Posts tagged: Íslenskar skáldsögur

Eiríkur Guðmundsson: Sýrópsmáninn

Hjalti Ægisson, nóvember 16, 2010

Um það leyti sem Versalasamningarnir voru gerðir í Evrópu sat sautján ára unglingur uppi í Mosfellssveit og skrifaði smásögu. Drengurinn var Halldór Guðjónsson frá Laxnesi, og söguna nefndi hann „Den tusindaarige Islænding”. Hetjan í þessari smásögu er einfaldur en hjartahreinn vinnumaður sem heitir Helgi, og honum er teflt fram sem einhvers konar fegrandi andstæðu við spjátrunginn og menntamanninn Heiðbæs sem er á kafi í nútímabókmenntum og teoríu. Helgi á hins vegar bara eina bók, Grettis sögu, sem hann les hvenær sem hann á lausa stund. Það má telja víst að nóbelshöfundurinn verðandi, sem var sjálfur orðinn djúpt sokkinn í lestur samtímabókmennta, og átti skömmu síðar eftir að sökkva sér ofan í evrópska framúrstefnutexta, hafi séð einhverja fegurð í þessu, því að leggja allt sitt traust á eina bók, einn texta; Grettis sögu í þessu tilviki. Þetta er nánast eins og tilbrigði við hugmyndina um hinn göfuga villimann, einfaldur bókmenntasmekkur sem endurspeglar einfalt líf, göfuga sál, rökrétta heimsmynd.

Í sagnaheimi Eiríks Guðmundssonar kynnumst við iðulega persónum sem eru eins ólíkar vinnumanninum Helga og hugsast getur. Þetta eru menn sem eru umvafðir textum, hjúpaðir setningum úr stórbrotnum bókmenntaverkum, þeir ganga til náða með Kafka og Nabokov í höfðinu, þá dreymir Pessoa og Strindberg á nóttunni, að morgni anda þeir ljóðlínum eftir Octavio Paz og Óskar Árna ofan í kaffibollann. Það er ekki alltaf ljóst hvaða hlutverki bókmenntirnar gegna í svona veröld, kannski eru þær leið til hjálpræðis eða flótti frá vandamálum sem lesandinn fær ekki alltaf að vita hver eru, lifrarsjúkdómur, brostið hjarta, eða bara eitthvað allt annað. Í bókum sínum dregur Eiríkur upp svipmyndir af heimi sem er ofurseldur ofgnótt menningar, listaverkinu á tímum fjöldaframleiðslu sinnar. Daglegt amstur verður allt að því dapurlegt í svona heimi, því ídeal lífsmáti væri auðvitað að nota allan sinn tíma í að lesa bækur, hlusta á tónlist eða horfa á kvikmyndir. Ars longa, vita brevis, gæti verið mottó þessa sagnaheims - listin er löng en lífið stutt. „Öllum þeim möguleikum sem okkur standa til boða fylgir óneitanlega nokkurt víl,” segir í bók Eiríks, 39 þrep á leið til glötunar, sem kom út árið 2004. „Hvers vegna stóð ég og beið eftir strætisvagni þegar ég hefði getað verið að lesa Gleðileikinn guðdómlega eftir Dante? Af hverju var ég staddur í Bónus, á háannatíma, þegar ég hefði getað verið heima að hlusta á Air eða horfa á Mulholland Drive?“ Í Sýrópsmánanum kynnumst við mönnum sem eru angraðir af þessu sama víli og láta sig dreyma um að opna sér einkaglugga inn í heim bókmenntanna með því að ræna Kristjáni Karlssyni ljóðskáldi, loka hann inn í búri, færa honum ritföng og bækur og láta hann yrkja eða þýða verk eftir William Faulkner. Hugmyndin er kómísk og sýnir þá miklu þörf fyrir listina sem er yfir og allt um kring í bókum Eiríks Guðmundssonar, þráin eftir tímabundnu dvalarleyfi í veröld bókmenntanna, þessum veruleika sem á sína sjálfstæðu tilveru, óháð hversdagsleikanum, ofar heimsins þrautum. „Skáldsögur þarf að tilreykja, eins og pípur,“ segir í Sýrópsmánanum, „það getur tekið langan tíma, mörg ár. Þær lifa sínu lífi líkt og þær sofi á bak við tímann, rumska kannski eftir þúsund ár, og eftir það er ekki nokkur leið að frá frið fyrir þeim.“

Eiríkur Guðmundsson er að sumu leyti eins og dróttkvæðaskáld, textarnir hans eru svo rækilega dulkóðaðir að þótt mér, lesandanum, takist stundum að kveikja á perunni, er það skammgóður vermir, því ég verð eiginlega bara meðvitaðri en áður um alla þá staði þar sem ég er enn þá týndur, þrátt fyrir daglöng heilabrot, andvökunætur og eyðimerkurvist á internetinu. Heimildaskráin sem fylgir í lokin er varla nema reykurinn af réttunum, svo takmörkuð sem hún er, og fyrir vikið getur Sýrópsmáninn, rétt eins og bókin Undir himninum, sem kom út 2006, hæglega fylgt lesandanum um langan veg; svo margar eru gáturnar, svo þéttofinn er vefurinn. Eins og gefur að skilja er ekki gott að rekja söguþráðinn í svona bókum, þeim þræði er auðvelt að týna, en ég held að Sýrópsmáninn sé bók um ástarsamband, kannski fleiri en eitt. Kjarni sögunnar er ferð til Ítalíu, sögumaðurinn ferðast þangað með sambýliskonu sinni og barnungum syni, þegar þoka skellur á yfir Íslandi. Svo rækileg er þokan að menn og byggingar hverfa og sjást aldrei aftur. Ferðin til Ítalíu verður sögumanninum tilefni til að rifja upp tímann þegar hann kynntist konunni sinni og margt bendir til þess að þau séu bæði að glíma við sorg eða missi úr fortíðinni. Bernskuminningar sögumannsins eru einkum tengdar afa hans og þorpi undir snarbröttu fjalli einhvers staðar úti á landi, þar sem hann ólst upp. Barnsmóðirin, sem er einfaldlega kölluð L., hefur misst föður sinn og tekur stundum upp á því að láta manninn sinn máta föt úr dánarbúi föðurins. Hún setur líka upp gleraugu föður síns „til þess að gæta drengsins enn betur“, eins og það er orðað. Við ímyndum okkur að þetta fólk séu engir unglingar, hér er sköpuð tilfinning fyrir lífsreynslu, og að öllum líkindum eiga þau við einhvers konar vandamál að stríða í sambandinu. Kannski er það þess vegna sem ferðin til Ítalíu er farin, þar með er þetta saga um stund milli stríða, flótta frá þoku, viðleitni til að bæta það sem hefur aflaga farið um dagana, tilraunir til þess að láta ekki lífið kremja sig. Stundum held ég að það þýði hið sama og að „láta ekki baslið smækka sig“, en sennilega hef ég alveg rangt fyrir mér.

Sýrópsmáninn er nýr kafli í miklu höfundarverki, og þessi bók markar tímamót á ferli Eiríks Guðmundssonar sem rithöfundar að því leyti að hér er menningarleg greining víðs fjarri. Í fyrri bókum Eiríks hafa raunveruleg atvik úr samtímanum alltaf verið nærhendis og á yfirborðinu, fréttaljósmyndir, Kastljóss-viðtöl, íslensk bókaútgáfa, krúttin eða frasar úr auglýsingum. Slík umfjöllun er ekki til staðar í Sýrópsmánanum, allténd ekki með beinum hætti, og það má segja að nú sé pistlahöfundurinn Eiríkur Guðmundsson farinn að víkja fyrir ljóðskáldinu. Einhverjum þykir það sjálfsagt vera öfugþróun, því það hefur aldrei þótt mikil prýði á essayistum að fást við ljóðlist. Þeir sem unna alvöru bókmenntum ættu þó að gleðjast og kannski verður Sýrópsmáninn sú bók Eiríks sem verður til þess að skilja hafrana frá sauðunum. Það leirskáld er ekki til sem getur myrt fegurð himinsins, og á sama hátt lætur sönn list ekki haggast af óréttlæti, kreppu, níðingsskap eða hverju því sem kann að setja svip sinn á fréttatímana eða jólabókaflóðið hverju sinni. Bækur Eiríks Guðmundssonar eru kannski enginn yndislestur í fyrstu atrennu, en þær duga vel sem áminning um það sem býr á bak við ásýnd hlutanna. Þeim sem les, og gefst ekki upp, verður kannski einhvern tímann, einhvers staðar á vegferðinni afhent perla.

