Posts tagged: Íslenskar skáldsögur

Óttar M. Norðfjörð: Barnagælur

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

„Barnagælur” – titillinn einn og sér kallar fram ónotakennd þegar maður veit um hvað þessi bók fjallar. Hér er botnlaus írónía á ferðinni, orðið endurspeglar sjúkleg viðhorf aðalpersónunnar sem finnst ekkert rangt við að börn fái að eiga í kynferðislegum samböndum við fullorðið fólk. Orðið „barnagælur” er í meðförum Óttars Norðfjörð skrauthvörf fyrir það sem venjulega er kallað níðingsskapur eða misnotkun á börnum.

Sagan er í stuttu máli þessi: Pétur B. Ásgeirsson er tæplega þrítugur lögfræðingur, frjálshyggjumaður og þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hann er einn vörpulegasti sonur íslenskrar yfirstéttar, fyrrum Morfíshetja, Inspector Scholae úr MR og framherji hjá KR, formaður Vöku og blaðamaður á Mogganum. Hann á fallega kærustu og birtist reglulega á síðum glanstímarita. En undir glæstu yfirborðinu er Pétur illa innrættur þrjótur, ofbeldisfullur hrotti, morðingi, og barnaníðingur. Kynhneigð hans hverfist um stelpur á aldrinum 6 til 9 ára og til að svala fýsnum sínum hefur hann gert samning við reykvíska dagmömmu um að fá reglulega aðgang að stelpunum sem hún passar og nauðga þeim gegn greiðslu. Einhverju sinni fyllist Pétur ótta um að leyndarmálið hans hafi komist upp, hann minnir að hann hafi ljóstrað því upp við einn kollega sinn á fylleríi. Til öryggis kemur hann félaganum fyrir kattarnef. Í morðrannsókninni sem fylgir í kjölfarið beitir Pétur svo áhrifum sínum til þess að beina sjónum lögreglunnar frá sjálfum sér.

Andstæðan á milli hinna tveggja persónuleika Péturs B. Ásgeirssonar er ekki sýnd með stigmagnandi afhjúpun heldur er ljóst frá byrjun að hann er illmenni. Á fyrstu síðum bókarinnar fær Pétur þær fréttir að móðir hans hafi dáið í bílslysi en hann verður ekkert sorgmæddur, bara pirraður, nennir ekki að standa í þessu veseni sem hann sér fram á að tilheyri því að fylgja ástvini til grafar. Bilið á milli þess sem Pétur þykist vera og þess sem hann er í raun og veru er svo mikið að það verður eiginlega kjánalegt, of augljóst einhvern veginn – hann fer t.a.m. í viðtöl og talar um mikilvægi þess að bæta hag nýbúa en er svo stækur kynþáttahatari inn við beinið.

Barnagælur sækir bersýnilega fyrirmynd í eldri sögur sem fjalla um díalektíkina á milli ríkjandi siðalögmála og þess demóníska sem býr innra með manninum. Það sem er nýstárlegt við bók Óttars Norðfjörð er ýkjustíllinn, hér er allt keyrt í botn og viðbjóðslýsingarnar svo vægðarlausar að þær eru ekki hafandi eftir í virðulegum fjölmiðli eins og þessum. Þetta er bók sem reynir á þanþol siðferðisviðhorfa og reynir hvað eftir annað að ögra lesandanum. Óttar Norðfjörð slær ítrekað saman tvennum öfgum – því „flottasta” í samfélaginu, þ.e. sjarmerandi persónuleika, ímynd, stíliseringu og hressileika, og því ljótasta (misnotkun barna). Hugmyndin virðist vera sú að láta þetta tvennt varpa ljósi hvort á annað og sýna fram á að þetta séu tvær hliðar á sömu geggjuninni sem ríkir í nútímanum.

