James Shapiro: Contested Will

Hjalti Ægisson, apríl 14, 2011

Árið 1794 var viðburðaríkt ár í breskum bókmenntum. Ekki bara vegna þess að það var þetta ár sem William Blake gaf út ljóðabækur sínar, Söngva sakleysisins og Ljóð lífsreynslunnar í einu bindi, og ekki bara vegna þess að Jane Austen skrifaði sína fyrstu skáldsögu þetta ár. Nei, mesti viðburðurinn í bresku bókmenntalífi árið 1794 var vafalaust í árslok þegar nokkur ómetanleg skjöl úr fórum Williams Shakespeares komu í leitirnar. Um var að ræða bréf, rituð með hendi skáldsins, til ýmissa nafntogaðra samtímamanna hans, svo og bréf annarra til Shakespeares, þar á meðal eitt frá Elísabetu Englandsdrottningu, þar sem hún þakkar honum honum fyrir fallegu línurnar sem hann sendi henni síðast, og segist hlakka til að hitta hann með leikaraflokkinn sinn í sumar. Þessi bréfafundur þótti sæta miklum tíðindum, og ekki minnkaði æsingurinn hjá aðdáendum Shakesepeares í febrúar árið eftir, þegar áður óþekkt handrit að Lé konungi kom í leitirnar, handrit sem hafði að geyma upprunalega gerð verksins, óræk sönnun þess að það hefði verið stytt verulega í meðförum ritstjóra og leikstjóra á seinni tímum. Sá sem fann skjölin og gerði þau opinber var tæplega tvítugur piltur, William Henry Ireland, sonur Samuel Ireland, sem var einn kunnasti fornleifasafnarinn í Lundúnum og mikill Shakespeare-aðdáandi. Drengurinn hafði komist í kynni við aðalsmann sem vildi ekki láta nafns síns getið, en gaf honum handritin, sem höfðu tilheyrt fjölskyldu hans um árabil. Skjölin voru fljótlega gefin út og útgáfunni var fagnað mjög af helstu bókmenntasérfræðingum landsins. Það kættust þó ekki allir yfir þessum atburðum, einn þeirra sem lét sér fátt um finnast var Edmond Malone, sem var meðal áhrifamestu Shakespeare-fræðinga á átjándu öld. Skýringin á þessu fálæti hans lá í augum  uppi að margra mati, karlinn hlaut að vera öfundsjúkur út í hið ómenntaða piltkorn sem hafði fært bókmenntasamfélaginu þessa gjöf sem var svo stór að nú þurfti að meta líf skáldsins frá Stratford alveg upp á nýtt. Það kom þó annað hljóð í strokkinn þegar Malone svaraði útgáfunni með bók í mars 1796, fjögurhundruð síðna doðranti þar sem hann rakti sig í gegnum hin nýfundnu skjöl lið fyrir lið, rýndi í orðalagið, og kvað upp þann dóm að þau stæðust ekki fræðilega skoðun; þetta væri augljóslega ekki ritað á ævitíma Shakespeares, því textinn var fullur af klúðurslegri fyrningu og mun yngra orðalagi. Það leið svo ekki á löngu þar til William Henry Ireland viðurkenndi að hann hefði falsað skjölin frá upphafi til enda, ekkert þeirra var frá Shakespeare komið, og nafnlausi velgjörðarmaðurinn sem átti að hafa gefið honum þau var uppspuni frá rótum.

Þessi saga, og margar aðrar, er sögð í nýlegri bók, Contested Will eftir bandaríska sagnfræðinginn James Shapiro. Þar er rakin saga hugmyndar sem hefur lengi loðað við William Shakespeare, nánar tiltekið þeirrar hugmyndar að hann hafi ekki ritað verk sín sjálfur, heldur einhver annar, hugsanlega fleiri en einn maður. Þessi umræða kviknaði í lok átjándu aldar, um svipað leyti og glæpasagan kom fram á sjónarsviðið, en efasemdirnar um Shakespeare sem höfund hefur alltaf borið keim af morðgátunni. Hver framdi glæpinn, hafa menn spurt, ef það var ekki William Shakespeare sem ritaði þessi ódauðlegu verk, hver var það þá? James Shapiro rekur þessa sögu af aðdáunarverðri nákvæmni, frásagnargleði og fræðilegri stillingu sem er engu lík. Hann tekur skýrt fram í upphafi bókarinnar að hann telji sjálfur að Shakespeare hafi ritað verkin sem honum eru eignuð, en honum tekst frábærlega að rekja það hvernig mótbárurnar verða til, þróast og breiðast út.

