Serdar Özkan: Týnda rósin

Hjalti Ægisson, september 19, 2011

Stundum er bókum lýst þannig að þær séu „hugmyndaríkar“, oftast í jákvæðum skilningi. Orðið getur þó gefið til kynna vissar takmarkanir; hugsunin er þá sú að bók sem er „hugmyndarík“ hafi umfram allt til að bera sniðugar vangaveltur af sviði heimspeki eða siðfræði, en eiginleikum á borð við persónusköpun og stíl sé hins vegar ábótavant. Styrkur slíkra bóka liggur m.ö.o. í þáttum sem eru ekki í einkaeigu skáldskaparins, enda jafnan stutt leið yfir í fræðiritgerðir eða annað efni í rituðu máli sem er fyrst og fremst ætlað til þess að kenna og uppfræða. Skáldsagan Týnda rósin eftir tyrkneska rithöfundinn Serdar Özkan er að vissu leyti einmitt svona bók. Þótt sögupersónurnar í verkinu séu fremur einhliða fígúrur, þá einkennast samtölin á milli þeirra af hugmyndaflugi sem er sérdeilis áhugavert og skemmtilegt aflestrar.

Týnda rósin gerist í Brasilíu og á Tyrklandi, en sögusviðið skiptir í raun litlu máli, því staðarlýsingar eru ekki á dagskrá í þessari sögu. Einu staðirnir sem njóta einhverrar athygli hjá söguhöfundi eru nafnlausir og huglægir, enda er raunsæi ekki markmiðið. Týnda rósin er fantasía, dæmisaga úr draumkenndum veruleika. Sagan hefst á því að aðalpersónan Díana missir móður sína og kemst að því að hún á tvíburasystur sem heitir María og býr einhvers staðar úti í heimi. Hinsta ósk móðurinnar er sú að Díana fari og finni Maríu, en sú leit er rauði þráðurinn í sögunni. Díana leggur upp í langa vegferð sem er um leið leit hennar að sjálfri sér, eins og í öllum góðum ferðasögum. Tvíhyggja er gegnumgangandi stef í þessari bók, markmið leitarinnar er að sameina helmingana tvo, Díönu og Maríu. Þessi tvenndarhugsun birtist í margvíslegum myndum í bókinni; fyrir henni eru m.a. fundin söguleg rök í Postulasögunni, sem er eins konar innblástur að formála og eftirmála verksins. Þegar Páll postuli kom til Efesus að boða kristna trú mætti hann harkalegri andstöðu hjá tilbiðjendum gyðjunnar Artemis, sem var einkar vinsæl í borginni, enda stóð musteri hennar þar. Í samhengi kristniboðsins er Maríu mey teflt fram sem valkosti við Artemis, og þegar vel er að gáð má sjá að þessi andstæðu öfl endurspeglast í nöfnum systranna tveggja í sögu Özkans – „Díana“ er jú rómverska nafnið á Artemis. Undirskipuð tvenna væri þá heiðni og kristni, enda er vel hægt að lesa trúarlega merkingu út úr Týndu rósinni. Meginandstæða sögunnar er þó fólgin í átökum stolts og auðmýktar. Díana er fædd með silfurskeið í munni og nýtur aðdáunar hvar sem hún fer fyrir glæsilegan lífsstíl. Fyrir vikið er hún háð viðurkenningu og blind á sína eigin verðleika. Tvíburasystirin María er hins vegar lítillætið uppmálað, rétt eins og guðsmóðirin, nafna hennar. Leið Díönu til sannra verðmæta felst í því að læra útþurrkun sjálfsins, og í því skyni kemst hún í kynni við Zeynep Hanim, mentorinn í sögunni, virðulega eldri konu sem kann að tala við rósir.

