Category: Uncategorized

Gyrðir Elíasson: Tunglið braust inn í húsið

Hjalti Ægisson, apríl 15, 2011

Ljóðaþýðingar eru vandasamt verk. Það er nógu erfitt að flytja merkingu milli tungumála þótt ekki bætist við fegurð ljóðlínunnar, leikandi hrynjandi eða djúp tilfinning. Þess vegna sætir það alltaf tíðindum þegar velheppnaðar ljóðaþýðingar koma út á bók, slíkir viðburðir eru afrakstur frjórra átaka og gefa eiginlega til kynna að tungumálið eigi sér enn þá viðreisnar von. Það tungumál sem getur miðlað hugsunum og kenndum frá fjarlægum löndum, jafnvel langt aftur úr öldum, er ekki með öllu gagnslaust. Ljóðaþýðendur mega því kallast eins konar útverðir tungumálsins, ræktendur orðsins í sinni frumlægustu mynd, og athugið að hér er engin kaldhæðni á ferðinni. Gildi ljóðaþýðinga er meira en fólk gerir sér almennt grein fyrir, þær eru sönnun þess að umheimurinn eigi enn þá erindi við okkur; sú ljóðaþýðing sem hrærir streng í brjósti lesandans er vitnisburður um að innra með okkur sé kjarni sem er eins og flaga í risastóru mósaíkverki. Það er eilíft undrunarefni hve hjörtum mannanna svipar saman, hvar í flokki sem þeir standa, hvort sem þeir búa í Kína eða Grafarvoginum. Ljóðið er einlægast allra tjáningarforma, og þegar það þjónar hlutverki sínu sem tengslanet er alveg ábyggilegt að sjálf Fésbókin bliknar í samanburði.

Gyrðir Elíasson hefur birt ljóðaþýðingar sínar í tveimur bókum á undanförnum árum, og sú þriðja, Tunglið braust inn í húsið, kom út nú í vikunni. Það er óhætt að segja að nýja bókin gefi hinum tveimur fyrri ekkert eftir, nema síður sé. Þetta er þrjúhundruð síðna verk með þýddum ljóðum eftir þrjátíu og sex skáld. Líkt og í fyrri ljóðaþýðingasöfnum Gyrðis er afar sterkur heildarsvipur á þessari bók, viss leiðarstef ganga í gegnum verkið allt og eftir því sem lesið er oftar má telja víst að sífellt fleiri snertifletir komi í ljós á milli ljóðanna. Þetta geta verið jafnáþreifanlegir hlutir og laufblöð – í áttahundruð ára gömlu ljóði eftir kínverska skáldið Jang Wan Li feykir vindurinn skæðadrífu af ilmandi krónublöðum; í nokkurra ára gömlu ljóði eftir bandarísku skáldkonuna Jane Hirshfield fljóta fáein lauf á næturtjörn og vekja upp gamla sorg. Í ljóðinu „Dauði ljóðlistarinnar“ er brugðið upp samræðu þar sem deilt er um merkingu laufblaðanna:

Föllnu laufblöðin þennan morgun

eru full af galsa.

Dansa og fara í höfrungahlaup

og elta hvert annað niður götuna.

Nei, það er ekki rétt.

Laufblöð hafa enga skapgerð,

þau eru ófær um að dansa eða

stunda skipulagða leiki, það

sem þú sérð er bara dautt

efni.

Hér eru líka mörg ljóð þar sem ort er um ljóðlistina sjálfa, ýmist af vantrú eða bjartsýni. „Fiskar orðanna svamla letilega / framhjá mér,“ yrkir tékkóslavneska skáldið Antonín Bartusek. Ljóðalestur er líka einn af þráðunum í þessari bók; Jane Hirshfield yrkir um það að lesa kínversk ljóð fyrir dögun, sem kemur vel heim og saman við fyrstu ljóðaþýðingarnar í bók Gyrðis, en þar er um að ræða ljóð frá Kína og Japan. Gyrðir Elíasson er ljóðskáld en hann er líka lesandi, höfundarstaða hans er því önnur í þessari bók en í þeim bókum sem hafa að geyma frumort ljóð. Að vissu leyti má segja að bókin Tunglið braust inn í húsið sé eins konar persónuleg bókmenntasaga, rituð af Gyrði Elíassyni. Hér er þó ekki reynt að raða ljóðunum í virðingarröð eða skapa þá blekkingu að um sé að ræða heildarsafn af einhverju tagi, sneiðmynd eða antólógíu. Við fáum einfaldlega að slást með í för í ferðalag um einkavegi Gyrðis sjálfs, þær slóðir sem hann hefur troðið sem lesandi, og sannarlega má sjá líkindi við hans eigið höfundarverk. Inntak ljóðræns skáldskapar er ljóðskáldið sjálft, sagði þýski heimspekingurinn Hegel. Mörg af þeim viðfangsefnum sem við þekkjum úr ljóðum og sögum Gyrðis eru í brennidepli í þessu þýðingasafni. Myrka hliðin á mannssálinni er eitt þeirra, hér eru ófá ljóð um dimman veruleika geðsjúkdóma og þunglyndis, og söknuðurinn er jafnframt áberandi. Það er í þessum ljóðum sem verkið rís hæst, enda tekst Gyrði að fanga ólundina með hætti sem fáir leika eftir. Þannig miðlar hann sorginni í ljóðum bandarísku skáldanna Donald Hall og Jack Gilbert, sem báðir ortu mörg nístandi ljóð um látnar eiginkonur sínar. Sum ljóðin líkjast einna helst gátum, ég nefni „Leiðina“ eftir rúmenska skáldið Marin Sorescu, þar sem ort er um mann sem gengur eftir járnbrautarteinum; að baki hans nálgast lest á ógnarhraða, en lestin mun aldrei ná honum, eftir því sem  hann segir sjálfur;

Og jafnvel þó hún mundi

mylja mig undir sig

þá verður alltaf einhver

sem gengur á undan henni,

með höfuð fullt af hugsunum,

og hendur fyrir aftan bak.

Hér má ímynda sér að um sé að ræða ádeiluljóð, enda var Sorescu andófsmaður í listsköpun sinni. Aftast í bók Gyrðis eru sögð deili á skáldunum sem eiga ljóð í bókinni, og oft duga þær skýringar vel til að koma lesandanum á sporið við að túlka ljóðin. Þessar skýringar undirstrika enn fremur þá túlkun sem Gyrðir býður upp á með ljóðavalinu og svo þýðingunum sjálfum. Á einhvern hátt er Tunglið braust inn í húsið kennslubók í ljóðlist á síðari hluta tuttugustu aldar, og þeim rótum hennar sem liggja aftur í aldir, enda er hér líka að finna eldri ljóð. Með skýringunum aftast í bókinni er lestrinum stýrt að vissu leyti, persóna skáldsins er dregin fram, enda er ljóðlistin persónulegust allra lista.

Tunglið braust inn í húsið er gefin út í tilefni af fimmtugsafmæli Gyrðis Elíassonar, og um þessa útgáfu má vísa í ljóð kanadíska skáldsins Alden Nowlan, sem er að finna í bókinni: „Góðir hlutir hafa gerst“. Í því ljóði er ort um undrin í hversdagslífinu, það hvernig ljóðrænar kenndir eiga það til að springa út í hjörtum okkar þegar minnst varir svo að við verðum hálfdrukkin af augnablikinu. Þannig er hægt að upplifa bestu ljóðin í þessari bók; allir sem unna góðum ljóðum verða einfaldlega að lesa Tunglið braust inn í húsið, því þessi bók er viðburður. Hinir, sem telja sig ekki eiga neinar ljóðrænar taugar í sinni sál, ættu líka að lesa, því þetta þýðingasafn er prýðilegur upphafspunktur í ljóðalestri. Þessi bók er ekki upphaf á starfi Gyrðis Elíassonar sem ljóðaþýðanda, hann sýnir þvert á móti lærdóm og kunnáttu, og við skulum vona að á þessu starfi verði framhald. Ástríðan og áfergjan sem er grunnurinn að þýðingastarfi Gyrðis er eitt kraftmesta og mest hrífandi aflið í íslenskri ljóðagerð á okkar dögum.

(Víðsjá, 7. apríl 2011)

Baldur Óskarsson: Langt frá öðrum grjótum

Hjalti Ægisson, apríl 15, 2011

Ljóðskáldið Baldur Óskarsson hefur lengi haft það orð á sér að hann yrki torskilin kvæði, enda er Baldur sjaldséður í lífsstílsblöðum og kokteilboðum. Ljóðin hans komast hvorki fyrir á mjólkurfernum né í úrvalskverum fyrir grunnskóla. Í bókum hans ægir öllu saman; sú nýjasta, Langt frá öðrum grjótum, er um tvöhundruð síður að lengd. Þar skiptast á knöpp smákvæði og langir ljóðabálkar, smælkið stendur saman við dramatíkina, goðsagnir innan um hversdagsleika, þýðingar í bland við frumort. Við fyrsta lestur er hætt við því að margir reki upp stór augu, orðin hans Baldurs Óskassonar slettast upp um alla veggi, stundum fáguð, stundum klossuð og heildin er sjaldnast áferðarfalleg. En þó orð hans lýsi æði, þá er skipulag í þeim samt, og reyndar er slíkt samhengi í öllu höfundarverki Baldurs að furðu sætir, enda ferillinn langur og gjöfull; fyrsta bók Baldurs, Svefneyjar, kom út fyrir fjörtíu og fimm árum. Síðan þá hafa bækurnar komið með nokkurra ára millibili, sé sú nýjasta talin með eru þær fjórtán alls. Á síðustu árum hefur oft borið á því að vísað sé til eldri bóka með mottói í upphafi ljóða, og svo er einnig í þeirri nýjustu. Baldur kemur okkur lesendum á sporið við lesturinn, hann vísar okkur á þræðina sem liggja í gegnum bækurnar, leggur upp færin; þótt ljóðin séu torskilin er okkur þannig veitt líkn með þraut.

