Posts tagged: Franskar bókmenntir

Chrétien de Troyes: Percevals saga

Hjalti Ægisson, apríl 14, 2011

Þegar Hegel var búinn að hvíla í gröfinni í eitt ár sat Baldvin Einarsson við skrifborð í Kaupmannahöfn, dró andann djúpt og skrifaði orðið „tíðarandi“, fyrstur Íslendinga. Síðan þá höfum við verið að velta honum fyrir okkur, þessu ólíkindafyrirbæri, tíðarandanum. Tíðarandinn er viðsjárverður, enginn veit alveg í hverju hann felst eða hvar hann er að finna, en samt teljum við okkur þekkja hann þegar við sjáum hann. Þegar skáldið talar til lesandans tölum við um að það „skynji tíðarandann“, eða eitthvað í þeim dúr; við viljum að skáldin svari spurningunni: Hver erum við og hvað erum við að gera hér? En það er hætt við því að fáir hafi erindi sem erfiði, sá sem leggur sig ákaft og meðvitað fram um að koma tíðarandanum til skila í ljóði gæti átt það á hættu að skjóta yfir markið; núið er svo rækilega klemmt á milli fortíðar og framtíðar, milli vonbrigðanna og vonarinnar, að það sést varla. Þess vegna hafa skáldin tilhneigingu til þess að leita aðstoðar hjá kollegum sínum, skrifa gömul ljóð upp á nýtt; þau hugsa með sér að kannski sé tíðarandann einmitt þar að finna, í fortíðinni, jafn þversagnarkennt og það hljómar; rannsóknir sýna nefnilega að það er eitthvað til í klisjunni um endurtekninguna eilífu. Hið nýja getur þess vegna verið mjög gamalt, til dæmis átta hundruð ára.

Núna um daginn gerðust þau merku tíðindi að út kom á íslensku bók, sem heitir Perceval eða Sagan um gralinn. Um er að ræða verk sem var skrifað á fornfrönsku einhvern tímann seint á tólftu öld af manni sem hét Chrétien de Troyes; um höfundinn er lítið vitað og verkið sjálft er engu minni ráðgáta. Það var Ásdís Rósa Magnúsdóttir sem þýddi þessa merkisbók á íslensku og ritaði auk þess greinargóðan formála. Ásdís var að vísu ekki fyrst til að fá hugmyndina, því einhvern tímann fyrir mörghundruð árum var skrifuð saga á íslensku sem var kölluð Percevals saga. Þar er um þýðingu sama verks að ræða, en gamla þýðingin er mjög stílfærð, og töluvert stytt í þokkabót. Nú fáum við loksins að lesa allt verkið í nákvæmri, íslenskri þýðingu, sem er sannkallað fagnaðarefni.

Perceval eða Sagan um gralinn er frásögn um ungan mann sem leggur af stað út í heim til að gerast riddari, þrátt fyrir mótbárur móður sinnar, sem vill með öllum ráðum forða drengnum frá því að lenda í slíkum ævintýrum. Móðurinni verður svo mikið um á kveðjustundinni að hún hnígur niður á dyrahellunni; stráksi hvetur hestinn sinn áfram og hirðir ekki um að gæta að móðurinni, en tilhugsunin um yfirliðið situr sífellt í honum. Loks ákveður hann að fara heim aftur til að gá hvort ekki sé allt í lagi með móður hans. Á leiðinni mætir hann tveimur mönnum sem sitja í báti úti á vatni og veiða fisk. Annar þeirra er Fiskikóngurinn, sá særði leiðtogi, sem er fótlama og getur hvorki setið hest né barist í orustu. Drengnum er boðið í veislu í höll Fiskikóngsins þar sem mikill og fagur borðbúnaður er borinn fram. Daginn eftir er drengurinn einn í höllinni, allir íbúarnir virðast horfnir, svo hann heldur sína leið. Niðurlag sögunnar er dálítið óljóst, það er næstum öruggt að höfundurinn hefur dáið frá verkinu og því ekki náð að leiða það til lykta. Efniviðurinn hitti þó svo sannarlega í mark, því a.m.k. fjórir aðrir miðaldahöfundar tóku upp þráðinn þar sem Chrétien sleppti honum og bjuggu til framhald á söguna. Einn þeirra var Robert de Boron, sem lagði alveg sérstaka merkingu í einn diskinn sem var borinn fram í veislu Fiskikóngsins hjá Chrétien. Robert breytti disknum reyndar í bikar, og þannig varð til goðsögnin um hinn heilaga gral. Trúarlegt vægi sagnaefnisins jókst þannig smám saman, og sennilega hafa lesendur í lok tólftu aldar þóst sjá tíðarandann í þessum sagnaheimi; verk Chrétiens lýsir flóknum siðferðisspurningum, og þótt sagan sé einföld gefur hún sífellt tilefni til nýrra vangaveltna.

Um það leyti sem Chrétien lést frá sínu ókláraða verki misstu kristnir menn landið helga í hendur múslima, og í kjölfarið rúllaði þriðja krossferðin í gang. Einhverjir vildu túlka gralinn sem uppbót fyrir þennan missi, sem sýnir hversu mikill vilji var fyrir hendi til að láta hið brotakennda verk Chrétiens ganga upp. Það er eins og þessi saga hrópi á túlkanir, viðbætur og framhaldsskrif, enda hefur hún verið í endursköpun allar götur síðan. Sennilega er það bara tímaspursmál hvenær íslenska bókmenntasamfélagið tekur við sér og framleiðir afurð sem er innblásin af sögunni, í því skyni að lýsa tíðarandanum, því Sagan um gralinn hefur sjaldan verið eins aðkallandi og nú, allténd í efnahagslegu samhengi – ekki satt? Þegar T.S. Eliot tók að sér að lýsa ástandinu í Evrópu eftir fyrri heimsstyrjöld naut hann góðs af því að þekkja söguna um Fiskikónginn. Útkoman úr þeim lestri var Eyðilandið, viðbragð við hruninni heimsmynd og enn eitt dæmið um það hvernig efniviður Chrétien de Troyes gefur skáldum færi á að yrkja tíðarandaljóð. Samkvæmt hefðinni er Fiskikóngurinn særður og því ríkir eilíf auðn í ríki hans, grösin vaxa ekki og engir ávextir spretta á trjánum. Í raun á hvaða íslenskt skáld sem er leikinn og ætti að skella upp taflinu sem fyrst; ef útgáfa íslenskrar þýðingar á Sögunni um gralinn er ekki tilefni til þess að bera brotin að rústunum, þá bara veit ég ekki hvað. Ef eitthvert skáld er að hlusta vil ég bara taka það fram í lokin, til að fyrirbyggja allan misskilning, að það er hverjum sem er frjálst að stela hugmyndinni, ég óska góðs gengis og lofa að reyna að mæta á Bessastaði þegar þér verða afhent íslensku bókmenntaverðlaunin.

(Víðsjá, 20. janúar 2010)