James Carroll: Jerusalem, Jerusalem

Hjalti Ægisson, apríl 15, 2011

Jerúsalem, Jerúsalem er titill nýútkominnar bókar eftir bandaríska rithöfundinn og kaþólikkann James Carroll. Nafn borgarinnar helgu er tvítekið í titlinum, sennilega til þess að undirstrika tvíbenda stöðu hennar í hugarheimi Vesturlanda; Jerúsalem er ekki bara borg heldur líka hugmynd sem hefur lifað og þróast í gegnum allar mestu hræringar á sögulegum tíma. Engin borg líkist Jerúsalem, þar gekk Jesús Kristur um göturnar og þar var hann krossfestur; í fornöld var Jerúsalem skurðpunktur mestu stórvelda heimsins, þar háðu Babýlóníumenn og Assýríumenn örlagarík stríð, sem og Egyptar, Grikkir, Makedóníumenn og Rómverjar. Átökin um Jerúsalem eru einn af rauðu þráðunum í vestrænni siðmenningu. Eyðing borgarinnar árið 70 eftir Krist markaði tímamót í mannkynssögunni og lagði grunninn að nýjum sjálfsskilningi, bæði hjá kristnum mönnum og gyðingum. Þegar musterið í Jerúsalem hafði verið jafnað við jörðu þurfti að skilgreina inntak trúarbragðanna upp á nýtt; fyrir gyðingunum lifði musterið áfram sem minning, fyrir kristnu mönnunum markaði atburðurinn upphafið á hugmyndinni um Krist sem hið nýja musteri, sameinandi afl sem var óháð landsvæðum og kynþáttum. Á miðöldum var eyðing Jerúsalems oft túlkuð sem hefnd fyrir krossfestinguna, Rómaveldi hafi þannig eingöngu verið að framfylgja réttlætinu með þessari óhugnanlegu innrás sem kostaði tugir þúsunda lífið. Saga Jerúsalemsborgar frá upphafi og til okkar daga er saga ofbeldis, sagan um það hvernig mannkynið freistast til að grípa til ofbeldis og koma í veg fyrir að það nái að brjótast út.

James Carroll kom til Jerúsalem í fyrsta sinn sumarið 1973. Hann stóð þá á þrítugu og hafði starfað sem kaþólskur prestur við Háskólann í Boston í fjögur ár. Ferðin hafði vitanlega trúarlegt inntak, Carroll vildi, eins og svo margir bæði fyrr og síðar, fá að upplifa staðinn þar sem frelsarinn lifði og dó, feta í fótspor Krists, anda að sér sama loftinu og hann. Það var einhver einkennilegur samhljómur á milli borgarlífsins og sálarlífs hins unga prests; hvort tveggja var einskær glundroði, enda þótti honum ekki úr vegi að túlka borgarmyndina sem tákn jarðlífsins. Guð kemur til mannanna þegar líf þeirra er óreiðukennt og flókið, og einmitt þannig er Jerúsalem. James Carroll var sonur eins áhrifamesta hershöfðingjans í bandaríska lofthernum, en einlægur friðarsinni engu að síður. Hann hafði tekið virkan þátt í mótmælum gegn stríðinu í Víetnam og starfaði innan vébanda kaþólskrar vinstrihreyfingar sem settu friðarbaráttu á oddinn.

James Carroll

Ferðin til Jerúsalem markaði tímamót í lífi James Carroll, hugljómun er kannski rétta orðið, því það var þarna, í þessari helgustu borg kristinna manna, gyðinga og múslima, sem hann ákvað að láta af preststarfinu og gerast rithöfundur. Á áttunda og níunda áratugnum skrifaði hann fyrst og fremst skáldsögur, en útgefnar sögur hans fylla tuginn. Um og eftir miðjan tíunda áratuginn sneri James Carroll sér hins vegar að ritun fræðibóka, þeirri tegund bókmennta sem hafa haldið nafni hans á lofti. Tengsl trúar og ofbeldis eru höfuðviðfangsefni hans og hann hefur oftar en einu sinni komið illa við kauninn á kaþólsku kirkjunni, þótt hann hafi alla tíð litið á sig sem kaþólikka. Árið 2009 gagnrýndi hann Benedikt sextánda páfa harkalega fyrir blinda bókstafstrú og mannfjandsamlegar áherslur sem eru í engu samræmi við nútímaleg mannréttindi, að hans mati. Tengsl kristinna manna og gyðinga hafa líka verið James Carroll sérstakt hugðarefni í áranna rás, þekktasta rit hans er án vafa bókin Sverð Konstantínusar, sem út kom árið 2001. Þar ritar hann um gyðingahatur og helsta málsvara þess á alþjóðavettvangi í sögu mannkynsins, nánar tiltekið kaþólsku kirkjuna. Að mati Carrolls spratt helförin ekki upp úr engu, heldur var hugmyndafræði kaþólskunnar sá jarðvegur sem Adolf Hitler og fylgismenn hans erjuðu af kappi – án kristinnar trúar og þeirra gilda sem í henni felast hefði helförin aldrei verið möguleg.

