Chrétien de Troyes: Percevals saga

Hjalti Ægisson, apríl 14, 2011

Þegar Hegel var búinn að hvíla í gröfinni í eitt ár sat Baldvin Einarsson við skrifborð í Kaupmannahöfn, dró andann djúpt og skrifaði orðið „tíðarandi“, fyrstur Íslendinga. Síðan þá höfum við verið að velta honum fyrir okkur, þessu ólíkindafyrirbæri, tíðarandanum. Tíðarandinn er viðsjárverður, enginn veit alveg í hverju hann felst eða hvar hann er að finna, en samt teljum við okkur þekkja hann þegar við sjáum hann. Þegar skáldið talar til lesandans tölum við um að það „skynji tíðarandann“, eða eitthvað í þeim dúr; við viljum að skáldin svari spurningunni: Hver erum við og hvað erum við að gera hér? En það er hætt við því að fáir hafi erindi sem erfiði, sá sem leggur sig ákaft og meðvitað fram um að koma tíðarandanum til skila í ljóði gæti átt það á hættu að skjóta yfir markið; núið er svo rækilega klemmt á milli fortíðar og framtíðar, milli vonbrigðanna og vonarinnar, að það sést varla. Þess vegna hafa skáldin tilhneigingu til þess að leita aðstoðar hjá kollegum sínum, skrifa gömul ljóð upp á nýtt; þau hugsa með sér að kannski sé tíðarandann einmitt þar að finna, í fortíðinni, jafn þversagnarkennt og það hljómar; rannsóknir sýna nefnilega að það er eitthvað til í klisjunni um endurtekninguna eilífu. Hið nýja getur þess vegna verið mjög gamalt, til dæmis átta hundruð ára.

Núna um daginn gerðust þau merku tíðindi að út kom á íslensku bók, sem heitir Perceval eða Sagan um gralinn. Um er að ræða verk sem var skrifað á fornfrönsku einhvern tímann seint á tólftu öld af manni sem hét Chrétien de Troyes; um höfundinn er lítið vitað og verkið sjálft er engu minni ráðgáta. Það var Ásdís Rósa Magnúsdóttir sem þýddi þessa merkisbók á íslensku og ritaði auk þess greinargóðan formála. Ásdís var að vísu ekki fyrst til að fá hugmyndina, því einhvern tímann fyrir mörghundruð árum var skrifuð saga á íslensku sem var kölluð Percevals saga. Þar er um þýðingu sama verks að ræða, en gamla þýðingin er mjög stílfærð, og töluvert stytt í þokkabót. Nú fáum við loksins að lesa allt verkið í nákvæmri, íslenskri þýðingu, sem er sannkallað fagnaðarefni.

Perceval eða Sagan um gralinn er frásögn um ungan mann sem leggur af stað út í heim til að gerast riddari, þrátt fyrir mótbárur móður sinnar, sem vill með öllum ráðum forða drengnum frá því að lenda í slíkum ævintýrum. Móðurinni verður svo mikið um á kveðjustundinni að hún hnígur niður á dyrahellunni; stráksi hvetur hestinn sinn áfram og hirðir ekki um að gæta að móðurinni, en tilhugsunin um yfirliðið situr sífellt í honum. Loks ákveður hann að fara heim aftur til að gá hvort ekki sé allt í lagi með móður hans. Á leiðinni mætir hann tveimur mönnum sem sitja í báti úti á vatni og veiða fisk. Annar þeirra er Fiskikóngurinn, sá særði leiðtogi, sem er fótlama og getur hvorki setið hest né barist í orustu. Drengnum er boðið í veislu í höll Fiskikóngsins þar sem mikill og fagur borðbúnaður er borinn fram. Daginn eftir er drengurinn einn í höllinni, allir íbúarnir virðast horfnir, svo hann heldur sína leið. Niðurlag sögunnar er dálítið óljóst, það er næstum öruggt að höfundurinn hefur dáið frá verkinu og því ekki náð að leiða það til lykta. Efniviðurinn hitti þó svo sannarlega í mark, því a.m.k. fjórir aðrir miðaldahöfundar tóku upp þráðinn þar sem Chrétien sleppti honum og bjuggu til framhald á söguna. Einn þeirra var Robert de Boron, sem lagði alveg sérstaka merkingu í einn diskinn sem var borinn fram í veislu Fiskikóngsins hjá Chrétien. Robert breytti disknum reyndar í bikar, og þannig varð til goðsögnin um hinn heilaga gral. Trúarlegt vægi sagnaefnisins jókst þannig smám saman, og sennilega hafa lesendur í lok tólftu aldar þóst sjá tíðarandann í þessum sagnaheimi; verk Chrétiens lýsir flóknum siðferðisspurningum, og þótt sagan sé einföld gefur hún sífellt tilefni til nýrra vangaveltna.

Um það leyti sem Chrétien lést frá sínu ókláraða verki misstu kristnir menn landið helga í hendur múslima, og í kjölfarið rúllaði þriðja krossferðin í gang. Einhverjir vildu túlka gralinn sem uppbót fyrir þennan missi, sem sýnir hversu mikill vilji var fyrir hendi til að láta hið brotakennda verk Chrétiens ganga upp. Það er eins og þessi saga hrópi á túlkanir, viðbætur og framhaldsskrif, enda hefur hún verið í endursköpun allar götur síðan. Sennilega er það bara tímaspursmál hvenær íslenska bókmenntasamfélagið tekur við sér og framleiðir afurð sem er innblásin af sögunni, í því skyni að lýsa tíðarandanum, því Sagan um gralinn hefur sjaldan verið eins aðkallandi og nú, allténd í efnahagslegu samhengi – ekki satt? Þegar T.S. Eliot tók að sér að lýsa ástandinu í Evrópu eftir fyrri heimsstyrjöld naut hann góðs af því að þekkja söguna um Fiskikónginn. Útkoman úr þeim lestri var Eyðilandið, viðbragð við hruninni heimsmynd og enn eitt dæmið um það hvernig efniviður Chrétien de Troyes gefur skáldum færi á að yrkja tíðarandaljóð. Samkvæmt hefðinni er Fiskikóngurinn særður og því ríkir eilíf auðn í ríki hans, grösin vaxa ekki og engir ávextir spretta á trjánum. Í raun á hvaða íslenskt skáld sem er leikinn og ætti að skella upp taflinu sem fyrst; ef útgáfa íslenskrar þýðingar á Sögunni um gralinn er ekki tilefni til þess að bera brotin að rústunum, þá bara veit ég ekki hvað. Ef eitthvert skáld er að hlusta vil ég bara taka það fram í lokin, til að fyrirbyggja allan misskilning, að það er hverjum sem er frjálst að stela hugmyndinni, ég óska góðs gengis og lofa að reyna að mæta á Bessastaði þegar þér verða afhent íslensku bókmenntaverðlaunin.

(Víðsjá, 20. janúar 2010)

Ian McEwan: Solar

Hjalti Ægisson, apríl 14, 2011

„Ímyndum okkur að á vegi okkar verði maður sem stendur í skógarjaðri í hellirigningu. Hann heldur á öxi í hendinni og er að höggva trén til þess að geta sogið safann úr trjábolunum. Það eru nokkrir sopar af safa í hverju tré. Allt í kringum þennan mann blasir við eyðilegging, dauð tré, það heyrist enginn fuglasöngur, og maðurinn veit að skógurinn er að hverfa. Af hverju hallar hann ekki höfðinu aftur á bak og drekkur regnvatnið? Af því að hann er sérfræðingur í að höggva tré, hann hefur alltaf gert þetta svona; hann er fullur tortryggni í garð fólks sem hvetur til regndrykkju.“ Þessa ímynduðu frásögn er að finna í skáldsögunni Solar, nýjustu bók breska rithöfundarins Ian McEwan, sem kom út í fyrra. Sá sem hér talar er eðlisfræðingurinn Michael Beard, nóbelsverðlaunahafi, kvennabósi, tækifærissinni – ein af þessum hefðbundnu andhetjum sem eru svo víða á kreiki í skáldsögum McEwans. Beard stendur frammi fyrir hópi fjárfesta í orkugeiranum á ráðstefnu um loftslagsmál, og hefur tekið að sér það erfiða verkefni að sannfæra hópinn um ágæti þess að veita fé í rannsóknir á sólarorku. Dæmisagan sem hann segir fjallar um ástand orkumála í samtímanum: Maðurinn með öxina er mannkynið, trén eru olíuauðlindir heimsins og rigningin er sólarljósið. „Með því að virkja lítið brot af eyðimörkum heimsins getum við haldið allri siðmenningu veraldarinnar gangandi,“ segir Michael Beard; „Enginn getur þjóðnýtt sólarljósið eða fengið einkaleyfi á því.“ „Með því að virkja allt það sólarljós sem fellur á jörðina í eina klukkustund væri hægt að fullnægja orkuþörf allrar heimsbyggðarinnar í eitt ár.“

