James Shapiro: Contested Will

Hjalti Ægisson, apríl 14, 2011

Árið 1794 var viðburðaríkt ár í breskum bókmenntum. Ekki bara vegna þess að það var þetta ár sem William Blake gaf út ljóðabækur sínar, Söngva sakleysisins og Ljóð lífsreynslunnar í einu bindi, og ekki bara vegna þess að Jane Austen skrifaði sína fyrstu skáldsögu þetta ár. Nei, mesti viðburðurinn í bresku bókmenntalífi árið 1794 var vafalaust í árslok þegar nokkur ómetanleg skjöl úr fórum Williams Shakespeares komu í leitirnar. Um var að ræða bréf, rituð með hendi skáldsins, til ýmissa nafntogaðra samtímamanna hans, svo og bréf annarra til Shakespeares, þar á meðal eitt frá Elísabetu Englandsdrottningu, þar sem hún þakkar honum honum fyrir fallegu línurnar sem hann sendi henni síðast, og segist hlakka til að hitta hann með leikaraflokkinn sinn í sumar. Þessi bréfafundur þótti sæta miklum tíðindum, og ekki minnkaði æsingurinn hjá aðdáendum Shakesepeares í febrúar árið eftir, þegar áður óþekkt handrit að Lé konungi kom í leitirnar, handrit sem hafði að geyma upprunalega gerð verksins, óræk sönnun þess að það hefði verið stytt verulega í meðförum ritstjóra og leikstjóra á seinni tímum. Sá sem fann skjölin og gerði þau opinber var tæplega tvítugur piltur, William Henry Ireland, sonur Samuel Ireland, sem var einn kunnasti fornleifasafnarinn í Lundúnum og mikill Shakespeare-aðdáandi. Drengurinn hafði komist í kynni við aðalsmann sem vildi ekki láta nafns síns getið, en gaf honum handritin, sem höfðu tilheyrt fjölskyldu hans um árabil. Skjölin voru fljótlega gefin út og útgáfunni var fagnað mjög af helstu bókmenntasérfræðingum landsins. Það kættust þó ekki allir yfir þessum atburðum, einn þeirra sem lét sér fátt um finnast var Edmond Malone, sem var meðal áhrifamestu Shakespeare-fræðinga á átjándu öld. Skýringin á þessu fálæti hans lá í augum  uppi að margra mati, karlinn hlaut að vera öfundsjúkur út í hið ómenntaða piltkorn sem hafði fært bókmenntasamfélaginu þessa gjöf sem var svo stór að nú þurfti að meta líf skáldsins frá Stratford alveg upp á nýtt. Það kom þó annað hljóð í strokkinn þegar Malone svaraði útgáfunni með bók í mars 1796, fjögurhundruð síðna doðranti þar sem hann rakti sig í gegnum hin nýfundnu skjöl lið fyrir lið, rýndi í orðalagið, og kvað upp þann dóm að þau stæðust ekki fræðilega skoðun; þetta væri augljóslega ekki ritað á ævitíma Shakespeares, því textinn var fullur af klúðurslegri fyrningu og mun yngra orðalagi. Það leið svo ekki á löngu þar til William Henry Ireland viðurkenndi að hann hefði falsað skjölin frá upphafi til enda, ekkert þeirra var frá Shakespeare komið, og nafnlausi velgjörðarmaðurinn sem átti að hafa gefið honum þau var uppspuni frá rótum.

Þessi saga, og margar aðrar, er sögð í nýlegri bók, Contested Will eftir bandaríska sagnfræðinginn James Shapiro. Þar er rakin saga hugmyndar sem hefur lengi loðað við William Shakespeare, nánar tiltekið þeirrar hugmyndar að hann hafi ekki ritað verk sín sjálfur, heldur einhver annar, hugsanlega fleiri en einn maður. Þessi umræða kviknaði í lok átjándu aldar, um svipað leyti og glæpasagan kom fram á sjónarsviðið, en efasemdirnar um Shakespeare sem höfund hefur alltaf borið keim af morðgátunni. Hver framdi glæpinn, hafa menn spurt, ef það var ekki William Shakespeare sem ritaði þessi ódauðlegu verk, hver var það þá? James Shapiro rekur þessa sögu af aðdáunarverðri nákvæmni, frásagnargleði og fræðilegri stillingu sem er engu lík. Hann tekur skýrt fram í upphafi bókarinnar að hann telji sjálfur að Shakespeare hafi ritað verkin sem honum eru eignuð, en honum tekst frábærlega að rekja það hvernig mótbárurnar verða til, þróast og breiðast út.

Sagan um Shakespeare-efasemdirnar er lyginni líkust á köflum, full af svikum og fölsunum, eins og frásögnin um William Henry Ireland ber með sér. Stóra vandamálið við Shakespeare sem sagnfræðilegt viðfangsefni er heimildaleysið; það eru engin skjöl varðveitt með hendi hans sjálfs, engar myndir til af honum aðrar en þær sem voru málaðar eftir að hann lést, og haldföst vitneskja um æviferil hans er skorin við nögl. Í leikritum Shakespeares eru svo fáar áþreifanlegar vísanir til ritunartímans, að við hljótum að álykta að maðurinn hafi tekið meðvitaða ákvörðun um að binda verkin ekki samtíma sínum með neinu móti. Auk þess er ýmislegt sem bendir til þess að hann hafi vísvitandi þurrkað út allan vitnisburð um æviatriði sín, eins rækilega og hann gat, til þess að tryggja að sagnfræðingar komandi kynslóða hefðu ekki erindi sem erfiði þegar þeir færu að hnýsast fyrir um líf hans. Í svona óvissuástandi er vitanlega mikið rými fyrir getgátur og sögusagnir, krassandi samsæriskenningar skjóta gjarnan upp kollinum þegar heimildirnar skortir, en meintur menntunarskortur skáldsins eru sá klettur sem þessar vangaveltur voru byggðar á í upphafi. Leikrit Shakespeares eru að miklu leyti unnin upp úr eldri heimildum, annálum, konungasögum, sagnasöfnum frá Ítalíu og Frakklandi, verkum fornaldarhöfunda og ýmsum öðrum ritum. Það liggur í augum uppi að sá sem samdi þessi verk var gríðarlega vel lesinn – og læs á fleiri tungumál en sitt eigið. Í erfðaskrá Williams Shakespeares, kaupsýslumannsins frá Stratford, er hins vegar ekkert minnst á bækur eða handrit; fljótt á litið virðist þessi maður ekki hafa skilið eftir sig svo mikið sem eitt póstkort af rituðu máli, hvað þá myndarlegt safn skáldverka og fræðibóka. Fyrir vikið hafa aðrir verið tilnefndir sem líklegri kandídatar, og í þeim hópi hefur heimspekingurinn Francis Bacon lengi verið fremstur meðal jafningja.  Á seinni árum hafa fleiri verið taldir koma til greina, ekki síst Edward de Vere, jarl af Oxford, en hann og Bacon fá hvor sinn kaflann í bók James Shapiro. Þeir eru að mörgu leyti dæmigerðir fulltrúar í þessu samhengi, og útnefning þeirra er líka lýsandi fyrir ýmsa aðra sem hafa þótt koma til greina. Jafnvel Cristopher Marlowe hefur verið nefndur, þótt hann hafi dáið árið 1593; getgátur um að dauði hans hafi verið settur á svið eru fylgifiskur hugmyndarinnar um að hann hafi skrifað verk Shakespeares, auk þeirra verka sem komu út í hans nafni.

Ein helsta forsendan fyrir deilunum um það hvort Shakespeare skrifaði verk sín sjálfur, eða einhver annar, er sú mikla dýrkun sem hefur fylgt honum frá því á átjándu öld. Aðdáunin á Shakespeare var fyrst um sinn bundin leikritunum, en ekki manninum sem samdi þau; á þessu verður breyting í lok átjándu aldar, um það leyti sem rómantískar hugmyndir um skáldin sem sjáendur og snillinga eru að festast í sessi. Í enskri tungu er reyndar til sérstakt orð um þetta mál, bardolatry, sem er notað um goðgervingu svansins frá Avon. Edmond Malone, maðurinn sem afhjúpaði falsanir William Henry Ireland, gaf heildarverk Shakespeares út árið 1790, og sú útgáfa markaði tímamót, því þar eru verkin ekki flokkuð eftir bókmenntagreinum, heldur eru sonnetturnar látnar standa innan um leikritin. Öll verkin voru þannig tala geyma vott þess mikla anda sem skáldjöfurinn Shakespeare bjó yfir. Með útgáfu Malones komst það í tísku að reyna að sjá manninn í verkunum, líta á þau sem sjálfsævisögulegan vitnisburð, og reyna þannig að bæta upp  skortinn á heimildum um lífshlaup skáldsins. Að mati James Shapiro var þetta þó varhugaverð leið, og telur að Malone hafi gerst sekur um rækilega tímaskekkju í nálgun sinni við efnið, hann hafi í raun valið að gera Shakespeare að upplýsingarmanni, lærðum og framfarasinnuðum höfundi sem kepptist við að betrumbæta verk eldri og ófullkomnari höfunda. Um miðja nítjándu öld var þetta svo orðin ríkjandi skoðun; allir helstu bókmenntafræðingar Vesturlanda á þeim tíma gengu gagnrýnislaust inn í orðræðuna sem Malone bjó til og lögðu sig alla fram við að reikna út þá staði í leikritunum þar sem persónuleiki skáldsins skín í gegn. Bókin Contested Will eftir James Shapiro er hreinn skemmtilestur, því efnið er sannarlega spennandi, en segja má að undirskipað viðfangsefni bókarinnar sé að sýna fram á að Shakespeare sé ekki „samtímamaður“ okkar, ekki eins algildur og stundum er haldið fram, heldur barn síns tíma. Umræðan um hann er oft anakrónísk, margir hafa tilhneigingu til að lesa samtímann inn í sautjándu öldina, og í nafni almennrar skynsemi er mikil þörf á að úthýsa öllum slíkum rökvillum. Contested Will er kraftmikið innlegg í umræðuna um arfleifð enska höfuðskáldsins, og tilvalin lesning í framhaldi af Shakespeare-sýningunum sem hafa staðið til boða í íslenskum leikhúsum upp á síðkastið.

