Dante: Gleðileikurinn guðdómlegi

Hjalti Ægisson, apríl 14, 2011

Erlingur E. Halldórsson er eins konar stofnun í íslensku bókmenntalífi; veldi, liggur mér við að segja. Síðustu tvo áratugina hafa runnið frá honum þýðingar á stórvirkjum heimsbókmenntanna, og nú er svo komið að þeir Íslendingar sem vilja koma sér upp lágmarksþekkingu á  vestrænni bókmenntasögu geta vart komist hjá því að kynna sér verk Erlings, að því gefnu að fólk vilji lesa þessi verk á sínu tungumáli. Erlingur hefur þýtt verk frá fornöld, miðöldum og endurreisnartímanum, og nú á dögunum kom út þýðing hans á því bókmenntaverki sem er allajafna talið kjarninn í vestrænni menningu á hámiðöldum, eins konar lykill að heimsmynd kaþólsku kirkjunnar og þar með eitt áhrifamesta verk síðari alda. Þetta er Gleðileikurinn guðdómlegi eftir flórentínska skáldið Dante Alighieri, ljóð sem er ritað á ítölsku í upphafi fjórtándu aldar, eitt þeirra verka sem markar raunverulegt upphaf bókmenntasköpunar á þjóðtungum. Frá og með rómantíkinni má segja að kunnátta í þessu verki Dantes verði veigamikill þáttur í fagurfræðilegu uppeldi fólks á Vesturlöndum. Allmörg stórskáld á 19. og 20. öld spreyta sig á því að þýða Gleðileikinn á sitt móðurmál að hluta eða í heild; Shelley í Bretlandi, Púshkín í Rússlandi, Stefan George í Þýskalandi og Longfellow í Ameríku. Fyrsti maðurinn sem þýddi Dante á íslensku svo vitað sé var Gísli Brynjúlfsson, það mun hafa verið í desember 1851 sem hann þýddi nokkrar línur úr Inferno 3 og Paradiso 33. Gísli fylgdi fordæmi Jóns á Bægisá og beitti fornyrðislagi, en nærvera Dantes í íslenskum bókmenntum hafði að vísu hafist nokkrum árum fyrr með Gunnarshólma Jónasar Hallgrímssonar, sem er að stærstum hluta ort undir terzínuhætti, bragarhætti Dantes.

Erlingur Halldórsson kýs að þýða Gleðileikinn á óbundið mál, og er sú ákvörðun um margt skynsamleg, hér er lögð áhersla á nákvæmni umfram áhrif. Þetta er sama leið og Erlingur fór í þýðingu sinni á Kantaraborgarsögum Chaucers, öðru 14. aldar verki sem er ritað á bundnu máli en þýtt á prósa. Þýðingin er af þessum sökum mjög gagnleg öllum þeim sem vilja komast nálægt hinum upphaflega texta Dantes; sem stuðningur við frumtextann er hin nýja þýðing Erlings því ómetanleg. Ekki spillir að línunúmer eru prentuð á spássíum og hægt að hafa þau til viðmiðunar þegar flett er upp í ítölskum útgáfum. En öllum listrænum ákvörðunum fylgja vissir annmarkar, þegar einar dyr opnast er hætt við því að aðrar lokist. Erlingur leggur höfuðáherslu á að þýða beint og nákvæmt, sem getur vitanlega ekki talist galli út af fyrir sig, en á móti kemur að lítið svigrúm er eftir fyrir nýstárlega málnotkun, tilraunastarfsemi í myndmáli eða frávik frá hinni upphaflegu hugsun. Orðaröðin hjá Erlingi er til að mynda iðulega mjög nálægt texta Dantes sjálfs, og fyrir vikið er hún sums staðar ekki alveg átakalaus á íslensku. Í samræðuköflum verður þetta dálítið áberandi, Dante notar víða fasta frasa í upphafi ljóðlína, einfaldlega vegna þess að hrynjandin krefst þess. Þetta eru orðasambönd á borð við: „Ed elli a me,“ sem þýðir bókstaflega: „Og hann við mig.“ Og það er einmitt þannig sem Erlingur þýðir þetta í flestum tilvikum. Kannski hefði það orðið meira leikandi að umorða þessar sviðsleiðbeiningar, vefja þær til dæmis inn í setninguna miðja, í því skyni að láta orðfærið hljóma eðlilegra, svona fyrst textinn er orðinn prósi á annað borð og þær takmarkanir sem bragarhátturinn hefur í för með sér skipta ekki lengur máli.

