er grennslast fyrir um rætur persónuleikans í bernskunni. Fáir fá betri eftirmæli í þessari bók en Gus Dupree, afi Keiths sem kenndi honum fyrstu gítargripin, en tónlistarmaðurinn Keith Richards mótaðist fyrst og fremst sem boðberi, ákafur tónlistaráhugamaður sem vildi deila áhuga sínum með öðrum. Keith kynntist Mick Jagger vegna þess að báðir hlustuðu á sömu tónlistina, blús frá Chicago, og þegar þeir stofnuðu Rolling Stones var tilgangurinn ósköp einfaldlega að útbreiða fagnaðarerindið, spila blúslögin sem þeir dýrkuðu svo ákaflega. Það var ekki fyrr en seinna sem þeir fóru sjálfir að semja lög, og eingöngu vegna þess að umboðsmaðurinn þeirra sannfærði þá um að öðruvísi gæti bandið ekki lifað. Jagger og Richards voru að þessu leyti ólíkir Lennon og McCartney, sem höfðu lagasmíðarnar í blóðinu og voru búnir að frumsemja heilan haug af efni áður en Bítlarnir tóku til starfa.

Ævisaga Keith Richards er líka hefðbundin að því leyti að þetta er saga um rokkstjörnulíferni, frásögn um brjálæðislegar uppákomur, dóp, fyllerí, framhjáhald, lögbrot, rústuð hótelherbergi; allan hraðann og óreiðuna sem fylgir rokkinu. Það er fullt af krassandi sögum til um Rolling Stones, og hér eru þær sagðar af fumleysi og án nokkurrar tilgerðar. Helsti gallinn er hins vegar sá að flestar þessar sögur hafa ratað á prent áður, enda mikill korpus til af efni um feril þessarar langlífu rokkhljómsveitar. Þeir lesendur sem þekkja þann feril til hlítar græða lítið á fylleríssögunum í þessari bók, og þær taka óþarflega mikið pláss að mínu mati. Keith ritar opinskátt um dópneyslu sína, sem var, eins og kunnugt er, veruleg á áttunda áratugnum. Það er einhver tvöfeldni sem ríkir í þessum lýsingum, í aðra röndina er hér upphafin mynd á vímunni og öllum þeim úrvalsefnum sem Keith lét í sig þegar hann var sem dýpst sokkinn – við erum sannfærð um að þetta hafi verið kókaín, hass og heróín í hæsta gæðaflokki, dúndurstöff, upplifun sem var engu lík. Hins vegar eru þetta lýsingar á þeirri ömurlegu tilveru sem fylgir fíkninni; paranoju, sífelldri eftirvæntingu eftir næsta skammti og ótal harmleikjum. Í sögu Rolling Stones er löng slóð af fólki sem var ekki eins heppið og Keith Richards í þessari baráttu, fólki sem þurfti að lúta í lægra haldi fyrir fíkniefnadjöflinum. Ævisaga Keiths er eins og saga manns sem kemst lífs af úr stríði. Það er þó meiri fengur að þeim köflum sem kalla má tíðarandasögu, en Keith Richards hefur mjög skarpa sýn á það félagslega umhverfi sem rokkið sprettur upp úr og þróast í. Hér hefur hann trúlega notið góðs af samstarfinu við blaðamanninn James Fox, sem er skrifaður sem meðhöfundur verksins. Að einhverju leyti er texti þessarar bókar uppskrifaðar einræður Keiths, þar sem trúlega hefur þurft að fínpússa ýmsa kanta; í bland koma svo viðtöl við samferðamenn hans og glefsur úr dagbókum og bréfum. Formið er, þegar vel er að gáð, sundurlausara en virðist við fyrstu sýn, sem þarf auðvitað ekki að vera ókostur.

Sambandið við Mick Jagger er vitanlega kapítuli út af fyrir sig; sú umfjöllun hefur ratað í ófáar blaðafréttir í Bretlandi, enda skýtur Keith nokkrum föstum skotum að þessum nánasta samstarfsmanni sínum. Þeir kaflar eru dálítið þvingaðir, og maður fær einhvern veginn á tilfinninguna að þeir hafi fyrst og fremst markaðslega fúnksjón, hlutverk stríðninnar hjá prakkaranum Keith Richards er sennilega fyrst og fremst að selja bókina. Þessi ævisaga Keiths er vitanlega vara á markaði og hann leggur nafn sitt við verkið gegn greiðslu (upphæðin sjö milljón dollarar hefur verið nefnd í því samhengi). Keith skrifar að það sé ótalmargt við poppstjörnuhlutverkið sem hann hafi haft óþol á frá upphafi. Mick Jagger valdi aðra leið en hann út úr þeirri krísu. „Mick valdi smjaðrið, sem er næstum því eins og dópið, flótti frá veruleikanum. Ég valdið dópið,“ segir hann einhvers staðar. Þrátt fyrir allt ítrekar hann þó að Mick Jagger standi sér nær en flestir, enda er samband þeirra langlífara en nokkurt annað samband í lífi beggja. „Við erum ekki eins og Norður- og Suður-Kórea, frekar eins og Austur- og Vestur-Berlín.“

Helsti kosturinn við ævisögu Keith Richards er sú ástríðufulla umfjöllun um tónlist sem hér er að finna í nokkrum góðum sprettum. Keith talar af innlifun um tónlistina sem hann hlustaði á sem ungur maður, lögin sem urðu honum innblástur, og svo lögin sem hann samdi sjálfur, hvernig þau eru uppbyggð, hvernig hugmyndin að þeim kviknaði og hvernig hann og Mick Jagger unnu saman við lagasmíðina. Hinn gamalreyndi blúsmaður kemst á gríðarlegt flug í þessum lýsingum, sem eru prýðilegt stoðefni við lögin sjálf, listaverkin sem hafa haldið nafni hans á lofti. Keith Richards sýnir og sannar í þessum köflum að þótt hann sé löngu hættur að geta samið góð rokklög er hann ýmsum kostum gæddur sem listrýnir. Þess vegna er Life, ævisaga Keith Richards, vel þess virði að lesa.

(Víðsjá, 24. mars 2011)

James Carroll: Jerusalem, Jerusalem

Hjalti Ægisson, apríl 15, 2011

Jerúsalem, Jerúsalem er titill nýútkominnar bókar eftir bandaríska rithöfundinn og kaþólikkann James Carroll. Nafn borgarinnar helgu er tvítekið í titlinum, sennilega til þess að undirstrika tvíbenda stöðu hennar í hugarheimi Vesturlanda; Jerúsalem er ekki bara borg heldur líka hugmynd sem hefur lifað og þróast í gegnum allar mestu hræringar á sögulegum tíma. Engin borg líkist Jerúsalem, þar gekk Jesús Kristur um göturnar og þar var hann krossfestur; í fornöld var Jerúsalem skurðpunktur mestu stórvelda heimsins, þar háðu Babýlóníumenn og Assýríumenn örlagarík stríð, sem og Egyptar, Grikkir, Makedóníumenn og Rómverjar. Átökin um Jerúsalem eru einn af rauðu þráðunum í vestrænni siðmenningu. Eyðing borgarinnar árið 70 eftir Krist markaði tímamót í mannkynssögunni og lagði grunninn að nýjum sjálfsskilningi, bæði hjá kristnum mönnum og gyðingum. Þegar musterið í Jerúsalem hafði verið jafnað við jörðu þurfti að skilgreina inntak trúarbragðanna upp á nýtt; fyrir gyðingunum lifði musterið áfram sem minning, fyrir kristnu mönnunum markaði atburðurinn upphafið á hugmyndinni um Krist sem hið nýja musteri, sameinandi afl sem var óháð landsvæðum og kynþáttum. Á miðöldum var eyðing Jerúsalems oft túlkuð sem hefnd fyrir krossfestinguna, Rómaveldi hafi þannig eingöngu verið að framfylgja réttlætinu með þessari óhugnanlegu innrás sem kostaði tugir þúsunda lífið. Saga Jerúsalemsborgar frá upphafi og til okkar daga er saga ofbeldis, sagan um það hvernig mannkynið freistast til að grípa til ofbeldis og koma í veg fyrir að það nái að brjótast út.

