Baldur Óskarsson: Langt frá öðrum grjótum

Hjalti Ægisson, apríl 15, 2011

Ljóðskáldið Baldur Óskarsson hefur lengi haft það orð á sér að hann yrki torskilin kvæði, enda er Baldur sjaldséður í lífsstílsblöðum og kokteilboðum. Ljóðin hans komast hvorki fyrir á mjólkurfernum né í úrvalskverum fyrir grunnskóla. Í bókum hans ægir öllu saman; sú nýjasta, Langt frá öðrum grjótum, er um tvöhundruð síður að lengd. Þar skiptast á knöpp smákvæði og langir ljóðabálkar, smælkið stendur saman við dramatíkina, goðsagnir innan um hversdagsleika, þýðingar í bland við frumort. Við fyrsta lestur er hætt við því að margir reki upp stór augu, orðin hans Baldurs Óskassonar slettast upp um alla veggi, stundum fáguð, stundum klossuð og heildin er sjaldnast áferðarfalleg. En þó orð hans lýsi æði, þá er skipulag í þeim samt, og reyndar er slíkt samhengi í öllu höfundarverki Baldurs að furðu sætir, enda ferillinn langur og gjöfull; fyrsta bók Baldurs, Svefneyjar, kom út fyrir fjörtíu og fimm árum. Síðan þá hafa bækurnar komið með nokkurra ára millibili, sé sú nýjasta talin með eru þær fjórtán alls. Á síðustu árum hefur oft borið á því að vísað sé til eldri bóka með mottói í upphafi ljóða, og svo er einnig í þeirri nýjustu. Baldur kemur okkur lesendum á sporið við lesturinn, hann vísar okkur á þræðina sem liggja í gegnum bækurnar, leggur upp færin; þótt ljóðin séu torskilin er okkur þannig veitt líkn með þraut.

Ljóð Baldurs Óskarssonar standa einhvern veginn utan við samtímann, en þó má finna ýmsa snertifleti við dægurmálin með góðum vilja; í nýjastu bókinni er meira að segja ljóð sem heitir „Júróvisjón“. Samtímaljóðin hans Baldurs einkennast þó ekki af skilyrðislausri vandlætingu, ef einhver var að velta því fyrir sér; sýn hans er þvert á móti einkennilega tvíræð, hér má finna lúmska ádeilu sem er þó stundum blandin einhverri aðdáun innst inni. Á sjöunda áratugnum orti Baldur um stríðið í Víetnam, árið 2010 yrkir hann um ESB, en flýtum okkur hægt; það er nefnilega ekki hlaupið að því að tengja Evrópusambandsljóð Baldurs við þann málstað sem okkur er hjartfólgnastur, hvort sem við erum með eða á móti. Ljóðheimur hans er flóknari en svo, og lesturinn krefst þess að við beitum ímyndunaraflinu. Hver er það til dæmis sem er að væflast í kringum leiðið hans Gríms Thomsens á Bessastöðum á meðan gestir sitja í boði fyrir innan? Og hverjir eru gestirnir? Ekkert er einfalt í þessu dæmi, kannski er heillavænlegast að fletta til baka í fyrri bækur ef við viljum verða einhvers vísari. Ljóðaflokkurinn „Í landnámi Jólgeirs“ spannar til að mynda þrjár bækur þegar hér er komið sögu, allt frá Rauðalæk til Steinslækjar, þótt vitundarmiðjan sé einhvers staðar, sennilega í sveit bernskunnar. Bernskuminningarnar eru eins konar kjölfesta í ljóðagerð Baldurs, hann bregður oft upp svipmyndum úr æsku og hefur löngum haft tilhneigingu til að myndskreyta bókarkápur sínar með teikningum eftir börn.  Langt frá öðrum grjótum skartar reyndar æskuverki eftir Baldur sjálfan, módernískri grafíkmynd frá 1954. En allt um það, æskan speglast í mörgum þessara ljóða, spegúlantar og matmæður með augum barnsins, stærðfræðipróf í borg, seinni heimsstyrjöldin með augum fólks í íslenskri sveit árið 1940: „Þeir hætta víst ekki / fyrr en þeir drepa einhvern / sagði gömul kona á Barðaströnd“. Stundum fer ekki á milli mála að sjónarhornið er þess sem reynsluna hefur og þekkir afdrif fólksins sem kemur við sögu á seinni árum. Þótt beinn samanburður við nútímann sé hvergi sjáanlegur á yfirborðinu þarf stundum ekki að seilast langt til þess að koma honum á laggirnar, til dæmis í ljóðinu 1947, þar sem ort er um Heklugos: „Reykelsi á sjónbaug – öskuvorið / ekki raskaði það ró okkar / Ekkert raskar ró okkar“. Það er eins og liggi í orðunum að nú hafi þetta breyst, öskuvorið 2010 raskaði nefnilega ró allmargra, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Sumt breytist þó ekki, því Heklugosið 1947 var ekki síður vinsælt hjá ferðamönnum en gosið í Eyjafjallajökli löngu síðar: „Eftir þjóðveginum / lá straumurinn / til fjallsins“.