Ljóð Baldurs Óskarssonar standa einhvern veginn utan við samtímann, en þó má finna ýmsa snertifleti við dægurmálin með góðum vilja; í nýjastu bókinni er meira að segja ljóð sem heitir „Júróvisjón“. Samtímaljóðin hans Baldurs einkennast þó ekki af skilyrðislausri vandlætingu, ef einhver var að velta því fyrir sér; sýn hans er þvert á móti einkennilega tvíræð, hér má finna lúmska ádeilu sem er þó stundum blandin einhverri aðdáun innst inni. Á sjöunda áratugnum orti Baldur um stríðið í Víetnam, árið 2010 yrkir hann um ESB, en flýtum okkur hægt; það er nefnilega ekki hlaupið að því að tengja Evrópusambandsljóð Baldurs við þann málstað sem okkur er hjartfólgnastur, hvort sem við erum með eða á móti. Ljóðheimur hans er flóknari en svo, og lesturinn krefst þess að við beitum ímyndunaraflinu. Hver er það til dæmis sem er að væflast í kringum leiðið hans Gríms Thomsens á Bessastöðum á meðan gestir sitja í boði fyrir innan? Og hverjir eru gestirnir? Ekkert er einfalt í þessu dæmi, kannski er heillavænlegast að fletta til baka í fyrri bækur ef við viljum verða einhvers vísari. Ljóðaflokkurinn „Í landnámi Jólgeirs“ spannar til að mynda þrjár bækur þegar hér er komið sögu, allt frá Rauðalæk til Steinslækjar, þótt vitundarmiðjan sé einhvers staðar, sennilega í sveit bernskunnar. Bernskuminningarnar eru eins konar kjölfesta í ljóðagerð Baldurs, hann bregður oft upp svipmyndum úr æsku og hefur löngum haft tilhneigingu til að myndskreyta bókarkápur sínar með teikningum eftir börn.  Langt frá öðrum grjótum skartar reyndar æskuverki eftir Baldur sjálfan, módernískri grafíkmynd frá 1954. En allt um það, æskan speglast í mörgum þessara ljóða, spegúlantar og matmæður með augum barnsins, stærðfræðipróf í borg, seinni heimsstyrjöldin með augum fólks í íslenskri sveit árið 1940: „Þeir hætta víst ekki / fyrr en þeir drepa einhvern / sagði gömul kona á Barðaströnd“. Stundum fer ekki á milli mála að sjónarhornið er þess sem reynsluna hefur og þekkir afdrif fólksins sem kemur við sögu á seinni árum. Þótt beinn samanburður við nútímann sé hvergi sjáanlegur á yfirborðinu þarf stundum ekki að seilast langt til þess að koma honum á laggirnar, til dæmis í ljóðinu 1947, þar sem ort er um Heklugos: „Reykelsi á sjónbaug – öskuvorið / ekki raskaði það ró okkar / Ekkert raskar ró okkar“. Það er eins og liggi í orðunum að nú hafi þetta breyst, öskuvorið 2010 raskaði nefnilega ró allmargra, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Sumt breytist þó ekki, því Heklugosið 1947 var ekki síður vinsælt hjá ferðamönnum en gosið í Eyjafjallajökli löngu síðar: „Eftir þjóðveginum / lá straumurinn / til fjallsins“.

Baldur Óskarsson

Líkt og fyrr greinir skiptist á stórt og smátt í þessari bók. Ofurhversdagsleg atvik verða skáldinu stundum að yrkisefni; eldspýturnar klárast og upp spretta hugrenningar um varanleika, pappírsgatarinn dettur í sundur og stjörnumerki myndast á gólfinu. Annars staðar stíga guðir fram á sviðið, goðmagnið Meskalínus vandar um fyrir skáldinu, hetjan Bellerófón rekur raunir sínar og veiðimaðurinn Aktaeon boðar eitthvað ógnvænlegt, eins og í gömlu kvæði eftir Ezra Pound, sem skýtur oft upp kollinum í bókum Baldurs. Það vekur líka sérstaka athygli hversu ríkjandi hin kvenlega vídd er í þessari bók, hér birtast konur á öllum aldri, litlar stúlkur sem „dorma í djúpum brunnum“ og barmmiklar, spánskar stórkonur, hin ógæfusama Sylvía og forsjála skrifstofukonan sem „hafði þann sið að leggja inná gjaldeyrisreikning“. „Konan er mjúklát heiði“, segir í einu ljóðinu, sem eru lýsandi orð fyrir verkið í heild. Maður og staður renna saman og hvorugt getur án hins verið.

Ef nefna ætti grundvallarstef í þessari bók væri hægast að tilnefna lýsingar á náttúru, umhverfi og vistarverum. „Staðbundnar tilfinningar endast lengi,“ eins og Baldur fullyrðir um kvæðagerð skáldbróður síns, Jóns úr Vör, og sú staðhæfing gæti hæglega staðið sem efnislýsing yfir ljóðum hans sjálfs. Langt frá öðrum grjótum er nefnilega full af staðarljóðum, hér er ort um fjallið Mjöðm, sem er baðað grískri birtu, búskap í Hólunum og Árnessýslu, Egyptaland til forna og Hótel Atlantis, þann draumkennda stað. Umhverfið í ljóðum Baldurs Óskarssonar er eins og ljóðin sjálf, órætt og misleitt, hrikalegir klettadrangar í bland við lygnar sandfjörur, raunveruleiki í bland við fantasíu. Spánn er í alveg sérstöku hlutverki í þessari bók, einn áhrifamesti hluti hennar er tileinkaður Barcelona, borginni sem gamlir munkar sögðu að djöfullinn hefði lofað Kristi, ef ... Stundum er staðurinn vettvangur sjónarspils, og í þessari bók eru að minnsta kosti eitt leikrit, dulbúið sem ljóð. Oftast er landslagið þó bundið minningum og fortíð sem kviknar og verður ljóslifandi.

Langt frá öðrum grjótum er enn einn bitinn í því flennistóra púsluspili sem er kvæðasafn Baldurs Óskarssonar. Það má ljóst vera að haldgóður skilningur á þessum ljóðum verður ekki fenginn með einum lestri, og þegar upp er staðið má jafnvel ímynda sér að sú leit gæti hæglega endað úti í móa. Þetta eru ljóð sem þarf að skynja, fremur en skilja: „ljóð aldrei skilin, skynjuð þó“, eins og stendur á einum stað. Áhrif góðra ljóða felast oft í öðru en röklegu samhengi, ljóðið er upplifun eða söngur. Í Langt frá öðrum grjótum bætast nýjar raddir í kórinn, ljóðin eru viðbót við hina miklu hljómkviðu Baldurs Óskarssonar sem er stundum hrjúf, stundum ljúf, en aldrei flatneskjuleg.

(Víðsjá, 31. mars 2011)

Keith Richards: Life

Hjalti Ægisson, apríl 15, 2011

„Minningin er sú eina Paradís sem ekki er unnt að reka okkur út úr,“ sagði þýska skáldið Jean Paul einhvern tímann á nítjándu öld. Öll eigum við minningar, og þeir sem finna sig knúna til að deila minningum sínum með öðrum í rituðu máli standa jafnan frammi fyrir því verkefni að smíða rökrétta heild úr minningunum, læsilega frásögn þar sem orsakasamhengi er grundvallarregla og lífshlaupið er skoðað sem línulegt ferli frá æsku til fullorðinsára. Þegar fólk sem hefur öðlast goðsagnakenndan status tekur upp á því að rita sjálfsævisögu sína koma ýmis önnur vandamál til skjalanna, ekki síst sá mikli barningur sem felst í því að greina á milli opinberu ímyndarinnar og hins raunverulega sjálfs, kjarnans sem er falinn einhvers staðar á bak við glamúrinn, kjaftasögurnar og markaðssetninguna. Í nýlegri ævisögu Keith Richards er tekist á við þetta vandamál berum orðum. „Ég get ekki metið að hve miklu leyti ég lék hlutverkið sem var skrifað fyrir mig. Ég er að tala um hauskúpuhringinn, brotnu tönnina, augnfarðann. Skiptist þetta til helminga?“ spyr þessi gamli rokkhundur á einum stað, þar sem hann veltir vöngum yfir því hvar rokkaraímyndin endar og hann sjálfur byrjar. „Ímyndin, eins og hún var, getur orðið eins og fangakúla um fótinn. Fólk heldur til dæmis enn að ég sé dópisti, en það eru liðin þrjátíu ár síðan ég hætti í neyslu.“

Þessar vangaveltur, og aðrar sambærilegar, eru meðal þess sem gera Life, ævisögu Keith Richards, vel þess virði að lesa. Alveg frá því að Rolling Stones voru stofnaðir þurftu Keith og félagar hans að gangast upp í hlutverkum sem voru að einhverju leyti byggð á þeirra raunverulega persónuleika, en að öðru leyti skrifuð út frá markaðsvænni formúlu. Stones voru óþægu strákarnir sem sungu um forboðnar ástir, greddu og siðferðilega vafasamar konur. Þeir klæddust ekki búningum eins og tíðkaðist svo gjarnan með rokkbönd í upphafi sjöunda áratugarins, ósamræmið í klæðaburðinum endurspeglaði uppreisnina sem tónlistin þeirra stóð fyrir. Keith Richards er ein voldugasta táknmynd uppreisnar í gjörvallri rokksögunni, og sú ímynd á sér djúpar rætur í honum sjálfum, eftir því sem dæma má af ævisögunni; alla ævi hefur hann barist gegn valdboði og talað máli einstaklingsfrelsis. Þegar Keith var skólastrákur í Dartford söng hann í drengjakór, en var gert að hætta í kórnum þegar hann fór í mútur. Út úr þeirri höfnun spratt uppreisnarseggurinn Keith Richards, sem átti eftir að beisla reiðina og kraftinn í listsköpun sinni seinna. Þannig er þetta afskaplega hefðbundin ævisaga, hér er grennslast fyrir um rætur persónuleikans í bernskunni. Fáir fá betri eftirmæli í þessari bók en Gus Dupree, afi Keiths sem kenndi honum fyrstu gítargripin, en tónlistarmaðurinn Keith Richards mótaðist fyrst og fremst sem boðberi, ákafur tónlistaráhugamaður sem vildi deila áhuga sínum með öðrum. Keith kynntist Mick Jagger vegna þess að báðir hlustuðu á sömu tónlistina, blús frá Chicago, og þegar þeir stofnuðu Rolling Stones var tilgangurinn ósköp einfaldlega að útbreiða fagnaðarerindið, spila blúslögin sem þeir dýrkuðu svo ákaflega. Það var ekki fyrr en seinna sem þeir fóru sjálfir að semja lög, og eingöngu vegna þess að umboðsmaðurinn þeirra sannfærði þá um að öðruvísi gæti bandið ekki lifað. Jagger og Richards voru að þessu leyti ólíkir Lennon og McCartney, sem höfðu lagasmíðarnar í blóðinu og voru búnir að frumsemja heilan haug af efni áður en Bítlarnir tóku til starfa.