James Carroll kom til Jerúsalem í fyrsta sinn sumarið 1973. Hann stóð þá á þrítugu og hafði starfað sem kaþólskur prestur við Háskólann í Boston í fjögur ár. Ferðin hafði vitanlega trúarlegt inntak, Carroll vildi, eins og svo margir bæði fyrr og síðar, fá að upplifa staðinn þar sem frelsarinn lifði og dó, feta í fótspor Krists, anda að sér sama loftinu og hann. Það var einhver einkennilegur samhljómur á milli borgarlífsins og sálarlífs hins unga prests; hvort tveggja var einskær glundroði, enda þótti honum ekki úr vegi að túlka borgarmyndina sem tákn jarðlífsins. Guð kemur til mannanna þegar líf þeirra er óreiðukennt og flókið, og einmitt þannig er Jerúsalem. James Carroll var sonur eins áhrifamesta hershöfðingjans í bandaríska lofthernum, en einlægur friðarsinni engu að síður. Hann hafði tekið virkan þátt í mótmælum gegn stríðinu í Víetnam og starfaði innan vébanda kaþólskrar vinstrihreyfingar sem settu friðarbaráttu á oddinn.

James Carroll

Ferðin til Jerúsalem markaði tímamót í lífi James Carroll, hugljómun er kannski rétta orðið, því það var þarna, í þessari helgustu borg kristinna manna, gyðinga og múslima, sem hann ákvað að láta af preststarfinu og gerast rithöfundur. Á áttunda og níunda áratugnum skrifaði hann fyrst og fremst skáldsögur, en útgefnar sögur hans fylla tuginn. Um og eftir miðjan tíunda áratuginn sneri James Carroll sér hins vegar að ritun fræðibóka, þeirri tegund bókmennta sem hafa haldið nafni hans á lofti. Tengsl trúar og ofbeldis eru höfuðviðfangsefni hans og hann hefur oftar en einu sinni komið illa við kauninn á kaþólsku kirkjunni, þótt hann hafi alla tíð litið á sig sem kaþólikka. Árið 2009 gagnrýndi hann Benedikt sextánda páfa harkalega fyrir blinda bókstafstrú og mannfjandsamlegar áherslur sem eru í engu samræmi við nútímaleg mannréttindi, að hans mati. Tengsl kristinna manna og gyðinga hafa líka verið James Carroll sérstakt hugðarefni í áranna rás, þekktasta rit hans er án vafa bókin Sverð Konstantínusar, sem út kom árið 2001. Þar ritar hann um gyðingahatur og helsta málsvara þess á alþjóðavettvangi í sögu mannkynsins, nánar tiltekið kaþólsku kirkjuna. Að mati Carrolls spratt helförin ekki upp úr engu, heldur var hugmyndafræði kaþólskunnar sá jarðvegur sem Adolf Hitler og fylgismenn hans erjuðu af kappi – án kristinnar trúar og þeirra gilda sem í henni felast hefði helförin aldrei verið möguleg.

Í nýjustu bók James Carroll er fjallað um Jerúsalem, borgina sem Rómverjar lögðu í eyði um það leyti sem guðspjöllin voru skrifuð. Carroll notar hugtakið Jerúsalemsveiki í þessu riti, Jerusalem Fever. Með því  á hann við þá tilhneigingu, sem hefur loðað við borgina, svo langt aftur sem ritaðar heimildir greina, að tengja þessa borg við hvers konar heimsendafantasíur. Í Opinberunarbók Jóhannesar, lokakafla Nýja testamentisins, er himnaríki kallað himnesk Jerúsalem, og öldum saman hafa lýsingar á þessari borg verið eitt helsta viðmiðið í ritum þeirra sem hafa reynt að ímynda sér handanlífið. Jerúsalemveikin hefur alltaf blundað í vestrænni menningu, að mati James Carroll. Kristnir menn og múslimar hafa, ekkert síður en gyðingar, spunnið fjölda sagna um þessa borg, hún er miðlæg í ímyndunarafli og hugmyndakerfi þessara trúarbragða, því þetta er staðurinn sem Guð snerti. Sú hugmynd hefur haft óumræðilegar afleiðingar í mannkynssögunni.

Í landfræðilegum skilningi er Jerúsalem líka mjög sérstök borg, um hana rennur engin á, hún liggur ekki að sjó, heldur er hún byggð á hæðum. James Carroll rekur sögu þessarar hrjóstrugu borgar frá bronsöld til nútímans í bókinni Jerúsalem, Jerúsalem, og það kemur á óvart að þeir eiginleikar sem við eignum henni með hliðsjón af lýsingum Biblíunnar, ná jafnvel lengra aftur en þeir ættfeður Ísraels, sem fjallað er um í fyrstu Mósebók. Fornleifarannsóknir benda til þess að löngu fyrir þann tíma sem lýst er í Biblíunni kunni borgin að hafa verið vettvangur trúarfórna, þar sem mönnum var fórnað á altari til dýrðar guðlegum máttarvöldum. Frá örófi alda hafa hæðirnar í Jerúsalem verið vettvangur táknrænna athafna þar sem trú og ofbeldi blandast á ísmeygilegan hátt. Trúarbrögð gyðinga hefjast á því þegar Guð hafnar ofbeldinu, eins og sagan um fórn Abrahams ber með sér. James Carroll hefur í verkum sínum fjallað um nauðsyn þess að trúað fólk í nútímanum, hvort sem það eru gyðingar, kristnir menn eða múslimar, horfist í augu við þann trúarlega bakgrunn sem liggur ofbeldinu til grundvallar. Möguleikinn á friði í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs getur ekki orðið raunverulegur öðruvísi en með því að gera upp þá ofbeldisfullu sögu sem birtist okkur í sögu Jerúsalemborgar. Á síðustu sextíu árum hafa tvær kynslóðir vaxið úr grasi á Vesturlöndum, fólk sem hefur notið meiri friðar en áður hefur þekkst í mannkynssögunni. Þessi friður sprettur að mati Carrolls af því að stofnanabundinni trú hefur verið hafnað, hún er veikari nú en nokkru sinni áður í Evrópu, og þar með skapast grundvöllur fyrir raunverulegum mannréttindum, afnámi dauðarefsinga og endalokum meiriháttar styrjaldarátaka. James Carroll talar þó ekki fyrir trúleysi í ritum sínum, heldur trúarumbótum, hann krefst þess að trúarstofnanir geri upp sína ofbeldisfullu sögu og bók hans um Jerúsalem er hugsuð sem innlegg í það uppgjör.

