Category: Uncategorized

David Foster Wallace: The Pale King

Hjalti Ægisson, september 20, 2011

Það er eitthvað í tíðarandanum sem kallar á stórar og breiðar skáldsögur, hnausþykka doðranta upp á mörghundruð síður. Slíkar bækur hafa einhvern óútskýranlegan töframátt, þær standa eins og bautasteinar í bókabúðunum þar sem þær eru hafðar til sölu, voldug áminning um að bókmenntirnar skipti enn þá máli, hafi enn þá eitthvað fram að færa. Í okkar netvædda veruleika, þar sem lestur gengur fyrst og fremst út á að fleyta yfirborðið og stikla af einum hálfmeltum bloggpistli til þess næsta – í þannig heimi er skáldsagan áskorun. Þegar ég fletti 2666 eftir Roberto Bolano í fyrsta sinn kviknuðu strax hjá mér vangaveltur um það hvort ég væri maður eða mús, hvort ég hefði í raun burði til að takast á við þennan svakalega múrstein sem bókin er. Hugur minn er svo vanur að flögra um á internetinu að ég þarf að hafa mig allan fram við til að klára heila bók, svo ekki sé talað um þessar tröllvöxnu skáldsögur sem eru iðulega túlkaðar sem flaggskip sagnabókmennta á 21. öld. Skáldsagan Frelsi, Freedom, eftir Jonathan Franzen, er annað dæmi um svona bók – mikið verk sem endurspeglar mikla sagnagáfu. Að því er varðar anglóameríska bókmenntakerfið og væntingar lesenda má segja að það hafi orðið umskipti frá því sem tíðkaðist fyrir þrjátíu árum þegar rithöfundar skrifuðu tálgaðar setningar, smásagan naut vinsælda og mínimalismi að hætti Raymonds Carver var það sem þótti líklegast til virðingarauka.

Í vor birtist skáldsagan The Pale King, síðasta verk bandaríska rithöfundarins David Foster Wallace, sem lést fyrir þremur árum. Þessarar bókar hefur verið beðið með nokkurri eftirvæntingu vestanhafs undanfarin misseri, enda hafði Wallace unnið að henni í átta ár og stundum vísað til hennar beint eða óbeint í viðtölum og greinaskrifum. Wallace var að margra mati einn fremsti höfundur sinnar kynslóðar, fæddur 1962, sama ár og Chuck Palahniuk og Javier Cercas, svo einhverjir séu nefndir. Wallace var sískrifandi og eftir hann liggur allnokkur fjöldi bóka. Sú sem hefur helst haldið nafni hans á lofti hingað til er skáldsagan Endalaust grín, Infinite Jest, sem kom út 1996. Sú saga gerist í nálægri framtíð og fjallar meðal annars um kvikmynd, gamanmynd sem er svo óstjórnlega skemmtileg að áhorfendur bókstaflega sogast inn í hana, dofna og missa áhuga á öllu öðru en því að horfa. Infinite Jest er flókin saga og það er hreint ekki auðvelt að henda reiður á því um hvað hún fjallar, en á einhverju plani er þetta óður David Foster Wallace til skemmtanabransans, vefur hugleiðinga um afþreyinguna og gildi hennar í lífi okkar. Í nýju bókinni, The Pale King, má segja að hann snúi taflinu við, því hér er fjallað um leiðann, það viðkvæma og tárvota skrímsli, sem franska ljóðskáldið Baudelaire lofsöng í ávarpi sínu til lesandans, fremst í ljóðabókinni Blóm hins illa, um miðja nítjándu öld.

Það er ættarmót með þeim Baudelaire og David Foster Wallace; báðir lýsa föllnum heimi þar sem maðurinn eltist í sífelldu við sínar eigin nautnir til að þurfa ekki að horfa inn í hyldýpið sem blundar innra með honum sjálfum. The Pale King gerist árið 1985 og sögusviðið er skattstofan í smábænum Peoria í Illinois, bæ þar sem íbúafjöldinn er svipaður og í Reykjavík. Á þessum stað vinnur fjöldi fólks í umhverfi sem er eins þurrt og ómanneskjulegt og hugsast getur. Eftir því sem sögunni vindur fram fáum við að kynnast þessu fólki, hvaðan það kemur, hvert það stefnir og hvaða hugmyndir það hefur um eigið hlutskipti. Og sínum augum lítur hver silfrið; einn lítur svo á að vinna við skattskýrslur sé rökrétt lausn á þessari yfirþyrmandi flækju sem lífið er, viðleitni til að koma skipulagi á óreiðu. Annar lítur á starfið sem þolraun: „Það að fúnkera í umhverfi þar sem allt lífrænt og mannlegt hefur verið útilokað, er lykillinn að nútímalífi,“ segir hún, þessi nafnlausa persóna. „Ef þú ert ónæmur fyrir leiðanum, þá eru þér allir vegir færir.“ David Foster Wallace velti því fyrir sér einhvers staðar hvers vegna leiðinn sé svo nátengdur andlegum sársauka í hugum flestra. „Kannski er skýringin sú að það sem okkur finnst leiðinlegt og niðurdrepandi býr ekki yfir nægilegri örvun til að leiða hugann frá einhverjum öðrum og dýpri sársauka sem er alltaf til staðar.“

David Foster Wallace stytti sér aldur 12. september 2008, helgina sem Lehmann Brothers urðu gjaldþrota, nokkrum dögum áður en íslenska ríkið þjóðnýtti Glitni. Skáldsagan The Pale King verður alltaf tengd þessari staðreynd; sumir gagnrýnendur hafa jafnvel reynt að ímynda sér að það séu einhver orsakatengsl á milli sjálfsvígsins og þeirrar flækju sem verkið var orðið í höndunum á höfundinum þegar hann kvaddi þennan heim; ógöngur í lífinu hljóti þannig að endurspegla ógöngur á sviði sköpunarinnar. David Foster Wallace barðist við þunglyndi árum saman, en hitt er þó víst að hann átti alltaf í mestu örðugleikum með að klára að skrifa bækurnar sínar. The Pale King er sett saman úr ógrynni handrita, tölvuskjala, dagbóka og minnismiða, efni sem var vel á annað þúsund síður í prentuðum texta, rúmlega þrjúhundruð kaflar. Það kom í hlut útgefandans, Michael Pietsch, að raða brotunum saman, grisja, koma skikki á textann og gefa hann út sem samstæða heild.

Þrátt fyrir þetta er The Pale King alls ekki rökrétt bók, enda er það ekki markmið hennar. Wallace átti sjálfur til að líkja verkum sínum við fellibyl: Þau hrifsa upp hvað sem fyrir verður og þyrla því upp í botnlausa og glundroðakennda hringiðu. Sumir kaflarnir geta staðið sjálfstætt, og það hvernig þeir tengjast hverjir öðrum er að miklu leyti undir túlkun lesandans komið. Þetta er ein af þessum bókum þar sem maður á í mesta basli með að gera upp við sig hvort útkoman sé leiftrandi snilld eða tilgerðarlegt málæði. Kannski var það einmitt þannig sem fólki leið árið 1922 þegar Ódysseifur eftir James Joyce kom út – sögulega fjarlægðin gerir okkur núna kleift að afgreiða þá bók sem stórvirki. The Pale King er enn þá ráðgáta í þessum skilningi, og hún gerir sannarlega kröfur til lesandans. Wallace lagðist í umfangsmikla rannsóknarvinnu á meðan á skriftunum stóð, hann sat t.a.m. námskeið um skatta og bókhald til að geta fjallað um efnið á nógu sannfærandi hátt. Það er öruggt að Wallace var að fara eitthvert með þessu verki, en hvert hann var að fara er alls ekki ljóst. Nú í sumar hefur fjöldi lesenda farið höndum um bókina, brotið heilann og tjáð sig um hugmyndaheim hennar í rituðu máli. Flestir eru sammála um að þetta sé ekki skemmtileg bók í hefðbundnum skilningi, en það sé þó eitthvað sérlega heillandi við að kynnast öllu fólkinu sem hér birtist og hverfur með litlum eða engum fyrirvara. The Pale King er lokapunktur á ferli höfundar sem hefur þegar fengið útnefningu sem brautryðjandi í bandarískum sagnabókmenntum. Hvort sú skilgreining er réttmæt verður svo einfaldlega að koma í ljós.

(Víðsjá, 4. ágúst 2011)

Téa Obreht: The Tiger's Wife

Hjalti Ægisson, september 20, 2011

Nú í haust verða fimmtíu ár liðin frá því að júgóslavneski rithöfundurinn Ivo Andric hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels. Í þakkarræðunni sem Andric hélt þegar hann tók við verðlaununum sagði hann meðal annars: „Stundum mætti sannfærast um að frá því að mannkynið vaknaði til vitundar um sjálft sig hafi það verið að segja sjálfu sér sömu söguna öld eftir öld, þó í óendanlega mörgum tilbrigðum, í takt við eigin andardrátt og hjartslátt. Og segja má að eftir fordæmi hinnar goðsagnakenndu og málsnjöllu Sjerasade sé það hlutverk þessarar sögu að bægja böðlinum frá, að tefja fyrir þeim óumflýjanlega úrskurði sem ógnar okkur, og að framlengja tálsýn lífsins og tímans.“

Það er ljóst að hér talar rithöfundur sem er meðvitaður um sitt eigið, pólitíska hlutverk. Andric líkir starfi sagnaskáldsins við úrræði persnesku prinsessunnar Sjerasade í Þúsund og einni nótt, stúlkunnar sem frestaði eigin aftöku með því að segja konunginum sögur á hverju kvöldi. Ekkert er fullyrt í rökstuðningi Nóbelsnefndarinnar um pólitískan tilgang Ivo Andric sem rithöfundar, enda slík umræða kannski ekki við hæfi í því samhengi. Í seinni tíð er sú túlkun þó almennt viðurkennd að Andric hafi haft eitt markmið umfram önnur með bókum sínum. Þetta markmið var eining Júgóslavíu, sú viðleitni að halda þjóðum Balkanskaga sameinuðum í einu ríki og tryggja þannig frið á svæðinu. Sameinuð Júgóslavía var líka hagsmunamál Vesturveldanna mestalla 20. öldina, fyrst sem mótvægi við nasismann í Þýskalandi og síðar sem mótvægi við Sovétríki kaldastríðstímans. Bandaríkin og ríki Vestur-Evrópu veittu Júgóslavíu umtalsverða fjárhagsaðstoð lengi vel, og segja má að þá viðurkenningu sem fólst í því að veita Ivo Andric Nóbelsverðlaunin sé hægt að leggja að jöfnu við slíka aðstoð. Bandaríkjastjórn reyndi hvað hún gat til að koma í veg fyrir sovésk áhrif á Balkanskaga, en þegar Sovétríkin liðuðust í sundur árið 1991 höfðu þeir ekki lengur neina ástæðu til að halda fjárstuðningum við Júgóslavíu áfram. Í kjölfarið fóru svo þjóðirnar að lýsa yfir sjálfstæði ein af annarri: Slóvenía og Króatía árið 1991 og Bosnía árið 1992. Fyrri tvær þjóðirnar urðu sjálfstæðar á friðsamlegan hátt en þegar Bosnía lýsti yfir sjálfstæði braust út stríð. Böðlinum varð ekki bægt frá lengur og boðskapurinn úr Nóbelsræðu Ivo Andric var ekki framar á dagskrá.

