Heinrich Heine: Þýskaland vetrarævintýri

Hjalti Ægisson, júní 16, 2011

„Hinrik Hænir heitir maður. Hann er borinn og barnfæddur suðrá Þýskalandi, þar sem heitir Þusslaþorp þrem vetrum fyrir aldamótin. [...] Hænir ann frelsinu eínsog allir þeír sem beztir og vitrastir eru; enda er hann orðinn óvinsæll á Þýzkalandi, bæði fyrir það og annað, so hann má valla koma þángað framar. Hann situr í Parísarborg í góðu yfirlæti, enn lángar samt heím þaðan, eínsog von er á. Alstaðar er flóttamaðurinn eínmana.“  Þannig fjalla Fjölnismenn um þýska skáldið Heinrich Heine árið 1835; í fyrsta hefti þessa merka tímarits er að finna stutta kynningu á skáldinu ásamt þýddum kafla úr ferðabókinni Reisebilder. Fjölnismenn voru sem sagt hrifnir af Heine. Þau sannindi eru öllum töm sem hafa lokið grunnskólaprófi á Íslandi; aðdáun Fjölnismanna á Heine er staðreynd, rétt eins og það að Hvannadalshnjúkur er hæsti tindur landsins og súrefni er númer átta í lotukerfinu. Þegar merking höfundarverks lokast inni í svona fastri túlkun er hætt við því að ljóðin hætti að njóta sannmælis, vængstýfist og verði bitlaus, sem er dálítið dapurlegt þegar um er að ræða jafn sprúðlandi og ferskt ljóðskáld eins og Heinrich Heine. Í hugum flestra Íslendinga er Heine skáldið sem orti „Álfareiðina“, ljóðið sem Jónas Hallgrímsson þýddi svo snilldarlega, og það að Jónas hafi haft dálæti á Heine er orðin slík tugga að hún er hætt að merkja nokkuð. Þess vegna var það vel til fundið hjá Einari Thoroddsen lækni að ráðast í að þýða ljóðabálkinn Þýskaland vetrarævintýri í heild sinni. Einar er að vísu langt í frá fyrsti maðurinn til að fylgja fordæmi Jónasar og þýða Heine á íslensku, en þessi nýútgefna þýðing er sérstök fyrir þær sakir að hér er um heilan bálk að ræða en ekki bara stök kvæði; verkið er í tuttugu og sjö köflum og bókin er alls 175 síður í tvímála útgáfu.

Þýskaland vetrarævintýri er ort árið 1843 þegar Heine kom aftur til heimalands síns eftir tólf ára útlegð í Frakklandi. Hann hafði lent í útistöðum við þýsk yfirvöld, enda voru bækur hans fullar af róttækum skoðunum sem fóru fyrir brjóstið á mörgum ráðsettum borgaranum. Honum var sérstaklega uppsigað við ritskoðendur og siðgæðispostula, eins og sjá má í öðrum kafla ljóðabálksins. Prússnesku tollverðirnir taka Heine opnum örmum við komuna til Þýskalands og róta í farangri hans eftir óæskilegum bókum. Heine hugsar þeim þegjandi þörfina en veit þó sem er að allur hinn óæskilegi boðskapur er falinn í höfði hans sjálfs, sem ekki verður ritskoðað með svo gagnslausri og hvimleiðri aðferð:

Þið fífl sem um töskuna fálmið í gríð,

þið finnið ei nokkra línu,

því allt þetta smyglaða ógeð er

inni í höfði mínu.

[...]

Og minnið geymir marga bók.

Þið mættuð bara vita

að hausinn á mér hreiður er

hættulegra rita.