Snemma við lesturinn vaknaði þó hjá mér þessi spurning: Er ég að lesa ádeilusögu? Og ef svo er, á hvað er þá verið að deila? Það er varla hægt að horfa fram hjá pólitískum skírskotunum þessarar bókar en andófsþátturinn virðist vera dálítið vanhugsaður. Pétur B. Ásgeirsson er jú í Sjálfstæðisflokknum, hann er góðkunningi Hannesar Hólmsteins og forsætisráðherrans D, og yfirlýstur frjálshyggjumaður. Það er eins og boðið sé upp á þann möguleika að setja einhver rökleg tengsl á milli barnamisnotkunar og hugmyndafræði frjálshyggjumanna. Þetta er auðvitað ekki sérlega sannfærandi kenning, en líkt og með öll skáldverk sem taka á umdeildum málum getur skapast hætta á því að viðtökur þessarar bókar snúist upp í meðvirkni með höfundinum á grundvelli þess að hann sé sömu skoðunar og lesandinn, að lesandinn taki viljann fyrir verkið og fyrirgefi ýmsa vankanta á verkinu (sem sannarlega eru til staðar hér) þar sem boðskapurinn sé svo góður. Að mínu mati fellur pólitískt andóf Barnagæla um sjálft sig einmitt vegna þess hversu öfgakenndur framsetningarmátinn er. Þeim sem gagnrýna Sjálfstæðisflokkinn er lítill greiði gerður með þessari bók, ekki frekar en íslenskum náttúruverndarsinnum var nokkur ávinningur að græna skyrinu sem var slett á Hótel Esju í sumar.

Ofstopafullur stíllinn setur líka strik í reikninginn þegar kemur að því að meta hvort Barnagælur sé áhrifarík sem hugvekja um barnamisnotkun og meinlegar afleiðingar hennar. Ófögnuðurinn í sögunni er svo yfirþyrmandi að hann missir eiginlega tengslin við raunveruleikann. Reynslusögur þeirra sem hafa orðið fyrir kynferðislegri misnotkun í æsku eru að sönnu ófagrar flestar. Það þarf því ekki að halda að í Barnagælum sé verið að gera kynferðislega misnotkun barna ógeðfelldari en hún er í raun og veru. Það sem hins vegar grefur undan andófinu er samspilið við aðrar birtingarmyndir illskunnar, sú ofboðslega áhersla sem er lögð á að gera Pétur að eins miklu skrímsli og mögulegt er. Hann er ekki bara barnaníðingur heldur líka hræsnari, hrokagikkur, kvenhatari, útlendingahatari, kynþáttahatari, morðingi – og mannæta. Það er m.ö.o. fátt mannlegt í fari þessarar persónu, og fyrir vikið hættir hann smám saman að vera trúverðugt illmenni í okkar augum en verður karíkatúr af illmenni.

Þegar þessi stutta saga fer að jaðra við að verða of langdregin sækir hún í vopnabúr glæpasögunnar til að halda manni við efnið. Eini raunverulegi lestrarhvatinn í síðari hluta bókarinnar er óvissan um það hvort upp kemst um morðið sem Pétur fremur eða ekki. Þetta eru auðvitað talsverð vonbrigði, og dæmi um hversu lúmsk glæpasagnavæðingin getur orðið – eins og skáldsaga teljist aldrei fullgild fyrr en það er búið að drepa einhvern í henni.

Sá sem skrifar sögu eins og Barnagælur getur þar af leiðandi varla talist í hópi hugsjónaskálda sem lýsa upp myrk skúmaskot og bjóða okkur að bergja af beiskum kaleik, heldur miklu fremur svona „flippaður gaur”, ólíkindatól, rokkari, „ný og fersk rödd” eins og einhver með takmarkað hugmyndaflug gæti orðað það. Barnagælur er að mínu mati skot yfir markið, hún er aðallega vitnisburður um gjaldþrot hneykslunarbókmenntanna í heimi þar sem má segja allt og möguleikar skáldsögunnar felast frekar í öðru en að hneyksla. Því þegar öll kurl eru komin til grafar eru bækur sjaldnast sjokkerandi þegar þær rembast sem mest við að sjokkera.

(Víðsjá, 13. desember 2005)

Kristján Þórður Hrafnsson: Hinir sterku

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

Það heyrir til undantekninga að persónur í skáldsögunni Hinir sterku eftir Kristján Þórð Hrafnsson beri nafn. Flestar eru þær nafnlausar, þar á meðal aðalpersónan sem er ung kona. Nafnleysið má hæglega túlka sem part af hinum hlutlægu efnistökum sögunnar; þetta er ekki saga sem er rígbundin þeim stað og tíma sem hún gerist í, skírskotanir hennar eru almennar, fjallað er um sammannleg viðfangsefni og það þyrfti alveg áreiðanlega ekki að bæta neinum neðanmálsgreinum til skýringar við þessa sögu ef hún væri þýdd yfir á annað tungumál.