(Víðsjá, 10. mars 2011)

Handritin hans Kafka

Hjalti Ægisson, apríl 14, 2011

Franz Kafka

Hver á Kafka? spyr bandaríski heimspekingurinn Judith Butler í grein í nýjasta hefti bókmenntatímaritsins London Review of Books. Spurningin er áhugaverð, ekki síst í ljósi þeirra deilna sem nú eru háðar fyrir dómstólum í borginni Tel Aviv í Ísrael. Deilurnar snúast um nokkra kassa af handritum úr dánarbúi rithöfundarins Franz Kafka sem komu upp úr kafinu fyrir fáeinum árum. Það er margt flókið við Kafka, ekki bara sálarlífið, heldur líka það menningarlega auðmagn sem felst í verkum hans, og víst er að þar koma margir kröfuhafar við sögu. Kafka fæddist í Austurríki-Ungverjalandi, ríki sem nú er ekki lengur til; hann var tékkneskur gyðingur sem skrifaði á þýsku. Hann bjó mestalla ævina í Prag, og allir sem hafa heimsótt þá borg vita að þar er Kafka í hávegum hafður; íbúar Prag eru stoltir af sínum manni, jarðneskar leifar hans eru grafnar í kirkjugarðinum þar, og heimili hans er nú safn þar sem hægt er að kaupa Kafka-póstkort, Kafka-boli og annan söluvarning.

Hitt er annað mál að verk Kafka eru öll rituð á þýsku, þau eru raunar oft talin með því besta sem ritað var á þá tungu á síðustu öld. Bókmenntafræðingurinn Georg Steiner og fleiri málsmetandi menn í þýskri menningarsögu hafa ritað töluvert um stílinn í verkum Kafka, og telja hann dæmi um skýran og tæran, þýskan prósa. Það má því með réttu telja verk Franz Kafka til þýskra bókmennta, enda leit hann sjálfur á sig sem þýskan höfund. Milan Kundera fullyrðir í Tjöldunum að þýskan sé án nokkurs vafa ástæða þess að verk hans urðu svo áhrifarík sem raunin er: „...ykkur er óhætt að trúa mér, enginn myndi þekkja Kafka núna, ekki nokkur maður, ef hann hefði skrifað á tékknesku.“ Við þetta bætist svo gyðingdómurinn, þetta yfirþjóðlega afl sem er svo áhrifaríkt í menningu síðustu tveggja alda. Franz Kafka var gyðingur, og sú staðreynd skiptir höfuðmáli í réttarhöldunum sem fara fram í Tel Aviv þessi misserin.

Max Brod

Sagan um handritakassana hófst árið 1924, þegar Franz Kafka lá fyrir dauðanum og bað útgefanda sinn, Max Brod, um að brenna öll sín handrit að sér látnum. Það er einhver furðuleg þversögn í þessari hinstu bón Kafka, eins og Judith Butler bendir á í grein sinni; Max Brod hafði öll handritin í sínum fórum á meðan Kafka var enn á lífi, en Kafka bað hann ekki um að færa sér handritin aftur svo að hann gæti brennt þau sjálfur. Hann sagði einfaldlega við útgefanda sinn og besta vin: Brennd þú handritin. Þar með var það Max Brod sem átti kvölina og völina, hann var gerður ábyrgur fyrir því að eyðileggja skáldsögurnar Réttarhöldin, Ameríku og Höllina áður en þær kæmu fyrir augu lesenda. Þegar Kafka var allur ákvað Max Brod að verða ekki við óskinni, hann brenndi handritin ekki heldur hóf að gefa verkin út. Þegar seinni heimsstyrjöldin skall á flutti Brod frá Prag, um það leyti sem nasistar hertóku borgina, og flúði til Palestínu ásamt eiginkonu sinni. Í einni ferðatöskunni voru öll þau skjöl sem Franz Kafka hafði látið eftir sig. Brod bjó í Tel Aviv til æviloka, og í erfðaskrá sinni ánafnaði hann handritin konu að nafni Esther Hoffe, sem var einkaritarinn hans. En það er margt óljóst í erfðaskrá Max Brod, hann nefnir að það væri til dæmis hægt að varðveita handritin á háskólabókasafninu í Jerúsalem, borgarbókasafninu í Tel Aviv, eða einhverju öðru skjalasafni, hvort heldur sem er í Ísrael eða annars staðar.

Einkaritarinn Esther Hoffe tók við skjölunum árið 1968 þegar Max Brod féll frá. Hún kom þeim þó ekki í vörslu í skjalasafni heldur geymdi þau einfaldlega heima hjá sér, og gætti þeirra eins og sjáaldurs augna sinna, með þeirri einu undantekningu að hún freistaðist til að selja frumhandritið að Réttarhöldunum árið 1988 og stórgræddi á þeim viðskiptum. Þegar Esther Hoffe lést svo árið 2007 tóku dætur hennar við skjalabunkanum. Um þessar mundir standa þær í deilum við landsbókasafnið í Ísrael um eignarhaldið á handritunum. Systurnar Eva Hoffe og Ruti Wisler krefjast þess að vera viðurkenndar sem lögmætir eigendur Kafka-handritanna, en landsbókasafnið í Ísrael vill fá gögnin í sína vörslu, enda séu þau ísraelskar þjóðargersemar, ekkert síður en dauðahafshandritin. Dómsúrskurður í málinu er sennilega væntanlegur á þessu ári eða því næsta, og ef dómurinn verður systrunum í hag er næsta öruggt að þær haldi uppboð á handritunum og selji þau hæstbjóðanda. Landsbókasafninu í Ísrael verður vitanlega frjálst að gera þar tilboð, eins og öllum öðrum. Það má teljast afar líklegt að þýska skjalasafnið í Arbach verði þá einnig meðal þátttakenda, semsagt aðilinn sem keypti handritið að Réttarhöldunum árið 1988, og hefur fyrst og fremst áhuga á Kafka sem þýskum höfundi.

Hver á Kafka? spyr Judith Butler árið 2011. Max Brod var sannfærður síonisti og án hans hefðu verk Kafka aldrei orðið okkur aðgengileg, en Franz Kafka kom aldrei til landsins helga. Mikill fjöldi evrópskra gyðinga flutti til Palestínu á fyrstu áratugum 20. aldarinnar, margir litu á slíka búferlaflutninga sem lokaskref í andlegum og trúarlegum þroska, en hugur Kafka virðist aldrei hafa stefnt þangað. Hann hlaut gyðinglegt uppeldi og gyðingdómurinn setti mark á hugsun hans, en þó er afstaða hans til gyðingdómsins tvíbent. Í Bréfi til föðurins fullyrðir hann að gyðingdómurinn hafi ekki einu sinni dugað til að sameina hann og föður hans, og sálræn vandamál sonarins birtast þar jafnt sem annars staðar. „Þú hefur frá upphafi haft andúð á mínum viðfangsefnum,“ ritar Kafka til föður síns, „...En hvað sem því líður hefði þó mátt búast við því að þú gerðir hér svolitla undantekningu. Það var þó gyðingdómur af þínum gyðingdómi sem hér lét á sér kræla og þarmeð semsagt tækifæri til nýrra tengsla okkar á milli. [...] En afskipti mín urðu til þess að gyðingdómurinn varð þér ógeðfelldur, gyðingleg rit ólesandi, þér „bauð við þeim“.“

Um þessar mundir fáum við að vera vitni að afleiðingunum sem ákvörðun Max Brod hafði í för með sér, ákvörðunin um að brenna ekki handrit Franz Kafka. Í smásögunni „Hungurlistamaður“, sem Kafka birti árið 1922, segir frá listsköpun sem hverfur með gerandanum; listamaðurinn deyr og listin deyr með honum. Kannski var það einmitt þannig sem Kafka vildi sjálfur verða, en í staðinn hlaut hann þau örlög að verða einn áhrifamesti rithöfundur 20. aldarinnar. Fáir vita með vissu hvað kassarnir í Tel Aviv hafa að geyma, kannski leynast þar nokkur meistaraverk í viðbót sem gætu enn átt eftir að breyta því hvernig við hugsum um Kafka, heimsbókmenntirnar og raunveruleikann. Systurnar Eva Hoffe og Ruti Wisler fullyrða að skjölin séu vel með farin.

