Posts tagged: Finnskar bókmenntir

Sofi Oksanen: Hreinsun

Hjalti Ægisson, október 21, 2010

Þegar höfundar skáldverka setja sig í stellingar sagnfræðinga er hætt við því að útkoman verði misjöfn, enda markmiðin með slíkum skrifum mörg og ólík. Skáldskapur sem grundvallast á sagnfræði er stundum saminn með markaðssjónarmið í huga, enda ná sögulegar skáldsögur til fjölda lesenda sem hafa meiri áhuga á hinu sögulega en hinu skáldlega; skáldsaga sem gerist í Rómaveldi til forna er þannig líkleg til að höfða til fólks sem hefur fyrst og fremst áhuga á rómverskri sögu, en hirðir kannski lítið um listræna þróun höfundarins, svo dæmi sé tekið. Söguleg skáldverk geta líka hentað vel til að vekja athygli á pólitískum samtímamálefnum, höfundurinn getur grennslast fyrir um rætur og orsakir ríkjandi ástands og sett niðurstöður sínar fram með dramatískum og áhrifamiklum hætti, að svo miklu leyti sem persónur hans hreyfa við lesandanum. Þar að auki eru söguleg skáldverk afar hentug til að sýna átök sögunnar í smækkaðri mynd, láta heimsmálin endurspeglast á hinu persónulega sviði, láta míkrókosmos og makrókosmos kallast á. Mörg af bestu verkum bókmenntasögunnar eru gædd einmitt þessum eiginleika, allt frá Antígónu Sófóklesar, þar sem átökin á milli Kreons og Antígónu endurspegla átök borgríkis og fjölskylduástar, til leikritsins Líttu reiður um öxl eftir John Osborne, þar sem stéttabarátta í Bretlandi um miðja síðustu öld birtist í yfirfærðri mynd sem ofbeldissamband karls og konu.

Skáldsagan Hreinsun eftir Sofi Oksanen er dæmi um bókmenntaverk sem hefur öll þessi einkenni, að því er virðist. Nú skal að vísu ekki fullyrt að þetta sé bók sem er samin með markaðssjónarmið í huga, en hún hefur að minnsta kosti reynst mjög vel sem vara á markaði, hún komst á topp metsölulista í Finnlandi og Eistlandi, hefur fengið fjölda verðlauna og verið þýdd á fjölda tungumála. Nú er Hreinsun komin út í íslenskri þýðingu Sigurðar Karlssonar, og hafi hann mikla þökk fyrir vel unnið verk. Sigurður er, að heita má, öflugasti málsvari finnskra bókmennta hér á landi þessi misserin; í fyrra komu út tvær finnskar bækur í þýðingu hans: Skáldsagan Yfir hafið og í steininn eftir samtímamann okkar Tapio Koivukari, og Óþekktur hermaður eftir Väinö Linna, skáldsaga frá 1954 sem hefur ekki ósvipaðan status meðal Finna og Íslandsklukkan meðal Íslendinga.

Hreinsun er upphaflega skrifuð sem leikrit, enda má víða sjá leifar af stofudrama í textanum, samtalssenur sem gerast innan dyra í einu herbergi eða einhverju vel afmörkuðu rými. Sagan gerist í Eistlandi og hefst árið 1992, ári eftir að landið lýsti yfir sjálfstæði. Einn grámóskulegan haustdag er Aliide Truu, tæplega sjötug kona, stödd inni í eldhúsi og er að reyna að drepa flugu. Aliide verður litið út um gluggann og sér eitthvert hrúgald úti í garði. Við nánari athugun kemur í ljós að hrúgaldið er stúlka frá Vladivostok, borg sem er í tæplega sjöþúsund kílómetra fjarlægð til austurs, eða alveg í hinum enda þess sem áður var kallað Sovétríkin. Stúlkan heitir Zara og er á flótta undan hættulegum glæpamönnum sem hafa haldið henni fanginni í hlekkjum vændis og mansals. Þarna mætast þær sem sagt einn grámóskulegan haustdag í Eistlandi, Aliide og Zara, konur tveggja kynslóða, fórnarlömb tvenns konar kúgunar; sú gamla hefur lifað megnið af ævinni undir oki kommúnismans en Zara, sú yngri, hefur mátt þola þjáningar af hendi hins nýja harðstjórnarvalds, melludólganna sem selja ungar konur í kynlífsþrælkun og græða á tá og fingri. Sofi Oksanen sýnir með sannfærandi hætti í sögu sinni að á þessu tvenns konar ógnarvaldi er bitamunur en ekki fjár, enda er í mörgum tilvikum um sömu mennina að ræða í hlutverkum kúgaranna. Valdamestu mennirnir í mansalsbransanum sem rís upp í hinu nýfrjálsa Eistlandi eru flestir fyrrum áhrifamenn innan KGB.

