Posts tagged: Íslensk ljóð

Anton Helgi Jónsson: Ljóð af ættarmóti

Hjalti Ægisson, apríl 14, 2011

„Það er sorg mín og hamingja / að hjartsláttur lífsins / heldur fyrir mér vöku.“ Þessar ljóðlínur Einars Braga eru einkunnarorð fyrstu ljóðabókar Antons Helga Jónssonar, Undir regnboga, sem kom út 1974. Höfundurinn var þá ekki nema nítján ára og skilgetið afkvæmi ljósritunarbyltingarinnar sem varð gríðarleg innspýting í íslenska ljóðaútgáfu á áttunda áratugnum. „Þetta er miklu auðveldara viðfangs en áður, eftir að framfarir urðu í fjölritun“, sagði Anton Helgi í viðtali við Þjóðviljann, skömmu eftir að bókin kom út: „Þetta verður ekki svo mikið fyrirtæki að nokkur fari á hausinn þess vegna.“ Fáir tóku eftir þessu æskuverki Antons Helga, enda er það ekki sérstaklega rismikið, fyrst og fremst eru þetta naíf ástarljóð, og gott ef það er ekki talað um „varir stúlkunnar minnar“ í einhverju ljóðinu.  Jóhann Hjálmarsson skrifaði ritdóm í Morgunblaðið og taldi að hér væri „ekkert sprengiefni á ferðinni heldur hófstilling, sem bendir til þess að Anton Helgi leggi meira upp úr því að vanda sig en berja bumbur að ungra manna hætti.“

Það var næsta bók Antons Helga sem kom honum á kortið, Dropi úr síðustu skúr, útgefin 1979. Sú ljóðabók er dæmigert afsprengi tímans, í henni er leitast við að miðla talmáli og stemmningu, eins og Eysteinn Þorvaldsson benti á í umfjöllun sinni um verkið. Að mati Eysteins var þessi bók til marks um íroníu, myndvísi og nýstárlega málnotkun: „Anton Helgi Jónsson tekur þátt í þeirri endurnýjun ljóðmálsins sem ung skáld hafa ástundað hin seinni árin. Orð og stílblær hins mælta máls á líðandi stund eru gerð gjaldgeng í ljóði um leið og öllum hátíðleika og upphafningu er vikið burt. Án slíkrar endurnýjunar hættir ljóðlistinni til að staðna.“ Í Dropa úr síðustu skúr tókst Antoni Helga að finna fjölina sína, upp frá því hafa ljóðin hans verið samfelld könnun á duttlungum hversdagslífsins, oftast undir kómískum formerkjum. Með góðum vilja mætti jafnvel segja að einkunnarorðin sem hann fékk að láni hjá Einari Braga og prentaði fremst í fyrstu bók sína, geti virkað sem einkunnarorð höfundarverksins alls: „Það er sorg mín og hamingja / að hjartsláttur lífsins / heldur fyrir mér vöku.“ Hjartsláttur lífsins væri þá höfuðviðfangsefni Antons Helga Jónssonar; það er ekki slæmt orðalag, þótt það sé óþarflega háfleygt í samanburði við málnotkun ljóðanna sjálfra.

Í nýjasta bók Antons Helga, Ljóð af ættarmóti, hljóma alls konar raddir. Titill bókarinnar er reyndar dálítið villandi, hann gefur til kynna að raddirnar séu fólki sem hittist á ættarmóti, en hið ytra samhengi skiptir ekki alltaf höfuðmáli, að því er virðist. Í hverju ljóði er búin til einhver persóna, stundum fleiri en ein, hlutverk okkar lesenda er að búa persónurnar til út frá upplýsingunum sem okkur eru gefnar, og stundum verður ekki með góðu móti séð að ættarmót sé staðurinn þar sem röddin hljómar. Mannamót eru þó einn af rauðu þráðunum í þessu verki, mörg ljóðin fjalla um geggjunina sem blundar alltaf undir niðri í hversdagslegum samtölum fólks, ekki síst fólks sem hittist sjaldan, og kannski eingöngu vegna þess að aðstæður eða samfélagslegar væntingar kalla á þau samskipti.

Ljóð af ættarmóti er svolítið eins og Spoon River Anthology, ljóðabók bandaríska skáldsins Edgar Lee Masters frá 1915. Magnús Ásgeirsson þýddi nokkur ljóð úr þeirri bók á íslensku og kallaði „Úr kirkjugarðinum í Skeiðarárþorpi“. Í þessari bók hljóma raddir úr kirkjugarðinum, látið fólk talar, íbúar í smábænum Spoon River minnast ævi sinnar og bókin í heild dregur upp víða mynd af þessu litla þorpi. Ef Ljóð af ættarmóti dregur upp einhverja slíka heildarmynd, væri mér skapi næst að nota frasann „íslenskt samfélag“, ef hann væri ekki löngu orðinn útþvæld klisja. „Hjartsláttur lífsins“ væri þá kannski ögn betra. Og víst er um það, að margir hafa gert eitthvað svipað áður, ekki bara í ljóðum heldur óteljandi leikritum, gamanþáttum, áramótaskaupum, uppistandskvöldum og þar fram eftir götunum; sjálfsskoðun þjóðar mætti jafnvel kalla helstu bókmenntagrein síðustu þrjátíu ára hér á landi, hvert svo sem tjáningarformið er, og vitanlega hafa ekki allir erindi sem erfiði þegar þeir taka sér fyrir hendur að útskýra og skilgreina þjóðarkarakter á gamansaman hátt. En trúið mér: Anton Helgi Jónsson er búinn að vera í bransanum lengur en flestir aðrir og þessi nýja ljóðabók hans hittir beint í mark, aftur og aftur. Paródía er nefnilega vandmeðfarið form, og yfirleitt ekki áhrifarík, sé gefið of hressilega í. Skopstældar raddir er reyndar að finna í bókarkorni sem Anton Helgi gaf út 2006, Hálfgerðir englar og allur fjandinn, en hugsunin missir einhvern veginn marks í því verki, bæði vegna umbrotsins sem virðist vera aðalmálið, og limruformsins sem er ríkjandi frá upphafi til enda. Ljóð af ættarmóti eru óbundin, en þó ekki formlaus, sum eru hraður og hrynjandi djass, þar sem endurtekningu einstakra orða er beitt markvisst til að ná fram einhverri firringarvídd í tungumálinu, þessum rækilega forritaða hugbúnaði sem á það til að taka stjórnina af okkur þegar við reynum að hugsa um veruleikann. Þetta eru því sérlega flutningsvæn ljóð, það er mikil músík í Ljóðum af ættarmóti og hrífandi ryþmi þótt formið sé opið og frjálst.

