Handritin hans Kafka

Hjalti Ægisson, apríl 14, 2011

Franz Kafka

Hver á Kafka? spyr bandaríski heimspekingurinn Judith Butler í grein í nýjasta hefti bókmenntatímaritsins London Review of Books. Spurningin er áhugaverð, ekki síst í ljósi þeirra deilna sem nú eru háðar fyrir dómstólum í borginni Tel Aviv í Ísrael. Deilurnar snúast um nokkra kassa af handritum úr dánarbúi rithöfundarins Franz Kafka sem komu upp úr kafinu fyrir fáeinum árum. Það er margt flókið við Kafka, ekki bara sálarlífið, heldur líka það menningarlega auðmagn sem felst í verkum hans, og víst er að þar koma margir kröfuhafar við sögu. Kafka fæddist í Austurríki-Ungverjalandi, ríki sem nú er ekki lengur til; hann var tékkneskur gyðingur sem skrifaði á þýsku. Hann bjó mestalla ævina í Prag, og allir sem hafa heimsótt þá borg vita að þar er Kafka í hávegum hafður; íbúar Prag eru stoltir af sínum manni, jarðneskar leifar hans eru grafnar í kirkjugarðinum þar, og heimili hans er nú safn þar sem hægt er að kaupa Kafka-póstkort, Kafka-boli og annan söluvarning.

Hitt er annað mál að verk Kafka eru öll rituð á þýsku, þau eru raunar oft talin með því besta sem ritað var á þá tungu á síðustu öld. Bókmenntafræðingurinn Georg Steiner og fleiri málsmetandi menn í þýskri menningarsögu hafa ritað töluvert um stílinn í verkum Kafka, og telja hann dæmi um skýran og tæran, þýskan prósa. Það má því með réttu telja verk Franz Kafka til þýskra bókmennta, enda leit hann sjálfur á sig sem þýskan höfund. Milan Kundera fullyrðir í Tjöldunum að þýskan sé án nokkurs vafa ástæða þess að verk hans urðu svo áhrifarík sem raunin er: „...ykkur er óhætt að trúa mér, enginn myndi þekkja Kafka núna, ekki nokkur maður, ef hann hefði skrifað á tékknesku.“ Við þetta bætist svo gyðingdómurinn, þetta yfirþjóðlega afl sem er svo áhrifaríkt í menningu síðustu tveggja alda. Franz Kafka var gyðingur, og sú staðreynd skiptir höfuðmáli í réttarhöldunum sem fara fram í Tel Aviv þessi misserin.

Max Brod

Sagan um handritakassana hófst árið 1924, þegar Franz Kafka lá fyrir dauðanum og bað útgefanda sinn, Max Brod, um að brenna öll sín handrit að sér látnum. Það er einhver furðuleg þversögn í þessari hinstu bón Kafka, eins og Judith Butler bendir á í grein sinni; Max Brod hafði öll handritin í sínum fórum á meðan Kafka var enn á lífi, en Kafka bað hann ekki um að færa sér handritin aftur svo að hann gæti brennt þau sjálfur. Hann sagði einfaldlega við útgefanda sinn og besta vin: Brennd þú handritin. Þar með var það Max Brod sem átti kvölina og völina, hann var gerður ábyrgur fyrir því að eyðileggja skáldsögurnar Réttarhöldin, Ameríku og Höllina áður en þær kæmu fyrir augu lesenda. Þegar Kafka var allur ákvað Max Brod að verða ekki við óskinni, hann brenndi handritin ekki heldur hóf að gefa verkin út. Þegar seinni heimsstyrjöldin skall á flutti Brod frá Prag, um það leyti sem nasistar hertóku borgina, og flúði til Palestínu ásamt eiginkonu sinni. Í einni ferðatöskunni voru öll þau skjöl sem Franz Kafka hafði látið eftir sig. Brod bjó í Tel Aviv til æviloka, og í erfðaskrá sinni ánafnaði hann handritin konu að nafni Esther Hoffe, sem var einkaritarinn hans. En það er margt óljóst í erfðaskrá Max Brod, hann nefnir að það væri til dæmis hægt að varðveita handritin á háskólabókasafninu í Jerúsalem, borgarbókasafninu í Tel Aviv, eða einhverju öðru skjalasafni, hvort heldur sem er í Ísrael eða annars staðar.