Sagan um Shakespeare-efasemdirnar er lyginni líkust á köflum, full af svikum og fölsunum, eins og frásögnin um William Henry Ireland ber með sér. Stóra vandamálið við Shakespeare sem sagnfræðilegt viðfangsefni er heimildaleysið; það eru engin skjöl varðveitt með hendi hans sjálfs, engar myndir til af honum aðrar en þær sem voru málaðar eftir að hann lést, og haldföst vitneskja um æviferil hans er skorin við nögl. Í leikritum Shakespeares eru svo fáar áþreifanlegar vísanir til ritunartímans, að við hljótum að álykta að maðurinn hafi tekið meðvitaða ákvörðun um að binda verkin ekki samtíma sínum með neinu móti. Auk þess er ýmislegt sem bendir til þess að hann hafi vísvitandi þurrkað út allan vitnisburð um æviatriði sín, eins rækilega og hann gat, til þess að tryggja að sagnfræðingar komandi kynslóða hefðu ekki erindi sem erfiði þegar þeir færu að hnýsast fyrir um líf hans. Í svona óvissuástandi er vitanlega mikið rými fyrir getgátur og sögusagnir, krassandi samsæriskenningar skjóta gjarnan upp kollinum þegar heimildirnar skortir, en meintur menntunarskortur skáldsins eru sá klettur sem þessar vangaveltur voru byggðar á í upphafi. Leikrit Shakespeares eru að miklu leyti unnin upp úr eldri heimildum, annálum, konungasögum, sagnasöfnum frá Ítalíu og Frakklandi, verkum fornaldarhöfunda og ýmsum öðrum ritum. Það liggur í augum uppi að sá sem samdi þessi verk var gríðarlega vel lesinn – og læs á fleiri tungumál en sitt eigið. Í erfðaskrá Williams Shakespeares, kaupsýslumannsins frá Stratford, er hins vegar ekkert minnst á bækur eða handrit; fljótt á litið virðist þessi maður ekki hafa skilið eftir sig svo mikið sem eitt póstkort af rituðu máli, hvað þá myndarlegt safn skáldverka og fræðibóka. Fyrir vikið hafa aðrir verið tilnefndir sem líklegri kandídatar, og í þeim hópi hefur heimspekingurinn Francis Bacon lengi verið fremstur meðal jafningja.  Á seinni árum hafa fleiri verið taldir koma til greina, ekki síst Edward de Vere, jarl af Oxford, en hann og Bacon fá hvor sinn kaflann í bók James Shapiro. Þeir eru að mörgu leyti dæmigerðir fulltrúar í þessu samhengi, og útnefning þeirra er líka lýsandi fyrir ýmsa aðra sem hafa þótt koma til greina. Jafnvel Cristopher Marlowe hefur verið nefndur, þótt hann hafi dáið árið 1593; getgátur um að dauði hans hafi verið settur á svið eru fylgifiskur hugmyndarinnar um að hann hafi skrifað verk Shakespeares, auk þeirra verka sem komu út í hans nafni.

Ein helsta forsendan fyrir deilunum um það hvort Shakespeare skrifaði verk sín sjálfur, eða einhver annar, er sú mikla dýrkun sem hefur fylgt honum frá því á átjándu öld. Aðdáunin á Shakespeare var fyrst um sinn bundin leikritunum, en ekki manninum sem samdi þau; á þessu verður breyting í lok átjándu aldar, um það leyti sem rómantískar hugmyndir um skáldin sem sjáendur og snillinga eru að festast í sessi. Í enskri tungu er reyndar til sérstakt orð um þetta mál, bardolatry, sem er notað um goðgervingu svansins frá Avon. Edmond Malone, maðurinn sem afhjúpaði falsanir William Henry Ireland, gaf heildarverk Shakespeares út árið 1790, og sú útgáfa markaði tímamót, því þar eru verkin ekki flokkuð eftir bókmenntagreinum, heldur eru sonnetturnar látnar standa innan um leikritin. Öll verkin voru þannig tala geyma vott þess mikla anda sem skáldjöfurinn Shakespeare bjó yfir. Með útgáfu Malones komst það í tísku að reyna að sjá manninn í verkunum, líta á þau sem sjálfsævisögulegan vitnisburð, og reyna þannig að bæta upp  skortinn á heimildum um lífshlaup skáldsins. Að mati James Shapiro var þetta þó varhugaverð leið, og telur að Malone hafi gerst sekur um rækilega tímaskekkju í nálgun sinni við efnið, hann hafi í raun valið að gera Shakespeare að upplýsingarmanni, lærðum og framfarasinnuðum höfundi sem kepptist við að betrumbæta verk eldri og ófullkomnari höfunda. Um miðja nítjándu öld var þetta svo orðin ríkjandi skoðun; allir helstu bókmenntafræðingar Vesturlanda á þeim tíma gengu gagnrýnislaust inn í orðræðuna sem Malone bjó til og lögðu sig alla fram við að reikna út þá staði í leikritunum þar sem persónuleiki skáldsins skín í gegn. Bókin Contested Will eftir James Shapiro er hreinn skemmtilestur, því efnið er sannarlega spennandi, en segja má að undirskipað viðfangsefni bókarinnar sé að sýna fram á að Shakespeare sé ekki „samtímamaður“ okkar, ekki eins algildur og stundum er haldið fram, heldur barn síns tíma. Umræðan um hann er oft anakrónísk, margir hafa tilhneigingu til að lesa samtímann inn í sautjándu öldina, og í nafni almennrar skynsemi er mikil þörf á að úthýsa öllum slíkum rökvillum. Contested Will er kraftmikið innlegg í umræðuna um arfleifð enska höfuðskáldsins, og tilvalin lesning í framhaldi af Shakespeare-sýningunum sem hafa staðið til boða í íslenskum leikhúsum upp á síðkastið.

(Víðsjá, 10. mars 2011)