Umberto Eco: Kirkjugarðurinn í Prag

Hjalti Ægisson, september 19, 2011

Það er alkunna, að þar sem landakort og leiðarvísar sagnfræðinnar koma ekki lengur að gagni, þar tekur skáldskapurinn við. Mannkynssagan er svo full af þversögnum, gloppum, ráðgátum og óútskýrðum flækjum að í sumum deildum hennar er ekki grundvöllur fyrir öðru en getgátum. Þetta er þó í sjálfu sér ekki neikvætt; getgátur hafa oft töluvert gildi sem kveikja að frjórri hugsun í sagnfræði, auk þess sem þær geta virkað afhjúpandi á þá sem taka afstöðu til þeirra. Hið sama má segja um fölsunina, en sem heimspekilegt viðfangsefni er fölsunin allrar athygli verð. Falsanir eru ávallt tengdar hagsmunum; fjármunum, völdum eða einhverju öðru. Rannsóknir á fölsunum eru prófsteinn á hæfni þess sem rannsakar, og niðurstöður slíkra rannsókna geta orðið órækur vitnisburður um yfirburðahæfileika viðkomandi. Sú var til dæmis raunin þegar áhrifamesta fölsun allra tíma, Gjöf Konstantínusar, var hrakin á 15. öld af ítalska húmanistanum Lorenzo Valla. Með umfangsmikilli latínukunnáttu sinni tókst Valla að sýna fram á að skjalið, sem var sagt ritað á 4. öld, var að minnsta kosti fjögurhundruð árum yngra. Í þessu skjali lýsir Konstantínus keisari því yfir að hann gefi kirkjunni vesturhluta Rómaveldis. Skjalið var eitt helsta vopn kaþólsku kirkjunnar í baráttunni við veraldlega leiðtoga um völd og áhrif á hámiðöldum, en Lorenzo Valla sýndi fram á að allmörg málfarsatriði í textanum væru auðsjáanlega mun yngri en frá 4. öld.

Í þessu tilviki leiddi rannsókn á fölsun til niðurstöðu sem tók af allan vafa um rökleiðslu og hæfileika rannsakandans, en hitt er þó jafnalgengt að rannsóknir á fölsunum leiði til mistaka og óútskýranlegrar hegðunar hjá þeim sem við þær fást. Þegar fræðimaðurinn stendur frammi fyrir möguleikanum á að gjörbylta þekkingarsamfélaginu með framlagi sínu hefur hann stundum tilhneigingu til þess að horfa fram hjá ýmsu sem stangast á, taka viljann fyrir verkið og seilast of langt til þess að koma hinu falsaða skjali heim og saman við veruleikann. Það er hins vegar öllu sjaldgæfara að fölsun sé notuð í pólitískum tilgangi löngu eftir að hún hefur verið hrakin með óyggjandi hætti. Sú var þó raunin með eitt þekktasta falsplagg síðari tíma, bókina Siðareglur Zíonsöldunga, sem var rituð einhvern tímann seint á 19. öld. Þessi bók er fundargerð frá ímyndaðri ráðstefnu illa innrættra gyðingaleiðtoga, sem undirbúa heimsyfirráð Ísraelsþjóðar. Frásögnin er í 2. persónu fleirtölu og lýsir því í smáatriðum hvernig gyðingar hafi í hyggju að hneppa villutrúarmenn í þrældóm, taka yfir viðskipti á heimsmörkuðum, leggja undir sig fjölmiðlana og fleira eftir því. Írski blaðamaðurinn Philip Graves afhjúpaði bókina sem fölsun í greinaflokki í dagblaðinu Times árið 1921, en hræðsluáróðurinn hafði þó hljómgrunn langt fram eftir öldinni. Í Bandaríkjunum höfðu margir tilhneigingu til að finna orsakatengsl milli gyðingdóms og rússnesku byltingarinnar, og því var oft vísað í Siðareglur Zíonsöldunga í þágu andkommúnískra afla á þriðja áratugnum. Bandaríski iðnjöfurinn Henry Ford lét t.a.m. prenta ritið í enskri þýðingu í hálfri milljón eintaka. Þegar nasistar komust til valda í Þýskalandi var bókin gerð að kennsluefni í barnaskólum, og enn í dag má sjá vísað í Siðareglurnar sem ósvikna, sögulega heimild á vefsíðum öfgasamtaka sem kenna sig við nýnasisma og annan viðlíka ófögnuð.

Umberto Eco

Á síðustu vikum hafa Siðareglur Zíonsöldunga komist í umræðuna á Ítalíu í tengslum við nýjustu skáldsögu rithöfundarins Umberto Eco, sem er mörgum íslenskum lesendum að góðu kunnur fyrir Nafn rósarinnar. Sú bók var fyrsta skáldsaga Eco, en fræðibækur hans og ritgerðasöfn eru orðnar vel á fjórða tug talsins. Nýja skáldsagan heitir Kirkjugarðurinn í Prag og gerist um og eftir miðja nítjándu öld. Hún fjallar um þrjótinn Simone Simonini sem á beinan þátt að ýmsum afdrifaríkustu atburðum aldarinnar; hann fylgir her Garibaldis til Sikileyjar sem njósnari, berst í Parísarkommúnunni 1871 og dregst inn í Dreyfusmálið í lok aldarinnar. Aðalpersónan er skálduð frá rótum, en í bókinni kemur fjöldinn allur af raunverulegu fólki við sögu, þar á meðal ítalski rithöfundurinn Ippolito Nievo, sem var einn áhrifamesti þátttakandinn í sameiningu Ítalíu, franski djöfladýrkandinn Joseph-Antoine Boullan og ungur og upprennandi, austurrískur sálfræðingur að nafni Sigmund Freud.