Ævisaga Keith Richards er líka hefðbundin að því leyti að þetta er saga um rokkstjörnulíferni, frásögn um brjálæðislegar uppákomur, dóp, fyllerí, framhjáhald, lögbrot, rústuð hótelherbergi; allan hraðann og óreiðuna sem fylgir rokkinu. Það er fullt af krassandi sögum til um Rolling Stones, og hér eru þær sagðar af fumleysi og án nokkurrar tilgerðar. Helsti gallinn er hins vegar sá að flestar þessar sögur hafa ratað á prent áður, enda mikill korpus til af efni um feril þessarar langlífu rokkhljómsveitar. Þeir lesendur sem þekkja þann feril til hlítar græða lítið á fylleríssögunum í þessari bók, og þær taka óþarflega mikið pláss að mínu mati. Keith ritar opinskátt um dópneyslu sína, sem var, eins og kunnugt er, veruleg á áttunda áratugnum. Það er einhver tvöfeldni sem ríkir í þessum lýsingum, í aðra röndina er hér upphafin mynd á vímunni og öllum þeim úrvalsefnum sem Keith lét í sig þegar hann var sem dýpst sokkinn – við erum sannfærð um að þetta hafi verið kókaín, hass og heróín í hæsta gæðaflokki, dúndurstöff, upplifun sem var engu lík. Hins vegar eru þetta lýsingar á þeirri ömurlegu tilveru sem fylgir fíkninni; paranoju, sífelldri eftirvæntingu eftir næsta skammti og ótal harmleikjum. Í sögu Rolling Stones er löng slóð af fólki sem var ekki eins heppið og Keith Richards í þessari baráttu, fólki sem þurfti að lúta í lægra haldi fyrir fíkniefnadjöflinum. Ævisaga Keiths er eins og saga manns sem kemst lífs af úr stríði. Það er þó meiri fengur að þeim köflum sem kalla má tíðarandasögu, en Keith Richards hefur mjög skarpa sýn á það félagslega umhverfi sem rokkið sprettur upp úr og þróast í. Hér hefur hann trúlega notið góðs af samstarfinu við blaðamanninn James Fox, sem er skrifaður sem meðhöfundur verksins. Að einhverju leyti er texti þessarar bókar uppskrifaðar einræður Keiths, þar sem trúlega hefur þurft að fínpússa ýmsa kanta; í bland koma svo viðtöl við samferðamenn hans og glefsur úr dagbókum og bréfum. Formið er, þegar vel er að gáð, sundurlausara en virðist við fyrstu sýn, sem þarf auðvitað ekki að vera ókostur.

Sambandið við Mick Jagger er vitanlega kapítuli út af fyrir sig; sú umfjöllun hefur ratað í ófáar blaðafréttir í Bretlandi, enda skýtur Keith nokkrum föstum skotum að þessum nánasta samstarfsmanni sínum. Þeir kaflar eru dálítið þvingaðir, og maður fær einhvern veginn á tilfinninguna að þeir hafi fyrst og fremst markaðslega fúnksjón, hlutverk stríðninnar hjá prakkaranum Keith Richards er sennilega fyrst og fremst að selja bókina. Þessi ævisaga Keiths er vitanlega vara á markaði og hann leggur nafn sitt við verkið gegn greiðslu (upphæðin sjö milljón dollarar hefur verið nefnd í því samhengi). Keith skrifar að það sé ótalmargt við poppstjörnuhlutverkið sem hann hafi haft óþol á frá upphafi. Mick Jagger valdi aðra leið en hann út úr þeirri krísu. „Mick valdi smjaðrið, sem er næstum því eins og dópið, flótti frá veruleikanum. Ég valdið dópið,“ segir hann einhvers staðar. Þrátt fyrir allt ítrekar hann þó að Mick Jagger standi sér nær en flestir, enda er samband þeirra langlífara en nokkurt annað samband í lífi beggja. „Við erum ekki eins og Norður- og Suður-Kórea, frekar eins og Austur- og Vestur-Berlín.“

Helsti kosturinn við ævisögu Keith Richards er sú ástríðufulla umfjöllun um tónlist sem hér er að finna í nokkrum góðum sprettum. Keith talar af innlifun um tónlistina sem hann hlustaði á sem ungur maður, lögin sem urðu honum innblástur, og svo lögin sem hann samdi sjálfur, hvernig þau eru uppbyggð, hvernig hugmyndin að þeim kviknaði og hvernig hann og Mick Jagger unnu saman við lagasmíðina. Hinn gamalreyndi blúsmaður kemst á gríðarlegt flug í þessum lýsingum, sem eru prýðilegt stoðefni við lögin sjálf, listaverkin sem hafa haldið nafni hans á lofti. Keith Richards sýnir og sannar í þessum köflum að þótt hann sé löngu hættur að geta samið góð rokklög er hann ýmsum kostum gæddur sem listrýnir. Þess vegna er Life, ævisaga Keith Richards, vel þess virði að lesa.

(Víðsjá, 24. mars 2011)

James Carroll: Jerusalem, Jerusalem

Hjalti Ægisson, apríl 15, 2011

Jerúsalem, Jerúsalem er titill nýútkominnar bókar eftir bandaríska rithöfundinn og kaþólikkann James Carroll. Nafn borgarinnar helgu er tvítekið í titlinum, sennilega til þess að undirstrika tvíbenda stöðu hennar í hugarheimi Vesturlanda; Jerúsalem er ekki bara borg heldur líka hugmynd sem hefur lifað og þróast í gegnum allar mestu hræringar á sögulegum tíma. Engin borg líkist Jerúsalem, þar gekk Jesús Kristur um göturnar og þar var hann krossfestur; í fornöld var Jerúsalem skurðpunktur mestu stórvelda heimsins, þar háðu Babýlóníumenn og Assýríumenn örlagarík stríð, sem og Egyptar, Grikkir, Makedóníumenn og Rómverjar. Átökin um Jerúsalem eru einn af rauðu þráðunum í vestrænni siðmenningu. Eyðing borgarinnar árið 70 eftir Krist markaði tímamót í mannkynssögunni og lagði grunninn að nýjum sjálfsskilningi, bæði hjá kristnum mönnum og gyðingum. Þegar musterið í Jerúsalem hafði verið jafnað við jörðu þurfti að skilgreina inntak trúarbragðanna upp á nýtt; fyrir gyðingunum lifði musterið áfram sem minning, fyrir kristnu mönnunum markaði atburðurinn upphafið á hugmyndinni um Krist sem hið nýja musteri, sameinandi afl sem var óháð landsvæðum og kynþáttum. Á miðöldum var eyðing Jerúsalems oft túlkuð sem hefnd fyrir krossfestinguna, Rómaveldi hafi þannig eingöngu verið að framfylgja réttlætinu með þessari óhugnanlegu innrás sem kostaði tugir þúsunda lífið. Saga Jerúsalemsborgar frá upphafi og til okkar daga er saga ofbeldis, sagan um það hvernig mannkynið freistast til að grípa til ofbeldis og koma í veg fyrir að það nái að brjótast út.

James Carroll kom til Jerúsalem í fyrsta sinn sumarið 1973. Hann stóð þá á þrítugu og hafði starfað sem kaþólskur prestur við Háskólann í Boston í fjögur ár. Ferðin hafði vitanlega trúarlegt inntak, Carroll vildi, eins og svo margir bæði fyrr og síðar, fá að upplifa staðinn þar sem frelsarinn lifði og dó, feta í fótspor Krists, anda að sér sama loftinu og hann. Það var einhver einkennilegur samhljómur á milli borgarlífsins og sálarlífs hins unga prests; hvort tveggja var einskær glundroði, enda þótti honum ekki úr vegi að túlka borgarmyndina sem tákn jarðlífsins. Guð kemur til mannanna þegar líf þeirra er óreiðukennt og flókið, og einmitt þannig er Jerúsalem. James Carroll var sonur eins áhrifamesta hershöfðingjans í bandaríska lofthernum, en einlægur friðarsinni engu að síður. Hann hafði tekið virkan þátt í mótmælum gegn stríðinu í Víetnam og starfaði innan vébanda kaþólskrar vinstrihreyfingar sem settu friðarbaráttu á oddinn.

James Carroll

Ferðin til Jerúsalem markaði tímamót í lífi James Carroll, hugljómun er kannski rétta orðið, því það var þarna, í þessari helgustu borg kristinna manna, gyðinga og múslima, sem hann ákvað að láta af preststarfinu og gerast rithöfundur. Á áttunda og níunda áratugnum skrifaði hann fyrst og fremst skáldsögur, en útgefnar sögur hans fylla tuginn. Um og eftir miðjan tíunda áratuginn sneri James Carroll sér hins vegar að ritun fræðibóka, þeirri tegund bókmennta sem hafa haldið nafni hans á lofti. Tengsl trúar og ofbeldis eru höfuðviðfangsefni hans og hann hefur oftar en einu sinni komið illa við kauninn á kaþólsku kirkjunni, þótt hann hafi alla tíð litið á sig sem kaþólikka. Árið 2009 gagnrýndi hann Benedikt sextánda páfa harkalega fyrir blinda bókstafstrú og mannfjandsamlegar áherslur sem eru í engu samræmi við nútímaleg mannréttindi, að hans mati. Tengsl kristinna manna og gyðinga hafa líka verið James Carroll sérstakt hugðarefni í áranna rás, þekktasta rit hans er án vafa bókin Sverð Konstantínusar, sem út kom árið 2001. Þar ritar hann um gyðingahatur og helsta málsvara þess á alþjóðavettvangi í sögu mannkynsins, nánar tiltekið kaþólsku kirkjuna. Að mati Carrolls spratt helförin ekki upp úr engu, heldur var hugmyndafræði kaþólskunnar sá jarðvegur sem Adolf Hitler og fylgismenn hans erjuðu af kappi – án kristinnar trúar og þeirra gilda sem í henni felast hefði helförin aldrei verið möguleg.

Í nýjustu bók James Carroll er fjallað um Jerúsalem, borgina sem Rómverjar lögðu í eyði um það leyti sem guðspjöllin voru skrifuð. Carroll notar hugtakið Jerúsalemsveiki í þessu riti, Jerusalem Fever. Með því  á hann við þá tilhneigingu, sem hefur loðað við borgina, svo langt aftur sem ritaðar heimildir greina, að tengja þessa borg við hvers konar heimsendafantasíur. Í Opinberunarbók Jóhannesar, lokakafla Nýja testamentisins, er himnaríki kallað himnesk Jerúsalem, og öldum saman hafa lýsingar á þessari borg verið eitt helsta viðmiðið í ritum þeirra sem hafa reynt að ímynda sér handanlífið. Jerúsalemveikin hefur alltaf blundað í vestrænni menningu, að mati James Carroll. Kristnir menn og múslimar hafa, ekkert síður en gyðingar, spunnið fjölda sagna um þessa borg, hún er miðlæg í ímyndunarafli og hugmyndakerfi þessara trúarbragða, því þetta er staðurinn sem Guð snerti. Sú hugmynd hefur haft óumræðilegar afleiðingar í mannkynssögunni.

