David Foster Wallace: The Pale King

Hjalti Ægisson, september 20, 2011

Það er eitthvað í tíðarandanum sem kallar á stórar og breiðar skáldsögur, hnausþykka doðranta upp á mörghundruð síður. Slíkar bækur hafa einhvern óútskýranlegan töframátt, þær standa eins og bautasteinar í bókabúðunum þar sem þær eru hafðar til sölu, voldug áminning um að bókmenntirnar skipti enn þá máli, hafi enn þá eitthvað fram að færa. Í okkar netvædda veruleika, þar sem lestur gengur fyrst og fremst út á að fleyta yfirborðið og stikla af einum hálfmeltum bloggpistli til þess næsta – í þannig heimi er skáldsagan áskorun. Þegar ég fletti 2666 eftir Roberto Bolano í fyrsta sinn kviknuðu strax hjá mér vangaveltur um það hvort ég væri maður eða mús, hvort ég hefði í raun burði til að takast á við þennan svakalega múrstein sem bókin er. Hugur minn er svo vanur að flögra um á internetinu að ég þarf að hafa mig allan fram við til að klára heila bók, svo ekki sé talað um þessar tröllvöxnu skáldsögur sem eru iðulega túlkaðar sem flaggskip sagnabókmennta á 21. öld. Skáldsagan Frelsi, Freedom, eftir Jonathan Franzen, er annað dæmi um svona bók – mikið verk sem endurspeglar mikla sagnagáfu. Að því er varðar anglóameríska bókmenntakerfið og væntingar lesenda má segja að það hafi orðið umskipti frá því sem tíðkaðist fyrir þrjátíu árum þegar rithöfundar skrifuðu tálgaðar setningar, smásagan naut vinsælda og mínimalismi að hætti Raymonds Carver var það sem þótti líklegast til virðingarauka.

Í vor birtist skáldsagan The Pale King, síðasta verk bandaríska rithöfundarins David Foster Wallace, sem lést fyrir þremur árum. Þessarar bókar hefur verið beðið með nokkurri eftirvæntingu vestanhafs undanfarin misseri, enda hafði Wallace unnið að henni í átta ár og stundum vísað til hennar beint eða óbeint í viðtölum og greinaskrifum. Wallace var að margra mati einn fremsti höfundur sinnar kynslóðar, fæddur 1962, sama ár og Chuck Palahniuk og Javier Cercas, svo einhverjir séu nefndir. Wallace var sískrifandi og eftir hann liggur allnokkur fjöldi bóka. Sú sem hefur helst haldið nafni hans á lofti hingað til er skáldsagan Endalaust grín, Infinite Jest, sem kom út 1996. Sú saga gerist í nálægri framtíð og fjallar meðal annars um kvikmynd, gamanmynd sem er svo óstjórnlega skemmtileg að áhorfendur bókstaflega sogast inn í hana, dofna og missa áhuga á öllu öðru en því að horfa. Infinite Jest er flókin saga og það er hreint ekki auðvelt að henda reiður á því um hvað hún fjallar, en á einhverju plani er þetta óður David Foster Wallace til skemmtanabransans, vefur hugleiðinga um afþreyinguna og gildi hennar í lífi okkar. Í nýju bókinni, The Pale King, má segja að hann snúi taflinu við, því hér er fjallað um leiðann, það viðkvæma og tárvota skrímsli, sem franska ljóðskáldið Baudelaire lofsöng í ávarpi sínu til lesandans, fremst í ljóðabókinni Blóm hins illa, um miðja nítjándu öld.

