Arabískir kvenhöfundar

Hjalti Ægisson, júní 16, 2011

Mohamed Ben Moktar er alsírskur innflytjandi í úthverfi Parísar. Hann er orðinn fertugur og hefur búið í móðurhúsum alla ævi en aldrei verið við kvenmann kenndur. Einn daginn tekur hann upp á því að flytja út og hefja nýtt líf sem kvennamaður í stórborginni; hann ákveður að þeirri einlægu íslamstrú sem hann hefur haft í heiðri frá barnæsku skuli nú skipt út fyrir taumlausa efnishyggju, klæðskerasaumuð föt, húðkrem sem lýsa dökkt hörundið og hárgel sem sléttir kolsvartar krullurnar. Þetta eru sannkölluð hamskipti og Mohamed tekur meira að segja upp nýtt nafn, Basile Tocquard, til að falla betur að staðalímynd hins nútímalega, franska glaumgosa. Hann leigir sér piparsveinsíbúð í miðborginni og innréttar hana sérstaklega með hliðsjón af væntanlegum sigrum í ástamálunum. Með því að hylja yfir uppruna sinn sér hann fyrir sér að hann verði fullkomlega gjaldgengur í augum franskra kvenna. Árangurinn lætur þó á sér standa, einu konurnar sem Mohamed Ben Moktar tekst að koma vilja sínum fram við eru innflytjendur eins og hann sjálfur, flestar nokkrum árum eldri. Þetta eru konur sem ráðrík móðir hans myndi veita blessun sína ef hún hefði enn sitt gamla tangarhald á syninum. Draumurinn um kynferðislega og eþníska viðurkenningu er fjarlægari en hann grunaði, og niðurstaðan er viðvarandi frústrasjón.

Þannig atvikast málin í skáldsögunni Kynlíf íslamista í París eftir alsírsku skáldkonuna Leïlu Marouane, sem kom út árið 2007 en birtist nýverið í enskri þýðingu. Marouane fæddist í Alsír 1960 en hefur búið og starfað í París síðan 1990. Hún er ein háðskasta röddin í hópi þeirra rithöfunda sem fást við íslam og konur í verkum sínum og hefur beint og óbeint lagt sitt lóð á vogarskálarnar í baráttu fyrir auknum réttindum alsírskra kvenna um nokkurt skeið. Bækur hennar eru dæmi um gagnrýni sem kemur í senn innan frá, þar sem höfundurinn er sjálfur alsírsk kona, en líka utan frá, þar sem Marouane er búsett í París, enda fengjust bækur hennar varla útgefnar í gamla heimalandinu. Það skal þó áréttað að Leïla Marouane er ekkert einsdæmi, því margar starfssystur hennar plægja þennan sama akur. Hlutur kvenna í bókmenntasköpun arabalandanna er raunar meiri en margir halda. Fyrsta nútímaskáldsagan sem skrifuð var á arabísku var m.a.s. eftir konu, en það er bókin Badi’a og Fu’ad eftir líbönsku skáldkonuna Afifa Karam, sem kom út 1906. Í þeirri sögu er fengist við þau viðfangsefni sem eru enn í forgrunni í arabískum bókmenntum: Stéttamun, samskipti austurs og vesturs og stöðu kvenna. Í ýmsum arabalöndum eru saga kvennabókmennta og saga kvennréttindabaráttu rækilega samtvinnaðar. Frá því á sjöunda áratugnum hafa pólitík og femínismi sett sterkan svip á bókmenntir arabískra kvenna í mörgum löndum. Það má nefna höfunda á borð við Ghada Saaman í Sýrlandi, Nawal Saadawi í Egyptalandi, Assia Djebar í Alsír og Samira Azzam í Palestínu. Allt eru þetta höfundar sem hafa gagnrýnt ríkjandi stjórnskipulag í sínum heimalöndum og bent á að ofbeldi gegn konum sé, þegar öllu er á botninn hvolft, það sem helst stendur vexti og viðgangi þessara landa fyrir þrifum.

