Ágúst Borgþór Sverrisson: Stolnar stundir

Hjalti Ægisson, september 19, 2011

Að lokum göngum við öll út í sama myrkrið. En sum okkar halda á vit þess í lífinu. Veljum dauðann fram yfir lífið vegna þess að hann ginnir okkur, birtist í líki löngunar. Dagdraumar eru falsboð dauðans. Lífið og birtan búa í hljómfalli daganna, í skylduverkum og sjálfleysi. Myrkrið og dauðinn búa í sjálfinu, lífið og guð í sjálfleysinu.

Nei, kæru hlustendur, þetta er hvorki úr handbók Epíktets né Vídalínspostillu, heldur nýrri skáldsögu eftir Ágúst Borgþór Sverrisson, Stolnar stundir. Stíll verksins í heild er að vísu ekki jafn háfleygur og þessi klausa gefur til kynna heldur mun hversdagslegri, enda er þetta saga úr hversdagsleikanum. Hófstillt orðaval, eignarfallseinkunnir og stirðbusalegar talmáls-eftirlíkingar eru helstu einkenni textans, það er helst að maður vakni til lífsins þegar brestur á með Caps Lock-i, til dæmis þegar upphrópanir eða geðshræring persóna eru táknaðar. Hvers kyns fullyrðingar um fágaðan og meitlaðan stíl Ágústs Borgþórs sem sagnahöfundar eru því stórlega ýktar ef marka má þessa bók, sem hefur engin veruleg einkenni fágunar, hvorki í orðfari né söguþræði. Það er þó ekki þar með sagt að tilraunin sé með öllu misheppnuð; Ágústi Borgþór tekst stundum að hitta naglann á höfuðið, enda er hann þaulreyndur samfélagsrýnir og bloggari til margra ára.

Stolnar stundir gerist árið 2007 og fjallar um Þóri, skrifstofublók sem vinnur á þýðingastofu en vann áður á auglýsingastofu. Nýja starfið á betur við hann, honum finnst þægilegt að vinna við eitthvað vélrænt eins og þýðingar nytjatexta; auglýsingagerð er aftur á móti krefjandi hugmyndavinna sem útheimtir að maður gefi sig allan í starfið. Þórir vinnur á uppmælingu og með því að sleppa hádegismat og kaffipásum tekst honum oft að ljúka dagsverkinu nokkrum klukkustundum fyrir áætlaðan tíma. Þannig tekst honum að skapa sér millibil milli vinnu og fjölskyldulífs, svigrúm fyrir stundir þar sem hann er einn með hugsunum sínum. Þetta eru stolnu stundirnar sem bókin heitir eftir; þjófnaðarlíkingin er aðalsögupersónunni ofarlega í huga, hann er haldinn mikilli sektarkennd yfir þessu atferli sínu og finnst hann vera að stela tímanum frá eiginkonu sinni og börnum. Einveran er Þóri hins vegar nauðsynleg, hann notar tímann gjarnan til að setjast inn á kaffihús og skrifa nafnlausa pistla á bloggsíðu sem enginn veit af nema hann sjálfur. Í heimi upplýsinga og áreitis eru möguleikar mannsins á því að öðlast hugarró háðir nýstárlegum úrlausnum eins og þessari; leiðin til hjálpræðis felst í undarlegri blöndu af játningu og opinberun. Hugsanir Þóris eru í einhverjum skilningi ekki orðnar til fyrr en þær hafa verið birtar á internetinu, og að sjálfsögðu kviknar hjá honum draumur um að gerast rithöfundur. Ímynd rithöfundarins er hér áþekk því sem tíðkast hefur í sumum fyrri bókum Ágústs Borgþórs, t.d. þeirri síðustu, Hliðarspori, sem kom út fyrir fjórum árum. Rithöfundarnir í þessum sagnaheimi eru ekki gæddir sérlega djúpri ástríðu eða umhugað um að koma einhverjum skilaboðum áleiðis með verkum sínum. Líf þeirra er þvert á móti leit að áhugaverðu söguefni, eltingarleikur við lífsreynslu sem gæti gagnast sem hráefni í skáldverk. Eins og gefur að skilja er þetta ekki sérlega áhugaverð nálgun á ritstörfin, bókmenntirnar verða að handverki þar sem dýptina og hugmyndirnar skortir. En þegar lífið er einn samfelldur hversdagsleiki leitar Þórir á ný mið til að útvíkka reynsluheim sinn. Lausnin í  hans tilviki er framhjáhald, sem þarf ekki að koma á óvart, enda er það efni eitt af leiðarstefjunum í höfundarverki Ágústs Borgþórs. Símtal í vitlaust símanúmer leiðir til þess að tvær manneskjur kynnast, og það kemur á daginn að þau hafa átt við svipuð vandamál að stríða um sína daga.