(Víðsjá, 24. febrúar 2011)

Anton Helgi Jónsson: Ljóð af ættarmóti

Hjalti Ægisson, apríl 14, 2011

„Það er sorg mín og hamingja / að hjartsláttur lífsins / heldur fyrir mér vöku.“ Þessar ljóðlínur Einars Braga eru einkunnarorð fyrstu ljóðabókar Antons Helga Jónssonar, Undir regnboga, sem kom út 1974. Höfundurinn var þá ekki nema nítján ára og skilgetið afkvæmi ljósritunarbyltingarinnar sem varð gríðarleg innspýting í íslenska ljóðaútgáfu á áttunda áratugnum. „Þetta er miklu auðveldara viðfangs en áður, eftir að framfarir urðu í fjölritun“, sagði Anton Helgi í viðtali við Þjóðviljann, skömmu eftir að bókin kom út: „Þetta verður ekki svo mikið fyrirtæki að nokkur fari á hausinn þess vegna.“ Fáir tóku eftir þessu æskuverki Antons Helga, enda er það ekki sérstaklega rismikið, fyrst og fremst eru þetta naíf ástarljóð, og gott ef það er ekki talað um „varir stúlkunnar minnar“ í einhverju ljóðinu.  Jóhann Hjálmarsson skrifaði ritdóm í Morgunblaðið og taldi að hér væri „ekkert sprengiefni á ferðinni heldur hófstilling, sem bendir til þess að Anton Helgi leggi meira upp úr því að vanda sig en berja bumbur að ungra manna hætti.“

Það var næsta bók Antons Helga sem kom honum á kortið, Dropi úr síðustu skúr, útgefin 1979. Sú ljóðabók er dæmigert afsprengi tímans, í henni er leitast við að miðla talmáli og stemmningu, eins og Eysteinn Þorvaldsson benti á í umfjöllun sinni um verkið. Að mati Eysteins var þessi bók til marks um íroníu, myndvísi og nýstárlega málnotkun: „Anton Helgi Jónsson tekur þátt í þeirri endurnýjun ljóðmálsins sem ung skáld hafa ástundað hin seinni árin. Orð og stílblær hins mælta máls á líðandi stund eru gerð gjaldgeng í ljóði um leið og öllum hátíðleika og upphafningu er vikið burt. Án slíkrar endurnýjunar hættir ljóðlistinni til að staðna.“ Í Dropa úr síðustu skúr tókst Antoni Helga að finna fjölina sína, upp frá því hafa ljóðin hans verið samfelld könnun á duttlungum hversdagslífsins, oftast undir kómískum formerkjum. Með góðum vilja mætti jafnvel segja að einkunnarorðin sem hann fékk að láni hjá Einari Braga og prentaði fremst í fyrstu bók sína, geti virkað sem einkunnarorð höfundarverksins alls: „Það er sorg mín og hamingja / að hjartsláttur lífsins / heldur fyrir mér vöku.“ Hjartsláttur lífsins væri þá höfuðviðfangsefni Antons Helga Jónssonar; það er ekki slæmt orðalag, þótt það sé óþarflega háfleygt í samanburði við málnotkun ljóðanna sjálfra.

Í nýjasta bók Antons Helga, Ljóð af ættarmóti, hljóma alls konar raddir. Titill bókarinnar er reyndar dálítið villandi, hann gefur til kynna að raddirnar séu fólki sem hittist á ættarmóti, en hið ytra samhengi skiptir ekki alltaf höfuðmáli, að því er virðist. Í hverju ljóði er búin til einhver persóna, stundum fleiri en ein, hlutverk okkar lesenda er að búa persónurnar til út frá upplýsingunum sem okkur eru gefnar, og stundum verður ekki með góðu móti séð að ættarmót sé staðurinn þar sem röddin hljómar. Mannamót eru þó einn af rauðu þráðunum í þessu verki, mörg ljóðin fjalla um geggjunina sem blundar alltaf undir niðri í hversdagslegum samtölum fólks, ekki síst fólks sem hittist sjaldan, og kannski eingöngu vegna þess að aðstæður eða samfélagslegar væntingar kalla á þau samskipti.

Ljóð af ættarmóti er svolítið eins og Spoon River Anthology, ljóðabók bandaríska skáldsins Edgar Lee Masters frá 1915. Magnús Ásgeirsson þýddi nokkur ljóð úr þeirri bók á íslensku og kallaði „Úr kirkjugarðinum í Skeiðarárþorpi“. Í þessari bók hljóma raddir úr kirkjugarðinum, látið fólk talar, íbúar í smábænum Spoon River minnast ævi sinnar og bókin í heild dregur upp víða mynd af þessu litla þorpi. Ef Ljóð af ættarmóti dregur upp einhverja slíka heildarmynd, væri mér skapi næst að nota frasann „íslenskt samfélag“, ef hann væri ekki löngu orðinn útþvæld klisja. „Hjartsláttur lífsins“ væri þá kannski ögn betra. Og víst er um það, að margir hafa gert eitthvað svipað áður, ekki bara í ljóðum heldur óteljandi leikritum, gamanþáttum, áramótaskaupum, uppistandskvöldum og þar fram eftir götunum; sjálfsskoðun þjóðar mætti jafnvel kalla helstu bókmenntagrein síðustu þrjátíu ára hér á landi, hvert svo sem tjáningarformið er, og vitanlega hafa ekki allir erindi sem erfiði þegar þeir taka sér fyrir hendur að útskýra og skilgreina þjóðarkarakter á gamansaman hátt. En trúið mér: Anton Helgi Jónsson er búinn að vera í bransanum lengur en flestir aðrir og þessi nýja ljóðabók hans hittir beint í mark, aftur og aftur. Paródía er nefnilega vandmeðfarið form, og yfirleitt ekki áhrifarík, sé gefið of hressilega í. Skopstældar raddir er reyndar að finna í bókarkorni sem Anton Helgi gaf út 2006, Hálfgerðir englar og allur fjandinn, en hugsunin missir einhvern veginn marks í því verki, bæði vegna umbrotsins sem virðist vera aðalmálið, og limruformsins sem er ríkjandi frá upphafi til enda. Ljóð af ættarmóti eru óbundin, en þó ekki formlaus, sum eru hraður og hrynjandi djass, þar sem endurtekningu einstakra orða er beitt markvisst til að ná fram einhverri firringarvídd í tungumálinu, þessum rækilega forritaða hugbúnaði sem á það til að taka stjórnina af okkur þegar við reynum að hugsa um veruleikann. Þetta eru því sérlega flutningsvæn ljóð, það er mikil músík í Ljóðum af ættarmóti og hrífandi ryþmi þótt formið sé opið og frjálst.

Hlutverk lesandans er, sem sagt, að skapa persónur fyrir raddirnar sem hér hljóma. Það er stundum auðvelt, stundum ferlega flókið, en í því felst galdur bókarinnar, hún er síður en svo fullafgreidd við fyrsta lestur þótt hún sé afskaplega aðgengileg. Húmorinn sem einkennir þessi ljóð er þvottekta, einmitt vegna undiröldunnar, það er alltaf einhver fundur í fyndninni hjá Antoni Helga. Sjálfur er ég enginn sérstakur ljóðaupplesari, en ég hef prófað nokkrum sinnum að lesa upp úr þessari bók fyrir aðra og viðbrögðin eru alltaf þau sömu: Fólk springur úr hlátri. Anton Helgi Jónsson hefur lengi kunnað að koma fólki til að hlæja með ljóðum sínum, oft með stríðnina að vopni. Hvað er það t.d. annað en snilldarlegur brandari að gefa út bók sem heitir Ljóðaþýðingar úr belgísku, eins og hann gerði árið 1991? Á kápunni stendur: „Anton Helgi Jónsson valdi og bjó til prentunar.“

Ljóð af ættarmóti ber vott um mikla næmi á mannlífið, raddirnar eru kunnuglegar og við þekkjum týpurnar, stundum úr fari okkar sjálfra. Þessi bók er sannkallaður skemmtilestur, vel heppnuð karakterstúdía, kærkomin áminning um að skemmtigildi þarf ekki að felast í stælum, tæknibrellum eða sjálfsniðurlægingu. Einlæg og einföld fyndni er áhrifaríkust, og þann galdur fremur Anton Helgi Jónsson af fullkominni fagmennsku.

(Víðsjá, 17. febrúar 2011)

Bjarni Gunnarsson: Moldarauki

Hjalti Ægisson, apríl 14, 2011

Í dag kenni ég dauðann,

einsog sjúkur kennir bata,

sá er upp skal af stráum standa.

Í dag kenni ég dauðann,

einsog angan af myrru,

þegar undir seglum er setið í stormi.