(Víðsjá, 16. nóvember 2010)

Úlfar Þormóðsson: Hallgrímur

Hjalti Ægisson, ágúst 11, 2010

Úlfar Þormóðsson setur markið hátt í þessari nýjustu bók sinni, sem er söguleg skáldsaga og gerist á 17. öld. Aðalpersónan er sjálfur Hallgrímur Pétursson, hið mikla höfuðskáld aldarinnar. Vitneskja okkar um ævi Hallgríms er býsna brotakennd og því má segja að þessi bók sé tilraun Úlfars Þormóðssonar til að púsla brotunum saman. Hér er fylgt strangri, sagnfræðilegri nákvæmni; nöfnum persóna og leikenda er ekkert hnikað til og farið er rétt með ártöl, að svo miklu leyti sem þau eru þekkt. Um orsakasamhengið gildir nokkuð öðru máli, enda liggur nýstárleiki verksins fyrst og fremst í óvenjulegum túlkunum. Það er margt í lífi Hallgríms Péturssonar sem við vitum fyrir víst að átti sér stað, en hvers vegna það átti sér stað er ekki alltaf vitað. Við vitum t.a.m. ekki af hverju Hallgrímur fer af landi brott þegar hann er unglingur, ekki heldur af hverju hann flosnar upp úr járnsmíðanámi sínu og hefur guðfræðinám við Vorfrúarskóla. En Úlfar Þormóðsson hefur sínar hugmyndir um þetta allt saman, og þær hugmyndir samræmast ekki alltaf hinni viðteknu mynd okkar af Hallgrími.

Í meðförum Úlfars verður Hallgrímur Pétursson að efasemdarmanni sem tekst á gagnrýninn hátt á við ýmis álitaefni guðfræðinnar. Guðleysingi er hann ekki, en hann hefur miklar efasemdir um aðferðir kirkjunnar og ímyndarsköpun, sem gengur oftar en ekki út á að hagræða sannleikanum. Sumt af þessum vangaveltum Hallgríms er kunnuglegt úr umræðu síðustu ára, t.d. skoðanir hans á Júdasi sem virðast bera nokkurn keim af hinu nýlega enduruppgötvaða Júdasarguðspjalli. Hallgrími þykja frásagnir af svikum Júdasar ekki sannfærandi og hann grunar að Júdas hafi verið gerður að blóraböggli í meðförum kirkjunnar manna. Á sama hátt heillast Hallgrímur af þeim óopinberu þjóðsögum sem eiga rætur að rekja aftur til fjórtándu aldar og kveða á um að Kristur hafi eignast afkomendur, en sú staðreynd hafi verið þögguð niður. Þannig vinnur Úlfar Þormóðsson meðvitað á móti hinni hefðbundnu mynd af Hallgrími sem heittrúuðum skáldpresti. Þetta er í sjálfu sér ágæt hugmynd; sögulegar skáldsögur geta auðvitað verið öflugt tæki til þess að flækja mynd lesandans af fortíðinni og glæða hana þar með nýju lífi. Höfuðvandi verksins er hins vegar sá að sá Hallgrímur sem við kynnumst hér kemur engan veginn heim og saman við þann kveðskap sem eignaður er hinum raunverulega Hallgrími, en sá kveðskapur er einmitt gernýttur í verki Úlfars. Fyrir vikið verður höfundinumm nauðsynlegt að sveigja þennan nýstárlega Hallgrím í átt að kveðskapnum. Útkoman verður æði þversagnarkennd, enda hlýtur hún að byggjast á því að sá Hallgrímur sem við þekkjum úr Passíusálmunum og öðrum kvæðum sé ekki hinn rétti Hallgrímur. Þessa þversögn afgreiðir Úlfar einkanlega með einni persónu, sem er Brynjólfur Sveinsson biskup. Það er Brynjólfur sem stýrir undrabarninu Hallgrími inn á braut kirkjunnar; Brynjólfur fær hann til að hefja nám í guðfræði og hvetur hann síðar til að takast á við að yrkja um pínu Krists. Alltaf er Hallgrímur efins um þá leið sem hann hefur valið sér, og virðist una sér mun betur við að kenna ungum börnum undirstöðureglur siðfræðinnar, lesa gömul handrit eða grúska í verkum forkristinna fornaldarhöfunda. Þar með verður til einhver óþægileg krísa í sjálfsmynd Hallgríms, tilfinningahnútur sem er í algjöru ósamræmi við þá sannfæringu sem setur mark sitt á ljóðum hans. Hann yrkir kvæði sín ýmist með velgjusvip á vör, því þau eru fyrst og fremst ort til samræmis við ríkjandi tísku, eða hann glottir með sjálfum sér þegar hann laumar dulbúnu lofi á syndina inn í ljóð sín undir öfugum formerkjum, eins og þegar hann ákveður að hafa Passíusálmana fimmtíu að tölu til heiðurs Barna-Sveinbirni, hinum kaþólska forföður sínum. Sé hinn strangi hugmyndaheimur sautjándu aldarinnar hafður til hliðsjónar verður þetta djarft hjá Úlfari Þormóðssyni, næstum því jafn djarft og að skrifa sögulega skáldsögu um Jón Sigurðsson og byggja hana á þeirri hugmynd að Jón hafi innst inni viljað að Ísland yrði áfram hluti af Danaveldi – hann hafi bara tekið slaginn af því að einhverjir aðrir hvöttu hann til þess.

Að forminu til minnir bókin Hallgrímur að sumu leyti á rússnesku hugmyndaskáldsöguna. Mikið er hér um langar senur þar sem persónurnar eru í rauninni ekki að gera neitt, kannski að tefla eða drekka, en blaðra þeim mun meira. Það verður því varla sagt að hér sé tekist á við skáldsöguformið á ögrandi eða hugkvæman hátt. Loks má geta þess að skáldsagan Hallgrímur er gríðarmikil að vöxtum, rúmar sexhundruð síður, og til að geta haldið athygli lesandans fanginni í svo löngu skáldverki þarf vitanlega að skrifa skemmtilegan og áhugaverðan stíl. Því miður fatast Úlfari þar flugið, enda er sagan afar langdregin og allmörg atriði hennar ómarkviss. Það er oft eins og heilu senurnar séu skrifaðar utan um kvæði eða vísubrot frá Hallgrími Péturssyni, án þess að þær hafi neitt sjáanlegt erindi eða raunveruleg tengsl inn í meginframvinduna. Til allrar hamingju fá ljóðlínur sálmaskáldsins að fljóta með á stöku stað, en nærvera þeirra gerir lítið annað en að undirstrika enn frekar tilþrifaleysi textans sem umlykur þær.

(Víðsjá, 11. desember 2008)

Ólafur Haukur Símonarson: Fluga á vegg

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

Þroskasögur skálda og rithöfunda eru nefndar künstlerroman upp á þýska tungu, og að lítt athuguðu máli gæti maður haldið að nýjasta bók Ólafs Hauks Símonarsonar, Fluga á vegg, væri einmitt þannig bók. Þetta er sagan um bernsku Ólafs Hauks, allt frá fæðingunni til fyrstu barnaskólaáranna. Ekki þarf að efast um að hér sé lýst bernsku höfundarins sjálfs, enda er drengurinn nafngreindur í verkinu; en þó er settur varnagli við sannleikshugtakið strax á titilsíðu með hefðbundnum, þversagnakenndum undirtitli: „Sönn lygasaga,“ er einkunnin sem sagan fær frá hendi höfundar. Vanir lesendur sjálfsævisagna eru orðnir þaulkunnugir svona efasemdum um hæfni minnisins til að varðveita alla atburði sómasamlega; það er farið að heyra til undantekninga að sjá sögur sem gefa sig út fyrir að vera afurð óbrigðuls minnis þess sem skrifar. En skrásetningin sjálf er ekkert aðalatriði hjá Ólafi Hauki, hann vindur sér beint að efninu og lýsir því hvernig hann streitist á móti og spyrnir við fótum þegar sú stund kemur að hann þarf að yfirgefa kvið móður sinnar. Strax í þessum fyrsta kafla er sleginn tónn sem er ekki í samræmi við framhaldið; rödd þess sem talar er í ætt við það sem maður sér stundum á heimasíðum hvítvoðunga á Internetinu, á Barnalandi og hvað það nú heitir allt saman, þar sem ómálga börn halda dagbækur um atburði ævi sinnar, og kómíkin er fólgin í því að lesa óbarnslegan, stundum gelgjulegan texta og ímynda sér að það sé barnið sjálft sem segi frá. Á sama hátt lýsir hinn nýfæddi Ólafur Haukur Símonarson vonbrigðum sínum með að þurfa að koma í heiminn: „Svo klippti einhver á naflastrenginn, og þar fauk síðasta von mín um að geta lifað góðu lífi í ókeypis húsnæði með frítt fæði.“