Leïla Marouane tilheyrir þessari rithefð og vinnur markvisst úr henni, en nálgast þó hlutina úr annarri átt. Hún skrifar út frá þeirri grundvallarforsendu að feðraveldissamfélagið sé byggt á blekkingum, karlarnir í sögum hennar eru vesalingar sem tekst aldrei að ná fram markmiðum sínum. Skáldsagan Kynlíf íslamista í París er saga um veruleika arabískra innflytjenda á Vesturlöndum. Frakkland er það land í Vestur-Evrópu þar sem flestir arabískir innflytjendur búa, um 7,5% þjóðarinnar. Paródía er aðalsmerki á skrifum Marouane, hún lýsir því á ísmeygilegan hátt hvernig öfgakennd höfnun upprunans getur birst sem fölsk sjálfsmynd. En það er ekki allt sem sýnist í þessari sögu, því þeirri spurningu er ekki svarað hvort vestræn endurfæðing Mohamed Ben Moktar er ímyndun eða veruleiki. Eftir því sem konunum í lífi hans fjölgar, verður orsakasamhengi frásagnarinnar óskýrara. Dularfullur rithöfundur, kona að nafni Loubna Minbar, birtist síendurtekið og myndar eins konar tengingu milli ástmeyjanna. Þegar upp er staðið gæti hún allt eins verið höfundur sögunnar, eins konar fulltrúi Marouane sjálfrar á vettvangi, sjónhverfingameistarinn sem spinnur þræði verksins. Í sögulok á Mohamed enn eftir að sætta pólana tvo í lífi sínu, arabaheiminn og Vesturlönd, móðurina og ástkonurnar, trúna og efnishyggjuna.

Kynlíf íslamista í París er hefðbundin kómedía og ristir kannski ekki djúpt í listrænum skilningi, en í henni eru þó áhugaverðar hugleiðingar um íslamskar hefðir andspænis vestrænum kynjahlutverkum. Sú umræða er einnig kjarninn í nýlegri endurminningabók eftir líbönsku leikkonuna Darina al-Joundi, sem er fædd árið 1968 og á það sameiginlegt með Leïlu Marouane að hafa flutt til Parísar þegar hún var þrítug. Bókin heitir Daginn sem Nina Simone hætti að syngja og er lýsing á uppreisn einnar konu gegn umhverfi sínu. Darina al-Joundi ólst upp hjá frjálslyndum föður sem kenndi henni að lifa lífinu eins og hana sjálfa langaði til, án þess að láta kúga sig af aldagömlum hefðum og fordómum feðraveldisins. Öll uppvaxtarár  hennar geisaði borgarastríð í Líbanon; morð, sprengjuárásir, fátækt og aðrar hörmungar voru daglegt brauð. Það er úr þessu umhverfi sem al-Joundi sprettur, reið og uppreisnargjörn kona með ögrandi hugmyndir og sterka, kynferðislega sjálfsmynd. Faðirinn ýtir undir hvers kyns róttækni dóttur sinnar í bernsku og kennir henni að efast um öll viðtekin sannindi, sérstaklega trúarbrögð. „Það verður aldrei friður í þessu landi fyrr en það er búið að breyta öllum kirkjunum og moskunum í vændishús,“ segir hann við dætur sínar þrjár þegar þær eru enn á barnsaldri. Hann kennir þeim að reykja og drekkja, hvetur þær til að lifa lauslátu lífi en harðbannar þeim að fasta, biðja bænir eða sækja guðsþjónustur. Unglingsár Darinu al-Joundi eru því vægast sagt ævintýraleg, hún sængar hjá ótölulegum fjölda karlmanna. Mennirnir sem forsmá kvenholdið á daginn leita til hennar á nóttunni. Þannig upplifir hún hræsnina og togstreituna í samfélaginu á eigin líkama.

Daginn sem Nina Simone hætti að syngja er byggð á einleik sem al-Joundi flutti í París árið 2007 og vakti geysimikla athygli í frönskum fjölmiðlum. Bókin, rétt eins og leiksýningin, vekur upp hugleiðingar um stöðu kvenna í Miðausturlöndum og Norður-Afríku, og er því kannski sérstaklega þörf um þessar mundir þegar fúnar stoðir eru burtu brotnar í hverju arabalandinu á fætur öðrum. Hvort þær umbætur eru til langframa verður einfaldlega að koma í ljós, en listakonur á borð við Marouane og al-Joundi geta að minnsta kosti haldið umræðunni vakandi á Vesturlöndum. Þannig má segja að vonin um bætta veröld á okkar dögum lifi í bókmenntunum, og það er svo sannarlega ekki í fyrsta sinn í sögunni.

(Víðsjá, 28. apríl 2011)