Hlutverk lesandans er, sem sagt, að skapa persónur fyrir raddirnar sem hér hljóma. Það er stundum auðvelt, stundum ferlega flókið, en í því felst galdur bókarinnar, hún er síður en svo fullafgreidd við fyrsta lestur þótt hún sé afskaplega aðgengileg. Húmorinn sem einkennir þessi ljóð er þvottekta, einmitt vegna undiröldunnar, það er alltaf einhver fundur í fyndninni hjá Antoni Helga. Sjálfur er ég enginn sérstakur ljóðaupplesari, en ég hef prófað nokkrum sinnum að lesa upp úr þessari bók fyrir aðra og viðbrögðin eru alltaf þau sömu: Fólk springur úr hlátri. Anton Helgi Jónsson hefur lengi kunnað að koma fólki til að hlæja með ljóðum sínum, oft með stríðnina að vopni. Hvað er það t.d. annað en snilldarlegur brandari að gefa út bók sem heitir Ljóðaþýðingar úr belgísku, eins og hann gerði árið 1991? Á kápunni stendur: „Anton Helgi Jónsson valdi og bjó til prentunar.“

Ljóð af ættarmóti ber vott um mikla næmi á mannlífið, raddirnar eru kunnuglegar og við þekkjum týpurnar, stundum úr fari okkar sjálfra. Þessi bók er sannkallaður skemmtilestur, vel heppnuð karakterstúdía, kærkomin áminning um að skemmtigildi þarf ekki að felast í stælum, tæknibrellum eða sjálfsniðurlægingu. Einlæg og einföld fyndni er áhrifaríkust, og þann galdur fremur Anton Helgi Jónsson af fullkominni fagmennsku.

(Víðsjá, 17. febrúar 2011)

Bjarni Gunnarsson: Moldarauki

Hjalti Ægisson, apríl 14, 2011

Í dag kenni ég dauðann,

einsog sjúkur kennir bata,

sá er upp skal af stráum standa.

Í dag kenni ég dauðann,

einsog angan af myrru,

þegar undir seglum er setið í stormi.

Þannig þýddi Helgi Hálfdanarson kvæði sem óþekktur höfundur orti um dauðann einhvern tímann á skeiði egypska miðríkisins. Frá því að þetta kvæði var ort eru liðin fjögur þúsund ár, eða þar um bil. Dauðinn hefur sem sagt fylgt ljóðlistinni frá upphafi; hann er „allra ljóðrænasta viðfangsefnið“, eins og Edgar Allan Poe orðaði það. Á meðan einhver enn þá fæst við að yrkja ljóð má telja víst að dauðinn fái þar sinn skerf af athygli. Mörg af þekktustu ljóðum íslenskra bókmennta fjalla um dauðann; Hávamál, Sólarljóð, Sonatorrek, Allt eins og blómstrið eina, Alsnjóa, og svo mætti lengi telja. Að ímynda sér ljóðlist án dauða er einhvers konar fjarstæða, og á undanförnum árum hefur dauðinn verið mörgum íslenskum skáldum hugleikinn. Sigfús Daðason og Ísak Harðarson ortu um dauðann með kaldhæðni og yfirlæti að vopni, aðrir yrkja til að takast á við missi; ég nefni ljóðabækurnar Hjartaborg eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson og Að jörðu eftir Ásu Marín Hrafnsdóttur. Sumir yrkja um yfirvofandi dauða, líkt og Gylfi Gröndal gerði í sinni síðustu ljóðabók, Eitt vor enn, þar sem hann lýsir baráttu við krabbamein. „Ég ákvað að yrkja mig [...] frá þessu öllu saman,“ sagði Gylfi í viðtali við Sigríði Víðis Jónsdóttur um það leyti sem bókin kom út; „Menn gera það gjarnan, að skrifa sig frá hlutunum. Það er kannski kjarninn í ljóðlistinni. Þá er fólk að sigrast á einhverju.“ En ljóðrænar birtingarmyndir feigðarinnar geta verið margvíslegar; tveimur árum eftir að bók Gylfa var gefin út sendi Árni Ibsen frá sér ljóðabókina Á stöku stað með einnota myndavél, bókina sem varð hans síðasta verk. Árni hafði áður ort ljóð um dauðann, til að mynda í ljóðabókinni Vort skarða líf árið 1990, en í þessari síðustu bók er næstum aldrei minnst á dauðann; ljóðin í henni eru svipmyndir úr ferðalögum, minningar um borgir og áfangastaði, forvitni og lífsgleði. Á baksíðu bókarinnar stendur: „Flest ljóðin eru ort 2006 þegar ég vissi að ég myndi ekki ferðast framar.“

Bjarni Gunnarsson fjallar um dauðann í ljóðabókinni Moldarauki sem kom út nú fyrir jólin. Þetta er þriðja ljóðabók Bjarna og hún myndar eiginlega sláandi andstæðu við næstu bók á undan, Blóm handa pabba, sem kom út 2007. Sú bók einkennist af bjartsýni og fögnuði yfir hversdagslífinu, sólskinið og ástin ráða ríkjum; undarlegur ógnarkraftur knýr skáldið að ryksugunni og „uppvaskið /verður eins og ný dögun“. Í Moldarauka er eitthvað allt annað á ferðinni. Kápumyndir bókanna tveggja gefa tóninn fyrir þessa togstreitu; skærgulur fífill á þeirri fyrri en dökkar og kuldalegar hríslur á þeirri seinni. Orðið „moldarauki“ er útskýrt fremst í bókinni með tilvitnun í rúnakvæði eftir óþekktan höfund frá 12. öld: „Maður er moldar auki/mikil er greip á hauki.“ Hér er sem sagt um að ræða kenningu fyrir manninn, sem er smættaður niður í holdið eitt, hinn efnislega líkama sem bíður þess eins að rotna og bætast við moldina sem fyrir er í jörðinni; hugsunin er næstum því jafn nístandi og orðið „maðkaveita“ sem var í sérstöku uppáhaldi hjá Jóni Magnússyni þumlungi, en hann notar það iðulega um eigin líkama í Píslarsögu sinni.

Moldarauki Bjarna Gunnarssonar er ljóðabálkur eða samfelld frásögn um mann sem heyr baráttu við sjúkdóm, krabbamein að því er virðist. Ekki er þó allt sem sýnist, því það sem virðist vera ein flæðandi heild er bútað niður með titlum í efnisyfirliti aftast í bókinni. Þar með verður lesandanum ljóst að ljóðin á hverri síðu geta líka staðið sem sjálfstæð heild; við annan og þriðja lestur er því hætt við því að bókin orki öðruvísi á okkur en í þeim fyrsta. Ljóðmælandinn dvelur á sjúkrahúsi stóran hluta bókarinnar, horfir út um gluggann og sér snjóinn falla, ræðir við hjúkkurnar, drekkur kaffi, flettir glansblöðum. Þessar lýsingar á sjúkrahússvistinni eru svo brotnar upp reglulega með myndum af öðru frásagnarsviði, lýsingum af veiðimönnum sem sækja að bjarndýri og einhvern veginn rennur þetta síðan saman; sjúklingurinn líkir sjálfum sér við bjarndýr og kannski er sú hugmynd viðbragð hans við veikindunum.

