Keith Richards: Life

Hjalti Ægisson, apríl 15, 2011

„Minningin er sú eina Paradís sem ekki er unnt að reka okkur út úr,“ sagði þýska skáldið Jean Paul einhvern tímann á nítjándu öld. Öll eigum við minningar, og þeir sem finna sig knúna til að deila minningum sínum með öðrum í rituðu máli standa jafnan frammi fyrir því verkefni að smíða rökrétta heild úr minningunum, læsilega frásögn þar sem orsakasamhengi er grundvallarregla og lífshlaupið er skoðað sem línulegt ferli frá æsku til fullorðinsára. Þegar fólk sem hefur öðlast goðsagnakenndan status tekur upp á því að rita sjálfsævisögu sína koma ýmis önnur vandamál til skjalanna, ekki síst sá mikli barningur sem felst í því að greina á milli opinberu ímyndarinnar og hins raunverulega sjálfs, kjarnans sem er falinn einhvers staðar á bak við glamúrinn, kjaftasögurnar og markaðssetninguna. Í nýlegri ævisögu Keith Richards er tekist á við þetta vandamál berum orðum. „Ég get ekki metið að hve miklu leyti ég lék hlutverkið sem var skrifað fyrir mig. Ég er að tala um hauskúpuhringinn, brotnu tönnina, augnfarðann. Skiptist þetta til helminga?“ spyr þessi gamli rokkhundur á einum stað, þar sem hann veltir vöngum yfir því hvar rokkaraímyndin endar og hann sjálfur byrjar. „Ímyndin, eins og hún var, getur orðið eins og fangakúla um fótinn. Fólk heldur til dæmis enn að ég sé dópisti, en það eru liðin þrjátíu ár síðan ég hætti í neyslu.“

Þessar vangaveltur, og aðrar sambærilegar, eru meðal þess sem gera Life, ævisögu Keith Richards, vel þess virði að lesa. Alveg frá því að Rolling Stones voru stofnaðir þurftu Keith og félagar hans að gangast upp í hlutverkum sem voru að einhverju leyti byggð á þeirra raunverulega persónuleika, en að öðru leyti skrifuð út frá markaðsvænni formúlu. Stones voru óþægu strákarnir sem sungu um forboðnar ástir, greddu og siðferðilega vafasamar konur. Þeir klæddust ekki búningum eins og tíðkaðist svo gjarnan með rokkbönd í upphafi sjöunda áratugarins, ósamræmið í klæðaburðinum endurspeglaði uppreisnina sem tónlistin þeirra stóð fyrir. Keith Richards er ein voldugasta táknmynd uppreisnar í gjörvallri rokksögunni, og sú ímynd á sér djúpar rætur í honum sjálfum, eftir því sem dæma má af ævisögunni; alla ævi hefur hann barist gegn valdboði og talað máli einstaklingsfrelsis. Þegar Keith var skólastrákur í Dartford söng hann í drengjakór, en var gert að hætta í kórnum þegar hann fór í mútur. Út úr þeirri höfnun spratt uppreisnarseggurinn Keith Richards, sem átti eftir að beisla reiðina og kraftinn í listsköpun sinni seinna. Þannig er þetta afskaplega hefðbundin ævisaga, hér er grennslast fyrir um rætur persónuleikans í bernskunni. Fáir fá betri eftirmæli í þessari bók en Gus Dupree, afi Keiths sem kenndi honum fyrstu gítargripin, en tónlistarmaðurinn Keith Richards mótaðist fyrst og fremst sem boðberi, ákafur tónlistaráhugamaður sem vildi deila áhuga sínum með öðrum. Keith kynntist Mick Jagger vegna þess að báðir hlustuðu á sömu tónlistina, blús frá Chicago, og þegar þeir stofnuðu Rolling Stones var tilgangurinn ósköp einfaldlega að útbreiða fagnaðarerindið, spila blúslögin sem þeir dýrkuðu svo ákaflega. Það var ekki fyrr en seinna sem þeir fóru sjálfir að semja lög, og eingöngu vegna þess að umboðsmaðurinn þeirra sannfærði þá um að öðruvísi gæti bandið ekki lifað. Jagger og Richards voru að þessu leyti ólíkir Lennon og McCartney, sem höfðu lagasmíðarnar í blóðinu og voru búnir að frumsemja heilan haug af efni áður en Bítlarnir tóku til starfa.