Hinir sterku er saga um átök, bæði á sviði einkalífsins og á sviði hugmynda um hið opinbera rými. Togstreitan á milli einkalífs og opinbers lífs, eða „litla heimsins” og „stóra heimsins” eins og þeir eru nefndir í sögunni, eru í forgrunni. Aðalpersóna sögunnar er það sem stundum er kallað „opinber persóna”, landsþekkt sjónvarpskona sem stýrir umræðuþætti um fréttir og dægurmál. Kristján Þórður hefur þannig valið sér hefðbundið frásagnartæki til þess að miðla hugmyndum um mörkin á milli hins opinbera og einkalega,  og samspilið og togstreituna sem er þarna á milli. Þetta eru, eins og allir vita, mál sem hefur borið nokkuð oft á góma í umræðunni að undanförnu, en þó er Hinir sterku annað og meira en bara dauft endurvarp einhvers sem við þekkjum úr blöðum og sjónvarpi. Það er að mörgu leyti aðdáunarvert hvernig þessar hugmyndir, og fleiri, eru lagaðar að sögunni.

Ramminn sem hér er hafður utan um vangaveltur um deilur í einkalífinu er saga um skilnað. Hin nafnlausa aðalpersóna er í sambúð með manni, Ómari, og saman eiga þau son á leikskólaaldri. Í sambandi þeirra eru brestir frá upphafi, Ómar er hræddur við skuldbindingar og eftir því sem velgengni konu hans í fjölmiðlum eykst verður hann smám saman afbrýðisamur. Hann er upptekinn af ímynd konu sinnar, og það er oft eins og hann geti ekki greint alveg á milli þáttastjórnandans og eiginkonunnar. Sjálf er hún ekki fullfær um það heldur, hún fer oft ósjálfrátt í sjónvarpsstellingarnar þegar hún á í samræðum við eiginmann sinn eða aðra nákomna, og reynir þá að finna alla þá fleti á máli viðmælandans sem hægt er að andmæla, draga fram mótrökin burtséð frá því hverjar hennar eigin skoðanir eru. Með tímanum hverfur einlægnin úr sambandinu, og einn daginn kemst aðalpersónan að því að Ómar heldur fram hjá henni.

Fyrstu viðbrögð Ómars við vitneskju eiginkonu sinnar um framjáhald hans er ekki eftirsjá heldur reynir hann að réttlæta verknaðinn út frá því að þetta hafi verið nauðsynlegt fyrir sálrænan þroska hans sjálfs. Talar um að tilveran sé orðin svo miklu flóknari en hún var og fyrirkomulagið á samböndum fólks sé að breytast. Látið er að því liggja að þessa lífssýn hafi Ómar þegið frá föður sínum, en sá er eins konar fulltrúi ’68-kynslóðarinnar í þessari sögu. Ómar víkur sér alltaf undan því að tala um föður sinn, hann skildi snemma við móður Ómars því honum fannst of heftandi að lifa í hjónabandi. Faðir Ómars talar jafnan um byltingu ’68-kynslóðarinnar sem mestu gæfu mannkynsins, með henni var stigið stórt skref í átt til þess frjálsræðis sem í hans augum er lykillinn að lífshamingjunni.

Hugmyndin um áhrif uppeldisins er því sínálæg þegar Ómar er á sviðinu. Konan hans flytur burt frá honum og þarf í kjölfarið að skipuleggja líf sitt frá grunni. Ýmsar veigamiklar spurningar vakna í huga hennar, um byrðina sem fylgir því að vera landsþekkt, um hið ókunna í sálarlífi fólks sem maður taldi sig þekkja, um hjónabandið – er það ljúf skylda eða þrúgandi ok? – og um það sem tengir fólk sem er hætt að vera saman, t.d. börn skilinna foreldra.

Það er mikil sálfræði í Hinum sterku, stundum svo mikil að manni þykir nóg um. Mat sögumannsins á sálarlífi persónanna er stundum dálítið fyrirferðamikið, við fáum ekki að draga ályktanirnar því þær hafa flestar verið dregnar fyrir okkur. Fyrir vikið verður stíllinn eilítið fáfengilegur; átökin sem eiga sér stað í sögunni endurspeglast ekki í hljómfalli textans sjálfs, þetta er ekki texti sem logar – heldur minnir hann á hagnýtar leiðbeiningar fyrir fólk í samskiptavandræðum. Hinir sterku er að mörgu leyti líkari sjálfshjálparbók en skáldsögu.