Í nýjustu bók James Carroll er fjallað um Jerúsalem, borgina sem Rómverjar lögðu í eyði um það leyti sem guðspjöllin voru skrifuð. Carroll notar hugtakið Jerúsalemsveiki í þessu riti, Jerusalem Fever. Með því  á hann við þá tilhneigingu, sem hefur loðað við borgina, svo langt aftur sem ritaðar heimildir greina, að tengja þessa borg við hvers konar heimsendafantasíur. Í Opinberunarbók Jóhannesar, lokakafla Nýja testamentisins, er himnaríki kallað himnesk Jerúsalem, og öldum saman hafa lýsingar á þessari borg verið eitt helsta viðmiðið í ritum þeirra sem hafa reynt að ímynda sér handanlífið. Jerúsalemveikin hefur alltaf blundað í vestrænni menningu, að mati James Carroll. Kristnir menn og múslimar hafa, ekkert síður en gyðingar, spunnið fjölda sagna um þessa borg, hún er miðlæg í ímyndunarafli og hugmyndakerfi þessara trúarbragða, því þetta er staðurinn sem Guð snerti. Sú hugmynd hefur haft óumræðilegar afleiðingar í mannkynssögunni.

Í landfræðilegum skilningi er Jerúsalem líka mjög sérstök borg, um hana rennur engin á, hún liggur ekki að sjó, heldur er hún byggð á hæðum. James Carroll rekur sögu þessarar hrjóstrugu borgar frá bronsöld til nútímans í bókinni Jerúsalem, Jerúsalem, og það kemur á óvart að þeir eiginleikar sem við eignum henni með hliðsjón af lýsingum Biblíunnar, ná jafnvel lengra aftur en þeir ættfeður Ísraels, sem fjallað er um í fyrstu Mósebók. Fornleifarannsóknir benda til þess að löngu fyrir þann tíma sem lýst er í Biblíunni kunni borgin að hafa verið vettvangur trúarfórna, þar sem mönnum var fórnað á altari til dýrðar guðlegum máttarvöldum. Frá örófi alda hafa hæðirnar í Jerúsalem verið vettvangur táknrænna athafna þar sem trú og ofbeldi blandast á ísmeygilegan hátt. Trúarbrögð gyðinga hefjast á því þegar Guð hafnar ofbeldinu, eins og sagan um fórn Abrahams ber með sér. James Carroll hefur í verkum sínum fjallað um nauðsyn þess að trúað fólk í nútímanum, hvort sem það eru gyðingar, kristnir menn eða múslimar, horfist í augu við þann trúarlega bakgrunn sem liggur ofbeldinu til grundvallar. Möguleikinn á friði í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs getur ekki orðið raunverulegur öðruvísi en með því að gera upp þá ofbeldisfullu sögu sem birtist okkur í sögu Jerúsalemborgar. Á síðustu sextíu árum hafa tvær kynslóðir vaxið úr grasi á Vesturlöndum, fólk sem hefur notið meiri friðar en áður hefur þekkst í mannkynssögunni. Þessi friður sprettur að mati Carrolls af því að stofnanabundinni trú hefur verið hafnað, hún er veikari nú en nokkru sinni áður í Evrópu, og þar með skapast grundvöllur fyrir raunverulegum mannréttindum, afnámi dauðarefsinga og endalokum meiriháttar styrjaldarátaka. James Carroll talar þó ekki fyrir trúleysi í ritum sínum, heldur trúarumbótum, hann krefst þess að trúarstofnanir geri upp sína ofbeldisfullu sögu og bók hans um Jerúsalem er hugsuð sem innlegg í það uppgjör.

(Víðsjá, 17. mars 2011)