En þessi aðferð fyrsta kaflans er hins vegar einsdæmi í verkinu, og í köflunum sem á eftir koma er þessu víða snúið við: Írónían gengur út á það að sögumanninum er gerð upp vanþekking, svo að útkoman verður skopleg. Sjónarhorni barnsins er beitt til að lýsa athöfnum fullorðna fólksins og þannig er stundum undirstrikaður viss fáránleiki. Dæmi um þetta má sjá í lýsingunni á Hauki málara, sem er pabbi Arnars, vinar Ólafs Hauks. Haukur málari er sem sagt haldinn spilafíkn, en það er hvergi sagt beint, heldur er einkennunum lýst með augum hins barnunga sögumanns, sem er að sjálfsögðu mjög forviða á þessari hegðun: „Á veturna sefur hann stundum allan daginn,“ segir drengurinn. „Mamma segir að hann spili á nóttinni. Ég skil ekki hvernig menn nenna að vaka á nóttinni til þess að spila. Við Arnar spilum oft á daginn og á kvöldin og það er mjög gaman, en ekki mundum við nenna að vaka alla nóttina til að spila.“ Önnur persóna í bókinni er nágranni fjölskyldunnar og kallaður Óskar hinumegin. Það er gefið sterklega til kynna að samband hans við mömmuna sé aðeins nánara en pabbanum þyki hæfilegt. En barnið sem segir söguna skilur ekki slíkt og lýsir atvikum án þess að gera sér grein fyrir orsakasamhenginu. Þessi íroníska frásagnartækni er eins konar aðalsmerki á sögunni, en hún er þó ekki allsráðandi, því stundum er eins og sögumaðurinn gleymi því stundarkorn að hann er barn, og breytist í fullorðinn mann, sem leggur mat á atburðina úr fjarlægð. Þetta gerist gjarnan í lok kafla. Þá er sagt frá einhverju sem gerist tuttugu eða þrjátíu árum síðar og varpar ljósi á málsatvik, eða þá hvernig höfundurinn sjálfur upplifi hlutina eftir svo langan tíma. Þetta er óneitanlega í algerri mótsögn við þá barnslegu einfeldni sem er ríkjandi annars staðar í verkinu, og fyrir vikið er listrænu samræmi þessarar sögu verulega ábótavant.

En þrátt fyrir þetta er Fluga á vegg ýmsum góðum kostum gædd. Þetta er Reykjavíkursaga; hér er lýst kjörum fátæks fólks um miðja síðustu öld, og gildismat samfélagsins er tekið til frjórrar skoðunar. Þetta birtist m.a. í hugleiðingum um stéttamun, sem stundum getur verið falinn. Sögumaðurinn ungi fær tár í augun og hleypur í vörn þegar faðir hans gerir honum ljóst að þótt fjölskyldan búi í húsi en ekki bragga sé samt ekki svo mikill munur á þeim og braggafólkinu, kömpurunum; lífskjörin eru nefnilega um margt sambærileg. Drengurinn hefur mikið stolt til að bera þrátt fyrir fátæktina og líkist þannig móður sinni sem sér til þess að sonur hennar gefi rausnarlegar gjafir þegar honum er boðið í barnaafmæli hjá fjölskyldum í efri stétt. Fluga á vegg hefur mikla samfélagslega skírskotun; það má segja að þetta sé helsti styrkur bókarinnar og tengi hana jafnframt við þær skáldsögur sem Ólafur Haukur skrifaði í kringum 1980. Lesandinn fær sterka tilfinningu fyrir lífskjörunum sem persónurnar búa við og þeirri félagslegu orðræðu tímabilsins sem birtist t.d. í máli sjálfstæða kaupmannsins sem kallar KRON-veldið „kommúnistafélag“. Það er þó ekki laust við að hér sé fortíðin skoðuð í ljóma sem verður helst til of rjósrauður á köflum, og sums staðar rennur tónn verksins út í hreina og klára væmni, t.a.m. í sögulok.

Fluga á vegg er saga sem ber þess ekki augljós merki að vera rituð af jafnreyndum höfundi og raunin er. Á vissan hátt minnir verkið einna helst á barnabók, ekki bara vegna þess að það er barn sem talar, heldur líka vegna þeirrar bernsku úrvinnslu sem bókin byggir á. Þótt Ólafur Haukur Símonarson ætli sér ekki um of í þessu verki fær verkið þó óneitanlega laka útkomu úr samanburði við sambærileg verk hérlend frá síðustu áratugum. Það er enn fremur ljóst að ekki er þetta künstlerroman, því þroskasaga Ólafs Hauks sem rithöfundar fær sama og enga athygli, en fyrst hann er á annað borð kominn í endurminningagírinn er auðvitað bara að vona að sú saga verði sögð í næstu bókum.

(Víðsjá, 25. nóvember 2008)

Hermann Stefánsson: Algleymi

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

Sagan segir að á meðan Bítlarnir voru enn starfandi hafi John Lennon borist til eyrna að í einhverjum breskum skólum væri þegar byrjað að láta nemendur túlka texta Bítlalaga í ljóðgreiningartímum. John brást við þessum fréttum með því að semja lagið „I am the Walrus“, en texti þess lags er ein samfelld og óskiljanleg þvæla. „Látið þið nemendurna túlka þetta,“ sagði John Lennon. Þegar nýjasta skáldsaga Hermanns Stefánssonar, Algleymi, er lesin, er ekki laust við að mann gruni að þar sé eitthvað svipað á ferðinni; rithöfundurinn sitji heima og flissi yfir öllum bókmenntafræðingunum sem séu að reyna að túlka textann. Þetta er með öðrum orðum ögrandi skáldsaga, því hún ögrar viðteknum hugmyndum okkar um sköpun merkingar. Á einum stað í verkinu er að finna hugleiðingu um orðið „borðstofuborð“, og má segja að þar sé komin hliðstæða við merkingarheim sögunnar. Orðið „borðstofuborð“ er furðulegt orð; þetta er borð – af því þiggur stofan merkingu sína (borðstofa) – og svo er borðið skilgreint aftur með vísun í stofuna = borðstofuborð. Þar með er merkingarsköpunin komin í hring. Svoleiðis er þetta líka í Algleymi Hermanns Stefánssonar: Textinn vísar í raunveruleikann sem aftur vísar í textann, og útkoman er sífelld speglun.

En þótt þetta hljómi nýstárlega er hér vitanlega eldgamalt fyrirbæri á ferðinni. Svona skáldskapur varð til í alvöru á sjöunda áratugnum með verkum höfunda eins og John Fowles og Kurt Vonnegut. Þetta er á erlendum málum kallað metafiksjón, eða sjálfsögur; sjálfsmeðvitaðar sögur þar sem fengist er við hlutverk skáldskaparins sjálfs og tengsl hans við veruleikann. En bókmenntalegur tími er auðvitað afstæður og mismunandi eftir bókmenntakerfum. Íslenska metafiksjónið er þannig enn óskrifað blað að mestu. Fræðimenn hafa að vísu þóst sjá einkenni þess í verkum eldri höfunda, nú síðast Jón Karl Helgason í sannfærandi Skírnisgrein um Vikivaka Gunnars Gunnarssonar. Hallgrímur Helgason var sömuleiðis kominn á sporið í Höfundi Íslands, en hreinræktaða metafiksjón-sagnahöfunda höfum við Íslendingar enga átt fyrr en Hermann Stefánsson mætti á svæðið.

Algleymi hefst á því að aðalpersónan, Guðjón Ólafsson, vaknar á sjúkrahúsi og er búinn að missa minnið. Í hönd fer endurhæfingarferli þar sem hann þarf að læra líf sitt upp á nýtt. Minnisleysi er þekkt frásagnarbragð í skáldverkum, enda kjörin leið til að fást við stórar spurningar; minnið er jú ein helsta undirstaðan undir persónuleika mannsins. Og þjóðfélagsþróun er tilvalið að skoða með augum hins minnislausa. Það gerði Washington Irving í smásögunni Rip van Winkle, sögu um mann sem missir tuttugu ár úr lífi sínu og sefur af sér bandaríska frelsisstríðið. En minnisleysi Guðjóns Ólafssonar hefur lítinn sem engan þjóðfélagslegan snertiflöt; Hermann Stefánsson notar það fyrst og fremst sem tilefni til að fabúlera um málspekileg álitaefni, þanþol merkingarsköpunar og mannleg samskipti. Allt er þetta gert með miklum sóma, það er flogið upp í hæstu hæðir fáránleikans og vangaveltunum hrært saman við pælingar um eðlisfræði, sem eru alls ekki fyrir byrjendur, en eru þó gerðar læsilegar hér.