Þannig þýddi Helgi Hálfdanarson kvæði sem óþekktur höfundur orti um dauðann einhvern tímann á skeiði egypska miðríkisins. Frá því að þetta kvæði var ort eru liðin fjögur þúsund ár, eða þar um bil. Dauðinn hefur sem sagt fylgt ljóðlistinni frá upphafi; hann er „allra ljóðrænasta viðfangsefnið“, eins og Edgar Allan Poe orðaði það. Á meðan einhver enn þá fæst við að yrkja ljóð má telja víst að dauðinn fái þar sinn skerf af athygli. Mörg af þekktustu ljóðum íslenskra bókmennta fjalla um dauðann; Hávamál, Sólarljóð, Sonatorrek, Allt eins og blómstrið eina, Alsnjóa, og svo mætti lengi telja. Að ímynda sér ljóðlist án dauða er einhvers konar fjarstæða, og á undanförnum árum hefur dauðinn verið mörgum íslenskum skáldum hugleikinn. Sigfús Daðason og Ísak Harðarson ortu um dauðann með kaldhæðni og yfirlæti að vopni, aðrir yrkja til að takast á við missi; ég nefni ljóðabækurnar Hjartaborg eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson og Að jörðu eftir Ásu Marín Hrafnsdóttur. Sumir yrkja um yfirvofandi dauða, líkt og Gylfi Gröndal gerði í sinni síðustu ljóðabók, Eitt vor enn, þar sem hann lýsir baráttu við krabbamein. „Ég ákvað að yrkja mig [...] frá þessu öllu saman,“ sagði Gylfi í viðtali við Sigríði Víðis Jónsdóttur um það leyti sem bókin kom út; „Menn gera það gjarnan, að skrifa sig frá hlutunum. Það er kannski kjarninn í ljóðlistinni. Þá er fólk að sigrast á einhverju.“ En ljóðrænar birtingarmyndir feigðarinnar geta verið margvíslegar; tveimur árum eftir að bók Gylfa var gefin út sendi Árni Ibsen frá sér ljóðabókina Á stöku stað með einnota myndavél, bókina sem varð hans síðasta verk. Árni hafði áður ort ljóð um dauðann, til að mynda í ljóðabókinni Vort skarða líf árið 1990, en í þessari síðustu bók er næstum aldrei minnst á dauðann; ljóðin í henni eru svipmyndir úr ferðalögum, minningar um borgir og áfangastaði, forvitni og lífsgleði. Á baksíðu bókarinnar stendur: „Flest ljóðin eru ort 2006 þegar ég vissi að ég myndi ekki ferðast framar.“

Bjarni Gunnarsson fjallar um dauðann í ljóðabókinni Moldarauki sem kom út nú fyrir jólin. Þetta er þriðja ljóðabók Bjarna og hún myndar eiginlega sláandi andstæðu við næstu bók á undan, Blóm handa pabba, sem kom út 2007. Sú bók einkennist af bjartsýni og fögnuði yfir hversdagslífinu, sólskinið og ástin ráða ríkjum; undarlegur ógnarkraftur knýr skáldið að ryksugunni og „uppvaskið /verður eins og ný dögun“. Í Moldarauka er eitthvað allt annað á ferðinni. Kápumyndir bókanna tveggja gefa tóninn fyrir þessa togstreitu; skærgulur fífill á þeirri fyrri en dökkar og kuldalegar hríslur á þeirri seinni. Orðið „moldarauki“ er útskýrt fremst í bókinni með tilvitnun í rúnakvæði eftir óþekktan höfund frá 12. öld: „Maður er moldar auki/mikil er greip á hauki.“ Hér er sem sagt um að ræða kenningu fyrir manninn, sem er smættaður niður í holdið eitt, hinn efnislega líkama sem bíður þess eins að rotna og bætast við moldina sem fyrir er í jörðinni; hugsunin er næstum því jafn nístandi og orðið „maðkaveita“ sem var í sérstöku uppáhaldi hjá Jóni Magnússyni þumlungi, en hann notar það iðulega um eigin líkama í Píslarsögu sinni.

Moldarauki Bjarna Gunnarssonar er ljóðabálkur eða samfelld frásögn um mann sem heyr baráttu við sjúkdóm, krabbamein að því er virðist. Ekki er þó allt sem sýnist, því það sem virðist vera ein flæðandi heild er bútað niður með titlum í efnisyfirliti aftast í bókinni. Þar með verður lesandanum ljóst að ljóðin á hverri síðu geta líka staðið sem sjálfstæð heild; við annan og þriðja lestur er því hætt við því að bókin orki öðruvísi á okkur en í þeim fyrsta. Ljóðmælandinn dvelur á sjúkrahúsi stóran hluta bókarinnar, horfir út um gluggann og sér snjóinn falla, ræðir við hjúkkurnar, drekkur kaffi, flettir glansblöðum. Þessar lýsingar á sjúkrahússvistinni eru svo brotnar upp reglulega með myndum af öðru frásagnarsviði, lýsingum af veiðimönnum sem sækja að bjarndýri og einhvern veginn rennur þetta síðan saman; sjúklingurinn líkir sjálfum sér við bjarndýr og kannski er sú hugmynd viðbragð hans við veikindunum.

Biðin eftir úrskurði læknisins er mörkuð einhverri heift, sem kannski er dæmigert viðbragð þeirra sem finna fyrir návist dauðans, eða allténd partur af tilfinningalegu ferli: Láttu mig hafa krabba [...] Mig langar í alvöru æxli/gráðugar frumur/svartar af bræði/sem éta mig innanfrá./Fylltu mig meinvörpum svo hnífarnir geti unnið/sitt þakkláta verk.“ Vantrú á mátt orðanna fylgir þessu hugarástandi, þau duga skammt til að skera burt meinið. Sömu hugsun orðaði Bjarni undir jákvæðum formerkjum í Blómum handa pabba, þar sem hann fjallaði um máttleysi tungumálsins andspænis ægivaldi ástarinnar. Í þriðja og síðasta hluta bókarinnar er ljóðmælandinn ofurléttur og útskrifaður. Veiðimyndmálið verður ráðandi í niðurlagi verksins og hin fantastíska vídd tekur völdin. Það er einn helsti styrkur þessarar bókar hversu opin hún er, engir siðferðilegir lærdómar eru dregnir um gildi veikinda eða lífsbaráttu, enda vandkvæðum háð að gera slíkt með sannfærandi hætti. Bjarni Gunnarsson lætur duga að draga upp áhrifaríkar myndir, úrvinnsla og endanleg merking eru svo eftirlátin lesandanum sjálfum.

(Víðsjá, 10. febrúar 2011)

Tom McCarthy: C

Hjalti Ægisson, apríl 14, 2011

Þótt hámódernismi í bókmenntum sé fyrst og fremst bundinn millistríðsárunum má engu að síður skilja hugtakið víðari skilningi, mörg síðari tíma verk uppfylla hæglega þá mælikvarða sem notaðir eru til að skilgreina módernískar bókmenntir. Samuel Beckett er stundum kallaður síðasti módernistinn, meðal annars í titli fróðlegrar ævisögu um hann frá 1997 eftir írska skáldið Anthony Cronin. Málið er þó nokkuð flókið; Beckett ritaði sín þekktustu verk á 6. og 7. áratugnum, rétt eins og Ástralinn Patrick White sem er líka oft flokkaður sem módernisti. Enn í dag eru starfandi margir höfundar sem sækja markvisst í sjóð módernistanna, um suma mætti jafnvel segja að þeir séu fyrst og fremst áhugaverðir vegna þess hvernig þeir spinna þræði frá evrópskum skáldum á borð við Joyce, Pound, Kafka, Proust, Rilke, Mansfield, Woolf og það slekti allt saman.Í íslenskri bókmenntasögu finnum við t.a.m. Sjón og Medúsuhópinn, hreyfingu höfunda sem sóttu í áratuga gamla framúrstefnulist undir formerkjum pönksins upp úr 1980; niðurstaðan varð sú að þarna var um nánast sömu fagurfræðina að ráða. Þannig getur bókmenntaleg endurvinnsla sífellt komið á óvart, því ekkert er nýtt undir sólinni, og bókmenntirnar er jú leið skáldsins frá geðhrifum, svo notað sé orðalag frá T.S. Eliot, höfuðpáfa enska módernismans.

Í bresku bókmenntasamfélagi er Tom McCarthy nýjasta nafnið í módernistadeildinni. Hann er fæddur árið 1969 og hefur sent frá sér þrjár skáldsögur, sú fyrsta, Remainder, kom út 2005. Hún fjallar um mann sem slasast alvarlega í bílslysi, fær fúlgur fjár í slysabætur, en hefur ekki hugmynd um hvað hann á að gera við alla peningana. Líf hans umturnast fyrir vikið og verður „endalaus leit að hætti að lifa“, eins og Hannes Sigfússon orðaði það í ljóði fyrir hálfri öld. Leiðin sem maðurinn velur til að takast á við áfallið er að sviðsetja atburði úr sinni eigin fortíð, oft með miklum tilkostnaði, sviðsmynd og leikurum, til þess að geta aftur upplifað veröldina sem gerandi, en ekki bara óvirkur áhorfandi. Leit þessa manns að raunverulegum upplifunum teygist sífellt lengra, fyrr en varir duga ekki lengur hversdagslegar sviðsetningar til að uppfylla þessa raunveruleikaþrá og hann fer að sviðsetja rán, ofbeldi og annan ófögnuð. Remainder kom út hjá litlu forlagi í París, Metronome Press, sem er rekið af ástríðu fremur en gróðahugsjón, og verkið vakti fljótlega athygli hjá stærri bókaútgáfum. Ári eftir fyrstu útgáfu kom Remainder út í margfalt stærra upplagi hjá Alma Books í Bretlandi, og svo hjá Vintage í Bandaríkjunum árið 2007. Gagnrýnendur hrifust af þeirri brotakenndu sýn sem einkennir verkið og málnotkunin þótti frumleg og spennandi. Næsta bók McCarthy, Men in Space, gerist í Mið-Evrópu snemma á tíunda áratugnum og fjallar um leit að stolnu íkonamálverki. Söguþráðurinn er ekki alltaf skýr, upplausnin er jafnvel enn meiri en í fyrstu bókinni, og segja má að þannig leitist Tom McCarthy við að lýsa brostinni heimsmynd kommúnismans eftir hrun Sovétríkjanna. Þetta er að mörgu leyti svipað því sem módernísk skáld gerðu í Evrópu á þriðja áratugnum þegar þau notuðu brotakennd frásagnarmódel og sundurlaust málfar til þess að lýsa rústunum sem blöstu við eftir stríðið mikla. McCarthy bjó raunar sjálfur í Tékklandi um það leyti sem ríkisstjórn Vacláv Havels tók við völdum í landinu eftir áratuga langt valdaskeið kommúnista, svo að hann fékk sjálfur að fylgjast grannt með þeim sögulegu umskiptum sem hann átti eftir að takast á við í skáldskap síðar.