Biðin eftir úrskurði læknisins er mörkuð einhverri heift, sem kannski er dæmigert viðbragð þeirra sem finna fyrir návist dauðans, eða allténd partur af tilfinningalegu ferli: Láttu mig hafa krabba [...] Mig langar í alvöru æxli/gráðugar frumur/svartar af bræði/sem éta mig innanfrá./Fylltu mig meinvörpum svo hnífarnir geti unnið/sitt þakkláta verk.“ Vantrú á mátt orðanna fylgir þessu hugarástandi, þau duga skammt til að skera burt meinið. Sömu hugsun orðaði Bjarni undir jákvæðum formerkjum í Blómum handa pabba, þar sem hann fjallaði um máttleysi tungumálsins andspænis ægivaldi ástarinnar. Í þriðja og síðasta hluta bókarinnar er ljóðmælandinn ofurléttur og útskrifaður. Veiðimyndmálið verður ráðandi í niðurlagi verksins og hin fantastíska vídd tekur völdin. Það er einn helsti styrkur þessarar bókar hversu opin hún er, engir siðferðilegir lærdómar eru dregnir um gildi veikinda eða lífsbaráttu, enda vandkvæðum háð að gera slíkt með sannfærandi hætti. Bjarni Gunnarsson lætur duga að draga upp áhrifaríkar myndir, úrvinnsla og endanleg merking eru svo eftirlátin lesandanum sjálfum.

(Víðsjá, 10. febrúar 2011)

Bergur Ebbi Benediktsson: Tími hnyttninnar er liðinn / Þórdís Gísladóttir: Leyndarmál annarra

Hjalti Ægisson, nóvember 4, 2010

Franski hugsuðurinn Roland Barthes sagði einu sinni að höfundur væri ekki orðinn til fyrr en hann hefði skrifað að minnsta kosti tvær bækur. Sá sem skrifar eina bók og ekki meir, hann er ekki höfundur. Það þarf tvær bækur, eða fleiri, til að hægt sé að tala um höfundarverk; þá er hægt að sjá hvernig tengslin á milli textanna endurspegla þann skapandi huga sem býr að baki. Kannski er þetta ástæðan fyrir því að mörgum finnst erfiðast að skrifa bók númer tvö, því það er með henni sem höfundurinn verður að höfundi, hún er prófsteinn á þær væntingar sem fyrsta bókin gat af sér. Að þessu sinni hef ég ákveðið að fjalla um tvær bækur í einu, en þær eiga það sameiginlegt að vera fyrstu bækur höfunda (eða ekki-höfunda, sé gengist inn á forsendur Roland Barthes, en jæja, flækjum ekki málið, nóg er nú samt).

Fyrri bókin kom út í vor og hefur hugmyndaríkan titil, sem gæti næstum því verið þýddur titill á lagi með Morrissey: Tími hnyttninnar er liðinn. Bergur Ebbi Benediktsson teflir hér fram bálki fjórtán ljóða sem eru útleitin og býsna löng, sum of löng, liggur mér við að segja, hið lengsta er sjö blaðsíður, sem væri auðvitað gott ef magn og gæði væru sami hluturinn. Vitanlega stendur þetta tvennt þó ekki í öfugu hlutfalli hvort við annað, og romsurnar hans Bergs Ebba eru alls ekki leiðinlegar aflestrar. Á bókarkápu er okkur lofað að þetta séu „ljóð fyrir okkar tíma“, hvað sem það nú þýðir, kannski er hugmyndin að þessi ljóð séu lýsandi fyrir samtímann, tilraun til að fanga tíðaranda. Í fljótu bragði sýnist mér þó að grunnhugsunin að baki þeim flestum sé einmitt allt önnur, það vofir einhver einkennileg nostalgía yfir þessari bók, veruleikaflótti, draumur um afturhvarf til rökréttrar heimsmyndar, óorðuð andúð á afstæði og fjölhyggju samtímans. Hér er talað um „stríðsárafaðmlög“, „seinniheimsstyrjaldarsprengjur“, samloku á „diski sem minnir á fjórða áratuginn“. Saga tuttugustu aldarinnar (a.m.k. fram til 1950) orkar eins og allsherjar mælikvarði í þeirri heimssýn sem hér er brugðið upp, grundvöllur líkinga og tilfinningalegrar samsömunar, svipað og náttúran í ljóðum rómantískra skálda á 19. öld. Og þó eru þetta ekki söguleg ljóð. Bergur Ebbi hefur töluverða reynslu af því að skrifa blaðagreinar og kjallarapistla, og honum tekst einhvern veginn ekki alveg að losa sig úr því hlutverki hér. Sennilega er það of fast að orði kveðið að tala um „prédikunartón“ í þessu samhengi, en tónn álitsgjafans er að minnsta kosti ríkjandi í sumum ljóðum, hér er ályktað og alhæft um tíðarandann og einkenni samtímans í fyrstu persónu fleirtölu, „við“ erum svona eða hinsegin, fullyrðir skáldið; við erum

Með hjörtun full af ótta

Með hjörtun full af kvíða

Yfir því að vera ekki nógu snjöll

Nógu hnyttin, nógu sniðug

Nógu öðruvísi en þó nógu venjuleg

Það er eins og höfundurinn sé þrátt fyrir allt meðvitaður um þessi þrætubókareinkenni ljóða sinna og reyni að slæva þau með endurteknu stefi, sem er ávarpið „stúlkan mín“. Þannig er reynt að skapa þá tilfinningu að hér sé ekki verið að tala til okkar lesenda, ekki verið að bera fram neinn boðskap á markaðstorgi hugmyndanna, heldur séum við eingöngu þögul vitni að því þegar skáldið talar við stúlkuna sína – hvort hún er dóttir, frænka eða ástkona er ekki alveg ljóst. Þessi listræna blekking er dálítið klaufaleg í meðförum Bergs Ebba, eða álíka þunglamaleg og málnotkunin í víðum skilningi, en hún er ansi langt frá því að vera áreynslulaus. Áhrif úr ensku eru sums staðar áberandi í orðalagi, ekki bara í þeim skilningi að sérhver ljóðlína sé látin byrja á stórum staf, heldur líka á stöðum eins og þeim þar sem talað er um takt sem „skilur þig eftir með eigin hugsunum“. En allt um það, þá er óþarfi að varpa þessari bók í flýti frá sér, kannski verður gaman að lesa hana einhvern tímann seinna, til dæmis eftir tíu ár þegar plöggið í kringum hana verður gleymt og við orðin dómbærari á það hvort hér sé frambærilegur höfundur á ferðinni; um það er einfaldlega ekkert hægt að segja enn þá.