Í landfræðilegum skilningi er Jerúsalem líka mjög sérstök borg, um hana rennur engin á, hún liggur ekki að sjó, heldur er hún byggð á hæðum. James Carroll rekur sögu þessarar hrjóstrugu borgar frá bronsöld til nútímans í bókinni Jerúsalem, Jerúsalem, og það kemur á óvart að þeir eiginleikar sem við eignum henni með hliðsjón af lýsingum Biblíunnar, ná jafnvel lengra aftur en þeir ættfeður Ísraels, sem fjallað er um í fyrstu Mósebók. Fornleifarannsóknir benda til þess að löngu fyrir þann tíma sem lýst er í Biblíunni kunni borgin að hafa verið vettvangur trúarfórna, þar sem mönnum var fórnað á altari til dýrðar guðlegum máttarvöldum. Frá örófi alda hafa hæðirnar í Jerúsalem verið vettvangur táknrænna athafna þar sem trú og ofbeldi blandast á ísmeygilegan hátt. Trúarbrögð gyðinga hefjast á því þegar Guð hafnar ofbeldinu, eins og sagan um fórn Abrahams ber með sér. James Carroll hefur í verkum sínum fjallað um nauðsyn þess að trúað fólk í nútímanum, hvort sem það eru gyðingar, kristnir menn eða múslimar, horfist í augu við þann trúarlega bakgrunn sem liggur ofbeldinu til grundvallar. Möguleikinn á friði í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs getur ekki orðið raunverulegur öðruvísi en með því að gera upp þá ofbeldisfullu sögu sem birtist okkur í sögu Jerúsalemborgar. Á síðustu sextíu árum hafa tvær kynslóðir vaxið úr grasi á Vesturlöndum, fólk sem hefur notið meiri friðar en áður hefur þekkst í mannkynssögunni. Þessi friður sprettur að mati Carrolls af því að stofnanabundinni trú hefur verið hafnað, hún er veikari nú en nokkru sinni áður í Evrópu, og þar með skapast grundvöllur fyrir raunverulegum mannréttindum, afnámi dauðarefsinga og endalokum meiriháttar styrjaldarátaka. James Carroll talar þó ekki fyrir trúleysi í ritum sínum, heldur trúarumbótum, hann krefst þess að trúarstofnanir geri upp sína ofbeldisfullu sögu og bók hans um Jerúsalem er hugsuð sem innlegg í það uppgjör.

(Víðsjá, 17. mars 2011)

James Shapiro: Contested Will

Hjalti Ægisson, apríl 14, 2011

Árið 1794 var viðburðaríkt ár í breskum bókmenntum. Ekki bara vegna þess að það var þetta ár sem William Blake gaf út ljóðabækur sínar, Söngva sakleysisins og Ljóð lífsreynslunnar í einu bindi, og ekki bara vegna þess að Jane Austen skrifaði sína fyrstu skáldsögu þetta ár. Nei, mesti viðburðurinn í bresku bókmenntalífi árið 1794 var vafalaust í árslok þegar nokkur ómetanleg skjöl úr fórum Williams Shakespeares komu í leitirnar. Um var að ræða bréf, rituð með hendi skáldsins, til ýmissa nafntogaðra samtímamanna hans, svo og bréf annarra til Shakespeares, þar á meðal eitt frá Elísabetu Englandsdrottningu, þar sem hún þakkar honum honum fyrir fallegu línurnar sem hann sendi henni síðast, og segist hlakka til að hitta hann með leikaraflokkinn sinn í sumar. Þessi bréfafundur þótti sæta miklum tíðindum, og ekki minnkaði æsingurinn hjá aðdáendum Shakesepeares í febrúar árið eftir, þegar áður óþekkt handrit að Lé konungi kom í leitirnar, handrit sem hafði að geyma upprunalega gerð verksins, óræk sönnun þess að það hefði verið stytt verulega í meðförum ritstjóra og leikstjóra á seinni tímum. Sá sem fann skjölin og gerði þau opinber var tæplega tvítugur piltur, William Henry Ireland, sonur Samuel Ireland, sem var einn kunnasti fornleifasafnarinn í Lundúnum og mikill Shakespeare-aðdáandi. Drengurinn hafði komist í kynni við aðalsmann sem vildi ekki láta nafns síns getið, en gaf honum handritin, sem höfðu tilheyrt fjölskyldu hans um árabil. Skjölin voru fljótlega gefin út og útgáfunni var fagnað mjög af helstu bókmenntasérfræðingum landsins. Það kættust þó ekki allir yfir þessum atburðum, einn þeirra sem lét sér fátt um finnast var Edmond Malone, sem var meðal áhrifamestu Shakespeare-fræðinga á átjándu öld. Skýringin á þessu fálæti hans lá í augum  uppi að margra mati, karlinn hlaut að vera öfundsjúkur út í hið ómenntaða piltkorn sem hafði fært bókmenntasamfélaginu þessa gjöf sem var svo stór að nú þurfti að meta líf skáldsins frá Stratford alveg upp á nýtt. Það kom þó annað hljóð í strokkinn þegar Malone svaraði útgáfunni með bók í mars 1796, fjögurhundruð síðna doðranti þar sem hann rakti sig í gegnum hin nýfundnu skjöl lið fyrir lið, rýndi í orðalagið, og kvað upp þann dóm að þau stæðust ekki fræðilega skoðun; þetta væri augljóslega ekki ritað á ævitíma Shakespeares, því textinn var fullur af klúðurslegri fyrningu og mun yngra orðalagi. Það leið svo ekki á löngu þar til William Henry Ireland viðurkenndi að hann hefði falsað skjölin frá upphafi til enda, ekkert þeirra var frá Shakespeare komið, og nafnlausi velgjörðarmaðurinn sem átti að hafa gefið honum þau var uppspuni frá rótum.

Þessi saga, og margar aðrar, er sögð í nýlegri bók, Contested Will eftir bandaríska sagnfræðinginn James Shapiro. Þar er rakin saga hugmyndar sem hefur lengi loðað við William Shakespeare, nánar tiltekið þeirrar hugmyndar að hann hafi ekki ritað verk sín sjálfur, heldur einhver annar, hugsanlega fleiri en einn maður. Þessi umræða kviknaði í lok átjándu aldar, um svipað leyti og glæpasagan kom fram á sjónarsviðið, en efasemdirnar um Shakespeare sem höfund hefur alltaf borið keim af morðgátunni. Hver framdi glæpinn, hafa menn spurt, ef það var ekki William Shakespeare sem ritaði þessi ódauðlegu verk, hver var það þá? James Shapiro rekur þessa sögu af aðdáunarverðri nákvæmni, frásagnargleði og fræðilegri stillingu sem er engu lík. Hann tekur skýrt fram í upphafi bókarinnar að hann telji sjálfur að Shakespeare hafi ritað verkin sem honum eru eignuð, en honum tekst frábærlega að rekja það hvernig mótbárurnar verða til, þróast og breiðast út.

Sagan um Shakespeare-efasemdirnar er lyginni líkust á köflum, full af svikum og fölsunum, eins og frásögnin um William Henry Ireland ber með sér. Stóra vandamálið við Shakespeare sem sagnfræðilegt viðfangsefni er heimildaleysið; það eru engin skjöl varðveitt með hendi hans sjálfs, engar myndir til af honum aðrar en þær sem voru málaðar eftir að hann lést, og haldföst vitneskja um æviferil hans er skorin við nögl. Í leikritum Shakespeares eru svo fáar áþreifanlegar vísanir til ritunartímans, að við hljótum að álykta að maðurinn hafi tekið meðvitaða ákvörðun um að binda verkin ekki samtíma sínum með neinu móti. Auk þess er ýmislegt sem bendir til þess að hann hafi vísvitandi þurrkað út allan vitnisburð um æviatriði sín, eins rækilega og hann gat, til þess að tryggja að sagnfræðingar komandi kynslóða hefðu ekki erindi sem erfiði þegar þeir færu að hnýsast fyrir um líf hans. Í svona óvissuástandi er vitanlega mikið rými fyrir getgátur og sögusagnir, krassandi samsæriskenningar skjóta gjarnan upp kollinum þegar heimildirnar skortir, en meintur menntunarskortur skáldsins eru sá klettur sem þessar vangaveltur voru byggðar á í upphafi. Leikrit Shakespeares eru að miklu leyti unnin upp úr eldri heimildum, annálum, konungasögum, sagnasöfnum frá Ítalíu og Frakklandi, verkum fornaldarhöfunda og ýmsum öðrum ritum. Það liggur í augum uppi að sá sem samdi þessi verk var gríðarlega vel lesinn – og læs á fleiri tungumál en sitt eigið. Í erfðaskrá Williams Shakespeares, kaupsýslumannsins frá Stratford, er hins vegar ekkert minnst á bækur eða handrit; fljótt á litið virðist þessi maður ekki hafa skilið eftir sig svo mikið sem eitt póstkort af rituðu máli, hvað þá myndarlegt safn skáldverka og fræðibóka. Fyrir vikið hafa aðrir verið tilnefndir sem líklegri kandídatar, og í þeim hópi hefur heimspekingurinn Francis Bacon lengi verið fremstur meðal jafningja.  Á seinni árum hafa fleiri verið taldir koma til greina, ekki síst Edward de Vere, jarl af Oxford, en hann og Bacon fá hvor sinn kaflann í bók James Shapiro. Þeir eru að mörgu leyti dæmigerðir fulltrúar í þessu samhengi, og útnefning þeirra er líka lýsandi fyrir ýmsa aðra sem hafa þótt koma til greina. Jafnvel Cristopher Marlowe hefur verið nefndur, þótt hann hafi dáið árið 1593; getgátur um að dauði hans hafi verið settur á svið eru fylgifiskur hugmyndarinnar um að hann hafi skrifað verk Shakespeares, auk þeirra verka sem komu út í hans nafni.