Ég er engan veginn fyrstur til þess að benda á að höfundarverk Ágústs Borgþórs er ekki að fullu skiljanlegt nema ein persóna til sé tekin með í reikninginn, en það er sú persóna hans sjálfs sem hann hefur skapað sér á hinum og þessum bloggsíðum í gegnum tíðina. Í Stolnum stundum er ýtt undir þessa túlkun, hér er að finna aukapersónu sem stígur að vísu aldrei fram á sviðið en gæti sem hæglegast verið byggð á Ágústi Borgþór sjálfum, eða að minnsta kosti þeirri útgáfu hans sem stendur íslenskum netverjum til boða, ef þeir hafa áhuga. Kápumyndin er svo auðvitað kapítuli út af fyrir sig, henni er lýst í sögunni sjálfri sem mynd af þýðandanum Þóri, en kunnugir geta auðvitað séð höfund sögunnar í þessari mynd. Þetta samspil skáldskapar og höfundarímyndar er allrar athygli vert; Ágúst Borgþór er sá íslenski rithöfundur sem hefur um árabil haft sterkasta nærveru í íslenska bloggsamfélaginu og Stolnar stundir má heita dægileg sönnun þess að hann sé farinn að vinna meðvitað með tengslin í verkum sínum. Þrátt fyrir það er þessi bók afar dæmigerð fyrir hann sem höfund, hún markar engin tímamót heldur sver sig í ætt við það sem á undan er komið að flestu leyti.

Stolnar stundir er tilþrifalítið verk, persónurnar eru klisjukenndar og söguþráðurinn hvorki fugl né fiskur. Og þó er til nokkurs unnið með lestrinum. Íslenskar samtímabókmenntir eru í auknum mæli farnar að gera ráð fyrir hruni bankakerfisins haustið 2008 sem vendipunkti í tilveru okkar. Á káputexta er þessu verki lýst sem „eftirminnilegri sögu úr góðærinu“. Atburðirnir gerast vorið 2007 þegar evran kostaði níutíukall, fólk innréttaði húsin sín upp á nýtt af engri sérstakri ástæðu og íslenskir bílasalar höfðu ekki undan að flytja jeppa til landsins. Í Stolnum stundum er stemmningunni á þessu tímabili lýst á lágstemmdan hátt og það er greinilegt að höfundurinn hefur næmt auga fyrir smáatriðum sem segja heilmikla sögu um tíðarandann. Mér þykir ekki ósennilegt að þegar frá líður muni þessi saga vaxa sem heimild um þann tíma sem hún lýsir, ekkert síður en til dæmis Bankster Guðmundar Óskarssonar, sú miðlungsgóða skáldsaga sem var prýdd Íslensku bókmenntaverðlaununum árið 2009, næstum eins og til að fullvissa lesendasamfélagið um að uppgjörið mikla væri hafið á hinu fagurfræðilega sviði. Hitt er jafnlíklegt að Ágúst Borgþór á enn eftir að vaxa sem höfundur, og sennilega á hann sínar bestu bækur enn eftir óskrifaðar.

(Víðsjá, 12. maí 2011)