Verk Tom McCarthy hafa frá upphafi verið tengd módernismanum og ekki að ástæðulausu. McCarthy er raunar ekki bara skáldsagnahöfundur, hann hefur sviðsett ýmiss konar gjörningslist, oft undir merkjum samtakanna sem hann stofnaði árið 1999 og heita INS, International Necronautical Society, sem er að mestu leyti sniðið eftir framúrstefnuhreyfingum á borð við fútúrista, súrrealista og expressjónista. Samtökin hafa það m.a. á afrekaskrá sinni að hafa brotist inn á heimasíðu BBC og birt þar áróður fyrir málstað sinn, sem er þó vitanlega fyrst og fremst á teoretísku og ljóðrænu plani, enda má kannski flokka INS sem listrænt verkefni, gjörning, fremur en eiginleg samtök.

Þriðja skáldsaga Tom McCarthy kom út nú í haust og titill hennar er bókstafurinn C. Verkið er í nokkrum köflum sem allir eru auðkenndir með orðum sem byrja á C. Fyrsta orðið er caul, sem þýðir sigurkufl, órofin fósturhimna eða hluti af líknarbelg sem hjúpar stundum höfuðið á nýfæddu barni. Bókin byrjar nefnilega á barnsfæðingu; Serge Carrefax, aðalpersóna bókarinnar fæðist í fyrsta kaflanum, hann kemur í heiminn klæddur sigurkufli sem sagt var að ætti að færa börnum gæfu síðar á lífsleiðinni, ekki síst í sjóferðum. Skáldsagan C er í vissum skilningi uppvaxtarsaga, en öll hefðbundin frásagnarminni slíkra sagna eru þó víðs fjarri. Árið er 1898, læknirinn kemur með hestvagni til að taka á móti barninu. Móðir drengsins er heyrnarlaus og faðirinn, sem rekur skóla fyrir heyrnarlaus börn, er hugfanginn af uppfinningum og vísindalegum nýjungum, ekki síst útvarpsbylgjum og samskiptum í gegnum talstöðvar.

Fjarskiptatæknin er meginstef þessarar bókar, þegar Serge Carrefax vex úr grasi sökkvir hann sér ofan í radíóútsendingar, rafsegulbylgjur og hvers kyns samskipti sem byggja á þeim; enska orðið fyrir samskipti er jú communication, sem byrjar einmitt á bókstafnum c. Tækninýjungarnar sem litu dagsins ljós á ofanverðri nítjándu öld voru grunnur þeirrar tuttugustu að mörgu leyti, mörk manns og vélar urðu sífellt óljósari, heimurinn smækkaði og allar forsendur samskipta manna á milli gjörbreyttust á stuttum tíma. Serge Carrefax, aðalpersónan í C, er eins konar fulltrúi þessara miklu umskipta, skilgetið afsprengi nýrrar heimsmyndar, tilfinningalega dofinn og fjarrænn. Hann missir systur sína á unglingsárum og er uppfrá því tengslalaus að því er virðist, í öllu falli er hann snauður að dáleikum og innilegum samböndum – tilfinningar hans liggja umfram allt um loftvegu, farvegurinn er útvarpsbylgjur og rafræn móttökutæki. Orsakasamhengi og framvinda eru ekki alltaf ljós í þessari sögu; þegar Serge Carrefax er sendur til Mið-Evrópu að leita sér lækninga vitum við ekki alveg hvort eitthvað meira hangir á spýtunni í ferðalaginu. Þegar fyrri heimsstyrjöldin brýst út beitir hann tæknikunnáttu sinni í þágu málstaðar heimalandsins; eftir stríð gegnir hann svo mikilvægu hlutverki við að byggja upp fjarskiptanet í Egyptalandi. Í rauninni fáum við aldrei að kynnast þessum manni, Serge Carrefax; hann er tíminn sem hann lifir, tómt tákn, fórnarlamb tíðarandans, ef svo má segja.

Tom McCarthy er ein ferskasta og óvenjulegasta röddin á skáldskaparsviðinu í Bretlandi. Hann er ekki síst áhugaverður höfundur í ljósi þess að honum hefur tekist að ná máli í meginstraumsbókmenntum án þess að gera nokkrar listrænar tilslakanir eða málamiðlanir; verk hans eru ekki sérlega aðgengileg eða poppuð og gera miklar kröfur til lesandans. Sú meðvitaða, móderníska fagurfræði sem er hans aðalsmerki er í hrópandi andstöðu við afþreyingarmenningu samtímans, eins konar tilraun til að hefja bókmenntirnar aftur upp á vitrænt plan, gera þær að vettvangi heimspekilegrar umræðu. Að auki má sjá greinilegar tengingar á milli sagna McCarthy, í þeim eru viss frásagnarstef sem koma fyrir aftur og aftur; hver einstök bók er þannig brot í stærra púsli sem verður forvitnilegt að horfa á hann leggja í næstu bókum. Ef skáldsagan C er til marks um það sem koma skal má sannarlega búast við miklu úr þessari átt.

(Víðsjá, 3. febrúar 2011)

Chrétien de Troyes: Percevals saga

Hjalti Ægisson, apríl 14, 2011

Þegar Hegel var búinn að hvíla í gröfinni í eitt ár sat Baldvin Einarsson við skrifborð í Kaupmannahöfn, dró andann djúpt og skrifaði orðið „tíðarandi“, fyrstur Íslendinga. Síðan þá höfum við verið að velta honum fyrir okkur, þessu ólíkindafyrirbæri, tíðarandanum. Tíðarandinn er viðsjárverður, enginn veit alveg í hverju hann felst eða hvar hann er að finna, en samt teljum við okkur þekkja hann þegar við sjáum hann. Þegar skáldið talar til lesandans tölum við um að það „skynji tíðarandann“, eða eitthvað í þeim dúr; við viljum að skáldin svari spurningunni: Hver erum við og hvað erum við að gera hér? En það er hætt við því að fáir hafi erindi sem erfiði, sá sem leggur sig ákaft og meðvitað fram um að koma tíðarandanum til skila í ljóði gæti átt það á hættu að skjóta yfir markið; núið er svo rækilega klemmt á milli fortíðar og framtíðar, milli vonbrigðanna og vonarinnar, að það sést varla. Þess vegna hafa skáldin tilhneigingu til þess að leita aðstoðar hjá kollegum sínum, skrifa gömul ljóð upp á nýtt; þau hugsa með sér að kannski sé tíðarandann einmitt þar að finna, í fortíðinni, jafn þversagnarkennt og það hljómar; rannsóknir sýna nefnilega að það er eitthvað til í klisjunni um endurtekninguna eilífu. Hið nýja getur þess vegna verið mjög gamalt, til dæmis átta hundruð ára.

Núna um daginn gerðust þau merku tíðindi að út kom á íslensku bók, sem heitir Perceval eða Sagan um gralinn. Um er að ræða verk sem var skrifað á fornfrönsku einhvern tímann seint á tólftu öld af manni sem hét Chrétien de Troyes; um höfundinn er lítið vitað og verkið sjálft er engu minni ráðgáta. Það var Ásdís Rósa Magnúsdóttir sem þýddi þessa merkisbók á íslensku og ritaði auk þess greinargóðan formála. Ásdís var að vísu ekki fyrst til að fá hugmyndina, því einhvern tímann fyrir mörghundruð árum var skrifuð saga á íslensku sem var kölluð Percevals saga. Þar er um þýðingu sama verks að ræða, en gamla þýðingin er mjög stílfærð, og töluvert stytt í þokkabót. Nú fáum við loksins að lesa allt verkið í nákvæmri, íslenskri þýðingu, sem er sannkallað fagnaðarefni.