Þegar stríðið í Bosníu braust út flúði fjöldi óbreyttra borgara úr landinu. Á meðal þeirra var sjö ára stúlka, Téa Obreht, sem bjó með fjölskyldu sinni næstu árin á Kýpur og í Egyptalandi, en flutti til Bandaríkjanna um tólf ára aldur, og þar hefur hún búið síðan. Fyrr á þessu ári sendi hún frá sér frumraun sína á sviði skáldsagnagerðar, bókina Kona tígursins, The Tiger’s Wife, sem byggir á atburðum í hennar gamla heimalandi. Það er óhætt að segja að Konu tígursins hafi verið hampað mjög síðustu vikurnar, enda er hér um að ræða bók sem er óvenju þroskuð og áhrifamikil miðað við að vera fyrsta verk höfundar sem er ekki nema tuttugu og fimm ára. Téa Obreht fjallar öðrum þræði um ástandið á Balkanskaga í fortíð og nútíð, en hún spinnur jafnframt þjóðsögur og munnmæli inn í verkið. Að því leyti má segja að hún líkist nóbelsskáldinu Ivo Andric, en þekktasta bók hans, Brúin á Drínu, byggir að miklu leyti á þjóðsögum, sem hann notar til að rekja líf fólksins á Balkanskaga í gegnum aldirnar.

Kona tígursins fjallar um Nataliu, ungan lækni á ferðalagi með starfssystur sinni. Þær fara til smábæjar sem var einu sinni í þeirra heimalandi, en tilheyrir nú sérstöku sjálfsstjórnarsvæði. Tilgangur ferðarinnar er að bólusetja fátæk börn; í farangursgeymslunni í bílnum eru lyf og bóluefni sem landamæraverðirnir mega ekki snerta þótt þeim sé mikið í mun að gera heimsókn þessara aðkomumanna sem tortryggilegasta. Á leiðinni hringir Natalia heim og fréttir að afi hennar sé dáinn eftir baráttu við krabbamein. Í kjölfarið leitar hugur hennar til afa síns, mannsins sem var henni kærkomnari en flestir aðrir, og sagan flakkar á milli nútíðar og fortíðar, fantastískra minningabrota og lifaðs veruleika. Afi Nataliu var enn á barnsaldri þegar þýski loftherinn varpaði sprengjum á Belgrad á páskadag 1941. Dýragarður borgarinnar varð illa úti í þessari árás, dýrin trylltust af hræðslu og runnu á flótta úr rústunum. Þar á meðal var tígrisdýr sem flúði borgina og gerði vart við sig nokkrum mánuðum síðar í þorpinu Galina. Þorpsbúarnir urðu skelfingu lostnir, en drengurinn, sem síðar varð afi Nataliu, heillast af þessu máttuga og töfrum slungna dýri. Hann kannast við fyrirbærið úr uppáhaldsbókinni sinni, Frumskógarbókinni eftir Rudyard Kipling, riti sem hann gengur með á sér alla ævina, og hefur sem eins konar leiðarljós og minningu um bernskuna. Seinna les hann fyrir Nataliu upp úr þessari bók, og það er í sögustundunum sem þau tengjast sínum órjúfanlegu böndum. Natalia er sögumaðurinn í Konu tígursins og strax í öðrum kafla segir hún: „Allt sem þarf til að skilja afa minn felst í tveimur sögum: Sögunni um konu tígursins og sögunni um manninn sem gat ekki dáið. Þessar sögur flæða eins og dularfljót í gegnum allar aðrar sögur í lífi hans.“

Téa Obreht rekur þessar tvær lykilsögur, og margar fleiri í bók sinni, Konu tígursins. Hún sækir, líkt og áður segir, mikið til munnlegrar frásagnarhefðar, sem hefur öldum saman verið ríkuleg á Balkanskaga. Sagan gerist í ónefndu landi sem er í sárum eftir borgarastríð, en ýmsir þræðir úr fortíðinni fléttast saman við meginfrásögnina. Það eru ótal hliðarspor og útúrdúrar í þessari bók, fegurð hennar felst í frávikum frá því sem venjulega kallast rauði þráðurinn, og fyrir vikið er þetta langt í frá hefðbundin stríðssaga. Obreht tekur þá ákvörðun að vísa ekki til raunverulegra einstaklinga eða staða í bókinni, enda er það ekki markmið þessarar sögu að vera innlegg í pólitískt uppgjör eða umræðu um ástand mála á Balkanskaga. Bókin er sjálfsævisöguleg upp að vissu marki, og Téa Obreht hefur lýst henni sem eins konar hugleiðingu um bernskuárin. Hún bindur sig þó ekki of fast við staðreyndir. Í viðtölum um bókina hefur hún oft nefnt hvernig hún leyfði hugarfluginu að taka völdin við skrifin. Þessari skáldsögu er gjarnan lýst með skírskotun til töfraraunsæis, listastefnu sem á rætur að rekja til Suður-Ameríku, og felst í því að blanda yfirnáttúrulegum atburðum átakalaust saman við raunsæislega frásögn, lýsa töfrum eins og þeir séu fullkomlega eðlilegir. Fjöldi dularfullra persóna kemur við sögu í bók Obreht, en titillinn vísar til konu sem er mállaus og heyrnarlaus, var svívirt af eiginmanni sínum en endurnýjar líf sitt í frumskóginum þar sem hún býr með tígrisdýri.

Þess verður vonandi ekki langt að bíða að Kona tígursins verði gerð aðgengileg í íslenskri þýðingu. Það má hins vegar nefna í lokin að nú fyrir jólin birtist íslensk þýðing bókar sem er ein af undirstöðunum í verki Téu Obreht. Þetta er Frumskógarbókin eftir Rudyard Kipling, sem kom út í listilegri þýðingu Böðvars Guðmundssonar. Sú bók er vitanlega skyldulesning fyrir alla sanna aðdáendur tígrisdýra.

(Víðsjá, 21. júlí 2011)

Umberto Eco: Kirkjugarðurinn í Prag

Hjalti Ægisson, september 19, 2011

Það er alkunna, að þar sem landakort og leiðarvísar sagnfræðinnar koma ekki lengur að gagni, þar tekur skáldskapurinn við. Mannkynssagan er svo full af þversögnum, gloppum, ráðgátum og óútskýrðum flækjum að í sumum deildum hennar er ekki grundvöllur fyrir öðru en getgátum. Þetta er þó í sjálfu sér ekki neikvætt; getgátur hafa oft töluvert gildi sem kveikja að frjórri hugsun í sagnfræði, auk þess sem þær geta virkað afhjúpandi á þá sem taka afstöðu til þeirra. Hið sama má segja um fölsunina, en sem heimspekilegt viðfangsefni er fölsunin allrar athygli verð. Falsanir eru ávallt tengdar hagsmunum; fjármunum, völdum eða einhverju öðru. Rannsóknir á fölsunum eru prófsteinn á hæfni þess sem rannsakar, og niðurstöður slíkra rannsókna geta orðið órækur vitnisburður um yfirburðahæfileika viðkomandi. Sú var til dæmis raunin þegar áhrifamesta fölsun allra tíma, Gjöf Konstantínusar, var hrakin á 15. öld af ítalska húmanistanum Lorenzo Valla. Með umfangsmikilli latínukunnáttu sinni tókst Valla að sýna fram á að skjalið, sem var sagt ritað á 4. öld, var að minnsta kosti fjögurhundruð árum yngra. Í þessu skjali lýsir Konstantínus keisari því yfir að hann gefi kirkjunni vesturhluta Rómaveldis. Skjalið var eitt helsta vopn kaþólsku kirkjunnar í baráttunni við veraldlega leiðtoga um völd og áhrif á hámiðöldum, en Lorenzo Valla sýndi fram á að allmörg málfarsatriði í textanum væru auðsjáanlega mun yngri en frá 4. öld.

Í þessu tilviki leiddi rannsókn á fölsun til niðurstöðu sem tók af allan vafa um rökleiðslu og hæfileika rannsakandans, en hitt er þó jafnalgengt að rannsóknir á fölsunum leiði til mistaka og óútskýranlegrar hegðunar hjá þeim sem við þær fást. Þegar fræðimaðurinn stendur frammi fyrir möguleikanum á að gjörbylta þekkingarsamfélaginu með framlagi sínu hefur hann stundum tilhneigingu til þess að horfa fram hjá ýmsu sem stangast á, taka viljann fyrir verkið og seilast of langt til þess að koma hinu falsaða skjali heim og saman við veruleikann. Það er hins vegar öllu sjaldgæfara að fölsun sé notuð í pólitískum tilgangi löngu eftir að hún hefur verið hrakin með óyggjandi hætti. Sú var þó raunin með eitt þekktasta falsplagg síðari tíma, bókina Siðareglur Zíonsöldunga, sem var rituð einhvern tímann seint á 19. öld. Þessi bók er fundargerð frá ímyndaðri ráðstefnu illa innrættra gyðingaleiðtoga, sem undirbúa heimsyfirráð Ísraelsþjóðar. Frásögnin er í 2. persónu fleirtölu og lýsir því í smáatriðum hvernig gyðingar hafi í hyggju að hneppa villutrúarmenn í þrældóm, taka yfir viðskipti á heimsmörkuðum, leggja undir sig fjölmiðlana og fleira eftir því. Írski blaðamaðurinn Philip Graves afhjúpaði bókina sem fölsun í greinaflokki í dagblaðinu Times árið 1921, en hræðsluáróðurinn hafði þó hljómgrunn langt fram eftir öldinni. Í Bandaríkjunum höfðu margir tilhneigingu til að finna orsakatengsl milli gyðingdóms og rússnesku byltingarinnar, og því var oft vísað í Siðareglur Zíonsöldunga í þágu andkommúnískra afla á þriðja áratugnum. Bandaríski iðnjöfurinn Henry Ford lét t.a.m. prenta ritið í enskri þýðingu í hálfri milljón eintaka. Þegar nasistar komust til valda í Þýskalandi var bókin gerð að kennsluefni í barnaskólum, og enn í dag má sjá vísað í Siðareglurnar sem ósvikna, sögulega heimild á vefsíðum öfgasamtaka sem kenna sig við nýnasisma og annan viðlíka ófögnuð.