Algleymi líður þó dálítið fyrir óljósar sögureglur, því auðvitað er þetta fantasía, og þótt við gerum ekki þá kröfu að fantasíur séu í samræmi við raunveruleikann viljum við þó helst að þær séu samkvæmar sjálfum sér. Þannig getum við gengið út frá því að Fróði í Hringadróttinssögu verði alltaf ósýnilegur þegar hann setur upp hringinn, Billy Pilgrim í Sláturhúsi 5 flakki úr einu atviki ævi sinnar yfir í annað algjörlega fyrirvaralaust og að Gremlinsarnir breytist í skrýmsli ef þeir borða eftir miðnætti. En í Algleymi er erfitt að greina nokkrar svona reglur, hér er öllu blandað saman; tímaflakki, minnisleysi, vitfirringu. Þessi skáldsaga er sannkölluð ótemja sem tryllist þegar minnst varir og engin leið er að segja hvert hún snýr sér næst. Og kannski er það ekki ókostur heldur kostur; um það er ekki gott að dæma, þegar upplausnin er á annað borð komin á dagskrá er kannski eins gott að leyfa henni að taka öll völd. Svo er þetta auðvitað tengt hinni eilífu spurningu um hlutverk rithöfunda. Ef hlutverk rithöfundarins er að skapa merkingaþrungna heild handa lesandanum er ljóst að Hermann Stefánsson er að vanrækja hlutverk sitt gróflega, því Algleymi býr hvorki yfir ótvíræðri merkingu né heild af nokkru tagi.

En svo snaggaraleg afgreiðsla er að sjálfsögðu ekki til sóma, því við nánari athugun er Algleymi, ásamt tveimur fyrri sögum höfundarins, sannkallað brautryðjendastarf. Hermann Stefánsson er í óðaönn við að innleiða bókmenntagrein sem er áður óþekkt í íslenska bókmenntakerfinu þó hún þekkist annars staðar, og með því kviknar von um að okkar bókmenntalegi tími fari nú að þokast áfram; við þurfum bara handfylli af forpokuðum gagnrýnendum sem úthrópa Hermann og hugsanlega sporgöngumenn hans fyrir tilgangslausan heilaspuna sem á ekkert erindi við lesendur og segir þeim ekki neitt um neitt. Við þurfum alltaf viðspyrnu við formgerðinni til að geta skilgreint betur í hverju formgerðin felst; og þetta á jafnt við í bókmenntum sem öðru. Algleymi er því kærkomið innlegg í umræðuna, og fyrir hana ber að þakka þótt ég hafi geispað yfir sumum köflunum.

(Víðsjá, 19. nóvember 2008)

Álfrún Gunnlaugsdóttir: Rán

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

Álfrún Gunnlaugsdóttir er einn fárra íslenskra skáldsagnahöfunda sem leitast við að tengja sagnaheim sinn stórviðburðum í mannkynssögunni. Þetta sést auðvitað best á Yfir Ebrofljótið, hinni epísku skáldsögu Álfrúnar frá árinu 2001, sem fjallar um spænsku borgarastyrjöldina. Það er alls ekki hefðbundið að sagnahöfundar smáþjóða geri atlögu að svo stórum viðburðum í verkum sínum, og það má sannarlega kallast hugrekki af hálfu Álfrúnar að stunda slíka tilraunastarfsemi. Nýjasta skáldsaga Álfrúnar, Rán, er af svipuðum toga, því spænska borgarastyrjöldin er líka umfjöllunarefni þeirrar sögu; en þó með allt öðrum hætti. Stríðið er aðeins í bakgrunni sögunnar; frásagnir um það eru afgreiddar framarlega í verkinu með upprifjunum einfætta kráareigandans don Eloy sem barðist sjálfur í stríðinu. Sögusvið Ránar er miklu fremur sá Spánn sem er afleiðing stríðsins heldur en stríðið sjálft. Hér er sagðar sögur frá valdatíma Francos, tímanum þegar venjulegir, spænskir borgarar þora ekki að gagnrýna stjórnvöld nema í hálfum hljóðum, fjölmennar stúdentasamkomur eru leystar upp af litlu eða engu tilefni og yfirheyrslur yfir uppreisnarseggjum enda með því að fórnarlambið dettur út um glugga.

En sjónarhorn Álfrúnar í þessu nýju sögu miðast líkt og fyrr við Íslending í útlöndum; hún heitir Rán og er komin yfir miðjan aldur þegar sagan gerist, líklega farin að nálgast sjötugt. Rán býr í Genf í Sviss og er gift svissneskum manni, Hansjürg. Hún leggur af stað í ferðalag til Íslands þar sem hún þarf að ganga frá erfðamálum, en eiginmaðurinn vill ekki koma með, honum leiðast ferðalög og hverfur þar að auki sporlaust skömmu áður en Rán leggur af stað. Hún millilendir í Barcelona og á þar tveggja daga dvöl. Í þeirri göfugu borg gengst Rán á hólm við fortíðina, en hún var þar við nám á sínum yngri árum, snemma á 7. áratugnum. Í Barcelona kvikna endurminningarnar á hverju götuhorni; Rán horfir inn í sjálfa sig eins og hún er og eins og hún var, og reynir að spegla sjálfa sig andspænis því sleipa fyrirbæri sem kallað er „nútími“. „Hvað var nútími?“ spyr hún sig. „Upplifun fólks sem horfði með eftirvæntingu eða kvíða fram á veginn? Og átti allt eftir? Upplifun fólks er var á miðjum aldri og við völd og sat í feitustu embættunum? Eða upplifun þeirra sem áttu allt að baki?“ Við þessum spurningum á Rán engin örugg svör, en það hefði verið gaman að fylgjast með henni takast á við þær af meiri einurð. Framandleikinn sem Rán upplifir í þessari nútímalegu stórborg verður oftar en ekki kveikja að nostalgískri vandlætingu á ástandi hlutanna eins og þeir eru, og fyrir vikið verður til einhver kvörtunartónn sem hljómar of sterkt í þessari sögu. Þess ber þó að geta að lýsingarnar á Barselónuborg eru með því áhugaverðasta í bókinni, og bersýnilega skrifaðar af yfirgripsmikilli þekkingu á staðnum og sögu hans. Rán heimsækir kirkjur og listasöfn og lætur hugann reika um málverk, styttur og byggingar sem fyrir augu ber. Hvort þetta blandast á sannfærandi hátt við sjálfan söguþráðinn er síðan annað mál; að mínu mati skortir dálítið upp á að úr verði nægilega sterk heild. Útúrdúrarnir er oftast einmitt það – útúrdúrar – og þeir skapa ekki sérlega mikinn stuðning við sögu Ránar sjálfrar.

Rán hefur kynnst nokkrum fjölda fólks um ævina og deilir með okkur þeim ályktunum sem hún hefur dregið um mannseðlið. Þau sannindi eru þó dálítið misvísandi þegar vel er að gáð. Snemma í bókinni er Rán á ferð um borgina sem er í senn gömul og ný í hennar augum: ,,Ég kannast ekki við verslanirnar sem við mér blasa,“ hugsar hún þá. „Staðir taka greinilegri stakkaskiptum en fólk sem oftast varðveitir eitthvað af sínu gamla sjálfi.“ Nokkru seinna í bókinni segir Rán hins vegar: „Hugmyndin um að sérhver manneskja sé óbreytanleg eining, og þar með heilsteypt, fær varla staðist. Að minnsta kosti kemur hún ekki heim og saman við reynslu mína af að vafra um í henni veröld.“ Þetta misræmi er ekki til marks um að einhver breyting hafi átt sér stað í hugskoti Ránar; þvert á móti er lítil sem engin stigmagnandi afhjúpun í þeim endurminningum sem bornar eru á borð – allt er sem það sýnist í upphafi. Sé seinni skoðunin tekin gild má þó finna samsvörun í henni við hið stefnulausa ráf Ránar um borgina með tilheyrandi leigubílaferðum; Rán er hvorki heilsteypt né óbreytanleg heldur ósköp mannleg, og þess vegna mótsagnakennd.

Skáldsagan Rán krefst einbeitingar við lesturinn því skiptingar milli tímasviða eru örar. Framsetningin ber þannig keim af hugarórum aðalpersónunnar; Rán gleymir sér í eigin hugsunum og endurminningum þar sem hún situr eða stendur og er svo kippt aftur inn í nútímann. Sjálf frásagnaraðferðin er svo ekki til að einfalda málið, en Álfrún Gunnlaugsdóttir hefur tekið þá óvenjulegu ákvörðun að segja söguna á víxl í fyrstu og þriðju persónu. Það liggur ekki í augum uppi hvernig þær skiptingar eru ákvarðaðar, þær virðast hálftilviljanakenndar og áhrifin því takmörkuð. En hreyfiaflið í tilverunni, sem er Álfrúnu hugleikið í bókinni, er allrar athygli vert, og sé á annað borð hægt að tala um rauðan þráð í verkinu má segja að hann sé fólginn í hugleiðingum um þetta afl: „Eitthvert afl í tilverunni sá til þess að ekkert stæði í stað, að allt hreyfðist og væri breytingum undirorpið líkt og hver einstök manneskja. Það var óneitanlega heillandi tilhugsun, nema þegar afl þetta gekk eyðingunni á hönd.“ Á heildina litið má segja að þótt skáldsagan Rán hafi ekki til að bera rismikinn stíl og söguþráðurinn sé ekki leiddur til lykta á nógu áhrifaríkan hátt, innihaldi verkið samt geysifróðlegan efnivið. Álfrúnu Gunnlaugsdóttur lætur vel að lýsa hinum þversagnakennda veruleika sem setti svip sinn á Spán á 20. öldinni. Þeir sem eru á leiðinni til Barselóna á næstunni mega a.m.k. ekki sleppa því að lesa Rán, því hún kemur ekki síður að gagni sem ferðahandbók en skáldsaga.