Þannig hljóma þriðja og sjötta erindi annars kafla í þýðingu Einars Thoroddsens, og líkt og heyra má er bragurinn einstaklega léttur og leikandi. Þótt áreiðanlega sé mikil vinna að baki þessari þýðingu er hún samt alveg átakalaus, næstum eins og þýðandinn hafi ekki haft neitt fyrir vinnunni. Þýskaland vetrarævintýri er glettnislegt verk, eins konar dagbók eða „ljóðablogg“ eins og Einar stingur upp á í formála. Heine lýsir því sem fyrir augu ber og leggur mat á það með sínum sérstaka hætti, sneiðar að nafngreindum samtímamönnum, sviðsetur samtöl við drauga og náttúruvætti í því skyni að fella dóma um hugmyndafræði, tísku og samfélag. Sá Heine sem birtist okkur í  þessu verki stendur þannig ansi fjarri hefðbundnu hugmyndinni um rómantíska snillinginn, tilfinningaríka skáldið sem þjáist fyrir heiminn og „horfir út í loftið með fjaðurpenna“. Hér er það þvert á móti sannkallaður æringi sem stýrir pennanum, háðfugl og róttæklingur sem á þó enga dýpri tilfinningu í hjarta sínu en ástina til föðurlandsins. Það voru hjákátleg örlög að nasistar skyldu banna verk Heines á tuttugustu öld fyrir þá sök að hann var gyðingur; þýsk þjóðernishyggja birtist nefnilega hvergi eins tær og skýr í gjörvöllum bókmenntum nítjándu aldarinnar eins og í ljóðum Heines.

Þýðing Einars Thoroddsens á Þýskalandi vetrarævintýri er að ýmsu leyti í takt við tón verksins og þá hugsun sem þar ríkir. Í formála þýðingarinnar segir Einar að hann hafi umfram  allt reynt að láta ljóðið „rúlla“, með öðrum orðum, að kýla á það, láta hlutina flakka án þess að fága þá eða slípa undir drep. Handahófskennd rannsókn mín leiðir enda í ljós að þýðingin er ekki alls staðar nákvæm, stundum er hugsuninni hnikað til svo að erindin gangi upp sem heild, til dæmis þegar vísunum í íslenska ljóðlist er troðið inn í þau, sem gerist nokkuð reglulega. Jafn ólík skáld og Bjarni Thorarensen, Valdimar Briem, Jón Helgason og Sigurður Jónsson frá Arnarvatni eru meðal lánardrottna Einars. Þetta er texti sem tekur sjálfan ekki of hátíðlega heldur bregður á leik með skírskotunum í allar áttir svo að lesandanum er oftsinnis komið á óvart, ekki ósvipað og í þýðingu Kristjáns Árnasonar á Lýsiströtu Aristófanesar, gamanleik frá 5. öld f.Kr. sem er endurskapaður á nútímalegum forsendum í þýðingunni. Þessa aðferð má auðvitað gagnrýna, vísanirnar búa oft til merkingarauka sem eru eins konar aukalag ofan á frumtextann og eiga sér enga beina samsvörun í honum. Tímaskekkjur eru líka algengar; þannig kemur „Kjarval“ í stað þýska málarans Peter von Cornelius og verndargyðja Hamborgar kallar Heine „framsóknarmann“. Þetta er oftast nær fyndið í alvörunni, en tíminn þarf auðvitað að leiða í ljós hversu vel þessi stíll á eftir að eldast. Í einhverjum tilvikum er textinn þegar orðinn úreltur í vissum skilningi, til dæmis í fimmta erindi 26. hluta þar sem auðkýfingnum Amschels Rothschild er skipt út fyrir „Bónusfeðga“. Orðalagið í þýðingunni er aukinheldur enskuskotið á köflum, nútímalegar slettur eru notaðar í gamansömum tilgangi, mönnum er sagt að „taka það ísí“ og franska leikskáldið Alfred de Musset „trommar tristan djók“. Einar Thoroddsen dregur hvergi af sér við fíflaganginn sem er uppbyggileg tilhugsun, því það er ekki hollt að láta heimsbókmenntirnar einangrast í fílabeinsturni þar sem lamandi virðing og upphafning ræður ríkjum.