Hugmyndaátök á sviði þjóðmála eru líka veigamikill þáttur í þessari sögu, og sem farveg fyrir þau hefur Kristján Þórður valið sér stærstu mýtu samtímans: Nýfrjálshyggjuna. Ómar og félagar hans eru sannfærðir um kosti ótakmarkaðrar einkavæðingar, þeir vilja afnema allan opinberan stuðning og leyfa lögmálum markaðarins að njóta sín ótrufluðum. Aðalpersónan er á öndverðum meiði, hún telur að nýfrjálshyggjan sé fyrst og fremst knúin áfram af viljanum til að ögra. Af þessu kvikna margar áhugaverðar vangaveltur, gagnstæðar skoðanir eru vegnar og metnar, og skoðaðar í ljósi lykilhugtaks sögunnar, en það er hugtakið styrkur. Hver er sterkur og hver veikur? Stundum er fólk sterkt á einu sviði en veikt á öðru, og þeir sem tala hvað hæst um trúna á einstaklinginn eru stundum þeir sem eru mestrar hjálpar þurfi sjálfir. Ein persóna bókarinnar er dæmi um slíkan mann, en það er Þór, vinur Ómars, allra ákafasti nýfrjálshyggjumaðurinn. Honum er brugðið upp sem fegrandi andstæðu við aðalpersónuna, en rétt eins og hún lendir hann í hremmingum í einkalífinu: Bæði eiga þau maka sem heldur fram hjá þeim og þurfa að upplifa gríðarlega höfnun af þeim sökum. Það er írónískt að aðalpersónan, sem lengi hefur talað fyrir daufum eyrum eiginmanns síns og vina hans um gildi þess að hjálpast að, nær að vinna úr sínum vandamálum nokkurn veginn óstudd, en Þór sem er talsmaður þess að manneskjan sé í eðli sínu skynsöm, hver sé sinnar gæfu smiður og það þurfi ekki að hafa vit fyrir öðrum – hann nær ekki að halda sjálfum sér réttu megin við strikið.

Uppistaðan í Hinum sterku er orðræða um siðfræði og samskiptahætti fólks. Hér er mikið um áhugaverðar speglasjónir, en skáldskapareinkennum bókarinnar er nokkuð ábótavant, eftirminnilegar persónur eru fáar og lítið um stílgaldra. Persónulýsingar í þessari sögu líkjast gjarnan skýrslum þar sem farið er í saumana á einkennum hvers einstaklings fyrir sig, skref fyrir skref í röklegri röð. Það sem gerir bókina hins vegar lestrarins virði er það mikla innsæi sem er fólgið í höfundarafstöðu hennar, hún er skrifuð af einlægni og fjallar hreinskilnislega um hluti sem við mættum flest velta fyrir okkur oftar.

(Víðsjá, 1. desember 2005)

Ólafur Gunnarsson: Höfuðlausn

Hjalti Ægisson, ágúst 10, 2010

Mér telst svo til að Höfuðlausn sé fjórða sögulega skáldsagan sem Ólafur Gunnarsson skrifar; hinar þrjár eru Tröllakirkja, Vetrarferðin og Öxin og jörðin. Það er athyglisvert að skoða þá þróun sem frásagnaraðferð Ólafs hefur gengið í gegnum með þessum bókum. Í tveimur þeim fyrstu er sagt frá atburðum og persónum sem eru meira og minna uppdiktuð, enda er athugasemd frá höfundi fremst í báðum bókunum þar sem tekið er fram að sögurnar hafi „ekkert sagnfræðilegt gildi”. Slíka athugasemd er ekki að finna í Öxinni og jörðinni, enda má með réttu segja að sagnfræðilegt gildi þeirrar bókar sé öllu meira – hún fjallar jú um persónur sem voru til í raun og veru og atburðarásin er sannsöguleg í aðalatriðum. Í þessari nýjustu skáldsögu Ólafs, Höfuðlausn, er eins og höfundurinn fari bil beggja; aðalpersónurnar eru tilbúningur, en útgangspunktur sögunnar er uppákoma sem gerðist í alvöru – nánar tiltekið koma kvikmyndagerðarfólks frá Nordisk Film til Íslands sumarið 1919 til þess að filma Sögu Borgarættarinnar eftir Gunnar Gunnarsson. Það má teljast til nokkurra tíðinda að Ólafur hefur í þessari bók sagt skilið við þann alvitra söguhöfund sem hefur verið ráðandi í bókum hans síðasta rúma áratuginn, hér er notuð fyrstu persónu frásögn, og fyrir vikið verður stemmningin öll einlægari og stíllinn fíngerðari. Það er Jakob Ólafsson, bílstjóri í Reykjavík sem segir söguna af kvikmyndagerðinni í fyrri hluta bókarinnar. Jakob gerist viðriðinn ævintýrið með því að veita danska kvikmyndafólkinu liðsinni sitt, bæði sem leikmyndasmiður og bílstjóri. Það gengur á ýmsu við gerð myndarinnar, það þarf að fresta tökum vegna veðurs, leikstjórinn og handritshöfundurinn verða ósáttir, aðalleikkonan á í basli með einkalífið og þar fram eftir götunum. Jakob verður ástfanginn af Elisabet Jacobsen, danskri kvikmyndastjörnu, sem daðrar óspart við hann í því skyni að gera eiginmann sinn afbrýðisaman.