(Víðsjá, 13. nóvember 2008)

Óskar Árni Óskarsson: Skuggamyndir úr ferðalagi

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

Í nýjustu bók Óskars Árna Óskarssonar, Skuggamyndum úr ferðalagi, er að finna stuttan texta sem heitir „Dúskarnir í kjólnum“. Þetta er lýsing á mynd; „ekfrasis“ var slíkt nefnt meðal Grikkja til forna. Skáldið lýsir ljósmynd af móður sinni þegar hún var barn – hún stendur fyrir framan birkistól og er klædd í dökkan kjól. Þeir sem eru vel heima í verkum Óskars Árna átta sig strax á því að hér er gamall texti á ferðinni. Hann birtist áður undir titlinum „Ljósmynd af móður minni sjö ára“ í ljóðabókinni Ljós til að mála nóttina; það var árið 1996. Nú, tólf árum síðar, fáum við svo loks að sjá ljósmyndina sjálfa, en hún er birt með textanum í sinni nýju gerð. En hversu ný er hún, þessi nýja gerð? Nákvæmur samanburður leiðir í ljós að textarnir tveir eru nánast alveg eins, textinn í Skuggamyndum úr ferðalagi og þessi frá 1996. Þetta er raunar aðeins eitt tilvik af átta í þessari nýjustu bók Óskars Árna um smáprósa sem eru teknir úr fyrri verkum höfundar og birtir að nýju. Er Óskar Árni orðinn staðnaður, kynni einhver að spyrja af þessu tilefni. Er hann kominn í þrot með efnivið og byrjaður að bjóða upp á bixímat í stað ferskra rétta? Svarið við þessum spurningum sáraeinfalt, og svarið er nei. Sannleikurinn er nefnilega sá að Óskar Árni hefur aldrei verið ferskari en einmitt núna.

Skuggamyndir úr ferðalagi markar viss tímamót í höfundarverki Óskars Árna Óskarssonar. Tónninn er orðinn jarðbundnari en áður, absúrdkómíkin er næstum horfin og smáprósarnir standa nú mun nær sagnaskáldskap en ljóðlist. Kveikja verksins er rútuferðalag sem höfundurinn fer sumarið 2005. Hugmynd hans er að skoða sig um á ættarslóðum föðurættar sinnar austur á Langanesströnd. Á leiðinni er stoppað á nokkrum stöðum – á Sauðárkróki, Siglufirði, Akureyri, Þórshöfn. Þetta endar með því að verða hringferð, þótt ekki fái austur- og suðurland jafnmikla umfjöllun og norðurlandið. Leiðin sjálf er enda ekki í brennidepli, þetta er ekki tilraun til að teikna upp þverskurð af þjóðinni eins og Huldar Breiðfjörð gerði fyrir áratug með Góðum Íslendingum. Það er fjölskylda skáldsins sjálfs sem er í fyrirrúmi, og þeir staðir sem henni tengjast. Þetta er því persónulegasta verk Óskars Árna til þessa; hann rekur sögur af foreldrum sínum, ömmum og öfum, en það er þó ömmubróðir Óskars Árna sem fær mest rými. Sá maður er Magnús Stefánsson, en hann var einnig þekktur undir skáldanafninu Örn Arnarson. Lítið er til af prentuðum heimildum um Magnús, enda er hér stuðst við bréf hans og væntanlega munnmælasögur líka, auk þess sem skáldað er í eyðurnar. Skuggamyndir úr ferðalagi er því líka kærkomið bókmenntasögulegt innlegg, því sjaldan hefur verið dregin upp eins heilsteypt mynd af þessu merka skáldi.

Þegar fyrri bækur Óskars Árna eru bornar saman við þessa nýju vekur athygli að aðferðin sem höfundurinn beitir við frásögnina er nokkuð breytt. Hingað til hafa smáprósar Óskars Árna gjarnan einkennst af léttgeggjuðu hugarflugi; þeir lýsa smáskrýtnum atvikum, og stundum fær lesandinn á tilfinninguna að frásögninni sé lokið áður en hinn frásagnarverði atburður eigi sér stað. Ég nefni sem dæmi stuttan texta sem ber yfirskriftina „Toronto“ og er að finna í Lakkrísgerðinni, bók frá árinu 2001. Þar er brugðið upp myndum af þremur atburðum sem gerast á jafnmörgum stöðum á landinu. Maður rennir upp buxnaklauf, dósastæða hrynur, sími hringir. Þessir atburðir tengjast ekki að öðru leyti en því að þeir gerast á sama augnablikinu. Svona lagað er ekki að finna í Skuggamyndunum, þar er frásögnin raunsæislegri og sagnfræðilegri. En hið fantastíska er samt sem áður undirliggjandi. Við hrífumst með Magnúsi Stefánssyni þegar hann er átta ára drengur austur á Langanesströnd og fær ortar um sig tvær vísur frá Símoni Dalaskáldi. Í meðförum Óskars Árna verður þetta litla atvik bókstaflega stórbrotið. Inn í þetta fléttast minningar um samferðamenn höfundarins sjálfs. Þar er skylt að nefna hér Geirlaug Magnússon, skáldið á Sauðárkróki, en í lýsingunum á sambandi þessara tveggja skálda fæst tilfinning fyrir því stóra í hinu smáa. Þannig er galdurinn við list Óskars Árna; honum tekst að vefa heillega mynd úr brotum sem við fyrstu sýn virðast ekkert eiga sameiginlegt. Ekkert er sagt að óþörfu og hvert orð er dýrt.

Um „endurvinnsluaðferðina“ sem ég gat um í upphafi má að lokum segja að hún sé leið höfundarins til að sýna gamlar frásagnir í alveg nýju ljósi. Óskar Árni er höfundur sem stendur í nánum og lifandi tengslum við eigin verk, hann endurtúlkar myndir sem hann hefur áður birt okkur og tengir þær nýjum myndum. Smáprósarnir sem eru endurbirtir í Skuggamyndunum eru að mestu óbreyttir, séu þeir lesnir einir og sér, en með samlestri við það sem fylgir með verður túlkunin önnur og víðari. Þannig fáum við t.d. fyrst núna að vita að stúlkubarnið sem fæðist með tólf fingur, og við lásum um í Lakkrísgerðinni fyrir sjö árum, er í raun móðir höfundarins. Textinn „Brjóstamjólk og vínarbrauð“, sem birtist í sömu bók, er að öllum líkindum sagan um fæðingu Óskars Árna sjálfs.

Skuggamyndir úr ferðalagi er grípandi lesning, Skáldskapur með stóru essi. Óskar Árni Óskarsson leiðir okkur í ferðalag „áleiðis áveðurs frá einni tilfinningu / til annarrar“ – í fylgd með honum komum við sífellt að nýjum dyrum. Og

allt í einu

opnast dyr

milli heima,

eins og segir í gömlu ljóði,

veröldin

svo miklu stærri

en þig minnti.

(Víðsjá, 11. nóvember 2008)

Guðmundur Andri Thorsson: Segðu mömmu að mér líði vel

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

„Saga um ástir“ er undirtitill þessarar fimmtu skáldsögu Guðmundar Andra Thorssonar, og er það síst rangnefni, enda vel hægt að fullyrða að ástin sé bindiefni sögunnar. Sögumaðurinn Einar er arkitekt á fimmtugsaldri og býr með öldruðum föður sínum. Hann á einn son úr fyrra sambandi, sambandi sem í raun varð aldrei meira en nokkurra mánaða reytaruglingur. Hann er nú í sambandi með Kötu, konu á svipuðum aldri og hann, þótt þau búi ekki saman. Einar og Kata verða kærustupar á fimmtugsaldri, og hún á líka son úr fyrra sambandi. Dag einn fer Kata norður á Akureyri að heimsækja son sinn, og á meðan lætur Einar hugann reika til liðinna atburða, fólks sem hann hefur kynnst um ævina, gamalla sendibréfa og umliðinna ásta.