Íslenska þýðingin á Þýskalandi vetrarævintýri er hressileg lexía í því hvernig er hægt að nálgast nítjándu aldar bókmenntir á forsendum okkar tíma, og þýðandanum lætur oftast nær vel að miðla hugsuninni á máli sem nútímalesendum er tamt. Hitt er annað mál að ónákvæmnin og ærslin gætu hæglega átt eftir að verða þessum texta fjötur um fót í framtíðinni. Þótt Heine sé húmoristi fram í fingurgómana er alltaf broddur í gríninu hjá honum; fyndnin í hinni nýju, íslensku þýðingu hefur hins vegar takmarkað inntak annað en sjálfa sig. Þess ber þó að geta að útgáfan er tvímála, þýski textinn er látinn standa við hlið þess íslenska, sem verður að teljast hraustlega gert hjá þýðandanum, enda sjálfsagt ekki allir þýðendur hrifnir af þeirri tilhugsun að lesendur geri rækilegan samanburð á sínum texta og þeim upprunalega. Einar Thoroddsen býður slíkan lestur hins vegar velkominn, sem er sannarlega til fyrirmyndar.

(Víðsjá, 5. maí 2011)

Arabískir kvenhöfundar

Hjalti Ægisson, júní 16, 2011

Mohamed Ben Moktar er alsírskur innflytjandi í úthverfi Parísar. Hann er orðinn fertugur og hefur búið í móðurhúsum alla ævi en aldrei verið við kvenmann kenndur. Einn daginn tekur hann upp á því að flytja út og hefja nýtt líf sem kvennamaður í stórborginni; hann ákveður að þeirri einlægu íslamstrú sem hann hefur haft í heiðri frá barnæsku skuli nú skipt út fyrir taumlausa efnishyggju, klæðskerasaumuð föt, húðkrem sem lýsa dökkt hörundið og hárgel sem sléttir kolsvartar krullurnar. Þetta eru sannkölluð hamskipti og Mohamed tekur meira að segja upp nýtt nafn, Basile Tocquard, til að falla betur að staðalímynd hins nútímalega, franska glaumgosa. Hann leigir sér piparsveinsíbúð í miðborginni og innréttar hana sérstaklega með hliðsjón af væntanlegum sigrum í ástamálunum. Með því að hylja yfir uppruna sinn sér hann fyrir sér að hann verði fullkomlega gjaldgengur í augum franskra kvenna. Árangurinn lætur þó á sér standa, einu konurnar sem Mohamed Ben Moktar tekst að koma vilja sínum fram við eru innflytjendur eins og hann sjálfur, flestar nokkrum árum eldri. Þetta eru konur sem ráðrík móðir hans myndi veita blessun sína ef hún hefði enn sitt gamla tangarhald á syninum. Draumurinn um kynferðislega og eþníska viðurkenningu er fjarlægari en hann grunaði, og niðurstaðan er viðvarandi frústrasjón.