(Víðsjá, 17. mars 2011)

James Shapiro: Contested Will

Hjalti Ægisson, apríl 14, 2011

Árið 1794 var viðburðaríkt ár í breskum bókmenntum. Ekki bara vegna þess að það var þetta ár sem William Blake gaf út ljóðabækur sínar, Söngva sakleysisins og Ljóð lífsreynslunnar í einu bindi, og ekki bara vegna þess að Jane Austen skrifaði sína fyrstu skáldsögu þetta ár. Nei, mesti viðburðurinn í bresku bókmenntalífi árið 1794 var vafalaust í árslok þegar nokkur ómetanleg skjöl úr fórum Williams Shakespeares komu í leitirnar. Um var að ræða bréf, rituð með hendi skáldsins, til ýmissa nafntogaðra samtímamanna hans, svo og bréf annarra til Shakespeares, þar á meðal eitt frá Elísabetu Englandsdrottningu, þar sem hún þakkar honum honum fyrir fallegu línurnar sem hann sendi henni síðast, og segist hlakka til að hitta hann með leikaraflokkinn sinn í sumar. Þessi bréfafundur þótti sæta miklum tíðindum, og ekki minnkaði æsingurinn hjá aðdáendum Shakesepeares í febrúar árið eftir, þegar áður óþekkt handrit að Lé konungi kom í leitirnar, handrit sem hafði að geyma upprunalega gerð verksins, óræk sönnun þess að það hefði verið stytt verulega í meðförum ritstjóra og leikstjóra á seinni tímum. Sá sem fann skjölin og gerði þau opinber var tæplega tvítugur piltur, William Henry Ireland, sonur Samuel Ireland, sem var einn kunnasti fornleifasafnarinn í Lundúnum og mikill Shakespeare-aðdáandi. Drengurinn hafði komist í kynni við aðalsmann sem vildi ekki láta nafns síns getið, en gaf honum handritin, sem höfðu tilheyrt fjölskyldu hans um árabil. Skjölin voru fljótlega gefin út og útgáfunni var fagnað mjög af helstu bókmenntasérfræðingum landsins. Það kættust þó ekki allir yfir þessum atburðum, einn þeirra sem lét sér fátt um finnast var Edmond Malone, sem var meðal áhrifamestu Shakespeare-fræðinga á átjándu öld. Skýringin á þessu fálæti hans lá í augum  uppi að margra mati, karlinn hlaut að vera öfundsjúkur út í hið ómenntaða piltkorn sem hafði fært bókmenntasamfélaginu þessa gjöf sem var svo stór að nú þurfti að meta líf skáldsins frá Stratford alveg upp á nýtt. Það kom þó annað hljóð í strokkinn þegar Malone svaraði útgáfunni með bók í mars 1796, fjögurhundruð síðna doðranti þar sem hann rakti sig í gegnum hin nýfundnu skjöl lið fyrir lið, rýndi í orðalagið, og kvað upp þann dóm að þau stæðust ekki fræðilega skoðun; þetta væri augljóslega ekki ritað á ævitíma Shakespeares, því textinn var fullur af klúðurslegri fyrningu og mun yngra orðalagi. Það leið svo ekki á löngu þar til William Henry Ireland viðurkenndi að hann hefði falsað skjölin frá upphafi til enda, ekkert þeirra var frá Shakespeare komið, og nafnlausi velgjörðarmaðurinn sem átti að hafa gefið honum þau var uppspuni frá rótum.

Þessi saga, og margar aðrar, er sögð í nýlegri bók, Contested Will eftir bandaríska sagnfræðinginn James Shapiro. Þar er rakin saga hugmyndar sem hefur lengi loðað við William Shakespeare, nánar tiltekið þeirrar hugmyndar að hann hafi ekki ritað verk sín sjálfur, heldur einhver annar, hugsanlega fleiri en einn maður. Þessi umræða kviknaði í lok átjándu aldar, um svipað leyti og glæpasagan kom fram á sjónarsviðið, en efasemdirnar um Shakespeare sem höfund hefur alltaf borið keim af morðgátunni. Hver framdi glæpinn, hafa menn spurt, ef það var ekki William Shakespeare sem ritaði þessi ódauðlegu verk, hver var það þá? James Shapiro rekur þessa sögu af aðdáunarverðri nákvæmni, frásagnargleði og fræðilegri stillingu sem er engu lík. Hann tekur skýrt fram í upphafi bókarinnar að hann telji sjálfur að Shakespeare hafi ritað verkin sem honum eru eignuð, en honum tekst frábærlega að rekja það hvernig mótbárurnar verða til, þróast og breiðast út.

Sagan um Shakespeare-efasemdirnar er lyginni líkust á köflum, full af svikum og fölsunum, eins og frásögnin um William Henry Ireland ber með sér. Stóra vandamálið við Shakespeare sem sagnfræðilegt viðfangsefni er heimildaleysið; það eru engin skjöl varðveitt með hendi hans sjálfs, engar myndir til af honum aðrar en þær sem voru málaðar eftir að hann lést, og haldföst vitneskja um æviferil hans er skorin við nögl. Í leikritum Shakespeares eru svo fáar áþreifanlegar vísanir til ritunartímans, að við hljótum að álykta að maðurinn hafi tekið meðvitaða ákvörðun um að binda verkin ekki samtíma sínum með neinu móti. Auk þess er ýmislegt sem bendir til þess að hann hafi vísvitandi þurrkað út allan vitnisburð um æviatriði sín, eins rækilega og hann gat, til þess að tryggja að sagnfræðingar komandi kynslóða hefðu ekki erindi sem erfiði þegar þeir færu að hnýsast fyrir um líf hans. Í svona óvissuástandi er vitanlega mikið rými fyrir getgátur og sögusagnir, krassandi samsæriskenningar skjóta gjarnan upp kollinum þegar heimildirnar skortir, en meintur menntunarskortur skáldsins eru sá klettur sem þessar vangaveltur voru byggðar á í upphafi. Leikrit Shakespeares eru að miklu leyti unnin upp úr eldri heimildum, annálum, konungasögum, sagnasöfnum frá Ítalíu og Frakklandi, verkum fornaldarhöfunda og ýmsum öðrum ritum. Það liggur í augum uppi að sá sem samdi þessi verk var gríðarlega vel lesinn – og læs á fleiri tungumál en sitt eigið. Í erfðaskrá Williams Shakespeares, kaupsýslumannsins frá Stratford, er hins vegar ekkert minnst á bækur eða handrit; fljótt á litið virðist þessi maður ekki hafa skilið eftir sig svo mikið sem eitt póstkort af rituðu máli, hvað þá myndarlegt safn skáldverka og fræðibóka. Fyrir vikið hafa aðrir verið tilnefndir sem líklegri kandídatar, og í þeim hópi hefur heimspekingurinn Francis Bacon lengi verið fremstur meðal jafningja.  Á seinni árum hafa fleiri verið taldir koma til greina, ekki síst Edward de Vere, jarl af Oxford, en hann og Bacon fá hvor sinn kaflann í bók James Shapiro. Þeir eru að mörgu leyti dæmigerðir fulltrúar í þessu samhengi, og útnefning þeirra er líka lýsandi fyrir ýmsa aðra sem hafa þótt koma til greina. Jafnvel Cristopher Marlowe hefur verið nefndur, þótt hann hafi dáið árið 1593; getgátur um að dauði hans hafi verið settur á svið eru fylgifiskur hugmyndarinnar um að hann hafi skrifað verk Shakespeares, auk þeirra verka sem komu út í hans nafni.