Það fyrsta sem hægt er að staldra við í þessum fyrri hluta Höfuðlausnar er  sjálft plottið, eða grunnhugmyndin: Saga af kvikmyndatökum þar sem alls kyns vandamál skapast. Ég man í svipinn ekki eftir mörgum sögum sem fjalla um kvikmyndagerð, það er helst að maður muni eftir kvikmyndum sem fjalla um kvikmyndagerð; State and Main, The Aviator, Ed Wood, Living in Oblivion, og svo kannski eitt leikrit: Með fulla vasa af grjóti. Nema hvað, að það er eins og alltaf þegar þetta efni, kvikmyndagerð,  er tekið til umfjöllunar verði úrvinnslan nokkurn veginn sú sama. Það er einblínt á vandræðaganginn sem skapast og óvæntu uppákomurnar sem setja strik í reikninginn við tökurnar. Skáldsagan Höfuðlausn bætir litlu við þessa kunnuglegu hugmynd, og það bætir ekki úr skák að aðalpersónan, Jakob Ólafsson, er fremur óspennandi karakter. Jakob er uppburðalítill þolandi alla sína tíð og skortir tilfinnanlega kraft. Þetta eru talsverð vonbrigði í ljósi þess að Ólafur Gunnarsson hefur löngum sett atkvæðamiklar persónur í forgrunn skáldsagna sinna, allt frá Sigurbirni Helgasyni arkitekt til Jóns Arasonar biskups, svo einhverjir séu nefndir. Það er helst að áhuginn kvikni þegar Guðmundur Thorsteinsson, Muggur, stígur fram á sviðið. Muggur er aðalleikarinn í Sögu Borgarættarinnar og í meðförum Ólafs Gunnarssonar fær hann yfir sig einhvern heimshryggðarblæ, hann er sonur listarinnar og þar með bundinn þjáningunni. Þau orð sem Muggur beinir til Jakobs um raunverulegt eðli sinnar meintu heimsfrægðar gætu allt eins átt við margt í íslenskum raunveruleika dagsins í dag: „Það veit enginn hvorki haus né sporð á mér í Danmörku,” segir hann - „Það er allt blásið upp í Mogganum og Vísi.” Muggur varar Jakob við því að leggja út á braut listarinnar en Jakob lætur ekki sannfærast, og þar er komin togstreitan sem er helsta stef Höfuðlausnar: Togstreitan á milli þess að þjóna listinni og þess að vinna „venjulega” vinnu.

Það er eiginlega ekki fyrr en í seinni hluta bókarinnar að sagan hrekkur í gang fyrir alvöru, en það er samt eins og að hinir tveir hlutar sögunnar nái aldrei almennilega saman, tengslin á milli þeirra eru óljós – í raun eru þetta tvær sögur. Samband Jakobs við leikkonuna Elisabeth Jacobsen fær engan botn, það eina sem skiptir raunverulegu máli úr fyrri hlutanum fyrir þann seinni eru þeir listamannsdraumar sem eru kviknaðir í brjósti Jakobs eftir að hafa fengið smjörþefinn af lífi fræga fólksins. Hann festir ást á annarri konu, Ásthildi Björnsdóttur gullsmíðanema, ættstórri stúlku úr Dölunum, en þau eru sögumenn til skiptis í síðari hluta bókarinnar. Þetta samspil tveggja ólíkra sjónarhorna er oft á tíðum mjög sniðugt, þau Jakob og Ásthildur lýsa gjarnan sömu atburðunum hvort frá sinni hlið, og á þeim stöðum þar sem Ásthildur segir frá er brugðið nýju ljósi á Jakob, persónuna sem hefur haldið frásögninni saman fram að því. Persónu Jakobs er lýst bæði með því sem hann segir frá og því sem hann segir ekki frá. Þannig skapast viss íronía, en um leið eru Ásthildarkaflarnir öðru hvoru brotnir upp með skáletruðum texta sem eru hugrenningar hennar af öðru tímasviði, þar skoðar Ásthildur atburði sögunnar úr fjarlægð, sem fortíð. Hún er þá orðin illa haldin af parkinsonveiki og rifjar upp tímann þegar hún var heilbrigð. Fyrstu einkenni sjúkdómsins hjá Ásthildi eru dæmi um þá fyrirboða sem koma svo víða fyrir í verkum Ólafs Gunnarssonar, ýmis smáatriði í sögunni tengjast einhverju sem kemur fyrir síðar, og þannig tekur maður eftir ýmsu við annan lestur sögunnar sem ekki vakti sérstaka athygli við þann fyrsta. Þetta er til marks um hugvitssamlega byggingu Höfuðlausnar, sérstaklega síðari hlutans.

