Téa Obreht: The Tiger's Wife

Hjalti Ægisson, september 20, 2011

Nú í haust verða fimmtíu ár liðin frá því að júgóslavneski rithöfundurinn Ivo Andric hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels. Í þakkarræðunni sem Andric hélt þegar hann tók við verðlaununum sagði hann meðal annars: „Stundum mætti sannfærast um að frá því að mannkynið vaknaði til vitundar um sjálft sig hafi það verið að segja sjálfu sér sömu söguna öld eftir öld, þó í óendanlega mörgum tilbrigðum, í takt við eigin andardrátt og hjartslátt. Og segja má að eftir fordæmi hinnar goðsagnakenndu og málsnjöllu Sjerasade sé það hlutverk þessarar sögu að bægja böðlinum frá, að tefja fyrir þeim óumflýjanlega úrskurði sem ógnar okkur, og að framlengja tálsýn lífsins og tímans.“

Það er ljóst að hér talar rithöfundur sem er meðvitaður um sitt eigið, pólitíska hlutverk. Andric líkir starfi sagnaskáldsins við úrræði persnesku prinsessunnar Sjerasade í Þúsund og einni nótt, stúlkunnar sem frestaði eigin aftöku með því að segja konunginum sögur á hverju kvöldi. Ekkert er fullyrt í rökstuðningi Nóbelsnefndarinnar um pólitískan tilgang Ivo Andric sem rithöfundar, enda slík umræða kannski ekki við hæfi í því samhengi. Í seinni tíð er sú túlkun þó almennt viðurkennd að Andric hafi haft eitt markmið umfram önnur með bókum sínum. Þetta markmið var eining Júgóslavíu, sú viðleitni að halda þjóðum Balkanskaga sameinuðum í einu ríki og tryggja þannig frið á svæðinu. Sameinuð Júgóslavía var líka hagsmunamál Vesturveldanna mestalla 20. öldina, fyrst sem mótvægi við nasismann í Þýskalandi og síðar sem mótvægi við Sovétríki kaldastríðstímans. Bandaríkin og ríki Vestur-Evrópu veittu Júgóslavíu umtalsverða fjárhagsaðstoð lengi vel, og segja má að þá viðurkenningu sem fólst í því að veita Ivo Andric Nóbelsverðlaunin sé hægt að leggja að jöfnu við slíka aðstoð. Bandaríkjastjórn reyndi hvað hún gat til að koma í veg fyrir sovésk áhrif á Balkanskaga, en þegar Sovétríkin liðuðust í sundur árið 1991 höfðu þeir ekki lengur neina ástæðu til að halda fjárstuðningum við Júgóslavíu áfram. Í kjölfarið fóru svo þjóðirnar að lýsa yfir sjálfstæði ein af annarri: Slóvenía og Króatía árið 1991 og Bosnía árið 1992. Fyrri tvær þjóðirnar urðu sjálfstæðar á friðsamlegan hátt en þegar Bosnía lýsti yfir sjálfstæði braust út stríð. Böðlinum varð ekki bægt frá lengur og boðskapurinn úr Nóbelsræðu Ivo Andric var ekki framar á dagskrá.

Þegar stríðið í Bosníu braust út flúði fjöldi óbreyttra borgara úr landinu. Á meðal þeirra var sjö ára stúlka, Téa Obreht, sem bjó með fjölskyldu sinni næstu árin á Kýpur og í Egyptalandi, en flutti til Bandaríkjanna um tólf ára aldur, og þar hefur hún búið síðan. Fyrr á þessu ári sendi hún frá sér frumraun sína á sviði skáldsagnagerðar, bókina Kona tígursins, The Tiger’s Wife, sem byggir á atburðum í hennar gamla heimalandi. Það er óhætt að segja að Konu tígursins hafi verið hampað mjög síðustu vikurnar, enda er hér um að ræða bók sem er óvenju þroskuð og áhrifamikil miðað við að vera fyrsta verk höfundar sem er ekki nema tuttugu og fimm ára. Téa Obreht fjallar öðrum þræði um ástandið á Balkanskaga í fortíð og nútíð, en hún spinnur jafnframt þjóðsögur og munnmæli inn í verkið. Að því leyti má segja að hún líkist nóbelsskáldinu Ivo Andric, en þekktasta bók hans, Brúin á Drínu, byggir að miklu leyti á þjóðsögum, sem hann notar til að rekja líf fólksins á Balkanskaga í gegnum aldirnar.