Týnda rósin er táknrænt verk. Söguþráðurinn sem heild er táknsaga um leiðina til sjálfsþekkingar, en auk þess eru ótal tákn innan sögunnar. Þetta er skáldlegt og skemmtilegt, en hefði vafalaust orðið enn áhrifaríkara ef ekki kæmi til sú ríkjandi tilhneiging verksins að túlka táknin um leið og þau dúkka upp, útskýra dulda merkingu í stað þess að leyfa lesandanum að átta sig á henni sjálfur. Það er einhver ókennilegur byrjendabragur á verkinu af þessum sökum, en á móti kemur að táknbeitingin er byggð upp með afar snjöllum og markvissum hætti og allt gengur upp í lokin. Það er ekkert tilviljanakennt í þessari bók og sáralítið sem skiptir ekki máli; fyrir vikið er gaman að lesa hana aftur – atriði sem virðast léttvæg við fyrsta lestur reynast hafa töluvert vægi þegar betur er að gáð. Kjarni sögunnar er kennslustundirnar í rósagarðinum í Istanbúl, þar sem Zeynep Hanim kennir Díönu að tala við rósirnar. Í þessum köflum eru langar einræður um eftirsóknarverða, siðferðilega breytni. Formið er sáraeinfalt, viðræður kennara og nemanda, ekki ósvipað því sem tíðkast í ýmsum spekiritum miðalda. Það er því nauðsynlegt að horfa fram hjá ýmsum veikburða atriðum í sögunni til að komast að kjarnanum í boðskap hennar, en það er engu að síður fyrirhafnarinnar virði. Sem hugleiðing um fánýti hégómans á þessi bók sannarlega erindi við samtímann.

Íslensk þýðing Evu Maríu Hilmarsdóttur er að öllum líkindum unnin upp úr ensku þýðingunni, að minnsta kosti er enski titillinn hafður innan sviga á eftir þeim tyrkneska fremst í bókinni, þar sem upplýsingar um höfundarrétt koma fram. Þetta er þó engin frágangssök, enda hefur höfundurinn, Serdar Özkan, sagt að enska þýðingin sé sama sem jafnrétthá tyrkneska frumtextanum, og hann tók sjálfur virkan þátt í þýðingastarfinu yfir á ensku. Það kemur hins vegar berlega í ljós þegar íslenska þýðingin er lesin að einfaldur stíll er að jafnaði eitthvert flóknasta verkefni sem þýðandinn getur komist í kynni við. Enski textinn er lágstemmdur og blátt áfram, og það er sá íslenski líka að mestu leyti. Hnökrarnir eru þó ekki með öllu fjarri, orðaröðin er stundum stórfurðuleg og enska orðalagið skín sums staðar í gegn. Hugarheimur Díönu er færður í orð á allt að því bernskan hátt til að undirstrika almenna, húmaníska skírskotun sögunnar. Í íslenska textanum verður þetta dálítið flatneskjulegt, t.d. þar sem talað er um Aðra (með stóru A-i), sem sagt umheiminn sem Díana þráir svo heitt að veiti sér viðurkenningu. Vísan sem er leiðarhnoða Díönu í leitinni miklu er þýdd orð fyrir orð og yrði seint flokkuð sem merkilegur skáldskapur í þeirri mynd sem hún birtist hér. Á móti kemur að heildarsvipurinn er sæmilega sterkur og textinn er í þokkalegu jafnvægi. Eva María velur að þýða nöfn allra persóna yfir á íslensku, sem er sjaldgæft í bókmenntaþýðingum nú til dags, en hárrétt ákvörðun í þessu tilviki, enda gefur huglægur stíll sögunnar fullt tilefni til.

Týnda rósin eftir Serdar Özkan kom út á íslensku fyrir síðustu jól en líkt og raunin er  með svo margar bækur týndist hún einhvern veginn alveg í jólabókaflóðinu. Þeir sem rekast á gripinn á næsta útsölumarkaði eru beðnir að hafa augun hjá sér og fletta fyrstu síðunum með opnum huga, því þetta er auðlesin og áhugaverð bók sem gæti hæglega átt eftir að verða uppáhalds hjá einhverjum.

(Víðsjá, 30. júní 2011)