Umberto Eco

Á síðustu vikum hafa Siðareglur Zíonsöldunga komist í umræðuna á Ítalíu í tengslum við nýjustu skáldsögu rithöfundarins Umberto Eco, sem er mörgum íslenskum lesendum að góðu kunnur fyrir Nafn rósarinnar. Sú bók var fyrsta skáldsaga Eco, en fræðibækur hans og ritgerðasöfn eru orðnar vel á fjórða tug talsins. Nýja skáldsagan heitir Kirkjugarðurinn í Prag og gerist um og eftir miðja nítjándu öld. Hún fjallar um þrjótinn Simone Simonini sem á beinan þátt að ýmsum afdrifaríkustu atburðum aldarinnar; hann fylgir her Garibaldis til Sikileyjar sem njósnari, berst í Parísarkommúnunni 1871 og dregst inn í Dreyfusmálið í lok aldarinnar. Aðalpersónan er skálduð frá rótum, en í bókinni kemur fjöldinn allur af raunverulegu fólki við sögu, þar á meðal ítalski rithöfundurinn Ippolito Nievo, sem var einn áhrifamesti þátttakandinn í sameiningu Ítalíu, franski djöfladýrkandinn Joseph-Antoine Boullan og ungur og upprennandi, austurrískur sálfræðingur að nafni Sigmund Freud.

Simone Simonini elst upp hjá afa sínum, sem er heiftúðugur gyðingahatari. Þegar hann vex úr grasi fær hann vinnu hjá málafærslumanni sem kennir honum að falsa skjöl og ekki líður á löngu uns hann er orðinn flestum fremri í þeirri list. Kunnáttan opnar honum leið inn í störf hjá vinnuveitendum á borð við leyniþjónusturnar á Sardiníu og Prússlandi. Meistaraverkið á ferli hans er þó verkefni sem hann gengur með í maganum árum saman áður en hann hrindir því í framkvæmd og selur hæstbjóðanda, en það er fölsuð fundargerð af ráðstefnu illkvittinna gyðingaleiðtoga sem hann gefur sér að hafi átt sér stað í kirkjugarðinum í Prag. Þannig spinnur Umberto Eco sögu um þann dularfulla mann sem skrifaði Siðareglur Zíonsöldunga, gefur honum nafn og ríkisfang, og fyllir þannig upp í eina af gloppunum sem sagnfræðin hefur ekki reynst megnug að fylla. Með Simone Simonini reynir Eco að hanna einn af bitunum sem vantar í púslið, andhetju sem verður örlagavaldur í sögu Evrópu með því að spinna lygavefi og beita blekkingum.

Kirkjugarðurinn í Prag hefur vakið nokkrar deilur á Ítalíu, enda er sjónarhorn hins miður geðfellda Simone Simonini ríkjandi í verkinu. Skömmu eftir útkomu bókarinnar birtist neikvæður dómur um hana eftir fræðikonuna Lucettu Scaraffia í dagblaðinu Osservatore Romano, sem er hálfopinbert málgagn Vatíkansins. Scaraffia gagnrýnir Eco fyrir þau andgyðinglegu viðhorf sem blasi við á svo gott sem hverri síðu bókarinnar – Eco hamast, að hennar mati, við að sýna hvernig kaþólska kirkjan á nítjándu öld beitti áhrifum sínum leynt og ljóst gegn gyðingum. Þótt gyðingaandúðin í bókinni sé eignuð skálduðum persónum er ekki þar með sagt að Eco geti algjörlega firrt sig ábyrgð á henni – fordómar eru eilífðarviðfangsefni og nútímalesandi hlýtur að meðtaka einhvers konar neikvæð áhrif af lestrinum. Svipað viðhorf mátti lesa í dagblaðinu Espresso, þar sem birt var samtal Umberto Eco og Riccardo di Segni, sem er einn helsti rabbíni Rómaborgar. Di Segni bendir á að gyðingar séu ekki eini hópurinn sem séu sýndir í neikvæðu ljósi í bókinni, hið sama á við um Jesúíta og Frímúrara. Simone Simonini beitir fölsunarhæfileikum sínum til að koma óorði á alla hópana þrjá. Að mati di Segni er þetta vafasamur leikur hjá Eco, með þessu sé hann að leggja gyðinga að jöfnu við pólitískar hreyfingar sem tóku sannarlega þátt í alls kyns valdaplotti á nítjándu öld. Þar sem gyðingahatur sé enn landlægt víða um heim orki þetta hins vegar tvímælis í nútímasamfélagi – það sé hætt við því að andgyðingleg öfl í samtímanum leggi Kirkjugarðinn í Prag út á versta veg og túlki boðskap hennar sér í hag. Umberto Eco svarar þessu á eftirfarandi hátt: „Ég skrifaði skáldsögu, sögu sem er einmitt það, skálduð. Ólíkt fræðiritgerðum kemst hún ekki að neinni einni niðurstöðu heldur bendir hún eingöngu á þversagnirnar. [...] Ég hafði áhuga á því að rekja hvernig gyðinglegar steríótýpur á borð við þær sem sjá má í Siðareglum Zíonsöldunga urðu til og þróuðust á 19. öld. Ég er meðvitaður um margræðnina sem svona frásögn getur haft í för með sér, en mig langaði einfaldlega til að kýla lesandann í magann.“ Og Umberto Eco hafnar þeirri gagnrýni að hann sé að ýta undir gyðingahatur með því að leggja gyðinga á nítjándu öld að jöfnu við klíkur á borð við Jesúíta eða Frímúrara – þetta sýni þvert á móti hvernig hatrið getur tekið á sig ólíkar myndir, þótt það sé alltaf sprottið af sömu rótum. „Mér finnst það augljóst í sögunni hvernig sömu steríótýpurnar sem eru notaðar æ ofan í æ, fyrst gegn Jesúítum, síðan gegn Napóleon þriðja, svo gegn Frímúrurum, koma líka að gagni sem tæki í baráttunni gegn gyðingum. Hugtakaramminn er alltaf sá sami, það er bara skotmarkið sem breytist.“

Þess má geta að lokum að Kirkjugarðurinn í Prag eftir Umberto Eco er ein mest selda bókin á Ítalíu það sem af er þessu ári, og hún hefur líka vakið athygli í Frakklandi og á Spáni. Þeim sem gætu haft áhuga á að lesa verkið á ensku skal bent á að áætlaður útgáfudagur ensku þýðingarinnar er 8. nóvember.

(Víðsjá, 7. júlí 2011)

Serdar Özkan: Týnda rósin

Hjalti Ægisson, september 19, 2011

Stundum er bókum lýst þannig að þær séu „hugmyndaríkar“, oftast í jákvæðum skilningi. Orðið getur þó gefið til kynna vissar takmarkanir; hugsunin er þá sú að bók sem er „hugmyndarík“ hafi umfram allt til að bera sniðugar vangaveltur af sviði heimspeki eða siðfræði, en eiginleikum á borð við persónusköpun og stíl sé hins vegar ábótavant. Styrkur slíkra bóka liggur m.ö.o. í þáttum sem eru ekki í einkaeigu skáldskaparins, enda jafnan stutt leið yfir í fræðiritgerðir eða annað efni í rituðu máli sem er fyrst og fremst ætlað til þess að kenna og uppfræða. Skáldsagan Týnda rósin eftir tyrkneska rithöfundinn Serdar Özkan er að vissu leyti einmitt svona bók. Þótt sögupersónurnar í verkinu séu fremur einhliða fígúrur, þá einkennast samtölin á milli þeirra af hugmyndaflugi sem er sérdeilis áhugavert og skemmtilegt aflestrar.

Týnda rósin gerist í Brasilíu og á Tyrklandi, en sögusviðið skiptir í raun litlu máli, því staðarlýsingar eru ekki á dagskrá í þessari sögu. Einu staðirnir sem njóta einhverrar athygli hjá söguhöfundi eru nafnlausir og huglægir, enda er raunsæi ekki markmiðið. Týnda rósin er fantasía, dæmisaga úr draumkenndum veruleika. Sagan hefst á því að aðalpersónan Díana missir móður sína og kemst að því að hún á tvíburasystur sem heitir María og býr einhvers staðar úti í heimi. Hinsta ósk móðurinnar er sú að Díana fari og finni Maríu, en sú leit er rauði þráðurinn í sögunni. Díana leggur upp í langa vegferð sem er um leið leit hennar að sjálfri sér, eins og í öllum góðum ferðasögum. Tvíhyggja er gegnumgangandi stef í þessari bók, markmið leitarinnar er að sameina helmingana tvo, Díönu og Maríu. Þessi tvenndarhugsun birtist í margvíslegum myndum í bókinni; fyrir henni eru m.a. fundin söguleg rök í Postulasögunni, sem er eins konar innblástur að formála og eftirmála verksins. Þegar Páll postuli kom til Efesus að boða kristna trú mætti hann harkalegri andstöðu hjá tilbiðjendum gyðjunnar Artemis, sem var einkar vinsæl í borginni, enda stóð musteri hennar þar. Í samhengi kristniboðsins er Maríu mey teflt fram sem valkosti við Artemis, og þegar vel er að gáð má sjá að þessi andstæðu öfl endurspeglast í nöfnum systranna tveggja í sögu Özkans – „Díana“ er jú rómverska nafnið á Artemis. Undirskipuð tvenna væri þá heiðni og kristni, enda er vel hægt að lesa trúarlega merkingu út úr Týndu rósinni. Meginandstæða sögunnar er þó fólgin í átökum stolts og auðmýktar. Díana er fædd með silfurskeið í munni og nýtur aðdáunar hvar sem hún fer fyrir glæsilegan lífsstíl. Fyrir vikið er hún háð viðurkenningu og blind á sína eigin verðleika. Tvíburasystirin María er hins vegar lítillætið uppmálað, rétt eins og guðsmóðirin, nafna hennar. Leið Díönu til sannra verðmæta felst í því að læra útþurrkun sjálfsins, og í því skyni kemst hún í kynni við Zeynep Hanim, mentorinn í sögunni, virðulega eldri konu sem kann að tala við rósir.

Týnda rósin er táknrænt verk. Söguþráðurinn sem heild er táknsaga um leiðina til sjálfsþekkingar, en auk þess eru ótal tákn innan sögunnar. Þetta er skáldlegt og skemmtilegt, en hefði vafalaust orðið enn áhrifaríkara ef ekki kæmi til sú ríkjandi tilhneiging verksins að túlka táknin um leið og þau dúkka upp, útskýra dulda merkingu í stað þess að leyfa lesandanum að átta sig á henni sjálfur. Það er einhver ókennilegur byrjendabragur á verkinu af þessum sökum, en á móti kemur að táknbeitingin er byggð upp með afar snjöllum og markvissum hætti og allt gengur upp í lokin. Það er ekkert tilviljanakennt í þessari bók og sáralítið sem skiptir ekki máli; fyrir vikið er gaman að lesa hana aftur – atriði sem virðast léttvæg við fyrsta lestur reynast hafa töluvert vægi þegar betur er að gáð. Kjarni sögunnar er kennslustundirnar í rósagarðinum í Istanbúl, þar sem Zeynep Hanim kennir Díönu að tala við rósirnar. Í þessum köflum eru langar einræður um eftirsóknarverða, siðferðilega breytni. Formið er sáraeinfalt, viðræður kennara og nemanda, ekki ósvipað því sem tíðkast í ýmsum spekiritum miðalda. Það er því nauðsynlegt að horfa fram hjá ýmsum veikburða atriðum í sögunni til að komast að kjarnanum í boðskap hennar, en það er engu að síður fyrirhafnarinnar virði. Sem hugleiðing um fánýti hégómans á þessi bók sannarlega erindi við samtímann.