Það er ekki víst að Þórdís Gísladóttir myndi samþykkja þá fullyrðingu Bergs Ebba Benediktssonar að tími hnyttninnar sé liðinn; ef marka má ljóðin í ljóðabókinni Leyndarmál annarra, sem kom út nú á dögunum, er tími hnyttninnar þvert á móti enn í fullu gildi. Hnyttni, spaug og kaldhæðni eru aðalsmerki þessarar bókar sem er ekki nema 34 síður að lengd, og hefði að ósekju mátt vera miklu lengri. Leyndarmál annarra markar engin tímamót að því leyti að hún staðfestir það sem við vissum fyrir um skopstælingu og kaldhæðni sem helstu vopn kvenskálda. Þórdís er mikill mannþekkjari og ljóðmælendur hennar fjalla yfirleitt ekki um sjálfa sig nema til að bregðast við einhverju atviki sem þeir lenda í eða persónum sem verða á vegi þeirra. Þau ljóð bókarinnar sem hafa ljóðmælandann sjálfan í forgrunni eru undir íronískum formerkjum, til dæmis ljóðin „Glamúrskortur“ og „Félagslegt raunsæi“, sem eru bæði spunnin út frá nútímalegum staðalímyndum um konur, hið síðarnefnda endar meira að segja á þvottekta, rómantísku háði þar sem minnt er á geðveikina sem blundar undir efnishyggju og velmegunarlífi. Það er því greinilega vanur ljóðalesandi sem hér situr við lyklaborðið, á öðrum stað er okkur boðið upp á nútímalegan útúrsnúning á tæplega þrjátíu ára gömlu ljóði eftir Stefán Hörð Grímsson. Mestmegnis eru þessi ljóð þó karakterstúdíur í formi stuttra atriða, jafnvel leikþátta, atvik úr hversdagslífinu sem bregða ljósi á kunnuglegar týpur úr íslenskum samtíma: Leikskólakennarar og ljósmæður sem sýna ráðdeild í fjármálum, hjón sem búa við botnlangagötu í Grafarvoginum, þunnhærður karlmaður í blokkaríbúð sem drekkur Bónuskaffi og „horfir annars hugar á plattann með æðruleysisbæninni“.

Þórdís Gísladóttir nálgast viðfangsefni sín fyrst og fremst sem áhorfandi, ljóðin í þessari fyrstu bók hennar eru frumlegar hugleiðingar sem kvikna af ofurvenjulegum atburðum; kannski mætti tala um „bloggljóð“ í þessu sambandi. Líkt og titill bókarinnar gefur til kynna er leitast við að skyggnast undir yfirborðið í lífi ókunnugs fólks með ímyndunaraflið að vopni. Þórdísi ferst þetta verk vel úr hendi, hún er ekki örvæntingarfull eða vonsvikin eins og gluggagægirinn sem Purrkur Pillnikk söng um, heldur húmoristi og húmanisti í senn, skrásetjari einhvers sem er til, ekki bara í hugskoti hennar sjálfrar, heldur allt í kringum okkur. Það er notalegt að hlæja með Þórdísi í þessari bók, og kannski fáum við að njóta þess aftur ef bækurnar verða fleiri.

(Víðsjá, 4. nóvember 2010)

Ingunn Snædal: Í fjarveru trjáa

Hjalti Ægisson, ágúst 11, 2010

Í byrjun árs 1976 söfnuðust milli 1100 og 1200 manns saman í Háskólabíó og troðfylltu sal eitt, ekki til að mótmæla verðbólgunni sem þó var rúmlega 40% um þetta leyti, heldur til þess að hlusta á skáld lesa ljóð. Það voru listaskáldin vondu sem héldu uppi fjörinu, þessi sundurleiti hópur sem stundum var kallaður „fyndna kynslóðin“. Á þessum árum urðu vatnaskil í íslenskri ljóðagerð; flest skáld sem hafa náð einhverri fjöldahylli á þeim tíma sem síðan er liðinn hafa annað hvort tilheyrt þessum skáldahópi eða beitt svipuðum aðferðum og þau. Jafnvel þau ljóðskáld sem hafa snúist gegn listaskáldunum vondu á beinskeyttan hátt (og hér er Kristín Svava Tómasdóttir nærtækt dæmi) hafa gert það með vopnum þeirra sjálfra: Usla, íróníu og útúrsnúningi.

Ljóðskáldið Ingunn Snædal er skilgetið afkvæmi fyndnu kynslóðarinnar; innkoma hennar á ljóðasviðið er ekki til marks um neina róttæka breytingu á því sem þar hefur verið ríkjandi að undanförnu. En ljóð hennar eiga ekki minna erindi fyrir vikið; raunar á skemmtilegur og heiðarlegur skáldskapur alltaf erindi, og ef lýsa ætti ljóðum Ingunnar Snædal í tveimur orðum væri líklega best að nota þessi tvö orð: Skemmtileg og heiðarleg. Þriðja og nýjasta bók Ingunnar, Í fjarveru trjáa, kom út fyrr á þessu ári og í henni ferðast skáldið hringveginn, frá Seyðisfirði til Vöðlavíkur. Látum okkur ekki detta í hug að hér sé vísvitandi verið að keyra öfugan hring miðað við Jón Helgason í „Áföngum“ og snúa þannig kæruleysislega upp á menningararfinn. Sú atlaga var reyndar gerð fyrir tæpum þrjátíu árum í þeirri stórsnjöllu ljóðabók Dropi úr síðustu skúr eftir Anton Helga Jónsson, en ljóðaflokkurinn „Farsælda Frón“ sem þar er að finna er að mörgu leyti forspá um ljóð Ingunnar Snædal. Staðreyndin er auðvitað sú að hringvegurinn er það form sem margir ferðalangar, bæði innfæddir og erlendir, nota til að kynnast Íslandi, og því er hægt að segja að Ingunn velji sér „eðlilega“ nálgun.

Það sem gerir landslagið aðlaðandi í meðförum Ingunnar í þessari ljóðabók er sá einlægi skortur á upphafningu sem er allsráðandi. Hér er ekkert heilagt við landslagið; maður bara skellir sér til sunds í hólmanum, pissar í grasið, skellir lambasneiðunum á grillið. Það er ekkert ógnvekjandi eða hættulegt við landslagið, enda bíllinn hlýr og þægilegur og nóg af góðum diskum til að setja í spilarann. En ferðalangurinn er sér meðvitaður um að þessi þægindi eru ekki sjálfgefin. Þau sannindi eru ákvörðuð með samanburði á tímaskeiðum, t.d. við Lindahraun þar sem hugurinn hvarflar til Fjalla-Eyvindar:

til að skilja
aðeins örlítið
þyrfti að koma að vetrarlagi
ganga hrasandi yfir öræfin
illa klædd berfætt í vondum skóm
marin blá ísköld rifin
skítug í rimpuðum fötum
með galtómt kælibox
gemsalaus

Nöfn á landslagi eru eitt af meginstefjum bókarinnar, en hugleiðingar um samspil þessara merkimiða og staðanna sem þeir merkja, eru algengar. Stundum er spunnin saga út frá örnefninu, líkt og í ljóðinu „Skessugarður“ þar sem leitað er til sögunnar um Búkollu eftir ímyndaðri útskýringu. Ísafjörður við Skutulsfjörð verður bær sem stendur við rangan fjörð, og það er ekki alveg á hreinu hvort gagnsæ og lýsandi staðanöfn á borð við Gil, Mýrar og Fell eru

snilldarlegur einfaldleiki
eða átakanleg hugmyndafæð?