Svona er þetta nokkurn veginn, en líkt og með flestar aðrar bækur Guðmundar Andra er þó vart nema hálf sagan sögð þótt reynt sé að endursegja hana. Það er svo margt sem tapast í endursögninni, enda gerist sagan að miklu leyti á öðrum plönum en í söguflækjunni. Hér gerist vissulega eitt og annað, það er greint frá ýmsum frásagnarverðum atburðum, en það er ekki endilega þannig að á milli þeirra sé röklegt samhengi, eða einn atburður leiði af þeim næsta á undan. Frásagnaraðferðin byggist fyrst og fremst á hugleiðingu – sögumaðurinn rifjar upp liðna tíma og veltir vöngum um stöðu sína í heiminum. Þetta má með réttu kallast raunsæisleg aðferð, enda skynjum við veruleikann að miklu leyti sem blöndu minninga og raunverulegra upplifana. Og við vissar kringumstæður er ekkert raunverulegra en einmitt minningarnar.

Tengsl mannsins við umhverfi sitt er eitt af meginstefjum þessarar bókar. Sögumaðurinn Einar er arkitekt og fæst við að hanna rými og búa til íverustaði handa öðru fólki. En hann veit þó að lífið er flóknara en svo að það megi temja með hornréttum veggjum, og veggirnir eru líka lítils virði án fólksins. „Því að hús er ekki bara hús,“ segir hann. „Hús er ekki bara form og litur, ekki bara veggir og gluggar, ekki einu sinni þótt innréttingar bætist við – og ekki einu sinni þó að sushi-réttirnir séu í sétteringum við sólbekkina. Hús er miklu fremur vettvangur. Hús er dagarnir sem liðu, allar næturnar, jólin og fermingarveislurnar, allir búkarnir sem þar hafa búið, allt fótatakið.“  Þetta er hin kunna „in-der-Welt-sein“-formúla Heideggers: Maður og heimur eru ekki tvö sundurgreinanleg fyrirbæri. Heimurinn er ekki aðskilið viðfang frá manninum, maðurinn stendur ekki andspænis heiminum eins og viðskiptavinur andspænis gjaldkera, heldur er heimurinn hluti af manninum. Tilvera mannsins breytist eftir því sem heimurinn breytist.

En Segðu mömmu að mér líði vel er umfram allt bók um samskipti fólks, sambönd og sambandsleysi. Öll sagan er bið eftir símtali. Einar nær ekki í Kötu, hún er með slökkt á símanum, og í biðinni eftir að síminn hringi kvikna minningar um liðna tíma. Þessi bið endurspeglar einhverja stærri bið í lífi Einars og Kötu. „Við vorum að bíða eftir einhverju,“ segir hann. „Við vorum að bíða eftir því að við yrðum ein. Samt vorum við alltaf ein.“ Og Guðmundur Andri Thorsson bregður upp myndum af fleiri samböndum sem kvikna og þróast. Sögunni er vikið aftur á 6. áratuginn þegar foreldrar Einars kynnast, en sú ástarsaga er um leið óður Andra til íslenskrar dægurtónlistar. Ragnar, faðir Einars, er á yngri árum saxófónleikari í Danshljómsveit Binna Frank, og móðir hans gerist söngkona í sömu hljómsveit. Samband Einars við föður sinn er allrar athygli vert, ekki síst fyrir þá þversögn að þeir þurfa fjarlægð hvor frá öðrum til að geta verið nánir. Á námsárum Einars í Danmörku skrifar faðir hans honum fjölda bréfa þar sem hann gerir upp fortíðina og framkomu sína gagnvart eiginkonu sinni. Þær minningar eru langt í frá sársaukalausar. Hinn opni endir sögunnar er líka tengdur föðurnum, það er komið að kaflaskiptum í lífi Einars og hinn mildi húmaníski tónn frásagnarinnar hæfir vel til að búa í haginn fyrir hið kyrrláta og ljóðræna lokaaugnablik; bát á lygnum sjó og ófullgerðan himin.

Segðu mömmu að mér líði vel er hagleikssmíði, og þótt það sé skoðun sögumannsins að maður skynji aldrei hina afmörkuðu stund, virðist mér það einmitt vera hún sem Guðmundur Andri Thorsson geri atlögu að í þessari bók. Yfirborð sögunnar er nefnilega rammbundið samtímanum, þótt kjarninn sé tímalaus. Hér er ýmsum einkennum nútíma og neysluþjóðfélags lýst í góðlátlegum hæðnistón, þótt ekki sé háðið í forgrunni verksins. Atferli og hugðarefni persóna eru líka ákaflega samtímaleg; þetta er ekki fólk sem setur á langar ræður um réttlæti og ranglæti, syndina eða lífsgæðakapphlaupið, heldur venjulegar manneskjur sem fara út að ganga með hundinn, segja börnunum sínum bullsögur, raula lagið úr Rúmfatalagersauglýsingunni og spila badminton. Þjóðfélagslega víddin sem einkennir Íslenska drauminn, skáldsögu Andra frá árinu 1991, er ekki til staðar hér, a.m.k. ekki í sama mæli. En það er óneitanlega upplífgandi tilhugsun að nú, þegar íslenskar sagnabókmenntir snúast að mestu leyti um stóru línurnar, hvort sem það er Íslandssagan eða valdajafnvægið í þjóðfélagi samtímans, skuli finnast höfundar sem leitast við að skoða hversdagslífið á skáldlegan hátt. Guðmundur Andri Thorsson er dæmi um slíkan höfund, og fyrir vikið hlýtur sérstaða hans að vera hafin yfir vafa.

(Víðsjá, 28. október 2008)

Stefán Máni: Ódáðahraun

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

Stefán Máni er þungarokkarinn í hópi íslenskra skáldsagnahöfunda. Í bókum hans hafa íslenskir lesendur um nokkurt skeið átt sér athvarf þar sem hægt er að stilla allt í botn og heddslamma duglega í takt við tryllingslegt gargið. Yfirdrifinn stíll, svæsið ofbeldi, illskan í manninum – allt eru þetta áberandi einkenni á bókum Stefáns Mána. Útkoman hefur auðvitað verið misjöfn eins og gengur, en efnistökin oft með svipuðu sniði. Ódáðahraun, nýjasta afurðin, er biti í þessu sama púsli. Hér segir frá hrottanum og fíkniefnabaróninum Óðni R. Elsusyni og ævintýrum hans. Óðinn er kunnugleg persóna, séu eldri verk sama höfundar höfð til hliðsjónar; metnaðarfullur efnishyggjumaður, eitursnjall demón. Eftir örstutt yfirlit yfir æsku þessarar andhetju á fyrstu síðum bókarinnar fylgjum við Óðni þar sem hann þeysir á kolsvörtum pallbíl út í óbyggðir til fundar við litháenskan dópsmyglara. Þannig fáum við strax tilfinningu fyrir nýstárlegri sýn á háleitt og hrikafullt landslag íslenska hálendisins; hér er það hin hagnýta náttúruskynjun glæpamannsins sem ræður ríkjum, og endurspeglast í titli bókarinnar. Ódáðahraun, stærsta samfellda hraunbreiða landsins, er ekki bara forvitnilegt, náttúrufræðilegt rannsóknarefni eða skáldlegt innblástursefni heldur líka kjörlendi fyrir hvers kyns myrkraverk. Þar sem víðsýnið skín og háfjöllin heilög rísa – þar er líka með góðu móti hægt að grafa lík eða versla með amfetamín án þess að hafa neinar áhyggjur.

En þegar betur er að gáð er nöturlegt hraunið ekki sögusvið verksins nema að mjög litlu leyti, og því undir hælinn lagt hvort bókartitillinn hæfi sögunni, þótt hann sé flottur. Hér er það nefnilega viðskiptalífið sem fær mesta plássið, og þeir sem ætluðu að gleyma sorgum sínum, myntkörfulánum og eignatapi – þeir gætu orðið fyrir vonbrigðum við lesturinn. Spennan í sögunni snýst nefnilega að stórum hluta um kaup og sölu verðbréfa, aukningu hlutafjár, frestun hlutahafafunda og fleira í þeim dúr. Það eru dálítil vonbrigði að Óðinn R. Elsuson, þessi svívirðilegi ofbeldishundur, skuli ekki fá verðugri verkefni í þessari sögu, og er hann þó í mynd næstum allan tímann. Það er lítið um pyntingarsenur og bílaeltingaleiki hér, en þeim mun meira af fjasi um viðskiptamál. Nú er ég ekki að segja að slíkir hlutir séu með öllu óspennandi, og það er alveg ábyggilegt að mér fjármálafróðari menn ættu að geta haft djúpa nautn af því að lesa um þær leikfléttur sem hér eru settar á flot. Stefán Máni hefur heldur aldrei verið þekktur fyrir að vinna ekki heimavinnuna sína: Skipið er t.a.m. skáldsaga sem ber þess greinileg merki að vera skrifuð af fróðleiksfúsum höfundi sem hefur sjálfur verið á sjónum og kjaftað við reyndustu togarajaxla. Og gleymum ekki Svartur á leik, doðrantinum sem Stefán Máni skrifaði eftir gaumgæfilega rannsóknarvinnu meðal dílera og handrukkara.