Ævisaga Keith Richards er líka hefðbundin að því leyti að þetta er saga um rokkstjörnulíferni, frásögn um brjálæðislegar uppákomur, dóp, fyllerí, framhjáhald, lögbrot, rústuð hótelherbergi; allan hraðann og óreiðuna sem fylgir rokkinu. Það er fullt af krassandi sögum til um Rolling Stones, og hér eru þær sagðar af fumleysi og án nokkurrar tilgerðar. Helsti gallinn er hins vegar sá að flestar þessar sögur hafa ratað á prent áður, enda mikill korpus til af efni um feril þessarar langlífu rokkhljómsveitar. Þeir lesendur sem þekkja þann feril til hlítar græða lítið á fylleríssögunum í þessari bók, og þær taka óþarflega mikið pláss að mínu mati. Keith ritar opinskátt um dópneyslu sína, sem var, eins og kunnugt er, veruleg á áttunda áratugnum. Það er einhver tvöfeldni sem ríkir í þessum lýsingum, í aðra röndina er hér upphafin mynd á vímunni og öllum þeim úrvalsefnum sem Keith lét í sig þegar hann var sem dýpst sokkinn – við erum sannfærð um að þetta hafi verið kókaín, hass og heróín í hæsta gæðaflokki, dúndurstöff, upplifun sem var engu lík. Hins vegar eru þetta lýsingar á þeirri ömurlegu tilveru sem fylgir fíkninni; paranoju, sífelldri eftirvæntingu eftir næsta skammti og ótal harmleikjum. Í sögu Rolling Stones er löng slóð af fólki sem var ekki eins heppið og Keith Richards í þessari baráttu, fólki sem þurfti að lúta í lægra haldi fyrir fíkniefnadjöflinum. Ævisaga Keiths er eins og saga manns sem kemst lífs af úr stríði. Það er þó meiri fengur að þeim köflum sem kalla má tíðarandasögu, en Keith Richards hefur mjög skarpa sýn á það félagslega umhverfi sem rokkið sprettur upp úr og þróast í. Hér hefur hann trúlega notið góðs af samstarfinu við blaðamanninn James Fox, sem er skrifaður sem meðhöfundur verksins. Að einhverju leyti er texti þessarar bókar uppskrifaðar einræður Keiths, þar sem trúlega hefur þurft að fínpússa ýmsa kanta; í bland koma svo viðtöl við samferðamenn hans og glefsur úr dagbókum og bréfum. Formið er, þegar vel er að gáð, sundurlausara en virðist við fyrstu sýn, sem þarf auðvitað ekki að vera ókostur.

Sambandið við Mick Jagger er vitanlega kapítuli út af fyrir sig; sú umfjöllun hefur ratað í ófáar blaðafréttir í Bretlandi, enda skýtur Keith nokkrum föstum skotum að þessum nánasta samstarfsmanni sínum. Þeir kaflar eru dálítið þvingaðir, og maður fær einhvern veginn á tilfinninguna að þeir hafi fyrst og fremst markaðslega fúnksjón, hlutverk stríðninnar hjá prakkaranum Keith Richards er sennilega fyrst og fremst að selja bókina. Þessi ævisaga Keiths er vitanlega vara á markaði og hann leggur nafn sitt við verkið gegn greiðslu (upphæðin sjö milljón dollarar hefur verið nefnd í því samhengi). Keith skrifar að það sé ótalmargt við poppstjörnuhlutverkið sem hann hafi haft óþol á frá upphafi. Mick Jagger valdi aðra leið en hann út úr þeirri krísu. „Mick valdi smjaðrið, sem er næstum því eins og dópið, flótti frá veruleikanum. Ég valdið dópið,“ segir hann einhvers staðar. Þrátt fyrir allt ítrekar hann þó að Mick Jagger standi sér nær en flestir, enda er samband þeirra langlífara en nokkurt annað samband í lífi beggja. „Við erum ekki eins og Norður- og Suður-Kórea, frekar eins og Austur- og Vestur-Berlín.“

Helsti kosturinn við ævisögu Keith Richards er sú ástríðufulla umfjöllun um tónlist sem hér er að finna í nokkrum góðum sprettum. Keith talar af innlifun um tónlistina sem hann hlustaði á sem ungur maður, lögin sem urðu honum innblástur, og svo lögin sem hann samdi sjálfur, hvernig þau eru uppbyggð, hvernig hugmyndin að þeim kviknaði og hvernig hann og Mick Jagger unnu saman við lagasmíðina. Hinn gamalreyndi blúsmaður kemst á gríðarlegt flug í þessum lýsingum, sem eru prýðilegt stoðefni við lögin sjálf, listaverkin sem hafa haldið nafni hans á lofti. Keith Richards sýnir og sannar í þessum köflum að þótt hann sé löngu hættur að geta samið góð rokklög er hann ýmsum kostum gæddur sem listrýnir. Þess vegna er Life, ævisaga Keith Richards, vel þess virði að lesa.

(Víðsjá, 24. mars 2011)