Fyrsta færsla

Halló! Jóhann Örn Sigurjónsson heiti ég og er stærðfræðikennari og tónlistarmaður. Um þessar mundir stunda ég einnig nám í tölvunarfræði. Frá því ég hóf nám við Háskóla Íslands hefur það blundað í mér að setja upp vef til að halda utan um þau hugverk mín sem ég tel að aðrir sem pæla í stærðfræðinámi og -kennslu geti haft gagn og/eða gaman að.

Á þessum vef stefni ég á að deila hugmyndum og hugsjónum, skoðunum og pælingum, bæði almenns og fræðilegs eðlis. Mitt sérsvið er stærðfræðikennsla og stærðfræðinám ásamt grunni í tölvunarfræði og hugbúnaði. Ég hef fengist við ýmislegt á síðustu árum, svo sem kennslu á bæði grunnskóla- og háskólastigi, rannsóknir á upprifjunaráföngum framhaldsskóla, stjórnarsetu í Fleti samtökum stærðfræðikennara, þýðingar á erlendu námsefni í stærðfræði, námsefnisgerð og nú næsta sumar vinnu við stærðfræðihugbúnaðinn GeoGebra á skrifstofu þeirra í Austurríki.

Ég hef mikinn áhuga á þeim fjölbreyttu tólum sem aðstoða við að skapa þá upplifun nemenda að stærðfræði sé sú lifandi og skapandi fræðigrein sem hún raunverulega er. Nýlega tók ég saman tenglasafn með gæðaefni sem er ókeypis á netinu sem ýmist má nota í kennslu, til innblásturs eða starfsþróunar almennt. Tenglasafnið er í þróun svo ég tek öllum tillögum og ábendingum, tja eða „lækum“, fagnandi. Hér fylgir skjáskot ef því hvernig það lítur út í dag:

Bjargir stærðfræðikennarans

Um Jóhann Örn Sigurjónsson

Kennari, tölvunarfræðingur og doktorsnemi í stærðfræðimenntun.
Þessi færsla var birt undir Óflokkað. Bókamerkja beinan tengil.