Íslensk þýðing Evu Maríu Hilmarsdóttur er að öllum líkindum unnin upp úr ensku þýðingunni, að minnsta kosti er enski titillinn hafður innan sviga á eftir þeim tyrkneska fremst í bókinni, þar sem upplýsingar um höfundarrétt koma fram. Þetta er þó engin frágangssök, enda hefur höfundurinn, Serdar Özkan, sagt að enska þýðingin sé sama sem jafnrétthá tyrkneska frumtextanum, og hann tók sjálfur virkan þátt í þýðingastarfinu yfir á ensku. Það kemur hins vegar berlega í ljós þegar íslenska þýðingin er lesin að einfaldur stíll er að jafnaði eitthvert flóknasta verkefni sem þýðandinn getur komist í kynni við. Enski textinn er lágstemmdur og blátt áfram, og það er sá íslenski líka að mestu leyti. Hnökrarnir eru þó ekki með öllu fjarri, orðaröðin er stundum stórfurðuleg og enska orðalagið skín sums staðar í gegn. Hugarheimur Díönu er færður í orð á allt að því bernskan hátt til að undirstrika almenna, húmaníska skírskotun sögunnar. Í íslenska textanum verður þetta dálítið flatneskjulegt, t.d. þar sem talað er um Aðra (með stóru A-i), sem sagt umheiminn sem Díana þráir svo heitt að veiti sér viðurkenningu. Vísan sem er leiðarhnoða Díönu í leitinni miklu er þýdd orð fyrir orð og yrði seint flokkuð sem merkilegur skáldskapur í þeirri mynd sem hún birtist hér. Á móti kemur að heildarsvipurinn er sæmilega sterkur og textinn er í þokkalegu jafnvægi. Eva María velur að þýða nöfn allra persóna yfir á íslensku, sem er sjaldgæft í bókmenntaþýðingum nú til dags, en hárrétt ákvörðun í þessu tilviki, enda gefur huglægur stíll sögunnar fullt tilefni til.

Týnda rósin eftir Serdar Özkan kom út á íslensku fyrir síðustu jól en líkt og raunin er  með svo margar bækur týndist hún einhvern veginn alveg í jólabókaflóðinu. Þeir sem rekast á gripinn á næsta útsölumarkaði eru beðnir að hafa augun hjá sér og fletta fyrstu síðunum með opnum huga, því þetta er auðlesin og áhugaverð bók sem gæti hæglega átt eftir að verða uppáhalds hjá einhverjum.

(Víðsjá, 30. júní 2011)

Sarah Bakewell: How to Live

Hjalti Ægisson, september 19, 2011

Hugmyndir eru óútreiknanlegt fyrirbæri. Það að sjá hvar ein hugmynd endar og önnur byrjar er stundum eins og að greina skilin frá gulum yfir í appelsínugulan á litrófi. Oft sprettur sama hugmyndin upp á mörgum stöðum án nokkurra tengsla og þess vegna er sjaldnast hægt að tímasetja upphaf hugmynda með mikilli vissu. Þó er það svo að ein þeirra hugmynda sem eru beinlínis einkennandi fyrir okkar samtíma á sér skýrt upphaf, áreiðanlegan forföður sem var sögulegur einstaklingur af holdi og blóði. Hér er ég að tala um sjálfstjáningu með gagnrýnu ívafi, það að fjalla um atburði úr eigin lífi í rituðu máli og draga af þeim almennar ályktanir um eðli mannsins eða ástandið í heiminum. Það er varla ofmælt að þessi hugmynd sé eins konar kjarni í ritmálsmenningu 21. aldar; í raun mætti segja að hin brotakennda sjálfsævisaga sé áhrifamesta bókmenntagrein aldarinnar hingað til. Síðla árs 2006 valdi bandaríska tímaritið Time mann ársins, líkt og venjan er, og í þetta skiptið var maður ársins þú. Með því var tímaritið vitanlega að viðurkenna þýðingu bloggmenningarinnar, Facebook og Twitter, YouTube og FlickR. Farvegir sjálfstjáningar eru óteljandi nú á dögum, aldrei áður í sögunni hafa jafnmargir persónuleikar öðlast rödd í einu í rituðu máli og myndum. Hver og einn lýsir sjálfum sér og því sem gerir hann sérstakan, og um leið kemur í ljós hvað hann á margt sameiginlegt með öllum hinum.

En sem sagt, það að nota sjálfstjáninguna sem spegil þar sem annað fólk getur séð sitt eigið líf er ekki eitthvað sem hefur alltaf verið til. Þessi hugmynd var fundin upp í Frakklandi á síðari hluta 16. aldar. Höfundur hennar er endurreisnarmaðurinn Michel de Montaigne, maðurinn sem bjó til esseyjuna, nýtt bókmenntaform þar sem sá er ritar hefur sjálfan sig og sitt hversdagslega líf í forgrunni. Þetta þótti samtímamönnum Montaigne að sjálfsögðu óvenjulegt, fram til þessa hafði ekki þótt við hæfi að aðrir en afreksmenn fjölluðu um sjálfa sig í rituðu máli, og þá fyrst og fremst til að lýsa aðdáunarverðum hetjudáðum sínum. Í skrifum Montaigne er lítið fjallað um hetjudáðir en þeim mun meira af hugleiðingum um allt hið smáskrýtna og forvitnilega í daglegu lífi. Montaigne hafði sérstakan áhuga á furðulegu fólki og skringilegum uppákomum, en það furðulegasta af öllu var þó hann sjálfur, að eigin mati. Hann dregur verulega úr vægi stóratburða í samtíma sínum, sem honum hefði þó verið í lófa lagið að fjalla rækilega um, því tíminn sem hann lifir er einn sá skelfilegasti og blóðugasti í gervallri sögu Frakklands, tími trúarstríðanna þar sem kaþólikkar og húgenottar berast á banaspjót. Þessi átök náðu hámarki með Bartólómeusarvígjunum árið 1572, þar sem þúsundir mótmælenda voru strádrepnir á einni nóttu. En þótt Montaigne hafi haft skýra yfirsýn yfir þessa atburði og pólitíkina sem bjó að baki þeim nefnir hann þá varla í ritgerðum sínum, nema helst til að leggja áherslu á hversu litlu máli þeir skipti. „Það er ólíklegt að fólk komi til með að muna eftir því eftir hundrað ár að það hafi verið borgarastríð í Frakklandi á okkar dögum,“ segir hann einhvers staðar. Montaigne var sannkallaður stóumaður, hann var víðlesinn í ritum stóuspekinga fornaldarinnar, manna á borð við Seneca og Markús Árelíus, sem lögðu mikið upp úr því að skoða veruleikann úr fjarlægð. Þótt augnablikið sem við lifum núna sé ömurlegt er það huggun harmi gegn að í kosmísku samhengi er núið óendanlega smátt, og lífið mun áfram ganga sinn vanagang þegar um hægist að nýju.

Sarah Bakewell

Þessi atriði og fleiri sem snerta Michel de Montaigne er að finna í nýlegri ævisögu, How to Live, þar sem lífshlaup hans er rakið með því að lesa esseyjurnar í línulegri tímaröð. Höfundur bókarinnar er enska fræðikonan Sarah Bakewell sem er íslenskum lesendum að góðu kunn, því hún skrifaði bókina The English Dane, ævisögu Jörundar hundadagakonungs, sem Björn Jónsson þýddi á íslensku fyrir nokkrum árum. Titill bókarinnar How to Live, hvernig á að lifa, er lýsandi fyrir áherslurnar í höfundarverki Montaigne. Hann reynir í sífellu að skilgreina mannlega hegðun, en slær þó jafnan úr og í, gefur sig aldeilis ekki út fyrir að vita neitt með fullri vissu, heldur grefur stöðugt undan sínu eigin kennivaldi. Þessi titill endurspeglar þannig ekki neinn siðferðisboðskap, Montaigne leitaðist ekki við að kenna fólki hvernig það ætti að lifa, hann var einfaldlega óstjórnlega forvitinn um hvernig fólk hegðaði sér í raun og veru.

Sarah Bakewell skiptir bók sinni niður í tuttugu kafla, sem hver og einn hefur svar við spurningunni sem yfirskrift. Hvernig á að lifa? Lestu mikið, en gleymdu flestu því sem þú lest. Hvernig á að lifa? Gerðu eitthvað sem enginn hefur gert áður. Hvernig á að lifa? Vertu venjulegur og ófullkominn. Síðastnefnda svarið kallar óneitanlega fram samanburð við annan franskan sjálfsævisöguhöfund, Jean-Jacques Rousseau, en hann er meðal fjölmargra höfunda seinni alda sem Bakewell fjallar um í tengslum við Montaigne. Ólíkari höfunda er vart hægt að hugsa sér; Rousseau er sannfærður og staðfastur, Montaigne fullur af efasemdum. Rousseau lagði höfuðáherslu á að hann væri einstakur og engum líkur, ekki fullkomnari en aðrir menn, heldur einfaldlega sönnun þess að hver manneskja sé sérstök. Montaigne lýsir sjálfum sér þvert á móti sem ofurvenjulegum manni; hann undirstrikar hið dæmigerða í fari sínu og notar sjálfan sig sem módel um mannlega hegðun í almennum skilningi.

Sarah Bakewell slær varla feilnótu í þessari stórfróðlegu og skemmtilegu bók. Hér blandast listilega saman æviferill Montaigne, ritgerðirnar sem hann skrifaði, sögulegt samhengi ritunartímans og svo viðtökur ritgerðanna á seinni öldum. Skrif Montaigne voru litin hornauga af rökhyggjumönnum sautjándu aldarinnar. Descartes þótti lítið til þeirra koma, ekki síst vegna þess að í þeim er engan veginn gert ráð fyrir því að manneskjan sé kóróna sköpunarverksins. Montaigne hafði mikinn áhuga á dýrum og velti vöngum yfir því einhvern tímann, þegar hann skemmti sér við að fylgjast með kettinum sínum, hvort kötturinn væri kannski að skemmta sér við að fylgjast með honum. Á rómantíska tímabilinu komst Montaigne í tísku, menn hrifust af glundroðakenndum stílnum og fyrirferðamiklu sjálfinu, þótt sálarró hans í lífsins ólgusjó hefði ekki sérlega mikla skírskotun. Sarah Bakewell rekur þennan þátt og fleiri í persónuleika Montaigne til atburðar sem segja má að hafi kveikt esseyjuna sem bókmenntaform. Þegar Montaigne var þrítugur missti hann besta vin sinn, Étienne de la Boétie, og þar með opnaðist rými í honum fyrir innri samræður. Ritgerðirnar eru í einhverjum skilningi samtal hans við þennan látna vin; í stað þess að velja hefðbundið form á borð við sendibréfið bjó Montaigne til alveg nýtt form, og fyrir vikið hafa menn fundið til tengsla við hann allar götur síðan.