Perceval eða Sagan um gralinn er frásögn um ungan mann sem leggur af stað út í heim til að gerast riddari, þrátt fyrir mótbárur móður sinnar, sem vill með öllum ráðum forða drengnum frá því að lenda í slíkum ævintýrum. Móðurinni verður svo mikið um á kveðjustundinni að hún hnígur niður á dyrahellunni; stráksi hvetur hestinn sinn áfram og hirðir ekki um að gæta að móðurinni, en tilhugsunin um yfirliðið situr sífellt í honum. Loks ákveður hann að fara heim aftur til að gá hvort ekki sé allt í lagi með móður hans. Á leiðinni mætir hann tveimur mönnum sem sitja í báti úti á vatni og veiða fisk. Annar þeirra er Fiskikóngurinn, sá særði leiðtogi, sem er fótlama og getur hvorki setið hest né barist í orustu. Drengnum er boðið í veislu í höll Fiskikóngsins þar sem mikill og fagur borðbúnaður er borinn fram. Daginn eftir er drengurinn einn í höllinni, allir íbúarnir virðast horfnir, svo hann heldur sína leið. Niðurlag sögunnar er dálítið óljóst, það er næstum öruggt að höfundurinn hefur dáið frá verkinu og því ekki náð að leiða það til lykta. Efniviðurinn hitti þó svo sannarlega í mark, því a.m.k. fjórir aðrir miðaldahöfundar tóku upp þráðinn þar sem Chrétien sleppti honum og bjuggu til framhald á söguna. Einn þeirra var Robert de Boron, sem lagði alveg sérstaka merkingu í einn diskinn sem var borinn fram í veislu Fiskikóngsins hjá Chrétien. Robert breytti disknum reyndar í bikar, og þannig varð til goðsögnin um hinn heilaga gral. Trúarlegt vægi sagnaefnisins jókst þannig smám saman, og sennilega hafa lesendur í lok tólftu aldar þóst sjá tíðarandann í þessum sagnaheimi; verk Chrétiens lýsir flóknum siðferðisspurningum, og þótt sagan sé einföld gefur hún sífellt tilefni til nýrra vangaveltna.

Um það leyti sem Chrétien lést frá sínu ókláraða verki misstu kristnir menn landið helga í hendur múslima, og í kjölfarið rúllaði þriðja krossferðin í gang. Einhverjir vildu túlka gralinn sem uppbót fyrir þennan missi, sem sýnir hversu mikill vilji var fyrir hendi til að láta hið brotakennda verk Chrétiens ganga upp. Það er eins og þessi saga hrópi á túlkanir, viðbætur og framhaldsskrif, enda hefur hún verið í endursköpun allar götur síðan. Sennilega er það bara tímaspursmál hvenær íslenska bókmenntasamfélagið tekur við sér og framleiðir afurð sem er innblásin af sögunni, í því skyni að lýsa tíðarandanum, því Sagan um gralinn hefur sjaldan verið eins aðkallandi og nú, allténd í efnahagslegu samhengi – ekki satt? Þegar T.S. Eliot tók að sér að lýsa ástandinu í Evrópu eftir fyrri heimsstyrjöld naut hann góðs af því að þekkja söguna um Fiskikónginn. Útkoman úr þeim lestri var Eyðilandið, viðbragð við hruninni heimsmynd og enn eitt dæmið um það hvernig efniviður Chrétien de Troyes gefur skáldum færi á að yrkja tíðarandaljóð. Samkvæmt hefðinni er Fiskikóngurinn særður og því ríkir eilíf auðn í ríki hans, grösin vaxa ekki og engir ávextir spretta á trjánum. Í raun á hvaða íslenskt skáld sem er leikinn og ætti að skella upp taflinu sem fyrst; ef útgáfa íslenskrar þýðingar á Sögunni um gralinn er ekki tilefni til þess að bera brotin að rústunum, þá bara veit ég ekki hvað. Ef eitthvert skáld er að hlusta vil ég bara taka það fram í lokin, til að fyrirbyggja allan misskilning, að það er hverjum sem er frjálst að stela hugmyndinni, ég óska góðs gengis og lofa að reyna að mæta á Bessastaði þegar þér verða afhent íslensku bókmenntaverðlaunin.

(Víðsjá, 20. janúar 2010)

Ian McEwan: Solar

Hjalti Ægisson, apríl 14, 2011

„Ímyndum okkur að á vegi okkar verði maður sem stendur í skógarjaðri í hellirigningu. Hann heldur á öxi í hendinni og er að höggva trén til þess að geta sogið safann úr trjábolunum. Það eru nokkrir sopar af safa í hverju tré. Allt í kringum þennan mann blasir við eyðilegging, dauð tré, það heyrist enginn fuglasöngur, og maðurinn veit að skógurinn er að hverfa. Af hverju hallar hann ekki höfðinu aftur á bak og drekkur regnvatnið? Af því að hann er sérfræðingur í að höggva tré, hann hefur alltaf gert þetta svona; hann er fullur tortryggni í garð fólks sem hvetur til regndrykkju.“ Þessa ímynduðu frásögn er að finna í skáldsögunni Solar, nýjustu bók breska rithöfundarins Ian McEwan, sem kom út í fyrra. Sá sem hér talar er eðlisfræðingurinn Michael Beard, nóbelsverðlaunahafi, kvennabósi, tækifærissinni – ein af þessum hefðbundnu andhetjum sem eru svo víða á kreiki í skáldsögum McEwans. Beard stendur frammi fyrir hópi fjárfesta í orkugeiranum á ráðstefnu um loftslagsmál, og hefur tekið að sér það erfiða verkefni að sannfæra hópinn um ágæti þess að veita fé í rannsóknir á sólarorku. Dæmisagan sem hann segir fjallar um ástand orkumála í samtímanum: Maðurinn með öxina er mannkynið, trén eru olíuauðlindir heimsins og rigningin er sólarljósið. „Með því að virkja lítið brot af eyðimörkum heimsins getum við haldið allri siðmenningu veraldarinnar gangandi,“ segir Michael Beard; „Enginn getur þjóðnýtt sólarljósið eða fengið einkaleyfi á því.“ „Með því að virkja allt það sólarljós sem fellur á jörðina í eina klukkustund væri hægt að fullnægja orkuþörf allrar heimsbyggðarinnar í eitt ár.“

Ian McEwan er samfélagslega meðvitaður höfundur; í fyrri verkum sínum hefur hann oft tekið afmörkuð, samfélagsleg málefni úr sögu og samtíma til umfjöllunar – breska fjölmiðlabransann í bókinni Amsterdam, mótmælin gegn Íraksstríðinu í Laugardegi, kynlífsbyltinguna í Brúðkaupsnóttinni. Í nýjustu skáldsögu sinni beinir hann svo sjónum sínum að einum umdeildasta málaflokki okkar tíma, nánar tiltekið loftslagsmálum. Aðalpersóna skáldsögunnar Solar er vísindamaðurinn Michael Beard, lágvaxinn og feitlaginn karlmaður á sextugsaldri sem er í þann mund að skilja við fimmtu eiginkonu sína þegar sagan hefst. Beard má muna fífil sinn fegurri, ferill hans staðnaði um það leyti sem hann fékk nóbelsverðlaun, tveimur áratugum áður; síðan þá hefur hann varla hugsað frumlega hugsun og fyrst og fremst lifað á fornri frægð. Hann er forstöðumaður rannsóknarstofnunar sem er ómarkviss og afkastalítil í faglegum skilningi, eins konar gæluverkefni sem Blair-stjórnin hefur komið á laggirnar til þess að almenningur haldi að hún sé að gera eitthvað af viti til að sporna gegn loftslagsvandanum. Michael Beard er fyrst og fremst silkihúfa, nafn hans er umlukið töfraljóma í boði sænsku nóbelsakademíunnar, svo að honum lætur vel að útvega fjárveitingar, en honum hefur ekki tekist að halda í við þróun mála á fræðisviðinu; nýjustu rannsóknirnar eru honum framandi, enda hefur hann haft um nóg annað að hugsa í gegnum tíðina við að halda fram hjá eiginkonum sínum, einni af annarri. Að þessu sinni er staðan þó önnur; þegar Patrice, fimmta eiginkona Michaels kemst að því að hann hefur verið henni ótrúr svarar hún í sömu mynt og upphefur ástarsamband með húsasmiðnum sem þau hjónin hafa fengið til viðhaldsverkefna í íbúð sinni. Michael lendir í hlutverki kokkálsins í fyrsta sinn á ævinni, og upplifir gríðarlega höfnun og vanlíðan af þeim sökum. Í vinnunni situr hann svo uppi með Tom Aldous, ungan og upprennandi vísindamann, eldhuga sem hefur byggt megnið af rannsóknum sínum á skrifum Michaels. Tom er róttækur umhverfissinni, trúir ekki á þær smáskammtalækningar sem eru iðkaðar innan stofnanarinnar en leggur allt sitt traust á þá möguleika sem sólarorkan hefur upp á að bjóða. Einn daginn atvikast það svo að Michael Beard fær einstakt tækifæri til að slá tvær flugur í einu höggi, jafna um elskhuga eiginkonu sinnar og láta starfsferil sjálfs sín ganga í endurnýjun lífdaga.

