Posts tagged: Bandarískar skáldsögur

Siri Hustvedt: The Summer Without Men

Hjalti Ægisson, júní 16, 2011

Nú á vordögum kom út ný skáldsaga hjá bókaforlaginu Sceptre í Bandaríkjunum sem heitir Sumar án karlmanna, The Summer Without Men. Við fyrstu sýn lítur þessi bók út fyrir að geyma hressilegan skvísulitteratúr; á kápunni er stílfærð teiknimynd af konu sem virðist svífa af lífsgleði og er klædd í sumarlegan kjól. En bókina á aldrei að dæma af kápunni, eins og máltakið kennir, og við nánari athugun kemur í ljós að grunntónn þessarar sögu er sorgin; ástarsorg nánar tiltekið. Konan sem segir söguna er ljóðskáldið og kennarinn Mia Frederickson, sem hefur verið gift taugavísindamanninum Boris í þrjátíu ár. Einn daginn tilkynnir Boris henni að hann vilji „taka pásu“, eins og hann orðar það svo varfærnislega. Með öðrum orðum: Slíta hjónabandinu. Sumar án karlmanna er lýsing á þeim tilfinningalegu viðbrögðum sem Mia upplifir í kjölfar sambandsslitanna. Frásögnin er órökleg og brotakennd og stíllinn afskaplega huglægur. Þannig er ruglingslegum tilfinningum og sveiflukenndu hugsanaferli miðlað með upplausn í forminu, ekki ósvipað og í skáldsögunni Frá gósenlandinu eftir dönsku skáldkonuna Kirsten Hammann, sem kom út í íslenskri þýðingu fyrir nokkrum árum, en í þeirri bók er einnig fjallað um höfnun og sambandsslit frá sjónarhóli kvenkyns aðalpersónu.

Sumar án karlmanna er nýjasta verk bandarísku skáldkonunnar Siri Hustvedt sem fæddist árið 1955 í bænum Northfield í Minnesota. Hún er afkomandi norskra innflytjenda og skrifaði sína fyrstu skáldsögu fyrir um það bil tuttugu árum. Síðan þá hefur hún vaxið hægt og bítandi sem höfundur, hennar þekktasta verk er vafalaust skáldsagan Það sem ég elskaði, What I loved, frá 2003. Þegar grennslast er fyrir um viðtökur bóka Siri Hustvedt kemur í ljós að tvennt hefur verið áberandi allan hennar rithöfundarferil. Annars vegar er það sú viðleitni að tengja hana við eiginmann sinn sem líka er rithöfundur og heitir Paul Auster. Það er eiginlega ekki fyrr en á allra síðustu árum sem fer að örla á því að verk Siri Hustvedt séu metin á eigin forsendum, en ekki með samanburði við skáldsögur mannsins hennar. Það er fremur sjaldgæft að rekast á ritdóma um bækur hennar án þess að hann sé nefndur þar á nafn. Hitt atriðið sem setur sterkan svip á viðtökur bóka Siri Hustvedt er sú tilhneiging að túlka verk hennar á sjálfsævisögulegum nótum, gera ráð fyrir því að hún sé alltaf leynt og ljóst að fjalla um sjálfa sig í bókum sínum. Hustvedt ræðir þetta í viðtali sem birtist nýlega í breska blaðinu Guardian, og telur að þessi tilhneiging sé sérstaklega ríkjandi í viðtökum sagnabókmennta eftir kvenhöfunda. Í nútímabókmenntaumfjöllun er einhvern veginn gert ráð fyrir því ósjálfrátt að karlkyns rithöfundar séu empírískir greinendur eða sjáendur, túlkendur eða samfélagslæknar; ímynd þeirra er beint afsprengi snillingshugmyndarinnar eins og rómantíkin bjó hana til. Kvenkyns rithöfundar eru hins vegar alltaf túlkaðir í skugga játningahefðarinnar, það er nánast gengið út frá því að konur geti ekki skrifað bókmenntir öðruvísi en með því að hafa sín eigin geðhrif í forgrunni. Skömmu eftir að Sumar án karlmanna kom út fékk Siri Hustvedt símtal frá vinkonu sinni sem spurði hana áhyggjufull hvort það væri ekki allt með felldu hjá þeim hjónunum.

Sumar án karlmanna er nöturleg lýsing á reynsluheimi kvenna. Þótt kvenréttindi hafi aukist verulega á síðustu öld er líf konunnar í nútímasamfélagi sannarlega enginn dans á rósum; henni er strítt á unglingsárunum, hún slær af framavonum sínum til að geta sinnt móðurhlutverkinu og ef eiginmaðurinn yfirgefur hana ekki á miðjum aldri er hún í flestum tilvikum dæmd til að lifa lengur en hann og þarf því að þreyja elliárin einmana og þjökuð af minningum frá fyrri tíð.