How to Live er fyrsta flokks ævisaga, það er hrein unun að sjá svo örugg, fræðileg vinnubrögð í einni sæng með svo skemmtilegum og læsilegum frásagnarhætti. Nú í mars hlaut Sarah Bakewell hin virtu ævisagnaverðlaun samtaka bandarískra bókmenntagagnrýnenda, National Book Critics Circle, fyrir bókina, og ekki verður annað séð en að hún sé vel að þeim heiðri komin.

(Víðsjá, 23. júní 2011)

Hildur Knútsdóttir: Sláttur

Hjalti Ægisson, september 19, 2011

Vandamálið um mörk sjálfsins er eitt af fjölmörgum áhugaverðum viðfangsefnum heimspekinnar, nánar tiltekið þeirrar undirgreinar hennar sem kallast verufræði. Hver er ég? er sú spurning sem nær ef til vill best að fanga þetta vandamál, eða öllu heldur: Hvað er ég? Maðurinn er bæði sál og líkami, en hvernig tengist þetta tvennt? Verður sálin í okkur til dæmis minna mennsk ef líkaminn er háður tækjum til að geta virkað eðlilega, gleraugum, lyfjum, hækjum, gangráðum? Og ef hluti líkamans er tekinn burt – hverfur þá hluti sjálfsins um leið? Í skáldsögunni Slætti eftir Hildi Knútsdóttur er síðarnefnda vandamálið sett í samband við líffæragjafir, eitt af þeim málefnum læknavísindanna sem kalla á fjölbreyttar, siðferðislegar spurningar.

Aðalpersóna sögunnar er Edda, stúlka á þrítugsaldri, sem hefur undirgengist hjartaskiptiaðgerð. Þegar sagan hefst eru um það bil fimm ár liðin frá aðgerðinni; allan þann tíma hefur hjarta úr annarri manneskju slegið í líkama hennar, og oft læðist að henni sá grunur að með nýja hjartanu hafi fylgt nýjar tilfinningar, tilfinningar frá manneskjunni sem átti það á undan henni. Edda er hæglát og innhverf, hún kann miklu betur við að sitja heima á kvöldin og lesa góða bók en að fara út að hitta stráka á skemmtistöðum. Hún er þannig á skjön við umhverfi sitt og passar illa inn í efnishyggjuna og hraðann sem einkennir nútímann. Til að tryggja að sú staðreynd fari ekki fram hjá okkur velur Hildur Knútsdóttir að láta hana starfa á fasteignasölu, vinnustað þar sem æsingur og yfirborðsmennska ræður ríkjum á hverjum degi. Edda er tragísk persóna í þeim skilningi að sem líffæraþegi hefur hún takmarkaðar lífslíkur, en staðreyndin mun vera sú að fólk lifir ekki nema fimmtán ár að jafnaði eftir hjartaígræðslu. Aðgerðin hvílir eins og skuggi yfir tilveru Eddu og setur mark sitt á öll samskipti hennar við aðra. Feigðardóminum fylgir þannig viss uppgjöf þegar kemur að því að tengjast öðru fólki; til hvers að verða ástfanginn ef maður á hvort sem er að deyja fljótlega? Hjartað er bústaður ástarinnar í hefðbundnum skilningi, en ígrætt hjarta getur ekki elskað nema í þann stutta tíma sem hjartaþeganum er úthlutaður.

Skáldsagan Sláttur skiptist niður í snyrtilegar og vel afmarkaðar senur. Sagan um Eddu fléttast saman við annan þráð, söguna um Eystein, sjö ára dreng sem býr yfir dularfullri skyggnigáfu, og framan af er sjónarhorni þeirra tveggja beitt á víxl. Eysteinn er gæddur þeim sérstæða hæfileika að geta séð vettvang voveiflegra atburða í draumi, áður en atburðirnir eiga sér stað. Almennt er það auðvitað ekki góð regla að spyrja um hlutverk efnisþátta í skáldskap, en í sögum þar sem framvindan er höfuðatriðið er það þó vafalaust réttlætanlegt; að því sögðu finnst mér full ástæða til að efast um að þetta daður við dularöflin hafi nokkru hlutverki á að gegna í sögunni. Skyggnigáfukaflarnir eru nánast einum of mikið af því góða, þeir leiða ekki að neinu sem skiptir máli og fjara einhvern veginn út í restina. Eysteinn býr hjá fráskildum föður sem sýnir honum ástúð og kærleika, en hefur þó sjaldan tíma til að sinna honum eftir skóla, svo upptekinn sem hann er í vinnu og kvöldskóla. Örlögin haga því síðan þannig að leiðir Eddu og Eysteins liggja saman, og þannig mætast þessar tvær manneskjur, sem eru báðar vanmegnugar í eigin lífi, hvor á sinn hátt. Edda og Eysteinn eru hjartahreint fólk í hörðum heimi. Sem bókmenntapersónur má því segja að þau jaðri hreinlega við fagurfræði melódramans. Lausnin á sögu þeirra minnir einna helst á sagnabókmenntir nítjándu aldarinnar og gæti nánast verið fengin upp úr sögu eftir Maupassant eða Dickens. Aukapersónurnar eru upp til hópa hálfgerðar steríótýpur og spila frekar einfaldar rullur í samhengi sögunnar.

Sláttur er skemmtilega plottuð samtímasaga og sú mikla samúð sem höfundurinn sýnir persónunum er að vissu leyti grípandi, en kannski óttalega naíf um leið. Eiginlega kemur þetta á óvart; Hildur Knútsdóttir hefur vakið athygli á undanförnum misserum sem bloggari, en rithöfundurinn Hildur er allt önnur týpa, einlægari, lágstemmdari, alvarlegri og alveg laus við þá sprúðlandi kaldhæðni sem er aðalsmerki bloggarans. Um stíl bókarinnar skal ekki fjölyrt; orðalagið er stundum klaufalegt, til dæmis í lok kafla, þar sem smiðshöggið er rekið á senuna. Hefðbundnar stærðir á borð við umhverfislýsingar sem eiga að varpa ljósi á sálrænt ástand eru algengar, en hreyfa sjaldan við manni að neinu marki. Dæmi: „Edda setti símann aftur í töskuna og ræsti bílinn. Sólin sindraði á frosnu malbikinu þegar hún keyrði varlega út á Hringbrautina.“ Textinn nýtur sín betur í samtalsköflunum, þar sem málsnið persónanna er létt og leikandi, og það þyrfti ekki að koma á óvart ef Hildur Knútsdóttir tæki sér fyrir hendur í náinni framtíð að skrifa handrit fyrir leikhús eða kvikmyndir, hún gæti án vafa notið sín vel í slíku samhengi.

Tíðindin við Slátt Hildar Knútsdóttur eru þau að hér er kominn fram höfundur sem kann að setja saman læsilega og spennandi fléttu, en velur að láta glæpasöguna eiga sig. Það er fagnaðarefni út af fyrir sig, og þótt það séu óneitanlega hnökrar á verkinu er það samt vitnisburður um frásagnarkraft í mótun. Strangt til tekið er þetta einær bók og ekki víst að hún komi til með að hafa mikla skírskotun eftir þrjátíu ár, nema sem barn síns tíma. Engu að síður vil ég játa að ég sat við lesturinn uns yfir lauk og gat varla hugsað mér að taka hlé, svo mjög sem mig langaði að vita hvernig leystist úr málum hjá þeim Eddu og Eysteini. Sláttur er sem sagt grípandi bók, svo langt sem hún nær. Ef Hildur Knútsdóttir heldur áfram að rækta sína raunsæislegu frásagnargáfu er það alveg öruggt að hún kemst í fremstu röð áður en langt um líður.

(Víðsjá, 16. júní 2011)

Ágúst Borgþór Sverrisson: Stolnar stundir

Hjalti Ægisson, september 19, 2011

Að lokum göngum við öll út í sama myrkrið. En sum okkar halda á vit þess í lífinu. Veljum dauðann fram yfir lífið vegna þess að hann ginnir okkur, birtist í líki löngunar. Dagdraumar eru falsboð dauðans. Lífið og birtan búa í hljómfalli daganna, í skylduverkum og sjálfleysi. Myrkrið og dauðinn búa í sjálfinu, lífið og guð í sjálfleysinu.

Nei, kæru hlustendur, þetta er hvorki úr handbók Epíktets né Vídalínspostillu, heldur nýrri skáldsögu eftir Ágúst Borgþór Sverrisson, Stolnar stundir. Stíll verksins í heild er að vísu ekki jafn háfleygur og þessi klausa gefur til kynna heldur mun hversdagslegri, enda er þetta saga úr hversdagsleikanum. Hófstillt orðaval, eignarfallseinkunnir og stirðbusalegar talmáls-eftirlíkingar eru helstu einkenni textans, það er helst að maður vakni til lífsins þegar brestur á með Caps Lock-i, til dæmis þegar upphrópanir eða geðshræring persóna eru táknaðar. Hvers kyns fullyrðingar um fágaðan og meitlaðan stíl Ágústs Borgþórs sem sagnahöfundar eru því stórlega ýktar ef marka má þessa bók, sem hefur engin veruleg einkenni fágunar, hvorki í orðfari né söguþræði. Það er þó ekki þar með sagt að tilraunin sé með öllu misheppnuð; Ágústi Borgþór tekst stundum að hitta naglann á höfuðið, enda er hann þaulreyndur samfélagsrýnir og bloggari til margra ára.

Stolnar stundir gerist árið 2007 og fjallar um Þóri, skrifstofublók sem vinnur á þýðingastofu en vann áður á auglýsingastofu. Nýja starfið á betur við hann, honum finnst þægilegt að vinna við eitthvað vélrænt eins og þýðingar nytjatexta; auglýsingagerð er aftur á móti krefjandi hugmyndavinna sem útheimtir að maður gefi sig allan í starfið. Þórir vinnur á uppmælingu og með því að sleppa hádegismat og kaffipásum tekst honum oft að ljúka dagsverkinu nokkrum klukkustundum fyrir áætlaðan tíma. Þannig tekst honum að skapa sér millibil milli vinnu og fjölskyldulífs, svigrúm fyrir stundir þar sem hann er einn með hugsunum sínum. Þetta eru stolnu stundirnar sem bókin heitir eftir; þjófnaðarlíkingin er aðalsögupersónunni ofarlega í huga, hann er haldinn mikilli sektarkennd yfir þessu atferli sínu og finnst hann vera að stela tímanum frá eiginkonu sinni og börnum. Einveran er Þóri hins vegar nauðsynleg, hann notar tímann gjarnan til að setjast inn á kaffihús og skrifa nafnlausa pistla á bloggsíðu sem enginn veit af nema hann sjálfur. Í heimi upplýsinga og áreitis eru möguleikar mannsins á því að öðlast hugarró háðir nýstárlegum úrlausnum eins og þessari; leiðin til hjálpræðis felst í undarlegri blöndu af játningu og opinberun. Hugsanir Þóris eru í einhverjum skilningi ekki orðnar til fyrr en þær hafa verið birtar á internetinu, og að sjálfsögðu kviknar hjá honum draumur um að gerast rithöfundur. Ímynd rithöfundarins er hér áþekk því sem tíðkast hefur í sumum fyrri bókum Ágústs Borgþórs, t.d. þeirri síðustu, Hliðarspori, sem kom út fyrir fjórum árum. Rithöfundarnir í þessum sagnaheimi eru ekki gæddir sérlega djúpri ástríðu eða umhugað um að koma einhverjum skilaboðum áleiðis með verkum sínum. Líf þeirra er þvert á móti leit að áhugaverðu söguefni, eltingarleikur við lífsreynslu sem gæti gagnast sem hráefni í skáldverk. Eins og gefur að skilja er þetta ekki sérlega áhugaverð nálgun á ritstörfin, bókmenntirnar verða að handverki þar sem dýptina og hugmyndirnar skortir. En þegar lífið er einn samfelldur hversdagsleiki leitar Þórir á ný mið til að útvíkka reynsluheim sinn. Lausnin í  hans tilviki er framhjáhald, sem þarf ekki að koma á óvart, enda er það efni eitt af leiðarstefjunum í höfundarverki Ágústs Borgþórs. Símtal í vitlaust símanúmer leiðir til þess að tvær manneskjur kynnast, og það kemur á daginn að þau hafa átt við svipuð vandamál að stríða um sína daga.