En ferðalýsingarnar í Í fjarveru trjáa fela líka í sér mannlýsingu, því ljóðmælandinn sjálfur er a.m.k. jafnáberandi og landið. Í því samhengi skiptir nokkru máli að ferðamyndirnar eru ekki allar frá sama tímaskeiði og sú sem talar því á ýmsum aldri; á Hvammstanga er hún ung, óreynd og ástfangin og trúlofar sig með Cat Stevens í kassettutækinu, en norður á Ströndum er úti um sambandið – hún er löngu hætt að elska hann en verður samt bálreið þegar hún kemst að því að hann hefur haldið fram hjá henni. Við Vatnsdalshóla er svo einhver sátt sem ríkir, lífsreynsla, tilfinningalegt jafnvægi og börn í aftursætinu. Þannig erum við minnt á að mynd okkar af landinu er um leið mynd okkar af okkur sjálfum. Þessi hugmynd er gjarnan sett fram í formi hugleiðinga um möguleika landslagsins, og lesandinn fær á tilfinninguna að þeir möguleikar séu fyrst og fremst byggðir á reynslu:

ef einhver
kastar í þig trúlofunarhring
á klettunum við kirkjuna
og keyrir svo brjálaður
á brott
er gott að setjast fyrir framan
læstar kirkjudyrnar
og skæla góða stund

Samanburður við næstu bók Ingunnar á undan þessari, Guðlausir menn, leiðir í ljós að munurinn felst ekki síst í tímaskynjuninni. Í Guðlausum mönnum er aðeins eitt ferðalag, einn þráður sem gengur í gegnum allt verkið, en í Í fjarveru trjáa er tíminn meira á floti, ferðalögin eru fleiri; hversu mörg vitum við ekki. En ef finna ætti einhverja haldbæra útskýringu á vaxandi vinsældum Ingunnar Snædal sem ljóðskálds væri helst að nefna að hún bregður á leik með það kunnuglega í tilverunni, alveg eins og listaskáldin vondu gerðu á sínum tíma. Í ljóðinu „topptíu sólsetur“ er ekki eitt einasta sólsetur tilnefnt, því

allir
geta fundið
sitt eigið

og að sama skapi má segja að allir geti búið til sín eigin vegaljóð. Ingunn Snædal er búin að deila sínum með okkur, og hafi hún þökk fyrir. Í fjarveru trjáa er sniðug og notaleg hugleiðing um raungervingarferlið sem á sér stað þegar við ferðumst um landið og sjáum nöfnin á landakortinu lifna við.

(Víðsjá, 9. desember 2008)

Eiríkur Örn Norðdahl: Ú á fasismann

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

Ein áþreifanlegasta þversögnin við íslenskt málsamfélag er sú staðreynd að þótt aldrei hafi jafnmargir tjáð sig á ritaðri íslensku eins og nú hefur einsleitnin aldrei verið meiri. Við lifum í heimi skilaboða, og dagurinn er ein samfelld textarannsókn; frá dagblöðum á morgnana, um bloggsíður á daginn, til spjallþátta á kvöldin. Við aðstæður sem þessar er hætt við því að hugurinn sljóvgist og við verðum ónæmari fyrir klisjunum. Ekkert skal hér fullyrt um hvort bókmenntirnar græði á svona ástandi eða ekki, en þó má segja með nokkurri vissu að hingað til hafi þær ekki brugðist við því nógu oft, alla vega ekki á sérlega frumlegan eða áhrifaríkan hátt. Þess vegna var það bara tímaspursmál hvenær skáld eins og Eiríkur Örn Norðdahl kæmi fram; þegar maður les ljóðin hans spyr maður sig hvers vegna einhver annar skuli ekki vera löngu búinn að vinna verkið.

Nýjasta ljóðabók Eiríks Arnar, Ú á fasismann, er að sínu leyti framhald af ýmsu því sem sést hefur í fyrri bókum höfundar, en hér má segja að dirfskan sé færð upp um fjóra táknfræðilega gíra. Eiríkur Örn sækir í vopnabúr skálda sem komu fram erlendis á 6. áratugnum og brugðust við hugmyndum um kreppu í tengslunum milli orðanna og veruleikans. Menn vildu ólmir útiloka alla hefðbundna ljóðrænu og stefna að skilyrðislausum tærleika. „Við viljum ekki afmynda, við viljum mynda,“ var slagorð þessar skálda. Framlag þeirra var viðleitni til að frelsa orðin úr fjötrum viðtekinnar merkingar, en afraksturinn er kallaður einu orði konkretlist. Í konkretljóðum eru tvö svið sameinuð: Orðið og myndin. Orð eru nefnilega ekki bara tákn sem vísa á hugmyndir og raunveruleika, heldur eru þau líka gagnleg sem byggingareiningar í myndrænu sköpunarstarfi. Eiríkur Örn er vitanlega ekki fyrsta íslenska ljóðskáldið sem gerir sér mat úr þessu efni; hægt er að nefna sem dæmi tvær eldri ljóðabækur sem snúast um þetta að meira eða minna leyti: Tvíbreitt (svig)rúm eftir Gyrði Elíasson og Veggfóðraður óendanleiki eftir Ísak Harðarson. Báðar eru þær frá miðjum níunda áratugnum, þegar tölvueign var að verða almenn og hvers konar föndur með texta varð auðveldara viðureignar en á gömlu ritvélunum. Á sama hátt er Ú á fasismann afrakstur nýrra miðla, netsíðna, tölvupósts og fullkominna myndvinnsluforrita, og í verkinu er jafnvel vísað til sumra miðla beint á stöku stað. En hér er engin sjálfstýring í gangi; Eiríki Erni tekst að sökkva sér ofan í klisjurnar og spinna úr þeim vafninga sem eru í senn nýstárlegir og ágengir. Upp í hugann koma línur úr ljóði eftir Kristján Karlsson:

Úr rústum og rusli tímans

reisum vér kvæði vor undir dögun

Eiríkur Örn Norðdahl er flinkasti fúskarinn í hópi íslenskra samtímaskálda. Ljóðin hans eru smíðisgripir úr byggingarefni sem er ætlað til einhverra allt annarra nota, svona eins og fleki úr plastbrúsum, fataleppar úr skinnhandritum eða Macintosh-dolla sem er notuð sem tromma. Og þótt Ú á fasismann sé bullandi tilraunastarfsemi, a.m.k. í íslensku samhengi, þá má samt finna í henni tengsl við ljóðahefðina. Þau tengsl eru vitaskuld óhefðbundin; hér er t.d. samsuða úr öllum skrýtnustu hendingunum sem fyrirfinnast í kveðskap Æra-Tobba. Þjóðskáldin fá líka sinn skerf, t.d. listaskáldið góða í ljóðinu „Perlur úr ljóðaperlum Jónasar Hallgrímssonar“. Þar eru nokkrar handahófskenndar línur fengnar að láni úr kvæðum Jónasar og þær látnar mynda hringi; semsagt „ljóðaperlur“ í nýrri merkingu þess orðs.