Ian McEwan er samfélagslega meðvitaður höfundur; í fyrri verkum sínum hefur hann oft tekið afmörkuð, samfélagsleg málefni úr sögu og samtíma til umfjöllunar – breska fjölmiðlabransann í bókinni Amsterdam, mótmælin gegn Íraksstríðinu í Laugardegi, kynlífsbyltinguna í Brúðkaupsnóttinni. Í nýjustu skáldsögu sinni beinir hann svo sjónum sínum að einum umdeildasta málaflokki okkar tíma, nánar tiltekið loftslagsmálum. Aðalpersóna skáldsögunnar Solar er vísindamaðurinn Michael Beard, lágvaxinn og feitlaginn karlmaður á sextugsaldri sem er í þann mund að skilja við fimmtu eiginkonu sína þegar sagan hefst. Beard má muna fífil sinn fegurri, ferill hans staðnaði um það leyti sem hann fékk nóbelsverðlaun, tveimur áratugum áður; síðan þá hefur hann varla hugsað frumlega hugsun og fyrst og fremst lifað á fornri frægð. Hann er forstöðumaður rannsóknarstofnunar sem er ómarkviss og afkastalítil í faglegum skilningi, eins konar gæluverkefni sem Blair-stjórnin hefur komið á laggirnar til þess að almenningur haldi að hún sé að gera eitthvað af viti til að sporna gegn loftslagsvandanum. Michael Beard er fyrst og fremst silkihúfa, nafn hans er umlukið töfraljóma í boði sænsku nóbelsakademíunnar, svo að honum lætur vel að útvega fjárveitingar, en honum hefur ekki tekist að halda í við þróun mála á fræðisviðinu; nýjustu rannsóknirnar eru honum framandi, enda hefur hann haft um nóg annað að hugsa í gegnum tíðina við að halda fram hjá eiginkonum sínum, einni af annarri. Að þessu sinni er staðan þó önnur; þegar Patrice, fimmta eiginkona Michaels kemst að því að hann hefur verið henni ótrúr svarar hún í sömu mynt og upphefur ástarsamband með húsasmiðnum sem þau hjónin hafa fengið til viðhaldsverkefna í íbúð sinni. Michael lendir í hlutverki kokkálsins í fyrsta sinn á ævinni, og upplifir gríðarlega höfnun og vanlíðan af þeim sökum. Í vinnunni situr hann svo uppi með Tom Aldous, ungan og upprennandi vísindamann, eldhuga sem hefur byggt megnið af rannsóknum sínum á skrifum Michaels. Tom er róttækur umhverfissinni, trúir ekki á þær smáskammtalækningar sem eru iðkaðar innan stofnanarinnar en leggur allt sitt traust á þá möguleika sem sólarorkan hefur upp á að bjóða. Einn daginn atvikast það svo að Michael Beard fær einstakt tækifæri til að slá tvær flugur í einu höggi, jafna um elskhuga eiginkonu sinnar og láta starfsferil sjálfs sín ganga í endurnýjun lífdaga.

Skáldsagan Solar er saga um það hvernig sérgæðingsháttur og persónulegur metnaður getur hindrað að mikilvægar hugmyndir komist til framkvæmda. Umræðan um loftslagsmál hefur á undanförnum árum orðið undirstaða allmargra skáldverka. Tilhneigingin í þeirri deild hefur verið í átt til æsingaskrifa, svipað og í orðræðunni almennt, en sérstaða þessarar nýjustu skáldsögu Ian McEwan, samanborið við aðrar skáldaðar frásagnir sem byggja á umræðunni um hlýnun jarðar, er sú að hér eru ekki felldir neinir dómar um réttmæti eða sannleiksgildi vísindarannsókna. McEwan gengst ekki inn á þá vanabundnu, siðferðilegu tvenndarhugsun sem einkennir alla umfjöllun um þessi mál, en Solar er líka nýstárleg í höfundarverki hans sjálfs að því leyti að hér leyfir hann sér meira frelsi á hinu kómíska sviði. Michael Beard er allt að því grótesk persóna, mikið er gert úr óhóflegu vaxtarlagi hans og taumleysi í kvennamálum, og hann gerist sekur um alls konar vafasamt athæfi, lygar fyrir dómstólum og ritstuld, svo nokkuð sé nefnt. Hér er meiri galsi en við eigum að venjast úr bókum McEwan, atvikið sem verður vendipunkturinn í lífi Beards er hrein tilviljun og orkar næstum eins og atriði úr teiknimynd. Ljóst er að hér er mikil rannsóknarvinna að baki, McEwan hefur sett sig rækilega inn í starfsumhverfi vísindamanna og skilyrðin sem þeim eru búin í fjölmiðlamiðuðu stjórnmálaumhverfi. Pólitísk rétthugsun á sviði kynjabaráttu fær líka sinn skammt af umfjöllun, í kafla sem virðist þó falla illa að heildarmynd verksins. McEwan er einn af fremstu rithöfundum Bretlands á okkar tíð, og það kemur því ekki á óvart að skáldsagan Solar samanstandi af nokkrum lipurlega skrifuðum senum. Vandinn er þó sá hvernig atriðunum er raðað saman; sú úrvinnsla er ekki alltaf sannfærandi og því má segja að bygging bókarinnar sé næsta losaraleg. Aukapersónurnar eru heldur ekki sérlega rismiklar, hálfgerðar steríótýpur, líkt og Beard sjálfur. Skáldsagan Solar er þó allrar athygli verð, því þótt heildarútkoman sé takmörkuð ber texti McEwans ávallt vott um mikinn hagleik, hugmyndaauðgin er söm við sig. Útkoman er forvitnileg tilraun, hófstilltur og fágaður ærslaleikur með vitsmunalegu ívafi, paródísk úttekt á þeim absúrdisma sem blundar svo grunnt undir kaldhömruðu yfirborðinu á menningu og valdastofnunum 21. aldarinnar.

(Víðsjá, 13. janúar 2011)

Dante: Gleðileikurinn guðdómlegi

Hjalti Ægisson, apríl 14, 2011

Erlingur E. Halldórsson er eins konar stofnun í íslensku bókmenntalífi; veldi, liggur mér við að segja. Síðustu tvo áratugina hafa runnið frá honum þýðingar á stórvirkjum heimsbókmenntanna, og nú er svo komið að þeir Íslendingar sem vilja koma sér upp lágmarksþekkingu á  vestrænni bókmenntasögu geta vart komist hjá því að kynna sér verk Erlings, að því gefnu að fólk vilji lesa þessi verk á sínu tungumáli. Erlingur hefur þýtt verk frá fornöld, miðöldum og endurreisnartímanum, og nú á dögunum kom út þýðing hans á því bókmenntaverki sem er allajafna talið kjarninn í vestrænni menningu á hámiðöldum, eins konar lykill að heimsmynd kaþólsku kirkjunnar og þar með eitt áhrifamesta verk síðari alda. Þetta er Gleðileikurinn guðdómlegi eftir flórentínska skáldið Dante Alighieri, ljóð sem er ritað á ítölsku í upphafi fjórtándu aldar, eitt þeirra verka sem markar raunverulegt upphaf bókmenntasköpunar á þjóðtungum. Frá og með rómantíkinni má segja að kunnátta í þessu verki Dantes verði veigamikill þáttur í fagurfræðilegu uppeldi fólks á Vesturlöndum. Allmörg stórskáld á 19. og 20. öld spreyta sig á því að þýða Gleðileikinn á sitt móðurmál að hluta eða í heild; Shelley í Bretlandi, Púshkín í Rússlandi, Stefan George í Þýskalandi og Longfellow í Ameríku. Fyrsti maðurinn sem þýddi Dante á íslensku svo vitað sé var Gísli Brynjúlfsson, það mun hafa verið í desember 1851 sem hann þýddi nokkrar línur úr Inferno 3 og Paradiso 33. Gísli fylgdi fordæmi Jóns á Bægisá og beitti fornyrðislagi, en nærvera Dantes í íslenskum bókmenntum hafði að vísu hafist nokkrum árum fyrr með Gunnarshólma Jónasar Hallgrímssonar, sem er að stærstum hluta ort undir terzínuhætti, bragarhætti Dantes.

Erlingur Halldórsson kýs að þýða Gleðileikinn á óbundið mál, og er sú ákvörðun um margt skynsamleg, hér er lögð áhersla á nákvæmni umfram áhrif. Þetta er sama leið og Erlingur fór í þýðingu sinni á Kantaraborgarsögum Chaucers, öðru 14. aldar verki sem er ritað á bundnu máli en þýtt á prósa. Þýðingin er af þessum sökum mjög gagnleg öllum þeim sem vilja komast nálægt hinum upphaflega texta Dantes; sem stuðningur við frumtextann er hin nýja þýðing Erlings því ómetanleg. Ekki spillir að línunúmer eru prentuð á spássíum og hægt að hafa þau til viðmiðunar þegar flett er upp í ítölskum útgáfum. En öllum listrænum ákvörðunum fylgja vissir annmarkar, þegar einar dyr opnast er hætt við því að aðrar lokist. Erlingur leggur höfuðáherslu á að þýða beint og nákvæmt, sem getur vitanlega ekki talist galli út af fyrir sig, en á móti kemur að lítið svigrúm er eftir fyrir nýstárlega málnotkun, tilraunastarfsemi í myndmáli eða frávik frá hinni upphaflegu hugsun. Orðaröðin hjá Erlingi er til að mynda iðulega mjög nálægt texta Dantes sjálfs, og fyrir vikið er hún sums staðar ekki alveg átakalaus á íslensku. Í samræðuköflum verður þetta dálítið áberandi, Dante notar víða fasta frasa í upphafi ljóðlína, einfaldlega vegna þess að hrynjandin krefst þess. Þetta eru orðasambönd á borð við: „Ed elli a me,“ sem þýðir bókstaflega: „Og hann við mig.“ Og það er einmitt þannig sem Erlingur þýðir þetta í flestum tilvikum. Kannski hefði það orðið meira leikandi að umorða þessar sviðsleiðbeiningar, vefja þær til dæmis inn í setninguna miðja, í því skyni að láta orðfærið hljóma eðlilegra, svona fyrst textinn er orðinn prósi á annað borð og þær takmarkanir sem bragarhátturinn hefur í för með sér skipta ekki lengur máli.