Ein helsta forsendan fyrir deilunum um það hvort Shakespeare skrifaði verk sín sjálfur, eða einhver annar, er sú mikla dýrkun sem hefur fylgt honum frá því á átjándu öld. Aðdáunin á Shakespeare var fyrst um sinn bundin leikritunum, en ekki manninum sem samdi þau; á þessu verður breyting í lok átjándu aldar, um það leyti sem rómantískar hugmyndir um skáldin sem sjáendur og snillinga eru að festast í sessi. Í enskri tungu er reyndar til sérstakt orð um þetta mál, bardolatry, sem er notað um goðgervingu svansins frá Avon. Edmond Malone, maðurinn sem afhjúpaði falsanir William Henry Ireland, gaf heildarverk Shakespeares út árið 1790, og sú útgáfa markaði tímamót, því þar eru verkin ekki flokkuð eftir bókmenntagreinum, heldur eru sonnetturnar látnar standa innan um leikritin. Öll verkin voru þannig tala geyma vott þess mikla anda sem skáldjöfurinn Shakespeare bjó yfir. Með útgáfu Malones komst það í tísku að reyna að sjá manninn í verkunum, líta á þau sem sjálfsævisögulegan vitnisburð, og reyna þannig að bæta upp  skortinn á heimildum um lífshlaup skáldsins. Að mati James Shapiro var þetta þó varhugaverð leið, og telur að Malone hafi gerst sekur um rækilega tímaskekkju í nálgun sinni við efnið, hann hafi í raun valið að gera Shakespeare að upplýsingarmanni, lærðum og framfarasinnuðum höfundi sem kepptist við að betrumbæta verk eldri og ófullkomnari höfunda. Um miðja nítjándu öld var þetta svo orðin ríkjandi skoðun; allir helstu bókmenntafræðingar Vesturlanda á þeim tíma gengu gagnrýnislaust inn í orðræðuna sem Malone bjó til og lögðu sig alla fram við að reikna út þá staði í leikritunum þar sem persónuleiki skáldsins skín í gegn. Bókin Contested Will eftir James Shapiro er hreinn skemmtilestur, því efnið er sannarlega spennandi, en segja má að undirskipað viðfangsefni bókarinnar sé að sýna fram á að Shakespeare sé ekki „samtímamaður“ okkar, ekki eins algildur og stundum er haldið fram, heldur barn síns tíma. Umræðan um hann er oft anakrónísk, margir hafa tilhneigingu til að lesa samtímann inn í sautjándu öldina, og í nafni almennrar skynsemi er mikil þörf á að úthýsa öllum slíkum rökvillum. Contested Will er kraftmikið innlegg í umræðuna um arfleifð enska höfuðskáldsins, og tilvalin lesning í framhaldi af Shakespeare-sýningunum sem hafa staðið til boða í íslenskum leikhúsum upp á síðkastið.

(Víðsjá, 10. mars 2011)

Handritin hans Kafka

Hjalti Ægisson, apríl 14, 2011

Franz Kafka

Hver á Kafka? spyr bandaríski heimspekingurinn Judith Butler í grein í nýjasta hefti bókmenntatímaritsins London Review of Books. Spurningin er áhugaverð, ekki síst í ljósi þeirra deilna sem nú eru háðar fyrir dómstólum í borginni Tel Aviv í Ísrael. Deilurnar snúast um nokkra kassa af handritum úr dánarbúi rithöfundarins Franz Kafka sem komu upp úr kafinu fyrir fáeinum árum. Það er margt flókið við Kafka, ekki bara sálarlífið, heldur líka það menningarlega auðmagn sem felst í verkum hans, og víst er að þar koma margir kröfuhafar við sögu. Kafka fæddist í Austurríki-Ungverjalandi, ríki sem nú er ekki lengur til; hann var tékkneskur gyðingur sem skrifaði á þýsku. Hann bjó mestalla ævina í Prag, og allir sem hafa heimsótt þá borg vita að þar er Kafka í hávegum hafður; íbúar Prag eru stoltir af sínum manni, jarðneskar leifar hans eru grafnar í kirkjugarðinum þar, og heimili hans er nú safn þar sem hægt er að kaupa Kafka-póstkort, Kafka-boli og annan söluvarning.

Hitt er annað mál að verk Kafka eru öll rituð á þýsku, þau eru raunar oft talin með því besta sem ritað var á þá tungu á síðustu öld. Bókmenntafræðingurinn Georg Steiner og fleiri málsmetandi menn í þýskri menningarsögu hafa ritað töluvert um stílinn í verkum Kafka, og telja hann dæmi um skýran og tæran, þýskan prósa. Það má því með réttu telja verk Franz Kafka til þýskra bókmennta, enda leit hann sjálfur á sig sem þýskan höfund. Milan Kundera fullyrðir í Tjöldunum að þýskan sé án nokkurs vafa ástæða þess að verk hans urðu svo áhrifarík sem raunin er: „...ykkur er óhætt að trúa mér, enginn myndi þekkja Kafka núna, ekki nokkur maður, ef hann hefði skrifað á tékknesku.“ Við þetta bætist svo gyðingdómurinn, þetta yfirþjóðlega afl sem er svo áhrifaríkt í menningu síðustu tveggja alda. Franz Kafka var gyðingur, og sú staðreynd skiptir höfuðmáli í réttarhöldunum sem fara fram í Tel Aviv þessi misserin.

Max Brod

Sagan um handritakassana hófst árið 1924, þegar Franz Kafka lá fyrir dauðanum og bað útgefanda sinn, Max Brod, um að brenna öll sín handrit að sér látnum. Það er einhver furðuleg þversögn í þessari hinstu bón Kafka, eins og Judith Butler bendir á í grein sinni; Max Brod hafði öll handritin í sínum fórum á meðan Kafka var enn á lífi, en Kafka bað hann ekki um að færa sér handritin aftur svo að hann gæti brennt þau sjálfur. Hann sagði einfaldlega við útgefanda sinn og besta vin: Brennd þú handritin. Þar með var það Max Brod sem átti kvölina og völina, hann var gerður ábyrgur fyrir því að eyðileggja skáldsögurnar Réttarhöldin, Ameríku og Höllina áður en þær kæmu fyrir augu lesenda. Þegar Kafka var allur ákvað Max Brod að verða ekki við óskinni, hann brenndi handritin ekki heldur hóf að gefa verkin út. Þegar seinni heimsstyrjöldin skall á flutti Brod frá Prag, um það leyti sem nasistar hertóku borgina, og flúði til Palestínu ásamt eiginkonu sinni. Í einni ferðatöskunni voru öll þau skjöl sem Franz Kafka hafði látið eftir sig. Brod bjó í Tel Aviv til æviloka, og í erfðaskrá sinni ánafnaði hann handritin konu að nafni Esther Hoffe, sem var einkaritarinn hans. En það er margt óljóst í erfðaskrá Max Brod, hann nefnir að það væri til dæmis hægt að varðveita handritin á háskólabókasafninu í Jerúsalem, borgarbókasafninu í Tel Aviv, eða einhverju öðru skjalasafni, hvort heldur sem er í Ísrael eða annars staðar.

