Sigríður Pétursdóttir: Geislaþræðir

Hjalti Ægisson, apríl 14, 2011

Klisjan um yfirvofandi dauða bókarinnar varð til löngu á undan internetinu. Hugmyndina bar á góma hérlendis í tengslum við samdrátt í bóksölu snemma á níunda áratugnum, og sennilega miklu fyrr í tengslum við eitthvað allt annað. Á seinni árum höfum við svo mátt venjast því að hugmyndinni sé slengt fram í hálfkæringi til að lýsa gamaldags eða úreltum viðhorfum; þetta er oft sett fram í dylgjustíl, sagt að „margir telji“ að dauði bókarinnar sé á næsta leiti, þetta sé „mál manna“ eða eitthvað í svipuðum dúr. Á eftir fylgir svo sú niðurstaða að þetta sé augljóslega rangt, bækur hafi aldrei verið vinsælli en núna og allar bölsýnisspár séu óþarfar. Við þetta má svo bæta einu sem vill stundum gleymast, en það er sú staðreynd að það er ekki eingöngu miðillinn sjálfur sem hefur staðið óhaggaður þrátt fyrir hið nýja og rafræna textasamfélag, heldur hafa hefðbundin bókmenntaform tekið furðu litlum breytingum eftir tilkomu internetsins. Þetta á sér sennilega þá skýringu helsta að internetið hefur sín eigin form sem eiga sína sjálfstæðu tilvist og eru ekki annað en viðbót við eldri form á borð við skáldsögur, leikrit eða ljóð. Hefðbundnar, útgefnar skáldsögur hafa ekki tekið neinum grundvallarbreytingum með internetinu, þótt stundum sé reynt að miðla netrænum raunveruleika í bókarformi.

Bókin Geislaþræðir eftir Sigríði Pétursdóttur er safn sagna sem fjalla um samskipti fólks á internetinu, nánar tiltekið í gegnum tölvupóst. Lesandinn fær að gægjast í póstsamskipti persónanna og þannig tekst Sigríði að skapa töluverða nánd við hugarheim fólksins sem hér er til umfjöllunar. Þetta er kunnuglegt trix úr smiðju átjándu aldar höfunda á borð við Rousseau og Samuel Richardson, enda bréfaskáldsagan mjög rótgróið form. Það felst ákveðið raunsæi í því að nota sendibréfið sem grundvöll játninga og vettvang til að fjalla um leyndarmál sem eiga ekki erindi út í hið opinbera líf. Í fljótu bragði er ekki að sjá að hin rafræna vídd breyti nokkru hér um – í Geislaþráðum eru sagðar sögur um leyndarmál, unglingsstúlkan Hulda skrifast á við aldraða konu í Ástralíu og játar fyrir henni að hún sé ólétt, þótt hún sé ekki enn búin að segja foreldrum sínum frá því. Smiðurinn Halldór, sem er nýbúinn að missa konuna sína, fær póst frá Berglindi, sem tilkynnir honum að hún viti nokkuð sem hann ekki veit um hina nýlátnu eiginkonu. Aðdráttarafl þessara sagna byggir á vissri gægjuþörf, við verðum vitni að einhverju sem okkur er ekki ætlað að vita.

Sögurnar eru fastar í forminu, aðalpersónurnar eru nær alltaf tvær í hverri sögu, þótt vitanlega séu fleiri nefndir án þess að fá orðið í póstinum. Listræna blekkingin í frásögninni felst meðal annars í því að hér eru það oftar en ekki manneskjur af tveimur þjóðernum sem skrifast á; það má því ímynda sér að margir af póstunum séu ritaðir á ensku á hinu raunverulega sögusviði og þeir birtist okkur því í þessari bók sem þýðingar. Þetta er auðvitað algjört aukaatriði, en tengist einum helsta veikleika verksins, sem er einsleitni í stílnum; manneskjurnar sem hér hafa orðið líkjast hver annarri og persónusköpunin fer ekki fram í málnotkun nema að mjög takmörkuðu leyti. Þær fáu tilraunir sem þó eru gerðar eru dálítið ómarkvissar – gelgjulegt málfar unglingsstúlkunnar í fyrstu sögunni virkar til að mynda ekki beint sannfærandi. Fyrir vikið þurfa þessar sögur að treysta alfarið á fléttuna, óvæntar uppljóstranir og vangaveltur sögupersónanna um lífið og tilveruna. Þetta er í flestum tilvikum leyst átakalaust af hendi; Sigríður setur markið svo sem ekki hátt en slær heldur ekki margar feilnótur fyrir vikið. Sögurnar í Geislaþráðum eru sjálfstæðar og ótengdar smásögur, sem tengjast að vissu leyti á fleiri vegu en með póstforminu, hér eru stöku þematískar tengingar þegar vel er að gáð, en að öðru leyti er textinn mestmegnis á yfirborðinu. Þetta eru glefsur úr hversdagslífi, gægjur inn á hið persónulega og sálræna svið sem dylst undir niðri.

Geislaþræðir er safn sagna sem eru læsilegar og ganga að flestu leyti upp miðað við þær forsendur sem höfundurinn gefur sér, en samt er eins og eitthvað vanti. Smásagnaformið hefur upp á margt að bjóða sem lengri sögur geta ekki leyft sér. Lesandinn hefur allajafna meiri yfirsýn við lestur smásagna, hann les textann venjulega með færri hléum, stundum í einni striklotu. Þannig geta smásögur haft beinni áhrif en langar skáldsögur, þær geta löðrungað lesandann með sterkri hugmynd, litríkri persónu eða áhrifamikilli lýsingu á andrúmslofti. Þetta er sá skóli smásögunnar sem er stundum kenndur við Edgar Allan Poe, en að hans mati var mikilvægt að smásögur væru ekki langar, heildaráhrifin skiptu miklu máli og höfundurinn átti að stefna að því að hreyfa við lesandanum án þess að þreyta hann með of löngu máli. Þetta er auðvitað ekki eina mögulega formgerð smásögunnar, smásögur geta líka verið ljóðrænar og þar með tíðindalitlar í frásagnarfræðilegum skilningi. Í slíkum tilvikum hlýtur lesandinn þó að gera kröfu um að stíll og málnotkun séu það sem gerir sögurnar eftirsóknarverðar til lestrar, og þar má segja að sögunum í Geislaþráðum fatist flugið. Sem úttekt á netvæddum veruleika og lýsing á þeim breyttu hefðum sem ríkja í mannlegum samskiptum á heimi tölvupóstsins eru engin ný tíðindi fólgin í þessum sögum. En bókmenntir geta vitaskuld verið einhvers virði þótt þær beri engin ný tíðindi, og það sem gerir bókina Geislaþræði þess virði að lesa er sú notalega og mannlega áhersla sem hér er ríkjandi í persónulýsingum. Sigríður Pétursdóttir segir hér ljúfar sögur um vonina sem kvíða hrindir þótt lífsleiðin sé stundum þyrnum stráð. Bókin Geislaþræðir er áminning um sáluhjálpina sem getur falist í samskiptum fólks, kunnugra jafnt sem ókunnugra, og að því leyti má segja að til nokkurs sé unnið með lestrinum.

(Víðsjá, 8. desember 2010)