Orðaval hjá Erlingi er að sama skapi umdeilanlegt þegar hin stranga nákvæmni hans er höfð í huga. Í hinum frægu upphafsorðum, þar sem Dante lýsir því hvernig hann hefur villst í dimmum skógi, talar Erlingur um „veginn sem liggur beint“, og þýðir þar „la dritta via“. Guðmundur Böðvarsson steig feti lengra frá upphaflegu merkingunni í þýðingu sinni sem út kom 1968, og þýddi þetta sem „þann stíg, er skyldi ég fara“. Erlingur gengur með öðrum orðum skemmra í því að afkóða þá allegóríu sem er ríkjandi í verkinu, en það telst væntanlega kostur að margra mati. Nánari samanburður á þýðingum Erlings og Guðmundar leiðir ýmislegt forvitnilegt í ljós, og vonandi mun einhver rannsaka það mál til hlítar fyrr en seinna. Lokaorð Virgils í ljóðinu koma fyrir í 27. þætti Purgatorio, ferðalangurinn Dante er þá orðinn klár í að rísa upp til himna og berja augum dýrðina sem þar býr. Virgill veitir honum þá kórónu og mítur yfir sjálfum sér, Dante er sem sagt orðinn siðferðilega stöðugur og fær um að hafa taumhald á eigin hvötum, hugsunum og tilfinningum. Hjá Guðmundi segir Virgill: „Yfir þig sjálfan krýni ég þig og vígi,“ en hjá Erlingi hljómar þetta svona: „ég krýni þig herra sjálfs þín, og set á þig mítur.“ Ég hallast að því að tvenndarhugsunin sé skýrari í hinni nýju þýðingu Erlings, hér byggist líkingin vitanlega á tilvísun til þeirra átaka sem voru mál málanna á fjórtándu öld, þ.e.a.s. átakanna á milli keisara og páfa. Míturinn er skýrt tákn biskupa og páfa, en sögnin „að vígja“ hefur mun almennari skírskotun. Á stöku stað þykir mér þó sem hin skilyrðislausa tryggð Erlings við texta Dantes verði þýðingunni fjötur um fót. Í 26. þætti Vítis finnum við t.a.m. hvatningarræðu Ódysseifs til manna sinna, hann telur í þá kjark að halda ævintýraleitinni áfram og höfðar til þeirrar húmanísku hugmyndar að maðurinn sé mælikvarði allra hluta og þekkingarleitin sé hans hlutverk. „Fatti non foste a viver come bruti,“ segir Ódysseifur: „Þið voruð ekki skaptir til að lifa sem skynlausar skepnur, heldur til að sækjast eftir verðleikum og þekkingu,“ „ma per seguir virtute e canoscenza“. Ódysseifur fullvissar fylgdarsveina sína um að þetta sé ástæðan fyrir því að þeir voru bornir í þennan heim: „Hugleiðið vel uppruna ykkar,“ – „Considerate la vostra semenza“. Orðið „semenza“ þýðir bókstaflega „sæði“, en er einfaldlega tákn um uppruna og hlutverk. Erlingur þýðir þetta svo: „Hugleiðið vel sæðið sem leiddi til fæðingar ykkar,“ sem er óþarfa nákvæmni að mínu mati, og einkum til þess fallið að gera frásögnina á þessu tilfinningaþrungna augnabliki þyngri í vöfum.

Með hinni nýju þýðingu sinni á Gleðileiknum guðdómlega hefur Erlingur Halldórsson unnið enn eitt þrekvirkið í því skyni að færa samlöndum sínum brot af því besta af gnægtaborði heimsbókmenntanna. Það er í raun ótrúlegt að engum skuli fyrr hafa auðnast að gera íslenska heildarþýðingu á þessu mikilvæga ljóði, og því tímabært að fá þennan kærkomna grip í hendur. Góð bók hefði þó sannarlega orðið enn betri ef formáli og skýringar hefðu verið rækilegri en raunin er, skýringarnar eru raunar kallaðar „athugasemdir“, sem telst líklega réttnefni. Athugasemdirnar einkennast víða af einföldunum og fremur óljósum heimildavísunum, gjarnan spjallkenndum. Mestu máli skiptir þó að það er sterkur  heildarsvipur á þessari þýðingu, sem er vel frambærileg og mun gagnast vel sem inngangur fyrir alla þá sem vilja kynna sér undraveröld Dantes og ítalskra miðalda.

(Víðsjá, 22. desember 2010)