Orðaval hjá Erlingi er að sama skapi umdeilanlegt þegar hin stranga nákvæmni hans er höfð í huga. Í hinum frægu upphafsorðum, þar sem Dante lýsir því hvernig hann hefur villst í dimmum skógi, talar Erlingur um „veginn sem liggur beint“, og þýðir þar „la dritta via“. Guðmundur Böðvarsson steig feti lengra frá upphaflegu merkingunni í þýðingu sinni sem út kom 1968, og þýddi þetta sem „þann stíg, er skyldi ég fara“. Erlingur gengur með öðrum orðum skemmra í því að afkóða þá allegóríu sem er ríkjandi í verkinu, en það telst væntanlega kostur að margra mati. Nánari samanburður á þýðingum Erlings og Guðmundar leiðir ýmislegt forvitnilegt í ljós, og vonandi mun einhver rannsaka það mál til hlítar fyrr en seinna. Lokaorð Virgils í ljóðinu koma fyrir í 27. þætti Purgatorio, ferðalangurinn Dante er þá orðinn klár í að rísa upp til himna og berja augum dýrðina sem þar býr. Virgill veitir honum þá kórónu og mítur yfir sjálfum sér, Dante er sem sagt orðinn siðferðilega stöðugur og fær um að hafa taumhald á eigin hvötum, hugsunum og tilfinningum. Hjá Guðmundi segir Virgill: „Yfir þig sjálfan krýni ég þig og vígi,“ en hjá Erlingi hljómar þetta svona: „ég krýni þig herra sjálfs þín, og set á þig mítur.“ Ég hallast að því að tvenndarhugsunin sé skýrari í hinni nýju þýðingu Erlings, hér byggist líkingin vitanlega á tilvísun til þeirra átaka sem voru mál málanna á fjórtándu öld, þ.e.a.s. átakanna á milli keisara og páfa. Míturinn er skýrt tákn biskupa og páfa, en sögnin „að vígja“ hefur mun almennari skírskotun. Á stöku stað þykir mér þó sem hin skilyrðislausa tryggð Erlings við texta Dantes verði þýðingunni fjötur um fót. Í 26. þætti Vítis finnum við t.a.m. hvatningarræðu Ódysseifs til manna sinna, hann telur í þá kjark að halda ævintýraleitinni áfram og höfðar til þeirrar húmanísku hugmyndar að maðurinn sé mælikvarði allra hluta og þekkingarleitin sé hans hlutverk. „Fatti non foste a viver come bruti,“ segir Ódysseifur: „Þið voruð ekki skaptir til að lifa sem skynlausar skepnur, heldur til að sækjast eftir verðleikum og þekkingu,“ „ma per seguir virtute e canoscenza“. Ódysseifur fullvissar fylgdarsveina sína um að þetta sé ástæðan fyrir því að þeir voru bornir í þennan heim: „Hugleiðið vel uppruna ykkar,“ – „Considerate la vostra semenza“. Orðið „semenza“ þýðir bókstaflega „sæði“, en er einfaldlega tákn um uppruna og hlutverk. Erlingur þýðir þetta svo: „Hugleiðið vel sæðið sem leiddi til fæðingar ykkar,“ sem er óþarfa nákvæmni að mínu mati, og einkum til þess fallið að gera frásögnina á þessu tilfinningaþrungna augnabliki þyngri í vöfum.

Með hinni nýju þýðingu sinni á Gleðileiknum guðdómlega hefur Erlingur Halldórsson unnið enn eitt þrekvirkið í því skyni að færa samlöndum sínum brot af því besta af gnægtaborði heimsbókmenntanna. Það er í raun ótrúlegt að engum skuli fyrr hafa auðnast að gera íslenska heildarþýðingu á þessu mikilvæga ljóði, og því tímabært að fá þennan kærkomna grip í hendur. Góð bók hefði þó sannarlega orðið enn betri ef formáli og skýringar hefðu verið rækilegri en raunin er, skýringarnar eru raunar kallaðar „athugasemdir“, sem telst líklega réttnefni. Athugasemdirnar einkennast víða af einföldunum og fremur óljósum heimildavísunum, gjarnan spjallkenndum. Mestu máli skiptir þó að það er sterkur  heildarsvipur á þessari þýðingu, sem er vel frambærileg og mun gagnast vel sem inngangur fyrir alla þá sem vilja kynna sér undraveröld Dantes og ítalskra miðalda.

(Víðsjá, 22. desember 2010)

Sigríður Pétursdóttir: Geislaþræðir

Hjalti Ægisson, apríl 14, 2011

Klisjan um yfirvofandi dauða bókarinnar varð til löngu á undan internetinu. Hugmyndina bar á góma hérlendis í tengslum við samdrátt í bóksölu snemma á níunda áratugnum, og sennilega miklu fyrr í tengslum við eitthvað allt annað. Á seinni árum höfum við svo mátt venjast því að hugmyndinni sé slengt fram í hálfkæringi til að lýsa gamaldags eða úreltum viðhorfum; þetta er oft sett fram í dylgjustíl, sagt að „margir telji“ að dauði bókarinnar sé á næsta leiti, þetta sé „mál manna“ eða eitthvað í svipuðum dúr. Á eftir fylgir svo sú niðurstaða að þetta sé augljóslega rangt, bækur hafi aldrei verið vinsælli en núna og allar bölsýnisspár séu óþarfar. Við þetta má svo bæta einu sem vill stundum gleymast, en það er sú staðreynd að það er ekki eingöngu miðillinn sjálfur sem hefur staðið óhaggaður þrátt fyrir hið nýja og rafræna textasamfélag, heldur hafa hefðbundin bókmenntaform tekið furðu litlum breytingum eftir tilkomu internetsins. Þetta á sér sennilega þá skýringu helsta að internetið hefur sín eigin form sem eiga sína sjálfstæðu tilvist og eru ekki annað en viðbót við eldri form á borð við skáldsögur, leikrit eða ljóð. Hefðbundnar, útgefnar skáldsögur hafa ekki tekið neinum grundvallarbreytingum með internetinu, þótt stundum sé reynt að miðla netrænum raunveruleika í bókarformi.

Bókin Geislaþræðir eftir Sigríði Pétursdóttur er safn sagna sem fjalla um samskipti fólks á internetinu, nánar tiltekið í gegnum tölvupóst. Lesandinn fær að gægjast í póstsamskipti persónanna og þannig tekst Sigríði að skapa töluverða nánd við hugarheim fólksins sem hér er til umfjöllunar. Þetta er kunnuglegt trix úr smiðju átjándu aldar höfunda á borð við Rousseau og Samuel Richardson, enda bréfaskáldsagan mjög rótgróið form. Það felst ákveðið raunsæi í því að nota sendibréfið sem grundvöll játninga og vettvang til að fjalla um leyndarmál sem eiga ekki erindi út í hið opinbera líf. Í fljótu bragði er ekki að sjá að hin rafræna vídd breyti nokkru hér um – í Geislaþráðum eru sagðar sögur um leyndarmál, unglingsstúlkan Hulda skrifast á við aldraða konu í Ástralíu og játar fyrir henni að hún sé ólétt, þótt hún sé ekki enn búin að segja foreldrum sínum frá því. Smiðurinn Halldór, sem er nýbúinn að missa konuna sína, fær póst frá Berglindi, sem tilkynnir honum að hún viti nokkuð sem hann ekki veit um hina nýlátnu eiginkonu. Aðdráttarafl þessara sagna byggir á vissri gægjuþörf, við verðum vitni að einhverju sem okkur er ekki ætlað að vita.

Sögurnar eru fastar í forminu, aðalpersónurnar eru nær alltaf tvær í hverri sögu, þótt vitanlega séu fleiri nefndir án þess að fá orðið í póstinum. Listræna blekkingin í frásögninni felst meðal annars í því að hér eru það oftar en ekki manneskjur af tveimur þjóðernum sem skrifast á; það má því ímynda sér að margir af póstunum séu ritaðir á ensku á hinu raunverulega sögusviði og þeir birtist okkur því í þessari bók sem þýðingar. Þetta er auðvitað algjört aukaatriði, en tengist einum helsta veikleika verksins, sem er einsleitni í stílnum; manneskjurnar sem hér hafa orðið líkjast hver annarri og persónusköpunin fer ekki fram í málnotkun nema að mjög takmörkuðu leyti. Þær fáu tilraunir sem þó eru gerðar eru dálítið ómarkvissar – gelgjulegt málfar unglingsstúlkunnar í fyrstu sögunni virkar til að mynda ekki beint sannfærandi. Fyrir vikið þurfa þessar sögur að treysta alfarið á fléttuna, óvæntar uppljóstranir og vangaveltur sögupersónanna um lífið og tilveruna. Þetta er í flestum tilvikum leyst átakalaust af hendi; Sigríður setur markið svo sem ekki hátt en slær heldur ekki margar feilnótur fyrir vikið. Sögurnar í Geislaþráðum eru sjálfstæðar og ótengdar smásögur, sem tengjast að vissu leyti á fleiri vegu en með póstforminu, hér eru stöku þematískar tengingar þegar vel er að gáð, en að öðru leyti er textinn mestmegnis á yfirborðinu. Þetta eru glefsur úr hversdagslífi, gægjur inn á hið persónulega og sálræna svið sem dylst undir niðri.

Geislaþræðir er safn sagna sem eru læsilegar og ganga að flestu leyti upp miðað við þær forsendur sem höfundurinn gefur sér, en samt er eins og eitthvað vanti. Smásagnaformið hefur upp á margt að bjóða sem lengri sögur geta ekki leyft sér. Lesandinn hefur allajafna meiri yfirsýn við lestur smásagna, hann les textann venjulega með færri hléum, stundum í einni striklotu. Þannig geta smásögur haft beinni áhrif en langar skáldsögur, þær geta löðrungað lesandann með sterkri hugmynd, litríkri persónu eða áhrifamikilli lýsingu á andrúmslofti. Þetta er sá skóli smásögunnar sem er stundum kenndur við Edgar Allan Poe, en að hans mati var mikilvægt að smásögur væru ekki langar, heildaráhrifin skiptu miklu máli og höfundurinn átti að stefna að því að hreyfa við lesandanum án þess að þreyta hann með of löngu máli. Þetta er auðvitað ekki eina mögulega formgerð smásögunnar, smásögur geta líka verið ljóðrænar og þar með tíðindalitlar í frásagnarfræðilegum skilningi. Í slíkum tilvikum hlýtur lesandinn þó að gera kröfu um að stíll og málnotkun séu það sem gerir sögurnar eftirsóknarverðar til lestrar, og þar má segja að sögunum í Geislaþráðum fatist flugið. Sem úttekt á netvæddum veruleika og lýsing á þeim breyttu hefðum sem ríkja í mannlegum samskiptum á heimi tölvupóstsins eru engin ný tíðindi fólgin í þessum sögum. En bókmenntir geta vitaskuld verið einhvers virði þótt þær beri engin ný tíðindi, og það sem gerir bókina Geislaþræði þess virði að lesa er sú notalega og mannlega áhersla sem hér er ríkjandi í persónulýsingum. Sigríður Pétursdóttir segir hér ljúfar sögur um vonina sem kvíða hrindir þótt lífsleiðin sé stundum þyrnum stráð. Bókin Geislaþræðir er áminning um sáluhjálpina sem getur falist í samskiptum fólks, kunnugra jafnt sem ókunnugra, og að því leyti má segja að til nokkurs sé unnið með lestrinum.

