Tvær nýjar Shakespeare-þýðingar

Hjalti Ægisson, apríl 15, 2011

Sú skoðun virðist útbreidd hjá leikhúsfólki hérlendis að Shakespeare-þýðingar Helga Hálfdanarsonar séu illbrúkanlegar á sviði; textinn sé of þunglamalegur, þar sé of sterk tilhneiging til þess að gera einfalda hluti flókna og þetta séu fyrst og fremst bókmenntaleg stórvirki í búningi Helga, verk til að lesa en ekki leika. Flutningur á leiksviði geri aðrar kröfur, og þess vegna er Shakespeare gjarnan þýddur upp á nýtt þegar stendur til að gæða hann lífi á fjölum íslenskra leikhúsa. Sverrir Hólmarsson þýddi Macbeth upp á nýtt á níunda áratugnum og skömmu eftir síðustu aldamót snaraði Hallgrímur Helgason Rómeó og Júlíu í nýjan búning. Báðar þýðingarnar voru gerðar sérstaklega fyrir leiksýningar, þar sem texti Helga þótti einfaldlega ekki duga. Stundum hefur m.a.s. verið brugðið á það ráð að velja eldri þýðingar fram yfir þýðingar Helga Hálfdanarsonar; þegar Lér konungur var settur upp í Borgarleikhúsinu árið 2000 var t.a.m. ákveðið að nota frekar 120 ára gamla þýðingu Steingríms Thorsteinssonar en þýðingu Helga. Í leiksýningunni Sumarævintýri, sem var sett upp vorið 2003, var lauslega byggt á Vetrarævintýri Shakespeares, en þýðing Indriða Einarssonar notuð, jafnvel þótt hún sé 65 árum eldri en þýðing Helga.

Þetta fálæti leikhúsanna við afkastamesta leikritsþýðanda íslenskrar bókmenntasögu kann að virðast undarlegt en segir þó sína sögu. Þótt þýðingar Helga Hálfdanarsonar séu þrekvirki eru þær samt hálfgagnslausar fyrir leikhús, ef marka má reynslu síðustu ára. Það er hins vegar afar sennilegt að áhrif þessara þýðinga séu víðtækari en liggur í augum uppi, þær eru stóra viðmiðið fyrir alla þá sem taka sér fyrir hendur að þýða Shakespeare á íslensku, og öruggt má telja að þær geri sitt gagn í nýju sköpunarstarfi. Tvær nýlega útgefnar Shakespeare-þýðingar sanna þetta að vissu leyti, þýðendurnir standa báðir á öxlum Helga Hálfdanarsonar og hafa bersýnilega nýtt sér ýmislegt úr verkum hans. Það er þó mikill fengur að báðum nýju þýðingunum og í raun tómt mál að tala um hvor sé betri, gamla þýðingin eða sú nýja. Þýðingar bókmenntaverka eru alltaf börn síns tíma; séu þær vel unnar hafa þær sinn sjarma sem heimild um hugarheim og samtíð þýðandans. Þannig er það t.d. stórmerkilegt að Oddur Gottskálksson skuli tala um „nykur“ í þýðingu sinni á Opinberunarbókinni, þar sem rætt er um flóðhest. Þetta dæmi er áþreifanleg sönnun þess að Íslendingar á 16. öld vissu almennt ekki hvaða dýr flóðhestur var, og orðið var þar af leiðandi þýtt með skírskotun til þess raunveruleika sem lesendasamfélagið skildi.

Þýðing Þórarins Eldjárns á Lé konungi er ákaflega lipur eins og búast mátti við; Þórarinn er ekki bara talandi skáld heldur líka þaulreyndur leikritsþýðandi, hann hefur tekist á við jafnólíka höfunda og Brecht, Ibsen, Slawomir Mrozek og Astrid Lindgren í þágu íslenskra leikhúsa. Samanborið við þýðingu Helga Hálfdanarsonar á Lé konungi er þýðing Þórarins bæði kunnugleg og nýstárleg. Stundum er setningabyggingin meira og minna óbreytt í heilu línunum hjá Þórarni, þótt hann skipti út einstökum orðum, setji „okkur“ í staðinn fyrir „oss“ og þurrki út fornlegasta braginn á texta Helga. Bastarðurinn Játmundur er kynntur til sögunnar þar sem hann hugsar upphátt um náttúrulegu hvatirnar sem búa að baki getnaði óskilgetinna barna, andspænis þreytunni og sljóleikanum sem „fer í heilar ættir uppskafninga“ eins og Helgi þýðir það; „go to th‘ creating a whole tribe of fops“. Þórarinn notar sömu uppbygginguna en skiptir út lokaorðinu: „en fer í heilar ættir ónytjunga“, sem er ekki eins nákvæm þýðing en hefur þó kunnuglegri hljóm. Þórarinn fær víða einstök orð að láni frá Helga, „hvítlifraður“ sem þýðing á „lily-livered“, „pestarkaun“ sem þýðing á „plague-sore“, svo dæmi séu tekin. Sums staðar verður þýðing Helga einfaldlega ekki toppuð, og Þórarinn gengst við því með því að nota sama orðalagið nær óbreytt: „Þessi kalda nótt gerir oss alla að fíflum og vitfirringum“, segir fíflið í þýðingu Helga; „This cold night will turn us all to fools and madmen“. Hjá Þórarni er þetta nánast samhljóða: „Þessi kalda nótt gerir okkur alla að fíflum og vitfirringum“. Þetta ber þó ekki að skilja svo að Þórarinn Eldjárn sé eingöngu að yrkja upp gamla þýðingu, því hér er margt öðruvísi. Oftar en ekki finnum við nýstárleg orð í þýðingu Þórarins, uppbót fyrir orð sem þykja líklega of gamaldags hjá Helga. Þetta er sérstaklega áberandi í orðum tveggja persóna, fíflsins og Játgeirs, nánar tiltekið í þeim köflum þar sem hann gerir sér upp vitfirringu og verður „Tommi greyið klikk“ – „Tumi skinnið“, eins og Helgi orðaði það. Leikandi orðfar Þórarins nýtur sín til fulls á þessum stöðum; þar sem Helgi notaði flámæli til framandgervingar beitir Þórarinn nútímalegu slangri. Helgi þýðir Dover sem „Dofri“, en Þórarinn kýs að halda örnefninu óbreyttu. Þar sem Helgi beitir upphöfnu máli hefur Þórarinn oft tilhneigingu til að normalísera. „What means your grace?“ spyr hertoginn af Kornvall þegar Lér hefur skipað Regan, dóttur sinni, að víkja frá sér. Helgi þýðir þetta með hátíðlegu sniði, líkt og frumtextinn gefur tilefni til: „Hvað hugsar yðar hátign?“, en hjá Þórarni verður þetta einfaldlega: „Hvað ertu‘ að meina?“. Skipunin „Prescibe not us our duty“ er upphafin og stuðluð hjá Helga: „Skjala þú fátt um skyldur“, en hjá Þórarni segir: „Þú kennir okkur ekkert“.