Kona tígursins fjallar um Nataliu, ungan lækni á ferðalagi með starfssystur sinni. Þær fara til smábæjar sem var einu sinni í þeirra heimalandi, en tilheyrir nú sérstöku sjálfsstjórnarsvæði. Tilgangur ferðarinnar er að bólusetja fátæk börn; í farangursgeymslunni í bílnum eru lyf og bóluefni sem landamæraverðirnir mega ekki snerta þótt þeim sé mikið í mun að gera heimsókn þessara aðkomumanna sem tortryggilegasta. Á leiðinni hringir Natalia heim og fréttir að afi hennar sé dáinn eftir baráttu við krabbamein. Í kjölfarið leitar hugur hennar til afa síns, mannsins sem var henni kærkomnari en flestir aðrir, og sagan flakkar á milli nútíðar og fortíðar, fantastískra minningabrota og lifaðs veruleika. Afi Nataliu var enn á barnsaldri þegar þýski loftherinn varpaði sprengjum á Belgrad á páskadag 1941. Dýragarður borgarinnar varð illa úti í þessari árás, dýrin trylltust af hræðslu og runnu á flótta úr rústunum. Þar á meðal var tígrisdýr sem flúði borgina og gerði vart við sig nokkrum mánuðum síðar í þorpinu Galina. Þorpsbúarnir urðu skelfingu lostnir, en drengurinn, sem síðar varð afi Nataliu, heillast af þessu máttuga og töfrum slungna dýri. Hann kannast við fyrirbærið úr uppáhaldsbókinni sinni, Frumskógarbókinni eftir Rudyard Kipling, riti sem hann gengur með á sér alla ævina, og hefur sem eins konar leiðarljós og minningu um bernskuna. Seinna les hann fyrir Nataliu upp úr þessari bók, og það er í sögustundunum sem þau tengjast sínum órjúfanlegu böndum. Natalia er sögumaðurinn í Konu tígursins og strax í öðrum kafla segir hún: „Allt sem þarf til að skilja afa minn felst í tveimur sögum: Sögunni um konu tígursins og sögunni um manninn sem gat ekki dáið. Þessar sögur flæða eins og dularfljót í gegnum allar aðrar sögur í lífi hans.“

Téa Obreht rekur þessar tvær lykilsögur, og margar fleiri í bók sinni, Konu tígursins. Hún sækir, líkt og áður segir, mikið til munnlegrar frásagnarhefðar, sem hefur öldum saman verið ríkuleg á Balkanskaga. Sagan gerist í ónefndu landi sem er í sárum eftir borgarastríð, en ýmsir þræðir úr fortíðinni fléttast saman við meginfrásögnina. Það eru ótal hliðarspor og útúrdúrar í þessari bók, fegurð hennar felst í frávikum frá því sem venjulega kallast rauði þráðurinn, og fyrir vikið er þetta langt í frá hefðbundin stríðssaga. Obreht tekur þá ákvörðun að vísa ekki til raunverulegra einstaklinga eða staða í bókinni, enda er það ekki markmið þessarar sögu að vera innlegg í pólitískt uppgjör eða umræðu um ástand mála á Balkanskaga. Bókin er sjálfsævisöguleg upp að vissu marki, og Téa Obreht hefur lýst henni sem eins konar hugleiðingu um bernskuárin. Hún bindur sig þó ekki of fast við staðreyndir. Í viðtölum um bókina hefur hún oft nefnt hvernig hún leyfði hugarfluginu að taka völdin við skrifin. Þessari skáldsögu er gjarnan lýst með skírskotun til töfraraunsæis, listastefnu sem á rætur að rekja til Suður-Ameríku, og felst í því að blanda yfirnáttúrulegum atburðum átakalaust saman við raunsæislega frásögn, lýsa töfrum eins og þeir séu fullkomlega eðlilegir. Fjöldi dularfullra persóna kemur við sögu í bók Obreht, en titillinn vísar til konu sem er mállaus og heyrnarlaus, var svívirt af eiginmanni sínum en endurnýjar líf sitt í frumskóginum þar sem hún býr með tígrisdýri.

Þess verður vonandi ekki langt að bíða að Kona tígursins verði gerð aðgengileg í íslenskri þýðingu. Það má hins vegar nefna í lokin að nú fyrir jólin birtist íslensk þýðing bókar sem er ein af undirstöðunum í verki Téu Obreht. Þetta er Frumskógarbókin eftir Rudyard Kipling, sem kom út í listilegri þýðingu Böðvars Guðmundssonar. Sú bók er vitanlega skyldulesning fyrir alla sanna aðdáendur tígrisdýra.

(Víðsjá, 21. júlí 2011)