Sarah Bakewell: How to Live

Hjalti Ægisson, september 19, 2011

Hugmyndir eru óútreiknanlegt fyrirbæri. Það að sjá hvar ein hugmynd endar og önnur byrjar er stundum eins og að greina skilin frá gulum yfir í appelsínugulan á litrófi. Oft sprettur sama hugmyndin upp á mörgum stöðum án nokkurra tengsla og þess vegna er sjaldnast hægt að tímasetja upphaf hugmynda með mikilli vissu. Þó er það svo að ein þeirra hugmynda sem eru beinlínis einkennandi fyrir okkar samtíma á sér skýrt upphaf, áreiðanlegan forföður sem var sögulegur einstaklingur af holdi og blóði. Hér er ég að tala um sjálfstjáningu með gagnrýnu ívafi, það að fjalla um atburði úr eigin lífi í rituðu máli og draga af þeim almennar ályktanir um eðli mannsins eða ástandið í heiminum. Það er varla ofmælt að þessi hugmynd sé eins konar kjarni í ritmálsmenningu 21. aldar; í raun mætti segja að hin brotakennda sjálfsævisaga sé áhrifamesta bókmenntagrein aldarinnar hingað til. Síðla árs 2006 valdi bandaríska tímaritið Time mann ársins, líkt og venjan er, og í þetta skiptið var maður ársins þú. Með því var tímaritið vitanlega að viðurkenna þýðingu bloggmenningarinnar, Facebook og Twitter, YouTube og FlickR. Farvegir sjálfstjáningar eru óteljandi nú á dögum, aldrei áður í sögunni hafa jafnmargir persónuleikar öðlast rödd í einu í rituðu máli og myndum. Hver og einn lýsir sjálfum sér og því sem gerir hann sérstakan, og um leið kemur í ljós hvað hann á margt sameiginlegt með öllum hinum.

En sem sagt, það að nota sjálfstjáninguna sem spegil þar sem annað fólk getur séð sitt eigið líf er ekki eitthvað sem hefur alltaf verið til. Þessi hugmynd var fundin upp í Frakklandi á síðari hluta 16. aldar. Höfundur hennar er endurreisnarmaðurinn Michel de Montaigne, maðurinn sem bjó til esseyjuna, nýtt bókmenntaform þar sem sá er ritar hefur sjálfan sig og sitt hversdagslega líf í forgrunni. Þetta þótti samtímamönnum Montaigne að sjálfsögðu óvenjulegt, fram til þessa hafði ekki þótt við hæfi að aðrir en afreksmenn fjölluðu um sjálfa sig í rituðu máli, og þá fyrst og fremst til að lýsa aðdáunarverðum hetjudáðum sínum. Í skrifum Montaigne er lítið fjallað um hetjudáðir en þeim mun meira af hugleiðingum um allt hið smáskrýtna og forvitnilega í daglegu lífi. Montaigne hafði sérstakan áhuga á furðulegu fólki og skringilegum uppákomum, en það furðulegasta af öllu var þó hann sjálfur, að eigin mati. Hann dregur verulega úr vægi stóratburða í samtíma sínum, sem honum hefði þó verið í lófa lagið að fjalla rækilega um, því tíminn sem hann lifir er einn sá skelfilegasti og blóðugasti í gervallri sögu Frakklands, tími trúarstríðanna þar sem kaþólikkar og húgenottar berast á banaspjót. Þessi átök náðu hámarki með Bartólómeusarvígjunum árið 1572, þar sem þúsundir mótmælenda voru strádrepnir á einni nóttu. En þótt Montaigne hafi haft skýra yfirsýn yfir þessa atburði og pólitíkina sem bjó að baki þeim nefnir hann þá varla í ritgerðum sínum, nema helst til að leggja áherslu á hversu litlu máli þeir skipti. „Það er ólíklegt að fólk komi til með að muna eftir því eftir hundrað ár að það hafi verið borgarastríð í Frakklandi á okkar dögum,“ segir hann einhvers staðar. Montaigne var sannkallaður stóumaður, hann var víðlesinn í ritum stóuspekinga fornaldarinnar, manna á borð við Seneca og Markús Árelíus, sem lögðu mikið upp úr því að skoða veruleikann úr fjarlægð. Þótt augnablikið sem við lifum núna sé ömurlegt er það huggun harmi gegn að í kosmísku samhengi er núið óendanlega smátt, og lífið mun áfram ganga sinn vanagang þegar um hægist að nýju.

