Hildur Knútsdóttir: Sláttur

Hjalti Ægisson, september 19, 2011

Vandamálið um mörk sjálfsins er eitt af fjölmörgum áhugaverðum viðfangsefnum heimspekinnar, nánar tiltekið þeirrar undirgreinar hennar sem kallast verufræði. Hver er ég? er sú spurning sem nær ef til vill best að fanga þetta vandamál, eða öllu heldur: Hvað er ég? Maðurinn er bæði sál og líkami, en hvernig tengist þetta tvennt? Verður sálin í okkur til dæmis minna mennsk ef líkaminn er háður tækjum til að geta virkað eðlilega, gleraugum, lyfjum, hækjum, gangráðum? Og ef hluti líkamans er tekinn burt – hverfur þá hluti sjálfsins um leið? Í skáldsögunni Slætti eftir Hildi Knútsdóttur er síðarnefnda vandamálið sett í samband við líffæragjafir, eitt af þeim málefnum læknavísindanna sem kalla á fjölbreyttar, siðferðislegar spurningar.

Aðalpersóna sögunnar er Edda, stúlka á þrítugsaldri, sem hefur undirgengist hjartaskiptiaðgerð. Þegar sagan hefst eru um það bil fimm ár liðin frá aðgerðinni; allan þann tíma hefur hjarta úr annarri manneskju slegið í líkama hennar, og oft læðist að henni sá grunur að með nýja hjartanu hafi fylgt nýjar tilfinningar, tilfinningar frá manneskjunni sem átti það á undan henni. Edda er hæglát og innhverf, hún kann miklu betur við að sitja heima á kvöldin og lesa góða bók en að fara út að hitta stráka á skemmtistöðum. Hún er þannig á skjön við umhverfi sitt og passar illa inn í efnishyggjuna og hraðann sem einkennir nútímann. Til að tryggja að sú staðreynd fari ekki fram hjá okkur velur Hildur Knútsdóttir að láta hana starfa á fasteignasölu, vinnustað þar sem æsingur og yfirborðsmennska ræður ríkjum á hverjum degi. Edda er tragísk persóna í þeim skilningi að sem líffæraþegi hefur hún takmarkaðar lífslíkur, en staðreyndin mun vera sú að fólk lifir ekki nema fimmtán ár að jafnaði eftir hjartaígræðslu. Aðgerðin hvílir eins og skuggi yfir tilveru Eddu og setur mark sitt á öll samskipti hennar við aðra. Feigðardóminum fylgir þannig viss uppgjöf þegar kemur að því að tengjast öðru fólki; til hvers að verða ástfanginn ef maður á hvort sem er að deyja fljótlega? Hjartað er bústaður ástarinnar í hefðbundnum skilningi, en ígrætt hjarta getur ekki elskað nema í þann stutta tíma sem hjartaþeganum er úthlutaður.

Skáldsagan Sláttur skiptist niður í snyrtilegar og vel afmarkaðar senur. Sagan um Eddu fléttast saman við annan þráð, söguna um Eystein, sjö ára dreng sem býr yfir dularfullri skyggnigáfu, og framan af er sjónarhorni þeirra tveggja beitt á víxl. Eysteinn er gæddur þeim sérstæða hæfileika að geta séð vettvang voveiflegra atburða í draumi, áður en atburðirnir eiga sér stað. Almennt er það auðvitað ekki góð regla að spyrja um hlutverk efnisþátta í skáldskap, en í sögum þar sem framvindan er höfuðatriðið er það þó vafalaust réttlætanlegt; að því sögðu finnst mér full ástæða til að efast um að þetta daður við dularöflin hafi nokkru hlutverki á að gegna í sögunni. Skyggnigáfukaflarnir eru nánast einum of mikið af því góða, þeir leiða ekki að neinu sem skiptir máli og fjara einhvern veginn út í restina. Eysteinn býr hjá fráskildum föður sem sýnir honum ástúð og kærleika, en hefur þó sjaldan tíma til að sinna honum eftir skóla, svo upptekinn sem hann er í vinnu og kvöldskóla. Örlögin haga því síðan þannig að leiðir Eddu og Eysteins liggja saman, og þannig mætast þessar tvær manneskjur, sem eru báðar vanmegnugar í eigin lífi, hvor á sinn hátt. Edda og Eysteinn eru hjartahreint fólk í hörðum heimi. Sem bókmenntapersónur má því segja að þau jaðri hreinlega við fagurfræði melódramans. Lausnin á sögu þeirra minnir einna helst á sagnabókmenntir nítjándu aldarinnar og gæti nánast verið fengin upp úr sögu eftir Maupassant eða Dickens. Aukapersónurnar eru upp til hópa hálfgerðar steríótýpur og spila frekar einfaldar rullur í samhengi sögunnar.

Sláttur er skemmtilega plottuð samtímasaga og sú mikla samúð sem höfundurinn sýnir persónunum er að vissu leyti grípandi, en kannski óttalega naíf um leið. Eiginlega kemur þetta á óvart; Hildur Knútsdóttir hefur vakið athygli á undanförnum misserum sem bloggari, en rithöfundurinn Hildur er allt önnur týpa, einlægari, lágstemmdari, alvarlegri og alveg laus við þá sprúðlandi kaldhæðni sem er aðalsmerki bloggarans. Um stíl bókarinnar skal ekki fjölyrt; orðalagið er stundum klaufalegt, til dæmis í lok kafla, þar sem smiðshöggið er rekið á senuna. Hefðbundnar stærðir á borð við umhverfislýsingar sem eiga að varpa ljósi á sálrænt ástand eru algengar, en hreyfa sjaldan við manni að neinu marki. Dæmi: „Edda setti símann aftur í töskuna og ræsti bílinn. Sólin sindraði á frosnu malbikinu þegar hún keyrði varlega út á Hringbrautina.“ Textinn nýtur sín betur í samtalsköflunum, þar sem málsnið persónanna er létt og leikandi, og það þyrfti ekki að koma á óvart ef Hildur Knútsdóttir tæki sér fyrir hendur í náinni framtíð að skrifa handrit fyrir leikhús eða kvikmyndir, hún gæti án vafa notið sín vel í slíku samhengi.

Tíðindin við Slátt Hildar Knútsdóttur eru þau að hér er kominn fram höfundur sem kann að setja saman læsilega og spennandi fléttu, en velur að láta glæpasöguna eiga sig. Það er fagnaðarefni út af fyrir sig, og þótt það séu óneitanlega hnökrar á verkinu er það samt vitnisburður um frásagnarkraft í mótun. Strangt til tekið er þetta einær bók og ekki víst að hún komi til með að hafa mikla skírskotun eftir þrjátíu ár, nema sem barn síns tíma. Engu að síður vil ég játa að ég sat við lesturinn uns yfir lauk og gat varla hugsað mér að taka hlé, svo mjög sem mig langaði að vita hvernig leystist úr málum hjá þeim Eddu og Eysteini. Sláttur er sem sagt grípandi bók, svo langt sem hún nær. Ef Hildur Knútsdóttir heldur áfram að rækta sína raunsæislegu frásagnargáfu er það alveg öruggt að hún kemst í fremstu röð áður en langt um líður.

(Víðsjá, 16. júní 2011)