(Víðsjá, 8. desember 2010)

Eiríkur Guðmundsson: Sýrópsmáninn

Hjalti Ægisson, nóvember 16, 2010

Um það leyti sem Versalasamningarnir voru gerðir í Evrópu sat sautján ára unglingur uppi í Mosfellssveit og skrifaði smásögu. Drengurinn var Halldór Guðjónsson frá Laxnesi, og söguna nefndi hann „Den tusindaarige Islænding”. Hetjan í þessari smásögu er einfaldur en hjartahreinn vinnumaður sem heitir Helgi, og honum er teflt fram sem einhvers konar fegrandi andstæðu við spjátrunginn og menntamanninn Heiðbæs sem er á kafi í nútímabókmenntum og teoríu. Helgi á hins vegar bara eina bók, Grettis sögu, sem hann les hvenær sem hann á lausa stund. Það má telja víst að nóbelshöfundurinn verðandi, sem var sjálfur orðinn djúpt sokkinn í lestur samtímabókmennta, og átti skömmu síðar eftir að sökkva sér ofan í evrópska framúrstefnutexta, hafi séð einhverja fegurð í þessu, því að leggja allt sitt traust á eina bók, einn texta; Grettis sögu í þessu tilviki. Þetta er nánast eins og tilbrigði við hugmyndina um hinn göfuga villimann, einfaldur bókmenntasmekkur sem endurspeglar einfalt líf, göfuga sál, rökrétta heimsmynd.

Í sagnaheimi Eiríks Guðmundssonar kynnumst við iðulega persónum sem eru eins ólíkar vinnumanninum Helga og hugsast getur. Þetta eru menn sem eru umvafðir textum, hjúpaðir setningum úr stórbrotnum bókmenntaverkum, þeir ganga til náða með Kafka og Nabokov í höfðinu, þá dreymir Pessoa og Strindberg á nóttunni, að morgni anda þeir ljóðlínum eftir Octavio Paz og Óskar Árna ofan í kaffibollann. Það er ekki alltaf ljóst hvaða hlutverki bókmenntirnar gegna í svona veröld, kannski eru þær leið til hjálpræðis eða flótti frá vandamálum sem lesandinn fær ekki alltaf að vita hver eru, lifrarsjúkdómur, brostið hjarta, eða bara eitthvað allt annað. Í bókum sínum dregur Eiríkur upp svipmyndir af heimi sem er ofurseldur ofgnótt menningar, listaverkinu á tímum fjöldaframleiðslu sinnar. Daglegt amstur verður allt að því dapurlegt í svona heimi, því ídeal lífsmáti væri auðvitað að nota allan sinn tíma í að lesa bækur, hlusta á tónlist eða horfa á kvikmyndir. Ars longa, vita brevis, gæti verið mottó þessa sagnaheims - listin er löng en lífið stutt. „Öllum þeim möguleikum sem okkur standa til boða fylgir óneitanlega nokkurt víl,” segir í bók Eiríks, 39 þrep á leið til glötunar, sem kom út árið 2004. „Hvers vegna stóð ég og beið eftir strætisvagni þegar ég hefði getað verið að lesa Gleðileikinn guðdómlega eftir Dante? Af hverju var ég staddur í Bónus, á háannatíma, þegar ég hefði getað verið heima að hlusta á Air eða horfa á Mulholland Drive?“ Í Sýrópsmánanum kynnumst við mönnum sem eru angraðir af þessu sama víli og láta sig dreyma um að opna sér einkaglugga inn í heim bókmenntanna með því að ræna Kristjáni Karlssyni ljóðskáldi, loka hann inn í búri, færa honum ritföng og bækur og láta hann yrkja eða þýða verk eftir William Faulkner. Hugmyndin er kómísk og sýnir þá miklu þörf fyrir listina sem er yfir og allt um kring í bókum Eiríks Guðmundssonar, þráin eftir tímabundnu dvalarleyfi í veröld bókmenntanna, þessum veruleika sem á sína sjálfstæðu tilveru, óháð hversdagsleikanum, ofar heimsins þrautum. „Skáldsögur þarf að tilreykja, eins og pípur,“ segir í Sýrópsmánanum, „það getur tekið langan tíma, mörg ár. Þær lifa sínu lífi líkt og þær sofi á bak við tímann, rumska kannski eftir þúsund ár, og eftir það er ekki nokkur leið að frá frið fyrir þeim.“

Eiríkur Guðmundsson er að sumu leyti eins og dróttkvæðaskáld, textarnir hans eru svo rækilega dulkóðaðir að þótt mér, lesandanum, takist stundum að kveikja á perunni, er það skammgóður vermir, því ég verð eiginlega bara meðvitaðri en áður um alla þá staði þar sem ég er enn þá týndur, þrátt fyrir daglöng heilabrot, andvökunætur og eyðimerkurvist á internetinu. Heimildaskráin sem fylgir í lokin er varla nema reykurinn af réttunum, svo takmörkuð sem hún er, og fyrir vikið getur Sýrópsmáninn, rétt eins og bókin Undir himninum, sem kom út 2006, hæglega fylgt lesandanum um langan veg; svo margar eru gáturnar, svo þéttofinn er vefurinn. Eins og gefur að skilja er ekki gott að rekja söguþráðinn í svona bókum, þeim þræði er auðvelt að týna, en ég held að Sýrópsmáninn sé bók um ástarsamband, kannski fleiri en eitt. Kjarni sögunnar er ferð til Ítalíu, sögumaðurinn ferðast þangað með sambýliskonu sinni og barnungum syni, þegar þoka skellur á yfir Íslandi. Svo rækileg er þokan að menn og byggingar hverfa og sjást aldrei aftur. Ferðin til Ítalíu verður sögumanninum tilefni til að rifja upp tímann þegar hann kynntist konunni sinni og margt bendir til þess að þau séu bæði að glíma við sorg eða missi úr fortíðinni. Bernskuminningar sögumannsins eru einkum tengdar afa hans og þorpi undir snarbröttu fjalli einhvers staðar úti á landi, þar sem hann ólst upp. Barnsmóðirin, sem er einfaldlega kölluð L., hefur misst föður sinn og tekur stundum upp á því að láta manninn sinn máta föt úr dánarbúi föðurins. Hún setur líka upp gleraugu föður síns „til þess að gæta drengsins enn betur“, eins og það er orðað. Við ímyndum okkur að þetta fólk séu engir unglingar, hér er sköpuð tilfinning fyrir lífsreynslu, og að öllum líkindum eiga þau við einhvers konar vandamál að stríða í sambandinu. Kannski er það þess vegna sem ferðin til Ítalíu er farin, þar með er þetta saga um stund milli stríða, flótta frá þoku, viðleitni til að bæta það sem hefur aflaga farið um dagana, tilraunir til þess að láta ekki lífið kremja sig. Stundum held ég að það þýði hið sama og að „láta ekki baslið smækka sig“, en sennilega hef ég alveg rangt fyrir mér.

Sýrópsmáninn er nýr kafli í miklu höfundarverki, og þessi bók markar tímamót á ferli Eiríks Guðmundssonar sem rithöfundar að því leyti að hér er menningarleg greining víðs fjarri. Í fyrri bókum Eiríks hafa raunveruleg atvik úr samtímanum alltaf verið nærhendis og á yfirborðinu, fréttaljósmyndir, Kastljóss-viðtöl, íslensk bókaútgáfa, krúttin eða frasar úr auglýsingum. Slík umfjöllun er ekki til staðar í Sýrópsmánanum, allténd ekki með beinum hætti, og það má segja að nú sé pistlahöfundurinn Eiríkur Guðmundsson farinn að víkja fyrir ljóðskáldinu. Einhverjum þykir það sjálfsagt vera öfugþróun, því það hefur aldrei þótt mikil prýði á essayistum að fást við ljóðlist. Þeir sem unna alvöru bókmenntum ættu þó að gleðjast og kannski verður Sýrópsmáninn sú bók Eiríks sem verður til þess að skilja hafrana frá sauðunum. Það leirskáld er ekki til sem getur myrt fegurð himinsins, og á sama hátt lætur sönn list ekki haggast af óréttlæti, kreppu, níðingsskap eða hverju því sem kann að setja svip sinn á fréttatímana eða jólabókaflóðið hverju sinni. Bækur Eiríks Guðmundssonar eru kannski enginn yndislestur í fyrstu atrennu, en þær duga vel sem áminning um það sem býr á bak við ásýnd hlutanna. Þeim sem les, og gefst ekki upp, verður kannski einhvern tímann, einhvers staðar á vegferðinni afhent perla.