Ein helsta forsendan fyrir deilunum um það hvort Shakespeare skrifaði verk sín sjálfur, eða einhver annar, er sú mikla dýrkun sem hefur fylgt honum frá því á átjándu öld. Aðdáunin á Shakespeare var fyrst um sinn bundin leikritunum, en ekki manninum sem samdi þau; á þessu verður breyting í lok átjándu aldar, um það leyti sem rómantískar hugmyndir um skáldin sem sjáendur og snillinga eru að festast í sessi. Í enskri tungu er reyndar til sérstakt orð um þetta mál, bardolatry, sem er notað um goðgervingu svansins frá Avon. Edmond Malone, maðurinn sem afhjúpaði falsanir William Henry Ireland, gaf heildarverk Shakespeares út árið 1790, og sú útgáfa markaði tímamót, því þar eru verkin ekki flokkuð eftir bókmenntagreinum, heldur eru sonnetturnar látnar standa innan um leikritin. Öll verkin voru þannig tala geyma vott þess mikla anda sem skáldjöfurinn Shakespeare bjó yfir. Með útgáfu Malones komst það í tísku að reyna að sjá manninn í verkunum, líta á þau sem sjálfsævisögulegan vitnisburð, og reyna þannig að bæta upp  skortinn á heimildum um lífshlaup skáldsins. Að mati James Shapiro var þetta þó varhugaverð leið, og telur að Malone hafi gerst sekur um rækilega tímaskekkju í nálgun sinni við efnið, hann hafi í raun valið að gera Shakespeare að upplýsingarmanni, lærðum og framfarasinnuðum höfundi sem kepptist við að betrumbæta verk eldri og ófullkomnari höfunda. Um miðja nítjándu öld var þetta svo orðin ríkjandi skoðun; allir helstu bókmenntafræðingar Vesturlanda á þeim tíma gengu gagnrýnislaust inn í orðræðuna sem Malone bjó til og lögðu sig alla fram við að reikna út þá staði í leikritunum þar sem persónuleiki skáldsins skín í gegn. Bókin Contested Will eftir James Shapiro er hreinn skemmtilestur, því efnið er sannarlega spennandi, en segja má að undirskipað viðfangsefni bókarinnar sé að sýna fram á að Shakespeare sé ekki „samtímamaður“ okkar, ekki eins algildur og stundum er haldið fram, heldur barn síns tíma. Umræðan um hann er oft anakrónísk, margir hafa tilhneigingu til að lesa samtímann inn í sautjándu öldina, og í nafni almennrar skynsemi er mikil þörf á að úthýsa öllum slíkum rökvillum. Contested Will er kraftmikið innlegg í umræðuna um arfleifð enska höfuðskáldsins, og tilvalin lesning í framhaldi af Shakespeare-sýningunum sem hafa staðið til boða í íslenskum leikhúsum upp á síðkastið.

(Víðsjá, 10. mars 2011)

Handritin hans Kafka

Hjalti Ægisson, apríl 14, 2011

Franz Kafka

Hver á Kafka? spyr bandaríski heimspekingurinn Judith Butler í grein í nýjasta hefti bókmenntatímaritsins London Review of Books. Spurningin er áhugaverð, ekki síst í ljósi þeirra deilna sem nú eru háðar fyrir dómstólum í borginni Tel Aviv í Ísrael. Deilurnar snúast um nokkra kassa af handritum úr dánarbúi rithöfundarins Franz Kafka sem komu upp úr kafinu fyrir fáeinum árum. Það er margt flókið við Kafka, ekki bara sálarlífið, heldur líka það menningarlega auðmagn sem felst í verkum hans, og víst er að þar koma margir kröfuhafar við sögu. Kafka fæddist í Austurríki-Ungverjalandi, ríki sem nú er ekki lengur til; hann var tékkneskur gyðingur sem skrifaði á þýsku. Hann bjó mestalla ævina í Prag, og allir sem hafa heimsótt þá borg vita að þar er Kafka í hávegum hafður; íbúar Prag eru stoltir af sínum manni, jarðneskar leifar hans eru grafnar í kirkjugarðinum þar, og heimili hans er nú safn þar sem hægt er að kaupa Kafka-póstkort, Kafka-boli og annan söluvarning.

Hitt er annað mál að verk Kafka eru öll rituð á þýsku, þau eru raunar oft talin með því besta sem ritað var á þá tungu á síðustu öld. Bókmenntafræðingurinn Georg Steiner og fleiri málsmetandi menn í þýskri menningarsögu hafa ritað töluvert um stílinn í verkum Kafka, og telja hann dæmi um skýran og tæran, þýskan prósa. Það má því með réttu telja verk Franz Kafka til þýskra bókmennta, enda leit hann sjálfur á sig sem þýskan höfund. Milan Kundera fullyrðir í Tjöldunum að þýskan sé án nokkurs vafa ástæða þess að verk hans urðu svo áhrifarík sem raunin er: „...ykkur er óhætt að trúa mér, enginn myndi þekkja Kafka núna, ekki nokkur maður, ef hann hefði skrifað á tékknesku.“ Við þetta bætist svo gyðingdómurinn, þetta yfirþjóðlega afl sem er svo áhrifaríkt í menningu síðustu tveggja alda. Franz Kafka var gyðingur, og sú staðreynd skiptir höfuðmáli í réttarhöldunum sem fara fram í Tel Aviv þessi misserin.

Max Brod

Sagan um handritakassana hófst árið 1924, þegar Franz Kafka lá fyrir dauðanum og bað útgefanda sinn, Max Brod, um að brenna öll sín handrit að sér látnum. Það er einhver furðuleg þversögn í þessari hinstu bón Kafka, eins og Judith Butler bendir á í grein sinni; Max Brod hafði öll handritin í sínum fórum á meðan Kafka var enn á lífi, en Kafka bað hann ekki um að færa sér handritin aftur svo að hann gæti brennt þau sjálfur. Hann sagði einfaldlega við útgefanda sinn og besta vin: Brennd þú handritin. Þar með var það Max Brod sem átti kvölina og völina, hann var gerður ábyrgur fyrir því að eyðileggja skáldsögurnar Réttarhöldin, Ameríku og Höllina áður en þær kæmu fyrir augu lesenda. Þegar Kafka var allur ákvað Max Brod að verða ekki við óskinni, hann brenndi handritin ekki heldur hóf að gefa verkin út. Þegar seinni heimsstyrjöldin skall á flutti Brod frá Prag, um það leyti sem nasistar hertóku borgina, og flúði til Palestínu ásamt eiginkonu sinni. Í einni ferðatöskunni voru öll þau skjöl sem Franz Kafka hafði látið eftir sig. Brod bjó í Tel Aviv til æviloka, og í erfðaskrá sinni ánafnaði hann handritin konu að nafni Esther Hoffe, sem var einkaritarinn hans. En það er margt óljóst í erfðaskrá Max Brod, hann nefnir að það væri til dæmis hægt að varðveita handritin á háskólabókasafninu í Jerúsalem, borgarbókasafninu í Tel Aviv, eða einhverju öðru skjalasafni, hvort heldur sem er í Ísrael eða annars staðar.

Einkaritarinn Esther Hoffe tók við skjölunum árið 1968 þegar Max Brod féll frá. Hún kom þeim þó ekki í vörslu í skjalasafni heldur geymdi þau einfaldlega heima hjá sér, og gætti þeirra eins og sjáaldurs augna sinna, með þeirri einu undantekningu að hún freistaðist til að selja frumhandritið að Réttarhöldunum árið 1988 og stórgræddi á þeim viðskiptum. Þegar Esther Hoffe lést svo árið 2007 tóku dætur hennar við skjalabunkanum. Um þessar mundir standa þær í deilum við landsbókasafnið í Ísrael um eignarhaldið á handritunum. Systurnar Eva Hoffe og Ruti Wisler krefjast þess að vera viðurkenndar sem lögmætir eigendur Kafka-handritanna, en landsbókasafnið í Ísrael vill fá gögnin í sína vörslu, enda séu þau ísraelskar þjóðargersemar, ekkert síður en dauðahafshandritin. Dómsúrskurður í málinu er sennilega væntanlegur á þessu ári eða því næsta, og ef dómurinn verður systrunum í hag er næsta öruggt að þær haldi uppboð á handritunum og selji þau hæstbjóðanda. Landsbókasafninu í Ísrael verður vitanlega frjálst að gera þar tilboð, eins og öllum öðrum. Það má teljast afar líklegt að þýska skjalasafnið í Arbach verði þá einnig meðal þátttakenda, semsagt aðilinn sem keypti handritið að Réttarhöldunum árið 1988, og hefur fyrst og fremst áhuga á Kafka sem þýskum höfundi.

Hver á Kafka? spyr Judith Butler árið 2011. Max Brod var sannfærður síonisti og án hans hefðu verk Kafka aldrei orðið okkur aðgengileg, en Franz Kafka kom aldrei til landsins helga. Mikill fjöldi evrópskra gyðinga flutti til Palestínu á fyrstu áratugum 20. aldarinnar, margir litu á slíka búferlaflutninga sem lokaskref í andlegum og trúarlegum þroska, en hugur Kafka virðist aldrei hafa stefnt þangað. Hann hlaut gyðinglegt uppeldi og gyðingdómurinn setti mark á hugsun hans, en þó er afstaða hans til gyðingdómsins tvíbent. Í Bréfi til föðurins fullyrðir hann að gyðingdómurinn hafi ekki einu sinni dugað til að sameina hann og föður hans, og sálræn vandamál sonarins birtast þar jafnt sem annars staðar. „Þú hefur frá upphafi haft andúð á mínum viðfangsefnum,“ ritar Kafka til föður síns, „...En hvað sem því líður hefði þó mátt búast við því að þú gerðir hér svolitla undantekningu. Það var þó gyðingdómur af þínum gyðingdómi sem hér lét á sér kræla og þarmeð semsagt tækifæri til nýrra tengsla okkar á milli. [...] En afskipti mín urðu til þess að gyðingdómurinn varð þér ógeðfelldur, gyðingleg rit ólesandi, þér „bauð við þeim“.“

Um þessar mundir fáum við að vera vitni að afleiðingunum sem ákvörðun Max Brod hafði í för með sér, ákvörðunin um að brenna ekki handrit Franz Kafka. Í smásögunni „Hungurlistamaður“, sem Kafka birti árið 1922, segir frá listsköpun sem hverfur með gerandanum; listamaðurinn deyr og listin deyr með honum. Kannski var það einmitt þannig sem Kafka vildi sjálfur verða, en í staðinn hlaut hann þau örlög að verða einn áhrifamesti rithöfundur 20. aldarinnar. Fáir vita með vissu hvað kassarnir í Tel Aviv hafa að geyma, kannski leynast þar nokkur meistaraverk í viðbót sem gætu enn átt eftir að breyta því hvernig við hugsum um Kafka, heimsbókmenntirnar og raunveruleikann. Systurnar Eva Hoffe og Ruti Wisler fullyrða að skjölin séu vel með farin.