Sarah Bakewell

Þessi atriði og fleiri sem snerta Michel de Montaigne er að finna í nýlegri ævisögu, How to Live, þar sem lífshlaup hans er rakið með því að lesa esseyjurnar í línulegri tímaröð. Höfundur bókarinnar er enska fræðikonan Sarah Bakewell sem er íslenskum lesendum að góðu kunn, því hún skrifaði bókina The English Dane, ævisögu Jörundar hundadagakonungs, sem Björn Jónsson þýddi á íslensku fyrir nokkrum árum. Titill bókarinnar How to Live, hvernig á að lifa, er lýsandi fyrir áherslurnar í höfundarverki Montaigne. Hann reynir í sífellu að skilgreina mannlega hegðun, en slær þó jafnan úr og í, gefur sig aldeilis ekki út fyrir að vita neitt með fullri vissu, heldur grefur stöðugt undan sínu eigin kennivaldi. Þessi titill endurspeglar þannig ekki neinn siðferðisboðskap, Montaigne leitaðist ekki við að kenna fólki hvernig það ætti að lifa, hann var einfaldlega óstjórnlega forvitinn um hvernig fólk hegðaði sér í raun og veru.

Sarah Bakewell skiptir bók sinni niður í tuttugu kafla, sem hver og einn hefur svar við spurningunni sem yfirskrift. Hvernig á að lifa? Lestu mikið, en gleymdu flestu því sem þú lest. Hvernig á að lifa? Gerðu eitthvað sem enginn hefur gert áður. Hvernig á að lifa? Vertu venjulegur og ófullkominn. Síðastnefnda svarið kallar óneitanlega fram samanburð við annan franskan sjálfsævisöguhöfund, Jean-Jacques Rousseau, en hann er meðal fjölmargra höfunda seinni alda sem Bakewell fjallar um í tengslum við Montaigne. Ólíkari höfunda er vart hægt að hugsa sér; Rousseau er sannfærður og staðfastur, Montaigne fullur af efasemdum. Rousseau lagði höfuðáherslu á að hann væri einstakur og engum líkur, ekki fullkomnari en aðrir menn, heldur einfaldlega sönnun þess að hver manneskja sé sérstök. Montaigne lýsir sjálfum sér þvert á móti sem ofurvenjulegum manni; hann undirstrikar hið dæmigerða í fari sínu og notar sjálfan sig sem módel um mannlega hegðun í almennum skilningi.

Sarah Bakewell slær varla feilnótu í þessari stórfróðlegu og skemmtilegu bók. Hér blandast listilega saman æviferill Montaigne, ritgerðirnar sem hann skrifaði, sögulegt samhengi ritunartímans og svo viðtökur ritgerðanna á seinni öldum. Skrif Montaigne voru litin hornauga af rökhyggjumönnum sautjándu aldarinnar. Descartes þótti lítið til þeirra koma, ekki síst vegna þess að í þeim er engan veginn gert ráð fyrir því að manneskjan sé kóróna sköpunarverksins. Montaigne hafði mikinn áhuga á dýrum og velti vöngum yfir því einhvern tímann, þegar hann skemmti sér við að fylgjast með kettinum sínum, hvort kötturinn væri kannski að skemmta sér við að fylgjast með honum. Á rómantíska tímabilinu komst Montaigne í tísku, menn hrifust af glundroðakenndum stílnum og fyrirferðamiklu sjálfinu, þótt sálarró hans í lífsins ólgusjó hefði ekki sérlega mikla skírskotun. Sarah Bakewell rekur þennan þátt og fleiri í persónuleika Montaigne til atburðar sem segja má að hafi kveikt esseyjuna sem bókmenntaform. Þegar Montaigne var þrítugur missti hann besta vin sinn, Étienne de la Boétie, og þar með opnaðist rými í honum fyrir innri samræður. Ritgerðirnar eru í einhverjum skilningi samtal hans við þennan látna vin; í stað þess að velja hefðbundið form á borð við sendibréfið bjó Montaigne til alveg nýtt form, og fyrir vikið hafa menn fundið til tengsla við hann allar götur síðan.

How to Live er fyrsta flokks ævisaga, það er hrein unun að sjá svo örugg, fræðileg vinnubrögð í einni sæng með svo skemmtilegum og læsilegum frásagnarhætti. Nú í mars hlaut Sarah Bakewell hin virtu ævisagnaverðlaun samtaka bandarískra bókmenntagagnrýnenda, National Book Critics Circle, fyrir bókina, og ekki verður annað séð en að hún sé vel að þeim heiðri komin.

(Víðsjá, 23. júní 2011)