(Víðsjá, 16. nóvember 2010)

Bergur Ebbi Benediktsson: Tími hnyttninnar er liðinn / Þórdís Gísladóttir: Leyndarmál annarra

Hjalti Ægisson, nóvember 4, 2010

Franski hugsuðurinn Roland Barthes sagði einu sinni að höfundur væri ekki orðinn til fyrr en hann hefði skrifað að minnsta kosti tvær bækur. Sá sem skrifar eina bók og ekki meir, hann er ekki höfundur. Það þarf tvær bækur, eða fleiri, til að hægt sé að tala um höfundarverk; þá er hægt að sjá hvernig tengslin á milli textanna endurspegla þann skapandi huga sem býr að baki. Kannski er þetta ástæðan fyrir því að mörgum finnst erfiðast að skrifa bók númer tvö, því það er með henni sem höfundurinn verður að höfundi, hún er prófsteinn á þær væntingar sem fyrsta bókin gat af sér. Að þessu sinni hef ég ákveðið að fjalla um tvær bækur í einu, en þær eiga það sameiginlegt að vera fyrstu bækur höfunda (eða ekki-höfunda, sé gengist inn á forsendur Roland Barthes, en jæja, flækjum ekki málið, nóg er nú samt).

Fyrri bókin kom út í vor og hefur hugmyndaríkan titil, sem gæti næstum því verið þýddur titill á lagi með Morrissey: Tími hnyttninnar er liðinn. Bergur Ebbi Benediktsson teflir hér fram bálki fjórtán ljóða sem eru útleitin og býsna löng, sum of löng, liggur mér við að segja, hið lengsta er sjö blaðsíður, sem væri auðvitað gott ef magn og gæði væru sami hluturinn. Vitanlega stendur þetta tvennt þó ekki í öfugu hlutfalli hvort við annað, og romsurnar hans Bergs Ebba eru alls ekki leiðinlegar aflestrar. Á bókarkápu er okkur lofað að þetta séu „ljóð fyrir okkar tíma“, hvað sem það nú þýðir, kannski er hugmyndin að þessi ljóð séu lýsandi fyrir samtímann, tilraun til að fanga tíðaranda. Í fljótu bragði sýnist mér þó að grunnhugsunin að baki þeim flestum sé einmitt allt önnur, það vofir einhver einkennileg nostalgía yfir þessari bók, veruleikaflótti, draumur um afturhvarf til rökréttrar heimsmyndar, óorðuð andúð á afstæði og fjölhyggju samtímans. Hér er talað um „stríðsárafaðmlög“, „seinniheimsstyrjaldarsprengjur“, samloku á „diski sem minnir á fjórða áratuginn“. Saga tuttugustu aldarinnar (a.m.k. fram til 1950) orkar eins og allsherjar mælikvarði í þeirri heimssýn sem hér er brugðið upp, grundvöllur líkinga og tilfinningalegrar samsömunar, svipað og náttúran í ljóðum rómantískra skálda á 19. öld. Og þó eru þetta ekki söguleg ljóð. Bergur Ebbi hefur töluverða reynslu af því að skrifa blaðagreinar og kjallarapistla, og honum tekst einhvern veginn ekki alveg að losa sig úr því hlutverki hér. Sennilega er það of fast að orði kveðið að tala um „prédikunartón“ í þessu samhengi, en tónn álitsgjafans er að minnsta kosti ríkjandi í sumum ljóðum, hér er ályktað og alhæft um tíðarandann og einkenni samtímans í fyrstu persónu fleirtölu, „við“ erum svona eða hinsegin, fullyrðir skáldið; við erum

Með hjörtun full af ótta

Með hjörtun full af kvíða

Yfir því að vera ekki nógu snjöll

Nógu hnyttin, nógu sniðug

Nógu öðruvísi en þó nógu venjuleg

Það er eins og höfundurinn sé þrátt fyrir allt meðvitaður um þessi þrætubókareinkenni ljóða sinna og reyni að slæva þau með endurteknu stefi, sem er ávarpið „stúlkan mín“. Þannig er reynt að skapa þá tilfinningu að hér sé ekki verið að tala til okkar lesenda, ekki verið að bera fram neinn boðskap á markaðstorgi hugmyndanna, heldur séum við eingöngu þögul vitni að því þegar skáldið talar við stúlkuna sína – hvort hún er dóttir, frænka eða ástkona er ekki alveg ljóst. Þessi listræna blekking er dálítið klaufaleg í meðförum Bergs Ebba, eða álíka þunglamaleg og málnotkunin í víðum skilningi, en hún er ansi langt frá því að vera áreynslulaus. Áhrif úr ensku eru sums staðar áberandi í orðalagi, ekki bara í þeim skilningi að sérhver ljóðlína sé látin byrja á stórum staf, heldur líka á stöðum eins og þeim þar sem talað er um takt sem „skilur þig eftir með eigin hugsunum“. En allt um það, þá er óþarfi að varpa þessari bók í flýti frá sér, kannski verður gaman að lesa hana einhvern tímann seinna, til dæmis eftir tíu ár þegar plöggið í kringum hana verður gleymt og við orðin dómbærari á það hvort hér sé frambærilegur höfundur á ferðinni; um það er einfaldlega ekkert hægt að segja enn þá.

Það er ekki víst að Þórdís Gísladóttir myndi samþykkja þá fullyrðingu Bergs Ebba Benediktssonar að tími hnyttninnar sé liðinn; ef marka má ljóðin í ljóðabókinni Leyndarmál annarra, sem kom út nú á dögunum, er tími hnyttninnar þvert á móti enn í fullu gildi. Hnyttni, spaug og kaldhæðni eru aðalsmerki þessarar bókar sem er ekki nema 34 síður að lengd, og hefði að ósekju mátt vera miklu lengri. Leyndarmál annarra markar engin tímamót að því leyti að hún staðfestir það sem við vissum fyrir um skopstælingu og kaldhæðni sem helstu vopn kvenskálda. Þórdís er mikill mannþekkjari og ljóðmælendur hennar fjalla yfirleitt ekki um sjálfa sig nema til að bregðast við einhverju atviki sem þeir lenda í eða persónum sem verða á vegi þeirra. Þau ljóð bókarinnar sem hafa ljóðmælandann sjálfan í forgrunni eru undir íronískum formerkjum, til dæmis ljóðin „Glamúrskortur“ og „Félagslegt raunsæi“, sem eru bæði spunnin út frá nútímalegum staðalímyndum um konur, hið síðarnefnda endar meira að segja á þvottekta, rómantísku háði þar sem minnt er á geðveikina sem blundar undir efnishyggju og velmegunarlífi. Það er því greinilega vanur ljóðalesandi sem hér situr við lyklaborðið, á öðrum stað er okkur boðið upp á nútímalegan útúrsnúning á tæplega þrjátíu ára gömlu ljóði eftir Stefán Hörð Grímsson. Mestmegnis eru þessi ljóð þó karakterstúdíur í formi stuttra atriða, jafnvel leikþátta, atvik úr hversdagslífinu sem bregða ljósi á kunnuglegar týpur úr íslenskum samtíma: Leikskólakennarar og ljósmæður sem sýna ráðdeild í fjármálum, hjón sem búa við botnlangagötu í Grafarvoginum, þunnhærður karlmaður í blokkaríbúð sem drekkur Bónuskaffi og „horfir annars hugar á plattann með æðruleysisbæninni“.

Þórdís Gísladóttir nálgast viðfangsefni sín fyrst og fremst sem áhorfandi, ljóðin í þessari fyrstu bók hennar eru frumlegar hugleiðingar sem kvikna af ofurvenjulegum atburðum; kannski mætti tala um „bloggljóð“ í þessu sambandi. Líkt og titill bókarinnar gefur til kynna er leitast við að skyggnast undir yfirborðið í lífi ókunnugs fólks með ímyndunaraflið að vopni. Þórdísi ferst þetta verk vel úr hendi, hún er ekki örvæntingarfull eða vonsvikin eins og gluggagægirinn sem Purrkur Pillnikk söng um, heldur húmoristi og húmanisti í senn, skrásetjari einhvers sem er til, ekki bara í hugskoti hennar sjálfrar, heldur allt í kringum okkur. Það er notalegt að hlæja með Þórdísi í þessari bók, og kannski fáum við að njóta þess aftur ef bækurnar verða fleiri.

(Víðsjá, 4. nóvember 2010)

Úlfar Þormóðsson: Þú sem ert á himnum

Hjalti Ægisson, nóvember 4, 2010

„Úlfar Þormóðsson er eini núlifandi Íslendingurinn sem hefur hlotið dóm fyrir guðlast.“ Þetta er fyrsta fullyrðingin sem blasir við okkur aftan á kápu þessarar bókar, og við kveikjum strax á perunni: Þetta er ekki bara einhver bók um Biblíuna, hugsar lesandinn, heldur bók eftir Úlfar Þormóðsson um Biblíuna. Markaðsdeildin hefur sem sagt valið þá leið að hafa höfundinn sjálfan í forgrunni í kynningarmálum, sem er kannski ágætt; að minnsta kosti er það mjög í takt við efnistök verksins og skapar engar falsvonir. Úlfar er alls staðar nálægur í þessari bók, orðið „ég“ kemur fyrir á næstum hverri einustu síðu, og hér kemur heilmargt við sögu annað en Biblíulestur; Úlfar hlustar á messu í útvarpinu, Úlfar les Moggann, Úlfar skreppur til útlanda. Það er þó Biblían sjálf sem skilgreinir form þessarar bókar, þetta er lestur eins manns á Biblíunni allri, allt frá fyrstu Mósebók til Opinberunarbókarinnar, með vangaveltum, túlkunum og útleggingum. Á vissan hátt er þetta ekki ósvipað því sem hinir mælsku predikarar lærdómsaldarinnar gerðu, þeir völdu sér ritningarstað og létu hann vera kveikjuna að umfjöllun um samtímann. Hér eru forsendurnar þó allt aðrar, eins og gefur að skilja, Úlfari er fyrst og fremst umhugað um að sýna fram á mótsagnir Biblíunnar og þá vafasömu hugmyndafræði sem hvarvetna býr að baki textanum.