Einkaritarinn Esther Hoffe tók við skjölunum árið 1968 þegar Max Brod féll frá. Hún kom þeim þó ekki í vörslu í skjalasafni heldur geymdi þau einfaldlega heima hjá sér, og gætti þeirra eins og sjáaldurs augna sinna, með þeirri einu undantekningu að hún freistaðist til að selja frumhandritið að Réttarhöldunum árið 1988 og stórgræddi á þeim viðskiptum. Þegar Esther Hoffe lést svo árið 2007 tóku dætur hennar við skjalabunkanum. Um þessar mundir standa þær í deilum við landsbókasafnið í Ísrael um eignarhaldið á handritunum. Systurnar Eva Hoffe og Ruti Wisler krefjast þess að vera viðurkenndar sem lögmætir eigendur Kafka-handritanna, en landsbókasafnið í Ísrael vill fá gögnin í sína vörslu, enda séu þau ísraelskar þjóðargersemar, ekkert síður en dauðahafshandritin. Dómsúrskurður í málinu er sennilega væntanlegur á þessu ári eða því næsta, og ef dómurinn verður systrunum í hag er næsta öruggt að þær haldi uppboð á handritunum og selji þau hæstbjóðanda. Landsbókasafninu í Ísrael verður vitanlega frjálst að gera þar tilboð, eins og öllum öðrum. Það má teljast afar líklegt að þýska skjalasafnið í Arbach verði þá einnig meðal þátttakenda, semsagt aðilinn sem keypti handritið að Réttarhöldunum árið 1988, og hefur fyrst og fremst áhuga á Kafka sem þýskum höfundi.

Hver á Kafka? spyr Judith Butler árið 2011. Max Brod var sannfærður síonisti og án hans hefðu verk Kafka aldrei orðið okkur aðgengileg, en Franz Kafka kom aldrei til landsins helga. Mikill fjöldi evrópskra gyðinga flutti til Palestínu á fyrstu áratugum 20. aldarinnar, margir litu á slíka búferlaflutninga sem lokaskref í andlegum og trúarlegum þroska, en hugur Kafka virðist aldrei hafa stefnt þangað. Hann hlaut gyðinglegt uppeldi og gyðingdómurinn setti mark á hugsun hans, en þó er afstaða hans til gyðingdómsins tvíbent. Í Bréfi til föðurins fullyrðir hann að gyðingdómurinn hafi ekki einu sinni dugað til að sameina hann og föður hans, og sálræn vandamál sonarins birtast þar jafnt sem annars staðar. „Þú hefur frá upphafi haft andúð á mínum viðfangsefnum,“ ritar Kafka til föður síns, „...En hvað sem því líður hefði þó mátt búast við því að þú gerðir hér svolitla undantekningu. Það var þó gyðingdómur af þínum gyðingdómi sem hér lét á sér kræla og þarmeð semsagt tækifæri til nýrra tengsla okkar á milli. [...] En afskipti mín urðu til þess að gyðingdómurinn varð þér ógeðfelldur, gyðingleg rit ólesandi, þér „bauð við þeim“.“

Um þessar mundir fáum við að vera vitni að afleiðingunum sem ákvörðun Max Brod hafði í för með sér, ákvörðunin um að brenna ekki handrit Franz Kafka. Í smásögunni „Hungurlistamaður“, sem Kafka birti árið 1922, segir frá listsköpun sem hverfur með gerandanum; listamaðurinn deyr og listin deyr með honum. Kannski var það einmitt þannig sem Kafka vildi sjálfur verða, en í staðinn hlaut hann þau örlög að verða einn áhrifamesti rithöfundur 20. aldarinnar. Fáir vita með vissu hvað kassarnir í Tel Aviv hafa að geyma, kannski leynast þar nokkur meistaraverk í viðbót sem gætu enn átt eftir að breyta því hvernig við hugsum um Kafka, heimsbókmenntirnar og raunveruleikann. Systurnar Eva Hoffe og Ruti Wisler fullyrða að skjölin séu vel með farin.

(Víðsjá, 24. febrúar 2011)