Þannig atvikast málin í skáldsögunni Kynlíf íslamista í París eftir alsírsku skáldkonuna Leïlu Marouane, sem kom út árið 2007 en birtist nýverið í enskri þýðingu. Marouane fæddist í Alsír 1960 en hefur búið og starfað í París síðan 1990. Hún er ein háðskasta röddin í hópi þeirra rithöfunda sem fást við íslam og konur í verkum sínum og hefur beint og óbeint lagt sitt lóð á vogarskálarnar í baráttu fyrir auknum réttindum alsírskra kvenna um nokkurt skeið. Bækur hennar eru dæmi um gagnrýni sem kemur í senn innan frá, þar sem höfundurinn er sjálfur alsírsk kona, en líka utan frá, þar sem Marouane er búsett í París, enda fengjust bækur hennar varla útgefnar í gamla heimalandinu. Það skal þó áréttað að Leïla Marouane er ekkert einsdæmi, því margar starfssystur hennar plægja þennan sama akur. Hlutur kvenna í bókmenntasköpun arabalandanna er raunar meiri en margir halda. Fyrsta nútímaskáldsagan sem skrifuð var á arabísku var m.a.s. eftir konu, en það er bókin Badi’a og Fu’ad eftir líbönsku skáldkonuna Afifa Karam, sem kom út 1906. Í þeirri sögu er fengist við þau viðfangsefni sem eru enn í forgrunni í arabískum bókmenntum: Stéttamun, samskipti austurs og vesturs og stöðu kvenna. Í ýmsum arabalöndum eru saga kvennabókmennta og saga kvennréttindabaráttu rækilega samtvinnaðar. Frá því á sjöunda áratugnum hafa pólitík og femínismi sett sterkan svip á bókmenntir arabískra kvenna í mörgum löndum. Það má nefna höfunda á borð við Ghada Saaman í Sýrlandi, Nawal Saadawi í Egyptalandi, Assia Djebar í Alsír og Samira Azzam í Palestínu. Allt eru þetta höfundar sem hafa gagnrýnt ríkjandi stjórnskipulag í sínum heimalöndum og bent á að ofbeldi gegn konum sé, þegar öllu er á botninn hvolft, það sem helst stendur vexti og viðgangi þessara landa fyrir þrifum.

Leïla Marouane tilheyrir þessari rithefð og vinnur markvisst úr henni, en nálgast þó hlutina úr annarri átt. Hún skrifar út frá þeirri grundvallarforsendu að feðraveldissamfélagið sé byggt á blekkingum, karlarnir í sögum hennar eru vesalingar sem tekst aldrei að ná fram markmiðum sínum. Skáldsagan Kynlíf íslamista í París er saga um veruleika arabískra innflytjenda á Vesturlöndum. Frakkland er það land í Vestur-Evrópu þar sem flestir arabískir innflytjendur búa, um 7,5% þjóðarinnar. Paródía er aðalsmerki á skrifum Marouane, hún lýsir því á ísmeygilegan hátt hvernig öfgakennd höfnun upprunans getur birst sem fölsk sjálfsmynd. En það er ekki allt sem sýnist í þessari sögu, því þeirri spurningu er ekki svarað hvort vestræn endurfæðing Mohamed Ben Moktar er ímyndun eða veruleiki. Eftir því sem konunum í lífi hans fjölgar, verður orsakasamhengi frásagnarinnar óskýrara. Dularfullur rithöfundur, kona að nafni Loubna Minbar, birtist síendurtekið og myndar eins konar tengingu milli ástmeyjanna. Þegar upp er staðið gæti hún allt eins verið höfundur sögunnar, eins konar fulltrúi Marouane sjálfrar á vettvangi, sjónhverfingameistarinn sem spinnur þræði verksins. Í sögulok á Mohamed enn eftir að sætta pólana tvo í lífi sínu, arabaheiminn og Vesturlönd, móðurina og ástkonurnar, trúna og efnishyggjuna.