Ég er engan veginn fyrstur til þess að benda á að höfundarverk Ágústs Borgþórs er ekki að fullu skiljanlegt nema ein persóna til sé tekin með í reikninginn, en það er sú persóna hans sjálfs sem hann hefur skapað sér á hinum og þessum bloggsíðum í gegnum tíðina. Í Stolnum stundum er ýtt undir þessa túlkun, hér er að finna aukapersónu sem stígur að vísu aldrei fram á sviðið en gæti sem hæglegast verið byggð á Ágústi Borgþór sjálfum, eða að minnsta kosti þeirri útgáfu hans sem stendur íslenskum netverjum til boða, ef þeir hafa áhuga. Kápumyndin er svo auðvitað kapítuli út af fyrir sig, henni er lýst í sögunni sjálfri sem mynd af þýðandanum Þóri, en kunnugir geta auðvitað séð höfund sögunnar í þessari mynd. Þetta samspil skáldskapar og höfundarímyndar er allrar athygli vert; Ágúst Borgþór er sá íslenski rithöfundur sem hefur um árabil haft sterkasta nærveru í íslenska bloggsamfélaginu og Stolnar stundir má heita dægileg sönnun þess að hann sé farinn að vinna meðvitað með tengslin í verkum sínum. Þrátt fyrir það er þessi bók afar dæmigerð fyrir hann sem höfund, hún markar engin tímamót heldur sver sig í ætt við það sem á undan er komið að flestu leyti.

Stolnar stundir er tilþrifalítið verk, persónurnar eru klisjukenndar og söguþráðurinn hvorki fugl né fiskur. Og þó er til nokkurs unnið með lestrinum. Íslenskar samtímabókmenntir eru í auknum mæli farnar að gera ráð fyrir hruni bankakerfisins haustið 2008 sem vendipunkti í tilveru okkar. Á káputexta er þessu verki lýst sem „eftirminnilegri sögu úr góðærinu“. Atburðirnir gerast vorið 2007 þegar evran kostaði níutíukall, fólk innréttaði húsin sín upp á nýtt af engri sérstakri ástæðu og íslenskir bílasalar höfðu ekki undan að flytja jeppa til landsins. Í Stolnum stundum er stemmningunni á þessu tímabili lýst á lágstemmdan hátt og það er greinilegt að höfundurinn hefur næmt auga fyrir smáatriðum sem segja heilmikla sögu um tíðarandann. Mér þykir ekki ósennilegt að þegar frá líður muni þessi saga vaxa sem heimild um þann tíma sem hún lýsir, ekkert síður en til dæmis Bankster Guðmundar Óskarssonar, sú miðlungsgóða skáldsaga sem var prýdd Íslensku bókmenntaverðlaununum árið 2009, næstum eins og til að fullvissa lesendasamfélagið um að uppgjörið mikla væri hafið á hinu fagurfræðilega sviði. Hitt er jafnlíklegt að Ágúst Borgþór á enn eftir að vaxa sem höfundur, og sennilega á hann sínar bestu bækur enn eftir óskrifaðar.

(Víðsjá, 12. maí 2011)

Heinrich Heine: Þýskaland vetrarævintýri

Hjalti Ægisson, júní 16, 2011

„Hinrik Hænir heitir maður. Hann er borinn og barnfæddur suðrá Þýskalandi, þar sem heitir Þusslaþorp þrem vetrum fyrir aldamótin. [...] Hænir ann frelsinu eínsog allir þeír sem beztir og vitrastir eru; enda er hann orðinn óvinsæll á Þýzkalandi, bæði fyrir það og annað, so hann má valla koma þángað framar. Hann situr í Parísarborg í góðu yfirlæti, enn lángar samt heím þaðan, eínsog von er á. Alstaðar er flóttamaðurinn eínmana.“  Þannig fjalla Fjölnismenn um þýska skáldið Heinrich Heine árið 1835; í fyrsta hefti þessa merka tímarits er að finna stutta kynningu á skáldinu ásamt þýddum kafla úr ferðabókinni Reisebilder. Fjölnismenn voru sem sagt hrifnir af Heine. Þau sannindi eru öllum töm sem hafa lokið grunnskólaprófi á Íslandi; aðdáun Fjölnismanna á Heine er staðreynd, rétt eins og það að Hvannadalshnjúkur er hæsti tindur landsins og súrefni er númer átta í lotukerfinu. Þegar merking höfundarverks lokast inni í svona fastri túlkun er hætt við því að ljóðin hætti að njóta sannmælis, vængstýfist og verði bitlaus, sem er dálítið dapurlegt þegar um er að ræða jafn sprúðlandi og ferskt ljóðskáld eins og Heinrich Heine. Í hugum flestra Íslendinga er Heine skáldið sem orti „Álfareiðina“, ljóðið sem Jónas Hallgrímsson þýddi svo snilldarlega, og það að Jónas hafi haft dálæti á Heine er orðin slík tugga að hún er hætt að merkja nokkuð. Þess vegna var það vel til fundið hjá Einari Thoroddsen lækni að ráðast í að þýða ljóðabálkinn Þýskaland vetrarævintýri í heild sinni. Einar er að vísu langt í frá fyrsti maðurinn til að fylgja fordæmi Jónasar og þýða Heine á íslensku, en þessi nýútgefna þýðing er sérstök fyrir þær sakir að hér er um heilan bálk að ræða en ekki bara stök kvæði; verkið er í tuttugu og sjö köflum og bókin er alls 175 síður í tvímála útgáfu.

Þýskaland vetrarævintýri er ort árið 1843 þegar Heine kom aftur til heimalands síns eftir tólf ára útlegð í Frakklandi. Hann hafði lent í útistöðum við þýsk yfirvöld, enda voru bækur hans fullar af róttækum skoðunum sem fóru fyrir brjóstið á mörgum ráðsettum borgaranum. Honum var sérstaklega uppsigað við ritskoðendur og siðgæðispostula, eins og sjá má í öðrum kafla ljóðabálksins. Prússnesku tollverðirnir taka Heine opnum örmum við komuna til Þýskalands og róta í farangri hans eftir óæskilegum bókum. Heine hugsar þeim þegjandi þörfina en veit þó sem er að allur hinn óæskilegi boðskapur er falinn í höfði hans sjálfs, sem ekki verður ritskoðað með svo gagnslausri og hvimleiðri aðferð:

Þið fífl sem um töskuna fálmið í gríð,

þið finnið ei nokkra línu,

því allt þetta smyglaða ógeð er

inni í höfði mínu.

[...]

Og minnið geymir marga bók.

Þið mættuð bara vita

að hausinn á mér hreiður er

hættulegra rita.

Þannig hljóma þriðja og sjötta erindi annars kafla í þýðingu Einars Thoroddsens, og líkt og heyra má er bragurinn einstaklega léttur og leikandi. Þótt áreiðanlega sé mikil vinna að baki þessari þýðingu er hún samt alveg átakalaus, næstum eins og þýðandinn hafi ekki haft neitt fyrir vinnunni. Þýskaland vetrarævintýri er glettnislegt verk, eins konar dagbók eða „ljóðablogg“ eins og Einar stingur upp á í formála. Heine lýsir því sem fyrir augu ber og leggur mat á það með sínum sérstaka hætti, sneiðar að nafngreindum samtímamönnum, sviðsetur samtöl við drauga og náttúruvætti í því skyni að fella dóma um hugmyndafræði, tísku og samfélag. Sá Heine sem birtist okkur í  þessu verki stendur þannig ansi fjarri hefðbundnu hugmyndinni um rómantíska snillinginn, tilfinningaríka skáldið sem þjáist fyrir heiminn og „horfir út í loftið með fjaðurpenna“. Hér er það þvert á móti sannkallaður æringi sem stýrir pennanum, háðfugl og róttæklingur sem á þó enga dýpri tilfinningu í hjarta sínu en ástina til föðurlandsins. Það voru hjákátleg örlög að nasistar skyldu banna verk Heines á tuttugustu öld fyrir þá sök að hann var gyðingur; þýsk þjóðernishyggja birtist nefnilega hvergi eins tær og skýr í gjörvöllum bókmenntum nítjándu aldarinnar eins og í ljóðum Heines.

Þýðing Einars Thoroddsens á Þýskalandi vetrarævintýri er að ýmsu leyti í takt við tón verksins og þá hugsun sem þar ríkir. Í formála þýðingarinnar segir Einar að hann hafi umfram  allt reynt að láta ljóðið „rúlla“, með öðrum orðum, að kýla á það, láta hlutina flakka án þess að fága þá eða slípa undir drep. Handahófskennd rannsókn mín leiðir enda í ljós að þýðingin er ekki alls staðar nákvæm, stundum er hugsuninni hnikað til svo að erindin gangi upp sem heild, til dæmis þegar vísunum í íslenska ljóðlist er troðið inn í þau, sem gerist nokkuð reglulega. Jafn ólík skáld og Bjarni Thorarensen, Valdimar Briem, Jón Helgason og Sigurður Jónsson frá Arnarvatni eru meðal lánardrottna Einars. Þetta er texti sem tekur sjálfan ekki of hátíðlega heldur bregður á leik með skírskotunum í allar áttir svo að lesandanum er oftsinnis komið á óvart, ekki ósvipað og í þýðingu Kristjáns Árnasonar á Lýsiströtu Aristófanesar, gamanleik frá 5. öld f.Kr. sem er endurskapaður á nútímalegum forsendum í þýðingunni. Þessa aðferð má auðvitað gagnrýna, vísanirnar búa oft til merkingarauka sem eru eins konar aukalag ofan á frumtextann og eiga sér enga beina samsvörun í honum. Tímaskekkjur eru líka algengar; þannig kemur „Kjarval“ í stað þýska málarans Peter von Cornelius og verndargyðja Hamborgar kallar Heine „framsóknarmann“. Þetta er oftast nær fyndið í alvörunni, en tíminn þarf auðvitað að leiða í ljós hversu vel þessi stíll á eftir að eldast. Í einhverjum tilvikum er textinn þegar orðinn úreltur í vissum skilningi, til dæmis í fimmta erindi 26. hluta þar sem auðkýfingnum Amschels Rothschild er skipt út fyrir „Bónusfeðga“. Orðalagið í þýðingunni er aukinheldur enskuskotið á köflum, nútímalegar slettur eru notaðar í gamansömum tilgangi, mönnum er sagt að „taka það ísí“ og franska leikskáldið Alfred de Musset „trommar tristan djók“. Einar Thoroddsen dregur hvergi af sér við fíflaganginn sem er uppbyggileg tilhugsun, því það er ekki hollt að láta heimsbókmenntirnar einangrast í fílabeinsturni þar sem lamandi virðing og upphafning ræður ríkjum.