En líkt og önnur framúrstefnuskáld hlýtur Eiríkur Örn Norðdahl fyrr eða síðar að þurfa að svara spurningunni um þýðingu ljóða sinna, ef hún hefur þá ekki þegar verið borin upp. Hvað ertu að reyna að segja okkur, Eiríkur Örn Norðdahl? heyri ég spurt. Hvað hefur þetta nokkuð með raunverulegt líf okkar að gera? Titill bókarinnar gefur fyrirheit um pólitískar skírskotanir, og á einni opnunni hittum við fyrir tvo stafakarla sem ræðast við um öfgasinnaðar skoðanir. „Ú á fasismann. Já, barasta ú á hann.“ segir annar stafakarlinn. Hinn stafakarlinn (sem líklega er kona) svarar: „Já, hann er geðveikt glataður.“ Allt er þetta undir írónískum formerkjum, og í samhljómi við þær félagslegu vangaveltur sem víða skjóta upp kollinum í bókinni. Hér birtast frasar og hugmyndir úr samfélagsumræðu síðustu mánaða, og því má segja að konkretljóð Eiríks Arnar Norðdahl feli líka í sér hefðbundnari róttækni en þá mállegu; hér er m.a.s. að finna gagnrýni á raunverulega, nafngreinda einstaklinga að hætti satýruskálda.

Að lokum má nefna að bókinni fylgir hljómdiskur með hljóðaljóðum, og með honum bætist enn eitt lagið ofan á merkingarheim verksins. Á þessum diski er fátt annað en rödd skáldsins sjálfs, eins og til áminningar um að merking orða er líka háð hljóðrænni tjáningu. Flest höfum við upplifað að upplifa þá tilfinningu að finnast eitthvert orð hljóma framandi, alveg fyrirvaralaust, orð sem við höfum þó notað margoft áður. Áhrifin af því að hlusta á hljóðaljóð Eiríks Arnar Norðdahl eru svipuð – við getum fundið fyrir framandleikanum í því kunnuglega ef við hlustum nógu lengi. Að öllu samanlögðu er bókin Ú á fasismann því fjölþætt upplifun og órækur vitnisburður um að Eiríkur Örn Norðdahl er fullfær um að reisa kvæði úr rústum og rusli tímans.

(Víðsjá, 27. nóvember 2008)

Þórunn Erlu Valdimarsdóttir: Loftnet klóra himin

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

„Án sorgar / er hjartað bara bolli / sem blóðið sullast um.“ Svo hljóðar ljóðið „Niðurstaða“ eftir Þórunni Erlu Valdimarsdóttur. Merkingarsvið þessa stutta ljóðs er ágætlega lýsandi fyrir bókina í heild: Hér skarast hið kómíska og hið tragíska, djúp og einlæg sannindi eru sett fram á gáskafullan hátt. Þannig er tónninn í þessari bók, Loftnet klóra himin. Þórunni er dauðinn víða hugleikinn, en aldrei nær þó örvæntingin yfirhöndinni. Bókin hefst á minningarpistli, eins konar djassjarðarför, þar sem minnst er þriggja látinna vinkvenna. Það má vart á milli sjá hvort vegur þyngra, söknuðurinn eða gleðin yfir því að hafa fengið að kynnast þessum manneskjum. Með minningarnar um þær í farteskinu tekst skáldið svo á við þau verkefni sem lýst er í bókinni.

Yrkisefnin í þessari bók eru mörg hver æði hversdagsleg; hér er fjallað um göngutúra úti á Granda, sundferðir og heimilisketti. Þetta eru myndir úr lífinu, og þótt dauðinn sé sínálægur er það þó ástin á lífinu sem má kallast aðalsmerki bókarinnar. Það er þessi skilyrðislausa sátt við lífið sem vekur athygli, en hún er iðulega sett fram undir kómískum formerkjum. Niðurstaðan í ljóðinu „L’amour dans le jardin“ er á þessa leið:

Dýrkun æskunnar er uppbót fyrir

vandræði og skelfingu hennar.

Eitt best geymda leyndarmál í heimi

er hve gott er að eldast.

Æskan er dýrkuð svo þau þoli hana betur,

greyin.

Hér er ort um það að eldast, og ekkert er hálfsagt. Það er miðaldra kona sem talar í þessari bók, og það vottar ekki fyrir andúð eða óbeit á eigin stöðu í mannfélaginu. Að þessu leyti er tónn verksins dídaktískur, hér getur lesandinn sótt sér fordæmi fyrir hegðun og lífsviðhorfum, sé hann farinn að hafa áhyggjur af hrukkum og gráum hárum. Manneskjur eru eins og ávextir, „sætleikinn kemur seint“, og engin þörf að kvíða þótt við færumst af skeiði æskunnar yfir á næsta skeið á eftir. Að miklu leyti eru þetta líkamleg ljóð – nærvera hins þroskaða kvenlíkama er nokkuð sem við eigum ekki að venjast í táknheimi og orðræðu nútíma fjölmiðlunarmenningar. Þess vegna eru þetta líka andófsljóð, þótt „andóf“ sé kannski heldur fast að orði kveðið. „Stríðni“ er nær lagi; lesandinn er dreginn inn í reynsluheim hinnar miðaldra konu og þar er væmnin ekki á dagskrá – undirtónninn er allt að því hryssingslegur á köflum. Þetta er undirstrikað með tali um líkamleika sem jaðrar við grótesku; hér er blygðunarlaust talað um hormónabreytingar, „víkkun á rassgati“, hrukkur og barnsfæðingar.

Ljóðformið sem Þórunn velur sér í þessari bók passar vel við yrkisefnin. Þetta eru útleitin ljóð og hálfgerðar romsur sum hver, enda bókin rúmlega 150 síður að lengd. Verkið vegur hæfilega salt á milli orðagjálfurs og fágunar, sem sannarlega er til staðar, þótt ljóðin séu löng. Þegar allt er lagt saman stendur eftir heildstæð mynd af persónuleika að lestrinum loknum, og manni finnst þetta kunnugleg týpa; hún einkennist af alltumlykjandi og elskulegri, en þó stuðandi, nærveru. Sums staðar snýst sjálfsöryggi ljóðmælandans upp í þrætubókarlist, þar sem venjubundnum viðhorfum er snúið á haus og færð gild rök fyrir hinu gagnstæða. Þannig er það t.d. í ljóðinu „Vanda, vanda, gættu þinna handa“, þar sem rætt er um jafneðlilegan hlut og framhjáhald:

Auðvitað prófa allir nýju ástina fyrst

til að vera vissir um að þeirri gömlu

sé rétt að kasta.

Það heitir svik

en er

eðlilegasti hlutur í heimi.

En þótt jarðlífið sé í fyrirrúmi er hér ekki lýst guðlausum heimi. Guð er hvergi nefndur á nafn beint, en trúin er ekki langt undan. Í ljóðinu „Í Maríukirkjunni“ er lýst sorgarferli sem endar í samræðu við almættið, samræðu sem háð er á algjörlega persónulegum nótum, og má segja að hér nái bókin hápunkti sínum:

Við sitjum eftir með eintóma hvítu

í augunum

rýnandi í óskrifaða nótu.

Ekkert að gera

nema klóra himin

uns blóðdropi fellur.