Kynlíf íslamista í París er hefðbundin kómedía og ristir kannski ekki djúpt í listrænum skilningi, en í henni eru þó áhugaverðar hugleiðingar um íslamskar hefðir andspænis vestrænum kynjahlutverkum. Sú umræða er einnig kjarninn í nýlegri endurminningabók eftir líbönsku leikkonuna Darina al-Joundi, sem er fædd árið 1968 og á það sameiginlegt með Leïlu Marouane að hafa flutt til Parísar þegar hún var þrítug. Bókin heitir Daginn sem Nina Simone hætti að syngja og er lýsing á uppreisn einnar konu gegn umhverfi sínu. Darina al-Joundi ólst upp hjá frjálslyndum föður sem kenndi henni að lifa lífinu eins og hana sjálfa langaði til, án þess að láta kúga sig af aldagömlum hefðum og fordómum feðraveldisins. Öll uppvaxtarár  hennar geisaði borgarastríð í Líbanon; morð, sprengjuárásir, fátækt og aðrar hörmungar voru daglegt brauð. Það er úr þessu umhverfi sem al-Joundi sprettur, reið og uppreisnargjörn kona með ögrandi hugmyndir og sterka, kynferðislega sjálfsmynd. Faðirinn ýtir undir hvers kyns róttækni dóttur sinnar í bernsku og kennir henni að efast um öll viðtekin sannindi, sérstaklega trúarbrögð. „Það verður aldrei friður í þessu landi fyrr en það er búið að breyta öllum kirkjunum og moskunum í vændishús,“ segir hann við dætur sínar þrjár þegar þær eru enn á barnsaldri. Hann kennir þeim að reykja og drekkja, hvetur þær til að lifa lauslátu lífi en harðbannar þeim að fasta, biðja bænir eða sækja guðsþjónustur. Unglingsár Darinu al-Joundi eru því vægast sagt ævintýraleg, hún sængar hjá ótölulegum fjölda karlmanna. Mennirnir sem forsmá kvenholdið á daginn leita til hennar á nóttunni. Þannig upplifir hún hræsnina og togstreituna í samfélaginu á eigin líkama.

Daginn sem Nina Simone hætti að syngja er byggð á einleik sem al-Joundi flutti í París árið 2007 og vakti geysimikla athygli í frönskum fjölmiðlum. Bókin, rétt eins og leiksýningin, vekur upp hugleiðingar um stöðu kvenna í Miðausturlöndum og Norður-Afríku, og er því kannski sérstaklega þörf um þessar mundir þegar fúnar stoðir eru burtu brotnar í hverju arabalandinu á fætur öðrum. Hvort þær umbætur eru til langframa verður einfaldlega að koma í ljós, en listakonur á borð við Marouane og al-Joundi geta að minnsta kosti haldið umræðunni vakandi á Vesturlöndum. Þannig má segja að vonin um bætta veröld á okkar dögum lifi í bókmenntunum, og það er svo sannarlega ekki í fyrsta sinn í sögunni.

(Víðsjá, 28. apríl 2011)

Siri Hustvedt: The Summer Without Men

Hjalti Ægisson, júní 16, 2011

Nú á vordögum kom út ný skáldsaga hjá bókaforlaginu Sceptre í Bandaríkjunum sem heitir Sumar án karlmanna, The Summer Without Men. Við fyrstu sýn lítur þessi bók út fyrir að geyma hressilegan skvísulitteratúr; á kápunni er stílfærð teiknimynd af konu sem virðist svífa af lífsgleði og er klædd í sumarlegan kjól. En bókina á aldrei að dæma af kápunni, eins og máltakið kennir, og við nánari athugun kemur í ljós að grunntónn þessarar sögu er sorgin; ástarsorg nánar tiltekið. Konan sem segir söguna er ljóðskáldið og kennarinn Mia Frederickson, sem hefur verið gift taugavísindamanninum Boris í þrjátíu ár. Einn daginn tilkynnir Boris henni að hann vilji „taka pásu“, eins og hann orðar það svo varfærnislega. Með öðrum orðum: Slíta hjónabandinu. Sumar án karlmanna er lýsing á þeim tilfinningalegu viðbrögðum sem Mia upplifir í kjölfar sambandsslitanna. Frásögnin er órökleg og brotakennd og stíllinn afskaplega huglægur. Þannig er ruglingslegum tilfinningum og sveiflukenndu hugsanaferli miðlað með upplausn í forminu, ekki ósvipað og í skáldsögunni Frá gósenlandinu eftir dönsku skáldkonuna Kirsten Hammann, sem kom út í íslenskri þýðingu fyrir nokkrum árum, en í þeirri bók er einnig fjallað um höfnun og sambandsslit frá sjónarhóli kvenkyns aðalpersónu.