En samslátturinn sem virðist vera markmið Ódáðahrauns, gagnkvæm speglun glæpa og viðskipta, finnst mér bara ekki ganga upp. Líkamlegt ofbeldi og kænska í viðskiptum eru, þrátt fyrir allt, ekki sami hluturinn, og það er frásagnarfræðilegur slóðaskapur að láta sögupersónu grípa til þess fyrrnefnda þegar hún kemst í þrot með hið síðarnefnda. Óðinn R. Elsuson er einhliða karakter, fulltrúi fyrir heim glæpa og fíkniefna, en sú hlið hans fellur alveg í skuggann þegar hann eltist við vísbendingarnar sem honum er gert að vinda ofan af, hvað þá í atriðunum þegar hann situr áhugalaus og geispar undir löngum romsum Viktoríu, samverkakonu sinnar, um aðsteðjandi ógnir í átökum um hlutabréfin. Upplýsingaflæði sögunnar felst að verulegu leyti í þessu sambandi meistarans og lærlingsins. Óðinn er lengst af fullkomlega tómlátur um þá flóknu vefi viðskiptalífsins sem hann flækist í, en svo allt í einu, eins og upp úr þurru, verður algjör viðsnúningur, og hann tekur málin í sínar hendur.

Persónusköpunin í Ódáðahrauni er hvorki tilþrifamikil né eftirminnileg – til þess er söguflækjan of yfirþyrmandi. Meitlaðir frasarnir sem enduróma sem mottó í upphafi hvers kafla, bæta þar litlu við. Þá gríðarlegu keyrslu sem einkenndi frásögn Skipsins er hér hvergi að finna, m.a. vegna þess að hér er aðeins ein aðalpersóna sem nær einhverju máli, en ekki níu, og þar með enginn möguleiki á hröðum skiptingum milli sögusviða, aðeins einn þunnur þráður en ekki margir súrraðir saman. Yfirborðslegar vísanir í norræna goðafræði og klaufalegur ástarsögu-útúrdúr duga heldur ekki til að setja neina vigt í textann.

Að lokum má nefna að skáldsagan Ódáðahraun hefur í auglýsingum verið kölluð „grafskrift íslenska hlutabréfaævintýrisins“, hvorki meira né minna, og má af því ráða að hér sé eitthvert hugmyndafræðilegt uppgjör í gangi, einhver róttæk endurskoðun á viðhorfunum í Íslandssögu allra síðustu ára, í takt við það sem nú heyrist í öllum fréttatímum. Ekkert er hins vegar fjær sanni. Ódáðahraun er ekki tímabærari núna heldur en hún hefði verið fyrir, segjum, tveimur árum, því hún er ekki bara algjörlega hefðbundin í forminu, heldur hvílir hugmyndaheimur verksins á því óorðaða viðhorfi að bisnissheimurinn sé hinn æðsti vettvangur mannlegrar hugmyndaauðgi, að klækir í viðskiptum séu aðdáunarverðir, vel heppnaðir bissnissdílar frábært söguefni. Að skreyta slíka hálfvelgju með merkimiðanum „grafskrift“ þykir mér þess vegna nokkuð djúpt í árinni tekið, og eiginlega hálfgerð öfugmæli.

(Víðsjá, 23. október 2008)

Ármann Jakobsson: Vonarstræti

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

Íslensk stjórnmálasaga er sambærileg við fótbolta að því leyti að hún verður áhugaverðari ef maður á sér uppáhaldslið. Ef samúð okkar og væntingar eiga sér fulltrúa á átakavelli sögunnar verðum við næmari fyrir samhengi og átakalínum, og við munum hlutina betur. Í þessu felst oft styrkleiki sögulegra skáldsagna: Þær eru gjarnan skrifaðar út frá sjónarhóli einhvers þáttakanda í atburðarásinni í stað þess að reyna að lýsa málunum hlutlaust og að ofan. Aðalpersónurnar fá þá það rými sem þær þurfa til að standa skil á sinni afstöðu og andstæðingar þeirra eru gagnrýndir, hafi þeir til þess unnið.

Vonarstræti Ármanns Jakobssonar er glimrandi dæmi um svona sögu. Þetta er heimildaskáldsaga, og hún er ekki síst áhugaverð vegna þess að höfundurinn leyfir sér að hafa skoðanir á þeim atburðum sem hann lýsir. Fyrir vikið færist meira líf í textann og við fáum á tilfinninguna að hér tali höfundur sem láti söguna skipta sig einhverju máli. Hjónin Skúli og Theódóra Thoroddsen eru hér í forgrunni, og aðdáun Ármanns á framgöngu þeirra leynir sér ekki. Þetta ber þó ekki að skilja svo að verkið sé ein samfelld lofrulla um Skúla og Theódóru, því veikleikar þeirra og sérviska eru líka dregin fram. Það er t.a.m. fullyrt að Skúli hafi oft sett þjóðmálin ofar fjölskyldunni. Síðustu æviárin einangrast Skúli frá konu sinni og börnum; hann borðar einn inni á vinnustofu sinni en ekki inni í eldhúsi með hinu fólkinu. Og þótt mótstöðumenn Skúla séu sýndir í gagnrýnu ljósi eiga þeir líka sín fallegu augnablik. Ein áhrifaríkasta mynd sögunnar er myndin af Hannesi Hafstein þar sem hann situr hnipinn á kirkjubekk í jarðarför Skúla vorið 1916.

Skúli og Theódóra Thoroddsen voru gáfað og hugmyndaríkt fólk, og fyrir vikið er með góðu móti hægt að gera tal þeirra og hugsanir að farvegi fyrir alls kyns frjóar vangaveltur. Það er líka forvitnilegt hvernig skyggnst er á bak við tjöld sögunnar í þessu verki: Þegar millilandanefndin fer heim til Íslands verða Skúli og Theódóra ein eftir í Kaupmannahöfn því Skúli liggur veikur á sjúkrahúsi. Stuðningsmenn Skúla reyna hvað þeir geta að gera lítið úr sjúkrahúslegunni, því það gæti orðið málstaðnum til trafala ef helsti málsvari hans sýnir veikleikamerki. Þannig er sýnt fram á bilið á milli hinnar opinberu ímyndar og þess sem raunverulega gerist. En hér er þó fjöldi annarra persóna en bara Skúli og Theódóra, og flestar eru þær byggðar á raunverulegu fólki. Kennarinn Ármann Jakobsson hefur kosið að birta nafnalista aftast í bókinni þar sem sögð eru deili á flestum persónunum.

Vonarstræti er vel afmörkuð skáldsaga, stutt og snörp. Hún gerist að stærstum hluta árið 1908, frá því að millilandanefndin kemur til Kaupmannahafnar í febrúar og þar til Uppkastið er fellt í kosningum í september. Þessi tiltölulega stutti sögutími er þó aðeins skurðpunktur annarra og viðameiri þráða sem ná yfir mun lengri tímabil, bæði til fortíðar og framtíðar. Sögupersónur eru hér skoðaðar bæði í ljósi þess sem þær hafa áður gert og þess sem þær eiga eftir að gera mörgum árum seinna. Theódóra Thoroddsen stendur hér mitt á milli þess að vera unga sýslumannsfrúin sem stendur við hlið bónda síns í Skúlamálum, og þess að vera þuluskáldið Theódóra, kommúnistinn Theódóra og einn af brautryðjendum módernískrar ljóðagerðar á Íslandi. Þannig er mannskilningur þessarar skáldsögu: Sérhver manneskja er summa af reynslu og möguleikum. Einhver kynni að segja að hér sé skáldskapurinn farinn að þoka fyrir sagnfræðinni, rithöfundurinn Ármann Jakobsson fyrir fræðimanninum. En að mínu mati er þetta einmitt áhugaverðasta hlið verksins. Vonarstræti spannar ekki langan tíma, en sögumaðurinn smíðar ótalmargar brýr yfir í önnur tímabil; söguleg yfirsýn er hér m.ö.o. afar mikil. Sagan er sögð frá sjónarhóli þess sem þekkir afdrif og arfleifð sögupersónanna og framtíðin er notuð sem mælikvarði á atburði í fortíðinni, ekki ósvipað og í sagnaflokki Péturs Gunnarssonar, Skáldsögu Íslands, svo hliðstætt dæmi sé tekið.