Skáldsagan Solar er saga um það hvernig sérgæðingsháttur og persónulegur metnaður getur hindrað að mikilvægar hugmyndir komist til framkvæmda. Umræðan um loftslagsmál hefur á undanförnum árum orðið undirstaða allmargra skáldverka. Tilhneigingin í þeirri deild hefur verið í átt til æsingaskrifa, svipað og í orðræðunni almennt, en sérstaða þessarar nýjustu skáldsögu Ian McEwan, samanborið við aðrar skáldaðar frásagnir sem byggja á umræðunni um hlýnun jarðar, er sú að hér eru ekki felldir neinir dómar um réttmæti eða sannleiksgildi vísindarannsókna. McEwan gengst ekki inn á þá vanabundnu, siðferðilegu tvenndarhugsun sem einkennir alla umfjöllun um þessi mál, en Solar er líka nýstárleg í höfundarverki hans sjálfs að því leyti að hér leyfir hann sér meira frelsi á hinu kómíska sviði. Michael Beard er allt að því grótesk persóna, mikið er gert úr óhóflegu vaxtarlagi hans og taumleysi í kvennamálum, og hann gerist sekur um alls konar vafasamt athæfi, lygar fyrir dómstólum og ritstuld, svo nokkuð sé nefnt. Hér er meiri galsi en við eigum að venjast úr bókum McEwan, atvikið sem verður vendipunkturinn í lífi Beards er hrein tilviljun og orkar næstum eins og atriði úr teiknimynd. Ljóst er að hér er mikil rannsóknarvinna að baki, McEwan hefur sett sig rækilega inn í starfsumhverfi vísindamanna og skilyrðin sem þeim eru búin í fjölmiðlamiðuðu stjórnmálaumhverfi. Pólitísk rétthugsun á sviði kynjabaráttu fær líka sinn skammt af umfjöllun, í kafla sem virðist þó falla illa að heildarmynd verksins. McEwan er einn af fremstu rithöfundum Bretlands á okkar tíð, og það kemur því ekki á óvart að skáldsagan Solar samanstandi af nokkrum lipurlega skrifuðum senum. Vandinn er þó sá hvernig atriðunum er raðað saman; sú úrvinnsla er ekki alltaf sannfærandi og því má segja að bygging bókarinnar sé næsta losaraleg. Aukapersónurnar eru heldur ekki sérlega rismiklar, hálfgerðar steríótýpur, líkt og Beard sjálfur. Skáldsagan Solar er þó allrar athygli verð, því þótt heildarútkoman sé takmörkuð ber texti McEwans ávallt vott um mikinn hagleik, hugmyndaauðgin er söm við sig. Útkoman er forvitnileg tilraun, hófstilltur og fágaður ærslaleikur með vitsmunalegu ívafi, paródísk úttekt á þeim absúrdisma sem blundar svo grunnt undir kaldhömruðu yfirborðinu á menningu og valdastofnunum 21. aldarinnar.

(Víðsjá, 13. janúar 2011)

Dante: Gleðileikurinn guðdómlegi

Hjalti Ægisson, apríl 14, 2011

Erlingur E. Halldórsson er eins konar stofnun í íslensku bókmenntalífi; veldi, liggur mér við að segja. Síðustu tvo áratugina hafa runnið frá honum þýðingar á stórvirkjum heimsbókmenntanna, og nú er svo komið að þeir Íslendingar sem vilja koma sér upp lágmarksþekkingu á  vestrænni bókmenntasögu geta vart komist hjá því að kynna sér verk Erlings, að því gefnu að fólk vilji lesa þessi verk á sínu tungumáli. Erlingur hefur þýtt verk frá fornöld, miðöldum og endurreisnartímanum, og nú á dögunum kom út þýðing hans á því bókmenntaverki sem er allajafna talið kjarninn í vestrænni menningu á hámiðöldum, eins konar lykill að heimsmynd kaþólsku kirkjunnar og þar með eitt áhrifamesta verk síðari alda. Þetta er Gleðileikurinn guðdómlegi eftir flórentínska skáldið Dante Alighieri, ljóð sem er ritað á ítölsku í upphafi fjórtándu aldar, eitt þeirra verka sem markar raunverulegt upphaf bókmenntasköpunar á þjóðtungum. Frá og með rómantíkinni má segja að kunnátta í þessu verki Dantes verði veigamikill þáttur í fagurfræðilegu uppeldi fólks á Vesturlöndum. Allmörg stórskáld á 19. og 20. öld spreyta sig á því að þýða Gleðileikinn á sitt móðurmál að hluta eða í heild; Shelley í Bretlandi, Púshkín í Rússlandi, Stefan George í Þýskalandi og Longfellow í Ameríku. Fyrsti maðurinn sem þýddi Dante á íslensku svo vitað sé var Gísli Brynjúlfsson, það mun hafa verið í desember 1851 sem hann þýddi nokkrar línur úr Inferno 3 og Paradiso 33. Gísli fylgdi fordæmi Jóns á Bægisá og beitti fornyrðislagi, en nærvera Dantes í íslenskum bókmenntum hafði að vísu hafist nokkrum árum fyrr með Gunnarshólma Jónasar Hallgrímssonar, sem er að stærstum hluta ort undir terzínuhætti, bragarhætti Dantes.

Erlingur Halldórsson kýs að þýða Gleðileikinn á óbundið mál, og er sú ákvörðun um margt skynsamleg, hér er lögð áhersla á nákvæmni umfram áhrif. Þetta er sama leið og Erlingur fór í þýðingu sinni á Kantaraborgarsögum Chaucers, öðru 14. aldar verki sem er ritað á bundnu máli en þýtt á prósa. Þýðingin er af þessum sökum mjög gagnleg öllum þeim sem vilja komast nálægt hinum upphaflega texta Dantes; sem stuðningur við frumtextann er hin nýja þýðing Erlings því ómetanleg. Ekki spillir að línunúmer eru prentuð á spássíum og hægt að hafa þau til viðmiðunar þegar flett er upp í ítölskum útgáfum. En öllum listrænum ákvörðunum fylgja vissir annmarkar, þegar einar dyr opnast er hætt við því að aðrar lokist. Erlingur leggur höfuðáherslu á að þýða beint og nákvæmt, sem getur vitanlega ekki talist galli út af fyrir sig, en á móti kemur að lítið svigrúm er eftir fyrir nýstárlega málnotkun, tilraunastarfsemi í myndmáli eða frávik frá hinni upphaflegu hugsun. Orðaröðin hjá Erlingi er til að mynda iðulega mjög nálægt texta Dantes sjálfs, og fyrir vikið er hún sums staðar ekki alveg átakalaus á íslensku. Í samræðuköflum verður þetta dálítið áberandi, Dante notar víða fasta frasa í upphafi ljóðlína, einfaldlega vegna þess að hrynjandin krefst þess. Þetta eru orðasambönd á borð við: „Ed elli a me,“ sem þýðir bókstaflega: „Og hann við mig.“ Og það er einmitt þannig sem Erlingur þýðir þetta í flestum tilvikum. Kannski hefði það orðið meira leikandi að umorða þessar sviðsleiðbeiningar, vefja þær til dæmis inn í setninguna miðja, í því skyni að láta orðfærið hljóma eðlilegra, svona fyrst textinn er orðinn prósi á annað borð og þær takmarkanir sem bragarhátturinn hefur í för með sér skipta ekki lengur máli.

Orðaval hjá Erlingi er að sama skapi umdeilanlegt þegar hin stranga nákvæmni hans er höfð í huga. Í hinum frægu upphafsorðum, þar sem Dante lýsir því hvernig hann hefur villst í dimmum skógi, talar Erlingur um „veginn sem liggur beint“, og þýðir þar „la dritta via“. Guðmundur Böðvarsson steig feti lengra frá upphaflegu merkingunni í þýðingu sinni sem út kom 1968, og þýddi þetta sem „þann stíg, er skyldi ég fara“. Erlingur gengur með öðrum orðum skemmra í því að afkóða þá allegóríu sem er ríkjandi í verkinu, en það telst væntanlega kostur að margra mati. Nánari samanburður á þýðingum Erlings og Guðmundar leiðir ýmislegt forvitnilegt í ljós, og vonandi mun einhver rannsaka það mál til hlítar fyrr en seinna. Lokaorð Virgils í ljóðinu koma fyrir í 27. þætti Purgatorio, ferðalangurinn Dante er þá orðinn klár í að rísa upp til himna og berja augum dýrðina sem þar býr. Virgill veitir honum þá kórónu og mítur yfir sjálfum sér, Dante er sem sagt orðinn siðferðilega stöðugur og fær um að hafa taumhald á eigin hvötum, hugsunum og tilfinningum. Hjá Guðmundi segir Virgill: „Yfir þig sjálfan krýni ég þig og vígi,“ en hjá Erlingi hljómar þetta svona: „ég krýni þig herra sjálfs þín, og set á þig mítur.“ Ég hallast að því að tvenndarhugsunin sé skýrari í hinni nýju þýðingu Erlings, hér byggist líkingin vitanlega á tilvísun til þeirra átaka sem voru mál málanna á fjórtándu öld, þ.e.a.s. átakanna á milli keisara og páfa. Míturinn er skýrt tákn biskupa og páfa, en sögnin „að vígja“ hefur mun almennari skírskotun. Á stöku stað þykir mér þó sem hin skilyrðislausa tryggð Erlings við texta Dantes verði þýðingunni fjötur um fót. Í 26. þætti Vítis finnum við t.a.m. hvatningarræðu Ódysseifs til manna sinna, hann telur í þá kjark að halda ævintýraleitinni áfram og höfðar til þeirrar húmanísku hugmyndar að maðurinn sé mælikvarði allra hluta og þekkingarleitin sé hans hlutverk. „Fatti non foste a viver come bruti,“ segir Ódysseifur: „Þið voruð ekki skaptir til að lifa sem skynlausar skepnur, heldur til að sækjast eftir verðleikum og þekkingu,“ „ma per seguir virtute e canoscenza“. Ódysseifur fullvissar fylgdarsveina sína um að þetta sé ástæðan fyrir því að þeir voru bornir í þennan heim: „Hugleiðið vel uppruna ykkar,“ – „Considerate la vostra semenza“. Orðið „semenza“ þýðir bókstaflega „sæði“, en er einfaldlega tákn um uppruna og hlutverk. Erlingur þýðir þetta svo: „Hugleiðið vel sæðið sem leiddi til fæðingar ykkar,“ sem er óþarfa nákvæmni að mínu mati, og einkum til þess fallið að gera frásögnina á þessu tilfinningaþrungna augnabliki þyngri í vöfum.