(Víðsjá, 24. febrúar 2011)

Chrétien de Troyes: Percevals saga

Hjalti Ægisson, apríl 14, 2011

Þegar Hegel var búinn að hvíla í gröfinni í eitt ár sat Baldvin Einarsson við skrifborð í Kaupmannahöfn, dró andann djúpt og skrifaði orðið „tíðarandi“, fyrstur Íslendinga. Síðan þá höfum við verið að velta honum fyrir okkur, þessu ólíkindafyrirbæri, tíðarandanum. Tíðarandinn er viðsjárverður, enginn veit alveg í hverju hann felst eða hvar hann er að finna, en samt teljum við okkur þekkja hann þegar við sjáum hann. Þegar skáldið talar til lesandans tölum við um að það „skynji tíðarandann“, eða eitthvað í þeim dúr; við viljum að skáldin svari spurningunni: Hver erum við og hvað erum við að gera hér? En það er hætt við því að fáir hafi erindi sem erfiði, sá sem leggur sig ákaft og meðvitað fram um að koma tíðarandanum til skila í ljóði gæti átt það á hættu að skjóta yfir markið; núið er svo rækilega klemmt á milli fortíðar og framtíðar, milli vonbrigðanna og vonarinnar, að það sést varla. Þess vegna hafa skáldin tilhneigingu til þess að leita aðstoðar hjá kollegum sínum, skrifa gömul ljóð upp á nýtt; þau hugsa með sér að kannski sé tíðarandann einmitt þar að finna, í fortíðinni, jafn þversagnarkennt og það hljómar; rannsóknir sýna nefnilega að það er eitthvað til í klisjunni um endurtekninguna eilífu. Hið nýja getur þess vegna verið mjög gamalt, til dæmis átta hundruð ára.

Núna um daginn gerðust þau merku tíðindi að út kom á íslensku bók, sem heitir Perceval eða Sagan um gralinn. Um er að ræða verk sem var skrifað á fornfrönsku einhvern tímann seint á tólftu öld af manni sem hét Chrétien de Troyes; um höfundinn er lítið vitað og verkið sjálft er engu minni ráðgáta. Það var Ásdís Rósa Magnúsdóttir sem þýddi þessa merkisbók á íslensku og ritaði auk þess greinargóðan formála. Ásdís var að vísu ekki fyrst til að fá hugmyndina, því einhvern tímann fyrir mörghundruð árum var skrifuð saga á íslensku sem var kölluð Percevals saga. Þar er um þýðingu sama verks að ræða, en gamla þýðingin er mjög stílfærð, og töluvert stytt í þokkabót. Nú fáum við loksins að lesa allt verkið í nákvæmri, íslenskri þýðingu, sem er sannkallað fagnaðarefni.

Perceval eða Sagan um gralinn er frásögn um ungan mann sem leggur af stað út í heim til að gerast riddari, þrátt fyrir mótbárur móður sinnar, sem vill með öllum ráðum forða drengnum frá því að lenda í slíkum ævintýrum. Móðurinni verður svo mikið um á kveðjustundinni að hún hnígur niður á dyrahellunni; stráksi hvetur hestinn sinn áfram og hirðir ekki um að gæta að móðurinni, en tilhugsunin um yfirliðið situr sífellt í honum. Loks ákveður hann að fara heim aftur til að gá hvort ekki sé allt í lagi með móður hans. Á leiðinni mætir hann tveimur mönnum sem sitja í báti úti á vatni og veiða fisk. Annar þeirra er Fiskikóngurinn, sá særði leiðtogi, sem er fótlama og getur hvorki setið hest né barist í orustu. Drengnum er boðið í veislu í höll Fiskikóngsins þar sem mikill og fagur borðbúnaður er borinn fram. Daginn eftir er drengurinn einn í höllinni, allir íbúarnir virðast horfnir, svo hann heldur sína leið. Niðurlag sögunnar er dálítið óljóst, það er næstum öruggt að höfundurinn hefur dáið frá verkinu og því ekki náð að leiða það til lykta. Efniviðurinn hitti þó svo sannarlega í mark, því a.m.k. fjórir aðrir miðaldahöfundar tóku upp þráðinn þar sem Chrétien sleppti honum og bjuggu til framhald á söguna. Einn þeirra var Robert de Boron, sem lagði alveg sérstaka merkingu í einn diskinn sem var borinn fram í veislu Fiskikóngsins hjá Chrétien. Robert breytti disknum reyndar í bikar, og þannig varð til goðsögnin um hinn heilaga gral. Trúarlegt vægi sagnaefnisins jókst þannig smám saman, og sennilega hafa lesendur í lok tólftu aldar þóst sjá tíðarandann í þessum sagnaheimi; verk Chrétiens lýsir flóknum siðferðisspurningum, og þótt sagan sé einföld gefur hún sífellt tilefni til nýrra vangaveltna.

Um það leyti sem Chrétien lést frá sínu ókláraða verki misstu kristnir menn landið helga í hendur múslima, og í kjölfarið rúllaði þriðja krossferðin í gang. Einhverjir vildu túlka gralinn sem uppbót fyrir þennan missi, sem sýnir hversu mikill vilji var fyrir hendi til að láta hið brotakennda verk Chrétiens ganga upp. Það er eins og þessi saga hrópi á túlkanir, viðbætur og framhaldsskrif, enda hefur hún verið í endursköpun allar götur síðan. Sennilega er það bara tímaspursmál hvenær íslenska bókmenntasamfélagið tekur við sér og framleiðir afurð sem er innblásin af sögunni, í því skyni að lýsa tíðarandanum, því Sagan um gralinn hefur sjaldan verið eins aðkallandi og nú, allténd í efnahagslegu samhengi – ekki satt? Þegar T.S. Eliot tók að sér að lýsa ástandinu í Evrópu eftir fyrri heimsstyrjöld naut hann góðs af því að þekkja söguna um Fiskikónginn. Útkoman úr þeim lestri var Eyðilandið, viðbragð við hruninni heimsmynd og enn eitt dæmið um það hvernig efniviður Chrétien de Troyes gefur skáldum færi á að yrkja tíðarandaljóð. Samkvæmt hefðinni er Fiskikóngurinn særður og því ríkir eilíf auðn í ríki hans, grösin vaxa ekki og engir ávextir spretta á trjánum. Í raun á hvaða íslenskt skáld sem er leikinn og ætti að skella upp taflinu sem fyrst; ef útgáfa íslenskrar þýðingar á Sögunni um gralinn er ekki tilefni til þess að bera brotin að rústunum, þá bara veit ég ekki hvað. Ef eitthvert skáld er að hlusta vil ég bara taka það fram í lokin, til að fyrirbyggja allan misskilning, að það er hverjum sem er frjálst að stela hugmyndinni, ég óska góðs gengis og lofa að reyna að mæta á Bessastaði þegar þér verða afhent íslensku bókmenntaverðlaunin.

(Víðsjá, 20. janúar 2010)

Dante: Gleðileikurinn guðdómlegi

Hjalti Ægisson, apríl 14, 2011

Erlingur E. Halldórsson er eins konar stofnun í íslensku bókmenntalífi; veldi, liggur mér við að segja. Síðustu tvo áratugina hafa runnið frá honum þýðingar á stórvirkjum heimsbókmenntanna, og nú er svo komið að þeir Íslendingar sem vilja koma sér upp lágmarksþekkingu á  vestrænni bókmenntasögu geta vart komist hjá því að kynna sér verk Erlings, að því gefnu að fólk vilji lesa þessi verk á sínu tungumáli. Erlingur hefur þýtt verk frá fornöld, miðöldum og endurreisnartímanum, og nú á dögunum kom út þýðing hans á því bókmenntaverki sem er allajafna talið kjarninn í vestrænni menningu á hámiðöldum, eins konar lykill að heimsmynd kaþólsku kirkjunnar og þar með eitt áhrifamesta verk síðari alda. Þetta er Gleðileikurinn guðdómlegi eftir flórentínska skáldið Dante Alighieri, ljóð sem er ritað á ítölsku í upphafi fjórtándu aldar, eitt þeirra verka sem markar raunverulegt upphaf bókmenntasköpunar á þjóðtungum. Frá og með rómantíkinni má segja að kunnátta í þessu verki Dantes verði veigamikill þáttur í fagurfræðilegu uppeldi fólks á Vesturlöndum. Allmörg stórskáld á 19. og 20. öld spreyta sig á því að þýða Gleðileikinn á sitt móðurmál að hluta eða í heild; Shelley í Bretlandi, Púshkín í Rússlandi, Stefan George í Þýskalandi og Longfellow í Ameríku. Fyrsti maðurinn sem þýddi Dante á íslensku svo vitað sé var Gísli Brynjúlfsson, það mun hafa verið í desember 1851 sem hann þýddi nokkrar línur úr Inferno 3 og Paradiso 33. Gísli fylgdi fordæmi Jóns á Bægisá og beitti fornyrðislagi, en nærvera Dantes í íslenskum bókmenntum hafði að vísu hafist nokkrum árum fyrr með Gunnarshólma Jónasar Hallgrímssonar, sem er að stærstum hluta ort undir terzínuhætti, bragarhætti Dantes.

Erlingur Halldórsson kýs að þýða Gleðileikinn á óbundið mál, og er sú ákvörðun um margt skynsamleg, hér er lögð áhersla á nákvæmni umfram áhrif. Þetta er sama leið og Erlingur fór í þýðingu sinni á Kantaraborgarsögum Chaucers, öðru 14. aldar verki sem er ritað á bundnu máli en þýtt á prósa. Þýðingin er af þessum sökum mjög gagnleg öllum þeim sem vilja komast nálægt hinum upphaflega texta Dantes; sem stuðningur við frumtextann er hin nýja þýðing Erlings því ómetanleg. Ekki spillir að línunúmer eru prentuð á spássíum og hægt að hafa þau til viðmiðunar þegar flett er upp í ítölskum útgáfum. En öllum listrænum ákvörðunum fylgja vissir annmarkar, þegar einar dyr opnast er hætt við því að aðrar lokist. Erlingur leggur höfuðáherslu á að þýða beint og nákvæmt, sem getur vitanlega ekki talist galli út af fyrir sig, en á móti kemur að lítið svigrúm er eftir fyrir nýstárlega málnotkun, tilraunastarfsemi í myndmáli eða frávik frá hinni upphaflegu hugsun. Orðaröðin hjá Erlingi er til að mynda iðulega mjög nálægt texta Dantes sjálfs, og fyrir vikið er hún sums staðar ekki alveg átakalaus á íslensku. Í samræðuköflum verður þetta dálítið áberandi, Dante notar víða fasta frasa í upphafi ljóðlína, einfaldlega vegna þess að hrynjandin krefst þess. Þetta eru orðasambönd á borð við: „Ed elli a me,“ sem þýðir bókstaflega: „Og hann við mig.“ Og það er einmitt þannig sem Erlingur þýðir þetta í flestum tilvikum. Kannski hefði það orðið meira leikandi að umorða þessar sviðsleiðbeiningar, vefja þær til dæmis inn í setninguna miðja, í því skyni að láta orðfærið hljóma eðlilegra, svona fyrst textinn er orðinn prósi á annað borð og þær takmarkanir sem bragarhátturinn hefur í för með sér skipta ekki lengur máli.