Einkaritarinn Esther Hoffe tók við skjölunum árið 1968 þegar Max Brod féll frá. Hún kom þeim þó ekki í vörslu í skjalasafni heldur geymdi þau einfaldlega heima hjá sér, og gætti þeirra eins og sjáaldurs augna sinna, með þeirri einu undantekningu að hún freistaðist til að selja frumhandritið að Réttarhöldunum árið 1988 og stórgræddi á þeim viðskiptum. Þegar Esther Hoffe lést svo árið 2007 tóku dætur hennar við skjalabunkanum. Um þessar mundir standa þær í deilum við landsbókasafnið í Ísrael um eignarhaldið á handritunum. Systurnar Eva Hoffe og Ruti Wisler krefjast þess að vera viðurkenndar sem lögmætir eigendur Kafka-handritanna, en landsbókasafnið í Ísrael vill fá gögnin í sína vörslu, enda séu þau ísraelskar þjóðargersemar, ekkert síður en dauðahafshandritin. Dómsúrskurður í málinu er sennilega væntanlegur á þessu ári eða því næsta, og ef dómurinn verður systrunum í hag er næsta öruggt að þær haldi uppboð á handritunum og selji þau hæstbjóðanda. Landsbókasafninu í Ísrael verður vitanlega frjálst að gera þar tilboð, eins og öllum öðrum. Það má teljast afar líklegt að þýska skjalasafnið í Arbach verði þá einnig meðal þátttakenda, semsagt aðilinn sem keypti handritið að Réttarhöldunum árið 1988, og hefur fyrst og fremst áhuga á Kafka sem þýskum höfundi.

Hver á Kafka? spyr Judith Butler árið 2011. Max Brod var sannfærður síonisti og án hans hefðu verk Kafka aldrei orðið okkur aðgengileg, en Franz Kafka kom aldrei til landsins helga. Mikill fjöldi evrópskra gyðinga flutti til Palestínu á fyrstu áratugum 20. aldarinnar, margir litu á slíka búferlaflutninga sem lokaskref í andlegum og trúarlegum þroska, en hugur Kafka virðist aldrei hafa stefnt þangað. Hann hlaut gyðinglegt uppeldi og gyðingdómurinn setti mark á hugsun hans, en þó er afstaða hans til gyðingdómsins tvíbent. Í Bréfi til föðurins fullyrðir hann að gyðingdómurinn hafi ekki einu sinni dugað til að sameina hann og föður hans, og sálræn vandamál sonarins birtast þar jafnt sem annars staðar. „Þú hefur frá upphafi haft andúð á mínum viðfangsefnum,“ ritar Kafka til föður síns, „...En hvað sem því líður hefði þó mátt búast við því að þú gerðir hér svolitla undantekningu. Það var þó gyðingdómur af þínum gyðingdómi sem hér lét á sér kræla og þarmeð semsagt tækifæri til nýrra tengsla okkar á milli. [...] En afskipti mín urðu til þess að gyðingdómurinn varð þér ógeðfelldur, gyðingleg rit ólesandi, þér „bauð við þeim“.“

Um þessar mundir fáum við að vera vitni að afleiðingunum sem ákvörðun Max Brod hafði í för með sér, ákvörðunin um að brenna ekki handrit Franz Kafka. Í smásögunni „Hungurlistamaður“, sem Kafka birti árið 1922, segir frá listsköpun sem hverfur með gerandanum; listamaðurinn deyr og listin deyr með honum. Kannski var það einmitt þannig sem Kafka vildi sjálfur verða, en í staðinn hlaut hann þau örlög að verða einn áhrifamesti rithöfundur 20. aldarinnar. Fáir vita með vissu hvað kassarnir í Tel Aviv hafa að geyma, kannski leynast þar nokkur meistaraverk í viðbót sem gætu enn átt eftir að breyta því hvernig við hugsum um Kafka, heimsbókmenntirnar og raunveruleikann. Systurnar Eva Hoffe og Ruti Wisler fullyrða að skjölin séu vel með farin.

(Víðsjá, 24. febrúar 2011)

Anton Helgi Jónsson: Ljóð af ættarmóti

Hjalti Ægisson, apríl 14, 2011

„Það er sorg mín og hamingja / að hjartsláttur lífsins / heldur fyrir mér vöku.“ Þessar ljóðlínur Einars Braga eru einkunnarorð fyrstu ljóðabókar Antons Helga Jónssonar, Undir regnboga, sem kom út 1974. Höfundurinn var þá ekki nema nítján ára og skilgetið afkvæmi ljósritunarbyltingarinnar sem varð gríðarleg innspýting í íslenska ljóðaútgáfu á áttunda áratugnum. „Þetta er miklu auðveldara viðfangs en áður, eftir að framfarir urðu í fjölritun“, sagði Anton Helgi í viðtali við Þjóðviljann, skömmu eftir að bókin kom út: „Þetta verður ekki svo mikið fyrirtæki að nokkur fari á hausinn þess vegna.“ Fáir tóku eftir þessu æskuverki Antons Helga, enda er það ekki sérstaklega rismikið, fyrst og fremst eru þetta naíf ástarljóð, og gott ef það er ekki talað um „varir stúlkunnar minnar“ í einhverju ljóðinu.  Jóhann Hjálmarsson skrifaði ritdóm í Morgunblaðið og taldi að hér væri „ekkert sprengiefni á ferðinni heldur hófstilling, sem bendir til þess að Anton Helgi leggi meira upp úr því að vanda sig en berja bumbur að ungra manna hætti.“

Það var næsta bók Antons Helga sem kom honum á kortið, Dropi úr síðustu skúr, útgefin 1979. Sú ljóðabók er dæmigert afsprengi tímans, í henni er leitast við að miðla talmáli og stemmningu, eins og Eysteinn Þorvaldsson benti á í umfjöllun sinni um verkið. Að mati Eysteins var þessi bók til marks um íroníu, myndvísi og nýstárlega málnotkun: „Anton Helgi Jónsson tekur þátt í þeirri endurnýjun ljóðmálsins sem ung skáld hafa ástundað hin seinni árin. Orð og stílblær hins mælta máls á líðandi stund eru gerð gjaldgeng í ljóði um leið og öllum hátíðleika og upphafningu er vikið burt. Án slíkrar endurnýjunar hættir ljóðlistinni til að staðna.“ Í Dropa úr síðustu skúr tókst Antoni Helga að finna fjölina sína, upp frá því hafa ljóðin hans verið samfelld könnun á duttlungum hversdagslífsins, oftast undir kómískum formerkjum. Með góðum vilja mætti jafnvel segja að einkunnarorðin sem hann fékk að láni hjá Einari Braga og prentaði fremst í fyrstu bók sína, geti virkað sem einkunnarorð höfundarverksins alls: „Það er sorg mín og hamingja / að hjartsláttur lífsins / heldur fyrir mér vöku.“ Hjartsláttur lífsins væri þá höfuðviðfangsefni Antons Helga Jónssonar; það er ekki slæmt orðalag, þótt það sé óþarflega háfleygt í samanburði við málnotkun ljóðanna sjálfra.