Simone Simonini elst upp hjá afa sínum, sem er heiftúðugur gyðingahatari. Þegar hann vex úr grasi fær hann vinnu hjá málafærslumanni sem kennir honum að falsa skjöl og ekki líður á löngu uns hann er orðinn flestum fremri í þeirri list. Kunnáttan opnar honum leið inn í störf hjá vinnuveitendum á borð við leyniþjónusturnar á Sardiníu og Prússlandi. Meistaraverkið á ferli hans er þó verkefni sem hann gengur með í maganum árum saman áður en hann hrindir því í framkvæmd og selur hæstbjóðanda, en það er fölsuð fundargerð af ráðstefnu illkvittinna gyðingaleiðtoga sem hann gefur sér að hafi átt sér stað í kirkjugarðinum í Prag. Þannig spinnur Umberto Eco sögu um þann dularfulla mann sem skrifaði Siðareglur Zíonsöldunga, gefur honum nafn og ríkisfang, og fyllir þannig upp í eina af gloppunum sem sagnfræðin hefur ekki reynst megnug að fylla. Með Simone Simonini reynir Eco að hanna einn af bitunum sem vantar í púslið, andhetju sem verður örlagavaldur í sögu Evrópu með því að spinna lygavefi og beita blekkingum.

Kirkjugarðurinn í Prag hefur vakið nokkrar deilur á Ítalíu, enda er sjónarhorn hins miður geðfellda Simone Simonini ríkjandi í verkinu. Skömmu eftir útkomu bókarinnar birtist neikvæður dómur um hana eftir fræðikonuna Lucettu Scaraffia í dagblaðinu Osservatore Romano, sem er hálfopinbert málgagn Vatíkansins. Scaraffia gagnrýnir Eco fyrir þau andgyðinglegu viðhorf sem blasi við á svo gott sem hverri síðu bókarinnar – Eco hamast, að hennar mati, við að sýna hvernig kaþólska kirkjan á nítjándu öld beitti áhrifum sínum leynt og ljóst gegn gyðingum. Þótt gyðingaandúðin í bókinni sé eignuð skálduðum persónum er ekki þar með sagt að Eco geti algjörlega firrt sig ábyrgð á henni – fordómar eru eilífðarviðfangsefni og nútímalesandi hlýtur að meðtaka einhvers konar neikvæð áhrif af lestrinum. Svipað viðhorf mátti lesa í dagblaðinu Espresso, þar sem birt var samtal Umberto Eco og Riccardo di Segni, sem er einn helsti rabbíni Rómaborgar. Di Segni bendir á að gyðingar séu ekki eini hópurinn sem séu sýndir í neikvæðu ljósi í bókinni, hið sama á við um Jesúíta og Frímúrara. Simone Simonini beitir fölsunarhæfileikum sínum til að koma óorði á alla hópana þrjá. Að mati di Segni er þetta vafasamur leikur hjá Eco, með þessu sé hann að leggja gyðinga að jöfnu við pólitískar hreyfingar sem tóku sannarlega þátt í alls kyns valdaplotti á nítjándu öld. Þar sem gyðingahatur sé enn landlægt víða um heim orki þetta hins vegar tvímælis í nútímasamfélagi – það sé hætt við því að andgyðingleg öfl í samtímanum leggi Kirkjugarðinn í Prag út á versta veg og túlki boðskap hennar sér í hag. Umberto Eco svarar þessu á eftirfarandi hátt: „Ég skrifaði skáldsögu, sögu sem er einmitt það, skálduð. Ólíkt fræðiritgerðum kemst hún ekki að neinni einni niðurstöðu heldur bendir hún eingöngu á þversagnirnar. [...] Ég hafði áhuga á því að rekja hvernig gyðinglegar steríótýpur á borð við þær sem sjá má í Siðareglum Zíonsöldunga urðu til og þróuðust á 19. öld. Ég er meðvitaður um margræðnina sem svona frásögn getur haft í för með sér, en mig langaði einfaldlega til að kýla lesandann í magann.“ Og Umberto Eco hafnar þeirri gagnrýni að hann sé að ýta undir gyðingahatur með því að leggja gyðinga á nítjándu öld að jöfnu við klíkur á borð við Jesúíta eða Frímúrara – þetta sýni þvert á móti hvernig hatrið getur tekið á sig ólíkar myndir, þótt það sé alltaf sprottið af sömu rótum. „Mér finnst það augljóst í sögunni hvernig sömu steríótýpurnar sem eru notaðar æ ofan í æ, fyrst gegn Jesúítum, síðan gegn Napóleon þriðja, svo gegn Frímúrurum, koma líka að gagni sem tæki í baráttunni gegn gyðingum. Hugtakaramminn er alltaf sá sami, það er bara skotmarkið sem breytist.“

Þess má geta að lokum að Kirkjugarðurinn í Prag eftir Umberto Eco er ein mest selda bókin á Ítalíu það sem af er þessu ári, og hún hefur líka vakið athygli í Frakklandi og á Spáni. Þeim sem gætu haft áhuga á að lesa verkið á ensku skal bent á að áætlaður útgáfudagur ensku þýðingarinnar er 8. nóvember.

(Víðsjá, 7. júlí 2011)