Orðaval hjá Erlingi er að sama skapi umdeilanlegt þegar hin stranga nákvæmni hans er höfð í huga. Í hinum frægu upphafsorðum, þar sem Dante lýsir því hvernig hann hefur villst í dimmum skógi, talar Erlingur um „veginn sem liggur beint“, og þýðir þar „la dritta via“. Guðmundur Böðvarsson steig feti lengra frá upphaflegu merkingunni í þýðingu sinni sem út kom 1968, og þýddi þetta sem „þann stíg, er skyldi ég fara“. Erlingur gengur með öðrum orðum skemmra í því að afkóða þá allegóríu sem er ríkjandi í verkinu, en það telst væntanlega kostur að margra mati. Nánari samanburður á þýðingum Erlings og Guðmundar leiðir ýmislegt forvitnilegt í ljós, og vonandi mun einhver rannsaka það mál til hlítar fyrr en seinna. Lokaorð Virgils í ljóðinu koma fyrir í 27. þætti Purgatorio, ferðalangurinn Dante er þá orðinn klár í að rísa upp til himna og berja augum dýrðina sem þar býr. Virgill veitir honum þá kórónu og mítur yfir sjálfum sér, Dante er sem sagt orðinn siðferðilega stöðugur og fær um að hafa taumhald á eigin hvötum, hugsunum og tilfinningum. Hjá Guðmundi segir Virgill: „Yfir þig sjálfan krýni ég þig og vígi,“ en hjá Erlingi hljómar þetta svona: „ég krýni þig herra sjálfs þín, og set á þig mítur.“ Ég hallast að því að tvenndarhugsunin sé skýrari í hinni nýju þýðingu Erlings, hér byggist líkingin vitanlega á tilvísun til þeirra átaka sem voru mál málanna á fjórtándu öld, þ.e.a.s. átakanna á milli keisara og páfa. Míturinn er skýrt tákn biskupa og páfa, en sögnin „að vígja“ hefur mun almennari skírskotun. Á stöku stað þykir mér þó sem hin skilyrðislausa tryggð Erlings við texta Dantes verði þýðingunni fjötur um fót. Í 26. þætti Vítis finnum við t.a.m. hvatningarræðu Ódysseifs til manna sinna, hann telur í þá kjark að halda ævintýraleitinni áfram og höfðar til þeirrar húmanísku hugmyndar að maðurinn sé mælikvarði allra hluta og þekkingarleitin sé hans hlutverk. „Fatti non foste a viver come bruti,“ segir Ódysseifur: „Þið voruð ekki skaptir til að lifa sem skynlausar skepnur, heldur til að sækjast eftir verðleikum og þekkingu,“ „ma per seguir virtute e canoscenza“. Ódysseifur fullvissar fylgdarsveina sína um að þetta sé ástæðan fyrir því að þeir voru bornir í þennan heim: „Hugleiðið vel uppruna ykkar,“ – „Considerate la vostra semenza“. Orðið „semenza“ þýðir bókstaflega „sæði“, en er einfaldlega tákn um uppruna og hlutverk. Erlingur þýðir þetta svo: „Hugleiðið vel sæðið sem leiddi til fæðingar ykkar,“ sem er óþarfa nákvæmni að mínu mati, og einkum til þess fallið að gera frásögnina á þessu tilfinningaþrungna augnabliki þyngri í vöfum.

Með hinni nýju þýðingu sinni á Gleðileiknum guðdómlega hefur Erlingur Halldórsson unnið enn eitt þrekvirkið í því skyni að færa samlöndum sínum brot af því besta af gnægtaborði heimsbókmenntanna. Það er í raun ótrúlegt að engum skuli fyrr hafa auðnast að gera íslenska heildarþýðingu á þessu mikilvæga ljóði, og því tímabært að fá þennan kærkomna grip í hendur. Góð bók hefði þó sannarlega orðið enn betri ef formáli og skýringar hefðu verið rækilegri en raunin er, skýringarnar eru raunar kallaðar „athugasemdir“, sem telst líklega réttnefni. Athugasemdirnar einkennast víða af einföldunum og fremur óljósum heimildavísunum, gjarnan spjallkenndum. Mestu máli skiptir þó að það er sterkur  heildarsvipur á þessari þýðingu, sem er vel frambærileg og mun gagnast vel sem inngangur fyrir alla þá sem vilja kynna sér undraveröld Dantes og ítalskra miðalda.

(Víðsjá, 22. desember 2010)

Sigríður Pétursdóttir: Geislaþræðir

Hjalti Ægisson, apríl 14, 2011

Klisjan um yfirvofandi dauða bókarinnar varð til löngu á undan internetinu. Hugmyndina bar á góma hérlendis í tengslum við samdrátt í bóksölu snemma á níunda áratugnum, og sennilega miklu fyrr í tengslum við eitthvað allt annað. Á seinni árum höfum við svo mátt venjast því að hugmyndinni sé slengt fram í hálfkæringi til að lýsa gamaldags eða úreltum viðhorfum; þetta er oft sett fram í dylgjustíl, sagt að „margir telji“ að dauði bókarinnar sé á næsta leiti, þetta sé „mál manna“ eða eitthvað í svipuðum dúr. Á eftir fylgir svo sú niðurstaða að þetta sé augljóslega rangt, bækur hafi aldrei verið vinsælli en núna og allar bölsýnisspár séu óþarfar. Við þetta má svo bæta einu sem vill stundum gleymast, en það er sú staðreynd að það er ekki eingöngu miðillinn sjálfur sem hefur staðið óhaggaður þrátt fyrir hið nýja og rafræna textasamfélag, heldur hafa hefðbundin bókmenntaform tekið furðu litlum breytingum eftir tilkomu internetsins. Þetta á sér sennilega þá skýringu helsta að internetið hefur sín eigin form sem eiga sína sjálfstæðu tilvist og eru ekki annað en viðbót við eldri form á borð við skáldsögur, leikrit eða ljóð. Hefðbundnar, útgefnar skáldsögur hafa ekki tekið neinum grundvallarbreytingum með internetinu, þótt stundum sé reynt að miðla netrænum raunveruleika í bókarformi.

Bókin Geislaþræðir eftir Sigríði Pétursdóttur er safn sagna sem fjalla um samskipti fólks á internetinu, nánar tiltekið í gegnum tölvupóst. Lesandinn fær að gægjast í póstsamskipti persónanna og þannig tekst Sigríði að skapa töluverða nánd við hugarheim fólksins sem hér er til umfjöllunar. Þetta er kunnuglegt trix úr smiðju átjándu aldar höfunda á borð við Rousseau og Samuel Richardson, enda bréfaskáldsagan mjög rótgróið form. Það felst ákveðið raunsæi í því að nota sendibréfið sem grundvöll játninga og vettvang til að fjalla um leyndarmál sem eiga ekki erindi út í hið opinbera líf. Í fljótu bragði er ekki að sjá að hin rafræna vídd breyti nokkru hér um – í Geislaþráðum eru sagðar sögur um leyndarmál, unglingsstúlkan Hulda skrifast á við aldraða konu í Ástralíu og játar fyrir henni að hún sé ólétt, þótt hún sé ekki enn búin að segja foreldrum sínum frá því. Smiðurinn Halldór, sem er nýbúinn að missa konuna sína, fær póst frá Berglindi, sem tilkynnir honum að hún viti nokkuð sem hann ekki veit um hina nýlátnu eiginkonu. Aðdráttarafl þessara sagna byggir á vissri gægjuþörf, við verðum vitni að einhverju sem okkur er ekki ætlað að vita.

Sögurnar eru fastar í forminu, aðalpersónurnar eru nær alltaf tvær í hverri sögu, þótt vitanlega séu fleiri nefndir án þess að fá orðið í póstinum. Listræna blekkingin í frásögninni felst meðal annars í því að hér eru það oftar en ekki manneskjur af tveimur þjóðernum sem skrifast á; það má því ímynda sér að margir af póstunum séu ritaðir á ensku á hinu raunverulega sögusviði og þeir birtist okkur því í þessari bók sem þýðingar. Þetta er auðvitað algjört aukaatriði, en tengist einum helsta veikleika verksins, sem er einsleitni í stílnum; manneskjurnar sem hér hafa orðið líkjast hver annarri og persónusköpunin fer ekki fram í málnotkun nema að mjög takmörkuðu leyti. Þær fáu tilraunir sem þó eru gerðar eru dálítið ómarkvissar – gelgjulegt málfar unglingsstúlkunnar í fyrstu sögunni virkar til að mynda ekki beint sannfærandi. Fyrir vikið þurfa þessar sögur að treysta alfarið á fléttuna, óvæntar uppljóstranir og vangaveltur sögupersónanna um lífið og tilveruna. Þetta er í flestum tilvikum leyst átakalaust af hendi; Sigríður setur markið svo sem ekki hátt en slær heldur ekki margar feilnótur fyrir vikið. Sögurnar í Geislaþráðum eru sjálfstæðar og ótengdar smásögur, sem tengjast að vissu leyti á fleiri vegu en með póstforminu, hér eru stöku þematískar tengingar þegar vel er að gáð, en að öðru leyti er textinn mestmegnis á yfirborðinu. Þetta eru glefsur úr hversdagslífi, gægjur inn á hið persónulega og sálræna svið sem dylst undir niðri.