Í nýjasta bók Antons Helga, Ljóð af ættarmóti, hljóma alls konar raddir. Titill bókarinnar er reyndar dálítið villandi, hann gefur til kynna að raddirnar séu fólki sem hittist á ættarmóti, en hið ytra samhengi skiptir ekki alltaf höfuðmáli, að því er virðist. Í hverju ljóði er búin til einhver persóna, stundum fleiri en ein, hlutverk okkar lesenda er að búa persónurnar til út frá upplýsingunum sem okkur eru gefnar, og stundum verður ekki með góðu móti séð að ættarmót sé staðurinn þar sem röddin hljómar. Mannamót eru þó einn af rauðu þráðunum í þessu verki, mörg ljóðin fjalla um geggjunina sem blundar alltaf undir niðri í hversdagslegum samtölum fólks, ekki síst fólks sem hittist sjaldan, og kannski eingöngu vegna þess að aðstæður eða samfélagslegar væntingar kalla á þau samskipti.

Ljóð af ættarmóti er svolítið eins og Spoon River Anthology, ljóðabók bandaríska skáldsins Edgar Lee Masters frá 1915. Magnús Ásgeirsson þýddi nokkur ljóð úr þeirri bók á íslensku og kallaði „Úr kirkjugarðinum í Skeiðarárþorpi“. Í þessari bók hljóma raddir úr kirkjugarðinum, látið fólk talar, íbúar í smábænum Spoon River minnast ævi sinnar og bókin í heild dregur upp víða mynd af þessu litla þorpi. Ef Ljóð af ættarmóti dregur upp einhverja slíka heildarmynd, væri mér skapi næst að nota frasann „íslenskt samfélag“, ef hann væri ekki löngu orðinn útþvæld klisja. „Hjartsláttur lífsins“ væri þá kannski ögn betra. Og víst er um það, að margir hafa gert eitthvað svipað áður, ekki bara í ljóðum heldur óteljandi leikritum, gamanþáttum, áramótaskaupum, uppistandskvöldum og þar fram eftir götunum; sjálfsskoðun þjóðar mætti jafnvel kalla helstu bókmenntagrein síðustu þrjátíu ára hér á landi, hvert svo sem tjáningarformið er, og vitanlega hafa ekki allir erindi sem erfiði þegar þeir taka sér fyrir hendur að útskýra og skilgreina þjóðarkarakter á gamansaman hátt. En trúið mér: Anton Helgi Jónsson er búinn að vera í bransanum lengur en flestir aðrir og þessi nýja ljóðabók hans hittir beint í mark, aftur og aftur. Paródía er nefnilega vandmeðfarið form, og yfirleitt ekki áhrifarík, sé gefið of hressilega í. Skopstældar raddir er reyndar að finna í bókarkorni sem Anton Helgi gaf út 2006, Hálfgerðir englar og allur fjandinn, en hugsunin missir einhvern veginn marks í því verki, bæði vegna umbrotsins sem virðist vera aðalmálið, og limruformsins sem er ríkjandi frá upphafi til enda. Ljóð af ættarmóti eru óbundin, en þó ekki formlaus, sum eru hraður og hrynjandi djass, þar sem endurtekningu einstakra orða er beitt markvisst til að ná fram einhverri firringarvídd í tungumálinu, þessum rækilega forritaða hugbúnaði sem á það til að taka stjórnina af okkur þegar við reynum að hugsa um veruleikann. Þetta eru því sérlega flutningsvæn ljóð, það er mikil músík í Ljóðum af ættarmóti og hrífandi ryþmi þótt formið sé opið og frjálst.

Hlutverk lesandans er, sem sagt, að skapa persónur fyrir raddirnar sem hér hljóma. Það er stundum auðvelt, stundum ferlega flókið, en í því felst galdur bókarinnar, hún er síður en svo fullafgreidd við fyrsta lestur þótt hún sé afskaplega aðgengileg. Húmorinn sem einkennir þessi ljóð er þvottekta, einmitt vegna undiröldunnar, það er alltaf einhver fundur í fyndninni hjá Antoni Helga. Sjálfur er ég enginn sérstakur ljóðaupplesari, en ég hef prófað nokkrum sinnum að lesa upp úr þessari bók fyrir aðra og viðbrögðin eru alltaf þau sömu: Fólk springur úr hlátri. Anton Helgi Jónsson hefur lengi kunnað að koma fólki til að hlæja með ljóðum sínum, oft með stríðnina að vopni. Hvað er það t.d. annað en snilldarlegur brandari að gefa út bók sem heitir Ljóðaþýðingar úr belgísku, eins og hann gerði árið 1991? Á kápunni stendur: „Anton Helgi Jónsson valdi og bjó til prentunar.“

Ljóð af ættarmóti ber vott um mikla næmi á mannlífið, raddirnar eru kunnuglegar og við þekkjum týpurnar, stundum úr fari okkar sjálfra. Þessi bók er sannkallaður skemmtilestur, vel heppnuð karakterstúdía, kærkomin áminning um að skemmtigildi þarf ekki að felast í stælum, tæknibrellum eða sjálfsniðurlægingu. Einlæg og einföld fyndni er áhrifaríkust, og þann galdur fremur Anton Helgi Jónsson af fullkominni fagmennsku.

(Víðsjá, 17. febrúar 2011)

Bjarni Gunnarsson: Moldarauki

Hjalti Ægisson, apríl 14, 2011

Í dag kenni ég dauðann,

einsog sjúkur kennir bata,

sá er upp skal af stráum standa.

Í dag kenni ég dauðann,

einsog angan af myrru,

þegar undir seglum er setið í stormi.

Þannig þýddi Helgi Hálfdanarson kvæði sem óþekktur höfundur orti um dauðann einhvern tímann á skeiði egypska miðríkisins. Frá því að þetta kvæði var ort eru liðin fjögur þúsund ár, eða þar um bil. Dauðinn hefur sem sagt fylgt ljóðlistinni frá upphafi; hann er „allra ljóðrænasta viðfangsefnið“, eins og Edgar Allan Poe orðaði það. Á meðan einhver enn þá fæst við að yrkja ljóð má telja víst að dauðinn fái þar sinn skerf af athygli. Mörg af þekktustu ljóðum íslenskra bókmennta fjalla um dauðann; Hávamál, Sólarljóð, Sonatorrek, Allt eins og blómstrið eina, Alsnjóa, og svo mætti lengi telja. Að ímynda sér ljóðlist án dauða er einhvers konar fjarstæða, og á undanförnum árum hefur dauðinn verið mörgum íslenskum skáldum hugleikinn. Sigfús Daðason og Ísak Harðarson ortu um dauðann með kaldhæðni og yfirlæti að vopni, aðrir yrkja til að takast á við missi; ég nefni ljóðabækurnar Hjartaborg eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson og Að jörðu eftir Ásu Marín Hrafnsdóttur. Sumir yrkja um yfirvofandi dauða, líkt og Gylfi Gröndal gerði í sinni síðustu ljóðabók, Eitt vor enn, þar sem hann lýsir baráttu við krabbamein. „Ég ákvað að yrkja mig [...] frá þessu öllu saman,“ sagði Gylfi í viðtali við Sigríði Víðis Jónsdóttur um það leyti sem bókin kom út; „Menn gera það gjarnan, að skrifa sig frá hlutunum. Það er kannski kjarninn í ljóðlistinni. Þá er fólk að sigrast á einhverju.“ En ljóðrænar birtingarmyndir feigðarinnar geta verið margvíslegar; tveimur árum eftir að bók Gylfa var gefin út sendi Árni Ibsen frá sér ljóðabókina Á stöku stað með einnota myndavél, bókina sem varð hans síðasta verk. Árni hafði áður ort ljóð um dauðann, til að mynda í ljóðabókinni Vort skarða líf árið 1990, en í þessari síðustu bók er næstum aldrei minnst á dauðann; ljóðin í henni eru svipmyndir úr ferðalögum, minningar um borgir og áfangastaði, forvitni og lífsgleði. Á baksíðu bókarinnar stendur: „Flest ljóðin eru ort 2006 þegar ég vissi að ég myndi ekki ferðast framar.“