Íslenska þýðingin á Þýskalandi vetrarævintýri er hressileg lexía í því hvernig er hægt að nálgast nítjándu aldar bókmenntir á forsendum okkar tíma, og þýðandanum lætur oftast nær vel að miðla hugsuninni á máli sem nútímalesendum er tamt. Hitt er annað mál að ónákvæmnin og ærslin gætu hæglega átt eftir að verða þessum texta fjötur um fót í framtíðinni. Þótt Heine sé húmoristi fram í fingurgómana er alltaf broddur í gríninu hjá honum; fyndnin í hinni nýju, íslensku þýðingu hefur hins vegar takmarkað inntak annað en sjálfa sig. Þess ber þó að geta að útgáfan er tvímála, þýski textinn er látinn standa við hlið þess íslenska, sem verður að teljast hraustlega gert hjá þýðandanum, enda sjálfsagt ekki allir þýðendur hrifnir af þeirri tilhugsun að lesendur geri rækilegan samanburð á sínum texta og þeim upprunalega. Einar Thoroddsen býður slíkan lestur hins vegar velkominn, sem er sannarlega til fyrirmyndar.

(Víðsjá, 5. maí 2011)

Arabískir kvenhöfundar

Hjalti Ægisson, júní 16, 2011

Mohamed Ben Moktar er alsírskur innflytjandi í úthverfi Parísar. Hann er orðinn fertugur og hefur búið í móðurhúsum alla ævi en aldrei verið við kvenmann kenndur. Einn daginn tekur hann upp á því að flytja út og hefja nýtt líf sem kvennamaður í stórborginni; hann ákveður að þeirri einlægu íslamstrú sem hann hefur haft í heiðri frá barnæsku skuli nú skipt út fyrir taumlausa efnishyggju, klæðskerasaumuð föt, húðkrem sem lýsa dökkt hörundið og hárgel sem sléttir kolsvartar krullurnar. Þetta eru sannkölluð hamskipti og Mohamed tekur meira að segja upp nýtt nafn, Basile Tocquard, til að falla betur að staðalímynd hins nútímalega, franska glaumgosa. Hann leigir sér piparsveinsíbúð í miðborginni og innréttar hana sérstaklega með hliðsjón af væntanlegum sigrum í ástamálunum. Með því að hylja yfir uppruna sinn sér hann fyrir sér að hann verði fullkomlega gjaldgengur í augum franskra kvenna. Árangurinn lætur þó á sér standa, einu konurnar sem Mohamed Ben Moktar tekst að koma vilja sínum fram við eru innflytjendur eins og hann sjálfur, flestar nokkrum árum eldri. Þetta eru konur sem ráðrík móðir hans myndi veita blessun sína ef hún hefði enn sitt gamla tangarhald á syninum. Draumurinn um kynferðislega og eþníska viðurkenningu er fjarlægari en hann grunaði, og niðurstaðan er viðvarandi frústrasjón.

Þannig atvikast málin í skáldsögunni Kynlíf íslamista í París eftir alsírsku skáldkonuna Leïlu Marouane, sem kom út árið 2007 en birtist nýverið í enskri þýðingu. Marouane fæddist í Alsír 1960 en hefur búið og starfað í París síðan 1990. Hún er ein háðskasta röddin í hópi þeirra rithöfunda sem fást við íslam og konur í verkum sínum og hefur beint og óbeint lagt sitt lóð á vogarskálarnar í baráttu fyrir auknum réttindum alsírskra kvenna um nokkurt skeið. Bækur hennar eru dæmi um gagnrýni sem kemur í senn innan frá, þar sem höfundurinn er sjálfur alsírsk kona, en líka utan frá, þar sem Marouane er búsett í París, enda fengjust bækur hennar varla útgefnar í gamla heimalandinu. Það skal þó áréttað að Leïla Marouane er ekkert einsdæmi, því margar starfssystur hennar plægja þennan sama akur. Hlutur kvenna í bókmenntasköpun arabalandanna er raunar meiri en margir halda. Fyrsta nútímaskáldsagan sem skrifuð var á arabísku var m.a.s. eftir konu, en það er bókin Badi’a og Fu’ad eftir líbönsku skáldkonuna Afifa Karam, sem kom út 1906. Í þeirri sögu er fengist við þau viðfangsefni sem eru enn í forgrunni í arabískum bókmenntum: Stéttamun, samskipti austurs og vesturs og stöðu kvenna. Í ýmsum arabalöndum eru saga kvennabókmennta og saga kvennréttindabaráttu rækilega samtvinnaðar. Frá því á sjöunda áratugnum hafa pólitík og femínismi sett sterkan svip á bókmenntir arabískra kvenna í mörgum löndum. Það má nefna höfunda á borð við Ghada Saaman í Sýrlandi, Nawal Saadawi í Egyptalandi, Assia Djebar í Alsír og Samira Azzam í Palestínu. Allt eru þetta höfundar sem hafa gagnrýnt ríkjandi stjórnskipulag í sínum heimalöndum og bent á að ofbeldi gegn konum sé, þegar öllu er á botninn hvolft, það sem helst stendur vexti og viðgangi þessara landa fyrir þrifum.

Leïla Marouane tilheyrir þessari rithefð og vinnur markvisst úr henni, en nálgast þó hlutina úr annarri átt. Hún skrifar út frá þeirri grundvallarforsendu að feðraveldissamfélagið sé byggt á blekkingum, karlarnir í sögum hennar eru vesalingar sem tekst aldrei að ná fram markmiðum sínum. Skáldsagan Kynlíf íslamista í París er saga um veruleika arabískra innflytjenda á Vesturlöndum. Frakkland er það land í Vestur-Evrópu þar sem flestir arabískir innflytjendur búa, um 7,5% þjóðarinnar. Paródía er aðalsmerki á skrifum Marouane, hún lýsir því á ísmeygilegan hátt hvernig öfgakennd höfnun upprunans getur birst sem fölsk sjálfsmynd. En það er ekki allt sem sýnist í þessari sögu, því þeirri spurningu er ekki svarað hvort vestræn endurfæðing Mohamed Ben Moktar er ímyndun eða veruleiki. Eftir því sem konunum í lífi hans fjölgar, verður orsakasamhengi frásagnarinnar óskýrara. Dularfullur rithöfundur, kona að nafni Loubna Minbar, birtist síendurtekið og myndar eins konar tengingu milli ástmeyjanna. Þegar upp er staðið gæti hún allt eins verið höfundur sögunnar, eins konar fulltrúi Marouane sjálfrar á vettvangi, sjónhverfingameistarinn sem spinnur þræði verksins. Í sögulok á Mohamed enn eftir að sætta pólana tvo í lífi sínu, arabaheiminn og Vesturlönd, móðurina og ástkonurnar, trúna og efnishyggjuna.

Kynlíf íslamista í París er hefðbundin kómedía og ristir kannski ekki djúpt í listrænum skilningi, en í henni eru þó áhugaverðar hugleiðingar um íslamskar hefðir andspænis vestrænum kynjahlutverkum. Sú umræða er einnig kjarninn í nýlegri endurminningabók eftir líbönsku leikkonuna Darina al-Joundi, sem er fædd árið 1968 og á það sameiginlegt með Leïlu Marouane að hafa flutt til Parísar þegar hún var þrítug. Bókin heitir Daginn sem Nina Simone hætti að syngja og er lýsing á uppreisn einnar konu gegn umhverfi sínu. Darina al-Joundi ólst upp hjá frjálslyndum föður sem kenndi henni að lifa lífinu eins og hana sjálfa langaði til, án þess að láta kúga sig af aldagömlum hefðum og fordómum feðraveldisins. Öll uppvaxtarár  hennar geisaði borgarastríð í Líbanon; morð, sprengjuárásir, fátækt og aðrar hörmungar voru daglegt brauð. Það er úr þessu umhverfi sem al-Joundi sprettur, reið og uppreisnargjörn kona með ögrandi hugmyndir og sterka, kynferðislega sjálfsmynd. Faðirinn ýtir undir hvers kyns róttækni dóttur sinnar í bernsku og kennir henni að efast um öll viðtekin sannindi, sérstaklega trúarbrögð. „Það verður aldrei friður í þessu landi fyrr en það er búið að breyta öllum kirkjunum og moskunum í vændishús,“ segir hann við dætur sínar þrjár þegar þær eru enn á barnsaldri. Hann kennir þeim að reykja og drekkja, hvetur þær til að lifa lauslátu lífi en harðbannar þeim að fasta, biðja bænir eða sækja guðsþjónustur. Unglingsár Darinu al-Joundi eru því vægast sagt ævintýraleg, hún sængar hjá ótölulegum fjölda karlmanna. Mennirnir sem forsmá kvenholdið á daginn leita til hennar á nóttunni. Þannig upplifir hún hræsnina og togstreituna í samfélaginu á eigin líkama.

Daginn sem Nina Simone hætti að syngja er byggð á einleik sem al-Joundi flutti í París árið 2007 og vakti geysimikla athygli í frönskum fjölmiðlum. Bókin, rétt eins og leiksýningin, vekur upp hugleiðingar um stöðu kvenna í Miðausturlöndum og Norður-Afríku, og er því kannski sérstaklega þörf um þessar mundir þegar fúnar stoðir eru burtu brotnar í hverju arabalandinu á fætur öðrum. Hvort þær umbætur eru til langframa verður einfaldlega að koma í ljós, en listakonur á borð við Marouane og al-Joundi geta að minnsta kosti haldið umræðunni vakandi á Vesturlöndum. Þannig má segja að vonin um bætta veröld á okkar dögum lifi í bókmenntunum, og það er svo sannarlega ekki í fyrsta sinn í sögunni.