Loftnet klóra himin er óvenjuleg ljóðabók, en eins og við vitum eru möguleikar ljóðlistarinnar einmitt ríkulegastir þegar hún víkur af sviði hins venjulega. Þórunn býður okkur með sér í ferðalag sem er fróðlegt og aldrei leiðinlegt. Þetta er skáldskapur sem er notalegur í tilgerðarleysi sínu og einlægni. Hitt er annað mál að þótt verkið gangi upp miðað við þær forsendur sem liggja til grundvallar skrifunum er ekki þar með sagt að hér sé tímamótaverk á ferð. Þetta eru hugmyndaljóð, pælingar, sem flest mætti umorða eða endursegja með einfaldri afkóðun sem ætti ekki að vera neinum sæmilega menntuðum lesanda um megn. Skáldkonunni Þórunni er hvort tveggja gefið, málróf og speki, en orðsnilldin lætur á sér standa í þessari atrennu.

(Víðsjá, 5. nóvember 2008)

Kristín Eiríksdóttir: Annarskonar sæla

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

Þegar litið er yfir íslenska ljóðskáldahópinn í heild sinni lendir Kristín Eiríksdóttir óhjákvæmilega í hópi byrjenda, en þó er tvennt sem þarf að hafa á hreinu strax í upphafi. Annars vegar það, að það er enginn byrjendabragur á ljóðum Kristínar. Hins vegar það, að ljóðabækur Kristínar eru ekki fyrir byrjendur, svo torskildar sem þær eru. Og þó kann að vera að þær séu hentugur byrjunarreitur fyrir lítt vana ljóðalesendur einmitt vegna þess að þær eru hluti af því nýja upphafi, þeirri uppstokkun, sem hermt er að hafi átt sér stað á allra síðustu árum, og er gjarnan kennd við ljóðlistarhópinn Nýhil.

En það er snúið að negla ljóðin hennar Kristínar Eiríksdóttur niður, fullyrða nokkuð um það með vissu hvernig þau eru, hvað þau eru. Það er miklu auðveldara að átta sig á því hvað þau eru ekki. Í ljóðum Kristínar er ekki að finna sömu mannúðlegu hnyttnina og ljóð Ingunnar Snædal, þau einkennast ekki af sömu vitstola firringunni og ljóð Gísla Þórs Ólafssonar, og ekki af eitraðri kaldhæðni eins og ljóðaverk Eiríks Arnar Norðdahl. Og þó kann að vera að ljóð Kristínar innihaldi þetta allt saman: Hnyttni, firringu og kaldhæðni. Sannleikurinn er sá að ljóð Kristínar eru galopinn texti, þau krefjast mjög virkrar þátttöku lesandans og minna að sumu leyti á myndaþrautirnar sem stundum birtast í barnablöðum – þrautirnar þar sem maður á að teikna strik á milli númera svo að út kemur mynd. En ekki einu sinni sú samlíking veitir endanlegt svar, því númerin hjá Kristínu Eiríksdóttur eru á sífelldu iði, og telji maður sig eina stundina geta teiknað rökrétta mynd út úr þeim er ekki víst að sú sannfæring endist lengi.

Annarskonar sæla er að ýmsu leyti lík fyrri bókum Kristínar. Form ljóðanna er þó breytt að því leyti að upplausnin er meiri en áður, þetta eru ekki smáprósar heldur stutt fríljóð með endurteknum stefjum á köflum. Bókin skiptist í fjóra hluta. Fyrsti hlutinn er lýsing á ferðalagi: Ljóðmælandinn ferðast með sporvagni, gengur yfir brú, inn um dyr og upp stiga til fundar við mótleikara. Síðan er farið til baka sömu leið með sporvagninum. Það liggur ekki ljóst fyrir hvort ljóðmælandinn er karl eða kona, en viðtökusaga ljóða Kristínar Eiríksdóttur samanstendur í meginatriðum af tilraunum til að lesa kynhlutverk inn í textann. Kjötbærinn og Húðlit auðnin, fyrri bækur Kristínar, fjalla báðar um konu eða stúlku sem býr með karlmanni, og ýmislegt bendir til þess að þar sé fjallað um kúgun, heimilisböl og óhamingju. Það er forvitnilegt hvernig karlmönnunum er lýst; þetta eru augljóslega hrottar og illmenni, en þó eru lýsingarnar á þeim blandnar aðdáun og væntumþykju.

Í öðrum hluta Annarskonar sælu er brugðið upp myndum af daglegu lífi; þarna er íbúð, hjónarúm, þvottapoki, pantaður grillkjúklingur og fólk sem leiðist og borðar ís. En líkt og í fyrsta hlutanum hefur innri einræðan meira vægi en þær ytri aðstæður sem lýst er. Sá túlkunarmöguleiki skýtur upp kollinum að hér sé lýst vímu eða sturlunarástandi – það er jú talað um bobblandi eitur og sprautu sem stingst í nárann. Ávörp koma til sögunnar í öðrum hluta og halda svo áfram bókina á enda; einhver er ávarpaður, kannski er það ástmaður ljóðmælandans eða sambýlismaður. Það er svo í þriðja og stysta hluta verksins sem stígandin nær hámarki: Ávörpin verða að skipunum. „komdu á mig annars sker ég þennan háls í sundur,“ segir undir lok þriðja hluta. „hann er ungur þessi háls komdu annars sker ég“. Tómarúmið sem er búið að vaxa frá því í upphafi bókarinnar er nú orðið alveg yfirþyrmandi, og það er undirstrikað með stuttum línum og höktandi hrynjandi. Fjórði og síðasti hluti bókarinnar heitir „Stóri hvíti maður“ og er lýsing á ferðalagi, líkt og fyrsti hlutinn. Að þessu sinni er þó um að ræða ferðalag til útlanda, líklega til Asíulands, kannski Tælands. Nú er ljóðmælandinn að mestu leyti óvirkur andspænis gerandanum, ferðafélaga sínum, stóra hvíta manninum. Augnaráðið er í aðalhlutverki, og það er undirstrikað með upphafslínunum: „ég sé í gegnum þig“.

Sú þokukennda rýmisskynjun sem við þekkjum úr fyrri bókum Kristínar Eiríksdóttur er eitt af aðalsmerkjum Annarskonar sælu. Nokkrar vísbendingar eru hér um raunverulega staði: Mjódd, Grensásvegur, Miklabraut, Kringlan, en við erum litlu bættari þó við reynum að lesa einhverja merkingu út úr þeim. Raunveruleikinn sem lýst er í Annars konar sælu er hafinn yfir áþreifanlega staði. Nærvera þeirra er hins vegar til þess fallin að gefa hugarástandinu sitt sérstaka bragð. Þegar vel er að gáð má líka sjá að það eru sums staðar tengsl í orðavali við næstu bók á undan, Húðlita auðnina. Þetta rennir líka stoðum undir þann grun að það sé hyggilegast að lesa Annarskonar sælu sem brot af stærri heild – bókin græðir tvímælalaust á því að vera lesin í samhengi við hinar bækurnar tvær. En sú spurning vaknar hversu lengi leit Kristínar Eiríksdóttur að þolmörkum forms og stíls getur haldið áfram, án þess að snúast upp í fyrirsjáanlegt og endurtekningasamt stagl. Þeirri spurningu verður auðvitað að svara í hvert skipti sem hún skrifar nýja bók. Svarið að þessu sinni er á þá leið að Annars konar sæla sé lestrarins virði, og vel það. Mér er hálfilla við að endurtaka hér klisjuna um að Kristín Eiríksdóttir standi feti framar en kollegar hennar sem kenna sig við Nýhil, en að vel athuguðu máli held ég að sú klisja sé klisja einmitt vegna þess að hún er sönn.