Hvað sem öllu líður er þessi bók heiðarleg tilraun til að gera eitthvað nýtt og ferskt á íslensku, eitthvað sem á sér þó fjölda fyrirmynda erlendis frá. Róttækur aþeismi hefur verið sérlega frjór vettvangur á sviði fræðilegra skrifa síðustu árin og gefur tilefni til margs konar nálgunarleiða, hvort sem það er köld rökhyggja að hætti Richard Dawkins eða hugmyndaríkur húmanismi að hætti Christopher Hitchens. Aðrir hafa skrifað um Biblíuna sem bókmenntir og án þess að leggja höfuðáherslu á skaðsemi trúarbragðanna; ég nefni sem dæmi bandaríska höfundinn Jack Miles, sem skrifaði stórskemmtilega ævisögu Guðs fyrir hálfum öðrum áratug, þar sem rakið er hvernig bókmenntapersónan Guð þróast frá einni bók til annarrar. Það var því varla nema tímabært að einhver tæki sig til og skrifaði svona verk á íslensku; trúleysisumræðunni hefur að vísu verið haldið vakandi á íslenskum vefsíðum í nokkur ár, iðulega af miklum metnaði og stundum nokkurri kunnáttu.

Stóra vandamálið við þá tilraun sem þessi bók er, er þó tilfinnanlegur skortur á ritfærni, það er ekki að sjá að hér sé um að ræða afurð höfundar sem hefur áratugareynslu af skrifum, sem er þrátt fyrir allt raunin. Með því á ég ekki eingöngu við slælegan frágang; út af fyrir sig er það reyndar fyndið að Úlfar skuli eyða ómældu púðri í að lýsa því hversu óvandvirkir útgefendur nýju Biblíuþýðingarinnar séu, og gefa svo sjálfur út bók sem skartar flennistórri prentvillu í titlinum, bæði á saurblaði og titilsíðu. Þetta er þó smámál við hliðina á þeirri ákvörðun höfundarins að setja bókina upp sem samtal við Guð, en að mínu mati er það glannaleg frásagnartilraun sem mistekst hrapallega. Mestallan tímann er Guð ávarpaður: „Þú, mátt ekki misskilja mig, Guð,“ „Drottinn! Þú þreytir mig með orðum þínum, boðum og bönnum,“ „Það var mikið stuð á þér í vafurlogunum á meðan þú varst að bjarga Ísraelsmönnum.“ Og svo framvegis, og svo framvegis. Þetta reiknilíkan, sem öll bókin er skrifuð út frá, er orðið þreytandi strax eftir fyrstu tvo kaflana. Kveinstafir höfundarins um að Biblían sé þreytandi fá einhvern veginn holan hljóm í slíku samhengi. Og það sem verra er: Hér eru fræðileg efnistök víðs fjarri, engar neðanmálsgreinar, engin heimildaskrá, enginn lærdómur. Vonandi verð ég ekki sakaður um elítisma eða fræðilegan hroka fyrir þessa kröfu, reyndar er það svo að hér á landi hafa komið út fjölmargar bækur um trú og menningarsögu á síðustu árum sem eru stórgóðar án þess að uppfylla strangfræðilegar kröfur um heimildanotkun; Skáldsaga Íslands eftir Pétur Gunnarsson er eitt dæmi, Glíman við guð eftir Árna Bergmann kemur líka upp í hugann. Munurinn er sá að þar er í báðum tilvikum um að ræða skemmtilegan stíl og lifandi og áhugaverða frásögn, nokkuð sem er ekki til að dreifa hér.

Úlfar Þormóðsson rekur sig í gegnum bækur Biblíunnar, en endursögnin á efni þeirra er svo takmörkuð og handahófskennd að það er hætt við því að þeir lesendur sem kunna ekki rækilega skil á Biblíunni séu litlu nær eftir lesturinn. Sumar bækur fá mjög takmarkaða umfjöllun, Síðara Tímóteusarbréf og Annað bréf Jóhannesar fá þannig aðeins eina línu hvort. Það er eins og áhugi höfundarins á verkefninu sem hann setti sér í upphafi fari dvínandi eftir því sem líður á bókina, á síðustu hundrað blaðsíðunum verður æ styttra bil á milli millifyrirsagnanna. Sumir undirkaflar eru ekkert nema tilvitnunin ein, og engin umfjöllun með, eins og þar eigi að blasa við hversu kjánalegur texti umræddrar bókar sé, með því að láta hann tala fyrir sig sjálfan. Það er þó sjaldan ljóst hvað Úlfar er að fara með þessum nöktu tilvitnunum, hugsunin að baki virðist beinlínis óskýr. Málnotkun og orðaval þýðenda er honum líka sérstaklega hugleikið efni, en sú umfjöllun er jafntilviljanakennd og allt hitt, gamaldags, liggur mér við að segja. Þegar engin afstaða er tekin til nýlegra fræðilegra skrifa er alltaf hætt við því að útkoman verði einmitt þannig, gamaldags, almælt sannindi. Sú tilhneiging Úlfars að bera frásagnir Biblíunnar saman við kjarngóðar, íslenskar fornmannasögur er til dæmis eins og upp úr hundrað ára gömlum kjallarapistli eftir Helga Pjeturss. Í umfjöllun sinni um glímu Jakobs segir einfaldlega: „Frásögn Snorra Sturlusonar af glímu Þórs við Elli kerlingu er mun tilþrifameiri en Jakobsglíma þinna heilögu. Við Íslendingar eigum einnig aðra áflogasögu þar sem menn af ólíkum tilverustigum takast á. Hún slær þinni sögu við; það er glíma Grettis við Glám.“

Niðurstaða mín er sem sagt sú að þessi bók komi að afar takmörkuðu gagni við að veita okkur aukinn skilning á Biblíunni sem áróðursriti eða vitnisburði um ískyggilegar hugmyndir. Þetta er nefnilega fyrst og fremst bók um Úlfar Þormóðsson sjálfan og samtíð hans; Biblíulesturinn í þessu verki ristir svo grunnt að hann verður lítið annað en stuðningur við almenna vandlætingu á Þjóðkirkjunni, óánægju með það hvað biskup Íslands er með í laun, og annað álíka. Sú umræða er í sjálfu sér allrar athygli verð, en þarf að gefa þetta út á bók? Dægurmálaumfjöllun af þessu tagi á heima á bloggsíðum og dagblöðum, ekki í prentuðum bókum nema eitthvað meira komi til, einhver hugmyndarík úrvinnsla, lifandi frásögn, eða fræðileg dýpt. Ekkert slíkt má finna í bókinni Þú sem ert á himnum, og því verðum við að bíða enn um sinn eftir því að trúleysisumræðan taki á sig mynd á íslensku í alvörubók.

(Víðsjá, 28. október 2010)

Sofi Oksanen: Hreinsun

Hjalti Ægisson, október 21, 2010

Þegar höfundar skáldverka setja sig í stellingar sagnfræðinga er hætt við því að útkoman verði misjöfn, enda markmiðin með slíkum skrifum mörg og ólík. Skáldskapur sem grundvallast á sagnfræði er stundum saminn með markaðssjónarmið í huga, enda ná sögulegar skáldsögur til fjölda lesenda sem hafa meiri áhuga á hinu sögulega en hinu skáldlega; skáldsaga sem gerist í Rómaveldi til forna er þannig líkleg til að höfða til fólks sem hefur fyrst og fremst áhuga á rómverskri sögu, en hirðir kannski lítið um listræna þróun höfundarins, svo dæmi sé tekið. Söguleg skáldverk geta líka hentað vel til að vekja athygli á pólitískum samtímamálefnum, höfundurinn getur grennslast fyrir um rætur og orsakir ríkjandi ástands og sett niðurstöður sínar fram með dramatískum og áhrifamiklum hætti, að svo miklu leyti sem persónur hans hreyfa við lesandanum. Þar að auki eru söguleg skáldverk afar hentug til að sýna átök sögunnar í smækkaðri mynd, láta heimsmálin endurspeglast á hinu persónulega sviði, láta míkrókosmos og makrókosmos kallast á. Mörg af bestu verkum bókmenntasögunnar eru gædd einmitt þessum eiginleika, allt frá Antígónu Sófóklesar, þar sem átökin á milli Kreons og Antígónu endurspegla átök borgríkis og fjölskylduástar, til leikritsins Líttu reiður um öxl eftir John Osborne, þar sem stéttabarátta í Bretlandi um miðja síðustu öld birtist í yfirfærðri mynd sem ofbeldissamband karls og konu.

Skáldsagan Hreinsun eftir Sofi Oksanen er dæmi um bókmenntaverk sem hefur öll þessi einkenni, að því er virðist. Nú skal að vísu ekki fullyrt að þetta sé bók sem er samin með markaðssjónarmið í huga, en hún hefur að minnsta kosti reynst mjög vel sem vara á markaði, hún komst á topp metsölulista í Finnlandi og Eistlandi, hefur fengið fjölda verðlauna og verið þýdd á fjölda tungumála. Nú er Hreinsun komin út í íslenskri þýðingu Sigurðar Karlssonar, og hafi hann mikla þökk fyrir vel unnið verk. Sigurður er, að heita má, öflugasti málsvari finnskra bókmennta hér á landi þessi misserin; í fyrra komu út tvær finnskar bækur í þýðingu hans: Skáldsagan Yfir hafið og í steininn eftir samtímamann okkar Tapio Koivukari, og Óþekktur hermaður eftir Väinö Linna, skáldsaga frá 1954 sem hefur ekki ósvipaðan status meðal Finna og Íslandsklukkan meðal Íslendinga.

