Heinrich Heine: Þýskaland vetrarævintýri

Hjalti Ægisson, júní 16, 2011

„Hinrik Hænir heitir maður. Hann er borinn og barnfæddur suðrá Þýskalandi, þar sem heitir Þusslaþorp þrem vetrum fyrir aldamótin. [...] Hænir ann frelsinu eínsog allir þeír sem beztir og vitrastir eru; enda er hann orðinn óvinsæll á Þýzkalandi, bæði fyrir það og annað, so hann má valla koma þángað framar. Hann situr í Parísarborg í góðu yfirlæti, enn lángar samt heím þaðan, eínsog von er á. Alstaðar er flóttamaðurinn eínmana.“  Þannig fjalla Fjölnismenn um þýska skáldið Heinrich Heine árið 1835; í fyrsta hefti þessa merka tímarits er að finna stutta kynningu á skáldinu ásamt þýddum kafla úr ferðabókinni Reisebilder. Fjölnismenn voru sem sagt hrifnir af Heine. Þau sannindi eru öllum töm sem hafa lokið grunnskólaprófi á Íslandi; aðdáun Fjölnismanna á Heine er staðreynd, rétt eins og það að Hvannadalshnjúkur er hæsti tindur landsins og súrefni er númer átta í lotukerfinu. Þegar merking höfundarverks lokast inni í svona fastri túlkun er hætt við því að ljóðin hætti að njóta sannmælis, vængstýfist og verði bitlaus, sem er dálítið dapurlegt þegar um er að ræða jafn sprúðlandi og ferskt ljóðskáld eins og Heinrich Heine. Í hugum flestra Íslendinga er Heine skáldið sem orti „Álfareiðina“, ljóðið sem Jónas Hallgrímsson þýddi svo snilldarlega, og það að Jónas hafi haft dálæti á Heine er orðin slík tugga að hún er hætt að merkja nokkuð. Þess vegna var það vel til fundið hjá Einari Thoroddsen lækni að ráðast í að þýða ljóðabálkinn Þýskaland vetrarævintýri í heild sinni. Einar er að vísu langt í frá fyrsti maðurinn til að fylgja fordæmi Jónasar og þýða Heine á íslensku, en þessi nýútgefna þýðing er sérstök fyrir þær sakir að hér er um heilan bálk að ræða en ekki bara stök kvæði; verkið er í tuttugu og sjö köflum og bókin er alls 175 síður í tvímála útgáfu.

Þýskaland vetrarævintýri er ort árið 1843 þegar Heine kom aftur til heimalands síns eftir tólf ára útlegð í Frakklandi. Hann hafði lent í útistöðum við þýsk yfirvöld, enda voru bækur hans fullar af róttækum skoðunum sem fóru fyrir brjóstið á mörgum ráðsettum borgaranum. Honum var sérstaklega uppsigað við ritskoðendur og siðgæðispostula, eins og sjá má í öðrum kafla ljóðabálksins. Prússnesku tollverðirnir taka Heine opnum örmum við komuna til Þýskalands og róta í farangri hans eftir óæskilegum bókum. Heine hugsar þeim þegjandi þörfina en veit þó sem er að allur hinn óæskilegi boðskapur er falinn í höfði hans sjálfs, sem ekki verður ritskoðað með svo gagnslausri og hvimleiðri aðferð:

Þið fífl sem um töskuna fálmið í gríð,

þið finnið ei nokkra línu,

því allt þetta smyglaða ógeð er

inni í höfði mínu.

[...]

Og minnið geymir marga bók.

Þið mættuð bara vita

að hausinn á mér hreiður er

hættulegra rita.

Þannig hljóma þriðja og sjötta erindi annars kafla í þýðingu Einars Thoroddsens, og líkt og heyra má er bragurinn einstaklega léttur og leikandi. Þótt áreiðanlega sé mikil vinna að baki þessari þýðingu er hún samt alveg átakalaus, næstum eins og þýðandinn hafi ekki haft neitt fyrir vinnunni. Þýskaland vetrarævintýri er glettnislegt verk, eins konar dagbók eða „ljóðablogg“ eins og Einar stingur upp á í formála. Heine lýsir því sem fyrir augu ber og leggur mat á það með sínum sérstaka hætti, sneiðar að nafngreindum samtímamönnum, sviðsetur samtöl við drauga og náttúruvætti í því skyni að fella dóma um hugmyndafræði, tísku og samfélag. Sá Heine sem birtist okkur í  þessu verki stendur þannig ansi fjarri hefðbundnu hugmyndinni um rómantíska snillinginn, tilfinningaríka skáldið sem þjáist fyrir heiminn og „horfir út í loftið með fjaðurpenna“. Hér er það þvert á móti sannkallaður æringi sem stýrir pennanum, háðfugl og róttæklingur sem á þó enga dýpri tilfinningu í hjarta sínu en ástina til föðurlandsins. Það voru hjákátleg örlög að nasistar skyldu banna verk Heines á tuttugustu öld fyrir þá sök að hann var gyðingur; þýsk þjóðernishyggja birtist nefnilega hvergi eins tær og skýr í gjörvöllum bókmenntum nítjándu aldarinnar eins og í ljóðum Heines.