(Víðsjá, 30. október 2008)

Þorsteinn frá Hamri: Dyr að draumi

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

Í titilljóði nýjustu bókar Þorsteins frá Hamri, „Dyr að draumi”, talar skáldið um ástleitið auglit: „Það hló við mér álengdar”, segir skáldið, „og braut sér leið / inn í ljóð / sem talið verður framvegis / fjalla um allt / já, allt, allt, allt, / annað.” Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Þorsteinn yrkir um skapandi viðtökur lesenda sinna, eða skapandi mislestur svo fastar sé að orði kveðið – ég nefni „Af manni og ljóði” úr Vetrarmyndinni frá árinu 2000. Það er eins og að með svona viðtökuljóðum ætli skáldið sér að vera skrefi á undan lesandanum, að bregðast við túlkuninni áður en hún verður til. Það er því með nokkurri varfærni sem við hljótum að nálgast þessa nýjustu ljóðabók Þorsteins, minnug þess að sérhver lesandi er einstakur og merking ljóðanna háð þeim farangri sem hvert og eitt okkar stendur uppi með frammi fyrir þeim.

Skáldferill Þorsteins frá Hamri er nú orðinn nokkuð langur, bráðum hálf öld, og hann er að vissu leyti dæmigerður fyrir þróun módernismans í heild sinni. Fyrstu bækurnar voru æði torskildar, næstum of snúnar til þess að „hinum almenna lesanda” væri etjandi á þær, með ógrynni af vísunum í fornar bækur, og orðum eins og „níðíngavofur”, „snærökkursskíma” og „íðilrunnur”. Í seinni tíð hafa ljóð Þorsteins orðið látlausari og stilltari, notendavænni gæti einhver sagt, og í síðustu bókum er hann meira að segja farinn að láta skýringar fylgja með aftast. Þetta ber þó ekki að skilja sem svo að ljóðin séu orðin grynnri eða útþynntari, langt frá því, eins og Dyr að draumi er til vitnis um. Þessi nýjasta ljóðabók Þorsteins er á svipuðu plani og þær sem hann hefur skrifað síðustu árin, ljóðin eru tilbrigði við sömu stef. Skáldið yrkir sem fyrr um sjálf lögmál kveðskaparins eins og þegar er nefnt, samband skáldsins við lesanda sinn. Lestrarreynslan er líka í brennidepli í ljóðinu „Veðruð orð”, þar eru orðin hlutgerð sem fornleifar, í þeim sér lesandinn merki um sögu, líf og tilfinningar, og „eitthvað að auki”. Auk hins augljósa finnur lesandinn eitthvað innra með sjálfum sér, eitthvað einstakt, þetta óræða „je ne sais quoi” eins og franski klassísistinn Boileau orðaði það, þetta sem ég veit ekki hvað er, sjálfa skýringuna á mikilfengleika skáldskaparins.

Rauði þráðurinn í þessari nýju ljóðabók Þorsteins frá Hamri er hins vegar eitthvað sem kenna má við efahyggju. Skáldið er tortryggið á hugmyndina um endanlegan sannleika og vantrúað á bjargfasta þekkingu. Það er varasamt að tala beinlínis um ádeilukenndan tón í þessari bók, en maður fær stundum á tilfinninguna að samtíminn liggi hér undir ámæli. Í ljóðinu „Svör” standa þessi orð:

Með stroknu fasi

ilma í dag af dásemd

hin sjálfbirgu svör.

Á morgun dreifa þau

hatri, sprengjum og heimsku.

Með þessum línum er eins og skáldið orði vandlætingu sína á þeirri tvöfeldni sem fylgir allri bókstafstrú: Það sem ilmar af dásemd í dag er notað til að réttlæta alls kyns óhæfu á morgun. Ljóðið heitir „Svör”, og það er varla tilviljun að næsta ljóð á eftir skuli heita „Spurningin”. Þar er um að ræða lofsöng til spurningarinnar, til efans og leitarinnar, sem eru „nýjustu fréttum / státnustu staðhæfingum / ýtrustu svörum / æðri!” Þetta kemur heim og saman við orð Þorsteins sjálfs í viðtali frá árinu 1988. Þar segir hann: „Án umburðarlyndis og hóflegrar forvitni út í heilabrot annarra kemst maður aldrei í kynni við neitt, afneitar lífsfyllingu annarra, festist í kreddum og týnir niður brosinu. Innst inni hljótum við að fagna fjölbreytni. Því miður rekst maður stundum á fólk sem vill helst að öll verk og hugsanir séu nokkurs konar eftirlíkingar einhvers sem það sjálft þykist gjörþekkja.”

Þessi efahyggja Þorsteins frá Hamri er um leið mannhyggja, húmanismi, rétt eins og hjá ítalska endurreisnarhöfundinum Pico della Mirandola sem taldi að maðurinn stæði öðrum verum framar einmitt vegna þess að hann efast og skilningur hans á lífinu tekur breytingum. Það er eðli mannsins að vera ófullgerður og síbreytilegur, og þess vegna stendur hann utan við öll stigveldi. Í okkur er eyða sem okkur tekst aldrei að fylla, hvorki með nýjustu fréttum né státnustu staðhæfingum. Þorsteinn fjallar um hið síbreytilega þekkingarsvið mannsins í ljóðinu „Sólbráð” – það sem á einu tímaskeiði er álitin algjör vissa gufar upp á því næsta eins og fótspor í snjó sem bráðnar: „Hægt og hægt / urðu að engu / spor / stigin af staðfestu, þrungin / merkingu, meinum og sælu”.

En þrátt fyrir gagnrýni sína stendur skáldið ekki á stalli þar sem það fellir dóm yfir öðru fólki. Verk Þorsteins sjálfs eru ekki undanþegin gagnrýni, og hann veit af því. Það er engin ein ráðandi afstaða í þessari bók, í henni felast mótsagnir eins og svo mörgum mannanna verkum; hér birtist ljóðið okkur sem einskismegandi hjal og um leið merkingarrík niðurstaða könnunar skáldsins á heiminum. Skáldið sendir „orðin, lífsreynd, á vettvang” og gerir umhverfi sitt þannig kunnuglegt. En gagnrýni Þorsteins frá Hamri í ljóðabókinni Dyr að draumi beinist líka að honum sjálfum og því hlutskipti sem hann hefur valið sér, og það er kannski í því sem helsti styrkur bókarinnar er falinn:

Því ljóðið spyr,

leitar, efast – og sér því

heiminn skýrar en skáldið

sem ornar sér stundum

við örugg svör …

(Víðsjá, 27. október 2005)