Stæða - stærðfræðispil

Spilið er spilað með 52 spila stokki. Miðað er við fjóra spilara.

Mannspil (gosi, drottning, kóngur) gilda sem 10. Ás má velja að gildi 1 eða 11 í hverju tilviki fyrir sig. Önnur spil gilda einfaldlega þeirri tölu sem stendur á þeim.

Einn leikmaður hefur leik með því að draga þrjú spil úr stokki og leggja á borðið. Því næst velur hann að framkvæma bæði eina samlagningu og eina margföldun á tölurnar sem spilin tákna með þeim hætti sem hann kýs. Útkoman verður lykillinn að sigri í spilinu og ætti öllum að vera kunn. Spilin eru síðan geymd til hliðar á meðan umferðinni stendur.

Því næst fær hver leikmaður þrjú spil hver úr stokknum til að hafa á hendi. Loks eru þrjú spil lögð á borðið. Markmið leiksins er að smíða stæðu sem hefur gildið sem sett var í upphafi. Leyfilegt er að nota bæði spilin á hendi og spilin í borði við að smíða stæðuna. Nota má samlagningu, margföldun, frádrátt og deilingu.

Leikmaðurinn sem gaf hefur leik. Hann getur nú valið að annað hvort:

  1. Skipta út einu spili á hendi fyrir spil á borði.
  2. Skipta út öllum spilum á hendi fyrir öll spil á borði.

Að því loknu getur leikmaðurinn ákveðið að segja „stæða”. Ef hann kýs að gera það ekki þá heldur leikurinn áfram hringsælis um borðið.

Kjósi leikmaður hins vegar að segja „stæða” þá leikur hann ekki fleiri leiki en leikurinn heldur áfram einn hring, eða þar til röðin hefði annars komið að honum. Aðrir leikmenn halda þá áfram að spila eins og áður en geta nú kosið að segja „pass” með því að banka tvisvar á borðið.

Þegar röðin kemur aftur að leikmanninum sem sagði „stæða” þurfa allir að sýna spilin sín. Þeir sem telja sig hafa náð að smíða stæðu sem jafngildir upphaflega gildinu þurfa að útskýra hugsun sína.

  • Sá leikmaður sem hefur stæðuna heldur þeim spilum sem smíðuðu hana og fær eitt stig fyrir hvert spil sem notað var í henni.
  • Ef enginn hefur stæðuna sigrar sá umferðina sem getur smíðað stæðu sem hefur gildi næst upphafsgildinu.
  • Ef fleiri en einn leikmaður hafa stæðuna þá sigrar sá umferðina sem hefur fleiri fjölda aðgerða í stæðunni sinni. Ef það bregst þá sá sigrar sá sem er kominn með færri stig. Ef það bregst þá fá báðir stig.

Þá er umferðinni lokið og stokkað er á ný án þeirra spila sem leikmaður eða leikmenn halda sem stigum. Leiknum lýkur þegar ekki er lengur hægt að smíða stæður sem passa við upphafsgildið.

Athugið að þessi leikur hefur lítið verið prófaður. Ef þið viljið reyna hann þá hvet ég ykkur til að vera sveigjanleg með reglurnar og prófa ykkur áfram!

Um Jóhann Örn Sigurjónsson

Kennari, tölvunarfræðingur og doktorsnemi í stærðfræðimenntun.
Þessi færsla var birt undir Óflokkað. Bókamerkja beinan tengil.