Þýðing Einars Thoroddsens á Þýskalandi vetrarævintýri er að ýmsu leyti í takt við tón verksins og þá hugsun sem þar ríkir. Í formála þýðingarinnar segir Einar að hann hafi umfram  allt reynt að láta ljóðið „rúlla“, með öðrum orðum, að kýla á það, láta hlutina flakka án þess að fága þá eða slípa undir drep. Handahófskennd rannsókn mín leiðir enda í ljós að þýðingin er ekki alls staðar nákvæm, stundum er hugsuninni hnikað til svo að erindin gangi upp sem heild, til dæmis þegar vísunum í íslenska ljóðlist er troðið inn í þau, sem gerist nokkuð reglulega. Jafn ólík skáld og Bjarni Thorarensen, Valdimar Briem, Jón Helgason og Sigurður Jónsson frá Arnarvatni eru meðal lánardrottna Einars. Þetta er texti sem tekur sjálfan ekki of hátíðlega heldur bregður á leik með skírskotunum í allar áttir svo að lesandanum er oftsinnis komið á óvart, ekki ósvipað og í þýðingu Kristjáns Árnasonar á Lýsiströtu Aristófanesar, gamanleik frá 5. öld f.Kr. sem er endurskapaður á nútímalegum forsendum í þýðingunni. Þessa aðferð má auðvitað gagnrýna, vísanirnar búa oft til merkingarauka sem eru eins konar aukalag ofan á frumtextann og eiga sér enga beina samsvörun í honum. Tímaskekkjur eru líka algengar; þannig kemur „Kjarval“ í stað þýska málarans Peter von Cornelius og verndargyðja Hamborgar kallar Heine „framsóknarmann“. Þetta er oftast nær fyndið í alvörunni, en tíminn þarf auðvitað að leiða í ljós hversu vel þessi stíll á eftir að eldast. Í einhverjum tilvikum er textinn þegar orðinn úreltur í vissum skilningi, til dæmis í fimmta erindi 26. hluta þar sem auðkýfingnum Amschels Rothschild er skipt út fyrir „Bónusfeðga“. Orðalagið í þýðingunni er aukinheldur enskuskotið á köflum, nútímalegar slettur eru notaðar í gamansömum tilgangi, mönnum er sagt að „taka það ísí“ og franska leikskáldið Alfred de Musset „trommar tristan djók“. Einar Thoroddsen dregur hvergi af sér við fíflaganginn sem er uppbyggileg tilhugsun, því það er ekki hollt að láta heimsbókmenntirnar einangrast í fílabeinsturni þar sem lamandi virðing og upphafning ræður ríkjum.

Íslenska þýðingin á Þýskalandi vetrarævintýri er hressileg lexía í því hvernig er hægt að nálgast nítjándu aldar bókmenntir á forsendum okkar tíma, og þýðandanum lætur oftast nær vel að miðla hugsuninni á máli sem nútímalesendum er tamt. Hitt er annað mál að ónákvæmnin og ærslin gætu hæglega átt eftir að verða þessum texta fjötur um fót í framtíðinni. Þótt Heine sé húmoristi fram í fingurgómana er alltaf broddur í gríninu hjá honum; fyndnin í hinni nýju, íslensku þýðingu hefur hins vegar takmarkað inntak annað en sjálfa sig. Þess ber þó að geta að útgáfan er tvímála, þýski textinn er látinn standa við hlið þess íslenska, sem verður að teljast hraustlega gert hjá þýðandanum, enda sjálfsagt ekki allir þýðendur hrifnir af þeirri tilhugsun að lesendur geri rækilegan samanburð á sínum texta og þeim upprunalega. Einar Thoroddsen býður slíkan lestur hins vegar velkominn, sem er sannarlega til fyrirmyndar.

(Víðsjá, 5. maí 2011)