Bjarni Gunnarsson fjallar um dauðann í ljóðabókinni Moldarauki sem kom út nú fyrir jólin. Þetta er þriðja ljóðabók Bjarna og hún myndar eiginlega sláandi andstæðu við næstu bók á undan, Blóm handa pabba, sem kom út 2007. Sú bók einkennist af bjartsýni og fögnuði yfir hversdagslífinu, sólskinið og ástin ráða ríkjum; undarlegur ógnarkraftur knýr skáldið að ryksugunni og „uppvaskið /verður eins og ný dögun“. Í Moldarauka er eitthvað allt annað á ferðinni. Kápumyndir bókanna tveggja gefa tóninn fyrir þessa togstreitu; skærgulur fífill á þeirri fyrri en dökkar og kuldalegar hríslur á þeirri seinni. Orðið „moldarauki“ er útskýrt fremst í bókinni með tilvitnun í rúnakvæði eftir óþekktan höfund frá 12. öld: „Maður er moldar auki/mikil er greip á hauki.“ Hér er sem sagt um að ræða kenningu fyrir manninn, sem er smættaður niður í holdið eitt, hinn efnislega líkama sem bíður þess eins að rotna og bætast við moldina sem fyrir er í jörðinni; hugsunin er næstum því jafn nístandi og orðið „maðkaveita“ sem var í sérstöku uppáhaldi hjá Jóni Magnússyni þumlungi, en hann notar það iðulega um eigin líkama í Píslarsögu sinni.

Moldarauki Bjarna Gunnarssonar er ljóðabálkur eða samfelld frásögn um mann sem heyr baráttu við sjúkdóm, krabbamein að því er virðist. Ekki er þó allt sem sýnist, því það sem virðist vera ein flæðandi heild er bútað niður með titlum í efnisyfirliti aftast í bókinni. Þar með verður lesandanum ljóst að ljóðin á hverri síðu geta líka staðið sem sjálfstæð heild; við annan og þriðja lestur er því hætt við því að bókin orki öðruvísi á okkur en í þeim fyrsta. Ljóðmælandinn dvelur á sjúkrahúsi stóran hluta bókarinnar, horfir út um gluggann og sér snjóinn falla, ræðir við hjúkkurnar, drekkur kaffi, flettir glansblöðum. Þessar lýsingar á sjúkrahússvistinni eru svo brotnar upp reglulega með myndum af öðru frásagnarsviði, lýsingum af veiðimönnum sem sækja að bjarndýri og einhvern veginn rennur þetta síðan saman; sjúklingurinn líkir sjálfum sér við bjarndýr og kannski er sú hugmynd viðbragð hans við veikindunum.

Biðin eftir úrskurði læknisins er mörkuð einhverri heift, sem kannski er dæmigert viðbragð þeirra sem finna fyrir návist dauðans, eða allténd partur af tilfinningalegu ferli: Láttu mig hafa krabba [...] Mig langar í alvöru æxli/gráðugar frumur/svartar af bræði/sem éta mig innanfrá./Fylltu mig meinvörpum svo hnífarnir geti unnið/sitt þakkláta verk.“ Vantrú á mátt orðanna fylgir þessu hugarástandi, þau duga skammt til að skera burt meinið. Sömu hugsun orðaði Bjarni undir jákvæðum formerkjum í Blómum handa pabba, þar sem hann fjallaði um máttleysi tungumálsins andspænis ægivaldi ástarinnar. Í þriðja og síðasta hluta bókarinnar er ljóðmælandinn ofurléttur og útskrifaður. Veiðimyndmálið verður ráðandi í niðurlagi verksins og hin fantastíska vídd tekur völdin. Það er einn helsti styrkur þessarar bókar hversu opin hún er, engir siðferðilegir lærdómar eru dregnir um gildi veikinda eða lífsbaráttu, enda vandkvæðum háð að gera slíkt með sannfærandi hætti. Bjarni Gunnarsson lætur duga að draga upp áhrifaríkar myndir, úrvinnsla og endanleg merking eru svo eftirlátin lesandanum sjálfum.

(Víðsjá, 10. febrúar 2011)

Tom McCarthy: C

Hjalti Ægisson, apríl 14, 2011

Þótt hámódernismi í bókmenntum sé fyrst og fremst bundinn millistríðsárunum má engu að síður skilja hugtakið víðari skilningi, mörg síðari tíma verk uppfylla hæglega þá mælikvarða sem notaðir eru til að skilgreina módernískar bókmenntir. Samuel Beckett er stundum kallaður síðasti módernistinn, meðal annars í titli fróðlegrar ævisögu um hann frá 1997 eftir írska skáldið Anthony Cronin. Málið er þó nokkuð flókið; Beckett ritaði sín þekktustu verk á 6. og 7. áratugnum, rétt eins og Ástralinn Patrick White sem er líka oft flokkaður sem módernisti. Enn í dag eru starfandi margir höfundar sem sækja markvisst í sjóð módernistanna, um suma mætti jafnvel segja að þeir séu fyrst og fremst áhugaverðir vegna þess hvernig þeir spinna þræði frá evrópskum skáldum á borð við Joyce, Pound, Kafka, Proust, Rilke, Mansfield, Woolf og það slekti allt saman.Í íslenskri bókmenntasögu finnum við t.a.m. Sjón og Medúsuhópinn, hreyfingu höfunda sem sóttu í áratuga gamla framúrstefnulist undir formerkjum pönksins upp úr 1980; niðurstaðan varð sú að þarna var um nánast sömu fagurfræðina að ráða. Þannig getur bókmenntaleg endurvinnsla sífellt komið á óvart, því ekkert er nýtt undir sólinni, og bókmenntirnar er jú leið skáldsins frá geðhrifum, svo notað sé orðalag frá T.S. Eliot, höfuðpáfa enska módernismans.