Það er ættarmót með þeim Baudelaire og David Foster Wallace; báðir lýsa föllnum heimi þar sem maðurinn eltist í sífelldu við sínar eigin nautnir til að þurfa ekki að horfa inn í hyldýpið sem blundar innra með honum sjálfum. The Pale King gerist árið 1985 og sögusviðið er skattstofan í smábænum Peoria í Illinois, bæ þar sem íbúafjöldinn er svipaður og í Reykjavík. Á þessum stað vinnur fjöldi fólks í umhverfi sem er eins þurrt og ómanneskjulegt og hugsast getur. Eftir því sem sögunni vindur fram fáum við að kynnast þessu fólki, hvaðan það kemur, hvert það stefnir og hvaða hugmyndir það hefur um eigið hlutskipti. Og sínum augum lítur hver silfrið; einn lítur svo á að vinna við skattskýrslur sé rökrétt lausn á þessari yfirþyrmandi flækju sem lífið er, viðleitni til að koma skipulagi á óreiðu. Annar lítur á starfið sem þolraun: „Það að fúnkera í umhverfi þar sem allt lífrænt og mannlegt hefur verið útilokað, er lykillinn að nútímalífi,“ segir hún, þessi nafnlausa persóna. „Ef þú ert ónæmur fyrir leiðanum, þá eru þér allir vegir færir.“ David Foster Wallace velti því fyrir sér einhvers staðar hvers vegna leiðinn sé svo nátengdur andlegum sársauka í hugum flestra. „Kannski er skýringin sú að það sem okkur finnst leiðinlegt og niðurdrepandi býr ekki yfir nægilegri örvun til að leiða hugann frá einhverjum öðrum og dýpri sársauka sem er alltaf til staðar.“

David Foster Wallace stytti sér aldur 12. september 2008, helgina sem Lehmann Brothers urðu gjaldþrota, nokkrum dögum áður en íslenska ríkið þjóðnýtti Glitni. Skáldsagan The Pale King verður alltaf tengd þessari staðreynd; sumir gagnrýnendur hafa jafnvel reynt að ímynda sér að það séu einhver orsakatengsl á milli sjálfsvígsins og þeirrar flækju sem verkið var orðið í höndunum á höfundinum þegar hann kvaddi þennan heim; ógöngur í lífinu hljóti þannig að endurspegla ógöngur á sviði sköpunarinnar. David Foster Wallace barðist við þunglyndi árum saman, en hitt er þó víst að hann átti alltaf í mestu örðugleikum með að klára að skrifa bækurnar sínar. The Pale King er sett saman úr ógrynni handrita, tölvuskjala, dagbóka og minnismiða, efni sem var vel á annað þúsund síður í prentuðum texta, rúmlega þrjúhundruð kaflar. Það kom í hlut útgefandans, Michael Pietsch, að raða brotunum saman, grisja, koma skikki á textann og gefa hann út sem samstæða heild.

Þrátt fyrir þetta er The Pale King alls ekki rökrétt bók, enda er það ekki markmið hennar. Wallace átti sjálfur til að líkja verkum sínum við fellibyl: Þau hrifsa upp hvað sem fyrir verður og þyrla því upp í botnlausa og glundroðakennda hringiðu. Sumir kaflarnir geta staðið sjálfstætt, og það hvernig þeir tengjast hverjir öðrum er að miklu leyti undir túlkun lesandans komið. Þetta er ein af þessum bókum þar sem maður á í mesta basli með að gera upp við sig hvort útkoman sé leiftrandi snilld eða tilgerðarlegt málæði. Kannski var það einmitt þannig sem fólki leið árið 1922 þegar Ódysseifur eftir James Joyce kom út – sögulega fjarlægðin gerir okkur núna kleift að afgreiða þá bók sem stórvirki. The Pale King er enn þá ráðgáta í þessum skilningi, og hún gerir sannarlega kröfur til lesandans. Wallace lagðist í umfangsmikla rannsóknarvinnu á meðan á skriftunum stóð, hann sat t.a.m. námskeið um skatta og bókhald til að geta fjallað um efnið á nógu sannfærandi hátt. Það er öruggt að Wallace var að fara eitthvert með þessu verki, en hvert hann var að fara er alls ekki ljóst. Nú í sumar hefur fjöldi lesenda farið höndum um bókina, brotið heilann og tjáð sig um hugmyndaheim hennar í rituðu máli. Flestir eru sammála um að þetta sé ekki skemmtileg bók í hefðbundnum skilningi, en það sé þó eitthvað sérlega heillandi við að kynnast öllu fólkinu sem hér birtist og hverfur með litlum eða engum fyrirvara. The Pale King er lokapunktur á ferli höfundar sem hefur þegar fengið útnefningu sem brautryðjandi í bandarískum sagnabókmenntum. Hvort sú skilgreining er réttmæt verður svo einfaldlega að koma í ljós.

(Víðsjá, 4. ágúst 2011)