Sumar án karlmanna er nýjasta verk bandarísku skáldkonunnar Siri Hustvedt sem fæddist árið 1955 í bænum Northfield í Minnesota. Hún er afkomandi norskra innflytjenda og skrifaði sína fyrstu skáldsögu fyrir um það bil tuttugu árum. Síðan þá hefur hún vaxið hægt og bítandi sem höfundur, hennar þekktasta verk er vafalaust skáldsagan Það sem ég elskaði, What I loved, frá 2003. Þegar grennslast er fyrir um viðtökur bóka Siri Hustvedt kemur í ljós að tvennt hefur verið áberandi allan hennar rithöfundarferil. Annars vegar er það sú viðleitni að tengja hana við eiginmann sinn sem líka er rithöfundur og heitir Paul Auster. Það er eiginlega ekki fyrr en á allra síðustu árum sem fer að örla á því að verk Siri Hustvedt séu metin á eigin forsendum, en ekki með samanburði við skáldsögur mannsins hennar. Það er fremur sjaldgæft að rekast á ritdóma um bækur hennar án þess að hann sé nefndur þar á nafn. Hitt atriðið sem setur sterkan svip á viðtökur bóka Siri Hustvedt er sú tilhneiging að túlka verk hennar á sjálfsævisögulegum nótum, gera ráð fyrir því að hún sé alltaf leynt og ljóst að fjalla um sjálfa sig í bókum sínum. Hustvedt ræðir þetta í viðtali sem birtist nýlega í breska blaðinu Guardian, og telur að þessi tilhneiging sé sérstaklega ríkjandi í viðtökum sagnabókmennta eftir kvenhöfunda. Í nútímabókmenntaumfjöllun er einhvern veginn gert ráð fyrir því ósjálfrátt að karlkyns rithöfundar séu empírískir greinendur eða sjáendur, túlkendur eða samfélagslæknar; ímynd þeirra er beint afsprengi snillingshugmyndarinnar eins og rómantíkin bjó hana til. Kvenkyns rithöfundar eru hins vegar alltaf túlkaðir í skugga játningahefðarinnar, það er nánast gengið út frá því að konur geti ekki skrifað bókmenntir öðruvísi en með því að hafa sín eigin geðhrif í forgrunni. Skömmu eftir að Sumar án karlmanna kom út fékk Siri Hustvedt símtal frá vinkonu sinni sem spurði hana áhyggjufull hvort það væri ekki allt með felldu hjá þeim hjónunum.

Sumar án karlmanna er nöturleg lýsing á reynsluheimi kvenna. Þótt kvenréttindi hafi aukist verulega á síðustu öld er líf konunnar í nútímasamfélagi sannarlega enginn dans á rósum; henni er strítt á unglingsárunum, hún slær af framavonum sínum til að geta sinnt móðurhlutverkinu og ef eiginmaðurinn yfirgefur hana ekki á miðjum aldri er hún í flestum tilvikum dæmd til að lifa lengur en hann og þarf því að þreyja elliárin einmana og þjökuð af minningum frá fyrri tíð.

Siri Hustvedt

Sumar án karlmanna fjallar um konu sem reynir að finna sjálfa sig aftur eftir að maðurinn sem hún hefur lifað með áratugum saman hefur gefið hana upp á bátinn fyrir aðra, yngri konu. Það eru margar áleitnar spurningar um sjálfið í þessari sögu – sá sem hefur búið með annarri manneskju öll sín fullorðinsár á oftast erfitt með að skilja sjálfan sig öðruvísi en með því að taka lífsförunautinn með í reikninginn. Með öðrum orðum: Að hve miklu leyti er lífsreynslan þáttur í persónuleikanum? Er maður maður sjálfur þrátt fyrir það sem maður upplifir – eða einmitt vegna þess? Þegar Mia Frederickson hefur náð botninum og er komin yfir versta skaflinn þarf hún að leggjast í róttæka sjálfsskoðun, hún þarf að komast fram hjá sjálfri sér eins og hún var í sambandinu með Boris, finna kjarnann sem mótaðist í bernsku og á unglingsárum. Þar að auki kemur höfnunin svo flatt upp á hana að hún þarf að spyrja sjálfa sig hvort hún hafi nokkurn tímann þekkt manninn sinn í raun og veru. Mia yfirgefur heimili sitt í New York og fer til æskuslóðanna í Minnesota þar sem hún dvelur sumarlangt með hópi af stúlkum sem nema ljóðlist hjá henni.