Með hinni nýju þýðingu sinni á Gleðileiknum guðdómlega hefur Erlingur Halldórsson unnið enn eitt þrekvirkið í því skyni að færa samlöndum sínum brot af því besta af gnægtaborði heimsbókmenntanna. Það er í raun ótrúlegt að engum skuli fyrr hafa auðnast að gera íslenska heildarþýðingu á þessu mikilvæga ljóði, og því tímabært að fá þennan kærkomna grip í hendur. Góð bók hefði þó sannarlega orðið enn betri ef formáli og skýringar hefðu verið rækilegri en raunin er, skýringarnar eru raunar kallaðar „athugasemdir“, sem telst líklega réttnefni. Athugasemdirnar einkennast víða af einföldunum og fremur óljósum heimildavísunum, gjarnan spjallkenndum. Mestu máli skiptir þó að það er sterkur  heildarsvipur á þessari þýðingu, sem er vel frambærileg og mun gagnast vel sem inngangur fyrir alla þá sem vilja kynna sér undraveröld Dantes og ítalskra miðalda.

(Víðsjá, 22. desember 2010)

Sigríður Pétursdóttir: Geislaþræðir

Hjalti Ægisson, apríl 14, 2011

Klisjan um yfirvofandi dauða bókarinnar varð til löngu á undan internetinu. Hugmyndina bar á góma hérlendis í tengslum við samdrátt í bóksölu snemma á níunda áratugnum, og sennilega miklu fyrr í tengslum við eitthvað allt annað. Á seinni árum höfum við svo mátt venjast því að hugmyndinni sé slengt fram í hálfkæringi til að lýsa gamaldags eða úreltum viðhorfum; þetta er oft sett fram í dylgjustíl, sagt að „margir telji“ að dauði bókarinnar sé á næsta leiti, þetta sé „mál manna“ eða eitthvað í svipuðum dúr. Á eftir fylgir svo sú niðurstaða að þetta sé augljóslega rangt, bækur hafi aldrei verið vinsælli en núna og allar bölsýnisspár séu óþarfar. Við þetta má svo bæta einu sem vill stundum gleymast, en það er sú staðreynd að það er ekki eingöngu miðillinn sjálfur sem hefur staðið óhaggaður þrátt fyrir hið nýja og rafræna textasamfélag, heldur hafa hefðbundin bókmenntaform tekið furðu litlum breytingum eftir tilkomu internetsins. Þetta á sér sennilega þá skýringu helsta að internetið hefur sín eigin form sem eiga sína sjálfstæðu tilvist og eru ekki annað en viðbót við eldri form á borð við skáldsögur, leikrit eða ljóð. Hefðbundnar, útgefnar skáldsögur hafa ekki tekið neinum grundvallarbreytingum með internetinu, þótt stundum sé reynt að miðla netrænum raunveruleika í bókarformi.

Bókin Geislaþræðir eftir Sigríði Pétursdóttur er safn sagna sem fjalla um samskipti fólks á internetinu, nánar tiltekið í gegnum tölvupóst. Lesandinn fær að gægjast í póstsamskipti persónanna og þannig tekst Sigríði að skapa töluverða nánd við hugarheim fólksins sem hér er til umfjöllunar. Þetta er kunnuglegt trix úr smiðju átjándu aldar höfunda á borð við Rousseau og Samuel Richardson, enda bréfaskáldsagan mjög rótgróið form. Það felst ákveðið raunsæi í því að nota sendibréfið sem grundvöll játninga og vettvang til að fjalla um leyndarmál sem eiga ekki erindi út í hið opinbera líf. Í fljótu bragði er ekki að sjá að hin rafræna vídd breyti nokkru hér um – í Geislaþráðum eru sagðar sögur um leyndarmál, unglingsstúlkan Hulda skrifast á við aldraða konu í Ástralíu og játar fyrir henni að hún sé ólétt, þótt hún sé ekki enn búin að segja foreldrum sínum frá því. Smiðurinn Halldór, sem er nýbúinn að missa konuna sína, fær póst frá Berglindi, sem tilkynnir honum að hún viti nokkuð sem hann ekki veit um hina nýlátnu eiginkonu. Aðdráttarafl þessara sagna byggir á vissri gægjuþörf, við verðum vitni að einhverju sem okkur er ekki ætlað að vita.

Sögurnar eru fastar í forminu, aðalpersónurnar eru nær alltaf tvær í hverri sögu, þótt vitanlega séu fleiri nefndir án þess að fá orðið í póstinum. Listræna blekkingin í frásögninni felst meðal annars í því að hér eru það oftar en ekki manneskjur af tveimur þjóðernum sem skrifast á; það má því ímynda sér að margir af póstunum séu ritaðir á ensku á hinu raunverulega sögusviði og þeir birtist okkur því í þessari bók sem þýðingar. Þetta er auðvitað algjört aukaatriði, en tengist einum helsta veikleika verksins, sem er einsleitni í stílnum; manneskjurnar sem hér hafa orðið líkjast hver annarri og persónusköpunin fer ekki fram í málnotkun nema að mjög takmörkuðu leyti. Þær fáu tilraunir sem þó eru gerðar eru dálítið ómarkvissar – gelgjulegt málfar unglingsstúlkunnar í fyrstu sögunni virkar til að mynda ekki beint sannfærandi. Fyrir vikið þurfa þessar sögur að treysta alfarið á fléttuna, óvæntar uppljóstranir og vangaveltur sögupersónanna um lífið og tilveruna. Þetta er í flestum tilvikum leyst átakalaust af hendi; Sigríður setur markið svo sem ekki hátt en slær heldur ekki margar feilnótur fyrir vikið. Sögurnar í Geislaþráðum eru sjálfstæðar og ótengdar smásögur, sem tengjast að vissu leyti á fleiri vegu en með póstforminu, hér eru stöku þematískar tengingar þegar vel er að gáð, en að öðru leyti er textinn mestmegnis á yfirborðinu. Þetta eru glefsur úr hversdagslífi, gægjur inn á hið persónulega og sálræna svið sem dylst undir niðri.

Geislaþræðir er safn sagna sem eru læsilegar og ganga að flestu leyti upp miðað við þær forsendur sem höfundurinn gefur sér, en samt er eins og eitthvað vanti. Smásagnaformið hefur upp á margt að bjóða sem lengri sögur geta ekki leyft sér. Lesandinn hefur allajafna meiri yfirsýn við lestur smásagna, hann les textann venjulega með færri hléum, stundum í einni striklotu. Þannig geta smásögur haft beinni áhrif en langar skáldsögur, þær geta löðrungað lesandann með sterkri hugmynd, litríkri persónu eða áhrifamikilli lýsingu á andrúmslofti. Þetta er sá skóli smásögunnar sem er stundum kenndur við Edgar Allan Poe, en að hans mati var mikilvægt að smásögur væru ekki langar, heildaráhrifin skiptu miklu máli og höfundurinn átti að stefna að því að hreyfa við lesandanum án þess að þreyta hann með of löngu máli. Þetta er auðvitað ekki eina mögulega formgerð smásögunnar, smásögur geta líka verið ljóðrænar og þar með tíðindalitlar í frásagnarfræðilegum skilningi. Í slíkum tilvikum hlýtur lesandinn þó að gera kröfu um að stíll og málnotkun séu það sem gerir sögurnar eftirsóknarverðar til lestrar, og þar má segja að sögunum í Geislaþráðum fatist flugið. Sem úttekt á netvæddum veruleika og lýsing á þeim breyttu hefðum sem ríkja í mannlegum samskiptum á heimi tölvupóstsins eru engin ný tíðindi fólgin í þessum sögum. En bókmenntir geta vitaskuld verið einhvers virði þótt þær beri engin ný tíðindi, og það sem gerir bókina Geislaþræði þess virði að lesa er sú notalega og mannlega áhersla sem hér er ríkjandi í persónulýsingum. Sigríður Pétursdóttir segir hér ljúfar sögur um vonina sem kvíða hrindir þótt lífsleiðin sé stundum þyrnum stráð. Bókin Geislaþræðir er áminning um sáluhjálpina sem getur falist í samskiptum fólks, kunnugra jafnt sem ókunnugra, og að því leyti má segja að til nokkurs sé unnið með lestrinum.

(Víðsjá, 8. desember 2010)