Í Höfuðlausn er ýmislegt sótt til annarra bókmenntaverka, bæði leynt og ljóst, eins og titillinn ber með sér, hann er fenginn að láni frá Agli Skallagrímssyni. Jakob Ólafsson hefur rithöfundarferil sinn með því að skrifa kvikmyndahandrit byggt á Egils sögu og líkir sjálfum sér við hið forna skáld. Uppvöxtur Jakobs minnir líka um margt á ævi Knut Hamsuns og tengslin við hann eru sterk í þessari sögu. Sultur Hamsuns er sérstaklega nefndur í því sambandi og eflaust myndi nákvæmur samanburður á Sulti og Höfuðlausn leiða margt forvitnilegt í ljós. Jakob færir sig svo af sviði kvikmyndanna yfir í skáldsagnaskrif, hann heldur skáldadraumi sínum til streitu með skáldsögu sem hann nefnir Eldmessuna. En í draumi sérhvers manns er fall hans falið, Jakob missir tengslin við umhverfi sitt, hann hefur ekki tíma fyrir nýfætt barn sitt og fársjúka eiginkonu því hann er of hugfanginn af skrifunum. Sögunni lýkur á hugljómun hans, hann sannfærist um eigin listgáfu og finnst hann standa jafnfætis sjálfum Dostojevskí, en þá er Ásthildur komin á Vífilsstaðaspítala. Kosturinn við takmarkaða vitneskju sögumannsins birtist hér skýrt og greinilega. Styrkur Höfuðlausnar felst ekki síst í því rými sem sagan skilur eftir handa lesandanum til að leggja dóm á verk og skoðanir Jakobs Ólafssonar. Þegar allt kemur til alls er hann kannski óáreiðanlegur sögumaður, ófær um að yrkja eigin Höfuðlausn. Varnaðarorð Muggs koma hér í hugann – þótt Jakob telji sjálfum sér trú um annað í sögulok er sterklega gefið til kynna að hann sé ekki „einn af þessum fáu”, ekki í hópi þeirra útvöldu sem listagyðjan brosir við heldur bara meðal þeirra þúsunda sem bíða í von.

Eitt atriði má nefna til viðbótar við sagnfræðilegar tengingar í Höfuðlausn, en það er sá fjöldi raunverulegra, þekktra einstaklinga sem koma við sögu. Þetta eru meðal annars skáldin Þorsteinn Erlingsson og Gunnar Gunnarsson, Árni Óla blaðamaður á Mogganum, útgerðarmaðurinn Thor Jensen, og meira að segja Knut Hamsun sem Jakob fer að hitta, að ónefndum Muggi og dönsku kvikmyndagerðarmönnunum. Nokkuð stór hópur fyrir ekki lengri sögu, og maður spyr sig jafnvel hvort þetta sé alveg nauðsynlegt. Sú aðferð að tvinna saman skáldsagnapersónur og frægar, sögulegar persónur er góðra gjalda verð þegar henni er ekki beitt í óhófi, en hér finnst mér eins og sögulegu persónurnar séu stundum galdraðar fram af ónógri ástæðu, margar þeirra koma þessari sögu nánast ekkert við. Það hefði kannski reynst happadrýgra að leggja meiri alúð við þær skálduðu persónur sem bera söguna uppi. Þegar allt er tekið saman má segja að Höfuðlausn sé læsileg bók og gædd ýmsum kostum, en ég hef á tilfinningunni að í því stærra samhengi sem felst í höfundarferli Ólafs Gunnarssonar muni hún í framtíðinni verða skoðuð fyrst og fremst sem millikafli.

(Víðsjá, 10. nóvember 2005)