Hreinsun er upphaflega skrifuð sem leikrit, enda má víða sjá leifar af stofudrama í textanum, samtalssenur sem gerast innan dyra í einu herbergi eða einhverju vel afmörkuðu rými. Sagan gerist í Eistlandi og hefst árið 1992, ári eftir að landið lýsti yfir sjálfstæði. Einn grámóskulegan haustdag er Aliide Truu, tæplega sjötug kona, stödd inni í eldhúsi og er að reyna að drepa flugu. Aliide verður litið út um gluggann og sér eitthvert hrúgald úti í garði. Við nánari athugun kemur í ljós að hrúgaldið er stúlka frá Vladivostok, borg sem er í tæplega sjöþúsund kílómetra fjarlægð til austurs, eða alveg í hinum enda þess sem áður var kallað Sovétríkin. Stúlkan heitir Zara og er á flótta undan hættulegum glæpamönnum sem hafa haldið henni fanginni í hlekkjum vændis og mansals. Þarna mætast þær sem sagt einn grámóskulegan haustdag í Eistlandi, Aliide og Zara, konur tveggja kynslóða, fórnarlömb tvenns konar kúgunar; sú gamla hefur lifað megnið af ævinni undir oki kommúnismans en Zara, sú yngri, hefur mátt þola þjáningar af hendi hins nýja harðstjórnarvalds, melludólganna sem selja ungar konur í kynlífsþrælkun og græða á tá og fingri. Sofi Oksanen sýnir með sannfærandi hætti í sögu sinni að á þessu tvenns konar ógnarvaldi er bitamunur en ekki fjár, enda er í mörgum tilvikum um sömu mennina að ræða í hlutverkum kúgaranna. Valdamestu mennirnir í mansalsbransanum sem rís upp í hinu nýfrjálsa Eistlandi eru flestir fyrrum áhrifamenn innan KGB.

Fundur kvennanna tveggja, Aliide og Zöru, verður hinni fyrrnefndu tilefni til að rifja upp fortíðina, og skáldsagan Hreinsun er sögð með sífelldu flakki fram og aftur í tíma. Þessi vandmeðfarna frásagnaraðferð leikur í höndunum á Sofi Oksanen, enda varpa tímasviðin tvö ljósi hvort á annað og stigvaxandi afhjúpun þess sem gerðist í fortíðinni breytir mynd lesandans af því sem gerist í samtímanum. Saga Eistlands á tuttugustu öld birtist hér í öllum sínum hrikaleik og segja má að sagan af Aliide Truu sýni kjarnann í þeim hörmungum. Um það leyti sem seinni heimsstyrjöldin braust út var Eistland innlimað í Sovétríkin og næstu árin á eftir gekk stjórnin í Kreml mjög harkalega fram í að aðlaga landið rússneskum siðum. Talið er að fyrsta árið sem Eistland var undir stjórn Sovétríkjanna hafi um sextíu þúsund manns verið myrt eða flutt úr landi, til fangavistar í Síberíu eða á aðra óhuggulega staði. Af þessum atburðum dregur skáldsaga Sofi Oksanen nafn sitt, Hreinsun. Amma og móðir Zöru tilheyra þeim stóra hópi fólks sem er hreinsað burt úr Eistlandi, þær hefja nýtt líf í Vladivostok, og þar fæðist Zara. Zara á sem sagt rætur að rekja til Eistlands, og eftir því sem hún kynnist Aliide Truu betur kemst hún að sífellt meiru um fortíð sinnar eigin ættar. Gamla konan er nefnilega ekki öll þar sem hún er séð, þegar hreinsanir Stalínstímans stóðu sem hæst gekkst hún kúgunaröflunum á hönd því hún var drifin áfram af afbrýðisemi; maðurinn sem hún elskar er eftirlýstur af yfirvaldinu fyrir samvinnu við þýskt innrásarlið í stríðinu og Aliide Truu beitir allri sinni útsjónarsemi til að beina sjónum leyniþjónustunnar að konunni sem hann giftist. Hún er algjörlega fangin af óraunsæjum draumum um eðlilegt fjölskyldulíf með þessum manni. Ævi Aliide Truu endurspeglar þannig sögu Eistlands eftir seinna stríð, saga hennar er míkrokosmos sem kristallar makrókosmos.

Hreinsun eftir Sofi Oksanen er mikil örlagasaga, saga eistnesku þjóðarinnar andspænis ógnum í fortíð og nútíð, og vitnisburður um það hvernig varhugaverð hreyfiöfl mannkynssögu og stjórnmála hverfa ekki, heldur breyta einungis um mynd, ef þau eru ekki gerð upp á sannfærandi hátt. Sofi Oksanen tilheyrir nýrri kynslóð evrópskra rithöfunda sem hefur fengið það hlutverk að takast á við mestu sögulegu umskipti síðari ára, það er að segja fall Sovétríkjanna og afleiðingar þess. Skáldsagan Hreinsun er vitanlega ekkert einsdæmi í þessum flokki, fyrir þremur árum fengum við Íslendingar t.d. prýðilega þýðingu Bjarna Jónssonar á annarri svona eftir-sovét-skáldsögu, Hermaður gerir við grammófón eftir Sasa Stanisic, sem gerist í Bosníustríðinu 1992. Að mínu mati er þó óhætt að fullyrða að Hreinsun eftir Sofi Oksanen tekur þeirri bók fram, ef eitthvað er; hér er mikið lagt undir og lítið um feilspor, að undanskildum örlítilli melódramatík í lokin. Þessi bók er sannarlega einn ánægjulegasti viðburðurinn í íslenskum bókmenntaþýðingum þetta árið.

(Víðsjá, 21. október 2010)

Þorvaldur Kristinsson: Lárus Pálsson leikari

Hjalti Ægisson, ágúst 11, 2010

Hver er uppáhaldsleikarinn þinn? Spurningin er kunnugleg, hún er staðalbúnaður í spurningapökkum lífsstílsblaða og unglingatímarita; segðu okkur hver er uppáhaldsleikarinn þinn svo við skiljum betur hvernig manneskja þú ert. Svarið þarf að byggjast á upplifun; þú þarft að nefna leikara sem þú hefur kynnt þér í einhverjum skilningi – farið á leikrit, séð bíómyndir – því ef þú nefnir leikara sem þú hefur aldrei séð nema á ljósmyndum ertu að skrökva. Fyrir vikið er stór hluti þeirra sem hafa einhvern tímann þjónað leiklistargyðjunni í aldanna rás sjálfkrafa útilokaður frá svarinu. Leiklistin er nefnilega list augnabliksins; í leikhúsinu er sérhver sýning einstök og hún verður aldrei endurtekin. Þess vegna er starf leikarans ólíkt starfi ljóðskáldsins og listmálarans – varðveisla þess er háð minni og miðlun þeirra sem upplifðu það. Af þessum sökum verður leiklistarsaga alltaf nokkrum vandkvæðum bundin; hún er varðveisla einhvers sem er, strangt til tekið, ekki hægt að varðveita. Frásögn um áhrifaríkan leik getur auðveldlega orðið svo loftkennd að sá sem les verður að taka viljann fyrir verkið, ef hann var ekki sjálfur viðstaddur. Bók Þorvaldar Kristinssonar, Lárus Pálsson leikari, er ævisaga leikara sem hvarf af sviðinu fyrir fjörutíu árum, og því trúlegt að stærstur hluti þeirra sem lesa verkið sé fólk sem varð ekki þeirrar ánægju aðnjótandi að sjá Lárus Pálsson á sviði.

Og víst er um það, að í bók Þorvaldar eru einstaka tilvik um lýsingar sem segja lítið sem ekkert. Hér er dæmi: „Sendir þá ekki stjarnan frá sér snögga eldingu bak við brosið, svipuhöggin falla eitt af öðru og með undirtónum raddarinnar stýrir hún karlmönnunum á augabragði inn í þá hrynjandi sem þarf til að gefa samleiknum líf og merkingu…“ Hvað þetta þýðir nákvæmlega veit ég ekki, en hitt veit ég að með því að velja þessa tilvitnun er verkinu ekki sýnd full sanngirni. Sannleikurinn er nefnilega sá að bók Þorvaldar er svo full af skýrum og lifandi lýsingum að það er hrein unun að lesa.

Lárus Pálsson lærði leiklist í Kaupmannahöfn og fetaði þannig slóð sem fáir samlandar hans höfðu farið áður. Í frásögn Þorvaldar af námsárum Lárusar er ýmislegt dregið fram sem liggur ekki í augum uppi, en skiptir verulegu máli. Sem dæmi má nefna þá tilhneigingu Íslendinga sem mun hafa verið við lýði langt fram yfir miðja 20. öld, að vanrækja vísvitandi að læra dönsku sómasamlega og bera hana fram með áberandi, íslenskum hreim til að ýkja sérstöðu sína og einangrun frá gömlu herraþjóðinni. Það var því á brattann að sækja fyrir Lárus, sem komst ekki hjá því að læra dönskuna almennilega, enda málið helsta atvinnutæki leikarans. Og Lárus er réttur maður á réttum stað; þetta rökstyður Þorvaldur með því að gera ítarlega grein fyrir umhverfinu sem Lárus gekk inn í og starfaði við í Kaupmannahöfn. Hann starfar við Konunglega leikhúsið á árunum sem Andreas Møller stýrir því, en Møller lagði mikla áherslu á leikbókmenntir samtímans. Í leikhúsinu í Riddarasalnum er Lárus svo nokkru síðar aftur á þeim stað þar sem helstu nýmælin og gróskuna í dönsku leikhúslífi er að finna. Þegar hann kemur heim til Íslands árið 1940 nýtur hann svo enn góðs af ytri aðstæðum því Bretavinnan er hafin, fólk hefur meira á milli handanna en áður og aðsókn að leikhúsi eykst mjög. Þegar Þjóðleikhúsið tekur til starfa lendir Lárus hins vegar í alveg nýrri stöðu: Hann hefur ekki lengur fullt frelsi til verka og upplifir samskiptaörðugleika í starfi sínu.