Þetta má heita aðalsmerki á þýðingu Þórarins. Víðast hvar léttir þetta textann og gerir hann meira leikandi, en fyrir vikið er nokkrum gullmolum skipt út fyrir hversdagslegra orðalag. „Gullöld vor er hnigin“ víkur fyrir „Blómaskeiði okkar er lokið“. Þórarinn notar líka orð eins og „plott“, „gredda“, „í fússi“, „slumma“, „dekurdúkka“ og m.a.s. „sjálfsali“, sem kemur eins og skrattinn úr sauðaleggnum í reiðilestri Kents yfir Ósvaldi. Samsett lýsingarorð eru líka lykilatriði í því hvernig Þórarinn nútímavæðir málsnið verksins; „meðfæddur“, „fyrrverandi“ og „hórgetinn“ eru allt dæmi um orð sem hann notar til að einfalda enska textann, koma merkingunni til skila með enn skilvirkari hætti en bein þýðing orðaraðar gæti áorkað.

Sölvi Björn Sigurðsson þýddi Ofviðrið fyrir nýlega sýningu Borgarleikhússins. Útgefna þýðingin hans Sölva hefur það fram yfir útgáfuna á þýðingu Þórarins að þar tjáir þýðandinn sig um eigið starf í eftirmála. Það er afar skemmtilegt að lesa hvernig Sölvi útskýrir aðferð sína og rekur áhrifin sem skiluðu sér inn í textann. Hann útskýrir m.a. hvernig hann beitir háttbrigðum í hrynjandinni annað slagið, til að mynda í skapofsaköstum Prosperós, fyrst og fremst til að brjóta textann upp og „minnka vægi ljóðsins í framsetningu leikarans“, eins og það er orðað. Ef marka má eftirmálann hefur Sölvi leitað fanga víða í þýðingavinnunni, rifrildi á Alþingi og línur úr ljóðabókum eftir hann sjálfan eru meðal þess sem hefur orðið honum að innblæstri. Hann nefnir Helga Hálfdanarson ekki sérstaklega sem áhrifavald, þótt það sé deginum ljósara að texti Sölva er að einhverju leyti byggður á þýðingu Helga frá 1957. Sem dæmi um þetta má nefna frægustu orð leikritsins: „We are such stuff as dreams are made on“. Helgi fór þá leið að nota myndmál úr ullarvinnu: „Vér erum þelið sem draumar spinnast úr“. Sölvi skiptir út orðinu „þel“ og setur „efni“ í staðinn: „Við erum efnið sem draumar spinnast úr“, sem er ekki eins hugmyndarík lausn en eðlilegra orðalag í eyrum nútímaleikhúsgesta. Miðað við þýðingu Helga er Sölvi trúrri samhenginu í orðanotkun Shakespeares á vissum stöðum, t.d. í atriðinu þar sem fylliraftarnir Stefanó og Trínkúló virða villimanninn Kalíban fyrir sér í fyrsta sinn. Í máli þeirra er orðið „monster“ notað síendurtekið, og Sölvi þýðir það síendurtekið sem „skrípi“, ólíkt Helga sem grípur til fjölbreytni í orðavali; „skoffín“, „umskiptingur“, „skepna“ og „lubbi“ eru meðal þeirra orðanna sem hann notar. Áhrifin af texta Sölva eru þannig líkari áhrifunum hjá Shakespeare sjálfum; fjölbreytnin hjá Helga færir texta hans fjær frumtextanum og dregur að vissu leyti úr geðshræringunni sem hin staglkennda orðanotkun gefur til kynna.

Margt mætti nefna fleira um hinar nýju Shakespeare-þýðingar, en ég læt staðar numið hér. Það má þó nefna í lokin að með því að þýða Shakespeare upp á nýtt, í ofanálag við heildarverkið í þýðingum Helga Hálfdanarsonar, er ekki einungis verið að miðla verkunum til nýrra leikhúsgesta. Það skiptir ekki minna máli að með því að eiga tvær þýðingar sama leikrits eigum við kost á því að verða enn hæfari en ella til að skilja og túlka verkið sem lesendur. Það er ekki síst þess vegna sem þýðingar Þórarins Eldjárns á Lé konungi og Sölva Björns Sigurðarsonar á Ofviðrinu afar vel þegnar.

(Víðsjá, 14. apríl 2011)