Fundur kvennanna tveggja, Aliide og Zöru, verður hinni fyrrnefndu tilefni til að rifja upp fortíðina, og skáldsagan Hreinsun er sögð með sífelldu flakki fram og aftur í tíma. Þessi vandmeðfarna frásagnaraðferð leikur í höndunum á Sofi Oksanen, enda varpa tímasviðin tvö ljósi hvort á annað og stigvaxandi afhjúpun þess sem gerðist í fortíðinni breytir mynd lesandans af því sem gerist í samtímanum. Saga Eistlands á tuttugustu öld birtist hér í öllum sínum hrikaleik og segja má að sagan af Aliide Truu sýni kjarnann í þeim hörmungum. Um það leyti sem seinni heimsstyrjöldin braust út var Eistland innlimað í Sovétríkin og næstu árin á eftir gekk stjórnin í Kreml mjög harkalega fram í að aðlaga landið rússneskum siðum. Talið er að fyrsta árið sem Eistland var undir stjórn Sovétríkjanna hafi um sextíu þúsund manns verið myrt eða flutt úr landi, til fangavistar í Síberíu eða á aðra óhuggulega staði. Af þessum atburðum dregur skáldsaga Sofi Oksanen nafn sitt, Hreinsun. Amma og móðir Zöru tilheyra þeim stóra hópi fólks sem er hreinsað burt úr Eistlandi, þær hefja nýtt líf í Vladivostok, og þar fæðist Zara. Zara á sem sagt rætur að rekja til Eistlands, og eftir því sem hún kynnist Aliide Truu betur kemst hún að sífellt meiru um fortíð sinnar eigin ættar. Gamla konan er nefnilega ekki öll þar sem hún er séð, þegar hreinsanir Stalínstímans stóðu sem hæst gekkst hún kúgunaröflunum á hönd því hún var drifin áfram af afbrýðisemi; maðurinn sem hún elskar er eftirlýstur af yfirvaldinu fyrir samvinnu við þýskt innrásarlið í stríðinu og Aliide Truu beitir allri sinni útsjónarsemi til að beina sjónum leyniþjónustunnar að konunni sem hann giftist. Hún er algjörlega fangin af óraunsæjum draumum um eðlilegt fjölskyldulíf með þessum manni. Ævi Aliide Truu endurspeglar þannig sögu Eistlands eftir seinna stríð, saga hennar er míkrokosmos sem kristallar makrókosmos.

Hreinsun eftir Sofi Oksanen er mikil örlagasaga, saga eistnesku þjóðarinnar andspænis ógnum í fortíð og nútíð, og vitnisburður um það hvernig varhugaverð hreyfiöfl mannkynssögu og stjórnmála hverfa ekki, heldur breyta einungis um mynd, ef þau eru ekki gerð upp á sannfærandi hátt. Sofi Oksanen tilheyrir nýrri kynslóð evrópskra rithöfunda sem hefur fengið það hlutverk að takast á við mestu sögulegu umskipti síðari ára, það er að segja fall Sovétríkjanna og afleiðingar þess. Skáldsagan Hreinsun er vitanlega ekkert einsdæmi í þessum flokki, fyrir þremur árum fengum við Íslendingar t.d. prýðilega þýðingu Bjarna Jónssonar á annarri svona eftir-sovét-skáldsögu, Hermaður gerir við grammófón eftir Sasa Stanisic, sem gerist í Bosníustríðinu 1992. Að mínu mati er þó óhætt að fullyrða að Hreinsun eftir Sofi Oksanen tekur þeirri bók fram, ef eitthvað er; hér er mikið lagt undir og lítið um feilspor, að undanskildum örlítilli melódramatík í lokin. Þessi bók er sannarlega einn ánægjulegasti viðburðurinn í íslenskum bókmenntaþýðingum þetta árið.

(Víðsjá, 21. október 2010)