Siri Hustvedt

Sumar án karlmanna fjallar um konu sem reynir að finna sjálfa sig aftur eftir að maðurinn sem hún hefur lifað með áratugum saman hefur gefið hana upp á bátinn fyrir aðra, yngri konu. Það eru margar áleitnar spurningar um sjálfið í þessari sögu – sá sem hefur búið með annarri manneskju öll sín fullorðinsár á oftast erfitt með að skilja sjálfan sig öðruvísi en með því að taka lífsförunautinn með í reikninginn. Með öðrum orðum: Að hve miklu leyti er lífsreynslan þáttur í persónuleikanum? Er maður maður sjálfur þrátt fyrir það sem maður upplifir – eða einmitt vegna þess? Þegar Mia Frederickson hefur náð botninum og er komin yfir versta skaflinn þarf hún að leggjast í róttæka sjálfsskoðun, hún þarf að komast fram hjá sjálfri sér eins og hún var í sambandinu með Boris, finna kjarnann sem mótaðist í bernsku og á unglingsárum. Þar að auki kemur höfnunin svo flatt upp á hana að hún þarf að spyrja sjálfa sig hvort hún hafi nokkurn tímann þekkt manninn sinn í raun og veru. Mia yfirgefur heimili sitt í New York og fer til æskuslóðanna í Minnesota þar sem hún dvelur sumarlangt með hópi af stúlkum sem nema ljóðlist hjá henni.

Siri Hustvedt hefur gengist við því að Sumar án karlmanna sé femínísk skáldsaga, en samband hennar við femíníska hugmyndafræði hefur þó ekki verið þrautalaust í gegnum tíðina. Árið 1997 skrifaði hún greinina „Málsvörn fyrir Eros“, þar sem hún fjallar á gagnrýninn hátt um það hvernig bandarískur femínismi hefur einkennst af vissri afneitun á kynferðislegri ánægju, enda grundvallaður á sterkum, púrítönskum grunni. Duttlungar kynlífsins eru oft kjánalegir þegar allt kemur til alls: „Það er óviðeigandi að viðurkenna að kynferðisleg nautn geti verið í öllum regnbogans litum,“ segir Hustvedt í þessari grein, „að konur, rétt eins og karlar, geti örvast af því sem er í besta falli kjánalegt, í versta falli afbrigðilegt.“ Síðan þessi orð voru rituð hefur þó mikið vatn runnið til sjávar og Siri Hustvedt viðurkennir að femínistar í Bandaríkjunum séu æ oftar farnir að leggja áherslu á kynferðislegar fantasíur þegar reynt er að skilgreina veruleika kvenna með jafnréttisbaráttu að leiðarljósi.

Líkt og mörg fyrri verk Siri Hustvedt er Sumar án karlmanna blandað verk; hér sem víðar notar hún skáldsöguformið sem farveg hugmynda og fræðilegrar umfjöllunar, ekki síst um samskipti kynjanna, kynjahlutverk og væntingar samfélagsins til konunnar. Myndræn einkenni setja sterkan svip á þessa bók, en Hustvedt hefur oft unnið með myndlist í verkum sínum, auk þess sem hún hefur skrifað um málverk. Þegar Hustvedt kom hingað til lands á Bókmenntahátíð í Reykjavík haustið 2005 ræddi hún um þessar myndrænu áherslur í viðtali við Einar Fal Ingólfsson: „Ég hef mjög myndrænt ímyndunarafl. Þegar ég skrifa sé ég alltaf aðstæðurnar og fólkið fyrir mér. Það er ákveðin skörun milli þessara heima. Og ég man eftir bókum í myndum.“

Sumar án karlmanna er þriðja skáldverk Siri Hustvedt á fjórum árum og margt bendir til þess að hún sé nú á hátindi sínum sem rithöfundur. Umfjöllunarefni hennar eru fjölbreytt og afgreidd á vitrænum forsendum, en sjálfið og mótun þess er þó iðulega í forgrunni; bókin Sorgir Bandaríkjamanns (Sorrows of an American) frá 2008 er ættarsaga sem spannar langt tímabil. Skjálfandi konan (The Shaking Woman) frá 2010 er saga um það hvernig barátta við sjúkdóm mótar manneskjuna og gefur henni nýja sýn á tilveruna. Sumar án karlmanna er svo nýjasta afurðin, grípandi úttekt á sjálfsskoðun í kjölfar sorgar og höfnunar. Það er ekki út í bláinn að halda því fram að Siri Hustvedt sé í hópi áhugaverðustu kvenhöfunda vestanhafs, og næstu skref verða vafalaust allrar athygli verð.

(Víðsjá, 21. apríl 2011)