Gyrðir Elíasson: Tunglið braust inn í húsið

Hjalti Ægisson, apríl 15, 2011

Ljóðaþýðingar eru vandasamt verk. Það er nógu erfitt að flytja merkingu milli tungumála þótt ekki bætist við fegurð ljóðlínunnar, leikandi hrynjandi eða djúp tilfinning. Þess vegna sætir það alltaf tíðindum þegar velheppnaðar ljóðaþýðingar koma út á bók, slíkir viðburðir eru afrakstur frjórra átaka og gefa eiginlega til kynna að tungumálið eigi sér enn þá viðreisnar von. Það tungumál sem getur miðlað hugsunum og kenndum frá fjarlægum löndum, jafnvel langt aftur úr öldum, er ekki með öllu gagnslaust. Ljóðaþýðendur mega því kallast eins konar útverðir tungumálsins, ræktendur orðsins í sinni frumlægustu mynd, og athugið að hér er engin kaldhæðni á ferðinni. Gildi ljóðaþýðinga er meira en fólk gerir sér almennt grein fyrir, þær eru sönnun þess að umheimurinn eigi enn þá erindi við okkur; sú ljóðaþýðing sem hrærir streng í brjósti lesandans er vitnisburður um að innra með okkur sé kjarni sem er eins og flaga í risastóru mósaíkverki. Það er eilíft undrunarefni hve hjörtum mannanna svipar saman, hvar í flokki sem þeir standa, hvort sem þeir búa í Kína eða Grafarvoginum. Ljóðið er einlægast allra tjáningarforma, og þegar það þjónar hlutverki sínu sem tengslanet er alveg ábyggilegt að sjálf Fésbókin bliknar í samanburði.

Gyrðir Elíasson hefur birt ljóðaþýðingar sínar í tveimur bókum á undanförnum árum, og sú þriðja, Tunglið braust inn í húsið, kom út nú í vikunni. Það er óhætt að segja að nýja bókin gefi hinum tveimur fyrri ekkert eftir, nema síður sé. Þetta er þrjúhundruð síðna verk með þýddum ljóðum eftir þrjátíu og sex skáld. Líkt og í fyrri ljóðaþýðingasöfnum Gyrðis er afar sterkur heildarsvipur á þessari bók, viss leiðarstef ganga í gegnum verkið allt og eftir því sem lesið er oftar má telja víst að sífellt fleiri snertifletir komi í ljós á milli ljóðanna. Þetta geta verið jafnáþreifanlegir hlutir og laufblöð – í áttahundruð ára gömlu ljóði eftir kínverska skáldið Jang Wan Li feykir vindurinn skæðadrífu af ilmandi krónublöðum; í nokkurra ára gömlu ljóði eftir bandarísku skáldkonuna Jane Hirshfield fljóta fáein lauf á næturtjörn og vekja upp gamla sorg. Í ljóðinu „Dauði ljóðlistarinnar“ er brugðið upp samræðu þar sem deilt er um merkingu laufblaðanna:

Föllnu laufblöðin þennan morgun

eru full af galsa.

Dansa og fara í höfrungahlaup

og elta hvert annað niður götuna.

Nei, það er ekki rétt.

Laufblöð hafa enga skapgerð,

þau eru ófær um að dansa eða

stunda skipulagða leiki, það

sem þú sérð er bara dautt

efni.