Þótt einkalífi Lárusar Pálssonar séu gerð viðunandi skil í bók Þorvaldar er það fagmaðurinn Lárus sem er í forgrunni – leikari, leikstjóri og leiklistarkennari. Nemendur Lárusar mynda kjarnann í íslensku leikhúslífi frá miðri öldinni og til dagsins í dag. Aðferð Þorvaldar við að greina frá kennslu Lárusar er dálítið ósamstæð – hann nafngreinir nemendurna og samstarfsmennina stundum og stundum ekki í meginmáli, að því er virðist eftir því hvort hann vill leggja áherslu á Lárus sjálfan eða mynd annarra af honum. Athugagreinarnar aftast í bókinni taka þó oftast af allan vafa um hvaða fólk er að ræða. En áhrif Lárusar eru ekki bara á sviði leiklistarinnar, heldur líka leikbókmenntanna, eins og Þorvaldur rekur rækilega. Þótt ekki væri um auðugan garð að gresja í íslenskum leikbókmenntum á tíma Lárusar átti hann í frjóu samstarfi við ýmsa höfunda um leikritun, aðlaganir og þýðingar. Davíð Stefánsson er elsta dæmið um slíkan höfund, en samstarf hans og Lárusar um hagræðingar og styttingar á Gullna hliðinu eru líklega hið fyrsta sinnar tegundar hérlendis. Í ævisögu Davíðs Stefánssonar frá því í fyrra, Snert hörpu mína, er ekkert sagt frá þessari glímu um textann. Fleiri verk fóru undir hnífinn hjá Lárusi, t.d. Tyrkja-Gudda eftir Jakob Jónsson og Valtýr á grænni treyju eftir Jón Björnsson. Það vekur þó athygli að Þorvaldur nefnir ekkert um skoðanir Lárusar á umfangi leikritsins Uppstigningar eftir Sigurð Nordal sem hann leikstýrði árið 1945, en það verk hefur einmitt haft orð á sér fyrir að vera óþarflega langt. Lárus átti líka stóran þátt í því að festa Halldór Laxness í sessi sem þjóðskáld með uppfærslu sinni á Íslandsklukkunni, og hann fékk ungan lyfsala á Húsavík, Helga Hálfdanarson, til að þýða sitt fyrsta Shakespeare-leikrit.

Þorvaldur Kristinsson hefur mjög breiða sýn á hlutina í þessari ævisögu, dregur víðtækar og vel rökstuddar ályktanir og lítur jafnan svo á að orsakir atvika séu fleiri en ein. Hann skoðar Lárus í ljósi kalda stríðsins og þeirra flokkspólitísku aðstæðna sem listalífinu var búin um og eftir miðja öldina, enda hugsaði Lárus Pálsson leiksýningar sínar oft sem innlegg í samtímaumræðu. Rannsóknarvinna Þorvaldar um þær sýningar sem Lárus kom að á Norðurlöndunum er afar mikils virði, því með henni gefst tilefni til að skilgreina íslenska leikhússamfélagið með hliðsjón af erlendum dæmum. Frásögnin er lífleg og hugmyndarík; Þorvaldur finnur samsvaranir á milli Lárusar og persónanna sem hann túlkar á sviðinu og setur leikhúsið í samhengi við annað menningarlíf, t.d. í kaflanum um Hamletssýninguna í Iðnó 1949, en svo vildi til að kvikmynd Laurence Olivier um Hamlet var sýnd í Tjarnarbíó þetta sama vor. Sannfæringarkraftur Þorvaldar Kristinssonar í þessari bók er ólítill, og þótt sá er hér talar hafi aldrei notið leikhæfileika Lárusar Pálssonar nema í hljóðupptökum, þá er ég að hugsa um að nefna nafn hans næst þegar ég verð spurður hver sé uppáhaldsleikarinn minn.

(Víðsjá, 18. desember 2008)

Úlfar Þormóðsson: Hallgrímur

Hjalti Ægisson, ágúst 11, 2010

Úlfar Þormóðsson setur markið hátt í þessari nýjustu bók sinni, sem er söguleg skáldsaga og gerist á 17. öld. Aðalpersónan er sjálfur Hallgrímur Pétursson, hið mikla höfuðskáld aldarinnar. Vitneskja okkar um ævi Hallgríms er býsna brotakennd og því má segja að þessi bók sé tilraun Úlfars Þormóðssonar til að púsla brotunum saman. Hér er fylgt strangri, sagnfræðilegri nákvæmni; nöfnum persóna og leikenda er ekkert hnikað til og farið er rétt með ártöl, að svo miklu leyti sem þau eru þekkt. Um orsakasamhengið gildir nokkuð öðru máli, enda liggur nýstárleiki verksins fyrst og fremst í óvenjulegum túlkunum. Það er margt í lífi Hallgríms Péturssonar sem við vitum fyrir víst að átti sér stað, en hvers vegna það átti sér stað er ekki alltaf vitað. Við vitum t.a.m. ekki af hverju Hallgrímur fer af landi brott þegar hann er unglingur, ekki heldur af hverju hann flosnar upp úr járnsmíðanámi sínu og hefur guðfræðinám við Vorfrúarskóla. En Úlfar Þormóðsson hefur sínar hugmyndir um þetta allt saman, og þær hugmyndir samræmast ekki alltaf hinni viðteknu mynd okkar af Hallgrími.

Í meðförum Úlfars verður Hallgrímur Pétursson að efasemdarmanni sem tekst á gagnrýninn hátt á við ýmis álitaefni guðfræðinnar. Guðleysingi er hann ekki, en hann hefur miklar efasemdir um aðferðir kirkjunnar og ímyndarsköpun, sem gengur oftar en ekki út á að hagræða sannleikanum. Sumt af þessum vangaveltum Hallgríms er kunnuglegt úr umræðu síðustu ára, t.d. skoðanir hans á Júdasi sem virðast bera nokkurn keim af hinu nýlega enduruppgötvaða Júdasarguðspjalli. Hallgrími þykja frásagnir af svikum Júdasar ekki sannfærandi og hann grunar að Júdas hafi verið gerður að blóraböggli í meðförum kirkjunnar manna. Á sama hátt heillast Hallgrímur af þeim óopinberu þjóðsögum sem eiga rætur að rekja aftur til fjórtándu aldar og kveða á um að Kristur hafi eignast afkomendur, en sú staðreynd hafi verið þögguð niður. Þannig vinnur Úlfar Þormóðsson meðvitað á móti hinni hefðbundnu mynd af Hallgrími sem heittrúuðum skáldpresti. Þetta er í sjálfu sér ágæt hugmynd; sögulegar skáldsögur geta auðvitað verið öflugt tæki til þess að flækja mynd lesandans af fortíðinni og glæða hana þar með nýju lífi. Höfuðvandi verksins er hins vegar sá að sá Hallgrímur sem við kynnumst hér kemur engan veginn heim og saman við þann kveðskap sem eignaður er hinum raunverulega Hallgrími, en sá kveðskapur er einmitt gernýttur í verki Úlfars. Fyrir vikið verður höfundinumm nauðsynlegt að sveigja þennan nýstárlega Hallgrím í átt að kveðskapnum. Útkoman verður æði þversagnarkennd, enda hlýtur hún að byggjast á því að sá Hallgrímur sem við þekkjum úr Passíusálmunum og öðrum kvæðum sé ekki hinn rétti Hallgrímur. Þessa þversögn afgreiðir Úlfar einkanlega með einni persónu, sem er Brynjólfur Sveinsson biskup. Það er Brynjólfur sem stýrir undrabarninu Hallgrími inn á braut kirkjunnar; Brynjólfur fær hann til að hefja nám í guðfræði og hvetur hann síðar til að takast á við að yrkja um pínu Krists. Alltaf er Hallgrímur efins um þá leið sem hann hefur valið sér, og virðist una sér mun betur við að kenna ungum börnum undirstöðureglur siðfræðinnar, lesa gömul handrit eða grúska í verkum forkristinna fornaldarhöfunda. Þar með verður til einhver óþægileg krísa í sjálfsmynd Hallgríms, tilfinningahnútur sem er í algjöru ósamræmi við þá sannfæringu sem setur mark sitt á ljóðum hans. Hann yrkir kvæði sín ýmist með velgjusvip á vör, því þau eru fyrst og fremst ort til samræmis við ríkjandi tísku, eða hann glottir með sjálfum sér þegar hann laumar dulbúnu lofi á syndina inn í ljóð sín undir öfugum formerkjum, eins og þegar hann ákveður að hafa Passíusálmana fimmtíu að tölu til heiðurs Barna-Sveinbirni, hinum kaþólska forföður sínum. Sé hinn strangi hugmyndaheimur sautjándu aldarinnar hafður til hliðsjónar verður þetta djarft hjá Úlfari Þormóðssyni, næstum því jafn djarft og að skrifa sögulega skáldsögu um Jón Sigurðsson og byggja hana á þeirri hugmynd að Jón hafi innst inni viljað að Ísland yrði áfram hluti af Danaveldi – hann hafi bara tekið slaginn af því að einhverjir aðrir hvöttu hann til þess.

Að forminu til minnir bókin Hallgrímur að sumu leyti á rússnesku hugmyndaskáldsöguna. Mikið er hér um langar senur þar sem persónurnar eru í rauninni ekki að gera neitt, kannski að tefla eða drekka, en blaðra þeim mun meira. Það verður því varla sagt að hér sé tekist á við skáldsöguformið á ögrandi eða hugkvæman hátt. Loks má geta þess að skáldsagan Hallgrímur er gríðarmikil að vöxtum, rúmar sexhundruð síður, og til að geta haldið athygli lesandans fanginni í svo löngu skáldverki þarf vitanlega að skrifa skemmtilegan og áhugaverðan stíl. Því miður fatast Úlfari þar flugið, enda er sagan afar langdregin og allmörg atriði hennar ómarkviss. Það er oft eins og heilu senurnar séu skrifaðar utan um kvæði eða vísubrot frá Hallgrími Péturssyni, án þess að þær hafi neitt sjáanlegt erindi eða raunveruleg tengsl inn í meginframvinduna. Til allrar hamingju fá ljóðlínur sálmaskáldsins að fljóta með á stöku stað, en nærvera þeirra gerir lítið annað en að undirstrika enn frekar tilþrifaleysi textans sem umlykur þær.

(Víðsjá, 11. desember 2008)