Geislaþræðir er safn sagna sem eru læsilegar og ganga að flestu leyti upp miðað við þær forsendur sem höfundurinn gefur sér, en samt er eins og eitthvað vanti. Smásagnaformið hefur upp á margt að bjóða sem lengri sögur geta ekki leyft sér. Lesandinn hefur allajafna meiri yfirsýn við lestur smásagna, hann les textann venjulega með færri hléum, stundum í einni striklotu. Þannig geta smásögur haft beinni áhrif en langar skáldsögur, þær geta löðrungað lesandann með sterkri hugmynd, litríkri persónu eða áhrifamikilli lýsingu á andrúmslofti. Þetta er sá skóli smásögunnar sem er stundum kenndur við Edgar Allan Poe, en að hans mati var mikilvægt að smásögur væru ekki langar, heildaráhrifin skiptu miklu máli og höfundurinn átti að stefna að því að hreyfa við lesandanum án þess að þreyta hann með of löngu máli. Þetta er auðvitað ekki eina mögulega formgerð smásögunnar, smásögur geta líka verið ljóðrænar og þar með tíðindalitlar í frásagnarfræðilegum skilningi. Í slíkum tilvikum hlýtur lesandinn þó að gera kröfu um að stíll og málnotkun séu það sem gerir sögurnar eftirsóknarverðar til lestrar, og þar má segja að sögunum í Geislaþráðum fatist flugið. Sem úttekt á netvæddum veruleika og lýsing á þeim breyttu hefðum sem ríkja í mannlegum samskiptum á heimi tölvupóstsins eru engin ný tíðindi fólgin í þessum sögum. En bókmenntir geta vitaskuld verið einhvers virði þótt þær beri engin ný tíðindi, og það sem gerir bókina Geislaþræði þess virði að lesa er sú notalega og mannlega áhersla sem hér er ríkjandi í persónulýsingum. Sigríður Pétursdóttir segir hér ljúfar sögur um vonina sem kvíða hrindir þótt lífsleiðin sé stundum þyrnum stráð. Bókin Geislaþræðir er áminning um sáluhjálpina sem getur falist í samskiptum fólks, kunnugra jafnt sem ókunnugra, og að því leyti má segja að til nokkurs sé unnið með lestrinum.

(Víðsjá, 8. desember 2010)

Úlfar Þormóðsson: Þú sem ert á himnum

Hjalti Ægisson, nóvember 4, 2010

„Úlfar Þormóðsson er eini núlifandi Íslendingurinn sem hefur hlotið dóm fyrir guðlast.“ Þetta er fyrsta fullyrðingin sem blasir við okkur aftan á kápu þessarar bókar, og við kveikjum strax á perunni: Þetta er ekki bara einhver bók um Biblíuna, hugsar lesandinn, heldur bók eftir Úlfar Þormóðsson um Biblíuna. Markaðsdeildin hefur sem sagt valið þá leið að hafa höfundinn sjálfan í forgrunni í kynningarmálum, sem er kannski ágætt; að minnsta kosti er það mjög í takt við efnistök verksins og skapar engar falsvonir. Úlfar er alls staðar nálægur í þessari bók, orðið „ég“ kemur fyrir á næstum hverri einustu síðu, og hér kemur heilmargt við sögu annað en Biblíulestur; Úlfar hlustar á messu í útvarpinu, Úlfar les Moggann, Úlfar skreppur til útlanda. Það er þó Biblían sjálf sem skilgreinir form þessarar bókar, þetta er lestur eins manns á Biblíunni allri, allt frá fyrstu Mósebók til Opinberunarbókarinnar, með vangaveltum, túlkunum og útleggingum. Á vissan hátt er þetta ekki ósvipað því sem hinir mælsku predikarar lærdómsaldarinnar gerðu, þeir völdu sér ritningarstað og létu hann vera kveikjuna að umfjöllun um samtímann. Hér eru forsendurnar þó allt aðrar, eins og gefur að skilja, Úlfari er fyrst og fremst umhugað um að sýna fram á mótsagnir Biblíunnar og þá vafasömu hugmyndafræði sem hvarvetna býr að baki textanum.

Hvað sem öllu líður er þessi bók heiðarleg tilraun til að gera eitthvað nýtt og ferskt á íslensku, eitthvað sem á sér þó fjölda fyrirmynda erlendis frá. Róttækur aþeismi hefur verið sérlega frjór vettvangur á sviði fræðilegra skrifa síðustu árin og gefur tilefni til margs konar nálgunarleiða, hvort sem það er köld rökhyggja að hætti Richard Dawkins eða hugmyndaríkur húmanismi að hætti Christopher Hitchens. Aðrir hafa skrifað um Biblíuna sem bókmenntir og án þess að leggja höfuðáherslu á skaðsemi trúarbragðanna; ég nefni sem dæmi bandaríska höfundinn Jack Miles, sem skrifaði stórskemmtilega ævisögu Guðs fyrir hálfum öðrum áratug, þar sem rakið er hvernig bókmenntapersónan Guð þróast frá einni bók til annarrar. Það var því varla nema tímabært að einhver tæki sig til og skrifaði svona verk á íslensku; trúleysisumræðunni hefur að vísu verið haldið vakandi á íslenskum vefsíðum í nokkur ár, iðulega af miklum metnaði og stundum nokkurri kunnáttu.

Stóra vandamálið við þá tilraun sem þessi bók er, er þó tilfinnanlegur skortur á ritfærni, það er ekki að sjá að hér sé um að ræða afurð höfundar sem hefur áratugareynslu af skrifum, sem er þrátt fyrir allt raunin. Með því á ég ekki eingöngu við slælegan frágang; út af fyrir sig er það reyndar fyndið að Úlfar skuli eyða ómældu púðri í að lýsa því hversu óvandvirkir útgefendur nýju Biblíuþýðingarinnar séu, og gefa svo sjálfur út bók sem skartar flennistórri prentvillu í titlinum, bæði á saurblaði og titilsíðu. Þetta er þó smámál við hliðina á þeirri ákvörðun höfundarins að setja bókina upp sem samtal við Guð, en að mínu mati er það glannaleg frásagnartilraun sem mistekst hrapallega. Mestallan tímann er Guð ávarpaður: „Þú, mátt ekki misskilja mig, Guð,“ „Drottinn! Þú þreytir mig með orðum þínum, boðum og bönnum,“ „Það var mikið stuð á þér í vafurlogunum á meðan þú varst að bjarga Ísraelsmönnum.“ Og svo framvegis, og svo framvegis. Þetta reiknilíkan, sem öll bókin er skrifuð út frá, er orðið þreytandi strax eftir fyrstu tvo kaflana. Kveinstafir höfundarins um að Biblían sé þreytandi fá einhvern veginn holan hljóm í slíku samhengi. Og það sem verra er: Hér eru fræðileg efnistök víðs fjarri, engar neðanmálsgreinar, engin heimildaskrá, enginn lærdómur. Vonandi verð ég ekki sakaður um elítisma eða fræðilegan hroka fyrir þessa kröfu, reyndar er það svo að hér á landi hafa komið út fjölmargar bækur um trú og menningarsögu á síðustu árum sem eru stórgóðar án þess að uppfylla strangfræðilegar kröfur um heimildanotkun; Skáldsaga Íslands eftir Pétur Gunnarsson er eitt dæmi, Glíman við guð eftir Árna Bergmann kemur líka upp í hugann. Munurinn er sá að þar er í báðum tilvikum um að ræða skemmtilegan stíl og lifandi og áhugaverða frásögn, nokkuð sem er ekki til að dreifa hér.

Úlfar Þormóðsson rekur sig í gegnum bækur Biblíunnar, en endursögnin á efni þeirra er svo takmörkuð og handahófskennd að það er hætt við því að þeir lesendur sem kunna ekki rækilega skil á Biblíunni séu litlu nær eftir lesturinn. Sumar bækur fá mjög takmarkaða umfjöllun, Síðara Tímóteusarbréf og Annað bréf Jóhannesar fá þannig aðeins eina línu hvort. Það er eins og áhugi höfundarins á verkefninu sem hann setti sér í upphafi fari dvínandi eftir því sem líður á bókina, á síðustu hundrað blaðsíðunum verður æ styttra bil á milli millifyrirsagnanna. Sumir undirkaflar eru ekkert nema tilvitnunin ein, og engin umfjöllun með, eins og þar eigi að blasa við hversu kjánalegur texti umræddrar bókar sé, með því að láta hann tala fyrir sig sjálfan. Það er þó sjaldan ljóst hvað Úlfar er að fara með þessum nöktu tilvitnunum, hugsunin að baki virðist beinlínis óskýr. Málnotkun og orðaval þýðenda er honum líka sérstaklega hugleikið efni, en sú umfjöllun er jafntilviljanakennd og allt hitt, gamaldags, liggur mér við að segja. Þegar engin afstaða er tekin til nýlegra fræðilegra skrifa er alltaf hætt við því að útkoman verði einmitt þannig, gamaldags, almælt sannindi. Sú tilhneiging Úlfars að bera frásagnir Biblíunnar saman við kjarngóðar, íslenskar fornmannasögur er til dæmis eins og upp úr hundrað ára gömlum kjallarapistli eftir Helga Pjeturss. Í umfjöllun sinni um glímu Jakobs segir einfaldlega: „Frásögn Snorra Sturlusonar af glímu Þórs við Elli kerlingu er mun tilþrifameiri en Jakobsglíma þinna heilögu. Við Íslendingar eigum einnig aðra áflogasögu þar sem menn af ólíkum tilverustigum takast á. Hún slær þinni sögu við; það er glíma Grettis við Glám.“

Niðurstaða mín er sem sagt sú að þessi bók komi að afar takmörkuðu gagni við að veita okkur aukinn skilning á Biblíunni sem áróðursriti eða vitnisburði um ískyggilegar hugmyndir. Þetta er nefnilega fyrst og fremst bók um Úlfar Þormóðsson sjálfan og samtíð hans; Biblíulesturinn í þessu verki ristir svo grunnt að hann verður lítið annað en stuðningur við almenna vandlætingu á Þjóðkirkjunni, óánægju með það hvað biskup Íslands er með í laun, og annað álíka. Sú umræða er í sjálfu sér allrar athygli verð, en þarf að gefa þetta út á bók? Dægurmálaumfjöllun af þessu tagi á heima á bloggsíðum og dagblöðum, ekki í prentuðum bókum nema eitthvað meira komi til, einhver hugmyndarík úrvinnsla, lifandi frásögn, eða fræðileg dýpt. Ekkert slíkt má finna í bókinni Þú sem ert á himnum, og því verðum við að bíða enn um sinn eftir því að trúleysisumræðan taki á sig mynd á íslensku í alvörubók.

(Víðsjá, 28. október 2010)