Siri Hustvedt hefur gengist við því að Sumar án karlmanna sé femínísk skáldsaga, en samband hennar við femíníska hugmyndafræði hefur þó ekki verið þrautalaust í gegnum tíðina. Árið 1997 skrifaði hún greinina „Málsvörn fyrir Eros“, þar sem hún fjallar á gagnrýninn hátt um það hvernig bandarískur femínismi hefur einkennst af vissri afneitun á kynferðislegri ánægju, enda grundvallaður á sterkum, púrítönskum grunni. Duttlungar kynlífsins eru oft kjánalegir þegar allt kemur til alls: „Það er óviðeigandi að viðurkenna að kynferðisleg nautn geti verið í öllum regnbogans litum,“ segir Hustvedt í þessari grein, „að konur, rétt eins og karlar, geti örvast af því sem er í besta falli kjánalegt, í versta falli afbrigðilegt.“ Síðan þessi orð voru rituð hefur þó mikið vatn runnið til sjávar og Siri Hustvedt viðurkennir að femínistar í Bandaríkjunum séu æ oftar farnir að leggja áherslu á kynferðislegar fantasíur þegar reynt er að skilgreina veruleika kvenna með jafnréttisbaráttu að leiðarljósi.

Líkt og mörg fyrri verk Siri Hustvedt er Sumar án karlmanna blandað verk; hér sem víðar notar hún skáldsöguformið sem farveg hugmynda og fræðilegrar umfjöllunar, ekki síst um samskipti kynjanna, kynjahlutverk og væntingar samfélagsins til konunnar. Myndræn einkenni setja sterkan svip á þessa bók, en Hustvedt hefur oft unnið með myndlist í verkum sínum, auk þess sem hún hefur skrifað um málverk. Þegar Hustvedt kom hingað til lands á Bókmenntahátíð í Reykjavík haustið 2005 ræddi hún um þessar myndrænu áherslur í viðtali við Einar Fal Ingólfsson: „Ég hef mjög myndrænt ímyndunarafl. Þegar ég skrifa sé ég alltaf aðstæðurnar og fólkið fyrir mér. Það er ákveðin skörun milli þessara heima. Og ég man eftir bókum í myndum.“

Sumar án karlmanna er þriðja skáldverk Siri Hustvedt á fjórum árum og margt bendir til þess að hún sé nú á hátindi sínum sem rithöfundur. Umfjöllunarefni hennar eru fjölbreytt og afgreidd á vitrænum forsendum, en sjálfið og mótun þess er þó iðulega í forgrunni; bókin Sorgir Bandaríkjamanns (Sorrows of an American) frá 2008 er ættarsaga sem spannar langt tímabil. Skjálfandi konan (The Shaking Woman) frá 2010 er saga um það hvernig barátta við sjúkdóm mótar manneskjuna og gefur henni nýja sýn á tilveruna. Sumar án karlmanna er svo nýjasta afurðin, grípandi úttekt á sjálfsskoðun í kjölfar sorgar og höfnunar. Það er ekki út í bláinn að halda því fram að Siri Hustvedt sé í hópi áhugaverðustu kvenhöfunda vestanhafs, og næstu skref verða vafalaust allrar athygli verð.

(Víðsjá, 21. apríl 2011)