Baldur Óskarsson

Líkt og fyrr greinir skiptist á stórt og smátt í þessari bók. Ofurhversdagsleg atvik verða skáldinu stundum að yrkisefni; eldspýturnar klárast og upp spretta hugrenningar um varanleika, pappírsgatarinn dettur í sundur og stjörnumerki myndast á gólfinu. Annars staðar stíga guðir fram á sviðið, goðmagnið Meskalínus vandar um fyrir skáldinu, hetjan Bellerófón rekur raunir sínar og veiðimaðurinn Aktaeon boðar eitthvað ógnvænlegt, eins og í gömlu kvæði eftir Ezra Pound, sem skýtur oft upp kollinum í bókum Baldurs. Það vekur líka sérstaka athygli hversu ríkjandi hin kvenlega vídd er í þessari bók, hér birtast konur á öllum aldri, litlar stúlkur sem „dorma í djúpum brunnum“ og barmmiklar, spánskar stórkonur, hin ógæfusama Sylvía og forsjála skrifstofukonan sem „hafði þann sið að leggja inná gjaldeyrisreikning“. „Konan er mjúklát heiði“, segir í einu ljóðinu, sem eru lýsandi orð fyrir verkið í heild. Maður og staður renna saman og hvorugt getur án hins verið.

Ef nefna ætti grundvallarstef í þessari bók væri hægast að tilnefna lýsingar á náttúru, umhverfi og vistarverum. „Staðbundnar tilfinningar endast lengi,“ eins og Baldur fullyrðir um kvæðagerð skáldbróður síns, Jóns úr Vör, og sú staðhæfing gæti hæglega staðið sem efnislýsing yfir ljóðum hans sjálfs. Langt frá öðrum grjótum er nefnilega full af staðarljóðum, hér er ort um fjallið Mjöðm, sem er baðað grískri birtu, búskap í Hólunum og Árnessýslu, Egyptaland til forna og Hótel Atlantis, þann draumkennda stað. Umhverfið í ljóðum Baldurs Óskarssonar er eins og ljóðin sjálf, órætt og misleitt, hrikalegir klettadrangar í bland við lygnar sandfjörur, raunveruleiki í bland við fantasíu. Spánn er í alveg sérstöku hlutverki í þessari bók, einn áhrifamesti hluti hennar er tileinkaður Barcelona, borginni sem gamlir munkar sögðu að djöfullinn hefði lofað Kristi, ef ... Stundum er staðurinn vettvangur sjónarspils, og í þessari bók eru að minnsta kosti eitt leikrit, dulbúið sem ljóð. Oftast er landslagið þó bundið minningum og fortíð sem kviknar og verður ljóslifandi.

Langt frá öðrum grjótum er enn einn bitinn í því flennistóra púsluspili sem er kvæðasafn Baldurs Óskarssonar. Það má ljóst vera að haldgóður skilningur á þessum ljóðum verður ekki fenginn með einum lestri, og þegar upp er staðið má jafnvel ímynda sér að sú leit gæti hæglega endað úti í móa. Þetta eru ljóð sem þarf að skynja, fremur en skilja: „ljóð aldrei skilin, skynjuð þó“, eins og stendur á einum stað. Áhrif góðra ljóða felast oft í öðru en röklegu samhengi, ljóðið er upplifun eða söngur. Í Langt frá öðrum grjótum bætast nýjar raddir í kórinn, ljóðin eru viðbót við hina miklu hljómkviðu Baldurs Óskarssonar sem er stundum hrjúf, stundum ljúf, en aldrei flatneskjuleg.

(Víðsjá, 31. mars 2011)