Hér eru líka mörg ljóð þar sem ort er um ljóðlistina sjálfa, ýmist af vantrú eða bjartsýni. „Fiskar orðanna svamla letilega / framhjá mér,“ yrkir tékkóslavneska skáldið Antonín Bartusek. Ljóðalestur er líka einn af þráðunum í þessari bók; Jane Hirshfield yrkir um það að lesa kínversk ljóð fyrir dögun, sem kemur vel heim og saman við fyrstu ljóðaþýðingarnar í bók Gyrðis, en þar er um að ræða ljóð frá Kína og Japan. Gyrðir Elíasson er ljóðskáld en hann er líka lesandi, höfundarstaða hans er því önnur í þessari bók en í þeim bókum sem hafa að geyma frumort ljóð. Að vissu leyti má segja að bókin Tunglið braust inn í húsið sé eins konar persónuleg bókmenntasaga, rituð af Gyrði Elíassyni. Hér er þó ekki reynt að raða ljóðunum í virðingarröð eða skapa þá blekkingu að um sé að ræða heildarsafn af einhverju tagi, sneiðmynd eða antólógíu. Við fáum einfaldlega að slást með í för í ferðalag um einkavegi Gyrðis sjálfs, þær slóðir sem hann hefur troðið sem lesandi, og sannarlega má sjá líkindi við hans eigið höfundarverk. Inntak ljóðræns skáldskapar er ljóðskáldið sjálft, sagði þýski heimspekingurinn Hegel. Mörg af þeim viðfangsefnum sem við þekkjum úr ljóðum og sögum Gyrðis eru í brennidepli í þessu þýðingasafni. Myrka hliðin á mannssálinni er eitt þeirra, hér eru ófá ljóð um dimman veruleika geðsjúkdóma og þunglyndis, og söknuðurinn er jafnframt áberandi. Það er í þessum ljóðum sem verkið rís hæst, enda tekst Gyrði að fanga ólundina með hætti sem fáir leika eftir. Þannig miðlar hann sorginni í ljóðum bandarísku skáldanna Donald Hall og Jack Gilbert, sem báðir ortu mörg nístandi ljóð um látnar eiginkonur sínar. Sum ljóðin líkjast einna helst gátum, ég nefni „Leiðina“ eftir rúmenska skáldið Marin Sorescu, þar sem ort er um mann sem gengur eftir járnbrautarteinum; að baki hans nálgast lest á ógnarhraða, en lestin mun aldrei ná honum, eftir því sem  hann segir sjálfur;

Og jafnvel þó hún mundi

mylja mig undir sig

þá verður alltaf einhver

sem gengur á undan henni,

með höfuð fullt af hugsunum,

og hendur fyrir aftan bak.

Hér má ímynda sér að um sé að ræða ádeiluljóð, enda var Sorescu andófsmaður í listsköpun sinni. Aftast í bók Gyrðis eru sögð deili á skáldunum sem eiga ljóð í bókinni, og oft duga þær skýringar vel til að koma lesandanum á sporið við að túlka ljóðin. Þessar skýringar undirstrika enn fremur þá túlkun sem Gyrðir býður upp á með ljóðavalinu og svo þýðingunum sjálfum. Á einhvern hátt er Tunglið braust inn í húsið kennslubók í ljóðlist á síðari hluta tuttugustu aldar, og þeim rótum hennar sem liggja aftur í aldir, enda er hér líka að finna eldri ljóð. Með skýringunum aftast í bókinni er lestrinum stýrt að vissu leyti, persóna skáldsins er dregin fram, enda er ljóðlistin persónulegust allra lista.

Tunglið braust inn í húsið er gefin út í tilefni af fimmtugsafmæli Gyrðis Elíassonar, og um þessa útgáfu má vísa í ljóð kanadíska skáldsins Alden Nowlan, sem er að finna í bókinni: „Góðir hlutir hafa gerst“. Í því ljóði er ort um undrin í hversdagslífinu, það hvernig ljóðrænar kenndir eiga það til að springa út í hjörtum okkar þegar minnst varir svo að við verðum hálfdrukkin af augnablikinu. Þannig er hægt að upplifa bestu ljóðin í þessari bók; allir sem unna góðum ljóðum verða einfaldlega að lesa Tunglið braust inn í húsið, því þessi bók er viðburður. Hinir, sem telja sig ekki eiga neinar ljóðrænar taugar í sinni sál, ættu líka að lesa, því þetta þýðingasafn er prýðilegur upphafspunktur í ljóðalestri. Þessi bók er ekki upphaf á starfi Gyrðis Elíassonar sem ljóðaþýðanda, hann sýnir þvert á móti lærdóm og kunnáttu, og við skulum vona að á þessu starfi verði framhald. Ástríðan og áfergjan sem er grunnurinn að þýðingastarfi Gyrðis er eitt kraftmesta og mest hrífandi aflið í íslenskri ljóðagerð á okkar dögum.

(Víðsjá, 7. apríl 2011)