Í Vonarstræti er líka brugðið á leik með hefðbundnar söguskýringar og túlkanir. Þannig er t.d. vakin athygli á þeirri lítt kunnu en augljósu staðreynd að róttæklingurinn Skúli Thoroddsen var líka mikilvirkur kapítalisti; hann stundaði verslunarrekstur og var leikinn að græða peninga; miklu meiri bissnessmaður en t.d. Hannes Hafstein, sem þó hefur lengi verið átrúnaðargoð íslenskra viðskiptajöfra.

Vonarstræti er skrifuð af innlifun – ég segi ekki af sama hamslausa ákafanum og Ofviti Þórbergs, þar sem lýst er stjórnmálabaráttu sama tímabils – en áhrifin af lestrinum eru allténd þau að þessi lokasprettur sjálfstæðisbaráttunnar verður giska áþreifanlegur: Uppkastið, blaðamannafrumvarpið, útisamkoman í barnaskólaportinu – allt verður þetta jafn ljóslifandi og bankakreppa, skortsala, stýrivextir. Því þetta er þjóðfélagsleg saga, og víst er að hér er nægur efniviður til að koma á tengslum milli sögutímans og okkar samtíma, láta 1908 kallast á við 2008. Nú þegar hæst er hrópað um að allir Íslendingar þurfi að snúa bökum saman, við séum öll á sama bátnum í sama brimrótinu og þar fram eftir götunum, þá er sannarlega tilefni til þess að rifja upp söguna af Skúla og Theódóru – og draga af henni þá lærdóma sem okkur þykja viðeigandi.

(Víðsjá, 21. október 2008)

Vilborg Davíðsdóttir: Hrafninn

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

Söguhetjan er munaðarleysingi. Það eru galdrar í þessari sögu, frumstæður þjóðflokkur, mentor í hrafnslíki, hjálparhella sem er hundur, spilltir trúarleiðtogar, forboðin ást – bætum við nokkrum söngatriðum og útkoman er Disneyteiknimynd. Nei annars, þetta er ekki alveg svo einfalt. Þótt Hrafninn eftir Vilborgu Davíðsdóttur sæki talsvert í formúlubókmenntir er bara þónokkuð kjöt á (og jafnvel spik) á beinunum líka.

Hrafninn er saga um tvo heima. Aðalpersónan, inúítastúlkan Naaja, tilheyrir í raun hvorugum þeirra. Á sínum heimaslóðum er hún jaðarsett, hún fellur ekki inn í ríkjandi norm, ekki síst fyrir þá sök að hún getur ekki eignast börn og á þannig yfir höfði sér að vera útskúfuð sem blindgata í vegakerfi ættstofnsins. Þótt hún ferðist yfir í heim hvíta mannsins tekur ekki betra við þar, þetta er um miðja fimmtándu öldina og hugmyndir norrænna manna um frumbyggja Grænlands eiga sér djúpar rætur í hræðslu og fáfræði.

Saga Naaju kallast á við eitt og annað úr fyrri bókum Vilborgar, hún er systir þeirra Korku og Katrínar, rétt eins og þær er hún í sífelldri leit að samastað og viðurkenningu. Stærstur hluti sögunnar er sagður frá sjónarhorni Naaju og það er athyglisvert hvernig gildismat hennar og annarra inúíta í sögunni togast á við skilning hins innbyggða lesanda. Víðast hvar ganga inúítarnir út frá því sem staðreynd að hvítu mennirnir séu ekki manneskjur eins og  þeir sjálfir. Í lýsingum Naaju á háttum hvítu mannanna hefur hún alltaf til samanburðar þá siði sem eru „eðlilegir” í hennar augum, og nefnir gjarnan hvernig atferli hvíta mannsins er ólíkt því sem tíðkast hjá „venjulegu fólki”. Þannig er hin viðtekna, sögulega miðja skilgreind á forsendum jaðarsins. Um miðbik sögunnar er sjónarhornið víkkað út þegar önnur aðalpersóna stígur fram – Mikjáll, Íslendingur sem hefur búið á Grænlandi frá 12 ára aldri. Upp frá því er vitundarmiðjan hjá Mikjáli og Naaju til skiptis. Mikjáll kynnist Naaju þegar neyðin rekur hann til þess að eiga nánari samskipti við innfædda heldur en viðurkennt er að kristnum mönnum sé óhætt. Í augum hinna norrænu eru frumbyggjar Grænlands óheillaverur, hálfmennsk dýr sem hafa engan skilning á gegndinni og kristnu siðaboði.  Í samskiptum Naaju og Mikjáls rekast á tveir menningarheimar og af þeim árekstrum spretta ýmsar frjóar hugleiðingar í Hrafninum. Þau misskilja háttalag hvort annars í sífellu. Sá eini sem veit allan sannleikann er lesandinn, þökk sé frásagnaraðferðinni sem er frásögn hins alvitra sögumanns. Þannig felst í Hrafninum viss könnun á merkingu atferlis, einskonar mannfræðistúdía. Naaja og Mikjáll fylgjast hvort með öðru, annað grannskoðar athafnir hins og getur stundum ómögulega greint á milli þeirra sem eru hlaðnar merkingu og ásetningi, og hinna sem eru merkingarlausar. Naaja gengur um hálfber í híbýlum sínum og finnst ekkert athugavert við það, en Mikjáll túlkar það sem siðleysi. Hin taugaveiklaða trúarafstaða norrænna manna er sömuleiðis eitthvað sem Naaju gengur illa að skilja, rétt eins og sú sterka einstaklingshyggja sem setur svip sinn á samfélag þeirra.

Það er snemma nefnt að augu Naaju eru „full af sjó” eins og hinir inúítarnir orða það – þau eru blá en ekki brún og fyrir vikið þarf hún að mæta miklum mótbyr hjá sínu eigin fólki. Það sem hún ekki veit fyrr en hún er komin til vits og ára er að hún á ættir að rekja til hvítra manna, og er þess vegna gædd eiginleika sem er framandi á hennar heimaslóðum. En auðvitað dugir þetta ekki til viðurkenningar hjá landnemunum heldur. Samband Naaju og Mikjáls er merkt glötuninni frá upphafi, það getur ekki enst því það er andsnúið siðalögmálum beggja heimanna. Mikjáll sjálfur á sér ófínan uppruna í fjarlægri fortíð. Þau eru því bæði „mitt á milli” í vissum skilningi. En ferðalagið á milli heimanna tveggja staðfestir söguskoðun sem er ríkjandi á okkar dögum, og því kannski ekki sérstaklega frumleg: Kreddurnar og þröngsýnin í menningu og trúarbrögðum hvíta mannsins er engu minni en það sem tíðkast hjá inúítunum. Það sem kallast vestræn siðmenning á 15. öld grundvallast á tvöfeldni og sérhagsmunahyggju. En þessi tíðarandaádeila Hrafnsins á í nokkurri togstreitu við fantastísk einkenni sögunnar – Naaja er sem sagt göldrótt, hún hefur verið útvalin til þess að vera angakoq, þ.e.a.s. nokkurs konar andaprestur meðal inúíta. Vilborg Davíðsdóttir lætur sér þannig ekki nægja að draga upp mynd af taugaveikluðum, norrænum mönnum og bregða gagnrýnu ljósi á þær villuhugmyndir sem ríktu í kynþáttamálum á 15. öldinni, heldur skapar hún aðstæður þar sem slíkar hugmyndir fá að einhverju leyti byr undir báða vængi. Þessar aðstæður eru í eðli sínu yfirnáttúrulegar, enda er Naaja enginn venjulegur inúíti. Hún er útvalin af æðri máttarvöldum til þess að miðla á milli manna og guða – hjálparandar inúítanna anda í gegnum hana. Þessi eiginleiki hennar kemur heim og saman við þær hefðbundnu villuhugmyndir sem hvítu mennirnar gera sér um inúítana. Í augum margra þeirra eru hinir heiðnu skrælingjar nátengdir myrkum öflum.

Hrafninn er hugvekja um stað og staðleysi. Naaja horfir inn í tómið og tómið horfir inn í hana. Og þótt lausnin á þrautagöngunni jaðri við að vera deus ex machina er ýmislegt heillandi við niðurlag sögunnar, ekki síst upprifjun Naaju á helstu atriðum ævi sinnar, eins konar samantekt sögunnar allrar. Ég man ekki eftir að hafa séð neitt þessu líkt annars staðar en í To Kill a Mockingbird eftir Harper Lee. Sagan endar svo á atriði sem er óbeint framlag til þess að skýra gátuna um brotthvarf norrænna manna á Grænlandi. Það er ljóst að Vilborg Davíðsdóttir hefur ekki kastað til höndunum í sagnfræðilegri og landfræðilegri rannsóknarvinnu, og fyrir vikið er Hrafninn jarðbundin og vitsmunaleg saga, blönduð með hóflegri spennu og fantasíu. Hér eru engin veruleg nýmæli á ferðinni heldur dágóð dægradvöl.

(Víðsjá, 6. janúar 2006)