QUINT verkefnið - Quality in Nordic Teaching

Í dag hóf ég formlega doktorsnám mitt í menntavísindum við Háskóla Íslands. Þar verð ég næstu þrjú ár hluti af rannsóknarteymi Íslands í norrænni rannsókn á gæðum kennslu á Norðurlöndum sem ber heitið Quality in Nordic Teaching (QUINT) og er leitt af Háskólanum í Osló. Verkefnið felst í að safna gögnum úr kennslustundum, meðal annars með hljóð- og myndbandsupptökum, og greina með fyrirfram ákveðnum greiningarramma til að mæla gæði kennslu og bera saman milli Norðurlandanna. Niðurstöður verða birtar á formi greina í alþjóðlegum vísindatímaritum á sviði menntarannsókna.

Stefnt er að því að myndbandsupptökurnar verði varðveittar í eins konar vídeóbanka og notaðar í fræðsluskyni í kennaramenntun við Háskóla Íslands. Í kjölfar rannsóknarinnar er þátttakendum einnig boðið að taka þátt í starfsþróunarnámskeiði þar sem myndböndin verða höfð til grundvallar.

Þetta er ákaflega metnaðarfullt og spennandi verkefni sem ég hlakka til að takast á við.

Um Jóhann Örn Sigurjónsson

Kennari, tölvunarfræðingur og doktorsnemi í stærðfræðimenntun.
Þessi færsla var birt undir Óflokkað. Bókamerkja beinan tengil.