(Víðsjá, 28. apríl 2011)

Tvær nýjar Shakespeare-þýðingar

Hjalti Ægisson, apríl 15, 2011

Sú skoðun virðist útbreidd hjá leikhúsfólki hérlendis að Shakespeare-þýðingar Helga Hálfdanarsonar séu illbrúkanlegar á sviði; textinn sé of þunglamalegur, þar sé of sterk tilhneiging til þess að gera einfalda hluti flókna og þetta séu fyrst og fremst bókmenntaleg stórvirki í búningi Helga, verk til að lesa en ekki leika. Flutningur á leiksviði geri aðrar kröfur, og þess vegna er Shakespeare gjarnan þýddur upp á nýtt þegar stendur til að gæða hann lífi á fjölum íslenskra leikhúsa. Sverrir Hólmarsson þýddi Macbeth upp á nýtt á níunda áratugnum og skömmu eftir síðustu aldamót snaraði Hallgrímur Helgason Rómeó og Júlíu í nýjan búning. Báðar þýðingarnar voru gerðar sérstaklega fyrir leiksýningar, þar sem texti Helga þótti einfaldlega ekki duga. Stundum hefur m.a.s. verið brugðið á það ráð að velja eldri þýðingar fram yfir þýðingar Helga Hálfdanarsonar; þegar Lér konungur var settur upp í Borgarleikhúsinu árið 2000 var t.a.m. ákveðið að nota frekar 120 ára gamla þýðingu Steingríms Thorsteinssonar en þýðingu Helga. Í leiksýningunni Sumarævintýri, sem var sett upp vorið 2003, var lauslega byggt á Vetrarævintýri Shakespeares, en þýðing Indriða Einarssonar notuð, jafnvel þótt hún sé 65 árum eldri en þýðing Helga.

Þetta fálæti leikhúsanna við afkastamesta leikritsþýðanda íslenskrar bókmenntasögu kann að virðast undarlegt en segir þó sína sögu. Þótt þýðingar Helga Hálfdanarsonar séu þrekvirki eru þær samt hálfgagnslausar fyrir leikhús, ef marka má reynslu síðustu ára. Það er hins vegar afar sennilegt að áhrif þessara þýðinga séu víðtækari en liggur í augum uppi, þær eru stóra viðmiðið fyrir alla þá sem taka sér fyrir hendur að þýða Shakespeare á íslensku, og öruggt má telja að þær geri sitt gagn í nýju sköpunarstarfi. Tvær nýlega útgefnar Shakespeare-þýðingar sanna þetta að vissu leyti, þýðendurnir standa báðir á öxlum Helga Hálfdanarsonar og hafa bersýnilega nýtt sér ýmislegt úr verkum hans. Það er þó mikill fengur að báðum nýju þýðingunum og í raun tómt mál að tala um hvor sé betri, gamla þýðingin eða sú nýja. Þýðingar bókmenntaverka eru alltaf börn síns tíma; séu þær vel unnar hafa þær sinn sjarma sem heimild um hugarheim og samtíð þýðandans. Þannig er það t.d. stórmerkilegt að Oddur Gottskálksson skuli tala um „nykur“ í þýðingu sinni á Opinberunarbókinni, þar sem rætt er um flóðhest. Þetta dæmi er áþreifanleg sönnun þess að Íslendingar á 16. öld vissu almennt ekki hvaða dýr flóðhestur var, og orðið var þar af leiðandi þýtt með skírskotun til þess raunveruleika sem lesendasamfélagið skildi.

Þýðing Þórarins Eldjárns á Lé konungi er ákaflega lipur eins og búast mátti við; Þórarinn er ekki bara talandi skáld heldur líka þaulreyndur leikritsþýðandi, hann hefur tekist á við jafnólíka höfunda og Brecht, Ibsen, Slawomir Mrozek og Astrid Lindgren í þágu íslenskra leikhúsa. Samanborið við þýðingu Helga Hálfdanarsonar á Lé konungi er þýðing Þórarins bæði kunnugleg og nýstárleg. Stundum er setningabyggingin meira og minna óbreytt í heilu línunum hjá Þórarni, þótt hann skipti út einstökum orðum, setji „okkur“ í staðinn fyrir „oss“ og þurrki út fornlegasta braginn á texta Helga. Bastarðurinn Játmundur er kynntur til sögunnar þar sem hann hugsar upphátt um náttúrulegu hvatirnar sem búa að baki getnaði óskilgetinna barna, andspænis þreytunni og sljóleikanum sem „fer í heilar ættir uppskafninga“ eins og Helgi þýðir það; „go to th‘ creating a whole tribe of fops“. Þórarinn notar sömu uppbygginguna en skiptir út lokaorðinu: „en fer í heilar ættir ónytjunga“, sem er ekki eins nákvæm þýðing en hefur þó kunnuglegri hljóm. Þórarinn fær víða einstök orð að láni frá Helga, „hvítlifraður“ sem þýðing á „lily-livered“, „pestarkaun“ sem þýðing á „plague-sore“, svo dæmi séu tekin. Sums staðar verður þýðing Helga einfaldlega ekki toppuð, og Þórarinn gengst við því með því að nota sama orðalagið nær óbreytt: „Þessi kalda nótt gerir oss alla að fíflum og vitfirringum“, segir fíflið í þýðingu Helga; „This cold night will turn us all to fools and madmen“. Hjá Þórarni er þetta nánast samhljóða: „Þessi kalda nótt gerir okkur alla að fíflum og vitfirringum“. Þetta ber þó ekki að skilja svo að Þórarinn Eldjárn sé eingöngu að yrkja upp gamla þýðingu, því hér er margt öðruvísi. Oftar en ekki finnum við nýstárleg orð í þýðingu Þórarins, uppbót fyrir orð sem þykja líklega of gamaldags hjá Helga. Þetta er sérstaklega áberandi í orðum tveggja persóna, fíflsins og Játgeirs, nánar tiltekið í þeim köflum þar sem hann gerir sér upp vitfirringu og verður „Tommi greyið klikk“ – „Tumi skinnið“, eins og Helgi orðaði það. Leikandi orðfar Þórarins nýtur sín til fulls á þessum stöðum; þar sem Helgi notaði flámæli til framandgervingar beitir Þórarinn nútímalegu slangri. Helgi þýðir Dover sem „Dofri“, en Þórarinn kýs að halda örnefninu óbreyttu. Þar sem Helgi beitir upphöfnu máli hefur Þórarinn oft tilhneigingu til að normalísera. „What means your grace?“ spyr hertoginn af Kornvall þegar Lér hefur skipað Regan, dóttur sinni, að víkja frá sér. Helgi þýðir þetta með hátíðlegu sniði, líkt og frumtextinn gefur tilefni til: „Hvað hugsar yðar hátign?“, en hjá Þórarni verður þetta einfaldlega: „Hvað ertu‘ að meina?“. Skipunin „Prescibe not us our duty“ er upphafin og stuðluð hjá Helga: „Skjala þú fátt um skyldur“, en hjá Þórarni segir: „Þú kennir okkur ekkert“.

Þetta má heita aðalsmerki á þýðingu Þórarins. Víðast hvar léttir þetta textann og gerir hann meira leikandi, en fyrir vikið er nokkrum gullmolum skipt út fyrir hversdagslegra orðalag. „Gullöld vor er hnigin“ víkur fyrir „Blómaskeiði okkar er lokið“. Þórarinn notar líka orð eins og „plott“, „gredda“, „í fússi“, „slumma“, „dekurdúkka“ og m.a.s. „sjálfsali“, sem kemur eins og skrattinn úr sauðaleggnum í reiðilestri Kents yfir Ósvaldi. Samsett lýsingarorð eru líka lykilatriði í því hvernig Þórarinn nútímavæðir málsnið verksins; „meðfæddur“, „fyrrverandi“ og „hórgetinn“ eru allt dæmi um orð sem hann notar til að einfalda enska textann, koma merkingunni til skila með enn skilvirkari hætti en bein þýðing orðaraðar gæti áorkað.

Sölvi Björn Sigurðsson þýddi Ofviðrið fyrir nýlega sýningu Borgarleikhússins. Útgefna þýðingin hans Sölva hefur það fram yfir útgáfuna á þýðingu Þórarins að þar tjáir þýðandinn sig um eigið starf í eftirmála. Það er afar skemmtilegt að lesa hvernig Sölvi útskýrir aðferð sína og rekur áhrifin sem skiluðu sér inn í textann. Hann útskýrir m.a. hvernig hann beitir háttbrigðum í hrynjandinni annað slagið, til að mynda í skapofsaköstum Prosperós, fyrst og fremst til að brjóta textann upp og „minnka vægi ljóðsins í framsetningu leikarans“, eins og það er orðað. Ef marka má eftirmálann hefur Sölvi leitað fanga víða í þýðingavinnunni, rifrildi á Alþingi og línur úr ljóðabókum eftir hann sjálfan eru meðal þess sem hefur orðið honum að innblæstri. Hann nefnir Helga Hálfdanarson ekki sérstaklega sem áhrifavald, þótt það sé deginum ljósara að texti Sölva er að einhverju leyti byggður á þýðingu Helga frá 1957. Sem dæmi um þetta má nefna frægustu orð leikritsins: „We are such stuff as dreams are made on“. Helgi fór þá leið að nota myndmál úr ullarvinnu: „Vér erum þelið sem draumar spinnast úr“. Sölvi skiptir út orðinu „þel“ og setur „efni“ í staðinn: „Við erum efnið sem draumar spinnast úr“, sem er ekki eins hugmyndarík lausn en eðlilegra orðalag í eyrum nútímaleikhúsgesta. Miðað við þýðingu Helga er Sölvi trúrri samhenginu í orðanotkun Shakespeares á vissum stöðum, t.d. í atriðinu þar sem fylliraftarnir Stefanó og Trínkúló virða villimanninn Kalíban fyrir sér í fyrsta sinn. Í máli þeirra er orðið „monster“ notað síendurtekið, og Sölvi þýðir það síendurtekið sem „skrípi“, ólíkt Helga sem grípur til fjölbreytni í orðavali; „skoffín“, „umskiptingur“, „skepna“ og „lubbi“ eru meðal þeirra orðanna sem hann notar. Áhrifin af texta Sölva eru þannig líkari áhrifunum hjá Shakespeare sjálfum; fjölbreytnin hjá Helga færir texta hans fjær frumtextanum og dregur að vissu leyti úr geðshræringunni sem hin staglkennda orðanotkun gefur til kynna.

Margt mætti nefna fleira um hinar nýju Shakespeare-þýðingar, en ég læt staðar numið hér. Það má þó nefna í lokin að með því að þýða Shakespeare upp á nýtt, í ofanálag við heildarverkið í þýðingum Helga Hálfdanarsonar, er ekki einungis verið að miðla verkunum til nýrra leikhúsgesta. Það skiptir ekki minna máli að með því að eiga tvær þýðingar sama leikrits eigum við kost á því að verða enn hæfari en ella til að skilja og túlka verkið sem lesendur. Það er ekki síst þess vegna sem þýðingar Þórarins Eldjárns á Lé konungi og Sölva Björns Sigurðarsonar á Ofviðrinu afar vel þegnar.

(Víðsjá, 14. apríl 2011)