Í bresku bókmenntasamfélagi er Tom McCarthy nýjasta nafnið í módernistadeildinni. Hann er fæddur árið 1969 og hefur sent frá sér þrjár skáldsögur, sú fyrsta, Remainder, kom út 2005. Hún fjallar um mann sem slasast alvarlega í bílslysi, fær fúlgur fjár í slysabætur, en hefur ekki hugmynd um hvað hann á að gera við alla peningana. Líf hans umturnast fyrir vikið og verður „endalaus leit að hætti að lifa“, eins og Hannes Sigfússon orðaði það í ljóði fyrir hálfri öld. Leiðin sem maðurinn velur til að takast á við áfallið er að sviðsetja atburði úr sinni eigin fortíð, oft með miklum tilkostnaði, sviðsmynd og leikurum, til þess að geta aftur upplifað veröldina sem gerandi, en ekki bara óvirkur áhorfandi. Leit þessa manns að raunverulegum upplifunum teygist sífellt lengra, fyrr en varir duga ekki lengur hversdagslegar sviðsetningar til að uppfylla þessa raunveruleikaþrá og hann fer að sviðsetja rán, ofbeldi og annan ófögnuð. Remainder kom út hjá litlu forlagi í París, Metronome Press, sem er rekið af ástríðu fremur en gróðahugsjón, og verkið vakti fljótlega athygli hjá stærri bókaútgáfum. Ári eftir fyrstu útgáfu kom Remainder út í margfalt stærra upplagi hjá Alma Books í Bretlandi, og svo hjá Vintage í Bandaríkjunum árið 2007. Gagnrýnendur hrifust af þeirri brotakenndu sýn sem einkennir verkið og málnotkunin þótti frumleg og spennandi. Næsta bók McCarthy, Men in Space, gerist í Mið-Evrópu snemma á tíunda áratugnum og fjallar um leit að stolnu íkonamálverki. Söguþráðurinn er ekki alltaf skýr, upplausnin er jafnvel enn meiri en í fyrstu bókinni, og segja má að þannig leitist Tom McCarthy við að lýsa brostinni heimsmynd kommúnismans eftir hrun Sovétríkjanna. Þetta er að mörgu leyti svipað því sem módernísk skáld gerðu í Evrópu á þriðja áratugnum þegar þau notuðu brotakennd frásagnarmódel og sundurlaust málfar til þess að lýsa rústunum sem blöstu við eftir stríðið mikla. McCarthy bjó raunar sjálfur í Tékklandi um það leyti sem ríkisstjórn Vacláv Havels tók við völdum í landinu eftir áratuga langt valdaskeið kommúnista, svo að hann fékk sjálfur að fylgjast grannt með þeim sögulegu umskiptum sem hann átti eftir að takast á við í skáldskap síðar.

Verk Tom McCarthy hafa frá upphafi verið tengd módernismanum og ekki að ástæðulausu. McCarthy er raunar ekki bara skáldsagnahöfundur, hann hefur sviðsett ýmiss konar gjörningslist, oft undir merkjum samtakanna sem hann stofnaði árið 1999 og heita INS, International Necronautical Society, sem er að mestu leyti sniðið eftir framúrstefnuhreyfingum á borð við fútúrista, súrrealista og expressjónista. Samtökin hafa það m.a. á afrekaskrá sinni að hafa brotist inn á heimasíðu BBC og birt þar áróður fyrir málstað sinn, sem er þó vitanlega fyrst og fremst á teoretísku og ljóðrænu plani, enda má kannski flokka INS sem listrænt verkefni, gjörning, fremur en eiginleg samtök.

Þriðja skáldsaga Tom McCarthy kom út nú í haust og titill hennar er bókstafurinn C. Verkið er í nokkrum köflum sem allir eru auðkenndir með orðum sem byrja á C. Fyrsta orðið er caul, sem þýðir sigurkufl, órofin fósturhimna eða hluti af líknarbelg sem hjúpar stundum höfuðið á nýfæddu barni. Bókin byrjar nefnilega á barnsfæðingu; Serge Carrefax, aðalpersóna bókarinnar fæðist í fyrsta kaflanum, hann kemur í heiminn klæddur sigurkufli sem sagt var að ætti að færa börnum gæfu síðar á lífsleiðinni, ekki síst í sjóferðum. Skáldsagan C er í vissum skilningi uppvaxtarsaga, en öll hefðbundin frásagnarminni slíkra sagna eru þó víðs fjarri. Árið er 1898, læknirinn kemur með hestvagni til að taka á móti barninu. Móðir drengsins er heyrnarlaus og faðirinn, sem rekur skóla fyrir heyrnarlaus börn, er hugfanginn af uppfinningum og vísindalegum nýjungum, ekki síst útvarpsbylgjum og samskiptum í gegnum talstöðvar.

Fjarskiptatæknin er meginstef þessarar bókar, þegar Serge Carrefax vex úr grasi sökkvir hann sér ofan í radíóútsendingar, rafsegulbylgjur og hvers kyns samskipti sem byggja á þeim; enska orðið fyrir samskipti er jú communication, sem byrjar einmitt á bókstafnum c. Tækninýjungarnar sem litu dagsins ljós á ofanverðri nítjándu öld voru grunnur þeirrar tuttugustu að mörgu leyti, mörk manns og vélar urðu sífellt óljósari, heimurinn smækkaði og allar forsendur samskipta manna á milli gjörbreyttust á stuttum tíma. Serge Carrefax, aðalpersónan í C, er eins konar fulltrúi þessara miklu umskipta, skilgetið afsprengi nýrrar heimsmyndar, tilfinningalega dofinn og fjarrænn. Hann missir systur sína á unglingsárum og er uppfrá því tengslalaus að því er virðist, í öllu falli er hann snauður að dáleikum og innilegum samböndum – tilfinningar hans liggja umfram allt um loftvegu, farvegurinn er útvarpsbylgjur og rafræn móttökutæki. Orsakasamhengi og framvinda eru ekki alltaf ljós í þessari sögu; þegar Serge Carrefax er sendur til Mið-Evrópu að leita sér lækninga vitum við ekki alveg hvort eitthvað meira hangir á spýtunni í ferðalaginu. Þegar fyrri heimsstyrjöldin brýst út beitir hann tæknikunnáttu sinni í þágu málstaðar heimalandsins; eftir stríð gegnir hann svo mikilvægu hlutverki við að byggja upp fjarskiptanet í Egyptalandi. Í rauninni fáum við aldrei að kynnast þessum manni, Serge Carrefax; hann er tíminn sem hann lifir, tómt tákn, fórnarlamb tíðarandans, ef svo má segja.

Tom McCarthy er ein ferskasta og óvenjulegasta röddin á skáldskaparsviðinu í Bretlandi. Hann er ekki síst áhugaverður höfundur í ljósi þess að honum hefur tekist að ná máli í meginstraumsbókmenntum án þess að gera nokkrar listrænar tilslakanir eða málamiðlanir; verk hans eru ekki sérlega aðgengileg eða poppuð og gera miklar kröfur til lesandans. Sú meðvitaða, móderníska fagurfræði sem er hans aðalsmerki er í hrópandi andstöðu við afþreyingarmenningu samtímans, eins konar tilraun til að hefja bókmenntirnar aftur upp á vitrænt plan, gera þær að vettvangi heimspekilegrar umræðu. Að auki má sjá greinilegar tengingar á milli sagna McCarthy, í þeim eru viss frásagnarstef sem koma fyrir aftur og aftur; hver einstök bók er þannig brot í stærra púsli sem verður forvitnilegt að horfa á hann leggja í næstu bókum. Ef skáldsagan C er til marks um það sem koma skal má sannarlega búast við miklu úr þessari átt.

(Víðsjá, 3. febrúar 2011)